14.10.2007 | 14:42
ÞÓRUNN, - ANDÓFSMAÐUR Í RÍKISSTJÓRNINNI.
Athyglisverð voru lokaorð Þórunnar Sveinbjarnardóttur þegar hún sleit umhverfisþingi í gær og sagðist líta á sig sem andófsmann í ríkisstjórninni. Þetta hefur enginn forveri hennar sagt svo að ég viti og varpar ljósi á hvernig við erum á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessu tilliti. Hjá þeim er litið á umhverfisráðuneytið svipað og litið er ýmsar eftirlitsstofnanir og enginn umhverifsráðherra feiminn við það að telja sig andófsmann.
Orð Þórunnar áttu þann aðdraganda að í pallborði hafði verið rætt um það hvernig búið væri að setja neikvæðan blæ á umhverfisverndarfólk með því að kalla það andófsmenn. Þessu þyrfti að breyta.
Þórunn sagðist hins vegar vera þessu ósammála, - hún teldi sig hiklaust vera andófsmann og það allt eins innan ríkisstjórnarinnar. Hún kvaðst vera stolt af því.
Hún getur verið það að mínum dómi. Umhverfisráðuneytið á ekki að vera þæg afgreiðslustofun fyrir hin ráðuneytin sem gæta hagsmuna þeirra sem vilja helst framkvæma hvaðeina sem þeim dettur í hug á sem þægilegastan hátt.
Andóf hefur í gegnum tíðina að sjálfsögðu verið misjafnlega útfært og aðferðirnar umdeildar, sumar "ólöglegar". Gandhi, Mandela og Martin Luther King notuðu "ólöglegar" aðferðir. Líka Mývetningar þegar þeir sprengdu stífluna í Miðkvísl með dínamiti. Ef þeir hefðu ekki gert það hefði risið í sveit þeirra virkjun sem væri stærsti bletturinn á framferði íslensku þjóðarinnar gagnvart landi sínu. Það er miður að svo róttæka aðgerði þyrfti að nota og vonandi þarf þess ekki aftur.
Andóf Guðmundar Páls Ólafssonar þegar hann tafði vinnuvélar með því að dreifa litlum íslenskum fánum á vegarstæði Kárahnjúkavegar var strangt til tekið "ólöglegt."
Ganga hans í fararbroddi í Jökulsárgöngunni við hlið Vígdísar var hins vegar "lögleg."
Málefnalegt andóf umhverfisráðherra í ríkisstjórn er hin ekki aðeins eðlilegt og sjálfsagt, - það er brýn nauðsyn.
Berum það saman við það hlutverk fjármálaráðherra að samþykkja ekki allar kröfur hinna ráðherranna heldur stunda "andóf" við því að fjármunum borgaranna sé ráðstafað stjórnlaust. Öllum finnst það andóf eðlilegt og sjálfsagt.
Sama á við um nauðsynlegt andóf umhverfisráðherra. Mæli Þórunn manna heilust. Svo er að sjá hvernig henni farnast við þetta andóf sitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.10.2007 | 00:35
"HREIN OG ENDURNÝJANLEG ORKA?"
Ítarlegar upplýsingar og skoðanaskipti eru sá grundvöllur lýðræðis og farsældar í víðum skilningi sem hefur einna mest skort á undanfarin ár og skortir enn á hér á landi. Við gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" rak ég mig á múr í þessu efni sem sést best á því að aðeins einn þeirra sérfræðinga sem ég leitaði til um mikilsverð atriði, sem yfirvöld höfðu ekki velþóknun á, treysti sér til að koma fram í myndinni, - Sveinn Runólfsson.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir rökstuddi vel á Umhverfisþingi skyldu þeirra sem búa yfir vitneskju að láta ekki hræða sig frá því að koma henni á framfæri.
Ástandið hefur skánað eitthvað síðustu árin en en ennþá er fyrir hendi viðleitnin til þess að hamla gegn því að óþægilegar staðreyndir og sjónarmið komi fram.
Þóra Ellen minnti á að Kárahnjúkavirkjun hefði verið kynnt sem "endurnýjanleg og hrein" þótt vitað væri að hún eins og fleiri virkjanir jökulfljóta sem fylla upp miðlunarlón með aurI skilaði ekki endurnýjanlegri orku.
En allan tímann sem virkjunin var keyrð í gegn var staglast á því hve orkan væri "hrein og endurnýjanleg" og fengin undanþága í Kyoto út á rangar upplýsingar.
En fleiri spurningar vakna um hvað sé "hrein og endurnýjanleg orka." Yoko Ono gerði að skilyrði að orkan sem notuð væri í friðarsúlunni væri hrein og endurnýjanleg. Hún er það ef við segjum að hún komi frá Sogsvirkjununum.
En hvað um orkuna frá Hellisheiðarsvæðinu? Það er vitað að vegna þess að kreist eru 600 megavött út úr svæði sem ekki getur skilað meira en 300 megavöttum til frambúðar, þá mun þessi orka verða uppurin eftir 40 ár og þá mun taka einhverja áratugi þangað til svæðið jafnar sig.
Þessa áratugi eftir að heiðin er orðin köld verður því annað hvort að loka þeim fyrirtækjum sem nota orkuna eða virkja jafn mikið annars staðar.
Nema að djúpborunartæknin geri þá kleift að taka meiri orku upp. En sú tækni er ekki fyrir hendi og óábyrgt að treysta á það að hún muni gefa þann árangur sem vonast er eftir vegna þess að enn vita menn ekki hvort hinn mikli hiti og eiturgufur sem koma munu upp af svon miklu dýpi muni gera þessa nýtingaraðferð óframkvæmanlega.
Ég hef nýlega heyrt töluna 60 þúsund tonn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá Heillisheiðinni fullvirkjaðri, en það er álíka mikið og útblástur frá litlu álveri.
Útblástur brennisteinstvíildis verður meiri en frá stóru álveri.
Lyktarmengun í Reykjavík vegna virkjananna á Hellisheiðar-Henglissvæðinu fer nú þegar 40 daga á ári yfir hámarkið sem gildir í Kaliforníu.
Þegar hlutur er seldur er ekki nóg að segja kaupandanum að hann sé svona og svona og leyna mikilsverðum atriðum.
Á Umhverfisþingi fékk ég ekki svar við fyrirspurn minni um það hvort við gætum komist upp með þetta og hvort hegðun okkar gerði okkur trúverðug þegar við stöglumst á því við helstu ráðamenn heims að orkan sé undantekningarlaust algerlega endurnýjanleg og hrein.
Einn pallborðsmanna sagði að hugsanlega væri hægt að þróa tækni til að binda co2.
En meðan það liggur ekki fyrir sé ég ekki hvernig við getum haldið áfram síbyljunni um "hreina og endurnýjanlega orku" af þessu svæði án þess að greina þeim sem við skiptum við frá hinu sanna.
Það eru fleiri en vísindamenn sem ber skylda til að koma öllu því á framfæri sem skiptir máli.
![]() |
Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.10.2007 | 21:52
"ÁVALLT VIÐBÚINN"
Þekkt er kjörorð skáta: Skáti, ávallt viðbúinn!. Ég hef fyrr vitnað í Garrí Kasparof þess efnis að þótt ekki sýnist grundvöllur í augnablikinu til að ná tilætluðum árangri í stjórnmálum sé versti kosturinn að leggja upp laupana. Betra sé að halda baráttunni áfram og senda með þvi þau skilaboð að viðkomandi stjórnmálahreyfing sé tilbúin þegar kallið kemur.
Fyrir tíu dögum hefði engan getað órað fyrir þeim pólitísku atburðum sem sem síðan hafa gerst, þar með því að varaformaður Íslandshreyfingarinnar yrði einn af oddvitum í borgarstjórnarmeirilhluta.
Það sýnir að hvenær sem er getur komið upp staða þar sem mikilvægt er að vera tilbúinn í slaginn í stað þess að leggja niður rófuna og kasta þar með á glæ miklu starfi sem unnið hefur verið við stefnumótun og baráttu fyrir hugsjónum.
"Minn tími mun koma" sagði Jóhanna Sigurðardóttir á sínum tíma. Enginn veit hvort eða hvenær það mun geta komið skyndilega upp að Íslandshreyfingarinnar eða hliðstæðs afls verði þörf.
Á síðasta vori var sett saman flugvél og hún mönnuð og henni flogið. Það væri óráð að taka vélina í sundur og tvístra fólkinu sem flaug henni. Betri kostur er að flugvélinni sé haldið við og áhöfnin haldið sér við efnið þótt ekki næði hún að fljúga inn á þing.
Þegar og ef að því kemur gæti þá áhöfnin stokkið um borð og farið í annað flug með meiri meðbyr.
Svo að vikið sé borgarstjórnarsviptingunum á léttum nótum má velta því fyrir sér hvort það hefði breytt einhverju ef Guðlaugur Þór Þórðarson hefði beðið lengur með það að víkja Alfreð Þorsteinssyni úr starfi við hátæknisjúkrahúsið. Þá hefði Alfreð ekki verið sár út af þessari meðferð og ekki haft tíma til að taka þátt í myndun nýs meirihluta í borginni.
Björn Ingi hefur sagt að Alferð hafi haft nógan tíma til þess að hjálpa til, og þegar reynslurefur eins og Alfreð hefur nógan tíma til að gera það sem hann er bestur í, að plotta og makka og vera fljótur að því, - þá getur ýmislegt gerst.
Sjálfstæðismenn gleymdu því að tveir menn töldu sig eiga harma að hefna, Alfreð og Ólafur F. Magnússon.
Svo virðist sem báðir hafi haft frumkvæði og hönd í bagga við myndun nýs meirihluta. Ólafi F. er áreiðanlega enn í minni eftirmál kosninganna 2006, þegar svo leit út sem Vilhjálmur ætlaði að leita samstarfs við hann en tók Björn Inga með sér í staðinn og Ólafur sat eftir með sárt ennið.
Enginn skyldi vanmeta særð ljón þegar þau hafa verið sett út í horn, - þá geta þau verið skæðust enda aðeins um eina leið að ræða fyrir þau, - að brjótast út úr horninu, þótt síðar verði.
Nú þarf Vilhjálmur að búa sig undir að sjá oddvita F-listans í þeirri virðingarstöðu að stjórna fundi borgarstjórnar sem forseti borgarstjórnar, nú eða að taka á móti mikilsverðum gestum í fjarveru borgarstjóra.
Á fyrsta borgarstjórnarfundinum þegar þetta gerist er hægt að sjá í anda að forseti borgarstjórnar nikki höfðinu til Villa á líkan hátt og gerðist hér forðum hjá Steina og Olla þegar þeir voru að jafna leikana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2007 | 16:51
"KOM Í LJÓS"
Í knattspyrnunni er stundum sagt "kom í ljós" t.d. þegar óverðskulduð vítaspyrna er misnotuð. Það sem ég bloggaði um næst á undan þessari bloggfærslu hefur nú "komið í ljós." Með nokkrum fundum sex borgarfulltrúa án borgarstjórans unnu Sjálfstæðismenn gegn sterkustu röksemd sinni um árabil þegar þeir buðu ævinlega upp á einn samstæðan hóp borgarfulltrúa sem stæði þétt að baki borgarstjóranum. Þar að auki gleymdu þeir því að þeir höfðu ekki átta fulltrúa eins og þeir voru vanir hér áður þegar þeir áttu borgarstjórann og settu fram "sátt" sem hvorki Framsóknarmenn né hinir flokkarnir gátu sætt sig við.
Þeir áttuðu sig ekki á hinni sterku stöðu sem bæði Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir höfðu, ekki aðeins til að mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum, heldur einnig til að mynda þann meirihluta sem nú hefur verið myndaður.
Vísa að öðru leyti til fyrri bloggfærslu um þá málefnalegu samstöðu sem er með nýju meirihlutaflokkunum í því að láta auðlindirnar ekki af hendi úr almannaeigu með hraði.
Það er athyglisvert að það eru í raun umhverfismál sem skipta sköpum um það sem gerst hefur. Það sýnir enn og sannar að þau mál eru eru mál málanna á nýrri öld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.10.2007 | 23:19
"SÁTTIN", - MISTÖK SJÁLFSTÆÐISMANNA.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ofmátu stöðu sína og gerðu mistök með því að kynna þá niðurstöðu sem sátt í REI-málinu og endanlega lausn að selja strax eign almennings sem stígur hratt í verði. Þeir orðuðu þetta eins og afstaða Björns Inga Hrafnssonar skipti ekki máli en í ræðu hans á borgarstjórnarfundinum í dag kom berlega í ljós að hann mun ekki gangast undir þessa "sátt" og að málið er ekki aðeins í hnút hjá borgarstjórnarmeirihlutanum heldur eru nú galopnar dyr til myndunar nýs meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og F-listans.
Það er klókt hjá Birni Inga að spila sterkt og djarft í þessu máli og snúa vörn í sókn. Núna er Framsókn í stjórnarandstöðu og myndi stimpla sig vel inn með myndun svona meirihluta og hefna þess að vera sparkað út úr stjórnarráðinu.
Í öðru lagi er hefð fyrir því að myndun meirihluta í sveitarstjórnum þarf ekki að fara eftir ríkisstjórnarmynstrinu og því getur Samfylkingin vel verið með í þessum leik og komist aftur til valda í ráðhúsi Reykjavíkur.
F-listinn getur ekki gengist inn á söluhugmynd Sjálfstæðismanna, - engir nema Sjálfstæðismenn ljá máls á slíku.
Sumir hafa talað um það að staða Björns Inga væri afleit í málinu en menn skyldu ekki vanmeta þá möguleika sem upprennandi pólitískur bragðarefur eins og hann getur fundið til að snúa taflinu við.
Staða Björns Inga gefur honum færi á að þjarma að Sjálfstæðismönnum og þvinga þá til niðurstöðu sem gæti orðið til þess að hann kæmi miklu sterkari út úr þessum hildarleik en nokkurn grunaði.
Þetta er spennandi, - þegar allt er upp í loft alls staðar getur allt gerst.
Það verður verulega áhugavert að sjá hvernig málsaðilar fara út úr þessu, - snilldarleikir eða afleikir í hinni pólitísku refskák geta ýmist lyft mönnum eða valdið hrapi þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2007 | 12:46
ÞAÐ SEM ER ÓLÍKT MEÐ ÞESSARI ÚTRÁS OG HINNI.
Útrás orkufyrirtækja hefur að undanförnu verið borin saman við útrás fjármálafyrirtækja. Sumt er líkt með þessu tvennu en annað ólíkt. Talsmenn sameiningar REI og GGE hafa sagt hana nauðsynlega til að þessi fyrirtæki "níði ekki af hvort öðru skóinn". Samt hafa þessi orkufyrirtæki forskot á erlenda keppinauta hvað snertir tækniþekkingu og reynslu en á sínum tíma gátu íslensku fjármálafyrirtækin haslað sér völl erlendis án þess að sameinast í eitt fyrirtæki, þótt þau væru í samkeppni við miklu stærri erlend fyrirtæki sem bjuggu yfir mikilli reynslu og aðstöðu.
Vandamál íslensku orkufyrirtækjanna í útrásinni verður sennilega fólgið í því að velja úr verkefnum erlendis fremur en að keppa við hvort annað um þau, slík er stærðargráða þessa verkefnis í öðrum löndum.
Hin raunverulega skýring á leiftursókninni sem hefur sett allt á annan endann er líklega sú að öflugir auðmenn hafa séð möguleika á að ná undir sig bæði útrásinni sjálfri og ekki hvað síst orkuauðlindunum, sem Hitaveita Suðurnesja og önnur orkufyrirtæki ráða nú yfir.
Af þessu sökum er sérstök ástæða fyrir Íslendinga til að vanda öll vinnubrögð í þessum málum svo að við vöknum ekki upp við þann vonda draum um síðir að eitt fyrirtæki, t. d. Ríó Tintó, eigi allar íslenskar virkjanir og orkuauðlindirnar með.
Hinir ótrúlegu atburðir síðustu daga sýna að full ástæða er til aðgæslu í þessum efnum og þess vegna hýtur það til dæmis að vera fráleitt að rjúka upp til handa og fóta og selja með hraði eigur almennings í hendur auðmanna á eins konar "brunaútsölu" eins og Dagur B. Eggertsson hefur orðað það.
Fyrst þarf að setja vandaða löggjöf sem neglir niður eignarhald þjóðarinnar á orkuauðlindunum og nýjar leikreglur opinbers rekstrar og einkarekstrar á þessu sviði og reglur um samvinnu fyrirtækja með ólík rekstrarform.
Við eigum að varast það sem gerðist 1983 þegar menn gerðu sér ekki grein fyrir því hvað fólst raunverulega í því að úthluta án endurgjalds auðlindum hafsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 10:03
ÞÖRF VARNAÐARORÐ.
Sumum hefur kannski fundist Íslandshreyfingin taka full djúpt í árinni þegar hún setti varnaðarorð um eignarhald á orkulindum landsins á oddinn í kosningabaráttunni. En okkur hefði aldrei órað fyrir þeim atburðum sem síðan hafa orðið og hafa sent ólguöldur inn í stjórnmálin um allt land. "Sjálfstæðismenn um allt land eru brjálaðir," - "trúnaðarbrestur hjá meirihlutanum", - "allt upp í loft í borgarstjórn", - "ólga í Framsóknarflokknum", - "hriktir í meirihlutanum á Akranesi", - svona eru lýsingarnar á því sem hefur verið að gerast.
Í þessum málum hefur það sama gerst í í virkjana- og stóriðjumálunum, - hraðinn sem græðgis- og virkjanafíklarnir hafa sett upp hefur verið slíkur að engin leið er að fylgja honum eftir, - það er vaðið áfram stjórnlaust og skellt skollaeyrum við eðlilegri upplýsingagjöf og skoðanaskiptum.
Þetta er bagalegt vegna þess að umhverfismálin eru þegar orðin mál málanna á 21. öldinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2007 | 00:31
HVE LANGT NÆR BLOGGFRELSIÐ?
Ragnar Axelsson ljósmyndari hefur orðið fyrir miklu ónæði og legið undir ámæli á marga lund fyrir bloggfærslur sem birst hafa undir nafninu Raxi þótt bloggarinn heiti alls ekki nafni sem tengist þessu bloggnafni hans. Ragnar hefur neyðst til að birta athugasemd þess efnis að hann tengist á engu þátti þessu bloggi en þá virðast ýmsir fyrtast við að Raxi telja sig hafa einkaleyfri á þessu heiti.
Svo virðist sem sumir telji að taka hver sem er hafi frelsi til að nota nöfn eins og Raxi, Megas eða Bogomil sem aðeins þekktir einstakir menn hafa notað og engir aðrir hafa borið.
Með slíku "gríni" er skapaður misskilningur, leiðindi og vandræði í nafni frelsisins og amast við því ef þeir sem fyrir þessu verða reyna að víkja frá sér ábyrgð á þeim.
Ég spyr: Hvar er hugrekki manna sem nota nöfn annarra til að birta hvað sem þeim sýnist? Hvers vegna þora þessir menn ekki að standa sjálfir við eigin skoðanir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
5.10.2007 | 23:14
HVAÐ EIGA MARGIR AÐ FARA Í FÝLU?
Bloggfærsla doktors Gunna um það hneyksli að hann skuli ekki vera boðsgestur við súluvígslu Yoko Ono litar hversdaginn skemmtilega þessa dagana því að kannski fara þá einhverjir fleiri að pæla í því af hverjum þeim var ekki boðið. "Engin vil ég hornkerling vera" sagði Hallgerður á sínum tíma og þörf fólks við að máta sig hvert við annað hefur ekkert breyst.
Ég fattaði ekki að ég hefði ekki fengið boðskort fyrr en ég sá bloggið Gunna og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég var fyrsti Íslendingurinn sem söng Bítlalag inn á hljómplötu. Það var lagið "Twist and Shout" með íslenskum texta: "Karlarnir heyrnarlausu" líklega árið 1964 eða 65.
Sömuleiðis söng ég inn á plötu um svipað leyti fyrsta lag og texta sem gert var sérstaklega um Bítlana. Það hét "Bítilæði", því þetta var svo snemma á ferli Bítlanna að orðið Bítlaæði var ekki enn búið að ryðja sér til rúms.
Hugsanlega var það fyrsta lag gefið út á hljómplötu í heiminum sem fjallaði sérstaklega um Bítlana.
Mér nægir alveg að vita af fyrrnefndum staðreyndum og boðskort út í Viðey breytir engu um það og skiptir engu máli í því sambandi.
En ég heyri út undan mér að það er vaxandi áhugamál margra hverjir verði þarna og eigi möguleika á að komast í Séð og heyrt og baða sig í ljósi súlunnar miklu á alla lund.
Upprennandi spurning næstu daga er því hve margir eigi kröfu á því að fara í fýlu vegna þess að þeim var ekki boðið.
En hvers vegna skiptir það einhverju máli? Amma mín sem var Skaftfellingur og komst í návígi við Kötlugosið sagði mér svo margt og mikið frá því að ég hef alla tíð síðan beðið eftir því að sú gamla gysi aftur.
Þetta vita sumir mér nákomnir og spyrja mig hvort það yrði ekki agalegt ef ég væri nú erlendis þegar næsta Kötlugos dyndi yfir.
Ég svara þeim með því að þetta skipti í raun engu máli, - ég hafi hvort eð er misst af svo mörgum stóratburðum sem ég hefði viljað upplifa á staðnum.
Þannig missti ég af því þegar breski herinn sté á land 1940, missti af Kötlugosinu 1918, Jörundi hundadagakonungi 1809 og flutningi Fjallræðunnar. Og ég á hugsanlega eftir að "missa af" einhverjum stóratburðum eftir minn dag.
"Missið ekki af" heilkennið er að verða mikill streituvaldur á daglega lífinu, - í fjölmiðlum er tönnlast á setningum eins og "missið ekki af Kastljósi", missið ekki af Kompási", missið ekki af þessari sýningu eða hinni, missið ekki af tækifærinu til að kaupa þetta eða hitt.
Þetta ærir upp í okkur tómleikatilfinningu og svekkelsi að geta ekki höndlað þetta allt og getur endað með því að við missum af því stærsta, - eðlilegu lífi og því að njóta hvers dags sem okkur er gefinn án þess að okkur finnist sífellt að við séum að missa af svo mörgu eða að við séum sífelld rænd einhverju sem skiptir í raun svo litlu máli miðað við það krefjandi og heillandi verkefni að vera bara til og reyna að gera lífið innihaldsríkara og skemmtilegra.
![]() |
Dr. Gunni fékk ekki boðskort |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.10.2007 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.10.2007 | 01:34
LANGLÍF YFIRBURÐASTJÓRN?
RÍkisstjórnin nýtur fylgis 70 prósenta þjóðarinnar í skoðanakönnunum og yfirburða þingfylgis. Heyra má talað um að framundan geti verið mörg kjörtímabili sterkar stjórnar og veikrar stjórnarandstöðu. En það er ekki nýtt að ríkisstjórnir hafi haft svona ríflegan meirihluta og samt ekki orðið langlífar. Stjórn Sjálfstæðis og Framsóknar 1950 með yfirburða fylgi sat ekki út tvö kjörtímabil og svipað fylgi sömu flokka dugði aðeins eitt kjörtímabil 1974 - 78.
Hér er aðeins talað um tveggja flokka stjórnir enda sátu þriggja flokka stjórnir Þorsteins Pálssonar 1987-88 og Ólafs Jóhannessonar 1978-79 aðeins rúmt ár þrátt fyrir yfirburða fylgi og margir drógu af því þá ályktun að þriggja flokka stjórnir væru í raun veikar, svo sem Stefanía 1946-49 og vinstri stjórnirnar 1956-58 og 1971-74. Alls voru þetta fimm þriggja flokka stjórnir sem sprungu með hvelli áður en kjörtímabili lauk.
Þetta er þó ekki einhlítt og besta dæmið um hið gagnstæða eru þriggja flokka stjórnir Gunnars Thoroddsen 1981-83 og þó einkum stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-91, sem sátu út kjörtímabilið og raunar varð stjórn Steingríms fjögurra flokka stjórn undir lokin.
Stjórn Steingríms naut heppni í byrjun sem var einsdæmi. Hún fólst í því að vinna öll hlutkestin í kosningu í þingnefndir þar sem hlutkesti þurfti vegna þess að leikar stóðu jafnir.
Stjórnir sem hafa haft veikan þingmeirihluta hafa margar setið til enda kjörtimabils. Viðreisnarstjórnin sat í þrjú kjörtímabil samfleytt.
Hvað má ráða af þessu? Helst það að mikill þingmeirihluti hefur bæði kosti og galla.
Kostirnir felast í stærðinni og yfrirburðunum yfir stjórnarandstöðuna.
1. Þeim lúxus að einstakir stjórnarþingmenn geti spilað sóló í einstökum málum
2. Flokkarnir tveir geta haldið til haga sérstöðu sinni og ágreiningi við samstarfsflokkinn og slegið þannig að vissu leyti slegið á óánægjuraddir með því að skírskota til þess að víst haldi flokkurinn vöku sinni í svona málum þótt hann beygi sig fyrir því að stjórnarsamstarf byggist ævinlega á málamiðlunum, - ég fæ þetta fram, þú færð hitt og sumt látum við liggja á milli hluta.
En gallarnir eru líka fyrir hendi og það eru þeir sem geta að lokum breytt stöðunni á jafnvel ótrúlega skömmum tíma.
Ef óánægjuraddirnar eru háværar og gagnrýnin langdregin getur það farið að hafa áhrif á stjórnarsamstarfið og fylgi stjórnarflokkanna, einkum þegar á líður og kemur betur í ljós hverju hvor flokkurinn um sig hefur ekki fengið framgengt af stefnumálum sínum.
Ríkisstjórn Davíðs og Jóns Baldvins tókst furðu vel að halda saman á þeim tíma sem glímt var við samdrátt og erfitt árferði. Kratar létu sér þó vel líka að hafa fengið EES fram en eftir að það mál var í höfn fór pirringurinn á milli flokkanna vaxandi og smitaði út frá sér upp til forystunnar.
Jón Baldvin sagði í viðtali við Jónas Jónasson að metnaður hans hefði staðið til forsætisráðherraembættisins sem hann hefði einn Íslendinga lært til. En þegar valið stóð um það eða hitt að verða utanríkisráðherra og koma EES í höfn hefði hið síðarnefnda orðið yfirsterkara, - með því hefði hann gert meira gagn.
Í kosningunum 2003 og aftur 2007 var því hampað af Samfylkingunni að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti fyrst kvenna orðið forsætisráðherra, - greinilega mikill metnaður þar á ferð til að skrá nafn á spjöld sögunnar.
Þetta misheppnaðist 2003 þrátt fyrir að Samfylkingin hefði reynt að auglýsa það hve "stjórntæk" hún væri 2002 með því að snúa við blaðinu í Kárahnjúkamálinu.
Marga grunar að í raun hafi Samfylkingin aldrei ætlað eitthvað með það að mynda stjórn með tæpasta meirihluta í vor heldur allan tímann gælt á bak við tjöldin og jafnvel undirbúið þá niðurstöðu sem varð eftir kosningar.
Og þá er spurt í framhaldinu upphafsspurningar þessarar bloggfærslu: Á núverandi stjórnarandstaða nokkra von? Er þetta ekki tapað spil? Er til dæmis ekki réttast að tilkynna það opinberlega að Íslandshreyfingin sé lögð nður?
Svarið við því getur verið svipað og svar Garrís Kasparofs í ójöfnum leik við Putin: Við búumst ekki við því að geta unnið í kosningunum núna en ætlum samt að stimpla það inn að við séum til síðar meir þegar á þarf að halda.
Þetta er skynsamlegt svar manns sem veit vel að stjórnmálin eins og skákin geta óútreiknanleg verið og ráðist af atburðum og sviptingum sem enginn sér fyrir.
Auðvitað er ólíku saman að jafna, annars vegar um það ofríkisstjórnarfar sem sækir í sig veðrið í Rússlandi og hins vegar ástandið hér hvað helstu stoðir lýðræðis snertir, - ríkisstjórnir þessara misstóru landa eru að engu leyti sambærilegar nema tæknilega hvað snertir yfirburðastöðu yfir stjórnarandstöðuna.
Sennilega mun það ekki koma i ljós fyrr en eftir tvo þingvetur hvort stjórnarflokkarnir verða ánægðir hvor með sinn hlut í samstarfinu. Þar mun Samfylkingin eiga erfiðara en Sjálfstæðisflokkurinn vegna samkeppninnar um fylgið frá miðju út til vinstri þar sem að henni verður sótt.
Möguleikarnir eru þrír:
1. Svo mikil samheldni og eindrægni myndast milli stjórnarflokkanna, líkt og í Viðreisnarstjórninni á sínum tíma, að það haldi ekki aðeins út kjörtímabilið heldur áfram, enda nái stjórnarandstaðan ekki að höggva í raðir fylgis stjórnarinnar.
2. Smám saman fer samstaðan að veiklast og líkt of Framsókn 1953 telur Samfylkingin sig knúna til láta sverfa til stáls til hrekjast ekki um of frá stefnumálum sínum.
3. Samfylkingin tekur stjórnarstamstarfið og það að vera "stjórntæk" svo mjög fram yfir sum af stefnumálunum að stjórnarandstaðan fær byr í seglin og staðan breytist.
Þá gæti komið upp ný staða í taflinu á borð við það að jafnvel peðin fá nýtt afl og vægi, líkt og fripeð í skák.
Sem sagt: Óþarfi að henda peðum eða léttum mönnum út af borðinu í upphafi skákar sem er að hefjast og getur þróast á ýmsa vegu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)