11.10.2010 | 20:50
Hvílíkur leikkafli !
Tíu mínútur í leik Íslendinga og Skota verða lenga minnisstæðar. Staðan var markalaus og Skotar þurftu aðeins að skora eitt mark til þess að komast áfram á markinu á útvelli, sem þeir skoruðu í Reykjavík.
Þá skoraði Gylfi Þór Sigurðsson glæsimark, sem er í klassa með því besta sem sést í knattspyrnu og skyndilega þurftu Skotar að skora tvö mörk til að falla ekki út þá þegar.
En þá gerðist eitt ótrúlegasta atvik sem ég minnist þegar Skotar tóku miðju og skutu þegar í stað af 50 metra færi og gerðu ótrúlegt mark, því að þeir sáu að íslenski markvörðurinn stóð framarlega.
Staðan var samt skárri en meðan hún var markalaus en Gylfi Þór Sigurðsson lét sér það ekki nægja heldur skoraði annað glæsimark, engu síðra en hið fyrra, sannkallað heimsklassamark, Messi-mark.
Ég var sannfærður um það þegar KSÍ-forystan tók þá ákvörðun á láta þetta landslið hafa forgang á aðallandsliðið að það væri rétt ákvörðun.
Nú hefur komið í ljós að sú ákvörðun var rétt. Við erum einfaldlega með mun betri knattspyrnukynslóð í höndunum í þessu gullaldarliði en þær sem á undan fóru.
Í framtíðinni munu menn þakka þá framsýni sem fólst í þessari erfiðu ákvörðun.
![]() |
Ísland í úrslit EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.10.2010 | 15:31
"Ber er hver að baki..."
Íslendingar eiga mikið að þakka í gegnum sögu sína því fólki, sem við höfum getað kallað "Íslandsvini".
Í gegnum aldirnar hefur munið mikið um atbeina þeirra út á við.
Daninn Rasmus Kristján Rask reyndist okkur drjúgur liðsmaður á 19. öld og fleiri Hauka í horni höfðum við átt.
Eva Joly fellur inn í þennan flokk Íslandsvina sem tala máli okkar svo að eftir er tekið. Það er dýrmætt í baráttunni, sem nú er háð.
![]() |
Joly: Tilvera Íslands í húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.10.2010 | 10:06
Hinn "veiki maður" Vesturlanda ?
Sú var tíð að breska heimsveldið bar ægishjálm yfir önnur heimsveldi. Sagt var að sólin settist aldrei í lendum þess hringinn í kringum hnöttinn.
Breski flotinn var sá langstærsti í heimi og Bretar gátu beitt honum til þess að taka í taumana, hvar sem nýtlenduveldi þeirra var ógnað á einhvern hátt.
Á fyrstu árum síðustu aldar reyndu Þjóðverjar að keppa við þá og afleiðingin varð heimsstyrjöldin fyrri.
Þótt Bretar ynnu þar sigur var hins vegar ljóst að ekki var allt sem fyrr og í heimskreppunni varð Sterlingspundið að láta undan eftir að hafa verið tryggasti gjaldmiðill heims.
Sigur í seinni heimsstyrjöldinni var Phyrrosarsigur og skildi heimsveldið og heimalandið sjálft eftir í sárum, skuldugt og þjakað af hráefnaskorti.
Þjóðir heimsveldisins brutust til sjálfstæðis og Bretland hlaut meðal annars nafnið "the sick man of Europe".
Saga bandaríska veldsins er um margt keimlík sögu hins breska.
Eftir heimsstyrjöldina síðari báru Bandaríkin ægilshjálm yfir önnur heimsveldi enda eina stríðsþjóðin sem ekki varð fyrir tjóni heima hjá sér.
Síðustu áratugi hefur hins vegar ekki allt verið með felldu. Í skjóli gríðarlegs fjárlagahalla árum saman og hrikalegra erlendra skulda hefur tekist að halda í horfinu en ný veldi eru að rísa í Asíu og engum dylst lengur að olíuöldin, sem hefur tryggt "hinn ameríska lífsstíl" hefur náð hámarki og héðan af getur leiðin ekki legið nema niður á við.
Kannski eru Bandaríkin orðið "the sick man of the western world", hinn veiki maður Vesturlanda.
![]() |
Dalur á niðurleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.10.2010 | 13:58
Veður til að skapa.
Ég geri lítið af því að blogga núna. Var í kvikyndatökum fyrir austan í gær, að skemmta í Borgarfirði í gærkvöldi og fram á nótt, aftur að skemmta í hádeginu í dag og er á leið austur til að taka myndir í skilyrðum sem eru algerlega einstæð á þessum árstíma.
Ég kalla það "veður til að skapa" þegar svona stendur á og hvílíkt sköpunarveður í dag !
Október er búinn að vera miklu hlýrri en september er venjulega en hugsanlega kólnar eitthvað um næstu helgi. Það mun þá passa ágætlega því að skemmtunin "Söngur, grín og gleði" verður á dagskrá í Salnum í Kópavogi sunnudagskvöldið 17. október.
![]() |
Tæplega 17 stiga hiti á Eyrarbakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2010 | 02:33
Kannski hefði "blönduð leið" verið best í upphafi.
Vorið 2009 voru uppi tvær meginhugmyndir um skuldavanda heimilanna. Annars vegar tillaga Framsóknarflokksins um flatan niðurskurð allra skulda um 20% og hins vegar sú leið, að vera ekki að lækka skuldir þeirra sem réðu vel við að borga þær, heldur hinna sem þyrftu mest á slíku að halda.
Kosturinn við flata niðurskurðinn var augljóslega sá að hann var fljótvirkastur en gallinn að með því færi mikið fé í að styðja þá sem ekki þyrftu stuðnings við og þar með yrði minna fé eftir handa hinum sem verr væru staddir.
Kosturinn við leið ríkisstjórnarinnar var sá að féð, sem notað væri, nýttist sem best og þá helst fyrir þá sem mest þyrftu á því að halda.
Ókosturinn við þessa leið var hins vegar sá hve hún yrði flókin og seinleg eins og nú hefur komið í ljós.
Kannski hefði verið best í upphafi að fara "blandaða leið" með flötum niðurskurði strax um t. d. 10% og jafnframt leið ríkisstjórnarinnar.
Um það er þarflaust að þjarka nú heldur það, hvort einnhvers konar "blönduð leið" eigi við nú.
![]() |
Mun styðja niðurfærslutillögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.10.2010 | 08:52
Svona verksmiðju vildu menn fá hingað.
Sú var tíð að hér á landi var mikill áhugi á því að reisa súrálsverksmiðju. Svipaður ljómi lék um þá hugmynd og leikur um þá hugsjón að reisa hér minnst eina, jafnvel tvær olíuhreinsistöðvar.
Ég minnist þess að þegar súrálsverksmiðjan var í hámæli hitti ég Davíð Scheving Thorsteinsson og honum var mikið niðri fyrir.
Hann spurði hvort ég eða nokkur landa okkar hefði kynnt okkur hvernig svona verksmiðja væri.
Ég kvaðst ekki hafa gert það og kvaðst efast um að aðrir hefðu gert það, enda gerðist þess ekki þörf, slíkur akkur væri í að "skapa atvinnutækifæri".
Davíð skoraði á mig að skoða málið betur eða fá aðra fréttamenn til að gera það því að vart væri hægt að hugsa sér subbulegri starfsemi.
Með ofangreindu er ég ekki að segja að mengunarslys hefði þurft að gerast á Íslandi. En slysið í Ungverjalandi hefði ekki orðið í því landi, ef viðkomandi súrálsverksmiðja hefði verið annars staðar.
Heyrst hefur að þetta mengunarslys sé mun stærra e mengunarslysið á Mexíkóflóa. n af er látið, jafnvel stærra en
En er ekki umhugunarefni að slík stöð hefur ekki verið reist í vestrænu ríki í 20 ár vegna þess að engir vilja hafa slíka starfsemi hjá sér.
Þeir, sem mjög eru áfram um olíuhreinsistöðvar og súrálsverksmiðjur ættu kannski líka að skoða möguleikann á að Ísland verði miðstöð fyrir vinnslu og geymslu á kjarnorkuúrgangi.
Ekki er vitað til að orðið hafi eins stór slys í þeirri starfsemi og í súráls- og olíuhreinsibransanum.
![]() |
Rýming vegna mengunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
9.10.2010 | 00:15
Það þarf sterk bein til að þola góða daga.
Ofangreint orðtak á vel við það að heilsufari Bandaríkjamanna hrakar og meðalaldur þeirra lækkar.
Meginástæðan er óhollt mataræði og lífstíll. Fyrir 60 árum voru reykingar afar útbreiddar þar en afleiðingar þeirra koma fram mörgum áratugum síðar.
Við Íslendingar verðum að fara að skoða okkar ástand. Íslendingar eru núna orðnir þyngri en frændþjóðir okkar og nágrannaþjóðir og við erum meira að segja þyngri og feitari en stórþjóðir, sem hafa verið álitnar mikið fyrir mat eins og Þjóðverjar og Frakkar.
Ég hef áður minsúkkulaði.nst á varasaman mat sem aldrei er nefndur sem uppspretta heilsufarsvandamáls, en það er .......
súkkulaði.
Ef menn lesa það sem stendur á kókflösku, sést að í hverjum 100 grömmum eru rúmar 100 hitaeiningar sem koma frá fíkniefninu hvítasykri.
En á öllum umbúðum um súkkulaði má lesa að auk sykurs eru 30 prósent af súkkulaðinu fita.
Æ, hvað þetta er nú hastarlegt fyrir þjóð sem tók upp þjóðarréttinn kók og prins fyrir rúmri hálfri öld!
Og hastarlegt fyrir mann eins og mig sem hefur fátt getað ímyndað sér betra en gos og súkkulaði.
Já, ég viðurkenni að ég berst við fíkn í súkkulaði og hef tekið það til bragðs að bragða aðeins eitt Prins póló á viku á nammidögum, sunnudögum, í stað þess að innbyrða þrjú til fjögur á dag.
![]() |
Bandaríkjamenn lifa skemur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2010 | 13:32
"Glæpamennirnir" Gandhi, Mandela og King.
Ef það ætti að vera mælikvarði á Nóbelsverðlaun hvort viðkomandi hafi brotið óréttlát lög, væri vandi á höndum.
Flestir af helstu baráttumönnum fyrir mannréttindum og ýmsir aðrir, sem mótmælt hafa ranglæti og óréttlæti, hafa notað til þess ráð, svo sem "borgaralega óhlýðni" til að vekja athygli á málstað sínum.
Baráttumenn fyrir réttindum blökkumanna í suðurríkjum Bandaríkjanna og í Suður-Afríku neyddust til að brjóta gildand ólög.
Mahatma Gandi var brautryðjandi í beitingu borgaralegra óhlýðni.
Andmæli kínverskra alræðisyfirvalda hefur því holan hljóm, hvað þá þau ummæli að Liu Xiaobo sé "glæpamaður."
Rússneski rithöfundurinn Alexander Solzhenitsyn var líka stimplaður "glæpamaður" af sovéska alræðinu.
Mér skilst að samkvæmt kínverskum lögum sé öllum heimilt að hafa í frammi mótmælaaðgerðir og aðá á yfirborðinu líti þetta bara vel út.
Um þau gildi hins vegar ýmis ákvæði varðandi umsóknir og útgefin leyfi sem koma í raun í veg fyrir öll þau mótmæli sem yfirvöldum er í nöp við.
![]() |
Kína segir friðarverðlaun Lius brjóta gegn gildum Nóbels |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.10.2010 | 13:10
Eitt af einkennum hlýnunar.
Einkennin sem gefa til kynna hlýnun loftslags eru fleiri en þau að sumarmánuðirnir séu þeir hlýjustu sem menn muna.
Það vorar líka fyrr og haustar seinna. Nýliðinn september var álíka hlýr og meðal ágúst.
Meðalhiti í október er 4,4 stig og í meðalári er hitinn rúmlega fimm stig í fyrri hluta mánaðarins.
Hin vegar er útlit fyrir að meðalhiti fyrri hluta mánaðarins verði 5-6 stigum hærri en það og álíka og meðalhiti ágústmánaðar.
Hitinn í október getur héðan af ekki orðið jafn lágur og í meðalári nema það frysti í lok næstu viku og verði frost það sem eftir er mánaðarins.
Ekkert bendir til þess að svo verði, heldur þvert á móti.
Ég get vel ímyndað mér að þetta "ljúfa, langa sumar" sem var heiti eins lagsins á Sumargleðiplötu, það er tímabilið 15. maí - 15. október, verði hlýjasta sumar síðan mælingar hófust.
![]() |
Áfram sumarveður á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2010 | 09:34
Sérstaða Vestfirðinga.
![]() |
Samstaðan mikil á Ísafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)