ASKJA OG GJÁSTYKKI - TUNGLIÐ OG MARS.

Skemmtileg bloggfærsla Ágústar H. Bjarnasonar með nýjum myndum af yfirborði mars minnti mig á að í Öskju var æfingasvæði tunglfaranna og það á áreiðanlega stóran þátt í tregðu manna til að fara þar inn með jarðvarmavirkjanir og eyðileggja þannig upplifun þeirra sem koma þangað í fótspor Armstrongs og Sigurðar Þórarinssonar. Í Gjástykki völdu vísindamenn á vegum alþjóðasamtaka áhugamanna um marsferðir æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Þessi ferð þeirra var farin í kjölfar könnunarferðar Bob Zubrin marsferðafrömuðar tveimur árum fyrr þar sem hann sá á Íslandi þau skilyrði sem mest líktust yfirborð mars.

En það er lýsandi fyrir virkjanagræðgi okkar Íslendinga að nú er á fullri ferð undirbúningur fyrir jarðvarmavirkjun í Gjástykki á grundvelli siðlauss og líkast til löglauss leyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar.

Þótt lengra sé kannski þangað til menn verða sendir til mars en á milli áranna 1967 og 69 ættum við að athuga að með því að eyðileggja möguleika Gjástykkis á að standa jafnfætis Öskju tökum við fram fyrir hendur afkomenda okkar.

Gjástykki er mjög viðkvæmt svæði þar sem rask af völdum jarðýtna í nýrunnu hrauni er óafturkræft.

Munurinn á að virkja eða virkja ekki er sláandi: Með því að halda landinu ósnortnu er ekki komið í veg fyrir að virkjað verði síðar.

Með því að virkja á þann hátt sem gert yrði í Gjástykki er komið í veg fyrir að svæðið og náttúra þess verði ósnortin.


BITRUVIRKJUN - KUNNUGLEG STAÐA.

Virkjanahraðlestin heldur áfram og aðferðin er þessi: Umfjöllun um virkjanasvæðið er lítil sem engin, - engar myndir birtar af því og þvi treyst að sem allra fæstir viti hvað sé í húfi. Það fer fram hjá almenningi þegar í gang fer matsferli hjá Skipulagsstofnun sem lýkur skyndilega. Viðkomandi sveitarstjórn hefur þegar verið keypt með því að veifa framan í hana væntanlegum skyndigróða.

Svæðin falla eitt af öðru, Nesjavellir, vesturhluti Hellisheiðar, austurjaðar Svínahrauns, og næst kemur röðin að Ölkelduhálsi og nágrenni og Hverahlíð. Í lokin líta virkjanamenn yfir draumsýn sína, Hellisheiðin njörvuð niður í kraðak af borholum, gufuleiðslum, vegum, gufuleiðslum og háspennulínum. 

Auðveld framsókn virkjanafíklanna auðveldar leikinn við Mývatn því að Norðanmenn segja að ljóst sé að íbúar höfuðborgarsvæðisins andæfi bara þeim virkjunum sem séu fjærst þeim.  

Allt er þetta gert undir yfirskini beislunar "endurnýjanlegrar og hreinnar orku" þótt vitað sé að Hengils-Hellisheiðarsvæðið verði kólnað og ónýtt til orkuframleiðslu eftir 40 ár, að lyktarmengun í Reykjavík fari þegar yfir mörk Kaliforníuríkis 40 daga á ári og eigi eftir að aukast og að mengun af völdum brennisteinsvetnis verði á við mörg risaálver.

Ég birti kvikmyndir af Ölkelduhálsi í Dagsjósi fyrir áratug og margir urðu undrandi yfir fegurð svæðisins. Ég hef farið í kvikmyndaferðir um virkjanasvæði Bitruvirkjunar og Grændal en hvorki haft tíma né fé til að vinna úr þeim myndum enda brýn verkefni æpandi um allt land og enginn virðist hafa áhuga á myndum sem geti orðið til upplýsingar.

Enda best að nota aðferð strútsins sem fyrr, stinga höfðinu í sandinn og sjá ekki neitt.  

Fjölmiðlar virðast engan áhuga hafa á því að sýna almenningi svæðið sem á að fórna enda er aðeins Grændalur ofan Hveragerðis tiltekinn í listanum í "Fagra Ísland" og ekki minnst á hann í stjórnarsáttmálanum.

Morgunblaðið birti frétt um andófið í dag án nokkurra mynda. Stöð tvö fór í dag upp á heiðina í hríðarmuggu og auðvitað sást ekki neitt og allt í fína lagi. Sjónvarpið taldi önnur mál merkilegri þótt það gæti þó orðið eini fjölmiðillinn sem sýndi eitthvað með því að nota myndirnar frá Ölkelduhálsi frá því hér um árið. 

Þeir sem andæfa náttúruspjöllunum eru sakaðir um öfgar og að vera á móti öllu. Núna felast öfgar okkar andófsfólksins í því að ætla af veikum mætti að andæfa Bitruvirkjun og reyna að bjarga aðeins einu svæði af þeim fimm á þessu virkjanasvæði sem þegar eru komin á dauðalista stóriðjufíklanna.

Stóriðjufíklanna segjast vera hófsemdarmenn og hófsemdin á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu felst í því að stóriðjan tekur allt og skilur ekkert eftir.  

 

 


GRÆNHÚFURNAR GENGNAR AFTUR ?

Á árunum 1954-66 var lagið "Green berets", lofgjörðaróður til sveita með þessu nafni, sem fóru mikinn í Vietnam, eitt vinsælasta lagið í Kanaútvarpinu, frískt áróðurslag sem gekk um nokkra hríð bara vel í mann. En  fljótlega kom annað í ljós og voðaverk liðsmanna urðu einn af þeim blettum á stríðsrekstrinum sem olli því  að  Bandaríkjamenn töpuðu þessu stríði heima fyrir ekkert síður en í Vietnam. 

Nú virðist sagan vera að endurtaka sig í Írak hjá öryggissveitum Bandaríkjamanna. Þetta er ekki nýtt. Nafnið Gestapo hafði í sjálfu sér í upphafi ekki svo slæma merkingu, "Leynilögregla ríkisins." Lögregla á að halda uppi lögum og reglu í þágu borgarana, - ekki satt?

En raunveruleikinn var annar, einkum vegna þess að liðsmenn Gestapo og SS komust upp með refsiverð verk án þess að þurfa að vera sóttir til saka. 

Nú er bara að vona að almenningur í Bandaríkjunum taki á þessu nýjasta máli frá Írak á líkan hátt og hann gerði þegar mál Green berets komu upp á sínum tíma. Minni í þessu sambandi á næstu bloggfærslu mína á undan þessari um muninn á skæruher og venjulegum her. 


mbl.is Öryggisverðir Blackwater njóta friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MÚRAR TIL MÆÐU.

Skæruher nægir að tapa ekki, - og þá hefur hann sigrað. Venjulegur her verður að sigra, - annars hefur hann tapað. Þetta spakmæli rifjast upp þegar ég glugga í nýja og ágæta heimildarbók um styrjaldir síðustu aldar og finnst athyglisvert að rifja upp hvernig Bandaríkjamenn trúðu á það í upphafi Vietnamstríðsins að hægt væri að vinna stríðið með því að gera varnargarða umhverfis þorpin í syðri hluta landsins svo að íbúarnir yrðu einangraðir frá skæruliðum og varðir gegn árásum þeirra. 

Þetta hafði þveröfug áhrif á fólkið miðað við það sem ætlunin var,  - því fannst það vera múrað inni í stórum fangelsum og fékk aukna samúð með málstað skæruliðanna. Þeir töpuðu ekki og urðu því sigurvegarar.

Allir vita hvaða áhrif Berlínarmúrinn hafði, - enda féll hann um síðir.

Apartheid aðskilnaðurinn í Suðu-Afríku og múr Ísraelsmanna milli þeirra og Palestínumanna, - allar bjöllur hljóta að hringja þegar slíkt er gert.

Í prýðilegum Kompásþætti voru sýndar girðingarnar sem Kanar reisa nú í Írak á milli borgarhverfa með sama hugarfari og þeir gerðu í Vietnam og væntanlega með svipuðum árangri, þ. e. þveröfugum áhrifum miðað við það sem ætlunin er.

Sama kvöld var sá ég bút úr heimildarmynd sem um Írakstríðið sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni hér. Þar kom fram að yfirleitt fjalla fréttir vestrænna fjölmiðla um árásir skæruliða á saklaust fólk þótt raunveruleikinn sé sá að 74% árásanna sé á bandaríska herinn.

Hvernig myndu Bandaríkjamenn una við það að 1,6 milljón kuflklæddra vopnaðra Araba hefðu hernumið Bandaríkin og færu þar hús úr húsi með alvæpni til að leita að hugsanlegum skæruliðum? En 1,6 milljón Arbabahermanna í BNA eru hlutfallslega jafnmargir og 160 þúsund bandarískir hermenn í Írak.

Rússar fóru inn í Afganistan og sögðust gera það vegna beiðni löglegrar stjórnar landsins sem var þó auðvitað leppstjórn þeirra en hafði lotið í lægra haldi fyrir Talibönum. 

Bandaríkin og fleiri þjóðir studdu Talibana, sendu þeim vopn og refsuðu Sovétmönnum með því að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu. Skæruliðar Talibana töpuðu ekki og þar með unnu þeir sigur á Sovétmönnum.

Það er erfitt að sjá hvernig Bandaríkjamönnum á að takast það sem Sovétmenn gátu ekki. Meðan Talibanar tapa ekki og geta haldið áfram skæruhernaði sínum verða þeir að öllum líkindum endanlegir sigurvegarar í stríðinu.  

 

 


mbl.is Rússar fordæma einangrun Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÚMSK HÁLKA.

Vetur konunugur byrjar á lúmskan hátt. Raunar varð jörð alhvít klukkan tíu í fyrrakvöld en samt komu þessi hita- og veðurskilyrði mönnum svo í opna skjöldu að flugtak Flugfélagsvélar, sem ég fór með til Akureyrar í gærmorgun, tafðist tvívegis vegna þess að afísa þurfti hana. Fyrst var hún afísuð en síðan kom í ljós að það var ekki nóg hún þessvegna afísuð aftur. Bendi á frekari umfjöllun í bloggfærslu minni næst á undan þessari.


mbl.is Upptökur á samskiptum flugmanna og flugturns verða rannsakaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÖRÐ LENDING ER STUNDUM NAUÐSYNLEG.

Er víst að "harða lendingin" á Keflavíkurflugvelli hafi verið nauðsynleg? Svo kann að vera því að jafnvel á litlum flugvélum getur verið nauðsynlegt að beita slíkum lendingum ef brautirnar, sem lenda þarf á, eru mjög stuttar. Ef brautin er nógu löng er vélinni svifið niður undir hana og hjólunum síðan haldið rétt yfir henni meðan vélin hægir á sér og sest siðan mjúkt á brautina. Ef brautin er svo stutt að lenda þurfi alveg á brautarenda þýðir hins vegar ekki að bíða eftir því að hún setjist mjúklega því að þá er hætta á að brautin nægi ekki til þess að stöðva í tæka tíð.

Sem betur fer heppnast oftast á litlum flugvélum að setjast strax mjúklega ef flugstjórinn er æfður og einbeittur. En allir flugmenn vita að alltaf inn á milli koma lendingar þar sem þetta tekst ekki fullkomlega og þess vegna verður flugmaður að vera meðvitaður um það að skárra sé að lenda strax og hart heldur en mjúkt og of seint.

Til er aðferð til að auka hemlungargetuna og felst í því að flugmaðurinn tekur vængflapana af um leið og hann kemur yfir þann blett þar sem hann vill að flugvélin hlammi sér niður.

Á sumum flugvélum eru rafknúnir flapar og ég mældi það að það tekur þá níu sekúndur að fara alla leið upp en á þeim tíma fer flugvélin allt að 200 metra. Ég fann þá upp þá aðferð að slá takkanum upp upp rétt áður en komið var inn á lendingarpunktinn þannig að þeir væru komnir úr 40 gráðum í ca 20 þegar komið var yfir punktinn. Þá settist vélin mjúklega og hemlun gat hafist.

Þegar forsenda þess að brautin nægi til lendingar er sú að hægt sé að lenda strax og komið er yfir brautarenda og hemla með fullum þunga fer þetta atriði fyrst í forgangsröðina og krafan um mjúka lendingu kemur númer tvö. Ef þetta kostar harða lendingu, þá það.

Flugvélin má ekki snerta of seint ef lengd brautarinnar er knöpp, annar getur þetta farið eins og fór fyrir mörgum árum þegar stór þota lenti mjúklega en allt of seint og langt inni á brautinni á Keflavíkurflugvelli.

Það dundi við mikið lófatak farþeganna til að fagna og þakka fyrir hina mjúku lendingu og fólkið var enn klappandi þegar vélin fór út af brautarendanum !  


mbl.is Segja bremsuskilyrði á flugbraut ekki í samræmi við upplýsingar úr flugturni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KENNINAFNASIÐUR Í HÆTTU.

Kenninafnasiður Íslendinga er mér afar kær og ég hef fastmótaðar skoðanir á honum. Hann er jafnréttismál því mér finnst fráleitt að konur kasti helmingi nafns síns við að giftast manni með ættarnafn. Þetta er þjóðarsérkenni sem við getum verið stolt af. Ég hallast að því að fólk kenni sig við móður, - það er öruggara. Þrennt ógnar kenninafnasiðnum: 1. Íslensk ættarnöfn. 2. Innflytjendur sem vilja viðhalda ættarnafnasið sínum. 3. Tveggja nafna siðurinn. Þetta þriðja vefst kannski fyrir fólki en ég get útskýrt það að hluta með því að spyrja nokkurra spurninga: 

Hvers son er Sigurður Hreiðar? Hvers son er Jón Gnarr? Hvers dóttir er Olga Guðrún? Hvers son er Sigmundur Ernir? Hvers son er séra Hjörtur Magni? Við vitum stundum ekki svarið eða gleymum föðurnöfnunum vegna þess að þeim er gjarnan sleppt í umtali um þetta fólk. 

Af þessum sökum heita öll börnin mín sjö aðeins einu nafni og sex þeirra heita samt nöfnum sem enginn annar heitir og engin hætta á að þeim sé ruglað við nafna eða nöfnur. 

Það var að vísu auðveldara að hafa það þannig vegna þess að lengi vel var nafnið Ómar ekki algengt sem föðurnafn.

Ég væri alveg til í það að börnin mín kenndu sig við móður sína og bættu kannski stafnum mínum við á milli eiginnafns og móðurnafns ef þau vildu.

Þetta hljómar ágætlega: Jónína Helgudóttir, Ragnar Helguson, Þorfinnur Helguson, Örn Helguson, Lára Helgudóttir, Iðunn Helgudóttir og Alma Helgudóttir.

Nú heita allmargir sama nafni og ég þótt enginn annar heiti líka Þorfinnur. Þorfinnsnafnið nota ég hins vegar nær aldrei. Ef ég væri kenndur við móður mína héti ég hins vegar Ómar Jónínuson og ætti líkast til engan alnafna.  


NEITAÐ UM LÍFTRYGGINGU VEGNA GÓÐS FORMS.

Nýjustu dæmin um að fólki sé neitað um líftryggingu minna mig á að þegar ég var 24ra ára var mér neitað um líftryggingu vegna þess að ég var í of góðu líkamlegu formi! Ástæðan var sú að ég var með 44 slög í púls og ótrúlega lág mörk í blóðþrýstingi. Á þessum árum æfði ég spretthlaup 1-400 metra með hléum og hef alla tíð frá æsku reynt að halda þessu formi og hjartatölum. 

Það hefur tekist svo vel að enn i dag er púlsinn rétt um 50 og blóðþrýstingsmörkin langt fyrir neðan það sem venjulegt er. Mér skilst að þetta sé erft ástand að hluta til frá móðurætt minni og það hefur oft komið sér vel.

En þetta sýnir hvað ýmsar skilgreiningar varðandi tryggingar geta verið út í hött og ekki harma ég það í dag að hafa losnað við að borga iðgjöldin í öll þessi ár! 

Eftir að mér var neitað um líftrygginguna 1964 lærði ég flug og flaug á tímabili mikið á eins manns örfisi og sá það síðar í smáa letrinu með líftryggingunni að við þessar aðstæður hefði ég ekki verið tryggður!  

Ég veit ekki hvort ég legg í það héðan af að taka líftryggingu. Ég flýg enn flugvélum, oft við mjög erfiðar og misjafnar aðstæður og er auk þess orðinn það gamall að kannski þýðir ekkert hvort eð er að óska eftir líftryggingu.

Þegar ég flaug á FRÚ-nni yfir að Grænlandsströnd í nóvember 2000 og síðar í gegnum Hafrahvamagljúfur voru aðstæður þannig að hreyflbilun hefði valdið óumflýjanlegum dauða, sérstaklega í fluginu til Grænlands.

Hreyfilliinn í vélinni er af traustustu gerð, Lycoming, en hann getur auðvitað bilað eins og öll mannanna verk.

Í fluginu til Grænlands var skylt að hafa björgunarbát um borð, fylgdarflugvél og HF-sendistöð en aðstæður voru þannig Grænlandsmegin að ekkert af þessu hefði breytt neinu um það að sá maður var dauður sem lenti í hreyfilbilun á einshreyfils flugvél.

Ég og Víðir Gíslason á Akureyri, sem oft höfum flogið saman við erfið skilyrði, höfum fundið það út að númer eitt við svona aðstæður er að vera fullir æðruleysis og trúartrausts, að "treysta á Guð og Lycoming" eins og Víðir hefur orðað það.  

Mér sýnist mest virði að ígrunda og útreikna áhættuna vel og lágmarka hana miðað við þau markmið og tilgang sem stefnt er að í fluginu eða hverju því öðru sem fengist er við.

En auðvitað gegnir líftrygging því hlutverki fyrst og fremst að hugsa um hag sinna nánustu eftir að kallið kemur.

Þess vegna getur það verið ósanngjarnt að neita fólki um slíka tryggingu af vafasömum ástæðum.  

 


mbl.is Neitað um líftryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HUGURINN AÐ BAKI ORÐUNUM.

 Umræðan um tíu litlu negrastrákana gefur tilefni til vangaveltna um samband hugarfars og orða. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og ekki sama hvaða orð eru notuð um hlutina. Til dæmis er mikilvægt að tala um gagnkvæma aðlögun innfæddra og aðfluttra að hvor öðrum í stað þess að beina sjónum eingöngu að því að innflutt fólk aðlagi sig að högum okkar sem fyrir erum í landinu. Fleira slíkt mætti nefna. En síðan má spyrja hvort í einstaka tilfelli sé hræðslan við orðin of mikil. Nýlegt dæmi er kannski bókin um tíu litlu negrastrákana. 

Þegar ég var strákur las ég þessa bók, söng hana og kunni, og kannast ekki við að það hafi vakið hjá mér eða öðrum krökkum neikvæð viðhorf til fólks með dökkan hörundslit. Sama er að segja um Mjallhvít og dvergana sjö, - ég tók það ævintýri aldrei sem niðrandi fyrir lágvaxið fólk heldur þótt mér vænt um dvergana.

Mig minnir að í einu ævintýrinu hafi norn verið drepin með því að láta hana dansa á glóðum og ekki hélt það fyrir mér vöku.

Úlfurinn át ömmu Rauðhettu og ekki fór á límingunum yfir því þegar ég var barn. Ég hefði ekki viljað missa af neinum af þessum ævintýrum eða hafa þau öðruvísi og veit ekki hvort eitthvað er unnið með því að banna einhver þeirra eða öll.

Við skulum hafa í huga að orðanna hljóðan segir ekki allt heldur hugarfarið sem að baki býr.

Upphaflega voru þroskaheftir kallaðir vangefnir. Það er mjög sanngjarnt orð því að það gefur til kynna að hinir vangefnu geti ekkert að ástandi sínu gert, - þeim er gefið minna en öðrum.

Smám saman virtist færast í aukana að nota orðið vangefinn sem skammaryrði og orðið þroskaheftur tekið upp í staðinn sem er að mínu mati á engan hátt betra orð enda farið að nota það líka í neikvæðri merkingu og komið að því að finna þriðja orðið í stað þess að reyna að vinna gegn neikvæðri notkun núverandi orðs eða hins upprunalega orðs, vangefinn.

Enn betra dæmi er orðið vitskertur sem lýsir eins vel og hægt er að vit þess sem um er rætt sé skert að einhverju leyti. Smám saman breyttist merking þessa orð í það að lýsa hæsta stigi brjálæðis þvert ofan í upprunalega merkingu og þess vegna varð að finna önnur orð.

Þetta er þeim mun einkennilegra að orðið heyrnarskertur hefur verið notað alla tíð án þess að fá á sig neikvæða merkingu. Talað er um lítillega heyrnarskertan eða mikið heyrnarskertan eftir atvikum.  

Nú er orðið geðveikt eða gegt einsog það er skrifað á SMS eða sagt notað ótæpilega og þykir ekki fallegt né tillitssamt að nota það.

Geðveikur er í sjálfu sér ekki neitt neikvæðara orð en orðin hjartveikur eða bakveikur, - því er aðeins lýst hvar viðkomandi veiki eða sjúkdómur er eða kemur fram.  

Orðið negri, negrastrákar og negrastelpur voru notuð áratugum saman hér á landi án þess að í því fælist nein neikvæð merking í líkingu við það sem orðið nigger hafði fengið í Bandaríkjunum.

Þetta verður að hafa í huga og því finnst mér ekki rétt staðið að hlutunum þegar útlendingum er sagt frá því að orð sem sé hliðstætt skammaryrðinu nigger sé notað í barnabók á Íslandi.

Mér finnst orðið blökkumaður ágætt orð en sé samt ekki að það myndi breyta miklu ef bókin yrði kölluð tíu litlir blökkustrákar. 

Raunar reynum við Bubbi Morthens að sýna eins mikla tillitssemi og unnt er með því að tala ævinlega um að annar hnefaleikarinn sé dekkri á hörund en hinn þegar blökkumenn eiga í hlut.

Það gerum við af því að við viljum leggja okkur fram um að ala ekki á fordómum eða neikvæðni og fyrir mestu er að velta þessum hlutum sem best fyrir sér og forðast að detta í þær gryfjur eða gera þau mistök í samskiptum okkar við fólk af erlendu bergi brotið sem aðrar þjóðir hafa gert. 

 

 

 

 

 

 


HJÓNABAND - HJÓNNABAND - HJÓNUBAND ?

Deilan um hjónabandið snýst ekki aðeins um mismunandi sjónarmið heldur líka hugtök og orð. Þetta síðastnefna á okkar dásamlega og lifandi tungumál að geta leyst með nýyrðasmíð. Hjón er fleirtöluorð og er í hvorugkyni á sama hátt og orðin barn og börn og orðið fólk því að tungan leysir vandann með hvorugkynsorðum þegar tvö kyn koma saman. Þetta liggur að mínu mati málfræðilega að baki skilnings kirkjunnar á orðinu hjón og hjónaband. 

Karl og kona vígjast og bindast böndum til að geta sameiginlega af sér börn. Ég styð kröfu samkynhneigðra um að vígð sambúð þeirra séu jafnrétthá sambúð gagnkynhneigðra og að og reisn og tillfinningar aðila þeirrar sambúðar séu jafngildar og heilagar og gagnkynhneigðra.

Að öðrum kosti hefði ég ekki tekið þátt í gleðigöngu þeirra undanfarin tvö ár á þann hátt sem ég hef gert. 

Það breytir ekki því að tæknilega er sá eðlismunur á þessum samböndum að í hjónabandi í skilningi kirkjunnar eru bæði hjónin kynforeldrar barna sinna en aðeins annar aðilinn í sambúð samkynhneigðra.

Ef við gerum þá kröfu að íslenskan eigi í orðaforða sínum skilgreiningar yfir sem flest má hugsa sér nýyrðasmíði sem nær þeim tilgangi að skilgreina hvert sambandi fyrir sig en kemur hins vegar eins langt til móts við sjónarmið samkynhneigðra og unnt er.

Áður en lengra er haldið er rétt að hafa það sterkt í huga að ævinlega þegar leitað er að nýyrðum virka þau brosleg og jafnvel kjánaleg í fyrstu.

Nýyrðin "þyrla" og "hyrna" virkuðu þannig á mann þegar þau komu fyrst fram, - en blærinn breyttist við notkun og kynningu.

Þetta er hið erfiða við að finna góð nýyrði  í tengslum við jafn tilfinningaþrungið og alvarlegt fyrirbæri og vígð sambúð er. En hafa ber í huga að með tímanum ætti þessi blær að hverfa. Göngum þá til verks af fullri alvöru.

Ég hef leitað að orðum eins og "gumaband" hjá hommum, skylt orðinu brúðgumi, og "kvonband" hjá lesbíum, skylt orðinu kvonfang, en með þessum orðum held ég að við nálgumst ekki nóg þann vilja samkynhneigðra að orðið hjónaband gildi um öll samböndin.

En lítum þá á orðið "hjón." Það er ekki til í eintölu en vel mætti hugsa sér að búa til eintöluorð fyrir bæði kyn.

Það gæti þá orðið "hjónni" fyrir karlinn, - karlkynsorð sem beygist eins og orðið kúnni, - hjónni um hjónna frá hjónna til hjónna, og fleirtalan yrði "hjónnar", - hjónnar um hjónna frá hjónnum til hjónna.

Vígð sambúð tveggja karla yrði nefnt "hjónnaband."

Fyrir konuna yrði notað orðið "hjónna" sem beygðist eins og orðið kanna -  hjónna um hjónnu frá hjónnu til hjónnu, - og fleirtalan yrði "hjónnur", - hjónnur um hjónnur frá hjónnum til hjónna.

Vígð sambúð tveggja kvenna yrði "hjónnuband."

Í texta kirkjunnar við vígslu sambúðarinnar myndi presturinn mæla fram þrjá mismunandi texta í samræmi við eðli sambandsins."

1. Karl og kona: "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."

2. Karl og karl: "....þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."

3. Kona og kona: "...þið eruð hjónnur fyrir Guði og mönnum..."

Til greina kemur líka að láta orðið "hjónn" um karlinn beygjast eins og orðið þjónn.  Þá yrði sambúðin kölluð hjónaband, samanber orðið þjónaband.

Ef notað er orðið "hjóna" um konuna myndi það beygjast eins og orðið trjónu og sambúðin þá kölluð hjónaband, samanber "trjónaband".  

Gallinn við síðustu tvo möguleikana hvað snertir hina kirkjulegu nákvæmni er sá að þá er algerlega sama orðið notað um sambúðina í öllum þremur tilvikum. Samkynhneigðir myndu hins vegar verða ánægðari með þessa lausn enda yrði eini mismunurinn í texta vígslunnar sá að presturinn myndi segja við hommana: "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum..." og við "lesbíurnar: "....þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum.

Kem ég þá að lokum að miliveg milli þessara tveggja tillagna minna en hann felst í því að orðið sem felur í sér "bandið" vísar til eintölu en ekki fleirtölu þ. e. til hvors um sig, samanber orðið "þjónshlutverk".

Þá lítur málið svona út:

Sambúð konu og karls: Hjónaband.  "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."

Sambúð karls og karls: Hjónsband.  "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum...."

Sambúð konu og konu: Hjónuband.  "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum...."

Út úr þessu fæst nákvæmari útlistun á hjónabandi karls og konu því að það verður hjónaband hjóns og hjónu.

En þá er að lokum að tilgreina þá lausn sem mér sýnist skást miðað við að nota grunnorðið "hjón"miðað við heildarsvip orðaforðans.

Þá líst mér skást á þennan milliveg:

Karl og kona: Hjónaband, samband hjónna og hjónu.   "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."

Karl og karl: Hjónnaband, samband hjónna og hjónna.   "...þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."

Kona og kona: Hjónuband, samband hjónu og hjónu.     "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum..." 

Þetta er mikilsvert mál og því tel ég ómaksins vert að kanna hvort frjómagn íslenskunnar geti leitt okkur til lausnar sem geti til framtíðar skapað sem víðtækasta sátt.  

Við eigum ekki að vera hrædd við það þótt nýyrðin virki framandi og skrítin í fyrstu heldur minnast þess hvernig skrýtin og framandi nýyrði á sinni tíð urðu tungutöm og eðlileg með tímanum. 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband