NEITAÐ UM LÍFTRYGGINGU VEGNA GÓÐS FORMS.

Nýjustu dæmin um að fólki sé neitað um líftryggingu minna mig á að þegar ég var 24ra ára var mér neitað um líftryggingu vegna þess að ég var í of góðu líkamlegu formi! Ástæðan var sú að ég var með 44 slög í púls og ótrúlega lág mörk í blóðþrýstingi. Á þessum árum æfði ég spretthlaup 1-400 metra með hléum og hef alla tíð frá æsku reynt að halda þessu formi og hjartatölum. 

Það hefur tekist svo vel að enn i dag er púlsinn rétt um 50 og blóðþrýstingsmörkin langt fyrir neðan það sem venjulegt er. Mér skilst að þetta sé erft ástand að hluta til frá móðurætt minni og það hefur oft komið sér vel.

En þetta sýnir hvað ýmsar skilgreiningar varðandi tryggingar geta verið út í hött og ekki harma ég það í dag að hafa losnað við að borga iðgjöldin í öll þessi ár! 

Eftir að mér var neitað um líftrygginguna 1964 lærði ég flug og flaug á tímabili mikið á eins manns örfisi og sá það síðar í smáa letrinu með líftryggingunni að við þessar aðstæður hefði ég ekki verið tryggður!  

Ég veit ekki hvort ég legg í það héðan af að taka líftryggingu. Ég flýg enn flugvélum, oft við mjög erfiðar og misjafnar aðstæður og er auk þess orðinn það gamall að kannski þýðir ekkert hvort eð er að óska eftir líftryggingu.

Þegar ég flaug á FRÚ-nni yfir að Grænlandsströnd í nóvember 2000 og síðar í gegnum Hafrahvamagljúfur voru aðstæður þannig að hreyflbilun hefði valdið óumflýjanlegum dauða, sérstaklega í fluginu til Grænlands.

Hreyfilliinn í vélinni er af traustustu gerð, Lycoming, en hann getur auðvitað bilað eins og öll mannanna verk.

Í fluginu til Grænlands var skylt að hafa björgunarbát um borð, fylgdarflugvél og HF-sendistöð en aðstæður voru þannig Grænlandsmegin að ekkert af þessu hefði breytt neinu um það að sá maður var dauður sem lenti í hreyfilbilun á einshreyfils flugvél.

Ég og Víðir Gíslason á Akureyri, sem oft höfum flogið saman við erfið skilyrði, höfum fundið það út að númer eitt við svona aðstæður er að vera fullir æðruleysis og trúartrausts, að "treysta á Guð og Lycoming" eins og Víðir hefur orðað það.  

Mér sýnist mest virði að ígrunda og útreikna áhættuna vel og lágmarka hana miðað við þau markmið og tilgang sem stefnt er að í fluginu eða hverju því öðru sem fengist er við.

En auðvitað gegnir líftrygging því hlutverki fyrst og fremst að hugsa um hag sinna nánustu eftir að kallið kemur.

Þess vegna getur það verið ósanngjarnt að neita fólki um slíka tryggingu af vafasömum ástæðum.  

 


mbl.is Neitað um líftryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Já ég hef séð þig skemmta á árshátíð og það tvisvar sinnum og get staðfest það að þú ert í góðu formi. Hver annars getur hamast eins og körfuboltamaður í 60 mínutur við undirleik píanóleikara.

S. Lúther Gestsson, 27.10.2007 kl. 18:40

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hleranum til upplýsingar hljóp ég 400 metra á 52,7 sekúndum í den. Kannski hefur áreynsluleysið blekkt áhorfendur.

Ómar Ragnarsson, 27.10.2007 kl. 19:32

3 identicon

Aldrei heyrt það áður að fólki hafir verð neitað vegna góðs forms, skil það reyndar engan veginn. Sé ekki rökin fyrir því en ég hef vitað um mjög marga sem hafa farið í minnstu rannsóknir á sjúkrahúsi og hafa þess vegna þurft að borga sérstakt álag ofan á það ársgjald sem er í gangi vegna "heilsu". Magnað alveg. 

Annað er með formið á Ómari, sem ég efast ekkert um að sé frábært. En ég myndi nú líklega líka segja við Ómar Ragnarson ef hann gengi inn í "mitt Tryggingafyrirtæki" að ég gæti ekki tryggt hann vegna góðs forms, rökin ekki góð en betra en að tryggja mann sem lendir á Frúnni sinni á 18 braut golfvalla og á hinum minnstu vegum landsins til þess að koma fram á skemmtunum og taka upp fréttir. Ómar minn, þeir voru skít hræddir um að þú myndir drepa þig í einu af þessu flugum eða í einu stökkinu á sviði. Þeir voru ekki hræddir við að tryggja þig vegna góðs líkamsástands. Það er mín kenning.  

Frelsisson (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 22:40

4 identicon

las reyndar ekki strax þetta með flugprófið eftir neitunina á tryggingunni, en þeir hafa þá líklega séð eitt af þinum show-um... áhættusamt í alla stað, enda mikil læti oft á tíðum hehe en já óþarfi að taka þessa tryggingu í dag... myndi kosta slatta held ég á mánuði.... eru engin aldursmörk á þessu Ómar, það er að taka líftryggingu?

Frelsisson (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 22:45

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri Ólafur Heiðar, ég byrjaði ekki að læra að fljúga fyrr en árið eftir að mér var neitað um líftrygginguna svo að það gat ekki verið orsökin. 

Ómar Ragnarsson, 28.10.2007 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband