31.10.2011 | 19:35
Ánægjulegar athafnir.
Kirkjur landsins skapa góða umgerð yfir ánægjulegustu helgiathafnir fjöskyldulífsins sem eru skrírnir, fermingar og hjónavígslur.
Í hjónavígslunum fá að vera í friði ýmsar hefðir, sem báru kannski í upphafi svolítiinn keim af kynjamisrétti fyrri alda, svo sem það eitt að tala um brúðkaup, en það orð er með svolítið kaupahéðinsblæ,- verið að kaupa brúði handa karlmanni, og seljandinn leiðir "varninginn" inn eftir gólfinu.
Auðvitað tekur þetta enginn svona og það eru einhverjar ánægjulegustu stundirnar í lífi mínu að fá að leiða dætur mínar upp að altarinu og fela þær í sambúð með góðum tengdasonum.
Og mér finnst það einstaklega skemmtilegt þegar konur sitja öðru megin í kirkjunni og karlar hinum megin.
Tónlistin er yfirleitt ánægjuleg þótt einstaka sinnum geti smekkurinn verið sérkennilegur.
Yfirleitt þurfa prestarnir ekki að skipta sér af henni, nema að hún sé einstaklega óviðeigandi, eins og til dæmis hér um árið þegar brúðhjónin vildu endilega að uppáhaldslag þeirra með Engilbert Humperdink yrð spilað: "Please, release me, let me go!"
Ekki fer hinsvegar sögum af því hvort presturinn hafi boðið þeim að nota lagið við sérstaka skilnaðarathöfn, ef þau myndu skilja.
![]() |
Gekk grímuklædd upp að altarinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.10.2011 | 16:41
Betra að hafa þetta neglt í stjórnarskrá.
Bretar hafa enga sérstaka stjórnarskrá, heldur byggist þeirra kerfi á venjulegum lögum og venjum.
Þetta veit Karl prins af Wales mætavel og þar með að ef til hans hefur verið leitað nógu oft til að fá samþykki hans fyrir lagasetningu um ýmis mál getur myndast um það lagaleg hefð.
Væri hins vegar mælt fyrir um þetta í stjórnarskrá þyrfti þetta ekki að verða að neinu vafaatriði.
Raunar er engin stjórnarskrá né lög svo afdráttarlaus í hvívetna að ekki geti komið upp deilur um túlkun á þeim. Annars þyrftu menn ekki á dómstólum og stjórnlagadómsstólum að halda.
En því betur sem um hnúta er búið, því minni hætta er á alvarlegum uppákomum.
![]() |
Prinsinn með neitunarvald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2011 | 21:37
Ekki mun af veita.
Ekki mun af veita að standa vaktina varðandi verndarflokk og biðflokk Rammaáætlunar, því að nú hefur það komið fram, sem Íslandshreyfingin varaði við á dögunum, að virkjanamenn munu nota aðstöðu sína og fjármagn til að færa sem flestar, helst allar virkjanahugmyndir sem falla undir verndar- og virkjanaflokkunum í orkunýtingarflokk.
Frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í eigu Reykvíkinga, hefur nú verið sett fram athugasemd við Bitruvirkjun um að hún verði færð úr verndarflokki í orkunýtingarflokk og að þar með skuli valtað yfir næstu nágranna hennar, Hvergerðinga, sem megi láta brennisteinsmengun og jarðskjálfta af mannavöldum ganga yfir sig.
Að ekki sé minnst á það að Bitruvirkjun stenst engan veginn skilyrði um éndurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun.
Af þessu má ráða að reynt verði að snúa rammaáætlun í þessa veru hvar sem því verði við komið og því eins gott að fjárvana og aðstöðulaus samtök náttúruverndarfólks taki í á móti fyrst tónninn hefur verið gefinn svona rækilega.
Nú kunna menn að spyrja, af hverju ekki var neitt sambærilegt að finna í stefnuályktun Samfylkingarinnar á síðasta landsfundi hennar og er nú í ályktun VG.
Ástæðan er sú að í ályktun Samfylkingarinnar er farin önnur leið sem leiðir til svipaðrar niðurstöðu.
Þar er sett fram krafan um skilyrði sjálfbærrar þróunar og endurnýjanlegrar orku sem sjálfkrafa myndi slá margar virkjanir út af borðinu, sem nú eru í orkunýtingarflokki svo sem Bitru-, Hverahliðar-Meitils- og Gráhnjúksvirkjun á Heillisheiðarsvæðinu og stækkun Reykjanesvirkjunar, Trölladyngju- og Eldvarpavirkjun á vestanverðum Reykjanesskaganum.
Sömuleiðis hefur bæði 2009 og 2011 verið ályktað um friðun suðurhálendisins, og 2009 sérstaklega tiltekið svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls.
Undir það falla virkjanir í Reykjadölum, við Torfajökul, Bjallavirkjun, Skaftárvirkjun, Hólmsárvirkjun og Búlandsvirkjun.
Þegar margir heyra þetta reka þeir vafalaust upp ramakvein yfir óbilgirninni sem felist í þessu.
Þeir hinir sömu halda þó áfram að stagast á því að við virkjum hreina og endurnýjanlega orku þótt það sé alls ekki raunin í flestum framangreindum tilfellum og mörgum fleiri.
![]() |
Vilja stækka verndarflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
30.10.2011 | 21:17
Einn mesti olíuforði heims.
Einn stærsti olíuforði heims er í Íran. Írak er í kringum tíunda sætið með sinn forða. Áhugi Bandaríkjamanna á þessum löndum er því engin tilviljun, heldur auðskiljanlegur.
Það er óhemju mikilvægt fyrir Bandaríkin að geta lesið rétt í það hvað er raunverulega á seyði í Íran, því að Bandaríkjamenn og heimurinn allur brenndi sig illa á því 2003 hve gersamlega leyniþjónustan CIA klikkaði í því að ráða rétt í ástandið í Írak.
Undir þrýstingi frá Bush: "Finnið þið eitthvað á hann!" oftúlkaði CIA nánast hvað sem var sem gæti gefið minnstu vísbendingu til þess að Saddam Hussein réði yfir gereyðingarvopnum.
Fyrir bragðið voru forsendur beggja, Bush og Saddams, rangar. Saddam þurfti að nota hugsanlega tilveru gereyðingarvopna til heimabrúks og trúði því aldrei að Bush myndi fyrirskipa innrás, því að CIA hlyti að vita hið sanna og hafa greint Bush frá því að engin slík vopn væru til og því væri forsetinn bara að "blöffa með hótunum sínum um innrás.
Bush trúði hins vegar hinum röngu upplýsingum og stríðið með öllum sínum mannfórnum og nær áratugs herseta Bandaríkjamanna kom í kjölfarið.
![]() |
Óvíst hver stjórnar í Íran |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.10.2011 | 22:23
"Hefurðu bréf upp á það?"
Halldór Laxness lék sér að ofangreindri setningu þegar hann lýsti þeim aðstæðum, sem Íslendingar bjuggu við gagnvart kansellívaldinu í Kaupmannahöfn á tímum einveldis danska kóngsins á Íslandi.
Ef menn "höfðu ekki bréf upp á það" sem lá þeim á hjarta, gátu þeir étið það sem úti frýs.
Nú stefnir í það að ég muni éta það sem úti frýs í bókstaflegri merkingu hvað stendur flug mitt í vetur vegna þess að það skortir "bréf upp á það" og ekki bara eitt bréf, heldur mörg bréf að flugvélin mín geti flogið.
TF-FRÚ hefur verið kyrrsett á Selfossflugvelli síðan í mars, eða í sjö mánuði og mun væntanlega verða það áfram að minnsta kosti til næsta vors.
Síðustu tólf árin hefur aðeins einn flugmaður flogið þessari vél og nánast alltaf einn í vélinni.
Siðan í fyrravor hefur vélin nær eingöngu flogið yfir drefbýli og hálendi og ekkert verið á ferðinni hér við Faxaflóann.
Vegna veðurfars og skorts á krókum til að binda flugvélar niður á Selfossflugvelli þarf ég hafa þar tvo bíla til að binda flugvélina í og fara austur að minnsta kosti vikulega, stundum daglega og að næturþeli, til þess að snúa henni svo að hún standi af sér umhleypingasviftingar vetrarins og skemmist ekki.
Búið er að vinna við ársskoðun vélarinnar síðan í mars og hún í raun orðin jafn flughæf og hún hefur verið í áratugi, en vegna ýmissa nýrra smáatriða, sem vantar bréf upp á, er hún kyrrsett.
Fyrir 40 árum keypti ég sérhannaðan nefhjólsbúnað fyrir þessar vélar sem er með stærra nefhjóli til að auka öryggi á slæmum og deigum flugvöllum. Nú gæti farið svo að ég verði að kaupa veikari og lakari hjólabúnað og setja undir vélina af því að "það vantar bréf upp á það" sem var gert 1971 !
Og gera þetta til að' "auka flugöryggi" í Evrópu !
Varhlutir í flugvélar eru rándýrir, margfalt dýrari en sams konar hlutir í bíla.
Annað er eftir þessu og dæmin mýmörg síðan nýjar skrifræðisreglur EASA tóku gildi. Nefni þrjú í viðbót:
Undir flugvélarvæng á vél einni hér á vellinum hefur verið örlítil dæld, varla sjáanleg, sem fugl hefur líklega valdið hér á árum áður og hefur verið þarna í áratugi.
Öllum hefur verið ljóst að þetta hefur aldrei haft minnstu áhrif á flughæfni vélarinnar í öll þessi ár og flugvélin hefur fengið lofthæfsskírteini í samræmi við það.
En nú bregður svo við að krafist er undirritaðs og vottaðs skjals um þetta frá þeim tíma sem það gerðist og var þá að sjálfsögðu látið eiga sig.
"Hefurðu bréf upp á það ?" Þessari spurningu gat flugvélareigandinn ekki svarað þegar ég hitti hann í sumar og hann sá fram á rándýra viðgerð við að skipta um neðra byrði vængsins.
Hann vissi þá ekki hvort hann réði við það eða annað hliðstætt ofurskrifræði, sem yfir hann helltist.
Ég hef ekki séð vélina fljúga síðan.
Á svonefndum "spinner" á miðju skrúfunnar á TF-FRÚ er örlítil dæld, nánast rispa, sem þar hefur verið í líkast til ein sjö eða átta ár án nokkurra vandræða.
Hún er það lítil að hún hefur ekki minnstu áhrif á flughæfni vélarinnar, veldur engum titringi og mun geta verið þarna áfram til eilífðarnóns án vandræða eins og hingað til í gegnum tugi skoðana.
Nú bregður svo við að samkvæmt reglugerðarfarganinu verður að framvísa uppáskrifuðu vottorði um þetta frá þeim tíma sem þetta gerðist. Ég get að vísu grafið það upp úr dagbók minni hvenær og hvernig það gerðist en bara ekkiert till uppáskrifað frá þeim tíma, ég "hef ekki rétt bréf upp á það."
Ég sé fram á að búa mig undir það að endurnýja bæði nefhjólsbúnað og "spinner" auk ýmissa annarra atriða sem hafa verið til vandræða vegna nýju reglanna síðan í mars og eru sum enn.
Í fyrra þurfti að endurnýja stóran hluta stéls vélarinnar og kostaði sú aðgerð og ársskoðunin þá rúmlega tvær milljónir króna. Það lítur því ekki vel út með að hægt verði að kára þessa árssskoðun nú og raunar þegar kominn illviðráðanlegur kostnaður.
Í fyrra stóð alveg eins flugvél og mín við hliðina á FRÚnni á Selfossflugvelli en var skrúfulaus af því að skrúfan þurfti að fara í "yfirhal" eða endurstillingu.
Vélin stóð þarna mestallt sumarið skrúfulaus af því að eigendurnir voru svo óheppnir að senda skrúfuna eins og gert hefur verið í meira en hálfa öld til framleiðslulandsins, Bandaríkjanna, til endurhæfingarinnar.
Það hefðu þeir ekki átt að gera því nú kom í ljós að ekki mátti vinna þetta verk á skrúfunni nema á verkstæði með Evrópuréttindum, - alls ekki í framleiðslulandinu eins og ævinlega hafði verið gert !
Niðurstaðan varð sú að endurstilla skrúfuna upp á nýtt á "Evrópuverkstæði" án þess að nokkur þörf væri á því !
Siðasta dæmið: Flugvélarhreyflar hafa verið alveg óbreyttir í litlu einkaflugvélunum í 60 ár og þegar þurft hefur að núllstilla og endurnýja "líf" þeirra þá hafa íslenskir flugvirkjar gert það hér heima eftir fyrirmælum framleiðenda í Bandaríkjunum.
Tekinn er hreyfill úr einni flugvélanna í fyrra og flugvirki með hálfrar aldar reynslu gerir þetta eins og hann hefur gert oftar en tölu verði á komið, rífur hreyfilinn í sundir, skiptir út því sem skipta þarf um, setur nýja hluti í upp á punkt og prik og setur hreyfilinn síðan saman aftur.
Þegar búið er að endurnýja allt sem endurnýja þarf til að hreyfillinn teljist endurnýjaður, er hann settur í flugvélina. Allt þetta gæti hinn þrautreyndi íslenski flugvirki gert nánast blindandi, svo oft hefur hann gert þetta áður.
En þá kemur babb í bátinn: Í ljós kemur að samkvæmt nýju reglunum má aðeins gera þetta á sérstökum Evrópuvottuðum verkstæðum ! Samt var verkið unnið nákvæmlega eftir kröfum hins bandaríska framleiðanda !
Sem þýðir að það þarf að rífa hreyfilinn aftur úr flugvélinni, senda hann á vottað verkstæði í Bretlandi, þar sem hreyfillinn er aftur rifinn í sundur og skiptihlutirnir nýju teknir úr til skoðunar, settir aftur í og hreyfillinn settur aftur saman og sendur til Íslands þar sem hann er settur í flugvélina öðru sinni án þess að neitt hafi verið gert í Bretlandi sem ekki var búið að gera áður !
Aðeins ein leiðrétting á þessu dæmi: Í raun gekk þetta ekki alveg svona langt, þótt það hefði getað gert það, því flugvirkinn íslenski var stöðvaður í vinnu sinni í miðjum klíðum þegar hann að skipta um hlutina í hreyflinum, áður en hann setti hreyfilinn aftur í flugvélina.
En hreyfilinn þurfti að senda til Bretlands engu að síður !
EASA og Alþjóða flugmálastofnunin eru alþjóðlegar stofnanir sem við Íslendingar verðum að vera í sem flugþjóð, alveg burtséð frá aðild okkar að EES.
En í stað þess að gera það, sem hefði verið skylda okkar í samræmi við algera sérstöðu okkar sem eyja langt úti í hafi, að fá undanþágur frá reglum sem miðast við umferð flugvéla yfir milljónabyggðir og mörg landamæri á meginlandi Evrópu, var þessu skrifræðisfargandi dembt yfir okkur af þvílíkum þunga, að meira að segja svifflugur, sem svífa utan í Vífilfelli þurfa að standast nánast sömu kröfur um skriffinnsku og Boeing 747 með fimm hundruð farþega yfir London!
Konan mín segir réttilega: Af hverju selurðu ekki flugvélina? En svarið er einfalt: Hver getur selt kyrrsetta flugvél sem ekki má fljúga? Nú þegar eru falboðnar æ fleiri flugvélar sem enginn vill kaupa í flugumhverfi sem stefnir hraðbyri 65 ár aftur í tímann.
Auk þess hefur flugvélin verið það sama fyrir mig í áratugi og skriffæri fyrir rithöfund.
![]() |
Evrópureglugerð kyrrsetur flug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
29.10.2011 | 20:41
Ógæfa Pólverja.
Ógæfa Pólverja um aldir var sú að vera á milli tveggja af stórþjóðum Evrópu, Þýskalands og Rússlands og grimmdarmorðin í Katynskógi, sem Stalín fyrirskipaði, var aðeins lítið brot af þeim hörmungum sem návist stórveldanna tveggja ollu í þessu hrjáða landi.
Það að hafa Prússa og Rússa sem næstu nágranna á hvora hönd leiddi til þess að á átjándu öld skiptu Þjóðverjar (Prússar) og Rússar Póllandi á milli sín í þremur áföngum og eftir það urðu Pólverjar alteknir af draumnum um að endurheimata frelsi sitt.
Það varð að veruleika í við lok heimsstyrjaldarinnar 1914-1918 og öll utaríkisstefna Pólverjja miðaðist við það að halda fengnum hlut.
En með griðasamningi Hitlers og Stalíns 23. ágúst 1939 voru örlög Póllands innsigluð í fjórðu uppskiptingu landins á milli Þjóðverja og Pólverja.
Ein af ástæðunum fyrir því að ekki samdist með Vesturveldunum og Rússum um bandalag gegn Þjóðverjum var Rússahræðsla (Russophobia) Pólverja. Eina leiðin til þess að hjálpa Póverjum beint í yfirvofandi innrás Þjóðverja var sú að rússneskur her fengi að fara um Pólland til þess að takast á við Þjóðverja.
Rússar óttuðust líka (sem kom á daginn) að Vesturveldin hefðu enga sóknaráætlun gegn Þjóðverjum á vesturlandamærum Þýskalands þannig að niðurstaðan yrði sú að Rússar einir þyrftu að bera nær allan þungann af því að standa gegn Hitler.
Auk þess var Rauði herinn lamaður eftir hræðilegar hreinsanir Stalíns.
Ofan á þetta vantreystu þeir Bretum og Frökkum eftir að þeir höfðu án nokkurs samráðs við Rússa gert hinn illræmda Munchenarsamning við Þjóðverja sem gaf þeim í raun veiðileyfi á Tékkóslóvakíu og þar með að hreyfa sig til austurs.
Pólverjar misstu hlutfallslega flesta í styrjöldinni, alls um sex milljónir manna og voru síðan undir járnhæl Rússa langt fram eftir öldinni.
Sem dæmi um það hve seint sárin gróa má nefna, að á bílaverkstæðinu Knastási vann Pólverji sem hafði gaman af að gera við pólsku ör-Fiatana mína sem voru þjóðarbíll Póllans eins og Trabant hjá Austur-Þjóðverjum, Bjallan í Vestur-Þýskalandi og Mini í Bretlandi.
Eitt sinn kom ég á verkstæðið á frambyggðumm Rússajeppa (ódýrasta húsbíl á Íslandi) , sem ég á og hélt að Pólverjinn hefði gaman af að sjá hann.
En það var nú eitthvað annað. Hann varð þungur á brún og bað mig þess lengstra orða að láta aldrei sjá mig þarna aftur á þessum "helvítis bíl".
Þá áttaði ég mig á því að í hans augum var þessi bíll, sem við á Vesturlöndum sáum í sjónvarpsfrétum um hernám Rússsa í Austur-Evrópu og Afganistan, tákn um rússneska herinn og kúgunina sem fylgdi honum og herjum Rússa síðustu 300 árin.
![]() |
Minntust fórnarlamba Stalíns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2011 | 20:12
Taka þeir "íslensku aðferðina"?
Íslendingar voru áratugum saman með sérstakan sumartíma, sem hlaut nafnið "hringlið með klukkuna." Síðan fórum við með klukkuna yfir á Greenwich-tíma, sem kom til góða á sumrin á þann hátt að fólk fékk eina viðbótarklukkustund síðdegis með aðeins hærri sól til að njóta góðviðrisdaga.
Á móti kom sem óhagræði, að með færslunni lengist sá tími á veturna sem menn eru að paufast til vinnu og hefja vinnudaginn í myrkri.
Það hafði líka áhrif á þessa ákvörðun okkar að samskipti við Evrópu voru auðveldari þegar vinnutími okkar færðist einni klukkstund nær þeirra vinnutíma.
Svipuð rök virðast nú uppi á Bretlandi fyrir því að flýta klukkunni þar með svipuðum rökum og við færðum fyrir okkar færslu á sínum tíma.
Vilhjálmur Egilsson flutti tillögu um það að við flýttum klukkunni um tvær klukkustundir í staðinn fyrir eina, og ef Bretar færa sína klukku, fær Vilhjálmur kannski auka rök fyrir sinni tillögu.
Þá fer ástandið kannski að vera líkt því sem var hér varðandi tímasetningu kvöldfréttatímanna, sem fyrir daga sjónvarpsins voru í útvarpinu klukkan átta, en nú hefur útvarpsfréttatíminn færst um hvorki meira né minna en tvær klukkstundir og sjónvarpsfréttatímarnir um eina klukkustund.
Í rökræðunni hér heima töldu andmælendur "hringls með klukkana" að skólar og vinnustaðir ættu einfaldlega að færa sína tíma til í stað þess að skekkja daginn.
Þessa röksemd hefur ekki verið að heyra í upphafi þrefsins um klukkana í Bretlandi, hvað sem síðar verður.
![]() |
Mögulega nýr tími í Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2011 | 18:36
Verður að bjarga því sem bjargað verður.
Í ljós hefur komið að Landeyjahöfn er of lítil og grunn og hugsanlega ekki á alveg réttum stað.
Menn voru að reyna að spara peninga en nú kemur í ljós að borga verður þann sparnað til baka með hentugri ferju.
Höfnin hefði þurft að vera stærri til þess að gagnast Herjólfi og um það gildir hið gamla orðfæri að ferjunni var of þröngur stakkur skorinn.
Ef ekki er hægt að stækka og bæta höfnina verður að laga ferjuna, sem notar hana, að höfninni.
Um það að höfnin sé of lítil þýðir ekki að fást úr því sem komið er heldur að sjá hvernig hægt verði uppfylla þá frumskyldu samfélagsins við Vestmannaeyinga að þeir njóti þeirra samgangna við aðra landshluta sem nútíma samfélag krefst og veitir þeim mesta mögulegt jafnrétti á við aðra landsmenn.
Samgöngur til Eyja eru heldur ekki einkamál Eyjamanna því að bættar samgöngur þangað gagnast þjóðfélaginu í heild á ýmsan hátt.
Þannig eru eyjarnar einstæðar á heimsvísu og geta orðið mun meira aðdráttarafl fyrir ferðafólk en nú er ef samgöngurnar eru tryggari og betri en nú er.
![]() |
Eimskip frumhannar nýja ferju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2011 | 06:45
Byrjun á mun meiri stækkun.
Fyrir 13 árum datt það út úr Norðmönnum að LSD, lang-stærsti-draumurinn með sameiginlegri virkjun allra jökulfljóta Norðaustur- og Austurlands skyldi verða að veruleika með 700 þúsund tonna álveri á Reyðafirði.
Þetta stóð aðeins í mönnum og þá var skipt yfir í taktik sem hefur svínvirkað til þessa og felst í því að láta leggja fé í hógværar kröfur til að byrja með, og þegar búið væri að leggja það mikið fé í málið, að ekki yrði aftur snúið, yrði Íslendingum stillt upp við vegg og þvingaðir til að virkja allt.
Á tímabili var því harðneitað að Kárahnjúkavirkjun væri inni í myndinni, - aðeins um að ræða 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun látin nægja.
Þegar búið var að eyða nógu miklu fé var blaðinu snúið við því að 120 þúsund tonna álver skilaði ekki hagnaði og því yrði að reisa meira en þrisvar sinnum stærra álver. Ella yrði ekkert virkjað og féð,sem Íslendingar væru búnir að eyða, yrði ónýtt.
Svipuð aðferð hefur verið notuð í Helguvík og á Bakka og hefur svínvirkað, þótt nú hafi Bakki um sinn verið settur í biðstöðu. Enda opnast í staðinn mun árangursríkari leið fyrir Alcoa.
Ég hef heyrt af því ávæning nýlega að framtíaráætlun Alcoa væri að teygja sig smám saman upp í 700 þúsund tonnin, sem alltaf var stóri draumurinn, og aukning núna um 40 þúsund tonn rímar ágætlega við það.
Áætlunin sést vel þegar áherslurnar í virkjanamálunum eru skoðaðar.
Lagt er mikið kapp á virkjanir við Skrokköldu og Hágöngur við Sprengisand, en með því fylgir sjálfkrafa línulögn að sunnan svo langt norður á hálendið að hvort eð er verður búið að skerða svo víðernin á því, að það munar ekkert um það að leggja línur áfram norður og austur og kippa inn svonefndri Helmingsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum í leiðinni.
Allt þetta þarf að gera í þágu afhendingaröryggis og lokahnykkurinn verður borun ganga frá Jökulsá á Fljöllum austur í Hálslón og ný göng þaðan austur í Fljótsdal svo að hægt verði að stækka Fljóstdalsvirkjun um einhverjar túrbínur.
Þótt það hafi verið í umræðunni að friða allt vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum verður freistinin of mikil að taka að minnsta kosti þverá hennar, Kverká, og veita henni yfir í Hálslón.
Þar með hefur gamli LSD draumurinn ræst um virkjanir allra jökulfljóta Norðaustur- og Austurlands og sömuleiðis að svipta norðurhálendið því að vera ósnortið víðerni.
Það er margyfirlýst keppikefli virkjanafíkla að gera það sama og samstarfsnefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma um svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki, að það verði virkjanasvæði.
Stóriiðjutrúarmenn hafa marglýst því yfir virkjanir séu forsenda fyrir því að byggja upp ferðaþjónustu.
Nú kunna ýmsir að segja að þetta sé vænisýki hjá mér.
Það sögðu líka margir við mig í kringum 2000 þegar fullyrt var að Fljótsdalsvirkjun og lítið álver myndu nægja og ég kvaðst samt aðspurður vera viss um að Kárahnjúkavirkjun yrði reist.
"Svona áhættusöm og tryllingslega stór virkjun verður aldrei að veruleika" sögðu þeir jafnvel við mig sem unnu að rannsóknum þar og bættu við: "Við erum bara að vinna hér við rannsóknir sem sérfræðiingar og vísindamenn. Vertu alveg rólegur. 120 þúsund tonna álver er meira en nóg.
Annað kom á daginn. Nú þegar hefur það verið sett fram hjá Orkuveitu Reykjavíkur að í stað þess að þyrma Bitru verði því svæði breytt í orkunýtingarsvæði, hvað sem Hvergerðingar segi.
Tónninn hefur verið gefinn, tónninn sem blaðamaður frá Los Angeles Times upplýsti mig um fyrir meira en tíu árum eftir að hafa kynnt sér aðstæður hér, en hann hafði um áratuga skeið sérhæft sig í umhverfis- og virkjanamálum vvíða um heim.
Hann sagði við mig: "Eftir að ég hef rætt við eins marga hér á landi og mér er unnt liggur það ljóst fyrir að á Íslandi verður ekki hætt fyrr en búið verður að virkja altt sem virkjanlegt, hvern einasta læk og hvern einasta hver er áður en yfir lýkur."
![]() |
Alcoa vill stækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
28.10.2011 | 23:25
Ekki seinna vænna.
Það er ekki seinna vænna að björgunarsveitir séu kallaðar út jafnskjótt og rjúpnaveiðar eru leyfðar.
Spáin í dag gekk eftir á þeim slóðum sem rjúpnaskytturnar eru, þ. e. spáð var vaxandi norðaustanátt og versnandi veðri.
Klukkan sjö var vindurinn á Bröttubrekku mest 5 metrar á sekúndu, en tveimur tímum síðar var hann eins og vænta mátti kominn upp í 16 metra eða 35 hnúta.
![]() |
Rjúpnaskyttur í vandræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 29.10.2011 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)