HELGI, AGNAR, BERGUR, KOLBEINN,- EKKI ÉG.

Gott og athyglisvert viðtal er við Völund Jóhannesson í Morgunblaðinu í dag. Ég hef fengið orð í eyra undanfarin ár og verið sakaður um þá ósvinnu að nefna fossinn Töfrafoss því nafni til þess að fegra hann meira en hann átti skilið áður en hann sökk í Hálslón. Var þetta nefnt sem dæmi um hlutdrægni mína. Ég hef ekki nennt að standa í þrasi yfir þessu en nafnið sást fyrst á prenti 1939 í bókinni Á hreindýraslóðum eftir Helga Valtýsson þar sem hann telur fossinn standa fyllilega undir þessu nafni. Völundur heldur þessu til haga í viðtalinu.

Fossinn var stærsti fossinn á hálendinu norðan Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls,  allt frá Snæfelli vestur á Holtavörðuheiði.

Þegar ég flaug með fólk yfir Töfrafoss á meðan hann var og hét sögðu þeir, sem áður höfðu fengið upplýsingar hjá Landsvirkjun, að lónið myndi aldrei ná lengra en upp á hann miðjan. Ekki nennti ég að standa í þrasi við þetta fólk, - vissi það sem kom í ljós furðu snemma í sumar, að fossinn færi á bólakaf. 

Í þeim skýrslum um virkjunina sem ég sá fyrst var sagt að fossinn yrði kaffærður og mér fannst því undarlegt þegar öðru var haldið fram.  

Ég tel rétt að bæta þessum bloggpistli við viðtalið við Völund til þess að útskýra betur hvað hann er að tala um.  

Korteri fyrir kosningar var ég kærður fyrir lendingar á flugvélum þar sem nú er lónstæði Hálslóns og einnig á mel einum norðan við Brúarjökul sem ég hef nefnt Sauðármel. Lendingarnar í lónstæðinu voru raunar með sérstöku skriflegu leyfi Náttúruverndarráðs 2002 en kærandinn skellti skolleyrum við því.

Í sjónvarpsfrétt um þetta var þess sérstaklega getið að refsing við athæfi mínu gæti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Sýnt var með fréttinni myndskeið þar sem forsætisráðherra steig út úr flugvélinni eftir hið refsiverða flug!

Þetta kærumál hefur nú staðið í sex mánuði og ég hef meðal annars verið kallaður í hálfs annars klukkustundar yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni á Egilsstöðum og skilað inn tveimur greinargerðum um málið til Umhverfisstofnunar, samtals upp á 16 blaðsíður með alls ellefu myndum.

Í greinargerðunum kom m. a. fram að rúmlega 20 lendingarstaðir fyrir flugvélar hafa verið valtaðir á hálendinu og við alla nema tvo hefur engu verið raskað á yfirborði, viðkomandi melur aðeins valtaður.

Vinnuvélar voru notaðar við gerð brautar hjá Sigurðarskála í Kverkfjöllum en áður hafði ég lent þar rétt hjá braut þar sem engu var raskað.

Landvirkjun notaði síðan vélar til að gera flugbraut og malbika hana á Auðkúluheiði.

Á engum þeirra lendingarstaða sem ég notaði á Kárahnjúkasvæðinu var nokkru raskað á yfirborði brautanna.  

Hins vegar hefur nú á vegum Landsvirkjunar verið sökkt í Hálslón lendingarstöðum mínum í Hjalladal, - og auk þess hefur eldri flugbraut sem var við Kárahnjúkaveg hjá Sauðafelli undir Snæfelli, nú verið tætt í sundur af vinnuvélum.

Þar með er lendingarstaðurinn á Sauðármel eini nothæfi lendingarstaðurinn fyrir flugvélar á hálendinu allt frá Jökulsá á Fjöllum og austur úr, á alls um 5000 ferkílómetra svæði.

Ég hefði ekki leitað að þessum lendingarstað nema vegna þess að munnmæli á Jökuldal hermdu að hann væri til og að rétt fyrir stríðið hefði verið þar á ferð þýsk vísindakona, Emmy Todtmann, og merkt staðinn.

Mér var sagt að þegar stríðið hefði hafist hefðu smalamenn af Jökuldal fjarlægt vörður sem sýndu lendingarstaðinn. Þetta hefðu þeir gert vegna ótta um að sú þýska hefði merkt staðinn sem hugsanlegt flugvallarstæði Þjóðverja.

Kolbeinn Arason flugstjóri, sem flaug á vegum Flugfélags Austurlands á meðan það var og hét, kvaðst hafa lent þarna eftir að hafa heyrt þessar sögur.  

Það var engin furða að Jökuldælingar væru tortryggnir 1940, því að án nokkurs rasks hef ég nú merkt þarna þrjár flugbrautir á einumm og sama melnum, 1400 metra, 1000 metra og 700 metra langar og það sýnir vel hve frábært og stórt þetta náttúrugerða flugvallarstæði er.

Ég hef líka fundið nokkrar steinahrúgur sem hljóta að hafa verið þarna sem merkingar. Einkum virtust hleðslur við austur-vestur brautina (1000m brautina) passa vel við hana.

Í Morgublaðsviðtalinu í dag upplýsir Völundur að árið 1938 hafi verið þarna á ferð Agnar Koefoed Hansen og Bergur G. Gíslason á þýskri Klemm-vél, lent á melnum og merkt hann með steinhleðslum.

Seinna var talað um þennan stað af staðkunnugum sem "flugvöllinn". En í kærunni góðu var mér að sjálfsögðu eignað þetta flugvallarstæði einum rétt eins og nafnið Töfrafoss.

Fokker 50 vél frá Flugfélagi Íslands hefur gert aðflug að lengstu flugbrautinni og um daginn þegar vélarbilun varð í slíkri vél á flugi þarna yfir, voru fyrstu viðbrögð flugmanna miðuð við að nauðlendingu á hálendinu. Þá hefði þetta verið eini staðurinn þar sem hægt væri að lenda Fokker 50 flugvél ef flugmennirnir fyndu hann.

Ég hef gefið flugmálayfirvöldum upp hnit staðarins upp og í björtu eru brautirnar á Auðkúluheiði og Sauðármelur einu staðirnir á öllu hálendinu sem koma til greina sem lendingarstaðir fyrir Fokker 50. Brautin á Auðkúluheiði er þó við það að vera of stutt en tvær af þremur brautum á Sauðarmel eru nothæfar fyrir Fokker 50.

Ef eldgos brytist út á þessu svæði eins og vísindamenn telja að geti komið til greina, er augljóst hagræði af því að eiga völ á einum svona stað.

Þegar rúta fór ofan í Hólsselskíl hér um árið fór 19 farþega flugvél frá Akureyri, lenti á braut við Grímsstaði á Fjöllum og flutti slasaða til Akureyrar. 

"Flugvöllurinn" á Sauðármel getur því verið öryggisatriði ef slys ber að höndum á þessu stóra svæði.

Síðast þegar ég var þarna á ferð fyrir nokkrum dögum lenti ég á Sauðármel og veit ekki betur en að hann sé enn fær því að þarna er alveg ótrúlega snjólétt miðað við það að þetta er í 640 metra hæð yfir sjó. 

Og jafnvel þótt snjór væri á vellinum er margfalt betra að lenda í snjó með sléttu undirlagi en í urð, hrauni eða grjóti.  

Nýlega barst mér bréf frá sýslumanninum á Seyðisfirði þar sem sagt var að lögregluyfirvöld eystra treysti sér ekki til að taka kæruna góðu til frekari meðferðar vegna þess að ekkert saknæmt hafi fundist.

Á sínum tíma var Agnar Koefoed Hansen tortryggður vegna hinna nánu tengsla hans við Þjóðverja sem kenndu hér svifflug og létu Íslendingum í té þýskar svifflugur og flugvélarnar Súluna og Klemminn.

Það gat því verið tortryggilegt að hann merkti flugvallarstæðið á Sauðármel þar sem auðveldlega mátti gera nógu stóran flugvöll fyrir stærstu herflugvélar Þjóðverja.

Kort sem Þór Whitehead hefur grafið upp í Þýskalandi sýnir þó að þetta svæði var ekki eitt þeirra lendingarsvæða sem merkt voru þar inn.

Það hreinsar nafn Agnars Koefoed endanlega hvað snertir þjóðhollustu hans.

Ef endir kærumálanna nú verður sá að ekki verði frekar aðhafst í þeim ætti það að hreinsa líka nafn hans og Bergs G. Gíslasonar af því að hafa framið náttúruspjöll sem geti nú varðað allt að tveggja ára fangelsi.  

 

 

 

 

 

 


DRAUGAR ÓTTA OG TORTRYGGNI.

Sagan geymir dæmi um skaðsemi útþenslustefnu stórvelda og ótta og tortryggni þjóða gagnvart henni. Síðustu mánuði fyrir innrásina í Sovétríkin mynduðu Þjóðverjar svonefnt Tripartíbandalag nágrannaþjóða Sovétríkjanna og í kjölfarið fór mesta innrás sögunnar sem á endanum kostaði yfir 20 milljónir lífið í Sovétríkjunum. Þetta situr áreiðanlega í Rússum nú þegar Bandaríkjamenn "hnykla vöðvana" í nágrannaríkjum Rússa eins og Pútín orðar það.

Stjórnarfarið í Rússlandi er ekki gott en ekkert hentar betur þeim sem þar vilja auka völd sín en að geta bent á aðsteðjandi ögrun og þjappað þjóðinni saman gegn ímynduðum óvini. 

Þegar NATÓ var myndað á sínum tíma var það gert á grundvelli útþenslustefnu Stalíns sem talin var ógna Vestur-Evrópu. Stalín "hnyklaði vöðvana". Vesturveldið voru þá minnug útþenslustefnu Hitlers á sínum tíma bæði í vestur, austur, norður og suður rétt eins og útþenslan til austurs það situr vafalaust enn í Rússum. 

Að sjálfsögðu var sú ógnarstjórn sem Stalín kom á í leppríkjum sínum í Austur-Evrópu á engan veg sambærileg við það lýðræðisfyrirkomulag sem nú hefur breiðst út með frelsisbylgju sem skellur úr vestri á landamæri Rússlands.

Það breytir ekki því að þegar þjóðum finnst aðrar þjóðir "hnykla vöðvana" gagnvart sér á ögrandi hátt er ekki spurt um hvort þjóðskipulag útþensluþjóðanna sé gott eða lélegt. 

Við getum kallað þetta þjóðasálfræði sem er að mörgu leyti lík sálfræði einstaklinga.

Einar Þveræingur lagði ekki illt til ríkjandi Noregskonungs sem vildi frá Grímsey til yfirráða heldur benti á þá óvissu sem ríkti um það hvort eftirmenn hans létu það eitt nægja að "hnykla vöðvana" án þess að nýta sér aðstöðuna sem þeir hefðu fengið.

Einar benti á að frá Grímsey gæti konungur farið með langskipum í leiðangra í hugsanlegu valdabrölti og yrði þá hætt við að "mörgun búandkarli þætti þröngt fyrir dyrum."

Nú hnykla Rússar vöðvana með flugvélum og kafbátum á Norður-Atlantshafi og afsaka það með því að það sé andsvar við hernaðaruppbyggingu NATÓ við túnfót Rússlands.

Á morgun verður málþing á Hótel Sögu um utanríkismál og fróðlegt verður að sjá hvaða sýn og stefnu íslensk stjórnvöld hafa í þessum efnum.

 

 

 

 

 

 

 

 


HINN ÓÞÆGILEGI ÍSLENSKI SANNLEIKUR.

Skoðum undir yfirborðið á eftirfarandi staðhæfingum, sem haldið er á lofti á Íslandi: 1. Íslendingar eru í fararbroddi, til fyrirmyndar og vekja aðdáun um víða veröld fyrir að útrýma orkugjöfum sem stuðla að útblæstri gróðurhúsalofttegunda. 2. Til þessa nota Íslendingar hreina og endurnýjanlega orku. 3. Íslendingar eru í fremstu röð í tæknilega hvað þetta snertir.

Af framangreindu mætti ætla að við Íslendingar séum fágætt hugsjónafólk sem er tilbúið til að fórna meiru en nokkur önnur þjóð fyrir hugsjónir sínar. Þetta stenst ekki skoðun, því miður.

1. Hvers vegna höfum við þá komist lengra en aðrir við að minnka notkun mengandi orkugjafa?

Svar: Eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Hugsjónir vegna mengunar andrúmsloftsins hafa aldrei ráðið för. Við byrjuðum á því að virkja hveravatn í Mosfellsbæ í kringum 1940 eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Þetta var skref byggt á framsýni og nauðsyn. Í kreppunni var skortur á gjaldeyri og notkun heita vatnsins sparaði okkur útgjöld til kolakaupa.

Ég man þá tíð þegar það var kolageymsla við húsið og þurfti bras og vesen við að moka kolum ofan hana og úr henni í kolavélina til að hita upp. Heita vatnið var bylting hagkvæmninnar og hreinna loft var bónus.

Áfram héldu gjaldeyrisskortur og hagkvæmnissjónarmið að ráða för og í kringum 1980 var gert kröftugt lokaátak í þessum efnum í ljósi stórhækkandi olíuverðs. Enn réðu hagkvæmnisástæður öllu, - innlenda orkan var einfaldlega ódýrari en sú erlenda. Það var ekki flóknara en það.

2. Hrein og endurnýjanleg orka? Lengi vel var þetta svona.

Orkan úr Sogsvirkjunum er hrein og endurnýjanleg, - ekkert set myndast þar í miðlunarlónum sem fyllir þau upp og eyðleggur miðlunina.

Hitaveiturnar til húshitunar eru með hátt hlutfall nýtingar jarðvarmaorkunnar og enginn útblástur fylgir þeim. Þó verður að fara þar að með gát til að ganga ekki of mikið á jarðvarmann, - annars kólna svæðin og orkan getur því ekki talist endurnýjanleg. En sé þessa gætt eru hitaveitur frábært dæmi um hreina, hagkvæma og mengunarlausa orkunýtingu og aðeins af hinu góða að við montum okkur af þeim og förum í útrás með þær.

En öðru máli gildir um jarðvarmavirkjanirnar, einkum þær nýjustu og að þessu leyti er ekki rétt að blanda þeim saman við húshitaveiturnar.  

Í upphafi var Nesjavallavirkjun að vísu með hátt nýtingarhlutfall vegna þess að vatnið var notað til húshitunar. Í því formi sem nú er stefnt að með virkjanir á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu er nýtingarhlutfallið hins vegar aðeins 12%, - 88% fara ónotuð út í loftið.

Orkan þar er ekki lengur endurnýjanleg, - svæðið verður orðið kalt eftir 40 ár vegna þess að allt of hart er gengið í því að kreista út úr því hámarksorku sem miðast við skammtímasjónarmið. Hvar á að fá orku í staðinn eftir 40 ár? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Barnabörn okkar eiga að glíma við það. Þokkaleg hugsjónaþjóð sem hugsar svona.

Mengun af völdum brennisteinsvetnis verður mun meiri hjá þessum nýju jarðvarmavirkjunum en hjá öllum álverunum til samans. Það er að vísu sennilega skárra en að kolaorkuver sendi mengandi lofttegundir út í loftið, -  en óbeisluð vatnsorka í öðrum löndum heims er meira en hundrað sinnum meiri en öll orka Íslands og er bæði hreinni og endurnýjanlegri en orka nýjustu virkjanna á Íslandi.

Nýjasta stórvirkjun okkar á austurhálendinu stenst ekki einu sinni lágmarkskröfur um arðsemi og gefur ekki endurnýjalega orku heldur hefur í för með sér mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif hér á landi.  

Ofan á þetta bætist að Íslendingar sýna engin raunveruleg merki um að vera fyrirmynd í orkunýtingarmálum. Þriggja tonna 300 hestafla 6,5 metra langi ameríski pallbíllinn er enn meira áberandi tákn Íslands nútímans en í nokkru ríki í Bandaríkjunum.

Við gefum sérstök tolllfríðindi á svona bíla og erum í fremstu röð við að auka útblástur.

Það væri kannski hægt að reyna að afsaka það ef við værum hrein og bein græðgisþjóð með alls kyns útskýringum á því.

Verra er að í ljósi hins óþægilega ofangreinda sannnleika erum við einstök hræsnis- og undanbragðaþjóð og flöggum hálfsannleika um virkjanir okkar.  Stundum hefur verið sagt að hálfsannleikur sé verri en hrein lygi.

3. Tæknilega forystan. Jú, loksins kemur það sem við getum þó verið stolt af. Við erum tæknilega í fararbroddi og þróunaraðstoð okkar og mikilsvert framlag okkar til orkubeislunar erlendis til þess að hjálpa öðrum þjóðum getur eflt heiður okkar og orðið fyrirmynd öðrum.

Og jafnt heima fyrir sem erlendis eigum við að leggja áherslu á þann þátt nýtingar orkunnar sem sannanlega er hrein og endurnýjanleg og hætta að ljúga að okkur sjálfum og öðrum hvað varðar orkuframkvæmdir sem standast ekki þessar kröfur. 

Þá gætum við sagt hinn þægilega íslenska sannleika og verið stolt af honum.  

 

 

 

 


LÖGBRJÓTAR.

Tæknilega er Kasparof nú orðinn lögbrjótur líkt og meðlimir Saving Iceland voru í göngu sinni í Reykjavík. En munurinn á þessu tvennu í augum flestra hér er líklega sá að Kasparof sé "góður" lögbrjótur vegna þess að stjórnarfarið í Rússlandi sé verra en á Íslandi. Raunar þarf ekki lögbrjóta til hér á landi til að vera álitinn "óæskilegur". Þannig var nokkrum erlendum vélhjólamönnu vísað úr landi hér nýlega þótt þeir væru með hreint sakarvottorð. Sömuleiðis var félögum í Falun Gong meinuð landvist á ólöglegan hátt á sínum tíma á jafn hæpnum forsendum. 

Í sjónvarpsfréttum í gær kom í ljós að það er ekki nóg að þú hafir greitt skuld þína við þjóðfélagið vegna yfirsjóna þinna og sért kominn aftur út í þjóðlífið með hreint mannorð að nýju. Án þess að þú vitir af því getur lögreglan samt laumað samt undir bíl þinn senditæki  sem gerir henni kleift að svipta þig frelsi einkalífs og hafa þig undir smásjá.  

Dómsmálaráðherra hefur sagt að þetta laumuspil lögreglunnar rjúfi meira friðhelgi einkalífs en símahleranir. Ég er ósammála því. Með því að nýta sér símakerfið getur stóri bróðir bæði fylgst með ferðum símans þíns og þar með ferðum þínum auk þess að allt sem þú segir er hlerað, jafnvel hin viðkvæmustu einkamál.

Ég undrast hve lítil og máttlaus umræðan er um þessi mál hér. Kasparoff segir að fólkið í Rússlandi verði að vinna bug á óttanum við yfirvöld. Getur verið að þessi ótti við umræðu og yfirvöld sé líka hér á landi?

Menn köfuðu nýlega bara sæmilega djúpt niður í meintar hleranir á Íslandi um miðja síðustu öld. Það er liðin tíð og ekkert verður tekið til baka. Af hverju fer enginn og kafar niður í hugsanlegar hleranir nú og á næstunni, hleranir sem skipta okkur raunverulegu máli?  

Eitt fylgir ekki fréttinni frá Moskvu. Hve lengi var Kasparof haldið í fangelsi? Ég spyr bara af forvitni vegna samanburðar við það hve lengi sams konar lögbrjótum er haldið hér á landi.  

 


mbl.is Kasparov handtekinn í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÓSTAÐ Í GEGNUM AKUREYRI.

Ég þurfti að aka í gegnum Akureyri á leið frá Egilsstöðum í fyrradag. Um leið og komið var á Drottningarbrautina var vasaklúturinn kominn upp og hóstanum linnti ekki fyrr en komið var upp í Öxnadal.  Ástæðan var rykmengun sem ku vera jafnvel verri en í Reykjavík á þurrum stilludögum. Bílarnir á Akureyri eru þegar orðnir svartir af tjöru upp á miðjar hliðar margir hverjir. Djúp hjólför í malbikinu. 

Akureyringar hafa samkvæmt eðli veðurfarsins meiri þörf fyrir neglda hjólbarða en Reykvíkingar. En fróðlegt væri ef hægt væri að rannsaka hér í Reykjavík hve mörgum slysum tjöruausturinn upp á rúður og rúðuþurrku, lélegri hemlunarskilyrði vegna sleiprar tjörunnar og löngu pollarnir í hjólflörunum valda á þeim 98% tímans frá október fram í apríl þar sem engin þörf er fyrir neglda hjólbarða innanbæjar.

Ég er ekki viss um að minni slysahætta með negldum börðum 2% af vetrartímanum nái að bæta hitt upp. 

Ég giska á 2% því að hálkuaðstæður ríkja yfirleitt ekki í Reykjavík nema örfáar klukkustundir í hvert skipti.  

Undanfarin haust hefur ætíð sama sagan gerst: Um leið og fyrsta fölin fellur í október rjúka menn tugþúsundum saman til og setja neglda hjólbarða undir bílana til þess eins að berja auðar göturnar með þeim jafnvel fram í janúar.

Menn segja að nauðsynlegt sé að vera á negldu vegna Hellisheiðarinnar. Ef grannt væri skoðað myndi þó koma í ljós að aðeins lítið brot af þessum naglaakstri gerist við skilyrði þar sem naglanna er raunveruleg þörf á heiðinni og að langflestir þurfa hvort eð er ekki að fara yfir hana á veturna.

Það myndi verða lítið dýrara að leigja sér bílaleigubíl í þau örfáu skipti sem hálka er á heiðinni heldur en að kosta fjármunum til að setja neglda hjólbarða undir. Vegagerðin er dugleg við að eyða hálku á henni þótt auðvitað komi nokkrar klukkustundir einstaka sinnum þegar hún er fyrir hendi og hliðarvindur gerir akstur erfiðan.    


AF HVERJU EKKI FLEIRI VIRKJANIR Í YELLOWSTONE?

Svar: Af því að það eru engar virkjanir í Yellowstone þótt þar sé langorkumesta háhitasvæði Norður-Ameríku með mikilli vatnsorku þar að auki. Þarna eru 10 þúsund hverir og ekki einn einasti virkjaður. Á svæði umhverfis þjóðgarðinn sem er á stærð við Ísland má heldur ekki virkja. Af hverju ekki? Af því að Bandaríkjamenn geta í staðinn látið Íslendinga stúta álíka mögnuðum eða magnaðri svæðum svo að hægt sé að reisa álver á Íslandi og rífa álver í staðinn vestra.

Já, en Yellowstone er einstakt svæði, segja Íslendingar. En ég segi: Hvenær ætlum við að hætta þessari minnimáttarkennd?

Ég er með nýja og vandaða bók í höndunum þar sem færir sérfræðingar hafa valið 100 undur veraldar. Mörg þeirra eru náttúruundur en líka eru fyrirbrigði eins og Taj Mahal, Kínamúrinn, Stonehenge og Colosseum.

Af 25 undrum Evrópu eru sjö náttúrufyrirbrigði. Þegar bókin er opnuð er fyrsta undrið norsku firðirnir og annað undrið, eitt af sjö merkustu náttúruundrum álfunnar, er hinn eldvirki hluti Íslands. Ekki Vestfirðir, Miðnorðurland eða Austfirðir heldur aðeins eldvirki hlutinn.

Ég fletti upp Ameríku til að sjá hvort Yellowstone sé á listanum. Ónei, ekki.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" færði ég rök að því að svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls tæki Yellowstone langt fram.

Í þessari nýju bók um undrin hundrað er sömu skoðun haldið fram.

Í Yellowstone væri hægt að búa til Blátt lón, Gult lón, Rautt lón, - nefndu það. Ekkert slíkt er gert. Ekki einn hver er snertur, ekki einn einasti foss eða fljót.

Hugmynd sveitarstjórans í Ölfusi um að Bitruvirkjun sé nauðsynleg til þess að Hellisheiðarvirkjun geti dregið að sér 200 þúsund ferðamenn á ári er að mínum dómi fráleit.

Með sömu röksemdafærslu má halda því fram að eina ráðið til að fá ferðamenn til landsins sé að virkja öll hverasævði landsins, Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Öskju og Kverkfjöll.

Nú þegar geta erlendir ferðamenn skoðað Svartsengisvirkjun rétt hjá alþjóðaflugvellinum og þegar og ef búið verður að virkja við Kolviðarhól, uppi á Skarðsmýrarfjalli, á vestari hluta Hellisheiðar, í Hverahlíð og í Þrengslunum hljóta allir að sjá að það þarf ekki Bitruvirkjun í viðbót til þess að fá á svæðið þá ferðamenn sem vilja sjá stærri jarðvarmavirkjanasvæði en Svartsengi.

Virkjanafíknin og virkjanatrúin eru orðin svo inngróin í fólk eftir hálfrar aldar stanslausan áróður fyrir virkjunum að ekkert annað kemst að.

Setjum sem svo að á Skólavörðuhæð væri búið að planta niður sex Hallgrímskirkjum. Myndi það laða ferðamenn til viðbótar svo tugþúsundum skipti þótt þeirri sjöundu yrði bætt við og listasafn Einars Jónssonar jafnað við jörðu svo að hún kæmist fyrir?

Verður það næsta tillaga í anda sveitarstjórans í Ölfusi að reisa annað tónlistarhús í Reykjavík við hliðina á því nýja vegna þess að tónlistarhús laði svo marga ferðamenn til sín?


RÁÐSTJÓRI ?

Lenti í gær í spjalli í síðdegisútvarpinu og var beðinn algerlega óundirbúinn um tillögur í stóra ráðherramálinu hennar Steinunnar Valdísar. Það var alveg óþarfi á seinni hluta 19. aldar að velja orð með endingunni "herra" fyrir erlenda orðið minister en við sitjum uppi með "ráð" í heitunjm ráðherra og ráðuneyti. Ef við viljum hafa þennan lið áfram á sveimi dettur mér í hug orðið ráðstjóri. Nú er í tísku að nota orðið sviðsstjóri og er notað bæði um konur og karla. Þorgerður Ingólfsdóttir og Þórunn Björnsdóttir eru kórstjórar og engum dettur í huga að breyta því.

Hægt er að nota áfram heitið ráðuneytisstjóri um þann fasta embættismann sem stýrir gangverkinu í ráðuneytinu.

Einhverjum kann að finnast heitið ráðstjóri of líkt orðinu ráðstjórn og ráðstjórnarríki sem notuð voru fyrri part aldarinnar sem leið um sovét og sovétríki en það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar sem man eftir því og fer fækkandi.

Ég minntist á heitið ráðsía í hálfkæringi í gær með þeim rökum að ef ráðsían stæði sig illa mætti kalla hana óráðsíu. Ég er viss um að hægt er að finna nýtt heiti. Orðið sviðsstjóri var algerlega óþekkt fyrir tiltölulega fáum árum en er nú orðið svo algengt um öll möguleg stöðuheiti að mér finnst reyndar nóg um.

Ráðstjóri yrði hins vegar aðeins notað um þá sem núna eru kallaðir ráðherrar.


MARAUTT UPP Í TOPP Á KVERKFJÖLLUM.

Ég var að koma úr ferð á Kárahnjúkasvæðið og lenti auðveldlega á Sauðármel. Landið fyrir innan Herðubreið er marautt, allt upp í topp á Kverkfjöllum, - þar var meiri snjór í ágúst. Ég hef verið að bíða í allt haust eftir tækifæri til að sigla Örkinni um Hálslón með landið hvítt í kring en það færi hefur ekki gefist.

Það hefur verið svo umhleypingasamt að í þau fáu skipti þegar landið hefur gránað, hefur strax á eftir orðið autt í hláku og jafnvel rigningu. 

Lónið er enn autt að mestu en landið líka að mestu autt. 

Hætt er við að lónið muni leggja áður en landið verður hvítt. Þetta tel ég til marks um hlýnun veðurfars. Aðal úrkoman fellur í hvössum suðlægum áttum og þá er yfirleitt þurrt norðan Vatnajökuls eða að úrkoman fellur sem regn. Og hitinn hefur farið yfir tíu stig í næstum 700 metra hæð. 

"Stórhríðin" sem kom fyrir nokkrum dögum náði ekki þarna inn eftir og nær ströndinni féll mun minni snjór en ætla mætti. Bændur nyrðra segja mér að hlákurnar séu lengri og rigni meira en áður, og að norðanáttin færi það lítinn snjó með mér að það verði ekki sömu snjóþyngsli og áður voru algeng, jafnvel heilu veturna. 

En útgerðinni á hálendinu er að ljúka hjá mér og ég er því byrjaður að "loka sjoppunni", þ. e. hætta myndatökum eftir miklu annasamara og viðburðaríkara sumar og haustien ég átti von á. Fór til Reykjavíkur með gamla, litla Toyota pallbílinn sem ég hef haft fyrir austan til að draga Örkina, því að litli Súkkujeppinn getur það ekki.

Stefni að því að taka aftur upp þráðinn næsta sumar þegar hin lónin tvö verða mynduð og tugir fossa þurrkaðir upp, þar af tveir samliggjandi á hæð við Gullfoss.  

Þessi tveggja manna Toyota-pallbíll verður kannski einhvern tíma seinna hluti af hugsanlegu smábílasafni Íslands, og þá sem minnsti Toyota-jöklajeppinn, því að hann er með lækkuð drif og læst drif að framan og aftan og er það léttur (1620 kíló)  og á það stórum hjólbörðum (35") að hann á að geta fylgt 38 tommu bílum auðveldlega. 

 


"EYLAND Í ORKUKERFINU - ÁHÆTTA."

Þessi tvö orð eru tekin úr skýrslu lögfræðings Landsvirkjunar þar sem hann telur upp helstu galla Kárahnjúkavirkjunar til þess að koma þeim eigendum vatnsréttinda niður á jörðina sem héldu að þetta væri svo pottþétt framkvæmd. Vegna sjö mánaðar seinkunar á sölu rafmagns frá Kárahnjúkavirkjun verður álverið í Reyðarfirði að treysta á það fram á útmánuði að fá allt það tiltæka rafmagn til sín sem hundur frá byggðalínunni getur flutt til þess.

Stærri bilun í kerfinu syðra yrði því slæmt mál fyrir Alcoa vegna þess að álverin syðra hafa forgang að orkunni frá suðvesturlandi. Á útmánuðum minnkar áhættan ekki heldur vex, því að þá á Kárahnjúkavirkjun ein að útvega allt rafmagn til Alcoa og verði bilun í Kárahnjúkavirkjun afkastar hundurinn frá byggðalínunni aðeins litlu broti af því rafmagni sem þarf.

Þessu ástandi var lýst í skýrslu Landsvirkjunar á þann hátt að Kárahnjúkavirkjun væri "eylandi í orkukerfinu."

Á teikniborðinu ligga áætlanir um lagningu stórrar línu vestur um hálendið og suður Sprengisand til virkjananna við Þjórsá.

Það verður hins vegar erfitt fjárhagslega að fara út í þá framkvæmd eftir að ljós hefur komið samkvæmt orðum Guðmundar Péturssonar hjá Landsvirkjun að milljarðarnir umfram kostnaðaráætlun séu farnir að hrannast upp.

Einnig hentar það ekki í augnablikinu að fara út í slaginn varðandi það að njörva stóran hluta hálendisins niður í nýjar háspennulínur en þessi áætlun liggur enn jafn fersk fyrir og áætlunin um Norðlingaölduveitu sem er að eins "á ísi" en hefur ekki verið blásin af.  

En þegar og ef stór bilun verður í kerfi Kárahnjúkavirkjunar verður "eylands"lýsingin notuð til að stilla mönnum upp við vegg: Viljið þið þetta áhættuástand áfram eða ekki?

Og þá mun rætast draumurinn um að byrja að njörva hálendið niður í línur og vegi, draumurinn sem sést svo vel í tölvumyndinni sem sýnd hefur verið með öðrum slíkum af Kárahnjúkavirkjun þar sem stóru flutningabílarnir bruna yfir Kárahnjúkastíflu á leið vestur Gæsavatnaleið  og Sprengisand á malbikuðum upphleyptum vegi.  


mbl.is Rafmagnstruflun stöðvaði álframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GRETTISSAGA HIN NÝJA.

"Illt er að eggja óbilgjarnan." Sitt hvað er gæfa og gjörfileiki. Efni Íslendingasagnanna er sígilt og alþjóðlegt, - í dag leikur Mike Tyson svipað hlutverk á alþjóðavísu og Grettir Ásmundsson lék á Íslandi og í Noregi. Skammur tími leið frá því að skipverjar á skipinu sem Grettir synti frá til lands til að ná í eld áttu vart orð til að lýsa þakklæti og hrifningu á honum þangað til Gretti var formælt fyrir að hafa brennt menn inni til bana þegar hann náði eldinum.  Sjá nánar bloggfærslu mína hér á undan.
mbl.is Mike Tyson dæmdur í sólarhrings fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband