"EYLAND Í ORKUKERFINU - ÁHÆTTA."

Þessi tvö orð eru tekin úr skýrslu lögfræðings Landsvirkjunar þar sem hann telur upp helstu galla Kárahnjúkavirkjunar til þess að koma þeim eigendum vatnsréttinda niður á jörðina sem héldu að þetta væri svo pottþétt framkvæmd. Vegna sjö mánaðar seinkunar á sölu rafmagns frá Kárahnjúkavirkjun verður álverið í Reyðarfirði að treysta á það fram á útmánuði að fá allt það tiltæka rafmagn til sín sem hundur frá byggðalínunni getur flutt til þess.

Stærri bilun í kerfinu syðra yrði því slæmt mál fyrir Alcoa vegna þess að álverin syðra hafa forgang að orkunni frá suðvesturlandi. Á útmánuðum minnkar áhættan ekki heldur vex, því að þá á Kárahnjúkavirkjun ein að útvega allt rafmagn til Alcoa og verði bilun í Kárahnjúkavirkjun afkastar hundurinn frá byggðalínunni aðeins litlu broti af því rafmagni sem þarf.

Þessu ástandi var lýst í skýrslu Landsvirkjunar á þann hátt að Kárahnjúkavirkjun væri "eylandi í orkukerfinu."

Á teikniborðinu ligga áætlanir um lagningu stórrar línu vestur um hálendið og suður Sprengisand til virkjananna við Þjórsá.

Það verður hins vegar erfitt fjárhagslega að fara út í þá framkvæmd eftir að ljós hefur komið samkvæmt orðum Guðmundar Péturssonar hjá Landsvirkjun að milljarðarnir umfram kostnaðaráætlun séu farnir að hrannast upp.

Einnig hentar það ekki í augnablikinu að fara út í slaginn varðandi það að njörva stóran hluta hálendisins niður í nýjar háspennulínur en þessi áætlun liggur enn jafn fersk fyrir og áætlunin um Norðlingaölduveitu sem er að eins "á ísi" en hefur ekki verið blásin af.  

En þegar og ef stór bilun verður í kerfi Kárahnjúkavirkjunar verður "eylands"lýsingin notuð til að stilla mönnum upp við vegg: Viljið þið þetta áhættuástand áfram eða ekki?

Og þá mun rætast draumurinn um að byrja að njörva hálendið niður í línur og vegi, draumurinn sem sést svo vel í tölvumyndinni sem sýnd hefur verið með öðrum slíkum af Kárahnjúkavirkjun þar sem stóru flutningabílarnir bruna yfir Kárahnjúkastíflu á leið vestur Gæsavatnaleið  og Sprengisand á malbikuðum upphleyptum vegi.  


mbl.is Rafmagnstruflun stöðvaði álframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hver borgar brúsann, Ómar? Hvaðan eru milljarðarnir teknir? Af skattpeningunum okkar?

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.11.2007 kl. 14:23

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, þeir eru ekki teknir af skattpeningum. Gert var ráð fyrir óvissuþáttum og allt er innan eðlilegra marka. Það er enn betra útlit í dag hvað arðsemina áhrærir, en í upphafi framkvæmda og það þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2007 kl. 15:20

3 identicon

Gunnar, ertu á launum hjá Landsvirkjun?

Jóhann (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 19:15

4 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn fyrir hálendið.

Brynjar Hólm Bjarnason, 20.11.2007 kl. 22:38

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn ef þú trúir öllum hrakspám út í ystu æsar.

Jón Kristófer; er þetta ekki ofmetið hjá ykkur, vandamálið með aurfokið?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 00:50

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég spái því að það verði merkjanlegt einu sinni á ári, jafnvel minna, moldrokið niður á fjörðum af völdum Hálslóns. Í matsskýrslu Landverndar, um umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunnar frá 2001 er ýjað að því að moldrok úr lónsstæðinu sé vanmetið. Engin haldbær rök eru fyrir því mati. Í "rýnismati" Landverndar eru hafðar áhyggjur af hinum viðkvæma gróðri á Vesturöræfunum, þegar moldrokið stendur til vesturs frá Hálslóni. Nú er það svo að hlýjusta vindáttin á Austurlandi, er suð-vestan átt. Sérstaklega getur orðið hlýtt niður á fjörðum, í hnúkaþeynum. Fyrir nokkrum árum var ég í 29 stiga hita á Reyðarfirði og Egilsstöðum, um 10 leytið að morgni. Ég var á leið suður í Borgarfjörð og þegar ég kom til Egilsstaða, þá stoppaði ég við í Shell til að kaupa bensín. Þegar ég steig út úr bílnum, blés hressilegur suð-vestan vindur í andlitið á mér og mér fannst ég standa inni í risastórum hárblásara. Ég hef aldrei verið í jafn miklum hita, í jafn miklum vindi og þennan morgun á Egilsstöðum. Og hef ég þó víða komið við.

En hvað um það, heitir suð-vestan vindar verða ekki vandamál við Kárahnjúka frá miðju sumri. Fyrir þarnn tíma eru vindarnir sjaldnast svo heitir, þegar lónsstaðan er lægst. Síðsumars hefur hækkað mikið í lóninu. Heitir austan vindar eru fremur sjaldgæfir og ótti náttúruverndarfólks á "ómetanlegu" tjóni á viðkvæmum gróðri Vesturöræfa er einkennilegur í ljósi þess að helsta ástæða hins þykka mysturs sem hvílir yfir fjörðunum á heitum sumardögum, er einmitt moldrok frá Vesturöræfum, sem eru að mestu eyðisandar með nokkrum snarrótarhnausum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 02:42

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var nú full rausnarlegur að gefa ykkur moldrok vegna Hálslóns, einu sinni á ári. Það er örugglega minna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 02:55

8 Smámynd: Þórir Kjartansson

Suðurlína á fjallabaksleið nyrðri, ætti að verða mönnum víti til varnaðar.    Sjónmengunin sem hún veldur er ótrúlega mikil.

Þórir Kjartansson, 21.11.2007 kl. 08:20

9 Smámynd: Sævar Helgason

Samkvæmt upplýsingum frá háttsettum starfsmanni við Kárahnjúkaverkefni og kom fram í fréttum fyrir nokkrum dögum þá er Kárahnjúkaverkefnið nú þegar komið nokkrum milljörðum kr. framúr kostnaðaráætlun . Nokkrir milljarðar framúr og verulegt verk eftir til að fullklára verkið. 

Hvað með bakreikning fra Impregilo varðandi jarðgangaverkið sem reyndist í allverulegum mæli frábrugðið útboðslýsingu enda voru jarðrannsóknir á svæðinu afar vanburðugar og tekin mikil áhætta á þeim þætti. Impregilo er velþekkt fyrir að gefa ekkert eftir við lokauppgjör og eru með afar hæft lögmannalið í þeim þætti.

Danir fengu aldeilis að finna til tevatnsins frá Impregilo þegar þeir grófu fyrir neðanjarðarlestarkerfi  þeirra  í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum síðan- aukaverk upp á 300 % frá tilboði þeirra.

Og hver borgar mismuninn á milli þess sem raforkusalan frá Kárahnjúkum stendur undir og þess sem heildarkostnaðurinn verður ?--Auðvitað skattgreiðendur - hverjir aðrir ?

Úr þessu er aðeins hægt að spyrja að leikslokum ,bæði með kostnað og umhverfisáhrifin frá Hálslóni - spádómar þar um eru lítilsvirði úr því sem komið er.

Sævar Helgason, 21.11.2007 kl. 12:40

10 Smámynd: Pétur Þorleifsson

     " Vesturöræfi og nágrenni er eina svæðið á miðhálendissléttunni þar sem enn er víðáttumikill, samfelldur og fjölbreyttur þurrlendisgróður í yfir 600 m hæð yfir sjávarmáli." skrifaði grasafræðingurinn.  Getur verið að fokmistrið niðri á Héraði komi alla leið frá flæðum Jökulsár á Fjöllum ?

Pétur Þorleifsson , 21.11.2007 kl. 14:10

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skoðaðu gerfitunglamyndina HÉR  Pétur. Þú sérð hvaðan uppblásturinn kemur. Þetta gerist afar sjaldan á vorin og snemmsumars þegar lægst er í lóninu. Þá er kalt og jafnvel snjór yfir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 14:29

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er mjög langt seilst í þessari skýrslu, í leit að einhverjum óskilgreindum efa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 18:26

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vestur-Öræfi eru fyrir austan Hálslón og því getur moldrok sem berst til vesturs ekki farið inn á þau. Þetta hlýtur að vera innsláttarvilla hjá þér, Gunnar. 

Hvað snertir spurningar um leirfok geta ég upplýst þetta eftir mörg hundruð flugferðir yfir þetta svæði sést vel að aðalfoksvæðið eru Jökulsárflæður norðan Dyngjujökuls og mistrið þaðan getur auðveldlega sett mestallt norðausturland á kaf allt út á Héraðflóa, 140 kilómetra í burtu.

Einnig getur komið drjúg af vikurbreiðunum fyrir vestan Öskju. Þegar allt þetta svæði er í gangi getur skyggni í Egilsstöðum af völdum þess farið niður í fjóra kílómetra.

Það þarf ekki að vera neitt sérstaklega heitt til að sandurinn fari af stað og augljóst er að fok úr þurru lónstæði Hálslóns getur gert talsvert af sér á Héraði vegna þess að það er helmingi nær Egilsstöðum en Jökulsárflæður.

Það er til marks um hve fjarri sérfræðingar Landsvirkjunar eru því að meta þetta komandi sandfok að blaðakona Fréttablaðsins hringdi í mig á sínum tíma og bar undir mig þá fullyrðingu Péturs Ingólfssonar að einungis 100 tonn eða sem svarar 2-3 búkolluhlössum myndu fjúka!

Ofan í lónið fara tíu milljón tonn af auri á hverju sumri. Mun meira en helmingur þess verður á þurru í júníbyrjun.

Ég ráðlagði blaðakonunni að spyrja Pétur hvort hann hefði ekki meint 100 þúsund  tonn. Meira að segja það væri þó bjartsýnislegt. Hún mætti ekki birta jafn hlægilega áætlun og 100 tonn Péturs vegna ef þetta hefði verið mismæli hjá honum. 

Hún hringdi í Pétur og aftur í mig og sagði að hann hélldi fast við hundrað tonnin. 

Þegar viðtalið kom í blaðinu var spurningunni og svarinu sleppt.

Byrjað var að tappa af lóninu mun seinna núna en verður þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í fullan rekstur. Ég tel því líklegt að mun minna af lónbotninum verði þurr næsta sumar en næstu sumur þar á eftir.

Því mun hin endanlega útkoma ekki liggja fyrir fyrr en eftir 2-4 ár.

Við síðasta viðtali Péturs við mig var hann aftur búinn að taka fram áætlunina um að láta flugvélar dreifa rykbindiefni yfir þurran lónbotninn. Það verður stærra svæði að rykbinda en allt íslenska vegakerfið og þarf að gera það á örfáum dögum, því að reynslan frá flóði Jöklu í botni Hjalladals 2004 sýndi að þessi fíni leir þornar á örfáum klukkustundum.

Ef flugvélarykbindingin verður reynd verður það þvert ofan í álit Landgræðslustjóra sem taldi slíkt með öllu óframkvæmanlegt, bæði vegna magnsins sem dreifa þarf og þess að þessi rykbindiefni eru mengandi.  

Ómar Ragnarsson, 21.11.2007 kl. 21:19

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil benda Gunnari á að samkvæmt viðtali við Guðmund Pétursson er kostnaðurinn þegar kominn fram úr því sem ætlað fyrir "ófyrirséðu."

Eins og ég hef benta á fyrr og hef gögn fyrir var misgengisbeltið sem olli mestöllum vandræðunum auðséð úr lofti, - ekki "ófyrirséð." Það eina sem var ófyrirséð var hve mikil vandræðin yrðu og alveg eins hefðu þau getað valdið því að gangaborunin hefði verið óframkvæmanleg. En "við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð var" sagði fjölmiðlafulltrúinn.

Þjóðin mun borga brúsann, það var úrslitaforsendan fyrir því að farið var út í þessa virkjun.  

Ómar Ragnarsson, 21.11.2007 kl. 21:24

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eina skaðlega efnið í rykbyndiefni er salt og það er ekki þrávirkt.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir tók saman álitsgerð og sendi Kipulagsstofnun brér dags. í Reykjavík 15. júní 2001. Í haus bréfsins stóð eftirfarandi: 

Undirrituð hefur að beiðni Skipulagsstofnunar tekið saman eftirfarandi álitsgerð um framlagðar matsskýrslur er varða áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gróður og jarðvegsrof.

Þóra Ellen gerir athugasemd við það magn af jarðefni sem matsskýrslan gerði ráð fyrir að hreyfðist í vindi en hún áætlar að 38 tonn af jarðefnum hreyfist á hvern lengdarmetra lækkaðrar lónshæðar, miðað við 15/m/sek.vindhraða.

Skýrslan er krækjan sem Pétur Þorleifsson bendir á.

Lestur skýrslu Þóru Ellenar vekja hjá manni þau viðbrögð að þarna hafi hún látið verndarhugsjónina leiða sig í gönur. Öllu er tjaldað til til þess að vekja efasemdir hjá leikmönnum, tilgangurinn helgar meðalið.

 

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 23:43

16 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ég skil ekki áhyggjur Ómars, en þakka samt hina miklu umhyggju sem hann ber til okkar austfirðinga.  Ég er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum, hef búið hér nær allan minn aldur og síðan 1981 hef ég unnið í flugturninum á Egilsstaðaflugvelli, og tel mig nokkuð dómbæran á þetta meinta moldrok. Þetta sem þið kallið moldrok er í raun leirfok og finn öskusalli, en það er nú allt annað mál.

Mín upplifun er þessi.  Einu sinni til tvisvar sinnum á ári er hér leirfok.  Það fer eftir vindáttinni hvert mökkurinn stefnir.  Stundum fer hann suður um með stefnu frá Öskju til Djúpavogs.  Stundum rýkur leirinn frá sama svæði með stefnu á Vopnafjörð.   Af og til er stefnan yfir Egilsstaði og þá er skyggnið yfirleitt milli 8 og 9 km.  Ég hef einu sinni á öllum þessum tíma orðið vitni að skyggni sem er um og innan við einn km og sá þá ekki úr flugturninum yfir í Fellabæ, handan Lagarfljóts. 

Þetta leirfok er frá svæðinu sunnan við Öskju en mest frá svæðinu í kringum Jökulsá á Fjöllum, af svæði sem er margfalt stærra en allt svæðið sem mögulega kemur undan vatni við lónið við Kárahnjúka.   Hugsanlega bætist einhver örfá prósent við strókinn á meðan þetta ástand varir, en hvort skyggnið verður 7.5 til 8,5 km skiptir bara engu mála, jafnvel þó að á tuttugu ára fresti sjáist ekki frá flugvellinum yfir í Fellabæ.  Þetta er mjög finn salli og smýgur inn um allt og kallar á aukahreingerningu á heimilunum þegar verst lætur.

En, - enn og aftur, þakka hina miklu umhyggju sem okkur er sýnd vegna þessara vandamála, sem við heimamenn sjáum reyndar ekki sem mikið vandamál, bara náttúrulegt fyrirbæri sem lifa þarf með.

Benedikt V. Warén, 22.11.2007 kl. 00:09

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Samkvæmt gerfitunglamyndinni af moldrokinu sem ég benti á hér ofar, þá er uppruni foksins mun austar en Hálslón og þa.l. fjær Egilsstöðum

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.11.2007 kl. 01:02

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ah...átti að vera vestar en Hálslón

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.11.2007 kl. 04:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband