19.11.2007 | 23:02
GRETTIR OKKAR TÍMA.
Sitt er hvað, gæfa og gjörvileiki. Illt er að eggja óbilgjarnan. Setningarnar úr Grettlu spretta fram í hvert sinn sem heyrast fréttir af Mike Tyson, alltaf slæmar. Grettir synti frækið sund úr skipi í land eftir eldi í náttmyrkri og vetrarhörku í Noregi og var dæmdur fyrir að hafa orðið mönnum að bana í kofa, sem hann fór inn í klakabrynjaður og ógurlegur og náði eldinum en dauðhræddir menn í kofanum börðu á honum með eldibröndum og við það kviknaði í kofanum og þeir brunnu inni.
Ég kom á þennan stað fyrir níu árum og einnig á kirkjustaðinn í Þrándheimi þar sem skapbræðin eyðilagði eiðstaf Grettis í sérstakri kirkjuathöfn þegar strákstauli gekk að honum og "gaf honum fingur" eins og segir í sögunni. Voru kannski "fuck-merkin" komin þá?
"Tyson óðan telja má.
Þó tel ég líklegt vera
að bullur þær er bíta og slá
brúki flestar stera "
orti Pétur Pétursson læknir á Akureyri um það þegar Tyson beit eyrað af Holyfield.
Hnefaleikasérfræðingar erlendir auka á niðurlægingu Tysons með því að skipa honum að mínum dómi alltof neðarlega á lista yfir bestu þungaviktarhnefaleikara allra tíma, - jafnvel aftarlega á lista yfir þá sem réðu yfir bestu höggunum (best puncher). Þeir hafa í huga allan feril hans en ég vil meta hann eins og hann var bestur á milli 1985 og 1988.
Ali var langhraðastur allra og hefði á hátindi sinnar getu sigrað Tyson á hátindi sinnar getu. En mér finnst óhugsandi að raða upp bestu þungaviktarhnefaleikurum allra tíma og hafa Tyson ekki meðal tólf efstu.
Enginn þungviktarmaður hefur ráðið samtímis yfir jafn miklu afli og hraða, - og Tyson var í sérflokki með það að rota menn með upphöggum. Raunar var það afar fjölbreytileg flóra af krókum og yfirhandar höggum sem hann rotaði með þessi fáu misseri sem hann var uppá sitt besta.
Síðan 1989 hefur leiðin legið niður á við og þegar hann lagði sér til munns eyrað af hinum dökka mótstöðumanni sínum óskaði ég þess að við Íslendingar gætum tekið á móti fleiri flóttamönnum en við gerum:
Ef Tyson til Íslands náum við nú í vetur, -
því norpandi í fangelsinu er ævi hans ill, -
á þorrablótum hér gæti hann bætt um betur
og borðað eins marga svarta hausa´og hann vill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2007 | 14:32
EKKI SEINNA VÆNNA.
Það er ekki seinna vænna að fólk á suðuvesturhorni landsins ranki við sér hvað varðar þá leið virkjanahraðlestarinnar sem liggur um Reykjanesskagann. Ályktun Hvergerðinga gegn Bitruvirkjun er því fagnaðarefni. Fyrir tæpum áratug uggðu þeir ekki að sér og leyfðu lagningu háspennulínu að óþörfu nánast yfir fallega hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Nú hafa þeir vaknað og er það vel. Ekki skal erfa mistök fortíðar og kannski kemur sá tími sem menn muni geta fært háspennulínuna til.
Ég tel viðleitni náttúruverndarfólks til að andæfa Bitruvirkjun ekki geta talist öfgar í ljósi þess að þetta virkjunarsvæði er landfræðilega aðeins eitt af sex slíkum svæðum á Hengilssvæðinu.
Á sínum tíma voru sunnlenskar mýrar ræstar fram og framræsla hverrar einustu mýrar var þá talið þjóðþrifaverk. Svo vöknuðu menn upp við það að búið var að eyða 97% votlendis á Suðurlandi, langt umfram eðlilegar þarfir, og sjá eftir því í dag að hafa gengið svo langt fram.
Rétt eins og við, sem andæfum Bitruvirkjun, erum kölluð öfgafólk, var það sama sagt um Nóbelskáldið og aðra sem vöruðu við allsherjar útrýmingu votlendis í stórum landsfjórðungum.
Þeir sem heimta að allt virkjanlegt sé virkjað kalla sig hins vegar hófsemdar- og skynsemdarfólk.
Ég býð Hvergerðinga velkomna í hóp hins svokallaða "öfgafólks." Mæli þeir manna heilastir. Dilkadráttur virkjanasinna á fólki í hópa öfgafólks eða hófsemdarfólks dæmir sig sjálfur.
![]() |
Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.11.2007 | 20:17
BJART ER YFIR BETLEHEM, AFSAKIÐ, GLATT YFIR GARÐHEIMUM.
Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að blogga verð ég að taka pistil til endurskoðunar vegna misheyrnar. Í fyrrakvöld heyrðist mér að sagt væri í sjónvarpsauglýsingu: Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna. Í kvöld heyrði ég þessa auglýsingu aftur og uppgötvaði að þetta var misheyrn hjá mér í fyrrakvöld. Nú hljómar þetta svona: "Glatt er yfir Garðheimum / glitrar jólastjarna." Þetta er þó skárra en það sem mér heyrðist í fyrrakvköld vegna þess að ljóðstafasetningin er rétt og því falla dauð niður ummæli mín um ranga ljóðstafasetningu og biðst ég afsökunar á því.
Að öðru leyti er eðli málsins hið sama, - að taka jólasálm sem allir þekkja og er fólki tamur á tungu og afbaka hann í gróðaskyni án þess að hafa samband við afkomendur höfundar sálmsins vegna höfundarréttar sem meðal annars felst í svonefndum sæmdarrétti.
Hvað myndi fólk segja ef þessi auglýsing færi að dynja: "Í Bónusi er barn vort klætt / barn vort klætt." Mér skilst að hægt sé að kaupa sokkaplögg í Bónusverslunum svo að þetta er ekki útilokað.
Eða ef versluninn Örninn auglýsti: "Heims um ból / helg eru hjól"...?
Ég veit það bara að mér yrði ekki sama ef auglýst væri: "Úr og klukkur klingja / kalda vetrarnótt" og síðan nefnt nafn úrsmiðsins sem auglýsti svona.
Ég verð að segja að mér finnst það ekki lýsa frumleika þegar seljendur varnings finna ekkert annað til að auglýsa varning sinn með en afbakanir á þekktum sálmum eða jólalögum. Þvert á móti finnst mér það lýsa hugmyndafátækt að ekki sé talað um smekkleysi og tillitsleysi gagnvart höfundum og rétti þeirra.
Næsta skref hjá Garðheimum gæti verið að láta syngja og spila í auglýsingu: "Allt eins og blómstrið eina / upp vex í Garðheimum."
Kannski hefði ég átt að sleppa þessu með útfararsálminn vegna þess að Hallgrímur Pétursson er svo löngu dauður að ekki er hætta á afskiptum höfundar eða erfingja hans og ég er kannski að benda eigendum Garðheima auðvelda leið til að nota sálma til að auka söluna hjá sér.
Öðru máli gildir hins vegar um Ingólf heitinn Jónsson frá Prestbakka, höfund jólasálmsins "Bjart er yfir Betlehem" sem var samtíðarmaður meirihluta Íslendinga og á nána að til að leita réttar í þessu máli ef til þess kemur.
Þar rennur mér meira að segja blóðið til skyldunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2007 | 14:02
JÖRÐIN HLÝTUR AÐ VERA FLÖT, ÓLAFUR TEITUR.
Ólafur Teitur Guðnason heldur því mjög á lofti í Silfri Egils, sem ég er að horfa á, að Hjörleifur Guttormsson, sá mæti sérfræðingur um íslenska hálendið, hafi sagt í ferðabók sinni um Kringilsárrana að þar væri ekkert merkilegt að sjá. Þessu hafa fylgismenn Kárahnjúkavirkjunar haldið mjög á lofti við að réttlæta virkjunina.
Hjörleifur Guttormsson vann afreksverk á sínum tíma með því að ganga um stóran hluta landsins sem einna erfiðastur er yfirferðar og rita um það merkar bækur.
Í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar fóru hins vegar margir vísindamenn um þann hluta þessa víðfeðma ferðasvæðis Hjörleifs og afraksturinn var fjöldi nýrra vísindalegra niðurstaðna um lónstæði Hálslóns.
Ein þeirra var sú að hólaröð yfir þveran Kringilsárrana sem nefnist Hraukar ætti sé enga hliðstæðu annars staðar í veröldinni, - ekki einu sinni á Svalbarða eins og nefnt var í matsskýrslunni. Þetta gat Hjörleifur ekki vitað.
Hraukarnir eru afrakstur þess að enginn skriðjökull heims hleypur eins hratt fram og Brúarjökull, - annað einsdæmi í Kringilsárrana.
Rannsóknir á sethjöllunm í Hjalladal bentu til þess að Jökla væri afkastamesti listamaður jökulfljóta heims, - hefði grafið Hafrahvammagljúfur að mestu á aðeins 700 árum. Þetta vissi Hjörleifur ekki né nokkur annar á hans ferðatíma.
Þar sem ég lenti flugvélum á því sem sýndist vera lítill sethjalli í botni dalsins var í raun árbotninn eins og hann var fyrir fjörutíu árum því að áin hafði á þessum örfáu árum grafið sig niður í 10-15 metra djúpt gljúfur framhjá lendingarstaðnum og búið til frábær náttúrufyrirbæri, hina litfögru kletta Stapana, Rauðuflúð og Rauðagólf.
Hún hefði vafalaust haldið áfram að búa til Rauðugljúfur ef öllu þessu svæði hefði ekki verið sökkt.
Þetta vissi Hjörleifur ekki og hefur líklega ekki gengið um þennan hluta dalsins. Ég vissi þetta ekki fyrr en tíu dögum áður en dalnu var sökkt. Bændurnir á Aðalbóli í Hrafnkelsdal vissu þetta en voru aldrei spurðir.
Rauða bergtegundin sem mótaði þetta svæði og gaf Rauðuflúð, Rauðagólfir og Stöpunu litfegurðina er sjaldgæf djúpbergtegund sem sýnir að þarna er eldvirkt svæði.
Ólafur Teitur og hans skoðanasystkin vilja halda sig við hina eldri vitneskju en ekki hina nýrri.
Á sama hátt má maður búast við því að Ólafur Teitur muni telja visku færustu vísindamanna heims á fjórtándu öld sýna fram á að jörðin sé flöt og að í verkum færustu líffræðinga og dýrafræðinga heims í byrjun 19. aldar sé óyggjandi vitnisburður um það hve fráleitt sé að maðurinn sé kominn af öpum.
Hin eldri vitneskja skal blíva, hin nýrri og fullkomnari að engu höfð.
Í málflutningi Ólafs Teits eru í raun settir fram tveir kostir:
1. Hjörleifur Guttormsson er og var frábær fræðimaður og þess vegna var ekkert merkilegt að sjá í lónstæði Hálslóns og hið besta mál að sökkva Hjalladal undir leiðsögn hans.
2. Ef eitthvað merkilegt var að sjá í lónstæði Hálslóns sýnir það að ekkert var eða er að marka Hjörleif Guttormsson.
Ég hef hér að framan fært að því rök því hve ósanngjörn og grunnfærinn þessi málflutningur er af hálfu þess blaðamanns sem hefur nú sett sig á stall nokkurs konar hæstaréttardómara yfir starfsbræðrum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
18.11.2007 | 12:52
"TÍÐAHVÖRF" Í MÁLFARI.
Heyrði í útvarpi í hádeginu: "..... sagði að ekki hafi verið rætt um hvað gera skyldi" og kýs að kalla þetta "tíðahvörf" í málfari. Það er algengt að menn detti í þennan pytt en minn gamli lærifaðir, Emil Björnsson, kenndi mér einfalt ráð við þessu. Ef setningin byrjar í þátíð heldur hún áfram í þátíð og ef hún byrjar í nútíð heldur hún áfram í nútíð.
Í setningunni hér að ofan er byrjað í þátíð, farið yfir í nútíð og síðan aftur yfir í þátíð.
Rétt væri setningin svona: "...sagði að ekki hefði verið rætt um hvað gera skyldi."
Ég hef hingað til ekki verið með málfarsábendingar í pistlum mínum en mér sýnast vera dagleg tilefni eftir dag íslenskrar tungu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2007 | 23:12
LIÐSAUKI Í BARÁTTUNNI UM LAUGARVATNSVEG.
Ástæða er til að fagna liðveislu Gísla Sigurðssonar í Morgunblaðsviðtali í baráttunni fyrir því að fara betri leið milli Reykjavíkur og Laugarvatns en nú er fyrirhugað með nýjum Gjábakkavegi. Gísli er á svipuðu róli og ég benti á fyrir 2-3 árum um að fara sunnan Þingvallavatns og nú má velja um þrjár leiðir: 1. Þessa leið Gísla um land Villingavatns og beint vestur á norðanverða Hellisheiði. 2. Leið sem ég benti á fyrir tveimur árum gegnum Dyrafjöll og yfir Kaldárhöfða og sunnanverða Lyngdalsheiði. 3. Leið um Grímsnes norðanvert yfir Sog og um Grafningsskarð til Hveragerðis.
Vonandi verður töf á lagningu fyrirhugaðs Gjábakkavegar til þess að menn taki sér betri tíma og leysi þetta mál án þess að hætta á óþarfa ágang og umhverfstjón við norðanvert Þingvallavatn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 22:50
HVAÐ ER UNNIÐ MEÐ SVONA AKSTRI?
Ég játa að fyrir fimmtíu árum var ég glannafenginn unglingur sem hætti til að umgangast bíla eins og gæðinga sem gaman er að hleypa. Fleiri en ég gátu látið sér detta í hug að setja t. d. "hraðamet" á leiðum eins og og Akranes-Reykjavík. En síðan eru liðin fimmtíu ár og í umferð sem hefur margfaldast er cannonball-akstur slæmt fordæmi fyrir hættulegum fíflagangi í umferðinni.
Á áttunda áratugnum komu til skjalanna bílaíþróttir eins og kvartmíla, rallykross og rall og síðan þá er alls engin afsökun fyrir því að fara hamförum í almennri umferð. Menn geta bara farið og hleypt stálgæðingum sínum á lokuðum til þess gerðum brautum ef þeir telja sig þurfa að fá útrás eða sanna sig sem ökumenn fyrir sjálfum sér eða öðrum.
![]() |
Á ofsahraða yfir þver Bandaríkin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.11.2007 | 17:52
BLIKUR Á LOFTI UM BATNANDI VEÐUR?
Merki dags íslenskrar tungu sjást í fjölmiðlum til dagsins í dag og hér er því ábending. Það færist í vöxt að fjölmiðlafólk viti ekki um uppruna orðtaka sem það notar. Í gær sagði útvarpskona: "Eru blikur á lofti um það að húsnæðiverð geti lækkað á ný? " Í útvarpsþætti nýlega sagði maður þrívegis á stuttum tíma er hann var að rekja feril tónlistarmanns: "Þegar hér var komið við sögu." Hvort tveggja er málleysa og fyrri setningin um blikuna er hrein steypa.
Ég hef heyrt báðar þessar málleysur oftar en einu sinni úr munni fjölmiðlafólks og virðist í uppsiglingu tískunotkun, byggð á misskilningi.
Orðtakið "blikur á lofti" er leitt af því fyrirbrigði í veðurfari þegar bliku dregur á loft er lægð nálgast og í kjölfarið fylgir rok og rigning eða hríð, jafnvel óveður. Þess vegna hefur það hingað til ævinlega verið eingöngu notað um váboða eða slæmar horfur. Þess utan hefur það aldrei verið notað á þann hátt að segja: "Blikur á lofti um..."
Gamla þulnum, sem sat hjá græði í kaldri Skor þegar Eggert Ólafsson lagði frá landi, leist ekkert á vindaskýin sem hrönnuðust upp á himnum, honum leist ekki á blikuna.
Útvarpskonan hefði alveg eins geta spurt viðmælanda sinn: Líst þér ekkert á blikuna um það að húsnæðislán geti lækkað á ný?
Í spurningu útvarpskonunnar getur það aðeins falist það að henni finnist það kvíðvænlegt að húsnæðisverð lækki. Henni getur reyndar fundist það ef hún fær prósentur af hærra fateignaverði eða á húseign sem hún leigir út.
Sagt er að blikur séu á lofti í ákveðnum málum, blikur á lofti í alþjóðamálum, blikur á lofti í efnahagsmálum, blikur á lofti í húsnæðismálum. Alltaf er um að ræða teikn eða fyrirboða um versnandi ástand. Menn gætu líka orðað með þetta með því að segja að það séu slæmar horfur eða váboðar.
"Þegar hér er komið við sögu" heyrist æ oftar sagt. Þarna er því ruglað saman "að koma við sögu" og "þegar hér er komið sögu."
Þegar sagt er: "Þegar hér er komið við sögu..." liggur næst að spyrja: Hvað eða öllu heldur er hér kominn við sögu?
Að koma við sögu er yfirleitt notað um persónur um þá sem tengjast atburðarás sögunnar eða málsins og lýsingarorðin mikið eða lítið notað til að tilgreina hve samofin tilvera þess sem um er rætt er sögunni eða atburðarásinni.
Jónas Hallgrímsson kom mikið við sögu í menningarmálum Íslendinga en Sigurður Breiðfjörð kom minna við sögu.
Þeir sem blanda saman orðtökunum "að koma við sögu" og "þegar hér er/var komið sögu" virðast koma æ meira við sögu í íslenskum fjölmiðlum, því miður, og því eru blikur á lofti í notkun íslensks máls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 21:00
DAPURLEG AFBÖKUN Á DEGI TUNGUNNAR.
Dagur íslenskrar tungu er aðeins einu sinni á ári. Þess vegna verða pistlar mínir fimm af því tilefni og ef einhverjum finnst þessi pistill þunglyndislegur ættu hinir pistlarnir að bæta það upp.
Heyrði að sagt var í auglýsingu í sjónvarpi: "Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna" og hnykkti við. Þarna er tekið upphaf þekktasta ljóðs frænda míns sáluga, Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka, og vegið að sæmdarrétti höfundar auk þess sem hin einstæða og sérstaka hrynjandi íslenskrar tungu er fótum troðin og það á sjálfum degi íslenskrar tungu.
Þetta er þar á ofan jólasálmur en ekki hversdagsleg tækifærisvísa og afbakaða útgáfan af jólasálminum á að auka gróða verslunareigandans.
Lítum nánar á þetta alþekkta ljóð, - sálm sem sunginn er fyrir hver jól, og ljóðstafina sem ég auðkenni með hallandi, feitletruðum stöfum:
Bjart er yfir Betlehem.
Blikar jólastjarna,
stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarnan allra barna.
Var hún áður vitringum
vegaljósið skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.
Ég þarf ekki að halda lengra áfram, allt ljóðið er ort í þessu erfiða, knappa formi, af smekkvísi og nákvæmni listamanns sem veit hvað hann er að gera og hvað hann vill. Á bak við þetta ljóð sem virðist við fyrstu sín svo einfalt og blátt áfram liggur mikil vinna og hagleikur höfundar því að hendingarnar eru svo ofurstuttar að það þarf sérstaka færni og skipulega hugsun til þess að viðhalda þessu órofa samræmi og samtengingu takts og ljóðstafaforms og skapa um leið einfalt, sterkt, hugljúft og fagurt verk.
Að eyðileggja einn af þremur ljóðstöfum í fyrstu tveimur hendingunum samsvarar því að breyta tónum, laglínu og takti í lagi tónskálds.
Það er ekki að ástæðulaus að Megasi voru veitt verðskulduð verðlaun á degi íslenskunnar því hann á ómetanlegan þátt í því að koma í veg fyrir að hið sérstæða íslenska ljóðaform, sem er hliðstætt takti í tónlist, fari í glatkistuna.
Þetta verk Megasar er svona álíka og að tóhskáld hefði bjargað bossanova-taktinum sem er svo tengdur Suður-Ameríku, frá glötun.
Í kvöld prófaði Benedikt Erlingsson að fara með Gunnarshólma í rapptakti og einhver kann að spyrja hvort það hafi verið brot á sæmdarrétti Jónasar. Að mínum dómi var það ekki. Ég heyrði ekki betur en Benedikt héldi vel til haga ljóðstafaáherslum Jónasar og færi rétt með ljóðið.
Ingólfur Jónsson er ekki lengur á meðal lifenda til að bera hönd fyrir höfuð sér, en augljóst er að hann hefði aldrei leyft þetta skemmdarverk á þekktasta ljóði sínu og látið viðgangasta tvöföld aðför að höfundarrétti, annars vegar því að gera þetta að afkomendum hans forspurðum og án þess að reyna einu sinni að semja um málið, og hins vegar með því að vega að sæmdarrétti höfundar.
Ingólfur Jónsson hefði aldrei látið vanta einn ljóðstaf í þessu ljóði eða öðrum.
Eitt getur þó hlotist gott af þessu slysi. Það myndi felast í því að eigendur fyrirtækisins og /eða auglýsingastofunnar drægju þessa auglýsingu til baka og bæðust afsökunar.
Með því myndu þeir vinna miklu meira þarfaverk en það eitt að bæta fyrir mistök sín, heldur einnig vekja athygli á því hve miklu varðar að viðhalda hinu sérstæða íslenska ljóðaformi sem er ígildi hljóðfalls eða takts í tónlist.
Ég tel ekki meiri rök fyrir því að hafna þessari hefð á þeim forsendum að hún sé erfið og bindi ljóðskáld í fjötra heldur en því að hafna takti tónlistar af sömu ástæðum.
Þess vegna er svo mikilvægt að þetta mál, sem sýnist ekki stórt, verði ekki látið liggja í þagnargildi né látið undan síga hvað varðar frekari málarekstur, þurfi til hans að koma.
Vonandi þarf þess ekki. Það varðar miklu fyrir aðra ljóðahöfunda að ekki sé hægt að leika verk þeirra svona grátt á sjálfum jólunum, - ég tala nú ekki um þegar um jólasálm er að ræða.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
16.11.2007 | 20:48
UPPSKERA METNAÐAR OG VANDVIRKNI.
Ég samgleðst þeim sem fengu viðurkenningar í kvöld á degi íslenskrar tungu. Viðurkenningin til útvarpsins ætti að vera fjölmiðlamönnum hvatning til að brýna stílvopn sín og nota þau af listfengi við að skila mikilvægum skilaboðum til almennings.
![]() |
Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.11.2007 kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)