DAPURLEG AFBÖKUN Á DEGI TUNGUNNAR.

Dagur íslenskrar tungu er aðeins einu sinni á ári. Þess vegna verða pistlar mínir fimm af því tilefni og ef einhverjum finnst þessi pistill þunglyndislegur ættu hinir pistlarnir að bæta það upp.

Heyrði að sagt var í auglýsingu í sjónvarpi: "Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna" og hnykkti við. Þarna er tekið upphaf þekktasta ljóðs frænda míns sáluga, Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka, og vegið að sæmdarrétti höfundar auk þess sem hin einstæða og sérstaka hrynjandi íslenskrar tungu er fótum troðin og það á sjálfum degi íslenskrar tungu.

Þetta er þar á ofan jólasálmur en ekki hversdagsleg tækifærisvísa og afbakaða útgáfan af jólasálminum á að auka gróða verslunareigandans.   

Lítum nánar á þetta alþekkta ljóð, - sálm sem sunginn er fyrir hver jól, og ljóðstafina sem ég auðkenni með hallandi, feitletruðum stöfum:

Bjart er yfir Betlehem.

Blikar jólastjarna, 

stjarnan mín og stjarnan þín, 

stjarnan allra barna. 

Var hún áður vitringum 

vegaljósið skæra. 

Barn í jötu borið var, 

barnið ljúfa, kæra. 

Ég þarf ekki að halda lengra áfram, allt ljóðið er ort í þessu erfiða, knappa formi, af smekkvísi og nákvæmni listamanns sem veit hvað hann er að gera og hvað hann vill. Á bak við þetta ljóð sem virðist við fyrstu sín svo einfalt og blátt áfram liggur mikil vinna og hagleikur höfundar því að hendingarnar eru svo ofurstuttar að það þarf sérstaka færni og skipulega hugsun til þess að viðhalda þessu órofa samræmi og samtengingu takts og ljóðstafaforms og skapa um leið einfalt, sterkt, hugljúft og fagurt verk. 

Að eyðileggja einn af þremur ljóðstöfum í fyrstu tveimur hendingunum samsvarar því að breyta tónum, laglínu og takti í lagi tónskálds.

Það er ekki að ástæðulaus að Megasi voru veitt verðskulduð verðlaun á degi íslenskunnar því hann á ómetanlegan þátt í því að koma í veg fyrir að hið sérstæða íslenska ljóðaform, sem er hliðstætt takti í tónlist, fari í glatkistuna.  

Þetta verk Megasar er svona álíka og að tóhskáld hefði bjargað bossanova-taktinum sem er svo tengdur Suður-Ameríku, frá glötun.  

Í kvöld prófaði Benedikt Erlingsson að fara með Gunnarshólma í rapptakti og einhver kann að spyrja hvort það hafi verið brot á sæmdarrétti Jónasar. Að mínum dómi var það ekki. Ég heyrði ekki betur en Benedikt héldi vel til haga ljóðstafaáherslum Jónasar og færi rétt með ljóðið.  

Ingólfur Jónsson er ekki lengur á meðal lifenda til að bera hönd fyrir höfuð sér, en augljóst er að hann hefði aldrei leyft þetta skemmdarverk á þekktasta ljóði sínu og látið viðgangasta tvöföld aðför að höfundarrétti, annars vegar því að gera þetta að afkomendum hans forspurðum og án þess að reyna einu sinni að semja um málið, og hins vegar með því að vega að sæmdarrétti höfundar.

Ingólfur Jónsson hefði aldrei látið vanta einn ljóðstaf í þessu ljóði eða öðrum.  

Eitt getur þó hlotist gott af þessu slysi. Það myndi felast í því að eigendur fyrirtækisins og /eða auglýsingastofunnar drægju þessa auglýsingu til baka og bæðust afsökunar.

Með því myndu þeir vinna miklu meira þarfaverk en það eitt að bæta fyrir mistök sín, heldur einnig vekja athygli á því hve miklu varðar að viðhalda hinu sérstæða íslenska ljóðaformi sem er ígildi hljóðfalls eða takts í tónlist.

Ég tel ekki meiri rök fyrir því að hafna þessari hefð á þeim forsendum að hún sé erfið og bindi ljóðskáld í fjötra heldur en því að hafna takti tónlistar af sömu ástæðum.

Þess vegna er svo mikilvægt að þetta mál, sem sýnist ekki stórt, verði ekki látið liggja í þagnargildi né látið undan síga hvað varðar frekari málarekstur, þurfi til hans að koma.

Vonandi þarf þess ekki. Það varðar miklu fyrir aðra ljóðahöfunda að ekki sé hægt að leika verk þeirra svona grátt á sjálfum jólunum, - ég tala nú ekki um þegar um jólasálm er að ræða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, það er dapurlegt þegar saman fer klúður og smekkleysi. Virðingarleysi fyrir ljóði er skortur á virðingu fyrir tungumálinu. Fátt hefur verndað íslenska tungu betur en hið meitlaða ljóðform sem við eigum í svo ótal mörgum myndum.

Ég felli ekki dóm yfir flutningi Benedikts á Gunnarshólma og vissulega hélt hann til haga flestum "stuðlanna skorðum" ljóðsins. En öll myndræn sýn þessa magnaða listaverks var horfin mér í þessum flutningi.

Árni Gunnarsson, 16.11.2007 kl. 23:27

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þó ég sé þér nokkuð sammála eru Glaðheimar að vekja ÁHUGA barna á ljóðum, með því að tengja það þeim sjálfum.

Ég hef farið með fyrir 4 ára son minn síðan hann fæddist...einskonar "faðirvor" og afbakað það í augnablikinu, en vona að þann muni læra þetta allt seinna, rétt og betur.

Þó að kali heitur hver

Hylji dali heitur hver

Steinar tali hvað sem er

Aldrei gleymir mamma þér 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.11.2007 kl. 23:27

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þó að kali heitur hver

Hylji dali jökull ber

Steinar tali hvað sem er

Aldrei gleymir mamma þér

..svona 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.11.2007 kl. 23:29

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sérlega ósmekklegt hjá Garðheimum. Betra hefði verið, úr því þeir vildu koma jólastemningu í auglýsingu sína, að syngja einfaldlega "Bjart er yfir Betlehem", eða látið tónmálið duga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2007 kl. 23:41

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

..ekki ósmekklegt, ef fylgni við ljóðið sjálft er til staðar. Einmitt mjög hvetjandi og sniðugt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.11.2007 kl. 23:46

6 Smámynd: Ingimar Eydal

Það virðist ekki vera takmörk fyrir því hvað gróðahyggjan leyfir sér, þetta er sérlega ósmekklegt!

Tilgangurinn að breyta sálmi til að græða peninga, það segir talsvert um hugsunina á bakvið, mér brá þegar ég sá þessa auglýsingu og fannst hún sorgleg.

Heims um ból, Hagkaup um jól...... kannski næst??

Ingimar Eydal, 17.11.2007 kl. 00:41

7 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég væri til í að heyra þig sjálfan flytja Gunnarshólma, Ómar minn. Gott hjá þér að minna okkur á ljóðstafina. Ekki veitir af.  Svo á að láta börn og unglinga læra ljóð utanbókar. Kveðja.

Eyþór Árnason, 17.11.2007 kl. 00:45

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Heims um ból / Hagkaup um jól"   er ekki eins mikil breyting og Bjart er yfir Garðheimum, því að í stað "helg" kæmi orðið "Hagkaup".

Hliðstæðara væri: "Heims um ból  / Krónan um jól"...

Það myndi líka skila betur hugsunarhættinum um að græða krónur á afbökun jólasálmsins.  

Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 01:26

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað hefðu þeir átt að breyta þessu "almennilega", t.d. í Glatt er nú í Garðheimum, glitrar jólastjarna.

G. Tómas Gunnarsson, 17.11.2007 kl. 05:11

10 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Þetta minnir mig á það þegar Flosi Ólafsson sagði í auglýsingu fyrir Ölgerðina: "Víst ávallt þeim vana halt að vera hress og drekka malt."

Fyrir þeta fékk hann óbóta skammir og sendi frá sér eftirfarandi í iðrun og yfirbótarskyni:

Víst ávallt þeim vana halt
vinna, lesa, iðja,
en umfram allt þú ætíð skalt
elska guð og biðja ... um malt!

Soffía Sigurðardóttir, 17.11.2007 kl. 05:21

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm ef verið er að vekja áhuga á ljóðlist þarna, þá held ég að menn ættu nú að sjá sóma sinn í að haffa formið samkvæmt hefðinni og afbaka það ekki.  Fyrir mér er þetta annars eingöngu í gróðaskyni og ömurleg smekkleysa. Börn eru farin að syngja á Jólunum er Nóakonfekt...sem er afbökun á ljóðinu á Jólunum er gleði og gaman. Ekki er stuðlasetningin bætt þar heldur.  Önnur dæmi eru til um þessa plágu, sem ég enni ekki að telja upp.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 11:42

12 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Ég held að það sé mikill misskilningur hjá Önnu að Glaðheimar séu að vekja áhuga barna á ljóðum, sé  ekki annað en þeir séu eingöngu að auglýsa sjálfa sig, og ekki nóg með það heldur beina auglýsingunni sérstaklega til barna,og bíta svo höfuðið af skömminni með þessum ósmekklega útúrsnúningi á þessu gullfallega ljóði.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 17.11.2007 kl. 11:43

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já Ari...það er einmitt það sem ég hélt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.11.2007 kl. 12:53

14 identicon

Leyfi mér að taka eindregið undir með Ómari. Og bæti við: Þeir sem hafa ekki brageyra og átta sig ekki á íslenskri stuðlasetningu skilja e.t.v. ekki allt sem hér um ræðir.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 13:46

15 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Anna, vísan er ekki alveg rétt hjá þér, fyrir utan, 'mamma'

Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt, hvað er
aldrei skal ég gleyma þér.

       Tillaga 

Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt, hvað er,
aldrei, skal mamma gleyma þér.

Svava frá Strandbergi , 17.11.2007 kl. 18:02

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hugmyndin í breytingartillögunni er í lagi en því miður eyðileggur orðið "mamma" hrynjandina eða taktinn í vísunni og það jafngildir því að bæta við tóni eða nótu í lagi sem væri takfast, svipað eins og að bæta við spori í danstakti.

Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 18:30

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.11.2007 kl. 21:00

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Snilld hjá Flosa

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.11.2007 kl. 22:05

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála Gunnari um snilld Flosa og þá komum við að því að það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Flosa hefur aldrei brugðist bogalistin né braglistin og húmor hans er óborganlegur.

Ómar Ragnarsson, 17.11.2007 kl. 22:58

20 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég vissi það Ómar að orðið mamma myndi eyðileggja hrynjandina í ljóðinu, en mér fannst þetta samt skárri kostur, þ.e. ef maður ætlaði að nota orðið, mamma, á annaðborð, að halda allavega höfuðstafinum' aldrei' á sínum stað í ljóðinu.

Svava frá Strandbergi , 18.11.2007 kl. 02:37

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alltaf reynir maður eitthvað nýtt. Komst að því í kvöld að mér misheyrðist um auglýsinguna en hef nú bloggað um það að nýju því hafa skal það er sannara reynist. Tómas virðist nefnilega hafa átt kollgátuna: "Glatt er yfir Garðheimum / glitrar jólastjarna "er það víst en vísa að öðru leyti í nýja bloggið.

Ómar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband