9.11.2010 | 09:46
"Er að aka - við akstur að vaka!"
Niðurstöður rannsóknarinnar á afleiðingum þess að ökumenn tali í farsíma meðan á akstri stendur ætti að hvetja frameiðendur símanna og símafyrirtækin til þess að nota tæknina til að ökumenn geti látið þá, sem hringja í þá í akstri, vita af því að þeir séu uppteknir við akstur.
Það gæti til dæmis falist í því að ökumaðurinn ýti þrisvar á sama takann, til dæmis miðjutakkann, og þá fara í gang sjálfvirkur símsvari þar sem sagt er: "Er að aka - hringi til baka", - eða "er að aka - við akstur að vaka".
Raunar eigum við ekkert að fara á límingunum þótt hringt sé í okkur þegar við erum að aka.
Flestar ökuferðir taka aðeins fáeinar mínútur hvort eð er og við getum yfirleitt séð á símanum úr hvaða númeri er hringt.
Þetta minnir líka á þann mikla ósið og dónaskap sem við sýnum ef við erum í samtali við fólk og förum síðan skyndilega að svara símtali og tala við allt aðra manneskju.
Það þarf að búa til nýjar og hagkvæmar aðferðir og reglur sem símnotendur temja sér til þæginda og öryggis fyrir alla.
![]() |
Ekið án bílbelta og talað í síma undir stýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.11.2010 | 23:10
"Skjóta helvítin!"
Bandaríkjamenn, sú stórmerka þjóð, á sér litskrúðugan þjóðarkarakter. Einn angi hans er byssugleði í sérflokki.
Þeir afsaka sig með arfleifðinni sem "frontier" þjóð, sem þurft skotvopn til að brjóta undir sig víðáttumikið land og veiða sér til matar
Þessi afsökun er ekki gild vegna þess að aðrar þjóðir, sem eiga sér svipaðan bakgrunn sem "frontier"-þjóðir eins og Kandamenn og Ástralir hafa komist hjá því að setja svona mikið traust á byssur, - byssueign þeirra og morð aðeins brot af því sem er í Bandaríkjunum.
Byssuhugsunarhátturinn virðist hafa verið ríkur hjá Bush og varaforseta hans, allt frá uppákomum í veiðiferðum þeirra kumpána til þessarar nýjustu játningar, sem er raunar ótrúleg, að hann hafi blóðlangað til að ráðast á Íran og Sýrland.
Þessi dýrkun á beitingu vopnavalds minnir á upphrópun ógleymalegrar persónu, sem Laddi skapaði, byssuglaða norðlenska bóndann, sem hrópaði svo eftirminnilega á sinni hörðu norðlensku: "skjóta helvítin!"
![]() |
Íhugaði að ráðast á Íran og Sýrland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2010 | 18:53
Brellunni haldið áfram.
Ríkisstjórnarfundur í Reykjanesbæ í fyrramálið leiðir hugann að að frétt í fréttum Stöðvar tvö í kvöld þar sem sagt var frá kapphlaupi þriggja aðila við Norðurál um orku.
Fyrirtækin þrjú telja sig þurfa samtals 216 megavött en síðan lauk fréttinni með því að sagt var að næg orka væri fyrir þessar þrjár verksmiðjur plús álver í Helguvík miðað við þann samning sem stefna má að að gera við Norðurál.
Þetta er byggt á því að reistur verði aðeins fjórðungur álversins í Helguvík, en það mun þurfa meira en hátt í 200 megavött til þessa fjórðungs.
Gallinn er bara sá að fyrir liggur opinber yfirlýsing talsmanns Norðuráls um að framleiðsla álversins þurfi að verð 360 þúsund tonn á ári, en til þess þarf minnst 650 megavatta orku.
Ef það er lagt saman við 216 megavöttin, sem kísilverksmiðjurnar þurfa fáum við út 866 megavött, sem er langt fram yfir það sem fáanlegt er á suðvesturhorninu.
Hvernig væri nú að hætta þessum tvískinnungi, óheilindum og leyndarbrellu og setja ástand þesa máls fram eins og það raunverulega er, sem sé það, að ef álver í Helguvík fær að fara af stað, mun það ryðja öllu öðru til hliðar.
Nema það sé staðföst ætlun að virkja Kerlingarfjöll og Torfajökulssvæðið og skilja ekkert eftir í lokin af þeim náttúrugersemum, sem eru mesta verðmæti Íslands.
![]() |
Ríkisstjórnarfundur á Reykjanesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.11.2010 | 12:41
Að vita ekki afl sitt.
Fyrr og nú hafa menn orðið vitni að því að fólk hefur lumað á afli, sem það hefur ekki haft hugmynd að það réði yfir. Í fornsögum er þetta orðað svo að "hann vissi ekki afl sitt."
Þetta virðist hafa átt við um það sem þeir félagar Jörundur Ragnarsson og Hilmir Snær Guðnason gerðu þegar sá fyrrnefndi datt niður í djúpa sprungu.
Í sumum tilfellum getur fólk hins vegar eytt svo miklum kröftum að það örmagnist fyrr en ella.
Í einu tilfelli, þegar Guðlaugur Friðþórsson synti 5-6 kílómetra í köldum sjó og gekk á land og til byggðar erfiða leið eftir það, var það ótrúlegt jafnvægi hugans, sem gerði það að verkum að hann sóaði ekki kröftum sínum heldur nýtti þá á frábæran hátt.
Ég minnist tveggja atvika úr eigin lífi, þar sem ég vissi ekki afl mitt.
Í fyrra skiptið var það þegar ég velti rallbíl okkar bræðra og við Jón veltum bílnum, sem var rúmlega tonn, á réttan kjöl þar sem hann lá á hliðinni á milli þúfna, eins og ekkert væri. Ég hef aldrei skilið hvernig við gátum það.
Hitt atvikið var þegar landlægt tillitsleysi íslenskra ökumanna kostaði mig næstum lífið í hörðum árekstri.
Vegna þess að enginn ökumaður vildi hleypa mér af aðrein inn á Miklubraut, þar sem hún þrengist fyrir innan Grensásveg, neyddist ég til að stöðva bílinn við enda akreinarinnar.
Skömmu síðar kom stór amerískur bíll akandi eftir aðreininni og konan, sem ók honum reyndi ítrekað að komast af aðreininni inn á Miklubrautina. Hún hélt 60 kílómetra hraða og meira að segja veifaði hönd út um glugga til þess að gera þetta, en síðar sagði hún mér, að hún byggi í Bandaríkjunum þar sem svona væri ekkert mál.
En hér á landi er það tíðkað, að við svona aðstæður geri menn allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að umferð af aðreinum komist inn á beinu brautina, gefa jafnvel inn og auka hraðann til að varna því.
Konan var svo upptekin við að reyna að komast inn í umferðina, að hún tók ekki eftir mér, og ók því aftan á mig á 60 kílómetra hraða svo að bíllinn, sem ég var á, hentist 15 metra áfram.
Það var ekki fyrr en hún var á síðustu metrunum sem ég sá það í baksýnisspeglinum að hún myndi aka af fullu afli á mig og það var ekki ráðrúm til að gera neitt.
Ökumannssætið bognaði aftur við áreksturinn og ég beygði stýrið í keng, þar sem ég greip dauðahaldi í það.
Ég hefði undir venjulegum kringumstæðum með engu móti getað beygt stýrið svona, en þetta "dauðahald" minnkaði álagið á ökumannssætið sem annars hefði brotnað eða bognað svo mikið að ég hefði henst út um afturgluggann.
Bíllinn var gerónýtur.
Ég var svo heppinn að "vita ekki afl mitt" og vera ekki á gamla örbílnum mínum heldur á nýrri bíl konum minnar, sem að vísu var minnsti bíll, sem þá var fluttur inn til landsins, en mun betur búinn öryggislega.
Ef ég hefði verið á mínum bíl hefði ég varla lifað þennan árekstur af.
![]() |
Fékk einhvern fítonskraft og bjargaði sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2010 | 20:19
Frábær áfangi.
Stundum gerist það á stórum samkomum, þar sem margir koma saman og eru úr ólíkum áttum, að ekki næst samstaða um niðurstöðu, heldur verður til moðsuða almennra atriða sem lítið segja.
Því verð ég að segja að niðurstaða Þjóðfundar fer fram úr björtustu vonum. Ég hef áður lýst yfir áhyggjum af því að ef ekki náist breið samstaða um bitastæðar tillögur á Þjóðfundi og síðar Stjórnlagaþingi, muni ekkert gerast á vettvangi Alþingis, sem á síðasta orðið samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.
Satt að segja kemur mér á óvart þegar ég ber þær hugmyndir, sem ég sem frambjóðandi hef sett fram, saman við niðurstöður Þjóðfundarins. Þetta er nánast alveg samhljóða og meira að segja ákvæði um sjálfbærni og rétt komandi kynslóða, sem ég hef talið mjög brýnt að sett verði í stjórnarskrá með fyrirmyndir frá öðrum löndum í huga, svo sem Finnlandi.
Jöfnun atkvæðisréttar á að vera auðveld í framkvæmd, jafnvel þótt núverandi kjördæmaskipan verði áfram, einfaldlega með því að þingmannafjöldinn í hverju kjördæmi verði í algeru samræmi við fjölda kjósenda í kjördæminu, en eins og er eru 2,5 sinnum fleiri kjósendur á bak við þingmann í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi.
Er fráleitt að kjósandi á Akranesi, sem er 40 mínútur að aka til Reykjavíkur, skuli hafa 2,5 sinnum meiri rétt en kjósandi á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði, sem er aðeins tíu mínútum fljótari.
Einnig er fráleitt að Reykjavík skuli vera tvö kjördæmi og borgin meira að segja klofin langsum, rétt eins og íbúar öðrum megin við Hringbraut hafi aðra hagsmuni en íbúar hinum megin við götuna.
Ef skipta hefði átt borginni eðlilegar hefði skipting við Elliðaár verið niðurstaðan.
Með fækkun þingmanna verður óþarfur hinn fráleitlega hái þröskuldur atkvæða sem verið hefur og er mjög ólýðræðislegur.
Flest atriðin í ályktun Þjóðfundar voru baráttuatriði Íslandshreyfingarinnar við kosningarnar 2007, en þá snerist kosningabaráttan um að skiptingu ímyndaðs gróða af Græðgisbólunni.
Má þar nefna að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn, persónukjör og ákvæðin um umhverfismálin og þjóðareign allra auðlinda.
Ég vísa svo til hugmynda minna um endurskoðun á embætti forseta Íslands og fleiri atriða sem hafa komið fram á blogginu hér og blogginu á eyjan.is
![]() |
Stjórnarskrá fyrir fólkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2010 | 14:33
Við Íslendingar vorum aldrei og erum ekki saklausir.
Samkvæmt því sem við Íslendingar viljum trúa vorum við dáðir um allan heim fyrir stórkostlegt þjóðfélag, dugnað, heiðarleika, menningu og forystu í umhverfismálum.
"Forystan í umhverfismálunum" byggðist að hluta til á góðum grunni, sem sé þeim að við höfðum virkjað hverasvæði til upphitunar húsa okkar. En upphaflega höfðu þær framkvæmdir aðeins verið á peningalegum forsendum þegar verð á olíu fór hækkandi og við eyddum ekki krónu í þessar framkvæmdir af hugsjónaástæðum og hefðu aldrei gert.
Að öðru leyti gerðum við minnst allra þjóða í umhverfismálum, komum okkur upp mest mengandi og stærsta bílaflota á vesturlöndum og óðum fram í rányrkjuvirkjanir fyrir stóriðju og virkjanir með hrikalegum umhverfisspjöllum og stunduðum þar að auki beit á afréttum þar sem var mesta jarðvegseyðing á byggðu bóli.
Við trúum því ekki að þessi glansmynd hafi verið blekking, heldur trúum við því að við höfum verið saklaus fórnarlömb um það bil þrjátíu skúrka, sem við gátum með engu móti varast.
En þótt segja megi að tugþúsundir Íslendinga hafi verið fórnarlömb, sem annað hvort vildu ekki eða gátu ekki tekið þátt í hinni dæmalausu Græðgisbólu fjórföldunar skulda heimilanna , á það ekki við um mikinn meirihluta landsmanna, sem fannst þetta allt saman gott og sjálfsagt, hlustaði ekki á "kverúlanta, öfgafólk og úrtölumenn" og tók þátt í græðgissvallinu af hjartans lyst.
Þeir stjórnmálamenn voru kosnir aftur og aftur, sem stóðu fyrir þeirri stefnu, sem leiddi til hrunsins, og meira að segja vann Framsóknarflokkurinn stórsigur í kosningunum 2003 út á það að vera búinn að hrinda af stað þenslunni með því að standa fyrir mestu mögulegu óafturkræfu spjöllum á náttúru Íslands, sem er mesta verðmæti lands og þjóðar.
Og ekki bara það, þeir hrintu líka af stað húsnæðislánabólu, sem varað var við að myndi þenjast út í samkeppni banka og fjármálastofnana, sem þeir sjálfur voru búnir að afhenda einkavinum þáverandi valdhafa á spottprís.
Daniel Charter lýsir í bók sinni því sem ég sjálfur upplifði erlendis í októberbyrjun 2008 þegar sjónvarpað var um alla heimsbyggðina gjaldþroti Íslendinga og þáverandi Seðlabankastjóri birtist á skjánum og lýsti því yfir að við myndum ekki borga neitt.
Þannig urðum við á einu augabragði að aumkunarverðum ösnum og skúrkum, því að nánari útskýringar komust aldrei á framfæri.
Charter kemst líka að sömu niðurstöðu og ég hef sett fram, sem sé þeirri, að Hrunið var siðferðilegt öllu fremur.
Afneitun okkar á þessu mun einungis valda því að hið siðferðilega hrun heldur áfram og verður jafnvel verra þegar grátbiðja á erlend stóriðjufyrirtæki að virkja og umturna því sem eftir er af helstu náttúruundrum landsins og ryðja burtu öðrum og skaplegri fyrirtækjum.
Mitt mat er það að með því að láta ekki segjast við það að horfa upp á Hrunið, heldur sækja bara enn frekar í sama farið í "skómigu"hugsunarhættinum "ég! núna!" eða "Take the money and run!" án nokkurs tillits til komandi kynslóða, séum við að stefna inn á enn verri braut en fyrr og með enn verri afleiðingum.
![]() |
Ímynd Íslands í molum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.11.2010 | 23:21
Hvar liggur línan?
Það er hægt að leiða að því líkum að auðvelt sé að reikna það út að það "borgi sig" fyrir þjóðarbúið að flytja alla af landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið og gera allt sem er fyrir norðan Akranes og austan Selfoss að sumarbústaðabyggð fyrir borgarbúa.
Til eru þeir sem telja að eina leiðin til að keppa við aðrar þjóðir í að halda fólki hér á klakanum sé að gera Ísland að borgríki. Í mesta lagi megi íhuga hvort Akureyri fengi að vera smábær en þó yrði "hagrætt" þannig að háskólastarfsemin þar yrði flutt til Reykjavíkur.
Síðan er hið öndverða sjónarmið að halda verði öllum dölum og víkum þessa lands í byggð.
Ég hygg að hvorugt sjónarmiðið sé æskilegt eða heppilegt, heldur beri að leita þeirrar lausnar þar sem leitast er við að hafa lífvænlega byggð, sem dafni á eigin verðleikum.
Nágrannaþjóðirnar hafa fengist við þetta og niðurstaðan er í grófum dráttum sú, að forsenda fyrir blómlegri byggð sem fólk vill eiga heima í sé sú að þar sé að finna sem fjölbreyttust störf og menningu, allt frá háskólastarfi til framleiðslu- og þjónustustarfa.
Ef þetta litróf er ekki fyrir hendi verður mannlífið einhæft og fólk flyst í burtu, einkum unga fólkið.
Góð dæmi um þetta eru Akureyri og Tromsö í Norður-Noregi og nú síðast Borgarfjarðarhérað með alla sína skóla og menningarstarf, sem hefur sprottið upp, svo sem í öflugri leikstarfsemi í Borgarnesi.
Ég var einmitt í gærkvöldi að skemmta laganemum í Háskólanum á Bifröst og hef sjaldan verið á jafn ánægjulegri samkomu. Þetta var hrein unun fyrir mann sem gerði hlé á laganámi í miðjum klíðum fyrir 46 árum og komst aftur í gamla gírinn góða.
Einn stóran skugga bar þó á, jafnt í hugum nemenda og rektorsins, sem þarna var, sú tilhugsun að þetta væri "síðasta kvöldmáltíðin" í skólanum.
Það er hægt að reikna út ýmislegt þegar hin svokölluðu "hreinu hagkvæmnissjónarmið" eru látin vera algild.
Þannig má reikna það út að öllu væri best komið ef allir landsbúar byggju í einu þéttu hverfi 30 hæða blokka sem reist yrði í stað "húskofanna" sem mynda að miklu leyti stóran hluta Skólavörðuhæðar í Reykjavík.
Það má líka reikna lengra og finna út að með "hrein hagkvæmnissjónarmið" í huga spöruðust miklir fjármunir með því að flytja alla Íslendinga inn í 330 þúsund manna úthverfi í erlendri stórborg.
Á síðasta landsfundi eins stjórnmálaflokksins kom fram tillaga um að banna að byggja fleiri íbúðir í úthverfum Reykjavíkur eða nágrannabæjum höfuðborgarinnar. Flutningsmenn töldu hana byggja á pottþéttum hagkvæmnisútreikningum.
Ef talið er hagkvæmt að flytja háskólann á Bifröst í raun til Reykjavíkur, af hverju þá ekki að flytja líka landbúnaðarháskólann á Hvanneyri?
Eða væri kannski ómaksins vert að athuga hvernig það kæmi út að sameina þessa tvo borgfirsku skóla?
![]() |
Ósammála áformum um sameiningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
6.11.2010 | 13:21
Orð eru til alls fyrst...
Samkvæmt fyrstu fréttum af þjóðfundinum í hádegisútvarpinu áðan virtust hugtök eins og mannréttindi, jafnrétti og lýðræði efst í huga margra þar.
Einn viðmælenda sagði raunar, að hann vissi ekki betur en að þessi hugtök væru grunnur núgildandi stjórnarskrár og rétt er það. Til dæmis var bætt inn í stjórnarskrána sérstökum ákvæðum um mannréttindi meira en hálfri öld eftir gildistöku hennar.
Þetta leiðir hugann að tvennu:
1. Orð eru til alls fyrst. Ef niðurstaða þjóðfundar verður nógu afdráttarlaus varðandi mannréttindi, jafnrétti og lýðræði yrði það fagnaðarefni, því að þá auðvelda þau 2. áfanga í gerð nýrrar stjórnarskrár á komandi stjórnlagaþingi sem felst í....
2. ...að mun skýrar yrði kveðið á um þessi atriði og lagfærðar ýmsar misfellur, sem stangast á við þessi markmið.
Ég hef áður bloggað um áherslur mínar í þessu efni í tengslum við framboð mitt en get nefnt eftirfarandi:
Í fyrsta lagi þarf alveg ný ákvæði hliðstæð þeim, sem gilda í mörgum stjórnarskrám annarra landa varðandi jafnrétti kynslóðanna, þau mannréttindi milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land, að gerðar verði auknar kröfur til lagasetningar og útfærslu aðgerða og framkvæmda sem á óafturkræfan hátt geta haft afgerandi áhrif á frelsi og kjör afkomenda okkar.
Reynslan af svona ákvæðum hefur verið góð og komið í veg fyrir stórslys af völdum flumbrugangs, svo sem í Finnlandi.
Stórauka þarf vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og tryggja beinna lýðræði en nú er.
Eins og nú er háttað eru meirihluti þingmanna í raun sjálfkjörinn, það er, í "öruggum sætum" eftir að listar hafa verið boðnir fram.
Persónukjör hefur reynst vel í nágrannalöndunum og má taka mið af reynslu þeirra.
Mér finnst lágmark að þau framboð sem vilja sjálf viðhafa persónukjör í kjörklefanum varðandi framboðslista þeirra, fái leyfi til þess að hafa þann hátt á.
Tryggja þarf jafnræði hinna þriggja valdþátta stjórnskipunarinnar meðal annars með því að rjúfa tengsl framkvæmdavaldsins við dómsvaldið, stórauka vald og sjálfstæði þingnefnda, og sjá svo um að ráðherrar geti ekki gengt þingmennsku jafnframt ráðherradómi á meðan á honum stendur.
Jafna þarf vægi atkvæða og má gera það á ýmsan hátt, án þess að ganga um of á rétt landshlutanna.
Dæmi eru um þetta erlendis, svo sem í Þýskalandi og hér á landi væri hægt að nefna þrjár útfærslur:
1. Landið eitt kjördæmi en auk þess átta einmenningskjördæmi, svipuð þeim sem voru fyrir 1959.
2. Landið tvö kjördæmi og jafnt vægi atkvæða í þeim. Annars vegar yrði höfuðborgarsvæðið skilgreint sem svæðið milli Hítarár á Mýrum í vestri og Jökulsár á Sólheimasandi í austri og það eitt kjördæmi, en afgangurinn yrði eitt landsbyggðarkjördæmi.
3. Landið tvö kjördæmi eins og í lið 2 en auk þess átta einmenningskjördæmi.
Huga má að því að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt forsetaembætti, þar sem valdamesti og æðsti maður framkvæmdavaldsins, þjóðhöfðingi og oddviti ríkisstjórnar yrði valinn beint af þjóðinni.
Bandaríkjamenn, sem eru þúsund sinnum fleiri en við, telja að einn maður geti sinnt þessu. Það ætti því líka að vera hægt að gera það hér.
Þrátt fyrir þetta mætti tryggja þingræðið á þann hátt að þingið geti stöðvað mál eða samþykkt vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórnina alla. Á móti kæmi að forsetinn hefði málskotsrétt og gæti skotið slíkum brýnum málum í dóm þjóðarinnar.
Ég hygg að svona fyrirkomulag gæti stuðlað að meiri eindrægni og samráði stjórnmálamanna en hér hefur verið og má nefna sem dæmi um slík vinnubrögð hvernig minnihlutastjórnir í mörgum nágrannalöndunum vinna í samráði við stjórnarandstöðuna.
Þetta er auðvitað útfærsluatriði og þar gætum við sótt í smiðju þeirra þjóða sem hafa reynslu í þessum efnum, svo sem Frakka og Finna.
Fleir get ég nefnt en læt þetta nægja. Aðalatriðið er þetta: Þjóðfundurin nú og komandi stjórnlagaþing eiga sér ekki hliðstæðu í sögu þjóðarinnar. Ef þessu tækifæri, sem nú býðst, verður klúðrað, getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lýðræði, frelsi, mannréttindi og jafnrétti í framtíðinni.
Því skiptir miklu að niðurstöður bæði þjóðfundar og ekki síður stjórnlagaþings verði svo afdráttarlausar og með svo breiðri samstöðu að Alþingi komist ekki hjá því að taka tillit þeirra.
![]() |
Góður andi á Þjóðfundinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2010 | 14:01
Dugar ekki að fjarlægja hitamælinn.
Sá fjöldi sem leitar til hjálparsamtaka sveiflast upp og niður eftir árferði, rétt eins og hitamælir sýnir hærra og lægra. Menn geta óskað sér að aldrei þurfi að nota hitamæli og að aldrei komi til þess að einstaklingar eða hópar utan hins opinbera komi nauðstöddum til hjálpar, en hvorugt er raunhæft, því miður.
Þrátt fyrir Græðgisbóluna miklu þurfti fólk á hjálp hjálparsamtaka að halda á þeim tíma, jafnvel árið 2007.
Ef mikil fjölgun verður í þessum niðurlægjandi biðröðum er það merki um vangetu opinbera kerfisins frekar en merki um "ófagleg vinnubrögð" hjálparsamtaka.
Ef maður kemur að ofurölvi manni, sem liggur bjargarlaus úti í frosti að næturlagi er ekki spurt um ófagleg vinnubrögð þegar manni er skylt að veita honum tafarlausa hjálp.
Maður byrjar ekki fyrst á því að fá hann til þess að segja frá öllum málavöxtum til þess að finna út hvort hann geti sjálfum sér um kennt eða ætli jafnvel að sofna svefninum langa, heldur er hjálpin veitt tafarlaust.
Maður spyr hann heldur ekki hvort hann sé nýlagstur þarna fyrir til þess að blekkja vegfarendur til að aka sér heim og fer ekki af vettvangi í þeirri trú, að einhver opinber aðili, til dæmis lögreglan, muni koma að honum og bjarga honum.
Það er rétt hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að vandinn er risavaxinn og vaxandi biðraðir blettur á borginni okkar.
Leiðin til úrbóta hlýtur að vera sú að opinberar stofnanir, sem málið heyrir undir, þeirra á meðal stofnanir borgarinnar, láti til sín taka og stefni að því að hjálpa hinu nauðstadda fólki þannig að það þurfi ekki að leita á náðir hjálparsamtaka.
![]() |
Deila á matargjafir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
4.11.2010 | 23:11
Fyrir ofan Belgíu, Danmörku og Spán.
Það eru ekki góð tíðindi að Ísland skuli hafa fallið úr 1. sæti niður í það 17. á nýjasta þróunarlista S.Þ.
Heyra má mikil ramakvein út af þessu. Þegar nánar er skyggnst í listann sést þó að Belgía, Danmörk og Spánn eru næstu þjóðir fyrir neðan Íslendinga á listanum.
Er svona hræðilegt að eiga heima í þessum löndum?
Tvennt getur skýrt þetta.
1. Útkoman getur ráðist af forsendum sem gera listann ekki hóti betri en þær eru, það er, máltækið "garbage in - garbage out", ef þú setur hæpnar forsendur inn færðu hæpnar niðurstöður.
2. Íslendingar voru aldrei í efsta sæti. Græðgisbólan 2007 var að mestu tilbúningur, blekking og bókhaldsbrellur, allt frá hundraða milljarða gróða með kaupum og sölum á fyrirtækjum með tilheyrandi stórhækkandi og tilbúinni viðskiptavild til tilbúinnar þenslu sem gerði gengi krónunnar 30-40% hærra en það hefði átt að vera.
Íslendingar eiga enn stærsta, eyðslufrekasta og mest mengandi bílaflota á Vesturlöndum, búa í stærri íbúðum og húsum, eiga stærri og flottari sumarhús og njóta enn byltingar eignarhalds flatskjáa og tækja, sem þeir eignuðust með því að fjórfalda skuldir heimila og fyrirtækja.
Kaupmáttur er hér enn svipaður og hann var 2002 og á því ári minnist ég ekki annars en að við hefðum haft það býsna bærilegt, höfðum raunar aldrei haft það eins gott.
Út af stendur skuldavandi heimilanna, sem er nánast eina alvarlega meinsemdin, því ef allar þessar skuldir gætu horfið, væri bara býsna gott að búa á Íslandi fyrir alla.
Í staðinn hafa tugþúsundir fólks orðið illilega fyrir barðinu á Hruninu á sama tíma og tölur sýna, að þúsundir sem eiga eignir yfir 100 milljónir króna, hafa það betra en nokkru sinni fyrr.
![]() |
Ísland lækkar á lífskjaralista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)