Við Íslendingar vorum aldrei og erum ekki saklausir.

Samkvæmt því sem við Íslendingar viljum trúa vorum við dáðir um allan heim fyrir stórkostlegt þjóðfélag, dugnað, heiðarleika, menningu og forystu í umhverfismálum.

"Forystan í umhverfismálunum" byggðist að hluta til á góðum grunni, sem sé þeim að við höfðum virkjað hverasvæði til upphitunar húsa okkar.  En upphaflega höfðu þær framkvæmdir aðeins verið á peningalegum forsendum þegar verð á olíu fór hækkandi og við eyddum ekki krónu í þessar framkvæmdir af hugsjónaástæðum og hefðu aldrei gert. 

Að öðru leyti gerðum við minnst allra þjóða í umhverfismálum, komum okkur upp mest mengandi og stærsta bílaflota á vesturlöndum og óðum fram í rányrkjuvirkjanir fyrir stóriðju og virkjanir með hrikalegum umhverfisspjöllum og stunduðum þar að auki beit á afréttum þar sem var mesta jarðvegseyðing á byggðu bóli. 

Við trúum því ekki að þessi glansmynd hafi verið blekking, heldur trúum við því að við höfum verið saklaus fórnarlömb um það bil þrjátíu  skúrka, sem við gátum með engu móti varast. 

En þótt segja megi að tugþúsundir Íslendinga hafi verið fórnarlömb, sem annað hvort vildu ekki eða gátu ekki tekið þátt í hinni dæmalausu Græðgisbólu fjórföldunar skulda heimilanna , á það ekki við um mikinn meirihluta landsmanna, sem fannst þetta allt saman gott og sjálfsagt, hlustaði ekki á "kverúlanta, öfgafólk og úrtölumenn" og tók þátt í græðgissvallinu af hjartans lyst. 

Þeir stjórnmálamenn voru kosnir aftur og aftur, sem stóðu fyrir þeirri stefnu, sem leiddi til hrunsins, og meira að segja vann Framsóknarflokkurinn stórsigur í kosningunum 2003 út á það að vera búinn að hrinda af stað þenslunni með því að standa fyrir mestu mögulegu óafturkræfu spjöllum á náttúru Íslands, sem er mesta verðmæti lands og þjóðar. 

Og ekki bara það, þeir hrintu líka af stað húsnæðislánabólu, sem varað var við að myndi þenjast út í samkeppni banka og fjármálastofnana, sem þeir sjálfur voru búnir að afhenda einkavinum þáverandi valdhafa á spottprís. 

Daniel Charter lýsir í bók sinni því sem ég sjálfur upplifði erlendis í októberbyrjun 2008 þegar sjónvarpað var um alla heimsbyggðina gjaldþroti Íslendinga og þáverandi Seðlabankastjóri birtist á skjánum og lýsti því yfir að við myndum ekki borga neitt. 

Þannig urðum við á einu augabragði að aumkunarverðum ösnum og skúrkum, því að nánari útskýringar komust aldrei á framfæri. 

Charter kemst líka að sömu niðurstöðu og ég hef sett fram, sem sé þeirri, að Hrunið var siðferðilegt öllu fremur.

Afneitun okkar á þessu mun einungis valda því að hið siðferðilega hrun heldur áfram og verður jafnvel verra þegar grátbiðja á erlend stóriðjufyrirtæki að virkja  og umturna því sem eftir er af helstu náttúruundrum landsins og ryðja burtu öðrum og skaplegri fyrirtækjum. 

Mitt mat er það að með því að láta ekki segjast við það að horfa upp á Hrunið, heldur sækja bara enn frekar í sama farið í "skómigu"hugsunarhættinum "ég! núna!" eða "Take the money and run!" án nokkurs tillits til komandi kynslóða, séum við að stefna inn á enn verri braut en fyrr og með enn verri afleiðingum. 


mbl.is Ímynd Íslands í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert nú duglegur við að ferðast um landið og aldrei á sama farartækinu.

Hvað hefur þú gert til að við getum uppfyllt kyoto bókunina? Ertu búinn að losa þig við eitthvað af öllum  þessum mengandi sjálfrennireiðum  sem þú hefur verið svo duglegur við að gorta þig af?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 14:48

2 identicon

Þetta komment lýsir nú bara vitsmunum þess sem lét það flakka...

Sveinn (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 15:10

3 identicon

Hér verð ég aðeins að fá að segja nokkur orð, yfir þessari fáþekkingu Rafnar Haraldar á Ómari Ragnarssyni. Ómar hefur verið mjög hrifinn af ómengandi farartækjum, s.s. rafbílum og telur þá vera framtíðina, rétt eins og ég. Hann hefur bent á að þeir hafi litla drægni, en þeir eru í öri þróun þannig að það vandamál verður væntanlega úr sögunni innan fárra ára. Aðal vandamál rafbílaiðnaðarins er ekki tækni eða þekking, heldur lobbýismi stjórnenda stærstu olíufyrirækja heims. Þessir menn eru ,,skíthræddir" við rafbílavæðinguna, enda yrðu þeir að minnka sína framleiðsluna, og hafa gert allt sem þeir mögulega geta, til að koma í veg fyrir frekari þróun rafbíla og annarra faratækja, með allskonar órökstuddum efasemdum. Mjög vel er fjallað um þetta mál í Zeitgeist Addendum heimildarmyndinni sem hægt er að horfa á endurgjaldslaust á netinu.
Til þess að Ómar hafi getað opnað augu stærsta hluta Íslendinga í gegnum tíðina, Íslendinga sem aldrei hafa komið á staði sem eru svo fagrir frá náttúrunarhendi, staði sem eru einstakir á heimsvísu, þurfti hann að sjálfsögðu skjótan farkost, sérstaklega fyrir mann sem er jafn virkur og hann. Ómar byrjaði að kynna fyrir okkur landið sem við búum í, en vitum svo fátt um, löngu áður en rafbíll eða önnur ómengandi farartæki komu til sögunnar. Á þeim tíma hafa slík fyrirbæri vafalaust átt heima í vísindaskáldsögum.
Ómar hefur verið peningalítill upp á síðkastið, þangað til að honum voru veittar nokkrar miljónir króna frá Íslensku þjóðinni í sumar, m.a. til þess að geta endurhafið tökur á heimildarmynd sinni. Þessi mikla samstaða með Ómari, gerði mig að stoltum Íslendingi, því enginn Íslendingur hefur lagt eins mikið á sig til að opna augu annarra íslendinga fyrir ómetanlegum náttúruperlum. Ég efast ekki um að þegar rafbílar verði orðnir jafngóðir og bensín eða díselbílar, í öryggi, keyrsluvegalengd, burðarþoli o.s.frv. að þá verði Ómar fyrsti maðurinn til að tryggja sér eintak.

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 16:04

4 identicon

Kyoto bókun, já, vel á minnst. Hvað varð um þessa frægu bókun?

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar höfðu varla undan að krota nafn sitt undir þetta skjal. Og því fylgdu vissar skuldbindingar. Er þessi pappír makulatur í dag? Höfum í huga að við framleiðslu á hverjum 100.000 tonnum af áli, myndast nálega 150.000 tonn af koldíoxíd (CO2), sem fer allt út í andrúmsloftið.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 17:31

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Já og hafðu það svo Ómar.  Alltaf skemmtilegt að sjá hvernig menn eins og Rafn láta ekki greindarskort stoppa sig í að hafa ákveðnar og fastar skoðanir. - Hann skilur að það hefði verið svo miklu meira sannfærandi að stunda sófaandóf gegn náttúruágangi og spjöllum en að vera að þessu stöðuga flandri við að safna gögnum með vettvangskönnunum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.11.2010 kl. 17:43

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki efni á að kaupa mér Metanbíl en hef frá því ég eignaðist fyrsta bílinn minn 1959 ekið um á minnsta, ódýrasta, sparneytnasta og minnst mengandi bíl landsins.

Hjá sjónvarpsstöðvunum voru notaðir stærri bílar, en Rafn telur sem sagt að ég hefði átt að hafna því að koma upp í þá, heldur láta aðra frétta- og dagskrármenn um að gera það. 

Enn í dag ek ég um daglega á minnsta bílnum, sem er í umferð á landinu, en Refn telur hins vegar að ég eigi að einn allra kvikmyndagerðarmanna að ganga allra minna ferða með búnað minn og að ég hefði átt að láta það vera að taka nokkra loftmynd á ferli mínum. 

Hvernig bíl áttu annars sjálfur og ekur um á, Rafn? 

Ómar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 20:28

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að lokum, Rafn, ég eki hverju sinni aðeins á einum bíl, þótt þú haldir annað.

Og til jöklaferða hef ég notað minnsta jöklabíl landsins, Suzuki Fox ´85. 

En auðvitað átti ég aldrei að fara neinar jöklaferðir nema gangandi. 

Ómar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 20:29

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það flokkast líklega undir skyldur til kurteisi að svara athugasemdum.

En er nú ekki þessi Rafn Haraldur neðan við þau mörk?

Árni Gunnarsson, 7.11.2010 kl. 23:09

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einn gallinn við umræðuna er sá að sífellt er tönnlast á sömu rangindunum þangað til fólk fer að trúa þeim. Rafn er ekki sá fyrsti sem fer með eftirfarandi atriði:

Ómar ekur um á eins mikið mengandi og stórum bílum og hugsast getur. Af því leiðir að allt sem hann segir um umhverfismál er bull.

Ómar er einn af lattelepjandi kaffihúsaliðinu í 101 Reykjavík. Af því leiðir að allt er rangt sem hann segir um hvaðeina sem fer fram utan 101 Reykjavík. 

Hið rétta er að ég drekk aldrei kaffi og fer aldrei á kaffihús. 

Íslensk umræða er allt of mikið á því plani að slá fram atriðum sem koma rökræðunni ekkert við.  Það skiptir öllu máli hver maðurinn er en ekki hvað hann segir eða gerir.

Einnig skiptir öllu máli hverja maðurinn þekkir en ekki hvað hann segir eða gerir. 

Ef ofangreind umræða er látin afskiptalaus virkar þögn sama og samþykki og þar með hafa þeir, sem stunda svona málflutning, sitt fram. 

Ég svara ekki þessu aðeins í kurteisiskyni heldur vegna þess að ég vil ekki  komast upp með að halda sífellt sömu bábiljunum fram þangað til allir fara að trúa þeim. 

Þess vegna er ég tilbúinn til að svara þeim aftur og aftur þótt það sé auðvitað grautfúlt að þurfa að standa í þrasi á þessu plani. 

Ómar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 23:47

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þarna duttu tvö mikilvæg orð niður hjá mér í næst síðustu setningunni, sem átti að vera svona:

"Ég svara þessu ekki aðeins í kurteisisskyni heldur vegna þess að ég vil ekki LÁTA ÞESSA MENN komast upp með að halda sífellt sömu bábiljunni fram þangað til að allir fara að trúa þeim. 

Ómar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 23:50

11 identicon

Hehe, það þarf ákveðna snilld til þess að finna út að maður geti ekið mörgum farartækjum samtímis. Nú eða að kyrrstæður fornbíll á stærð við kókdollu geti mengað heil ósköp.

En orðlaust verður fésið þegar við verðum komnir á Tesla. Verst að straumurinn verður frátekinn þannig að við verðum að setja up vindrellu til að hlaða'nn.

Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband