Roosevelt-Kennedy-Obama.

Barack Obama fylgir í fótspor tveggja demókrata sem urðu forsetar á tímamótum í Bandarískri sögu þegar demókratar tóku við Hvíta húsinu af republikönum. Eins og F.D.Roosevelt tekur Obama við völdum á krepputímum, þó ekki eins alvarlegum og í kreppunni miklu. Kennedy tók hins vegar við blómlegu búi. Sumir óttast að Obama muni vegna verr en Kennedy af því að hann tekur við á erfiðum tímum.

Forsetatíð Roosevelts í samanburði við forsetatíð Kennedys sýnir hins vegar að sé forsetinn afburðamaður eins og Roosevelt var, getur hann skipað sér á fremsta bekk með forsetum Bandaríkjanna.

Roosevelt var fyrsti fatlaði maðurinn sem varð forseti. Kennedy var fyrsti forsetinn sem ekki var mótmælandi. Obama er fyrsti blökkumaðurinn. Ég fylgdist eins vel og ég gat með Obama í Bandaríkjadvöl í haust og þessi yfirlætislausi og yfirvegaði maður heillaði mig.

Ungur og ferskur boðberi nýrra tíma eins og Kennedy var og með svipaða persónutöfra.  

Ekki síst er ferill hans í ferðum um heiminn lýsandi fyrir þennan mann. Þrátt fyrir ungan aldur hefur  liklegast enginn Bandaríkjaforseti búið yfir jafn dýrmætri reynslu frá mismunandi menningarheimum eða misjafnari lífskjörum manna. 

Það er ekki tilviljun að hann býr yfir þessum bakgrunni. Hann stýrði þessu lífshlaupi sínu sjálfur eftir því sem hann gat og hefur fyrir eigin verðleika komist í bestu aðstöðu sem nokkur annar í valdamesta manns heims til að leiða mannkynið á viðsjárverðum tímum. 

Þetta afrek Obamas er sigur fyrir Bandaríkin, sigur fyrir lýðræðið og sigur fyrir mannkynið.  


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref hjá Boga.

Sú ákvörðun Boga Nilssonar að losa sig frá vandaræðunum, sem hann var kominn í, var mikilvægt skref í þá átt að þoka málum áleiðis til betri vegar, og mættu fleiri taka sér hann til fyrirmyndar. Það er skiljanlegt að honum, sem reynds manns á sínu sviði og í einstakri aðstöðu, fyndist þetta áskorun sem honum bæri að taka.

En Bogi horfir greinilega með ákvörðun sinni á málið frá víðari sjónarhóli og á þakkir skildar fyrir það. Því miður er hitt of algengt.  


mbl.is Bogi Nilsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason sver af sér hvítbók.

Á vefsíðu sinni segist Björn Bjarnason ekki hafa skipað Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til verka við hvítbók og átelur mig fyrir ummæli þar að lútandi á vefsíðu minni. Ég skal fúslega hafa það er sannast reynist í þessu máli og biðja Björn Bjarnason afsökunar á því að bendla hann um of við þetta mál.

Ég hefði gjarna viljað gera þetta í formi athugasemdar á vefsíðu hans en mér sýnist að það sé ekki hægt.

Ég tel mig þó hafa það til  málsbóta að í prýðisgóðu sjónvarpsviðtali við Björn lýsti hann yfir miklum áhuga á rannsókn á bankahruninu og gott ef hann ræddi það ekki líka á þingi. Og þar sem hann er jú dómsmálaráðherra hlýtur áhugi hans á málinu að skipta máli. 

Ef Björn er mér sammála um það að fá þurfi erlenda menn til að stýra þessari rannsókn og slík rannsókn sé nauðsynleg þá ættum við að geta náð vel saman í þessu máli.  


Finnska leiðin, tveimur árum seinna.

Mikið geta nú sum skilaboð verið sein að berast á sjálfri gervihnattaöldinni. Fyrir tæpum tveimur árum deildum við Árni Mathiesen um finnsku leiðina í greinum í Morgunblaðinu og einnig þurfti á þeim tíma að deila við aðra forráðamenn þáverandi stjórnarflokka um "finnska efnahagsundrið." Allir harðneituðu þeir því að aðstæðurnar í Finnlandi á tíunuda áratugnum gætu verið okkur til lærdóms.

Það var eðlilegt. Aðstæður á Íslandi voru mjög svipaðar og höfðu verið í Finnlandi fyrir 1990 og því hentaði ekki að fara að máta þær við Ísland þar sem menn óðu áfram með stefnu sem stakk í augu miðað við það  sem Finnar höfðu gert.

Einnig var þá og er enn lítið með það gert að Finnar íhuguðu á tímabili að fara út í stóra vatnsaflsvirkjun með tilheyrandi stóriðju en sáu, að bæði myndi það gagnast lítið atvinnulega séð og einnig taka til sín fjármagn sem betur myndi gagnast í þekkingariðnaði.

Nú, næstum tveimur árum síðar, eru sumir af þessum andmælendum mínum byrjaðir að minnast á finnsku leiðina og hún getur reynst okkur dýrmæt til hliðsjónar af svipuðum vandamálum hér og voru í Finnlandi upp úr 1990. En óskaplega tekur það langan tíma fyrir skilaboðið að berast.

Þótt göngumaður hefði lagt af stað með þau í bréfi fyrir tæpum tveimur árum hefði hann verið kominn fyrr til Íslands. Tíminn virðist geta liðið hægt á gervihnattaöld.  


mbl.is Varar við háum stýrivöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggja þolmörkin?

Í dag mátti heyra þrjár fréttir af málum, sem gera marga orðlausa. 1. Milljarða niðurfellingu skulda hjá stjórum og starfsmönnum banka. Allt að milljarður á mann, upphaflega tekið að láni.  2. Vinatengsl sem gefa manni nokkrum á aðra milljón króna á mánuði fyrir að gefa Orkuveitunni ráð. 3. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn til að standa að hvítbók um fjármálahrunið og rannsaka hlut fyrirtækja þar sem synir þeirra eru í forsvari og flæktir í málin svo og tengdasonur ráðherrans.

Hve lengi geta tugþúsundir landsmanna sem áttu engan þátt í þessu hruni þolað þetta? Hve marga daga og vikur með þremur svona fréttum á dag getur fólkið þolað?  Hvenær kemur að því sama og í Austur-Þýskalandi að fólkið fer út á göturnar og fellir þetta allt saman? Hvar liggja þolmörkin? Eða eru engin þolmörk? 

Fyrri fréttirnar tvær eru í langri röð frétta af svipuðum málum. Þriðja fréttin, um hvítbókina, er þó að sumu leyti sýnu verst. Rannsókn á því hvað fór úrskeiðis er frumskilyrði fyrir því að hægt verði að læra af því sem gerðist og láta þá bera ábyrgð sem hana þurfa að axla.

Annars verður uppbyggingarstarfið byggt á sandi. 

 Ef eitthvað saknæmt hefur gerst verður að hreinsa það út. Það er morgunljóst að innlendir menn geta ekki farið ofan í saumana á því sem hefur leitt þjóðina þangað sem hún er komin. Þetta er of lítið samfélag og hagsmuna- og kunningjatengslin allt of mikil. Samt á að fara þessa leið.

Þar með verður útilokað að fólk geti treyst því sem verður sett í þessa hvítbók. Hún verður tortryggð og kölluð hvítþvottarbók og við verðum engu nær, - svipt möguleikum á að læra af mistökunum.

Bendi á bloggsíðu Friðriks Þórs Guðmundssonar sem er með nánari umfjöllun um bankamannamálið. 


mbl.is Engar niðurfellingar hjá Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirkomulagið var rangt.

Margir þeirra sem norski hagfræðingurinn Harald Magnus Andreassen segir að beri ábyrgð á hruni efnahagslífsins hafa sagt að þeir Íslendingar sem áttu þátt í neyslu og skuldasöfnun beri mikla ábyrgð. Þetta er ekki rétt nema að mjög litlu leyti.

Höfuðábyrgðina hljóta þeir að bera sem buðu til veislunnar og sköpuðu þær aðstæður að hvaðeina sem fólk keypti frá útlöndum fékkst í raun með 30% afslætti vegna hás og rangs gengis krónunnar. Þar að auki var bókstaflega otað að fólki að taka lán hjá hinum ýmsu vogunar- og verðbréfasjóðum.

Hliðstæðu var að finna í kommúnismanum í Austur-Evrópu á sinni tíð. Stjórnarskráin og hugsunin öll gekk fallega upp á pappírnum, en í raun var skapað ástand í þessum þjóðfélögum sem leiddi til alræðis og kúgunar. Ástæðan var sú að hin fallega kenning stóðst ekki vegna mannlegs eðlis og ófullkomleika.

Ef efnt er til útsölu með gylliboðum eins og gert var hér á landi í bullþenslunni er viðbúið að mannlegt eðli ráði því að margir láti glepjast.

Ráðamenn voru valdir af kjósendum til að búa til umhverfi sem leiddi til góðs þjóðfélags. Ráðamönnumum mistókst þetta og bera því langmesta ábyrgð.

Stefna Íslandshreyfingarinnar hefur frá upphafi verið sú að andæfa græðgisvæðingu og tillitsleysi gagnvart samborgurum og afkomendunum. Þetta beinist fyrst og fremst að þeim sem falin er umsjá og forráð yfir löggjafar- og framkvæmdavaldi. 

Því er hins vegar ekki að leyna að allir ættu nú að líta í eigin barm og íhuga hvort þörf sé á endurmati á þeim gildum sem bestu farsældina veitir  


mbl.is „Hefði átt að vera búið að stoppa ykkur fyrir löngu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða krónunnar var ógnun við fullveldið.

Það er rétt hjá Pétri Blöndal að nú þarf að velta við hverjum steini til að sjá hvað gerðist raunverulega hjá þeim sem blésu upp þá blöðru, sem varð tíu sinnum stærri en Ísland og sprakk með hvelli. Hverjir skulduðu hvar og hve mikið? Hvernig voru fjármunir færðir til?

Hitt blasir við að alltof hátt gengi krónunnar var ógnun við fullveldi þjóðarinnar, - ógn sem er orðin að ísköldum veruleika. Þessi staða skóp krónubréfin sem voru stærsti hluti þessarar ógnar og skóp líka innkaupaæði og skuldafíkn sem gerði íslenskt þjóðarbú hið skuldsettasta í heimi þót þær skuldir allar væru þó aðeins lítill hluti skuldanna sem fáir menn bjuggu til af "tærri snilld" erlendis.

"What goes up must come down." Það sem fer upp í loft mun koma niður aftur. Það hlaut að gerast með krónuna en það er grafalvarlegt mál ef einhverjir hafa gert það mikla og óumflýjanlega fall að hreinu hrapi og hroðalegri brotlendingu.


mbl.is Árás á fullveldi þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskir og þrár.

Draumar eru nauðsynlegir en misjafnlega gagnlegir. VG dreymir um myntsamvinnu við Norðmenn og Samfylkinguna um inngöngu í ESB. 1262 tryggðu Norðmenn Íslendingum siglingar til og frá landinu, sem Íslendingar gátu ekki lengur annast, og nú dreymir menn um að þeir tryggi okkur stöðuga mynt.

Eðlilega vísa Norðmenn þessu frá sér nú. Framundan er tími fjöldagjaldþrota og atvinnuleysis vegna ofurvaxtanna sem okkur er gert að halda uppi í landinu. Enginn veit hve alvarleg næsta holskefla verður. Hún gæti gert ástandið mun verra en í dag og ef það færi svo yrði lítil huggun þótt Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bæðu okkur afsökunar eftirá eins og þeir gerðu gagnvart Suður-Kóreumönnum.

Meðan þessi óvissa ríkir er eðlilegt að Norðmenn vísi frá sér hugmyndum um myntbandalag og ef farið verður í viðræður við ESB þurfa báðir aðilar að vita hvaða spil eru á hendi.

Vegna neikvæðrar afstöðu Norðmanna er aðeins um það að ræða að drífa sig í það að ganga frá samningsmarkmiðum Íslendinga og hafa þau tilbúin þann dag sem til viðræðna við ESB kann að koma. 

Nokkrum árum fyrir Gamla sáttmála var alls ekki útséð um það hverjir af íslenskum höfðingjunum myndu standa sterkast að vígi í lok vígaferla Sturlungaaldar. Í október 2008 er ekki útséð um það hvernig við komumst út úr dýfu kreppunnar og hve langt við förum niður.  

Heldur ekki vitað hvort þá verður stefnt inní kosningar með óvissu um næsta stjórnarmynstur.

Við þráum það fullveldi sem við nutum áður en sótt var að því og óskum eftir farsælli lausn. Hvorki óskir né þrár mun rætast í rósrauðum blæ og aðalatriðið er að horfa lengra til framtíðar og gæta þess að auðlindir lands og sjávar lendi ekki í erlendum tröllahöndum og að við missum ekki of margt af fólki á besta aldri úr landi.


mbl.is Norsk króna ekki í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin í hópinn, Þorgerður og Steingrímur.

Fyrir síðustu kosningar setti Íslandshreyfingin fram þá stefnu að þegar í stað yrði sett af stað vinna við að ganga frá samningsmarkmiðum Íslendinga og hafa umsókn um aðild að ESB klára, ef til þess kæmi að hún yrði á dagskrá. Þessi stefna jafngilti þá að vísu ekki að það ætti þá að sækja um aðild, - einungis það að vinna heimavinnuna sína svo að enginn tími tapaðist ef til þessa kæmi.

Þessi stefna var afflutt í fjölmiðlum en nú kemur í ljós að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og jafnvel Steingrímur Sigfússon aftaka ekki lengur að farið verði í þessa vinnu. Steingrímur vill að vísu frekar samstarf við Norðmenn en segist ekki útiloka að jafnframt athugun á henni verði aðrir kostir skoðaðir, þar með talin umsókn um aðild að ESB.  


mbl.is Tilbúin að endurskoða afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn mótleikur?

Eiga Sjálfstæðismenn möguleika á að láta bóka á ríkisstjórnarfundi að æðsti maður Fjármálaeftirlitsins starfaði aðeins í umboði Samfylkingarinnar? Eða að einhver annar forstöðumaður í ráðuneytum Samflylkingarinnar starfaði ekki í umboði Sjálfstæðisflokksins?

Svarið er líkast til: nei. Með því væru Sjálfstæðismenn að viðurkenna mistök við efnahagsstjórnunina og geta auðvitað ekki hugsað sér slíkt.

Samfylkingin leikur nú þann leik að firra sig ábyrgð á sem flestu sem úrskeiðis hefur farið hjá ríkisstjórninni til þess að beina þunga gagnrýninnar á Sjálfstæðisflokkinn og opna um leið til undirbúnings því að efna til samstarfs við VG eftir kosningar næsta vor.

Aðdragandi þeirra gæti orðið svipaður og 1956. Þá samþykkti Framsóknarflokkurinn á Alþingi ályktun um brottför hersins sem var þvert á stjórnarsáttmála flokksins og Sjálfstæðismanna.

Þetta jafngilti stjórnarslitum og kosningar í júní 1956 fylgdu í kjölfarið með vinstri stjórn í framhaldinu.

Athygli vakti í viðtali við Steingrím J. Sigfússon í Silfri Egils í dag að hann útilokaði ekki, að aðildarumsókn að ESB yrði skoðaður samtímis öðrum möguleikum til samstarfs við nágrannaríkin í efnahagsmálum. Hann fór í flæmingi undan spurningu um það hvort VG væri sósíaliskur flokkur.

Báðir vinstriflokkarnir eru greinilega að opna dyr til hvors annars þessa dagana í ljósi skoðanakannana sem benda til hugsanlegs meirihluta þessara tveggja flokka á þingi og fyrstu vinstri stjórnarinnar í 14 ár.


mbl.is Samfylking afneitar Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband