SJÁLFBÆRNI ALLS STAÐAR ?

Ávarp Geirs H. Haarde var gott og vel flutt. Geir er vænn maður og meinar vel þegar hann talar um kröfur um sjálfbærni. En þá verður hann að vita betur hvað hann er að tala um, - sjálfbærnin þarf að vera alls staðar, ekki bara sums staðar og ekki má guma af sjálfbærni þar sem hún er sannanlega ekki fyrir hendi. Sem gamall fjölmiðlamaður ber ég fram þá ósk til ráðamanna þjóðarinnar að þeir kynni sér grundvöllinn undir fullyrðingum sínum.

Íslensku hitaveiturnar til húsaupphitunar eru nær alls staðar sannanlega sjálfbærar og hreinar. En það á ekki við um þá nýtingu jarðvarmans sem nú er stefnt að á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu. Ég veit ekki í hvaða skipti ég neyðist til að taka þetta mál upp í þeirri von að röngum fullyrðingum sé ekki endalaust flaggað um alla nýtingu jarðvarma og vatnsorku hér á landi. 

Fyrir liggur að ætlunin er að kreista 600 megavatta orku út úr fyrrnefndu svæði og að það sé ca tvöfalt meiri orka en svæðið geti afkastað til langframa svo að það teljist sjálfbær nýting. Eftir u.þ.b. 40 ár verður orkan uppurin og afkomendur okkar munu standa frammi fyrir því að missa hana eða finna 600 megavött annars staðar. 

Nýtingin er mjög léleg eins og er, 88% orkunnar fer út í loftið.

Hreinleikinn er ekki fullkominn, - nú þegar fer lyktarmengun í Reykjavík 40 daga á ári yfir mörkin í Kaliforníu og útblástur brennisteinsvetnis á þessu virkjanasvæði verður meiri en allra álvera á Íslandi til samans. 

Með virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun er stefnt að því að fylla miðlunarlónið um síðir upp með aurseti svo að bæði virkjun og aðrir möguleikar til landnýtingar verða eyðilagðir.  

Til samanburðar er óvirkjuð  í Noregi vatnsorka, sem er samtals meiri en óvirkjuð vatnsorka á Íslandi og er fullkomlega sjálfbær, án aursets í miðlunarlónum, líkt og Sogsvirkjanirnar og virkjanir hreinna vatnsfalla á Íslandi eru.

Við lifum á upplýsingaöld og öld orku- og umhverfismála og verðum að gera betur á þessum sviðum hér á landi.

Ég ætlaði ekki að blogga neitt meira á gamla árinu og hélt ég væri búinn að klára árið með áramótablogginu hér á undan.

En það er ekki hægt að horfa aðgerðarlaus á minn góða og bláeyga forsætisráðherra, ekki mín vegna, heldur hans vegna. Geir H. Haarde á betra skilið en að vita ekki um óyggjandi vísindaleg sannindi þegar hann reynir sitt besta til að veita þjóð okkar góða og hreinskipta forystu.

Ég skrifa þetta í þeirri von að honum og ríkisstjórn hans muni vel farnast á nýju ári þjóðinni allri til heilla.

Enn og aftur: Gleðilegt ár og þökk fyrir það gamla.  


mbl.is Náttúran lífsgrundvöllur okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÖLDUM GLEÐI HÁTT Á LOFT, Á RÉTTUM TÍMA.

Kóngur vill sigla en byr verður að ráða segir máltækið og það á við um þessi áramót. Allt hefur sinn tíma og auðvitað mun brennurnar njóta sín betur í hagstæðara veðri á morgun en í dag. Það á við um árið sem er að ganga í garð að best muni að vanda vel til þess sem gert er. Spjalla nánar um þetta í áramótapistil hér fyrir neðan.
mbl.is Engar brennur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MEÐ BJARTSÝNI OG ÞÖKK.

Árið 2007 kveður á táknrænan hátt ef við horfum til þess að næsta ár kann að verða eftirbátur þess sem er að líða hvað snertir efnahagslega uppsveiflu sem getur ekki enst til lengdar. Að okkur steðjar óhagstætt veður til fyllstu hátíðarhalda í kvöld en við munum samt gera okkur dagamun eftir bestu getu en haga gleðinni í samræmi við aðstæður og rasa ekki um ráð fram.

Þetta þurfum við líka að gera í glímunni við viðfangsefni næsta árs og framtíðarinnar. "Ég elska þig, stormur, sem geysar um grund..." kvað Hannes Hafstein og með því hugarfari er best að takast á við úrlausnarefnin og njóta þess að reyna kraftana, en huga jafnframt að því að viðhalda innri ró og friði og kunna að njóta þess og rækta það sem stendur okkur næst.

Það er dálítið skrýtið hvað okkur tekst þetta oft illa miðað við alla þá tækni og þægindi sem ætlast er til að hjálpi okkur við að gera lífið auðveldara og betra.  

Í samræmi við þá hefð að sleppa aðeins fram af sér beislinu í gríni og glensi ætla ég að láta flakka stöku sem varð til í tilefni þess að á liðnu ári hafa borgaryfirvöld og sveitarstjórnarmenn hafa sýnt viðleitni til að minnka umsvif súlu- eða nektardansstaða. 

 

Léttklæddu fljóðin nú flæmd eru á braut, - 

sér fá ei við súlur að skaka.

Já, árið er liðið í erótískt skaut

og aldrei það kemur til baka.  

 

Árið 2007 hefur verið mér gjöfult og erfitt á víxl eins og gengur. Baráttan hefur tekið á. Ef ég lít lengra fram á við mun ég þó sennilega minnast þess helst fyrir það að myndefnið sem það rétti upp í hendurnar á mér á austurhálendinu varð magnaðra og merkilegra en mig óraði fyrir, - kannski það magnaðasta sem ég hef tekið á 38 ára fréttamannsferli.

Mér mun líka verða hugsað til þess að sennilega hefði ég ekki getað tekið mikilvægustu myndskeiðin í þessu myndefni,  sem kunna að verða komandi kynslóðum ákaflega dýrmæt, ef Íslandshreyfingin - lifandi land hefði komið mönnum á þing eins og stefnt var að, því að þá hefði ég verið bundinn við þau verkefni sem þingsetan hefði krafist.

Þetta breytir því ekki að auðvitað voru það vonbrigði að 5% reglan skyldi varna því frábæra fólki sem stóð að ótrúlega öflugri kosningabaráttu Íslandshreyfingarinnar við mjög erfið skilyrði að uppskera réttlátlega í samræmi við það sem sáð var til.

En nú er bara að ganga á vit framtíðarinnar með bjartsýni og lífsgleði.

Eftir situr djúpt þakklæti til allra þeirra sem lögðu viðfangsefnum mínum á ýmsum sviðum lið á árinu og ég vil óska öllum, sem pistla mína lesa, gleðilegs árs og þakka fyrir hið liðna. 

Lifið heil ! 

 

 

 


JÖKLAFERÐ ER EKKI ÞAÐ SAMA OG JÖKLAFERÐ.

Ýmsar spurningar vakna við fréttirnar af björgunarleiðangri upp á Langjökul til að bjarga tepptum jöklaförum og verst er ef þessar fréttir verða til þess að fólk álykti sem svo að ekki sé hægt að fara í jöklaferðir í slæmu veðri. Veldur þar hver á heldur. Vísa í næsta bloggpistil á undan þessum um þetta efni.
mbl.is Að ná til ferðalanganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

JÖKLAFERÐ EKKI SAMA OG JÖKLAFERÐ.

Jöklaferð er ekki sama og jöklaferð. Þetta má segja um þær fréttir dagsins að þurft hefði björgunarsveitarútkall til að bjarga ellefu manns af Langjökli. Vönustu jöklafarar landsins geta vel farið í ferðir um jöklana í verstu veðrum ef þeir eru rétt útbúnir. Ég minnist átta daga ferðar á Hvannadalshnjúk vorið 1991, sem ég fór í ásamt fleirum,  þegar leiðangursmenn höfðust við þar uppi í tveimur illviðrum sem dundu yfir. Menn höfðust við í jeppunum á meðan þessi veður gengu yfir og héldu siðan leiðangrinum áfram. Þá var ég ekki byrjaður að aka sjálfur eigin jeppum um jökla og lærði mikið af því að kynnast vinnubrögðum leiðangursmanna. 

Síðara illviðrið í þessari ferð var svipað og veðrið nú, með hátt í 100 metra vindi á sekúndu í hviðunum.

Á sínum tíma fóru Arngrímur Hermannsson, Valdi rakari og fleiri í langa ferð yfir jöklana þrjá og þurftu að bíða af sér veður margsinnis á þeirri leið án þess að þyrfti að kalla út björgunarleiðangra. 

Ferðin á Langjökul nú var hins vegar greinilega ekki í þessum gæðaflokki fyrst það þurfti að kalla út björgunarsveitir og lýsa því yfir í lok erfiðs björgunarleiðangurs að fólkið væri því mjög fegið að hafa verið bjargað. Mér skilst að meðal fólksins hafi meira að segja verið börn.

Fyrirsjáanlegt var að þessir jeppar kæmust ekki niður af jöklinum í því veðri sem spáð var á þeim tíma sem þeir voru á ferð. Í útvarpi glumdu fréttir af því að almannavarnarnefndir yrðu kallaðar saman og nákvæmlega var búið að greina frá því í fjölmiðlum hvenær veðrið skylli á og hve slæmt það yrði.

Um allt land næst útsending RUV frá Gufuskálum og því er erfitt að skilja hvers vegna fólkið fór ekki í tíma niður af jöklinum úr því að það var ekki við því búið að vera þar áfram.

En allt fór vel að lokum og þessi pistill er ekki skrifaður til að ráðast að einum eða neinum heldur til að brýna okkur öll, sem höfum yndi af jöklaferðum, að undirbúa ferðirnar sem best og læra af þeim sem best kunna til verka.  


ÓVÆNTUR VANDI VIÐ JÓLATRÉÐ.

Í fjölskyldu okkar hjóna er orðinn fastur siður að við og afkomendur okkar njótum heimboðs Jónínu, elsta barns okkar og Óskars Olgeirssonar manns hennar á annan dag jóla. Fastur liður hefur verið að ganga í kringum jólatréð og hefur oftast verið notuð jólalagasyrpa af einum Gáttaþefsdiska minna en líka einstaka sinnum svipuð syrpa af diski Hemma Gunn og Dengsa. Í þetta sinn fannst Gáttaþefsdiskurinn ekki strax og var því spiluð syrpan af diski Hemma.

Allt gekk vel um hríð en skyndilega kom upp vandamál þegar lagið "Tíu litlir negrastrákar" hljómaði skyndilega. Aldrei fyrr höfðum við verið neitt verið að velta vöngum yfir þessu lagi og textanum sem allir kunnu og þaðan af síður vissum við í öll þessi ár um vafasaman bakgrunn upphaflegrar notkunar hans erlendis.

Skyndilega var komin upp knýjandi spurning: Var við hæfi að við gerðum það sama og við höfðum gert í sakleysi okkar í áratugi, sem sé að syngja þennan texta og það við jólatréð á hátíð friðar og kærleika? Er kannski ástæða til að láta ekki nægja að gera nýútkomna bók með myndum Muggs útlæga heldur líka gömlu skemmtilegu jólaplötuna þeirra Hemma og Dengsa?

Hvað átti að gera? Lagið var byrjað að hljóma og áttum við að stöðva börnin og byrja síðan að útskýra vandræðalega af hverju við gerðum það? Börnin tóku reyndar ákvörðunina fyrir okkur og byrjuðu sjálf, sakleysið uppmálað. Lagið hljómaði til enda og í lok göngunnar var eins og ekkert hefði gerst umfram það sem gerst hafði í áratugi við þetta jólatré.

Við gengum sem sé í kringum jólatréð nákvæmlega eins og alltaf hafði verið gert án þess að nokkurt barna okkar né barnabarana virtust hafa beðið skaða af.

Nú höfum við heilt ár til að velta fyrir okkur hvað við gerum næst. Einfaldast er að spila hér eftir bara syrpuna af Gáttaþefsdiskinum og finna hann í tíma. Það er víst runnið upp annað ástand í þjóðlífi okkar en við áttum von á að við verðum að laga okkur að því.

En ég spyr sjálfan mig: Er þetta nú samt drengilegt gagnvart mínum nánu vinum, Hemma og Dengsa? Hvers eiga þeir að gjalda? Hvernig áttu þeir að geta séð fyrir að þetta meinleysilega lag yrði svona umdeilt?

Gaman væri að heyra hvað fólk myndi gera í okkar sporum. Góð ráð eru alltaf vel þegin, þótt þau kunni að vera misvísandi.


"SKAGFIRSK MENNING, MÆT OG FÖGUR..."

Við hjónin, Helga og ég, skruppum í gærkvöldi í Árgarð í Skagafirði til að taka boði Karlakórsins Heimis um að samfagna þeim vegna 80 ára afmælis kórsins. Þetta var samkoma eins og þær gerast bestar út á landsbyggðinnni, með söng og lífsgleði. Karlakórinn æfir nú dagskrá í tilefni af því að öld er liðin frá fæðingu Stefáns Íslandi. Ég er orðinn nógu gamall til að muna þá tíð þegar nöfn framúrskarandi Íslendinga vörpuðu ljóma á landið sem hafði nýlega orðið lýðveldi og þjóðin þarfnaðist þess að sanna sig fyrir umheiminum.

Stefán Íslandi, María Markan, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Vilhjálmur Stefánsson, Albert Guðmundsson, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Clausensbræður, Vilhjálmur Einarsson, - allt eru þetta nöfn afreksfólks, hvers á sínu sviði, sem lögðu ómetanlegan skerf til þess að Íslandi væri tekið sem jafningja í hópi annarra þjóða.

Fyrir 12 árum orti Pálmi Stefánsson bóndi þessa hringhendu:

Ýmsir nenna að yrkja bögur.
Aldnir kenna fræðin ströng.
Skagfirsk menning, mæt og fögur,
mótast enn af gleði og söng.

Ég kynntist þessari menningu þegar ég var fimm sumur í sveit í Langadal, en þar hafði karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps verið stofnaður í byrjun síðustu aldar og söngmenning Skagfirðinga og þeirra byggða Austur-Húnavatnssýslu, sem áttu upprekstrarland sem tengdist upprekstrarlandi Skagfirðinga, var samofin og tengd á marga vegu, ekki hvað síst þegar smalað var á haustin.

Úr jarðvegi þessarar söngmenningar var Stefán Íslandi sprottinn og á okkar dögum held ég að okkur sé þarft að huga að varðveislu hennar og endurnýjun. Stefán söng jöfnum höndum óperutónlist í óperuhúsum erlendis og íslenska tónlist hér heima og víðar.

Heimsþekkt er kóramenning kennd við kósakkana og í ríkjum sunnanverðrar Afríku ríkir einnig heimsfræg kóramenning sem við hjónin höfum verið svo lánsöm að kynnast.

Eftirminnilegur var þessi afríski söngur sem hluti af myndinni um uppreisnarmanninn Biko svo að dæmi sé tekið um það hve mikilvæg sérstæð menning, sprottinn úr landslagi og þjóðlífi, getur verið fyrir hverja þjóð og fyrir listsköpun af ýmsu tagi.

Það er misskilningur að unga fólkið í þéttbýlinu á suðvesturhorninu mun ekki geta metið þessa grónu, íslensku menningu. Sjálfur þekki ég það af reynslu hvernig ein Kerlingarfjallaferð gat gerbreytt tónlistarmati þriggja dætra minna á táningsaldri á sinni tíð, sem fyrir þá vist í Kerlingarfjöllum virtust aðeins kunna að meta tónlist Duran Duran eins og tíska var á mölinni meðal jafnaldra þeirra.

Umhverfið, söngurinn og lífið í Kerlingarfjöllum víkkaði sjóndeildarhring þeirra.

Skagfirsk menning er meira en söngurinn. Með þekktasta heimkynni íslenska hestsins leggja Skagfirðingarog bændur um allt land grunninn að skilningi á gildi umhverfisins í mótun menningar . Þúsundir ungs fólks um allt land kynnist íslenska hestinum og í gegnum hann fær þetta fólk tækifæri til að fara um landið á hestum, koma á hestamót og samlagast og kynnast því sem Pálmi Stefánsson lýsir með orðunum "Skagfirsk menning, mæt og fögur..."

Sú menning er auðvitað ekkert einkamál Skagfirðinga heldur sú hin sama og viðhaldið er úti á landsbyggðinni af reisn og trúmennsku sem allir Íslendingar ættu að tileinka sér jafnframt því sem leitað er fanga í því besta sem alþjóðleg menning getur fært okkur.

Ef tengslin rofna milli þeirra sérstæðru og grónu menningar, sem ég fjalla hér um, og alþjóðlegra strauma og aðeins situr eftir aðflutt menning, verður illa komið fyrir íslenskri þjóð, sjálfsímynd hennar og hlutverki í menningarlífi heimsins. Vonandi gerist það aldrei.


ÞAÐ BESTA SEM VIÐ GETUM GERT.

Í Kína erum við Íslendingar að fikra okkur inn á braut þess besta, sem við getum gert fyrir mannkynið, - að nýta þekkingu okkar og reynslu til að hjálpa öðrum þjóðum við að nýta ódýra og hreina orku þannig að báðír aðilar hafi hagnað af. Það er eðlilegt að það taki tíma að finna út hvaða fyrirkomulag er best að nota, að hve miklu leyti það eigi að vera á vegum einkafyrirtækja eða opinberra fyrirtækja.

Í einstaka tilfellum mætti hugsa sér svona framkvæmdir sem hluta af þróunaraðstoð okkar og verkaskiptingu þjóða í henni. Þá hjálpum við fátækari þjóðum á því sviði sem við erum bestir í en látum aðrar þjóðir um að hjálpa á þeim sviðum sem þær eru bestar í.

Gríðarlega orku þarf til húshitunar hjá þeim milljörðum fólks sem býr norðan og sunnan við hlýjustu löndin nálægt miðbaug. Þarf ekki annað en að líta snöggt á landakort til að sjá að t.d. í Tyrklandi er meðalhitinn í höfuðborginni Ankara lægri í janúar en hann er í Reykjavík.

Hundruð milljóna fólks býr í fjallahéruðum nálægt miðbaug sem þarf á húshitun að halda. Mér eru  minnisstæðar flugferðir í lítilli flugvél yfir stóran hluta Eþíópíu þar sem reykir stigu upp frá þúsundum strákofa í fjallahéruðunum svo að minnti á ljóðlínurnar "...þá var veisla hjá innfæddra eldi..." En eftir að hafa farið um fjallahéruðin á landi vissi ég að eldurinn logaði ekki aðeins til að sjóða mat heldur frekar til að hita upp hýbýlin.

Við útrás hinnar dýrmætu þekkingar okkar á þessu sviði þarf að finna bestu formúluna fyrir einkarekstur og opinberan rekstur. Eðlilegt er að opinber fyrirtæki og þar með landsmenn fái að njóta verðmætanna sem liggja í þekkingunni og reynslunni í þessum fyrirtækjum án þess að farið sé út í óþarflega mikinn áhætturekstur. Það má ekki loka þessi verðmæti inni heldur leyfa þeim að njóta sín. 

Á hinn bóginn sýnir útrás fjármálafyrirtækjanna að þörf er á því frumkvæði, frumleika og krafti sem einkareksturinn getur búið yfir þegar um áhættusamar fjárfestingar og ný verkefni er að ræða. 

Ríkisbankarnir okkar gömlu hefðu aldrei farið út í þá útrás og fært þá björg í bú hér sem einkareknu fjármálafyrirtækin hafa gert nú. Það hefði heldur ekki verið verjandi að nota ríkisábyrgðir til að taka þá áhættu sem slíkt krafðist. Ástæðurnar voru tvær: Annars vegar gagnvart þjóðinni sem eiganda bankanna. Og hins vegar vegna þess að hér á landi er viðburður að þeir sem fyrir slíku standa þurfi að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Það slævir áhættumat þeirra og þá tilfinningu sem þeir verða að hafa fyrir því að standa sig því að ella tapi þeir sjálfir öllu.  

Verkaskipting opinbers rekstrar og einkarekstrar er eilífðarverkefni og álita- og átakaefni í stjórnmálum. Við megum ekki láta hugfallast þótt misjafnlega gangi í þeim efnum. Heimurinn þarf í meira mæli en nokkru sinni fyrr á því að halda sem við getum best gert.  


mbl.is Mikil áhrif hitaveitu í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ÞAÐ ERU BARA STELPUR SEM..."

Eitt af barnabörnum mínum á unglingsaldri sá feðga í búð þar sem brúðuleikhús var á boðstólum. "Mig langar í svona" sagði ungi drengurinn." "Nei, það eru bara stelpur sem fá svona" svaraði faðirinn. Málið afgreitt. Ein dótturdóttir mín hefur haft mikinn áhuga á bílum frá því að hún var smástelpa. Ég hef lánað henni stórar bílabækur í stað þess að segja við hana: "Það eru bara strákar sem hafa áhuga á bílum." 

Konur hönnuðu að mestu aðra kynslóð Opel Corsa bílanna og það mun hafa verið kona framkvæmdastjóra Fiat-verksmiðjanna sem átti hugmyndina að nýjum Fiat 500 og fékk sínu framgengt, en þessi bíll hefur algerlega slegið í gegn.

Brúðuleikhúsið sem ungi drengurinn heillaðist af var ekki það sama og dúkkur eða dúkkulísur. Hugsanlega blunda í drengnum hæfileikar til leikhúsvinnu eða teiknimyndagerðar sem hefðu átt skilið að fá að þroskast. Og jafnvel þótt hann hefði sýnt áhuga á dúkkum eða dúkkulísum hefði það ekki verið til góðs að berja þann áhuga niður með harðri hendi.

Hugmyndir fólks um kynjahlutverk mega ekki standa í vegi fyrir því að hver persóna fái að þroska hæfileika sína. Þegar fólk sem berst fyrir jafnrétti vill þvinga öll börn til þess að vera eins er baráttan komin út á hálan ís að mínum dómi, ekki síst vegna þess að ekki veitir af að berjast af öllu afli gegn þeirri mismunun í launamálum sem enn viðgengst og byggist að miklu leyti á því að umönnunarstörf eru vanmetin.

Það verður ekki hægt að breyta því að það verði áfram mismunur á áhugamálum og hegðun drengja og stúlkna og það getur varla verið neinum til góðs að lemja niður áskapaðar hneigðir, hvort sem þær eru í samræmi við staðalímyndir eða ekki. 

 "Bragð er að þá barnið finnur" segir máltækið. Barnabarn mitt sagði móður sinni frá feðgunum og velti greinilega mikið fyrir sér orðaskiptum þeirra. Ný kynslóð er að vaxa upp sem nálgast þessi mál fyrr og með opnari huga en áður hefur tíðkast. Það gefur von um meiri sanngirni, skilning, víðsýni og réttlæti í þessum málum í framtíðinni.  

Í Afríku kom ég í þorp þar sem karlarnir flatmöguðu í stærsta strákofanum með vopnum sínum og voru viðbúnir að grípa til vopnanna ef sams konar karlar úr næsta ættbálki kæmu með ófriði. Annað hlutverk höfðu þessir karlar ekki en að móka þarna daginn út og daginn inn, en konur og unglingar sáu um allt stritið sem fátækt þriðja heimsins útheimtir til að fólk komist af.

Ég spurði íslensku trúboðana hvers vegna þeir gerðu ekki gangskör í að uppræta þetta hróplega misrétti með valdi. 

Þeir svöruðu því til að það væri ekki framkvæmanlegt heldur tæki það ein til tvenn kynslóðaskipti. Reynslan hefði sýnt að eina leiðin til úrbóta væri að mennta uppvaxandi kynslóð svo að hún lærði þær undirstöður nútíma samfélags sem væru forsenda fyrir framförum og breytti þessu þegar hennar tími kæmi.

Þetta hljómar ekki bjartsýnislega og ætti að vera fljótlegra að bæta þjóðfélag okkar en hið afríska. En líklega er samt mikið til í íslenska máltækinu að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.  


ÞYRFTU AÐ FARA Í MEÐFERÐ.

Ég vorkenni þeim mönnum sem varpa skugga á sjálft jólahaldið hjá samsveitungum sínum með skemmdarverkum. Þeir hljóta að eiga bágt sálarlega og eru sennilega haldnir áráttu sem þeir ráða ekki við og þyrftu að fara í meðferð til að lækna. Það er spurning hvort hér er um sömu menn að ræða og farið hafa með skemmdarverkum um Austurland undanfarin ár, allt frá Kringilssárana til Háreksstaða og Reyðarfjarðar. Í apríl-maí 2006 var ráðist á "Rósu", Feroza-jeppann minn í Kringilsárrana og hann grýttur og skemmdur, síðan aftur þegar hún var komin á land hinum megin við Hálslón og þá tekin undan henni öll hjól og þeim stolið.

Loks var stolið utanborðsmótor af Örkinni nú í haust þar sem hún stóð við vinnubúðir Suðurverks. Ég hef heyrt um skemmdarverk á bílum, sem hafa verið skildir bilaðir eftir á Háreksstaðaleið.

Skemmdarverkin hafa verið unnin það víða að skemmdarvargarnir hljóta að ráða yfir góðum og öflugum fjallabílum, - annars hefðu þeir til dæmis ekki verið á ferð í Kringilsárrana á þeim tíma sem aðeins jöklajeppar komast þangað.

Annað einkenni er að skemmdarverkin hafa alltaf verið unnin á frídögum eða um helgar. Það bendir til að Bakkus eigi hlut að máli hjá einhverjum þeirra.

Gott fólk og gott samfélag á Austurlandi eiga ekki skilið að svartir sauðir varpi skugga á það.


mbl.is Skemmdarvargar á Reyðarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband