26.12.2007 | 13:21
KÆRKOMIÐ FRÉTTALEYSI ?
Fréttafíklar geta átt bágt um jólin. Í gær voru helstu fréttirnar það sem allir vissu, hvernig veður var úti, - að guðsþjónustur voru haldnar, að reynt var að gera útigangsfólki jólin bærilegri o.s.frv. Í erlendu máli er norðið "nýtt" notað um fréttir, "nyheder og news", þ. e. að frétt sé aðeins það sem öðruvísi en það sem fyrir er. Ég hef oft á starfsferli mínum þurft að rökstyðja það að eitthvað sé "ekkifrétt" með því að vísa í orðaval nágrannaþjóðanna um þetta fyrirbæri.
Einu sinni var gerð tilraun á Stöð tvö að mig minnir að hafa engar fréttir á jóladag í sparnaðarskyni. Ekki man ég til þess að nein sérstök frétt hafi verið á ferðinni á þessum degi en það var allra manna mál að svona lagað mætti aldrei gerast aftur.
Ég held að það sé ákaflega gott að ekkert gerist fréttnæmt um jólin. Það ætti að geta hjálpað okkur til að færa okkur út úr streitunni, hraðanum og óþolinu sem þjóðlíf okkar einkennist af í vaxandi mæli. Mér þótt því vænt um ekkifréttatíma gærdagsins og mín vegna hefði vel mátt fella alla fréttatímana niður.
Það er reynsla fréttamanna að annar í jólum, páskum og hvítasunnu geta oft orðið erfiðustu vinnudagarnir vegna fréttaleysis. Svo virðist hins vegar sem dagurinn í dag sé ekki fréttalaus og því miður er fréttin af hrundu brúnni í Nepal ekki góð frétt. Það er engu að treysta þegar fréttir eru annars vegar.
Frétt sem sýnist verða fyrsta frétt að morgni getur orðið að þeirri síðustu um kvöldið eða jafnvel verið sleppt. Alvarlegar og stórar fréttir geta gerst á jóladag og páskadag, alveg eins og aðra daga og því er og verður það útilokað að sleppa fréttatímum nokkurn dag ársins.
En mikið finnst mér það gott þegar engar fréttir gerast á helstu hátíðisdögum ársins. Það gæti jafnvel orðið frétt í sjálfu sér að hafa bara þá einu frétt í fréttatímanum að aldrei þessu vant sé ekkert í fréttum. Það væri hægt að "selja" þá frétt með því að slíkt hafi aldrei gerst áður og sé því frétt, nyhed.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.12.2007 | 15:06
GRÆNLANDSJÖKULL - HVÍT JÓL.
Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól. Eftir óralanga rigningartíð er logndrífa af hvítum snjó og hún leiðir hugann að Grænlandsjökli, hinu ógnarstóra, óhaggalega hvíta víðerni aðeins tæplega þrjú hundruð kílómetra undan Hornströndum og ræður svo miklu um veðurfarið á Íslandi. Á korti sem ég sá nýlega af þeim mikla ís sem hefur þegar bráðnað norður af Kanada, stakk í augun hve lítill hluti þessa auða sjávar lá við norður- og norðausturhorn Grænlands.
Muhammad Ali var eitt sinn beðinn að spá fyrir um úrslit væntanlegs bardaga hans við einn skæðasta andstæðing hans. Ali svaraði með spurningu: Hve lengi getur ísklumpur í sjóðheitum ofni staðist hitann?
Samlíkingin var fullkomin hvað snerti hinn komandi bardaga og á hverju vori má á flugi yfir Ísland sjá dæmi um það hve tregða kuldans í ísnum á íslenskum fjallavötnum heldur ísnum lengi við þótt landið allt um kring sé fyrir löngu orðið marautt.
Það má sjá það fyrir sér að allur ís verði horfinn af norðurskautinu löngu áður en Grænlandsjökull verður bráðnaður niður í botn, hinn meira en 3000 metra þykki ísklumpur í ofni hlýnandi loftslags gróðurhúsaáhrifanna af útblæstri mannsins.
Um langa framtíð verður þessi gríðarlegi kuldaskjöldur aðeins 300 km frá Íslandsströndum og hefur meiri áhrif á veðurfar á Íslandi en flest annað, býr til andstæðu við hlýju loftbylgjurnar sem koma norður með austurströnd Ameríku og sunnan úr Atlantshafinu, sem knýr krappar og djúpar lægðirnar, kenndar við Ísland í nágrannalöndum okkar í Evrópu.
Á sumrin má stundum sjá hliðstæðu í Vesturbyggð þegar mjög hlýtt er á Barðaströnd. Þá stígur loft þar upp og til verður hringrás sem dregur kalt loft utan af Grænlandshafi inn í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð. Innlögn er þetta kallað á Patreksfirði og hún byrjar því fyrr og er því öflugri sem hlýrra er á Barðaströnd.
Ég hef farið einu sinni yfir Grænlandsjökul og hreifst af mikilleik hans, - reynt að lýsa honum í bókinni "Ljósið yfir landinu", og leyfi mér stundum í hálfkæringi að kalla Vatnajökul "skaflinn" í samburði við stærsta ísjöfur norðurhvelsins sem allt of fáir Íslendingar hafa kynnst.
Við getum kannski þakkað Grænlandsjökli það að fá hvít jól nú og um ókomin ár á meðan "ísklumpurinn stenst hitann í ofninum" eins og Ali orðaði það. Og einnig bölvað honum fyrir það hve seinlega það gengur fyrir hann að beygja sig fyrir afleiðingunum af gerðum okkar mannanna.
Enn og aftur: Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.12.2007 | 01:48
JÓLAKÖTTURINN Á SPÁNI.
Ósk Eiðs Smára Guðjonhsen um þá jólagjöf að fá að spila leikinn við Real Madrid rættist ekki. Þjálfari liðsins reyndist vera Jólakötturinn sjálfur sem Eiður lenti í. En kannski var það ekki það versta sem gat komið fyrir Eið því að nú hneykslast spánskir sparkspekingar á þessu framferði Rijkards og benda á það hve þeir voru slappir sem voru valdir í stað Eiðs.
Athyglisverð er úttekt í blaði á því hve lengi þeir tíu miðju- og framlínuleikmenn Barcelona sem til greina koma, hafa spilað á leiktíðinni. Þá kemur í ljós að aðeins tveir hafa verið valdir oftar í byrjunarliðið og spilað lengur.
Þessi niðurstaða er alveg á skjön við þá mynd sem hér á landi hefur verið dregin upp af stöðu og gengi Eiðs hjá liðinu og einhvern tíma hefði maður látið segja sér það tvisvar að Eiður væri talinn eiga frekar að hafa verið inni á vellinum í þýðingarmiklum leik en sjálfur Ronaldinho.
Þetta sýnir að Eiður hefur alveg staðið fyrir sínu í keppni við gríðarlega góða knattspyrnumenn um að komast í byrjunarlið þessa meistarliðs sem nú hefur fatast flugið að manni skilst vegna þess að félagar Eiðs eru ekki í góðu formi þessa daga þegar hann blómstrar.
Eiður á heiður skilinn fyrir þrautseigju sína og vilja og verðskuldar góðar jólakveðjur frá aðdáendum sínum hér heima á klakanaum.
![]() |
Rijkaard gagnrýndur fyrir að velja Deco umfram Eið Smára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.12.2007 | 14:43
ÁRNI ER LÁTINN EN LIST HANS LIFIR.
Með skömmu millibili hafa þrír menn sem fóru um landið með Sumargleðinni verið brott kallaðir af þessari jörð, Árni Scheving, Jón Sigurðsson og Bessi Bjarnason, allt frábærir listamenn, minnistæðir öðlingsmenn og gleðigjafar.
Árni fékk í vöggugjöf fágæta tónlistargáfu og var engu líkara en hann gæti spilað fyrirhafnarlaust á hvað það hljóðfæri sem barst upp í hendur hans. Ekki var hann síðri útsetjari og hljómsveitarstjóri.
Sem lítið dæmi get ég nefnt að á síðustu plötunni sem hann vann með Hauki Heiðari Ingólfssyni og félögum var lag sem ég vissi ekki fyrirfram að yrði á plötunni. Þegar ég heyrði þetta lag spilað í útvarpinu sperrti ég eyrun og hækkaði í tækinu um leið og ég velti því fyrir mér hvaða erlend hljómsveit spilaði þetta svona vel.
Þetta hlaut að vera upptaka hjá einhverjum þeirra frægustu, hljóðfæraleikurinn, hljómurinn og útsetningin voru svo "mikið erlendis" svo ég noti skemmtilegt orðtak Björgvins Halldórssonar.
Þá kom í ljós að hér hafði Árni haldið þar um taumana af einstæðri fágun og listfengi.
Mér telst til að nítján manns samtals hafi farið með Sumargleðinni um landið og nú eru sjö fallnir frá.
Við hin sitjum eftir og yljum okkur í mesta skammdeginu við góðar minningar sem við eignuðumst um Árna Scheving og aðra gleðigjafa sem voru samferða okkur en hafa nú horfið á braut um sinn.
Ég þakka fyrir allt það sem Árni vann fyrir mig allt fram undir það síðasta af aðlúð og smekkvísi, alltaf í góðu skapi, kurteis og fágaður. Ég var farinn að hlakka til að leita til hans með það að spila á frönsku nikkuna í lagi sem heitir "Flest er nú franskt".
Nú spyr ég: Hver getur nú spilað á nikkuna í þessu lagi?
Hans er sárt saknað en list hans lifir.
![]() |
Árni F. Scheving látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2007 | 14:25
AÐ GERA SÉR DAGAMUN.
Eitt af boðorðunum kveður á um að halda skuli hvíldardaginn heilagan. Þetta er ekki út í bláinn því að í amstri hversdagsins er það manninum nauðsynlegt að geta hvílst og "hlaðið batteríin" eins og við köllum það á okkar dögum. Það verður illa komið fyrir mannkyninu ef aldrei væri lát á brauðstritinu. Jafnvel hjá fáækasta fólkinu og frumstæðasta sem við hjónin heimsóttum á sínum tíma í Afríku gat fólk sest niður í skógarrjóðri og sungið og spilað.
Þar spilaði unglingur einn eins og engill á gítar, sem var bensínbrúsi, sem söguð hafði verið ein hliðin úr og fest við spýta með vírstrengjum.
Það er íhugunarefni hvort alla þá streitu og hraða og vinnu þurfi til að við getum haldið nauðsynlegustu hátíðina okkar, hátíð sem léttir okkur erfiðasta róðurinn í gegnum myrkur og kulda mesta skammdegisins.
Ég þakka öllum lesendum og bloggurum sem hafa tengst bloggsíðu minni á árinu fyrir yndisleg kynni og óska þeim gleðilegra jóla þar sem við gerum okkur öll nauðsynlegan dagamun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2007 | 14:13
JÓLAKÖTTURINN Á SPÁNI.
Í blaðaviðtali vonaðist Eiður Smári Guðjónsen eftir þeirri jólagjöf að fá að spila á í leiknum á móti Real Madrid. En þótt hann færi í jólaköttinn að þessu leyti getur hann vel við það unað að hafa eignast gott bakland hjá spönskum sparkspekingum sem furða sig á því að hann skyldi ekki vera í byrjunarliðinu. Athyglisverð er úttekt á þátttöku Eiðs Smára í leik Barcelona á leiktíðinni þar sem kemur í ljós að hann hefur tekið þátt í fleiri leikjum og verið lengur inn á en flestir aðrir miðju-og framlínuleikmenn.
Þeir sem hafa tönnlast á því að hann hafi ekki staðið fyrir sínu vegna þess hve lítið hann hefur verið inn á hafa greinilega ekki tekið það með í reikninginn að í leikmannahópnum sem um ræðir eru tíu af bestu knattspyrnumönnum heims og að það er afrek út af fyrir sig að hafa skákað þeim flestum þegar tölurnar eru skoðaðar.
Verra er að fleiri skyldu láta þetta glepja sig og velja ekki Eið Smára sem leikmann ársins á Íslandi. En Eiður Smári hefur sýnt það og sannað að hann lætur slíkt ekki á sig frá frekar en annað mótlæti.
VHver hefði getað spáð um það á sínum tíma að þjálfari yrði harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki látið Íslending spila í stað sjálfs Ronaldinho?
Eiður á bara eftir að koma enn öflugri til leiks eftir hátíðar og á skilið að fá heitar jólakveðjur frá Íslandi með þökk fyrir frábæra þrautseigju og frammistöðu á árinu sem er að líða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 12:06
"HÚN VAR GÓÐ, SKATAN!"
Faðir minn heitinn var í sveit í Hrafnadal í Strandasýslu. Þetta er eyðidalur sem gengur upp í heiðina fyrir vestan norðanverðan Hrútaförð. Þá var dalurinn afskekktur og frumstætt lífið þar, menn átu sterk reykt og saltað árið um kring. Sigurður bóndi varð slæmur í maga fyrir bragðið og þurfti að fara til Reykjavíkur í fyrsta sinn á ævinni til að láta lækna líta á sig. Þetta var á byrjunarstigi og karlinn tók fljótt við sér og varð hinn hressasti.
Pabbi bauð honum í flugtúr yfir borgina í lítilli fjögurra sæta vatnaflugvél af gerðinni Seebee og þetta varð jafnframt minn fyrsti flugtúr, en ég var átta ára. Þegar heim kom buðu foreldrar mínir upp á skötu. Karlinn hafði aldrei etið skötu fyrr og var tregur til, fannst lyktin ekki aðlaðandi. Á endanum lét hann til leiðast og smakkaði á. Er skemmst frá því að segja að honum líkaði stórvel. "Hún ER góð, skatan!," hvein í honum og hann endurtók þetta aftur og aftur en breytti því í "hún VAR góð, skatan" næstu daga á eftir.
Hann þurfti tvívegis síðar að koma til Reykjavíkur til lækninga og fór með okkur í leikhús í fyrsta sinn. Hann heilsaði foreldrum mínum með orðunum: "Hún VAR góð, skatan!" Hann gat ekki gleymt henni, - flugtúr og leikhúsferð gátu ekki toppað skötuna.
Þegar magakrabbinn sótti á að lokum og hann lagðist banaleguna á Landakotsspítala fór ég einu sinni með pabba að heimsækja hann. Hann átti skammt eftir, það var hörmung að sjá hann þar sem hann lá í móki. Hann leit þó upp þegar pabbi heilsaði honum.
Þegar hann sá okkur feðgana færðist bros yfir andlitið þegar hann stundi lágt: "Hún VAR góð, skatan."
Á hverri Þorláksmessu minnist ég hins ógleymanlega bónda úr afdalnum og segi við sjálfan mig: "Hún VAR góð, skatan! Og hún ER ennþá góð, hvað sem hver segir af því að Sigurður heitnum í Hrafnadal fannst hún góð.
Gleðilega Þorláksmessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.12.2007 | 01:49
GULLFOSS NÆST - SIGRÍÐUR HVAÐ ?
Sýslumaðurinn á Selfossi viðraði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld hugmynd, sem virðist eiga vaxandi fylgi að fagna, sem sé að virkja Gullfoss. Hann orðaði það að vísu svona: "...að virkja fyrir ofan Gullfoss." Það þýðir auðvita virkjun fossins, því að að ekki er hægt að taka vatnið í Hvítá fyrir ofan fossinn og leiða það í göng niður í stöðvarhús nema að taka það vatn af fossinum. Framtíðarsýnin virðist vera sú að báðar árnar, Hvítá og Þjórsá, verði fullvirkjaðar og hægt að hafa hemil á flóðum í þeim.
Jakob Björnsson hefur bent á það að hægt verði að láta vera "ferðamannarennsli" í Gullfossi á ákveðnum tímum ársins, einkum síðsumars eftir að miðlunarlónið Hvítárvatn yrði orðið fullt sem og hugsanlegt nýtt, tilbúið lón ofan við Gullfoss. Þessir ágætu herramann, Ólafur Helgi og Jakob, tala að vísu lítið um það hvaða áhrif það myndi hafa á umhverfi Hvítárvatns að hleypa því upp og niður með tilheyrandi leirbornum og þurrum fjörum þegar minnst yrði í vatninu.
Tilbúið lón fyrir ofan Gullfoss getur verið í hvarfi frá fossinum og því leynt fyrir ferðamönnum sem koma í Sigríðarstofu til að dást að baráttu hennar gegn virkjun fossins.
Einnig er auðvitað í lófa lagið að endurhanna Sigríðarstofu og breyta um nafn á henni og fjarlægja allt sem minnir á það að barist hafi verið gegn virkjuninni. Annað eins er nú gert.
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" var það niðurstaða mín að virkjun bæði Geysis og Gullfoss myndi valda minni óafturkræfum neikvæðum umhverfisáhrifum en Kárahnjúkavirkjun.
Nú verður vafalaust hægt að henda þessa niðurstöðu mína á lofti sem röksemd fyrir að virkja bæði Geysi og Gullfoss. Geysir er hvort eð er hættur að gjósa og hægt yrði að skábora í nágrenni hverasvæðisins. Framtíðardraumurinn er greinilega sá að hvergi á öllu svæðinu frá Reykjanesi um Suðurlandsundirlendið og hálendið allt til norðurstrandarinnar verði þverfótað fyrir virkjunum, stíflum, lónum, háspennulínum, borholum, stöðvarhúsum og gufuleiðslum.
Rökin fyrir því að virkja Neðri-Þjórsá eru þau að margar aðrar virkjanir valdi meiri umhverfisspjöllum. Þetta er það sem ég óttaðist allan tímann þegar deilt var um Kárahnjúkavirkjun, - að eftir að svo hrikaleg umhverfisspjöll fengju framgang teldu virkjanasinnar að allir vegir væru færir, - fordæmið væri fyrir hendi, - stærsta virki umhverfisverndarfólks fallið.
Halli og Laddi áttu á sínum tíma hina skemmtilegu setningu: Jóla- hvað? Nú er hægt að bæta við: Sigríður í Brattholti hvað? Og líka: Gullfossvirkjun, Geysisvirkjun og álver í Þorlákshöfn, stærsta jólagjöfin til þjóðarinnar árið 2012 !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
21.12.2007 | 21:48
POPPLAG Í D-DÚR, ENGIN LEIÐ AÐ HÆTTA.
Stuðmenn sungu um það að engin leið væri að hætta í popplagi í G-dúr. Nú syngja stuðmenn íslenskra stjórnmála popplag í D-dúr og það er engin leið að hætta að ráða trekk í trekk "innvígða og innmúraða" í helstu embætti íslenska dómskerfisins. Með þessu er ekki sagt að það sé einhlítt að umsagnaraðilar hafi ávallt rétt fyrir sér um mismikla hæfni umsækjenda og þess vegna kann vel að vera að Þorsteinn Davíðsson muni reynast jafn vel í embætti og til dæmis hinn umdeildi og óreyndi Pálmi Hannesson eftir að hann var ráðinn rektor Menntaskólans í Reykjavík og í ljós kom í áranna rás að hann gegndi starfinu af mikilli reisn og virðingu.
Þegar það er hins vegar farið að nálgast reglu að þegar hinir innvígðu sækja um séu þeir teknir fram yfir aðra, sem umsagnaraðilar telja hæfasta, er hverjum þeirra sem um sig, sem ráðnir eru, enginn greiði gerður með svona háttalagi, nú síðast Þorsteini Davíðssyni.
Hér á árum áður voru nánast allir sýslumenn landsins og dómarar úr helmingaskiptaflokkunum Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Ævinlega var hægt að benda á að hver þeirra væri hæfur til starfans en það var vafalaust líka hægt að gera í Sovétríkjunum þar sem aðeins voru ráðnir menn sem voru "innvígðir" félagar í kommúnistaflokknum.
Að því leyti til var íslenska kerfið verra en það sovéska að þar í landi var ekkert verið að fela það að aðeins félagar í kommúnistaflokknum gátu fengið embætti. Það var bundið í lög í landinu þar sem allir áttu að vera jafnir en í ljós kom að sumir voru svo miklu jafnari en aðrir að á endanum molnaði þetta kerfi innan frá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.12.2007 | 23:42
ÞRJÁR KRAKATÁR Á ÍSLANDI ?
Fyrri hluti leikinnar heimildarmyndar um gosið mikla í Krakatá 1883 og mynd sem hefur áður verið sýnd í Sjónvarpinu um Pompei minnir okkur á þrjú hættulegustu eldfjöll Íslands, Snæfellsjökul, Heklu og Öræfajökul.
Snæfellsjökull og Öræfajökull eiga það sameiginlegt með Vesúvíusi, St. Helenu í Bandaríkjunum og St. Pierre á Martinique að geta gosið á þann hátt að flóð af sjóheitri, öskublandaðri gufu æði langa vegalengd niður fjallið og drepi allt sem á vegi þess verður.
Í eimyrjuflóðinu frá St. Pierre fórust 40 þúsund manns á ca 1-2 mínútum 1904 og hugsanlega hefur svipað gerst þótt í minna mæli væri í eldgosinu í Öræfajökli 1362.
Snæfellsjökull hefur verið óvirkur lengi en menn segja ekkert ósvipað um hann og sagt var um Vestmannaeyjar fyrir 1963 að þær væru óvirkar. Annað kom á daginn.
Snæfellsjökull er líklegast hættulegasta fjall á Íslandi ef á annað borð gýs þar, því að nálægt honum er þéttbýli, einkum við norðanvert fjallið.
Eftir Heklugosið 1990 settu jarðfræðingar það fram að eðli fjallsins væri að breytast á þann hátt að í stað eins til tveggja gosa á öld gysi nú með tíu ára millibili. Það kynni að vera byrjun á ferli sem gæti endað með því að fjallið spryngi líkt og Krakatá.
Það er merkileg tilviljun að nákvæmlega ein öld leið á milli gosanna í Lakagígum og Krakatá og bæði gosin sendu svo mikið af gosefnum upp í lofthjúpinn að það varnaði geislum sólar leið til jarðar og afleiðingin var kólnun sem stóð í nokkur ár.
Lakagígagosið 1783 kann að hafa átt þátt í frönsku stjórnarbyltingunni að því leyti að vegna slæms og kalds árferðis dróst uppskera saman í Frakklandi og ýtti undir óánægju alþýðunnar.
Aðstaðan er önnur nú en 1883 og 1904 hvað snertir þekkingu manna á eðli eldsumbrota jafnt neðan jarðar sem ofar.
Þess vegna var hægt að rjúfa útsendingu útvarpsins 2000 og tilkynna, að gos myndi hefjast í Heklu innan hálftíma.
Enn verður þó að hafa varann á og umgangast hin miklu reginöfl af þeirri virðingu sem þeim ber, hvort sem það eru "Kverkfjallavættir reiðar" í ljóði Jóns Helgasonar eða Hekla, frægasta og illræmdasta eldfjall landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)