ÁRNI ER LÁTINN EN LIST HANS LIFIR.

Með skömmu millibili hafa þrír menn sem fóru um landið með Sumargleðinni verið brott kallaðir af þessari jörð, Árni Scheving, Jón Sigurðsson og Bessi Bjarnason, allt frábærir listamenn, minnistæðir öðlingsmenn og gleðigjafar.

Árni fékk í vöggugjöf fágæta tónlistargáfu og var engu líkara en hann gæti spilað fyrirhafnarlaust á hvað það hljóðfæri sem barst upp í hendur hans. Ekki var hann síðri útsetjari og hljómsveitarstjóri.

Sem lítið dæmi get ég nefnt að á síðustu plötunni sem hann vann með Hauki Heiðari Ingólfssyni og félögum var lag sem ég vissi ekki fyrirfram að yrði á plötunni. Þegar ég heyrði þetta lag spilað í útvarpinu sperrti ég eyrun og hækkaði í tækinu um leið og ég velti því fyrir mér hvaða erlend hljómsveit spilaði þetta svona vel.

Þetta hlaut að vera upptaka hjá einhverjum þeirra frægustu, hljóðfæraleikurinn, hljómurinn og útsetningin voru svo "mikið erlendis" svo ég noti skemmtilegt orðtak Björgvins Halldórssonar.

Þá kom í ljós að hér hafði Árni haldið þar um taumana af einstæðri fágun og listfengi. 

Mér telst til að nítján manns samtals hafi farið með Sumargleðinni um landið og nú eru sjö fallnir frá.

Við hin sitjum eftir og yljum okkur í mesta skammdeginu við góðar minningar sem við eignuðumst um Árna Scheving og aðra gleðigjafa sem voru samferða okkur en hafa nú horfið á braut um sinn.

Ég þakka fyrir allt það sem Árni vann fyrir mig allt fram undir það síðasta af aðlúð og smekkvísi, alltaf í góðu skapi, kurteis og fágaður. Ég var farinn að hlakka til að leita til hans með það að spila á frönsku nikkuna í lagi sem heitir "Flest er nú franskt".

Nú spyr ég: Hver getur nú spilað á nikkuna í þessu lagi?

Hans er sárt saknað en list hans lifir. 


mbl.is Árni F. Scheving látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þegar ég las um andlát Árna F. Scheving í mbl. nú í morgun hvarflaði hugurinn aftur til bernskuáranna í Laugarnesskólanum árin 1947 til 1953 en við Árni vorum bekkjabræður þar á þessum árum. Mér er ljóslifandi í minni þegar ég heyrði Árna spila í fyrsta skipti.

Það var á bekkjarskemmtun sem haldin var í tónlistasal Laugarnesskóla árið 1950.

Eitt alveg óvænt skemmtiatriði og kom flestum okkar á óvart  var einleikur Árna Scheving bekkjarfélaga okkar, á harmonikku. Það er óhætt að segja að þessi harmonikkuleikur Árna Scheving sló í gegn og vel það.

Ekki ómerkari tónlistarfrömuður en Íngólfur Guðbrandsson , sem þá var tónlistarkennari við Laugarnesskólann, var ekki fjarri á þessari bekkjarskemmtun okkar.

Og Ármi F. Scheving lagði fyrir sig tónlistina svo um munaði eins og  þú ,Ómar, ferð svo vel yfir.

Sævar Helgason, 24.12.2007 kl. 16:01

2 identicon

Árni var frábær maður. Árni var maður sem var alveg til í að koma með ábendingar og tips; hitti hann fyrst þegar ég var að spila í Vestmannaeyjum á jazzhátíð um hvítasunnuhelgi fyrir mörgum árum, hann kom með nokkur tips þar sem ég var ungur víbrafónsleikari og sagði manni nokkrar sögur af sjálfum sér. Árni var einn af þeim tónlistarmönnum sem gat spilað á næstum ölll hljóðfæri, stórkostlegur maður.

Helgi Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 16:01

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Þarna fór einn af þeim sem kenndu mér að spila....sjá á saxi.blog.is

Einar Bragi Bragason., 24.12.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband