GUÐ VARÐVEITI DROTTNINGUNA, - ÓHÆFA?

Ef svipuð umræða væri nú um breska þjóðsönginn og er um hinn íslenska væru þar uppi háværar raddir um að afnema hann vegna þess að minnst er í fyrstu þremur orðunum á tvennt sem er umdeilt í Bretaveldi, Guð og drottninguna. Í þeim íslenska er þó aðeins minnst á Guð í hinum tveggja mínúta langa söng sem sunginn er, ekki á Krist eða neitt sem minnir frekar á kristna trú en önnur trúarbrögð sem hafa Guð sem þungamiðju. Af þessu dreg ég þá ályktun að tilvist orðsins Guð í þjóðsöngnum réttlæti það ekki frekar hér en í Bretaveldi að skipta þjóðsöngnum út.

Samt hef ég lengi efast um íslenska þjóðsönginn og þá af öðrum orsökum, einkum lengd hans og tónsviði.

Hann er fjórum sinnum lengri en breski þjóðsöngurinn og lengri en allir þeir þjóðsöngvar sem mér finnst bestir, en þeir eru þjóðsöngvar Frakka, Rússa, Breta, Þjóðverja og Bandaríkjamanna.

Tónsvið íslenska þjóðsöngsins er mest og erfiðast og stoðar lítið að lækka tóntegundina og taka þar með af honum tign hans, því að þá verða lægstu tónarnir of daufir. Að því leyti er ég sammála Gunnari Þórðarsyni um að efast um þessa nýjustu tilraun til að gera þjóðsönginn hæfari til söngs.

Fyrir tuttugu árum var rifist um þjóðsönginn og einn þeirra sem ekki vildi breyta neinu sagði að þjóðsöngur mætti aldrei verða "söngdrusla."

Mér fannst þetta ekki sterk röksemd. Eða eru hinir flottu þjóðsöngvar sem ég nefndi áðan, með þann franska á toppnum, "söngdruslur"?

Er þjóðsöngur íslenskra sveitamanna "Blessuð sértu sveitin mín" söngdrusla?

Ég hef raunar lengi öfundað íslenskt landsbyggðarfólk af að eiga svo fallegan og óumdeildan söng til að syngja þegar stilla þarf saman strengina.

Þjóðsöngur þarf að vera nákvæmlega það, sem felst í orðinu, söngur sem þjóðin syngur og getur sungið hvar sem tilefni gefst til.

Tvennt er það sem þyrfti helst að nefna í íslenskum þjóðsöng: Þjóðina og landið. Ekki skaðar að tungan og sagan fylgi með. Söngurinn á helst ekki að fara mikið yfir eina mínútu og tónsviðið þarf að vera viðráðanlegt fyrir venjulegt fólk.

Í þeim þjóðsöng sem nú er sunginn eða reynt að syngja á Íslandi er hvergi minnst á þjóðina, landið eða tunguna nema að í fyrstu setningunni er minnst á okkur og landið: "Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð."

Síðan liggur leiðin um sólkerfin og tímanna safn og hinn mikla eilífa anda og hið eina sem minnir okkur á hið jarðneska er "eilífðar smáblóm". Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst setningin "Íslands þúsund ár" frábær og vísar til sögu þjóðarinnar.

Söngurinn heitir Lofsöngur og var ortur í tilefni af þúsund ára afmæli íslands byggðar. Ég kann vel að meta það hvernig Matthías teflir saman eilífðinni og alheiminum á móti mótsagnarkenndri lýsingu hans: "Eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður Guð sinn og deyr. "

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um annað en það sem sungið er en ekki afganginn af Lofsöngnum sem nær aldrei er sunginn.

En fyrir flesta er nánast allt ljóðið, sem sungið er, of fjarrænt og háfleygt til að grípa hvern þáttakanda í söngnum eins og þarf í þjóðsöng. Að ekki sé minnst á það hve erfitt er fyrir venjulegt fólk að syngja hann.

Þess vegna kann að koma að því að Lofsöngur Matthíasar og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar verði fyrst og fremst hátíðarsöngur íslensku kirkjunnar og að til skjalanna komi nýr þjóðsöngur sem tvinnar í textanaum betur saman land, þjóð, tungu og sögu og samheldni og einkenni þjóðarinnar.

En að mínu mati á þörfin fyrir nýjan þjóðsöng ekki að ráðast af því hvort minnst er á Guð heldur af því hvort hann geti verið þjóðsöngur, söngur þjóðarinnar, hvenær sem þörf er á að hann sé sunginn, - ekki af fáum, heldur öllum, - allri þjóðinni.


BJARNI VAR JÓLASVEINNINN Á ÍSLANDI

Í pistli mínum um það hvernig Finnar hefðu hirt af okkur jólasveininn og stórgrætt á því að á margvíslegan hátt, gat ég þess hvílík plága það þótti á fyrstu áratugunum eftir stríð að evrópsk börn stóðu í þeirri trú að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og sendu hingað bréf til hans í þúsundatali. Í stað þess að sjá möguleikana sem þetta gat gefið, leyfðu Íslendingar Rovaniemi í Finnlandi að færa sér það í nyt að auglýsa borgina sem heimkynni jólasveinsins. Nú hef ég fengið upplýsingar sem skýra kannski að einhverju leyti af hverju "jólasveinsplágunni" fór að slota upp hér úr 1970.

Hildur Bjarnadóttir fréttamaður, skólasystir mín úr MR, rifjaði það upp fyrir mér sem ég hafði gleymt þótt ég hefði vitað þetta á sínum tíma, að faðir hennar, Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sem var alveg einstaklega bóngóður maður, tók það að sér að svara þessum bréfum.

Hann gerði meira en það, keypti sér heilu pokana af einseyringum, en einn einseyringur samsvaraði líklega nokkrum krónum nú að verðgildi, - og sendi hverju barni til baka einseyring með bréfinu. Þetta gerði Bjarni á eigin kostnað allt fram til 1970 og borgaði úr eigin vasa.

Þegar þessu tímabili lauk voru einhverjir einseyringspokar eftir og barnabörn Bjarna léku sér að þeim að sögn Hildar.

Bjarni var einhver mesti hæfileika- og mannkostamaður sem ég hef kynnst og það var honum líkt að aumka sig yfir evrópsk börn, enda var hann ákaflega víðsýnn heimsborgari. Hann var um margt á undan samtíð sinni og kom ótrúlega víða við í menningarlíf okkar. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig hann hefði notið sín á okkar tímum þegar möguleikarnir eru meiri fyrir hæfileikamenn að hasla sér völl í henni veröld.

Bjarni var hafsjór af þekkingu og hafði annan skilning en tíðkaðist meðal samtímamanna. Sem einstaklingur reyndi hann að þjóna uppvaxandi kynslóðum nágrannalandanna.

Ég greindi frá því í bloggpistli hér á undan hvernig Japanir náðu tökum á bandaríska bílamarkaðnum með 20 ára söluáætlun sem fólst í því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum litla og ódýra bíla, en bjóða þessu fólki sem síðar varð velmegandi menntafólk, smám saman dýrari og stærri bíla.

Ef við Íslendingar hefðum sem þjóð gert það sama og Bjarni Guðmundsson gerði, - að þjóna uppvaxandi kynslóðum í Evrópu, hefðum við ekki aðeins fengið jólasveininn og allar tekjurnar af honum á silfurfati, heldur einnig getað skapað þann draum í hjörtum þessara barna sem leiddi þau til Íslands jafnt sumar sem vetur þegar þau yrðu fullorðin og hefðu efni á því að láta æskudrauma sína rætast.

Dæmið er sláandi, sem ég nefndi í pistli mínum, um fátæka þýska bakpokastúdentinn sem amast var við um 1970 vegna þess að gæfi ekkert af sér hér, en kemur nú árlega hingað með nokkra tugi nemenda sinna.

Bara ef við hefðum nú haft vit á því að taka upp merki Bjarna Guðmundssonar með myndarlegu og sameinuðu átaki þegar hann féll frá.


mbl.is Náttúruverndarsamtökin fagna stefnumótun Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MESTA HEIMSKAN?

Verkaskipting þjóðanna í gegnum frjálsa verslun og jafnræði í framleiðsluháttum er samkvæmt vestrænni hagfræði besta aðferðin til að bæta hag allra jarðarbúa. Þá verða vörur framleiddar þar sem það er hagkvæmast og verslunin sér um að þetta verði allra hagur. Reynt er að stunda þetta nema í einni framleiðslugrein: landbúnaði. Þar bregður svo við að iðnríkin í norðri nota auð sinn til að halda landbúnaði sínum uppi með stórfelldum ríkisstyrkjum og tollvernd, því annars gætu hin suðrænni lönd nýtt þá hagkvæmni sem heppilegri skilyrði veitia þeim til landbúnaðarframleiðslu.

Reiknað hefur verið út að öll aðstoð iðnríkjanna við þróunarlöndin sé aðeins brot af því sem af þeim er tekið með því að skekkja samkeppnisstöðu landbúnaðar þeirra.

Heimskan er margvísleg í heimi hér og hvorki lítur það gáfulega né mannúðlega út að standa í vegi fyrir dreifingu á matvælum til nauðstaddra í Sómalíu. En það má skoða fleira og stærra þegar menn leita að mestu heimskunni.

Við íslendingar getum lítið haft um þetta að segja því að okkar landbúnað verður að skoða með tilliti til þess sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Okkar landbúnaðarframleiðsla er innan við einn þúsundasti af framleiðslunni í Evrópu og Norður-Ameríku og íslenskum bændum finnst eðlilega ósanngjarnt að landbúnaðurinn hér sé rekinn með minni styrkjum og tollvernd en í nágrannalöndunum.

Það verður ekki fyrr en öflugustu landbúnaðarríkin í Evrópu og Norður-Ameríku endurskoða landbúnaðarstefnu sína sem eitthvað gerist í þessum málum. En það virðist borin von að það geti gerst.


mbl.is Neyð ríkir í Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ORÐUM ÞURFA AÐ FYLGJA EFNDIR.

"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið og það er góðra gjalda vert að ríkisstjórnin hafi sett okkur takmörk. En það þarf efndir og þess vegna er málið ónýtt meðan ekki er gripið til aðgerða. Hvað bílaflotann snertir má nefna eftirfarandi og er því raðað í röð með tilliti til þess hvað virkar fljótast og einfaldast.

1. Lækka þarf verð á dísilolíu miðað við bensín vegna þess að dísilbílar eru mun ódýrari og fljótlegri lausn til að minnka eldsneytiseyðlu og útblástur en t. d. tvinnbílar.
2. Setja þarf lengdargjald á bíla til að smækka bílaflotann og minnka eyðslu og útblástur en jafnframt því losnar ótrúlega mikið og dýrt rými í samgöngukerfinu. Að fjðlga sem mest styttri bíluml liðkar fyrir umferð og gerir hana skilvirkari, eyðsluminni og ódýrari. Auk þess getur það sparað vegaframkvæmdir.
3. Leggja af tollfríðindi á pallbíla.
4. Frítt í strætó, efling almenningssamgangna.
5. Stuðla að meiri notkun etanólbíla, methanbíla og rafbíla.
6. Hraða uppsetningu kerfa fyrir vetnisbíla, rafbíla og etanól og metanbíla.

En fyrst og fremst þarf breytt hugarfar og ég hygg að ég finni andrúmsloftið betur en flestir aðrir á viðbrögðum fólks við bílunum sem ég ek að jafnaði. Það er litið á mann sem sérvitring eða hálfgerðan asna fyrir það hve litlir og ódýrir þeir eru. Á meðan svo er og stóru, dýrum og eyðslufreku bílunum hampað á alla lund gerist ekki neitt, fyrr en kannski svo seint að miklu verra verður fyrir þjóðina að fást við þessi úrlausnarefni þá.


"RÚSSNESK KOSNING" AFTURGENGIN.

Ég átti erfitt með að trúa eigin eyrum að heyra í tíufréttunum í kvöld að yfir 99% kosningaþátttaka hefði verið í Tsjetsjeníu og Pútín með 99% atkvæða. Getur það virkilega verið að rússneskum ráðamönnum þyki slík þátttaka vera góð auglýsing fyrir lýðræðið þar eystra. Ég vona tvennt í þessu sambandi. Annað hvort að þessar tölur séu ekki réttar eða að þetta tákn ekki það að Pútín telji það sér til tekna að fá sams konar tölur upp úr kössunum og Stalín, Krústjof og Brésef fengu á sínum tíma.


mbl.is Kosningarnar í Rússlandi stóðust ekki alþjóðlegar kröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TRÖLLIÐ STAL JÓLUNUM, - FINNAR HIRTU JÓLASVEININN.

Blogg Marínós G. Njálssonar um Rovaniemi kveikir í mér. Eftir tvær ferðir um Lappland allt frá syðstu mörkum þess í Svíþjóð um Finnland og til Alta í Noregi sáum við hjónin, Helga og ég, hvílíkir aular við Íslendingar höfum verið að átta okkur ekki á verðmætunum sem land okkar býr yfir. Fleiri ferðamenn koma nú til Lapplands á veturna en allt árið til Íslands og um það gerði ég sjónvarpspistil fyrir þremur árum. Þarna eru seld ferns konar verðmæti: 1. Kuldi. 2. Myrkur. 3. Þögn. 4. Ósnortin náttúra. Allt eru þetta atriði sem við Íslendingar höfum talið dragbíta á okkar möguleika.

Í Rovaniemi er mikill ferðamannastraumur á þessum árstíma vegna þess að með markvissri markaðssetningu hafa Finnar auglýst þennan höfuðstað Lapplands upp sem heimkynni jólasveinsins. Einnig eru þeir með frábærar vélsleðaferðir og norðar í Lapplandi eru fjölsóttir skíðastaðir í fjöllum, sem við Íslendingar myndum kalla hóla.

Fyrstu áratugina eftir stríð steymdu bréf til Íslands frá evrópskum börnum, einkum breskum, með utanáskriftinni: "Jólasveinninn, Íslandi. Þetta var talin hin mesta plága og skapaði vandæði hjá póstinum. Reynt var að svara einhverju af þessum bréfum en allir önduðu léttara þegar álagið minnkaði við það að smám saman hættu börnin að skrifa þessi bréf.

Í stað þess að sjá verðmætin í þessu létum við Finna hirða jólasveininn af okkur. Á jólunum er stundum sýnd myndin "þegar tröllið stal jólunum" en kannski mætti gera mynd sem héti "þegar Íslendingar stálu jólunum og jólasveininum frá sjálfum sér".

Nú segja einhverjir að gott sé að markaðshyggjan hafi ekki náð svo langt að laða útlendinga til landsins sem spilli hér friði. Þeir hinir sömu ættu að íhuga hvort við séum ekki fyrir löngu búin sjálf að spilla þessum friði með streitu og örtröð desembermánaðar.

Við heimskautsbaug rétt norðan við Rovaniemi hafa Finnar reist heimkynni jólasveinsins, hugvitssamlegt mannvirki hliðstætt Disneyland þótt ekki sé það eins stórt.

Í Jukkasjaarvi er frægasta íshótelið, annað við Kemi við botn Kirjálabotns.

Lapparnir selja norðurljósin svo vel að "skýjaglópurinn" Einar Ben hefði roðnað við að sjá það.

Hér heima héldu þeir í Hveragerði fyrir nokkrum árum að hægt væri að reisa heimkynni jólasveinsins.
Það ævintýri rigndi niður.

Aðeins tveir staðir á Íslandi koma til greina að mínum dómi til að keppa við Lappland: Mývatnssveit eða Egilsstaðir. Af þessum tveimur eiga Egilsstaðir meiri möguleika vegna þess að þar er alþjóðaflugvöllur eins og í Roveaniemi, og uppi á Fljótsdalsheiði, aðeins fáa kílómetra frá flugvellinum er tryggt að finna þau atriði sem geta keppt við Finnana.

Í Finnlandi hafa þeir þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, jólasvein.

Á Fljóstdalsheiði hafa Austfirðingar þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, eldfjall (Snæfell) þrettán jólasveina, Grýlu, Leppalúða og öll tröllin. (Engin fjöll eru nálægt Rovaniemi)

En það er þýðingarlaust að tala um þetta hér. Við sjáum bara álver og í þau er óhætt að fjárfesta svo hundruðum milljarða skiptir jafnvel þótt arðurinn sé fyrir neðan lægstu arðsemismörk.

Við segjum að það sé allt of langt hingað frá Evrópu. Jæja, það er nú samt lengra frá Spáni, Portúgal, Frakklandi og Bretlandi til Rovaniemi en til Egilsstaða.

Við höldum að Spánverjar, Portúgalir, Ítalir, Frakkar og Bretar sækist eftir heiðríkju, hita og sól.

Við hjónin fórum um Írland fyrir 15 árum. Til vesturstrandarinnar flykktust Grikkir, Ítalir og Spánverjar til þess að upplifa kalda og hvassa vestanáttina sem bar saltkenndan úða yfir ströndina svo að allar hríslur voru lauflausar þeim megin sem sneri að Atlantshafinu. Þetta var markhópur Íranna, fólk sem var að deyja úr leiðindum yfir hita og sól og vildi upplifa eitthvað allt annað, stóð við ströndina og fannst það vera að fá allt Atlantshafið framan í sig.
Aldrei upplifað neitt slíkt, - algerlega ný lífsreynsla!

Hingað kom þekktur bandarískur ferðamálaprófessor fyrir sjö árum og sagði okkur að sá markhópur ferðamanna sem stækkaði mest í heiminum væri það fólk sem hefði að kjörorði: "Get your hands dirty and your feet wet." Ég tók viðtal við þessa konu og næstu ár á eftir urðu "survival" og "raunveruleikasjónvarp það vinsælasta.

Írar auglýsa stærsta fuglabjarg Evrópu og draga þangað ferðamenn. Þegar ég sagði við þá að á Vestfjörðum á Íslandi stæðu tvö af þremur langstærstu fuglabjörgum Evrópu sitt hvorum megin við vík eina, og hið þriðja af stærstu fuglabjörgunum væri sunnar á fjörðunum, sögðu þeir: "Já en Ísland er jú eyja."

"Er Írland þá ekki lengur eyja, eyjan græna?" spurði ég og fékk ekkert svar.

Finnar eiga saunaböð en enga hveri eða náttúrugerðar laugar til að leggjast í. Fyrir tíu árum kom hingað blaðamaður frá Sunday Times og var hér yfir jól og áramót. Hvað fannst honum merkilegast? Jú, það var skafrenningurinn! Þessi ótrúlegi skafrenningur!

Og síðan var það auðvitað hin almenna flugeldasýning, brennurnar og álfarnir á áramótunum.

Í fyrra var viðtal við erlenda ferðamenn í sjónvarpi og þeir spurðir hvort leiðinlegt veður og kuldi hefði ekki gert þeim lífið leitt. Spurningin virtist vekja þeim furðu. Þeir sögðust einmitt hafa komið hingað til að upplifa slíkt.

Þetta skiljum við Íslendingar ekki og þaðan af síður það að það þurfi umtalsvert fjármagn, hugvit og vinnu til að ná til þeirra markhópa sem Írar og Finnar hafa náð til. Jólasveinsgarðurinn við Rovaniemi kostaði peninga, svo og öll önnur ferðamannaaðstaða, hótel og markaðsherferðir. Samt er um að ræða margfalt minna fjármagn en hér er eytt í álver og virkjanir.

NIðurstaðan hér á Íslandi verður auðvitað áfram hin sama og hingað til: Lofum Írum að hirða af okkur ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndum og Finnum að hirða af okkur jólasveininn, norðurljósin og náttúru sem engan veginn jafnast á við þá íslensku og nýta það sér til frægðar og fjár.

Finnar vita að til framtíðar vinnst hálfur sigur við það eitt að koma börnunum á bragðið. Þau eiga eftir að verða fullorðnir og vel stæðir ferðamenn. Japnanir unnu sigra sína á bandaríska bílamarkaðnum með því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum smábíla og stækka bílana jafnóðum og þetta fólk óx upp og fór að hafa efni á dýrari, og stærri bílum.

1976 tók ég upp í bíl puttaferðalang, einn af svonefndum erlendum bakpokalýð sem rætt var um að við ættum að forðast að fá til landsins. Nú kemur þessi maður árlega með tugi nemenda sinna til Íslands.

Nei, annars, það er vonlaust að blogga í þessum stíl. Það verður að halda áfram að reisa hér álver og eyða í það hundruðum milljarða króna. Annars verður hér kreppa og atvinnuleysi.


EYMDIN OG MANNAUÐURINN.

Fréttin um ránið í Maputo minnir mig á svipað atvik fyrir þremur árum í þessari borg. Við hjónin, Helga og ég, ókum bílaleigubíl eftir götu í borginni og mér varð á að taka beygju ekki rétt. Var þá umsvifalaust stöðvaður af vopnuðum lögregluþjóni sem stökk fram og krafði okkur um fáránlega háa sekt á staðnum. "Aurinn eins og skot!" eins og segir í texta Stuðmanna um Svarta Pétur. Þessi "lögregluþjónn" gerði okkur það fullljóst með heimtuhörku sinni að ekki væri um það að ræða að fara með honum á lögreglustöð heldur yrðum við að greiða sektina á staðnum.

Mér óaði við að teygja málið því að þá átti ég á hættu að hann neyddi mig til að fara eitthvað annað svo að ég borgaði strax og hann sleppti okkur í kjölfarið.

Þegar ég færði þetta í tal við Íslendingana á staðnum sögðu þeir að við hefðum gert hárrétt. Mótþrói hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur því að vafalaust hefði verið um glæpamann að ræða sem ætti lögregluþjónsbúning. Í borgum eins og þessari yrði að hlýða umyrðalaust við svona uppákomur, hvort sem um væri að ræða raunverulega eða falska lögreglumenn.

Í gær orðaði ég það við Helgu hvernig henni litist á að fara til Sikileyjar í sambandi við gerð kvikmyndar um hugsanlegar innrás Þjóðverja í Ísland í seini heimsstyrjöldinni og áhrif hennar á aðrar vígstöðvar, til dæmis innrásina á Sikiley. Henni leist ekki vel á þann ferðamáta okkar að vera ein á ferð í bílaleigubíl á yfirráðasvæði Mafíunnar og lái ég henni það ekki eftir atvikið í Maputo.

Í Maputo sáum við við fyrir tilviljun sláandi vitni um andstæður eymdar og mannauðs í heimsókn okkar í athvarf fyrir götubörn i illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar þar sem dánartíðni unglinga er hræðilega há vegna alnæmis og annarra sjúkdóma.

Á leið frá athvarfinu komum við að götuhorni þar sem unglingur var að leika sér með fótbolta. Hann skrúfaði boltann upp af tánum og upp fyrir höfuð sér og gerði kúnstir af ýmsu tagi sem ég hef engan annan séð gera. Mér tókst að ná smá parti af þessari snilli á kvikmynd og síðan ókum við burt.

Útilokað er að vita hvar þessi götudrengur er nú niður kominn. Kannski er hann látinn úr alnæmi, hver veit það?

En þetta vakti mig til umhugsunar um þá sóun mannauðs sem eymd og fátækt landa þriðja heimsins hefur í för með sér.

Mér varð hugsað til þess að tæpri hálfri öld fyrr átti frægur knattspyrnuþjálfari leið um þetta hverfi og sá svona götudreng framkvæma kúnstir með boltann. Hann sá hæfileikana í drengnum og gekkst fyrir því að hann kæmist til Portúgals og nyti þar snilli sinnar.

Drengurinn hét Eusebio og varð leikmaður HM og alheimsstjarna í London 1966.

Af því að réttur maður sá hann á réttum tíma á götunni í Maputo varð hann heimsfrægur. Ef bara það hefði verið nú verið réttur maður á réttum tíma sem sá svipaðan dreng á sömu slóðum 2004, - frægur knattspyrnuþjálfari en ekki sjónvarpsmaður frá Íslandi.

Þetta minnir einnig á það þegar frægur hnefaleikaþjálfari sá út úr strætisvagni í fátækrahverfi í Bretlandi smávaxinn dreng verjast mörgum stærri drengjum sem sóttu að honum. Þjálfarinn fór út úr vagninum á næstu stöð og leitað drenginn uppi. Hann varð heimsfrægur og vellauðugur maður eftir einstakan hnefaleikaferil, Prins Naseem-Hamed.

Hvílík sóun á mannauði eru ekki milljarðar fátækra í heiminum sem fá ekki tækifæri til að verða ljós jarðar.


mbl.is Ráðist á íslenska stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SEINT Í RASSINN GRIPIÐ.

Það er góðra gjalda vert að vaxandi skilningur sé á hinum ýmsu hliðum umhverfismála og náttúruverndarmála. Vonandi gefur hin almenni vilji til þess að stóriðja greiði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vísbendingu um að skilningur á fleiri atriðum og staðreyndum umhverfismála muni vaxa nógu hratt til að halda í við hraðferðina sem stóriðjulestin virðist enn á ef marka má öll þau virkjanaáform sem enn eru uppi á borðinu.

Að sjálfsögðu hefði verið best ef hægt hefði verið að koma því svo fyrir strax eftir Kyoto-bókunina að álverin greiddu á einhvern hátt fyrir losunarheimildir sínar þótt það hefði ekki verið á beinan hátt.

Því miður gengur enn of hægt að breyta þeim hugsunarhætti sem áratuga einhliða síbylja um dásemdir hins orkufreka iðnaðar hefur innleitt hjá svo mörgum. Betur má ef duga skal.

Sem dæmi um það má nefna það að Hallur Magnússon telur í bloggpistil sínum í dag að álverin hér á landi noti "endurnýjanlega og hreina orku." Hann er ekki sá fyrsti sem lepur þessa alhæfingu gagnrýnislaust upp.

Það er rétt að margar íslenskar virkjanir geta talist endurnýjanlegar og áletrun í Ljósafossvirkjun þess efnis að Sogsvirkjanirnar séu eilífðarvélar getur alveg staðist.

Enga slíka áletrun er að sjá í Kárahnjúkavirkjun enda stæðist hún ekki. Sú virkjun hefur í för með sér að 25 km langur dalur verður fylltur upp af aurseti og að því loknu verður virkjunin ónothæf meirihlutann af ári hverju vegna vatnsleysis og afkomendur okkar fá þá það verkefni að útvega orku annars staðar frá.

Spurning er líka hve "hrein" sú virkjun er sem hefur þar að auki í för með sér nýja sandstorma úr lónstæðinu þegar það er að mestu leyti þurrar leirur snemmsumars.

Búrfellsvirkjun og virkjanirnar fyrir ofan hana geta talist endurnýjanlegar að miklu leyti en þó ekki öllu. Þannig er til dæmis þegar farið að sjást hvernig Sultartangalón fyllist hratt upp af auri.

Hitaveitur til húshitunar eru endurnýjanlegar, hreinar og með góða varmanýtingu þegar ekki er gengið of nærri afkastagetu virkjunarsvæðanna til frambúðar.

Nýjustu virkjanirnar á Hellisheiði eru það hins vegar ekki ef litið er ca 40 ár fram í tímann. Kreista á 600 megavött út úr svæðinu í stað þess að láta helminginn nægja svo að orkan endist til frambúðar. Eftir ca 40 ár verður orkan uppurin og þá mun það koma í hlut barnabarna okkar að útvega 600 megavatta orku annars staðar frá.

Hvað myndum við segja um þá Ólaf Thors, Bjarna Ben, Emil Jónsson og Gylfa Þ. ef þeir hefðu gert svipað fyrir 40 árum og við sypum af því seyðið í dag?

Frá Hellisheiðarvirkjununum mum streyma margfalt meira af brennsteinsvetni út í loftið en frá öllum álverum landsins til samans og lyktarmengun í Reykjavík fer þegar 40 daga á ári fram úr hámarki þess sem leyft er í Kaliforníu.

Nýtingin er léleg, aðeins 12 prósent af beislaðri orku nýtist en 88 prósent fer ónýtt út í loftið.

Við eigum að kafa dýpra ofan í hlutina og hampa þeim virkjunum sem sannanlega mun standast kröfur um "hreina og endurnýjanlega orku" en nefna hinar réttu nafni eða að minnsta kosti með réttum fyrirvara. Annars stundum við laumuspil og lygar og það er ekki gott fyrir þjóð sem vill vera í fararbroddi á umhverfis- og upplýsingaöld.

Það er hart að þurfa að vera að margblogga um ofangreindar staðreyndir og virðist vera eins og klappa í vegg því alhæfingarsíbyljan um hina "hreinu og endurnýjanlegu orku" heldur stanslaust áfram.

En rétt skal vera rétt og alhæfing Halls Magnússsonar sýnir hve langt er í land með að fólk geri sér grein fyrir hlutunum eins og þeir eru í raun og sann.


mbl.is 95% telja að stóriðja eigi að greiða fyrir mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EKKI KENNA GEMSANUM UM GAMLAN ÓSIÐ.

Sigurður Þór Guðjónsson bloggar um vandræðagemsann í dag og finnur honum allt til foráttu. Þetta er ekki rétt nálgun að mínu viti og vandamálið er miklu eldra og víðtækara og snýst um kurteisi og tillitssemi,- um rétta forgangsröðun viðmælenda. Röð viðmæland okkar á að vera þessi: 1. Sá sem er að tala við þig augliti til auglitis. Klára viðtalið við hann. 2. Næsti viðmælandi þinn á vettvangi á sama hátt.. 3. Sá sem er fyrstur í röð þeirra sem vilja ná tali af þér í síma.

Það eru margir áratugir síðan sá ósiður var tekinn upp hér á landi að ef síminn hringdi var svarað umsvifalaust í hann og snúið baki við viðmælanda eða viðmælendum á staðnum. Upphaflega réði sennilega nýjbrumið á símanum.

Þetta er enn gert miskunnarlaust og er argasti dónaskapur og heldur ekki skynsamlegt. Sá sem hefur haft fyrir því að koma á manns fund og stendur augliti til augliti við mann á auðvitað að hafa forgang yfir einhvern sem situr á rassgatinu ein hvers staðar úti í bæ og hringir.

Á nýjum símum sést langoftast á skjánum hver er að hringja. Ef svo er, þarf ekki að svara strax ef einhver er hjá manni, heldur er hægt að hringja til baka við fyrsta tækifæri. Ef mjög mikið liggur við og hætta er á að missa af mikilvægu símtali af því að ekki sést númer á skjánum (t.d. hringt úr skiptiborði) , má svara örstutt og segja: "Ég er upptekinn, - hringdu aftur eftir x...mínútur.

Ef fólk er statt á stað þar sem símhringingar valda ónæði er auðvelt að stilla símann þannig að hvorki heyrist í honum né hann titri. Ef alveg óskaplega mikilvægt símtal kynni að vera að detta inn má hafa augun á símanum án þess að aðrir verði þess varir og fylgjast með því hvort ljós kvikni á skjáborði hans við hringingu.

En grundvallaratriði hlýtur að vera að síminn valdi ekki truflun.

Við erum líklega öll búin að margbrjóta ofangreindar reglur sem smám saman hafa lokist upp fyrir mér.

Eigum við ekki að reyna að taka okkur taki og kippa þessu í lag?


ÓLAFUR F. KEMUR STERKUR INN.

Ólafur F. Magnússon stóð sig vel að mínum dómi í Silfri Egils í dag og ætti því að koma sterkur inn í borgarmálapólitíkina. Ólafur hefur þá sérstöðu meðal stjórnmálamanna okkar daga að hafa gengið í gegnum vítiseld ofsókna vegna skoðana sinna. Ég segi ofsóknir því að ég finn ekki betra orð yfir það hvernig hann var úthrópaður sem hryðjuverkamaður á landsfundi flokks síns í desember 2001 og hrakinn úr ræðustóli.

Þessi uppákoma var lygileg þegar þess er gætt að fundarstjóri, sem náði því á framaferli sínum að verða forseti elsta löggjafarþings heims, lét sér þessi ólýðræðislegu og ruddalegu vinnubrögð vel líka.

Ætlun þeirra sem að þessu stóðu var að niðurlægja Ólaf sem allra mest og láta hann finna svo fyrir svipunni að hann bæri ekki sitt barr eftir. En stundin sem fyrir flesta hefði orðið stund ósigurs og niðurlægingar varð í staðinn að stærstu stund Ólafs F. Magnússonar að mínum dómi. Það mun sagan staðfesta þótt síðar verði og letra nafn Ólafs gullnu letri fyrir staðfestu og trúfesti við góðar hugsjónir.

Vopnin snerust í höndum andstæðinga hans sem ekki tókst það ætlunarverk sitt að fella hann úr borgarstjórn 2002 og kosningarnar 2006 urðu mikill sigur fyrir hann og fylgismenn hans.

Í stað þess að mynda meirihluta í borgarstjórn sem hefði að baki sér meirihluta kjósenda eins og eðlilegast hefði verið varð annað uppi á teningnum. Sjálfstæðismenn brugðu á það ráð að fara aðra leið.

Nú heyrir það borgarstjórnarsamstarf fortíðinni til og ný staða er komin upp í borgarmálapólitíkinni.

Ég hef áður bloggað um hinn fráleita uppslátt þess að Ólafur framvísaði læknisvottorði við endurkomuna. Það var að sjálfsögðu hans einkamál og engar reglur borgarstjórnar virðast kveða á um að það sé skylt.

Ég nefndi dæmin um tímabundin og mislöng veikindaleyfi Ólafs Thors, Ronalds Reagan, Ólafs Ragnars Grímssonar, Össurar Skarphéðinssonar, Georg Bush og Ingibjörgar Pálmadóttur. Í engu þessara tilfella var verið að spá í hvort læknisvottorð hefðu orðið til eða ekki.

Það er rétt hjá Ólafi F. Magnússyni að skrýtið var hvernig þetta mál, sem engu skipti, var komið í gang á fjölmiðlunum á augabragði. Ég vil samt ekki útliloka að þetta hafi getað verið eins konar slys.

En á sama hátt og nákvæmlega ekki neitt var blásið upp og gert að "stóra vottorðs málinu" á það skilið að vera ekki nefnt á nafn meir.

Það er af nógum öðrum verkefnum að taka í borgarmálunum og alveg eins og í borgarstjórnarkosningunum 2006 geta þau Ólafur og Margrét látið að sér kveða.

Velkominn til starfa á vettvangi hugsjóna þinna, Ólafur F. Magnússon.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband