GUÐ VARÐVEITI DROTTNINGUNA, - ÓHÆFA?

Ef svipuð umræða væri nú um breska þjóðsönginn og er um hinn íslenska væru þar uppi háværar raddir um að afnema hann vegna þess að minnst er í fyrstu þremur orðunum á tvennt sem er umdeilt í Bretaveldi, Guð og drottninguna. Í þeim íslenska er þó aðeins minnst á Guð í hinum tveggja mínúta langa söng sem sunginn er, ekki á Krist eða neitt sem minnir frekar á kristna trú en önnur trúarbrögð sem hafa Guð sem þungamiðju. Af þessu dreg ég þá ályktun að tilvist orðsins Guð í þjóðsöngnum réttlæti það ekki frekar hér en í Bretaveldi að skipta þjóðsöngnum út.

Samt hef ég lengi efast um íslenska þjóðsönginn og þá af öðrum orsökum, einkum lengd hans og tónsviði.

Hann er fjórum sinnum lengri en breski þjóðsöngurinn og lengri en allir þeir þjóðsöngvar sem mér finnst bestir, en þeir eru þjóðsöngvar Frakka, Rússa, Breta, Þjóðverja og Bandaríkjamanna.

Tónsvið íslenska þjóðsöngsins er mest og erfiðast og stoðar lítið að lækka tóntegundina og taka þar með af honum tign hans, því að þá verða lægstu tónarnir of daufir. Að því leyti er ég sammála Gunnari Þórðarsyni um að efast um þessa nýjustu tilraun til að gera þjóðsönginn hæfari til söngs.

Fyrir tuttugu árum var rifist um þjóðsönginn og einn þeirra sem ekki vildi breyta neinu sagði að þjóðsöngur mætti aldrei verða "söngdrusla."

Mér fannst þetta ekki sterk röksemd. Eða eru hinir flottu þjóðsöngvar sem ég nefndi áðan, með þann franska á toppnum, "söngdruslur"?

Er þjóðsöngur íslenskra sveitamanna "Blessuð sértu sveitin mín" söngdrusla?

Ég hef raunar lengi öfundað íslenskt landsbyggðarfólk af að eiga svo fallegan og óumdeildan söng til að syngja þegar stilla þarf saman strengina.

Þjóðsöngur þarf að vera nákvæmlega það, sem felst í orðinu, söngur sem þjóðin syngur og getur sungið hvar sem tilefni gefst til.

Tvennt er það sem þyrfti helst að nefna í íslenskum þjóðsöng: Þjóðina og landið. Ekki skaðar að tungan og sagan fylgi með. Söngurinn á helst ekki að fara mikið yfir eina mínútu og tónsviðið þarf að vera viðráðanlegt fyrir venjulegt fólk.

Í þeim þjóðsöng sem nú er sunginn eða reynt að syngja á Íslandi er hvergi minnst á þjóðina, landið eða tunguna nema að í fyrstu setningunni er minnst á okkur og landið: "Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð."

Síðan liggur leiðin um sólkerfin og tímanna safn og hinn mikla eilífa anda og hið eina sem minnir okkur á hið jarðneska er "eilífðar smáblóm". Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst setningin "Íslands þúsund ár" frábær og vísar til sögu þjóðarinnar.

Söngurinn heitir Lofsöngur og var ortur í tilefni af þúsund ára afmæli íslands byggðar. Ég kann vel að meta það hvernig Matthías teflir saman eilífðinni og alheiminum á móti mótsagnarkenndri lýsingu hans: "Eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður Guð sinn og deyr. "

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um annað en það sem sungið er en ekki afganginn af Lofsöngnum sem nær aldrei er sunginn.

En fyrir flesta er nánast allt ljóðið, sem sungið er, of fjarrænt og háfleygt til að grípa hvern þáttakanda í söngnum eins og þarf í þjóðsöng. Að ekki sé minnst á það hve erfitt er fyrir venjulegt fólk að syngja hann.

Þess vegna kann að koma að því að Lofsöngur Matthíasar og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar verði fyrst og fremst hátíðarsöngur íslensku kirkjunnar og að til skjalanna komi nýr þjóðsöngur sem tvinnar í textanaum betur saman land, þjóð, tungu og sögu og samheldni og einkenni þjóðarinnar.

En að mínu mati á þörfin fyrir nýjan þjóðsöng ekki að ráðast af því hvort minnst er á Guð heldur af því hvort hann geti verið þjóðsöngur, söngur þjóðarinnar, hvenær sem þörf er á að hann sé sunginn, - ekki af fáum, heldur öllum, - allri þjóðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Takk fyrir skemmtilega og góða færslu Ómar.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 5.12.2007 kl. 23:55

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það væri kannski hægt að hafa tvo þjóðsöngva. Íslands þúsund ár sem notaður yrði einu sinni til tvisvar á ári, við setningu Alþingis, um áramót og kannski við jarðarfarir merkismanna og fluttur þá af prófessional tónlistarmönnum. Hinn á íþróttalandsleikjum, 17. júní, 1.des o.fl. slíkum dögum og allir geta tekið undir af hjartans list. Gamli þjóðsöngurinn yrði því nokkurs konar ríkisþjóðsöngur, líkt og ríkisfáninn, tjúgufáninn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2007 kl. 00:31

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þjóðsöngurinn okkar er því miður eins og lélegur brandari. Fæstir geta sungið hann slysalaust og eins og þú segir fjallar textinn hvorki um landið né þjóðina sem hér býr. Það er eiginlega sprenghlægilegt að heyra venjulegt fólk reyna að syngja svo ósönghæfa laglínu á allt of breiðu raddsviði. Lækkun um 3 hálftóna breytir þar engu um en gerir sönginn bara enn daufari.

Það er meira að segja óþarfi að semja nýjan þjóðsöng í stað þess gamla. Við eigum ágæt lög og ljóð sem hafa lifað lengi með þjóðinni. "Land míns föður" og "Ísland ögrum skorið" væru bæði fullgóð sem þjóðsöngur, falleg, sönghæf og myndu varla stuða nokkurn mann. Það sem okkur vantar er bara fólk á Alþingi með smá vit á tónlist og kjark til að breyta þessu.

----------------- 

Ísland ögrum skorið,
ég vil nefna þig,
sem á brjóstum borið
og blessað hefur mig
fyrir skikkan skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

Eggert Ólafsson / Sigvaldi Kaldalóns

 --------------------------

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi,
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum,
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti´í gullnum sænum.

Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma' af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma' á lýð
landsins sem vér unnum.

Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki,ung og frjáls,
undir norðurljósum.

Jóhannes úr Kötlum / Þórarinn Guðmundsson

Sigurður Hrellir, 6.12.2007 kl. 01:16

4 identicon

Ég er hissa á því að menn hafa hér ekki minnst á Öxar við ánna. En það er gott lag og auðvelt að syngja. Svo er er setningin ,,fram, fram aldrei að víkja'' einkar heppileg fyrir kappleiki og annað slíkt.

Annars er þjóðsöngurinn okkar ágætur og mætti alveg nota meira í messum, enda er hann sálmur.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 11:20

5 identicon

Þjóðsöngur íslendinga er kirkjusálmur sem er ómögulegt að syngja og með texta sem passar eingöngu við kirkjulegar athafnir, hvernig sem á hann er horft þá er hann ómögulegur því sameiningartákn getur hann aldrei orðið nema fyrir suma íslendinga.

DoctorE (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 12:51

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég man ekki hvort það var á þessu bloggi, en ég las fyrir töluverðu síðan um lag sem mér fannst stórbrotið. Textinn var fallegur, fjallaði um land og þjóð. Það er mögulega að það hafi verið Land míns föður, ég er ekki viss. Þessi athugasemd mín er frekar slöpp án þess að vita hvað lagið var, en það sem ég vil koma til skila er að til eru lög sem myndu sameina þjóðina.

Þegar ég hugsa um lagið kemur mér Suðursveit í hug. Veit ekki af hverju, en ef þetta hjálpar einhverjum... 

Villi Asgeirsson, 6.12.2007 kl. 16:17

7 Smámynd: Púkinn

Púkinn skrifaði um þetta mál í maí (sjá þessa grein) og hefur í raun litlu við það að bæta, nema að velta fyrir sér hvort femínistar muni geta sætt sig við "Land míns föður" ... "Land míns ókyngreinda foreldris", kannski.

Púkinn, 6.12.2007 kl. 17:09

8 Smámynd: Ingólfur

Nú er ég einn af þeim fáu sem get sungið þjóðsönginn (sem hluti af kór) og verð að játa að mér finnst lagið einstaklega tignarlegt, t.d. þegar það er flutt af hljómsveit.

Hins vegar get ég engan vegin samþykkt þetta sem minn þjóðsöng og það er eingöngu vegna ljóðsins.

Ég hef svo sem ekkert á móti því að minnst sé á guð í þjóðsöngnum, og jafnvel að notaður sé sálmur. Hins vegar er nánast ekkert í þjóðsöngnum sem ég get tekið undir, og þaðan af síður að hann fylli mig stolti yfir landi og þjóð.

Það að titra, tilbiðja og deyja dugar einfaldlega ekki til þess að þjappa þjóðinni saman og fyla hana stolti.

Þessi söngur fjallar bara um að tilbiðja guð, enda ekkert skrítið ef litið er til þess að hann var saminn til þess að flytja í hátíðarmessu á 1000 ára afmæli bygðar.
Það er heldur ekkert hægt að þykjast ekki vita um hvaða guð sé átt við þegar hvert mannsbarn veit það vel.

Mér líst aftur á móti vel á Land míns föður. Það fjallar um landið og þjóðina sem þar býr, hvernig fólk kom hingað í leit að nýju landi, sögurnar, ljóðin og sjálfstæði landsins.

Einnig finnst mér Hver á sér fegra föðurland koma vel til greina.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Þessi lög skal ég stoltur syngja hvar og hvenær sem er.

Ingólfur, 6.12.2007 kl. 21:24

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir Ingólfur, þetta er lagið sem ég var að rembast til að muna eftir.

Villi Asgeirsson, 7.12.2007 kl. 13:09

10 Smámynd: Ingólfur

Mér svona datt það í hug. Mér finnst þessi tvö sem sett hafa verið hérna inn vera bestu kandidatarnir, en mörg önnur koma einnig til greina.

Ingólfur, 7.12.2007 kl. 13:16

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Annars er Der Wilhelmus, sá hollenski, sennilega vandræðalegastur. Það er auðvitað talað um konungsfjölskylduna og segir meðal annars, í æðum mínum rennur þýskt blóð. Hálf vandræðalegt, þar sem hollendingar eru ekkert allt of hrifnir af nágrannanum í austri.

Villi Asgeirsson, 7.12.2007 kl. 19:18

12 identicon

Mér finnst ég nú verða að stinga upp á Ísland er land þitt. Ef texti þessa lags segir ekki allt sem segja þarf að þá gerir það enginn texti.

Sighvatur (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 23:56

13 Smámynd: Ingólfur

Textinn við Ísland er land þitt passar ágætlega sem þjóðsöngur, telur upp það sem við getum verið stolt af (og sleppir hinu). Sumum finnst reyndar of mikil þjóðremba í því en ég er á því að það megi líka vera smá þjóðremba í þjóðsöng.

Það er heldur ekkert verið að segja að við séum eitthvað betri en aðrir, bara að við séum góð.

Hins vegar eru tveir gallar við það. Mér finnst textinn í hinum tveim mikklu fallegri. Ekki innihaldið heldur stíllinn og svo er laglínan ansi léleg finnst mér og of poppuð til þess að vera þjóðsöngur.

Ég veit að Ómar segir að tónsviðið megi ekki vera of stórt en það er allt of lítið í þessu lagi.´

Ég væri þó til í að flokka það með hinum ef það fengi nýja laglínu.

Ingólfur, 8.12.2007 kl. 01:02

14 Smámynd: Sigurður Hrellir

Í guðanna bænum, ekki "Ísland er land þitt"!  Lagið er óspennandi og hrikalega dæmigert. Ég sé fyrir mér Birgittu og Magna syngja þetta og fá fullt hús stiga hjá sjónvarpsáhorfendum.

Sigurður Hrellir, 8.12.2007 kl. 01:22

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Loksins er ég sammála Sigga Hrelli

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2007 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband