24.2.2009 | 20:45
Davíð í stuði með sprengjuregn!
Ekki sveik Davíð Oddsson hvað snerti dramatíkina í Kastljósviðtalinu, sem var að ljúka. Hann sprengdi margar bombur og lumar áfram á nokkrum uppi í erminni. Hvað sem manni finnst um ábyrgð Davíðs á hruni "gróðærisins" verður því ekki neitað að vopnfimur getur hann verið og ekkert lamb að leika sér við.
Sum trix hans voru að vísu billeg eins og að snúa spurningunni um vanhæfi upp á spyrilinn, - alveg dæmigerður útúrsnúningastíll Davíðs, en margt sem hann sagði útskýrði betur stöðu hans og gjörðir og var full þörf á því.
Ég bloggaði um það um daginn að ekki yrði komist hjá því að líta á viðfangsefni stjórnvalda eins og boðhlaup þar sem bæði sá sem afhendir keflið og sá sem tekur við því, eru hlaupandi á brautinni á sama tíma. Davíð benti á þetta atriði varðandi skiptinguna á einum degi frá Seðlabankastjóra yfir í bráðabirgðaseðlabankastjóra.
Meðal bombanna var frásögn hans af fundi hans með ríkisstjórninni 30. september. Segi hann rétt frá því hvað hann og aðrir sögðu þar er ríkisstjórnin með allt niður um sig varðandi þann fund en ekki Davíð. Ég hef áður bloggað um það að hugmynd hans um þjóðstjórn hefði verið eðlileg, jafnvel þótt hann seildist þar yfir í pólitíkina.
Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjuleg orð og gjörðir en Davíð var víst skammaður fyrir að vera að "dramatísera."
Hann hefði þess vegna mín vegna mátt orða utanþingsstjórn í ljósi þess að aðalatriði málsins var það sem hann segist hafa sagt að bankakerfinu yrði ekki bjargað og að það myndi hrynja allt innan skammst tíma. Ekkert smámál.
Það er skiljanlegt að hann skyldi verða svekktur yfir því að í fjölmiðla láku aðeins ummæli hans um þjóðstjórn. Þau voru látin leka út af ríkisstjórnarfundi þar sem á að vera hægt að treysta að trúnaður ríki og ein og sér virðast þau ekki hafa gefið rétta mynd af því sem gerðist á þessum fundi.
Davíð hefur snilligáfu dávalds í samtölum og þegar hann ásakaði Sigmar og aðra fjölmiðlamenn fyrir það að hafa ekki tiltekið þau skipti þegar hann varaði við ástandinu, hefði Sigmar getað bent honum á það á móti að á fundum Davíðs með fjölmiðlamönnum, svo sem í maí í fyrra, fullyrti hann að bankarnir stæðu sterkir og fjármálalífið væri í meginatriðum traust. Sigmar sat þá sem dáleiddur.
Eftir því sem Davíð segir núna áttu fjölmiðlamenn ekki að taka mark á honum þegar hann talaði opinberlega í viðurvist fjölmiðla, heldur að vita um einkasamtöl hans við yfirmann sinn, forsætisráðherra. Þarna slapp Davíð mjög billega. En magnaður er hann og makalaus, aldrei verður það af honum skafið.
![]() |
Davíð í Kastljósviðtali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
24.2.2009 | 19:07
Bolludagur hér um árið - sprengidagur núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2009 | 13:53
Hlekkirnir sex. Enginn má bresta.
Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Líkja má íslensku þjóðarbúi við keðju með sex hlekkjum, en þeir eru heimilin, fyrirtækin, fjármálastofnanirnar, sveitarfélögin, opinberir sjóðir og ríkissjóður.
Nú er óumflýjanlegt að allir þessir hlekki veikist stórlega en stefna verður að því að sú veiking dreifist jafnt á keðjuna svo að enginn einn hlekkur bresti. Á þann veg einan er von til þess að ekki verði hér stórum verra hrun en þegar er orðið.
Ef heimilin hrynja, slitnar keðjan og hið sama á um hvern hinna sex hlekkja, sem nefndir voru hér að framan. Í stórum dráttum má segja, að koma verði heimilunum og fyrirtækjunum til hjálpar að svo miklu leyti sem það valdi því ekki að hinir hlekkirnir fjórir, einn eða allir, bresti.
Ef fjármálakerfið hrynur aftur fara fyrirtækin og heimilin sömu leið.
Það er reikningsdæmi og ágiskun hve langt sé hægt að ganga til að styrkja heimilin og fyrirtækin. Við verðum að muna að ríkissjóður er bara við sjálf, þjóðin sem leggur í hann fé og á hann. Það eru okkar peningar sem nota verður þegar veitt eru framlög úr honum. Svipað er að segja um sveitarfélögin og opinberu sjóðina.
Þeir flokkar sem standa að núverandi þingmeirihluta verða að láta reikna þetta dæmi sem best og byggja aðgerðirnar á þeirri útkomu. Sé útkoman sú að með því að styrkja einn hlekkinn svo mikið að einhver eða allir hinir hlekkirnir bresti, er allt í uppnámi.
Ég ætla bara rétt að vona að Framsóknarmenn geti sýnt útreikninga sem sýni að tillögur þeirra séu raunhæfar. Reynslan af kosningaloforðum þeirra 2003 hræðir, Þá unnu þeir kosningasigur út á það lofa út og suður.
Húsnæðiskaupendum lofuðu þeir gulli og grænum skógum þvert ofan í rökstuddar aðvaranir um það að allt of langt væri gengið og of mikil áhætta tekin.
Í ljós kom að stefna Framsóknarflokksins setti af stað keðjuverkun sem átti stóran þátt í því hvernig komið er.
Keðjan verður að halda þótt allir hlekkirnir veikist stórlega. Enginn einn þeirra má bresta, - þá er þetta búið.
![]() |
Kosningar verða 25. apríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2009 | 19:37
Vandræðagangur út af eðlilegum hlut.
Ég hef ekki haft margt gott að segja um málflutning og frammistöðu Sjálfstæðismanna að undanförnu en ég tel þá afstöðu þeirra og Höskuldar Þórhallssonar ekki vera óeðlilega að bíða eftir skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um regluverk Seðlabanka áður en frumvarpið um Seðlabankann verði endanlega afgreitt hér.
Mér finnst það meira að segja jákvætt að flokksræðið skyldi þurfa að víkja fyrir sannfæringu þingmanns, sem hann hefur getað stutt gildum rökum.
Vandræðin eru að mínum dómi fólgin í því að ofurvald flokkkanna er orðið svo inngróið í störf þingsins, að allt fer í baklás ef einn þingmaður vogar sér að fara eftir sannfæringu sinni um það að vanda til verka og tefja þó ekki frumvarpið nema í fáa daga.
Það ætti að vera keppikefli í þinginu að haga dagskrá þessi þannig að eitt frumvarp um afmarkað mál setji ekki aðra dagskrá og afgreiðslu mála í uppnám. Einn hluti af auknu þingræði og minna ráðherraræði ætti að verða sveigjanleiki sem tekur mið af þeirri skyldu þingmanna að fylgja sannfæringu sinni.
Þegar Jóhanna segir, að skýrslan umrædda snerti ekki Seðlabankafrumvarpið spyr maður sjálfan sig hvort hún sé búin að sjá hana. Síðan var náttúrulega alveg dásamleg framsóknarmennska opin í báða enda þegar Höskuldur sagði að formaður flokksins styddi afstöðu þeirra beggja, hans og Birkis Jóns, - afstöðu þar sem annar sagði nei en hinn sagði já !
![]() |
Lausn ekki fundin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.2.2009 | 14:49
Ég skammast mín ekki fyrir nafnið "Þjóðahátíð."
Ég er kannski einn af þeim sem hefði helst átt skilið af hálfu óhróðursmanna að fá miða á bílrúðu hjá mér ef ég hefði komið á fjölmenningarkvöldið á Sauðárkróki . Í augum óhróðursmanna er ég kannski aðili að "þjóðarmorði" á Íslendingum fyrir það að hafa fundið nafnið "Þjóðahátíð" á fyrstu samkomuna af því tagi, sem haldin var fyrir vestan.
Þær samkomur hafa gert hvern þann mann betri sem hefur verið þeirrar ánægju aðnjótandi að koma á þær og ekki hefur verið hægt annað en að hrífast af því sem þar hefur verið sýnt og flutt og komið þægilega á óvart.
Ég skammast mín því ekki fyrir þetta heiti en kannski er nafnið Þjóðahátíð í hugum óhróðursmanna glæpsamlega líkt orðinu þjóðhátíð sem við höfum notað allt frá árinu 1874. Hver veit hvað þessum kynþáttahöturum getur dottið í hug?
Maður er eiginlega kjaftstopp yfir orðanotkun óhróðursmannanna. Að þeir skuli dirfast að nota orðið þjóðarmorð er slíkur umsnúningur, misnotkun og gróf móðgun við milljónirnar sem hafa verið drepnar í raunverulegum þjóðarmorðum í heiminum, að það er ömurlegt að hugsa til þeirrar firringar, fávisku og óskammfeilni sem felst í svona orðanotkun.
Að mínum dómi væri ekki hægt að réttlæta þetta uppátæki með því að það hafi átt að vera hrekkur eða grín. Það eru takmörk fyrir öllu og þetta fór langt út fyrir öll takmörk.
![]() |
Óhróður settur á bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2009 | 12:45
Hvaða viðbótarvirkjanir eru í sigti ?
Nýlega er búið að stækka fyrirhugað Helguvíkurálver sem svarar því að bæta þurfi minnst tæplega 200 megavöttum af orku við það sem áður var búið að ráðgera að pumpa upp úr jarðvarmasvæðum á Reykjanesskaganum til að anna orkuþörf 240 þúsund tonna álvers.
Ekki þarf mikla samlagningarhæfileika til að finna út að til þess að útvega nægilega orku fyrir 360 þúsund tonna risaálver þurfi alls uppundir 600 megavött af orku fyrir þessa stækkuðu verksmiðju og að það muni þýða virkjanir í Bitru, við Krýsuvík og í Neðri-Þjórsá. Engu verður eirt af "hófsemdarmönnunum" heldur valtað yfir "öfgamennina" sem vilja að einhverju verði þyrmt.
Nú virðist eiga rétt si svona að bæta við 100 megavöttum fyrir sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Á jarðvarmasvæðunum hér syðra byggist þessi orkuöflun á ofnýtingu sem valda mun því að barnabörn okkar muni þurfa að skyggnast um eftir allt að 1000 megavatta viðbótarvirkjunum, - les Torfajökull, Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Skaftárveita og Bjallavirkjun.
Ef það verður þá ekki búið að virkja þetta allt áður, því að fíknin eftir stóriðju er óseðjandi. Ef hér væri eitthvert minnsta tillit tekið til möguleika afkomenda okkar, væri nú þegar búið að gera ráð fyrir virkjunarmöguleikum fyrir orku handa bíla- og skipaflotanum.
Hvernig væri nú að blása hið siðlausa Helguvíkurálver af og fara hægar í sakir, reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga sem gefur svipaðan fjölda starfa og álversframkvæmdin fyrir margfalt minni orkueyðslu ?
Þegar miðað er við núverandi virkjunartækni er raunar þegar komið út yfir endimörk möguleika á sjálfbærri orkuvinnslu á Reykjanesskaga sem við Íslendingar gætum auglýst sem fyrirmynd fyrir heiminn varðandi endurnýjanlega orkuöflun.
![]() |
Hreppir Ísland sólarkísilverksmiðjuna? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2009 | 00:39
Kreppa og ófriður eru systkin.
Kreppa og ófriður fara oft saman. Þá hriktir í og reynir á þolrif. Sturlungaöldin á Íslandi var gott dæmi um þetta. Landgæðum hnignaði. Fyrstu aldir Íslandsbyggðar hafði ríkt gróðæri sem byggðist á hlýskeiði og ofnýtingu skóglendis en það var á enda og ennfremur fór kólnandi.
Óvíst er að seinni heimsstyrjöldin hefði skollið á ef gróðærið (the roaring twenties) hefði haldið áfram. Locarno-samningarnir byggðust á batnandi hag og auðveldari sátt á milli þjóða. Kreppan og afeiðingar hennar í Þýskalandi varð lyftistöng fyrir óánægjuafl eins og nasista sem kenndu Versalasamningunum og hinu gyðinglega fjármálaveldi um allt illt.
Mikill órói var í stjórnmálum hér á landi í kreppunni og síðan aftur þegar þrengdi að 1948 eftir gróðæri sem byggst hafði á eyðslu gjaldeyrisinnistæðna í Bretlandi sem voru uppurnar í árslok 1947.
Japanir töldu sig tilneydda til að fara í stríð vegna þess að að þeim var þrengt varðandi auðlindir af nýlenduveldunum og Bandaríkjamönnum. Þeir upplifðu auðlindakreppu.
Illindi milli stærstu ríkja Evrópu núna ættu því ekki að koma á óvart.
![]() |
Gjá á milli stærstu ESB-ríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.2.2009 | 18:35
Athyglisverðar tölur: 3 af 7, 3 af 6 og 4 af 30.
Á ráðstefnu í dag um áhrif kvenna í stjórnmálum var það nefnt að við síðustu kosningar hefðu aðeins verið sjö konur í efstu sætunum framboðslistanna á móti 29 körlum.
Íslandshreyfingin - lifandi land, getur ekki tekið til sín ábyrgð á þessu. Í 3 kjördæmum af 6 voru konur í efstu sætum hjá okkur og jafnræðið var víðtækara en þetta, - konurnar voru í efstu sætum jafnt á suðvesturhorninu og á norðanverðu landinu og listarnir voru fléttulistar niður úr með fullkomnu jafnræði kynjanna á alla lund.
Í Norðvesturkjördæmi var Íslandshreyfingin eini flokkurinn sem bauð upp á konu í efsta sæti en niðurstaðan varð sú að allir 9 þingmennirnir urðu karlar.
Af 30 efstu sætunum hjá hinum flokkunum voru aðeins 4 konur í efstu sætum. Í stefnuskrá okkar og málflutningi lögðum við mikla áherslu á jafnréttis-, mannréttinda- og lýðræðismál.
En önnur málefni áttu meira hug þáttastjórnenda og fulltrúa í umræðuþáttum, - þau virtust einfaldlega ekki vera "in" og alla kosningabaráttuna máttum við hafa okkur öll við að koma í veg fyrir að virkjana- og stóriðjumálunum yrði útrýmt úr umræðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2009 | 14:33
150 milljarða offjárfesting, bara í bílum ?
Dæmi um offfjárfestingar Íslendinga í gróðærinu blasa alls staðar við. Hvergi er til dæmis hægt að skima um utan húss án þess að sjá bíla, sem augljóslega eru jafnvel mörgum milljónum dýrari en sem svarar því að fullnægja þörfum eigendanna.
Það lætur nærri að meðalkaupverð hvers íslensks bíls í gróðærinu hafi verið um 2,5 milljónir króna. Tugþúsundir manna keyptu bíla, sem voru mörgum milljónum króna dýrari en þeir bílar sem þeir gátu auðveldlega komist af með að eiga og margir tóku jafnvel mestallt bílverðið að láni.
Ótal dæmi sýna að lán til íbúðakaupa voru oft höfð svo há að hægt var að láta bílakaup fljóta með í leiðinni sem viðbót. Á tímabili var nánast æpt á fólk að taka lán og veðsetja allt upp í topp.
Þúsundir manna töldu sér trú um að þeir græddu þeim mun fleiri milljónir sem þeir keyptu sér dýrari bíla, af því að gengi krónunnar var skráð allt of hátt og bílarnir fengust því í raun á allt að 40% afslætti, einkum pallbílarnir, sem verktakarnir alráðu fengu flutta inn með sérstökum fríðindum.
Þetta var svipað hugarfar og fyrstu áratugina í sólarlandaferðunum þar sem sumir Íslendingar drukku eins og berserkir allan tímann til að "græða" sem mest á lágu vínverði erlendis.
Ef við gefum okkur að meðakaupverð hvers bíls á Íslandi á núgildandi gengi sé einnni milljón króna hærri en þurft hefði að vera, hefur offjárfesting í bílum numið samtals 150 milljörðum króna!
Á hafnarbökkum standa nú 4000 nýir óseljanlegir bílar og ef meðalverð þeirra er talið um 2,5 milljónir króna er þar um að ræða 10 milljarða króna fjárfestingu sem engum gagnast.
Það væri fróðlegt að reikna út hvað gagnslaus offjárfesting í nýjum húsum nemur mörg hundruðum milljarða króna og áætla hve miklu betur þjóðin væri stödd ef svona stór hluti hennar hefði ekki látið blekkjast af fagurgala snillinganna sem bjuggu spilaborgina miklu til.
![]() |
Laugin kostar 1,8 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2009 | 13:19
Engum ertu líkur....
Það eru ekki allir sem fá skeyti á borð við það sem lesið var upp í sjötugs afmæli Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það kom frá Litháen þar sem Jón Baldvin er í hávegum hafður sem einhver mesti velgjörðamaður þeirrar þjóðar og raunar þjóða Eystrasaltslandanna.
Það er ekki öllum gefið sem Jóni Baldvini er gefið að ná hámarki fjörs, snerpu og snarprar og leiftrandi hugsunar þegar komið er á vel fram á eftirlaunaaldur. Mannkynssaga geymir nöfn manna, sem þessu hafa áorkað, og nægir að nefna nöfn eins og Winston Churchill, Charles De Gaulle og Konrad Adenauer.
Njörvuð staðalhugsun þjóðfélagsins afneitar hins vegar oft slíkum mönnnum og aldrei var það meira áberandi en þegar bankasápukúlan var blásin sem mest upp og hrein æskudýrkun fór með himinskautum.
Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé þörf á frumkvæði, nýsköpun og oft byltingarkenndum og frjóum hugmyndum sem ungt fólk færir venjulega með sér. Þvert á móti má ekki kæfa allar nýjar hugmyndir í fæðingu heldur virkja þennan kraft. En það þarf að gera í jafnvægi kynslóðanna sem bæta hver aðra upp og það er fráleit og skaðleg ályktun að afgreiða alla þá sem komnir eru á eftri ár með lýsingarorðum eins og stöðnun, afturhald, slen og elliglöp.
Hvern mann á að meta eftir verðleikum hans sjálfs, óháð aldri, kyni, þjóðerni, kynþætti eða trúarbrögðum. Ég flutti Jóni Baldvini 24 sekúndna pistil í afmæli hans í gær, svohljóðandi:
Engum ertu líkur.
Engan snilld þín svíkur.
Enginn er hér slíkur
sem á svo frábært kvon.
Þú ert stórvel skaptur.
Þinn er ógnar kraftur.
Þess vegna við spyrjum og það er von,
hvort þinn tími komi aftur, Jón Baldvin Hannibalsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)