Engum ertu líkur....

Það eru ekki allir sem fá skeyti á borð við það sem lesið var upp í sjötugs afmæli Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það kom frá Litháen þar sem Jón Baldvin er í hávegum hafður sem einhver mesti velgjörðamaður þeirrar þjóðar og raunar þjóða Eystrasaltslandanna.

Það er ekki öllum gefið sem Jóni Baldvini er gefið að ná hámarki fjörs, snerpu og snarprar og leiftrandi hugsunar þegar komið er á vel fram á eftirlaunaaldur. Mannkynssaga geymir nöfn manna, sem þessu hafa áorkað, og nægir að nefna nöfn eins og Winston Churchill, Charles De Gaulle og Konrad Adenauer.

Njörvuð staðalhugsun þjóðfélagsins afneitar hins vegar oft slíkum mönnnum og aldrei var það meira áberandi en þegar bankasápukúlan var blásin sem mest upp og hrein æskudýrkun fór með himinskautum.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé þörf á frumkvæði, nýsköpun og oft byltingarkenndum og frjóum hugmyndum sem ungt fólk færir venjulega með sér. Þvert á móti má ekki kæfa allar nýjar hugmyndir í fæðingu heldur virkja þennan kraft. En það þarf að gera í jafnvægi kynslóðanna sem bæta hver aðra upp og það er fráleit og skaðleg ályktun að afgreiða alla þá sem komnir eru á eftri ár með lýsingarorðum eins og stöðnun, afturhald, slen og elliglöp.

Hvern mann á að meta eftir verðleikum hans sjálfs, óháð aldri, kyni, þjóðerni, kynþætti eða trúarbrögðum. Ég flutti Jóni Baldvini 24 sekúndna pistil í afmæli hans í gær, svohljóðandi:

Engum ertu líkur.

Engan snilld þín svíkur.

Enginn er hér slíkur

sem á svo frábært kvon.

Þú ert stórvel skaptur.

Þinn er ógnar kraftur.

Þess vegna við spyrjum og það er von,

hvort þinn tími komi aftur, Jón Baldvin Hannibalsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hin sjálfstæða utanríkisstefna Íslendinga skilaði miklum árangri í Eystrasaltslöndunum og Suðurslavíu (Júgóslavíu) sálugu en Ísland var fyrst ríkja í heiminum til að viðurkenna sjálfstæði þessara landa, að frumkvæði Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþýðuflokksins sáluga.

Þá brutust strax út mikil stríð í Suðurslavíu og mannskæðar skærur í Eystrasaltslöndunum.

Hinn íslenski formaður og utanríkisráðherra ákvað því að stilla til friðar í Eystrasaltslöndunum við annan mann, blaða- og Framsóknarmanninn Pétur Gunnarsson. Þeir komu rifnir og tættir frá þessum skærum en þó lifandi, eins og þeir hafa báðir margsannað.

Til að minnast þessarar heimsfrægu reisu þeirra Don Kíkóti og Sansjó Pansa nútímans hlunkaði ein Eystrasaltsþjóðin niður heljarmiklu bjargi á horninu við rússneska sendiráðið í Reykjavík. Og á hinum mikla steini er þessi áletrun:

Báðir komu þeir aftur og hvorugur þeirra dó.

Rússarnir í sendiráðinu taka hins vegar alltaf stóran sveig framhjá þessu grjóti þegar þeir skreppa í Ríkið og sleppa í leiðinni við að ganga framhjá Baugsveldinu í Túngötunni, sem minnir þá á hrun Sovétríkjanna sálugu.

Þorsteinn Briem, 22.2.2009 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband