Mörg spurningarmerki ???

Lagið sem við sendum núna í Söngvakeppnina er afar líkt síðasta lagi sem sami höfundur sendi hér um árið og lenti þá í 12. sæti. Á þetta lag eitthvað meiri möguleika en það lag?  

Á hinn bóginn er spurningin hvort Evrópubúar hafi nokkra hugmynd umþetta eða muni eftir laginu sem sent var hérna um árið.

Hafði það áhrif á íslensku kjósendurna að Hera Björk hefði átt skilið að vera send fyrir hönd Dana með fínt lag og frábæran flutning í keppnina í fyrra og að við Íslendingar vildum bæta henni það upp?

Það er hægt að breyta um svip á lögum og endurbæta? Ég hef reynslu af því að slíkt sé hægt, tll dæmis með því að breyta um útsetningu og flutning og setja inn eitthvað nýtt sem frískar það upp en spurningin er hvort það breytir nokkru sem málið skiptir.

Í allri keppni skiptir miklu máli hverjir keppinautarnir eru. Verða hin lögin þannig núna að það hjálpi Heru Björk til að koma betur út en ella?

Ævinlega eru tískusveiflur á sveimi í dægurlögum. Fellur þetta lag betur í kramið en hið líka lag hér um árið?

Öllum þessum spurningum verður svarað í Noregi þegar þar að kemur.

Það mun aftur koma upp spurningin sem nú er á kreiku um það hvort Jógvan hinn færeyski hefði getað komist lengra en Hera Björk.    


mbl.is „Gerum pottþétt breytingar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrífandi söngur.

Við eigum gott, Íslendingar, ekki stærri þjóð, að eiga jafn marga góða og upprennandi söngvara og raun ber vitni. 

Í kvöld varð ég á skemmtun vitni af glæsilegri frammistöðu Gissuarar Páls Gissurarsonar sem hreif alla með áreynslulausri og lýtalausri túlkun erfiðaðra sönglaga, sem hann flutti á stórkostlegan hátt og afar mikilli smekkvísi. 

Það verður gaman að fylgjast með ferli þessa söngvara sem stóð sig svo vel í kvöld að hann átti hvert bein í áheyrendum.

Ekki dró það úr ánægjunni fyrir mig og Helgu að hann skyldi syngja nokkur þeirra lag sem Árni heitinn Jónsson söng á héraðsmótum Framsóknarflokksins 1961 í ferð okkar með honum og Skúla heitnum Thorodsen um Vestfirði.

Með því var rifjað upp fyrir ógleymanlegt ferðalag sem við fórum nýtrúlofuð um landið þegar Árni var á tindi ferils síns.  


Slæmt stjórnarfar.

Eþíópía er dæmi um Afríkuland þar sem í raun ríkir alræði stjórnvalda. Landið hefur sveiflast frá einni alræðisstjórn til annarrar allt frá innrás Ítala á fjórða áratugnum til dagsins í dag. 

Þegar Haile Selassie hafði verið steypt komust kommúnistar til valda og eftir að þeim hafði verið steypt hefur ástandið lítið skánað. 

Dæmi um þetta er sú staðreynd að í landi sem er ellefu sinnum stærra en Ísland og með 200 sinnum fleira fólk eru aðeins innan við tíu litlar flugvélar og afar strangar reglur gilda um flug þeirra. 

Engin alræðisstjórn landsins hefur þó dirfst að ráðast á þjóðargersemarnar sem tengjast kristni koptanna, en alls staðar má þó sjá varðmenn og takmarkanir nálægt þeim stöðum. 

Yfirvöld hafa lag á að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjastjórn og fá að launum hernaðaraðstoð þegar uppreisnarmenn í Sómalíu gerast of djarfir. 

Í raun eru herlög í Eþíópíu sem byggð eru að langvarandi ófriðarástandi gagnvart Eritreu. 

Alræðisstjórnir nærast á því að viðhalda slíku ástandi gagnvart sameiginlegum erlendum óvinum, og það er óspart notað í Eþíópíu sem er svo fátækt land, að hagkerfi landsins er minna en Íslands þótt fólkið sé 200 sinnum fleira. 

Stolt landsins er Eþíópíska flugfélagið, sem er hið eina í landinu sem sambærilegt má telja í samkeppni við erlend fyrirtæki af sama toga ef frá er skilin Coca-Cola-verksmiðja í Addis Ababa. 

Það var því mikið áfall fyrir landið að missa farþegaþotuna í dögunum, þótt slysið sé rakið til mikils óveðurs. 

Dæmi um ógöngur Eþíópíu er flugvöllurinn í Arba Minch sem ég kom til á gömlu FRÚ-nni minni með Helga Hróbjartssyni fyrir sjö árum. 

Þetta er stór flugvöllur með stórri flugstöð úr marmara, en engum flugvélum nema einni og einni á stangli. 

Eþíópía er heillandi land með stórkostlega sögu. Þar var tekin kristni 700 árum á undan kristnitökunni á Íslandi og samband drottingarinnar af Saba og Salómóns er helgisögn í hæsta klassa í þessu hrjáða landi fólks, sem enn á sér stolt og vonir og gleðistundir, þótt hungursneyð, þurrkur og gróðureyðing geri lífið erfiðara en við Íslendingar getum gert okkur í hugarlund. 


mbl.is Leynd heimildamanna bönnuð í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blíðuveður á Grænlandi.

Á sama tíma og metsnjókoma er í höfuðborg Bandaríkjanna, meiri en sú mesta sem komið hefur í Reykjavík, er blíðuveður framundan  í Narsassuaq á Grænlandi. 

Raunar hefur brostið þar á með Mallorcaveðri að undanförnu með  10-13 stiga hita, sem er svipaður hiti og er á sunnanverðum Spáni á þessum árstíma. 

Ein af spám um afleiðingar hlýnunar veðurfars í heiminum snerist um að öfgar í veðurfari myndu færast í aukana. Hvort sem það er rétt eða rangt er vart hægt að hugsa sér meiri öfgar en þær að það sé allt að 13 stiga hiti og sumarveður á Grænlandi á sama tíma og allt er á kafi í snjó allt suður í Virginíu í Bandaríkjunum.  

Þeim veðursíðum sem ég hef farið inn á á netinu ber saman um að hlýtt verði svo langt sem séð verður fram í tímann á vesturströnd Grænlands. Weather Underground spáir allt að 14 stiga hita um hádaginn eftir viku en Accuweather birtir lægri hitatölur, sem taka með í reikninginn kólnunina á næturnar.


mbl.is Washington lömuð vegna snjóa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um "Söknuð" ?

Þótt aðeins tólf nótur séu í áttundinni er það mesta furða hve mörg lög hafa verið samin sem eru ólík öllum öðrum lögum. 

Hitt er óhjákvæmilegt að lög geti verið lík og þess vegna allt eins hægt að byrja á einu þeirra og fara yfir í annað.

Eitt skemmtilegasta dæmið um það, sem ég hef fundið, er hvernig lagið "Yfir voru ættarlandi" sem var verðlaunalag þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi var svo líkt "Deutschland, Deutschland uber alles" að hægt er að fara fram og til baka á milli þessara tveggja laga eins og ekkert sé.

Þrír fyrstu taktarnir og fjórar fyrstu nóturnar í hinu frábæra lagi "Ó, þú" eftir Magnús Eiríksson eru hinar sömu og í vinsælu dægurlagi, sem Nat King Cole söng á þeim tíma þegar Magnús var smástrkákur. 

Lag Magnúsar er samt mun betra.

Lagið um Nínu og Geira er svo nauðalíkt KFUM-laginu "Fús ég Jesú fylgi þér" að hægt er að valsa á milli þeirra í söng án þess að fólk verði þess vart.

Svona mætti lengi telja. Ingimar heitinn Eydal hélt því reyndar fram að öll lög gætu verið sama lagið og sýndi það á sinn einstaka hátt í þættinum "Á líðandi stundu."

Ég á líka einhvers staðar í fórum mínum spólu þar sem hann spann áfram með þetta í viðtali fyrir Stöð 2 sem ég tók við hann en var aldrei sýnt. 

Ég hygg að höfundar Je Ne Sais Quoi þurfi ekki að óttast vandræði þótt einhverjum þyki lagið keimlíkt öðru lagi.

Fyrir eitthvað um 20 árum komst ítalskt lag á toppinn í Evróvision sem var svo hræðilega stolið úr laginu "What am I living for?" að ég komst alltaf í vont skap við að heyra það. 

Hins vegar er ég ekki sáttur við það að Norðmaður sem hér á landi var þegar hið frábæra lag Jóhanns Helgasonar, "Söknuður" var mikið spilað, skuli hafa stolið því lagi og grætt á því miklar fjárfúlgur erlendis. p1010688_958224.jpg

Norsarinn stal reyndar tveimur lögum og skeytt saman. Hitt lagið er "Oh, Danny boy."

Þegar ég heyrði þetta "norska" lag spilað í útvarpi í Noregi árið 2003 þegar ég var þar á ferð varð ég sem þrumu lostinn.

Gaman væri að heyra hvernig málin standa nú út af þessu lagi.  

P1010688

 

P. S.  Ég sló inn nafn Jóhanns G. Jóhannsonar þegar ég pikkaði þenna pistil niður og hafði ekki tíma til að líta á hann aftur fyrr en níu klukkustundum síðar. Auðvitað átti þetta að vera Jóhann Helgason og þetta lag hans er ekki bara ein af fegurstu lagaperlum Íslands heldur ekki síður útsetning Magnúsar Kjartanssonar. 

Set hér á síðuna mynd af Elísabetu Ormslev, Jóhanni Helgasyni og Helgu Möller frá því rétt fyrir síðustu jól þar sem Magnús Kjartansson stýrði hljómsveitinn að baki þeim.

Fyrir mistök er minni gerð af myndinni fyrir neðan. 

 


mbl.is Lagið ekki stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirminnilegir hnefaleikar.

Í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum átt þess kost að kynna hnefaleika eða dæma í þeim í skólum.

Eftirminnilegast varð þetta í Verslunarskólanum í Reykjavík þar sem nemendur settu upp hring og fengu tvo nemendur til að berjast. Mér var falið að kynna viðburðinn og dæma. 

Keppendurnir voru ólíkir. Annar var samanrekinn og vöðvaður nagli í stíl við Tyson, hinn var renglulegur og hávaxinn og ég man nafn hans, þótt hitt sé mér gleymt. 

Þetta var Ásgeir Örn Hallgrímsson og mér skildist að hann hefði lítið fengist við hnefaleika en Tyson-týpan kunni greinlega talsvert fyrir sér. 

1. lotan varð einstefna. Ásgeir Örn átti í vök að verjast fyrir öflugum áhlaupum hins kraftalega mótherja og ósigur Ásgeirs virtist blasa við. 

Ég tók þó eftir því að hann hafði lipran fótaburð og var laginn við að verjast eða víkja sér undan skæðadrífu af höggum sem beint var að honum. 

Mér sýndist ljóst að viðureignin gæti varla enst út 2. lotu, svo harður var þessi bardagi. 

2. lota byrjaði með sömu látunum og ég átti erfitt með að ímynda mér að Ásgeir Örn stæðist þetta mikið lengur. En þá gerðist undrið. Skyndilega fór Ásgeir Örn að koma inn snörpum, hnitmiðuðum og hörðum gagnhöggum eins og þau gerast best. 

Ég reyndist að vísu sannspár að bardaginn yrði útkljáður í þessari lotu en úrslitin urðu þveröfug við það sem virst hafa stefnt í.  

Ásgeir Örn náði með frábærum gagnhöggum sínum, hraða og fótaburði algerum yfirburðum og gekk algerlega frá andstæðingnum. 

Ég sagði við þetta tækifæri að Ásgeir Örn væri greinilega búinn sérstökum alhliða íþróttamannshæfileikum, svipuðum þeim sem til dæmis Hermann Gunnarsson bjó yfir á sinni tíð. 

Ég orðaði það svo að Ásgeir Örn gæti komist í fremstu röð í hvaða íþróttagrein sem hann kysi sér. 

Og það hefur gengið eftir. 

Eftir þessa eftirminnilegu stund sem Ásgeir Örn gaf mér hér um árið fylgist ég af áhuga með honum og gleðst þegar vel gengur. 


mbl.is Ásgeir Örn til Faaborg HK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti huga að vinnslu aflans.

Strandveiðum er ætlað að hleypa lífi í sjávarpláss sem hafa orðið daufleg vegna þess að kvóta hefur skort. 

Í nýlegri könnun kom í ljós að því var mjög misskipt hvort aflinn, sem veiddur var, var lagður upp á útgerðarstað eða ekki.

Það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hversu auðvelt það er að saman fari útgerð og vinnsla en það gæti verið athuguninnar virði að skoða þetta til þess að höfuðtilgangi veiða sé náð sem best. 


mbl.is Meiri afli og lengri tími til strandveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molar í henni þessari.

Eiður Guðnason hefur verið iðinn við "Mola um málfar" og veitir ekki af. Hann er nú kominn með molana sína á eyjuna.is og því ætla ég að grípa tvo mola upp hér af mbl.is.

Í frétt af opnun Nauthólsvegar á mbl.is er sögnin að opna enn einu sinni notuð á órökréttan hátt, en þetta er árátta hjá blaða- og fréttamönnum. 

Sagt er að borgarstjóri hafi "opnað umferð" um Nauthólsveg. Þetta er ekki hægt. Umferð er ekki lokuð og heldur ekki opin heldur eru vegir, götur og brýr það.

Það er ekki aðeins rangt mál heldur rökleysa að hægt sé að opna umferð.

Seinna í fréttinni er sagt að aðkoma verði að Hótel Loftleiðir. Þetta er enn ein villan sem veður uppi í notkun nafna flugfélaga. 

Stundum heyrir maður nafnið Flugleiðir beygt svona: Flugleiðir um Flugleiði o. s. frv.

Þetta er afar dapurlegt því að er engu líkara en að verið sé að tala um leiði eins og eru í kirkjugörðum.

 


mbl.is Umferð hleypt um Nauthólsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkenni Colafíkninnar.

Koffínneysla á sér langa sögu allt síðan kaffið hélt innreið sína í mannlífið. Þetta er lúmskt fíkniefni sem virðist sakleysislegt en er þó þess eðlis að ef þess er ekki neytt hjá þeim sem eru háðir því, koma greinileg fráhvarfseinkenni í ljós. 

Ég er einn af þeim sem verð var við það ef ég fæ ekki smá skammt að morgni í formi sopa af Coca-Cola eða Pepsi-Cola.

Colafíknin er skæð vegna þess að hún er tvöföld, fíkniefnin eru tvö og annað þeirra, hvítasykurinn, er eitt skaðlegasta fíkniefni samtímans sé þess neytt í óhófi, en neysla hvítasykurs er allt of mikil hjá okkur nútímafólki. 

Ég áttaði mig ekki á því hve sterk þessi fíkn var fyrr en verkfall skall á í Coca-Cola verksmiðjunni Vífifelli fyrir aldarfjórðungi.

Verkfallið vofði yfir um nokkurt skeið og þegar það síðan skall á hefði mátt halda að fráhvarfseinkennin yrðu áberandi hjá mér.

Svo fór ekki, því að ég hef líklega verið einn af örfáum Íslendingum sem ekki skorti kókið allan tímann sem verkfallið stóð því að í ljós kom að ég hafði hægt og bítandi, næstum ómeðvitað, birgt mig upp af þessum drykk á hreint magnaðan hátt og voru flöskurnar faldar á ótrúlega fjölbreyttum felustöðum.

Meira að segja komu leynibokkur í ljós undir limgerði úti í garði !

Hvítasykurinn er fitandi og því óhollur auk þess sem hann og áhrif hans á holdafarið geta skapað áunna sykursýki. Sætuefnin sem eru í svonefndum sykurlausum drykkjum eru hugsanlega enn verri.

Ég hef heyrt þá kenningu sem mér finnst ekki svo galin þótt hún sé líklega ekki sönnuð.

Ef ég man þetta rétt felst kenningin í því að þegar þessi gervisykur komi í líkamann séu send skilaboð til heilans um að sykur sé á leiðinni og heilinn sendir skilaboðin áfram um framleiðslu insúlíns.

Þegar skilaboðin reynist röng og það gerist svo þúsundum skiptir hætti líkaminn að framleiða insúlínið, lætur ekki plata sig, og áunnin sykursýki sé afleiðingin.  Auk þess séu fleiri efni varasöm í sætuefnunum sem ekki sé að finna í hvítasykrinum.  

Það að auki espar neyslan upp fíkn í hreinan sykur enda hefur mér orðið starsýnt á hve margt fólk, sem er of feitt, drekkur bara diet-Coladrykki.  

Ég hef aldrei drukkið kaffi, finnst það vont, jafnvel þótt mokað sé sykri út í það að hætti sumra koffein-fíkla sem eru haldnir hinni lúmsku, tvöföldu fíkn.  


mbl.is Stóraukin koffínneysla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakari hengdur fyrir smið.

Hér á blogginu má nú sjá menn kenna Svandísi Svavarsdóttur um það að viðræðum við "nokkuð mörg erlend fyrirtæki" um orkukaup hefur verið frestað. Hér er bakari hengdur fyrir smið.

Smiðurinn er stóriðjustefnan þar sem mest orkubruðlandi fyrirtækjum heims á að úthluta orku frá heilum landshluta. 

Fyrir kosningarnar 2007 hélt ég því fram að mörg erlend fyrirtæki myndu vilja kaupa hér orku og þetta væru fyrirtæki sem byðu fleiri og betri störf á orkueiningu og auk þess minni mengun. 

Þess var þá hafnað af stóriðjufíklunum og sagt að enn einu sinni væri ég að tala um "eitthvað annað" sem væri annað hvort ekki til eða þá í líkingu við fjallagrasatínslu og peysusaum. 

Setningin "nokkuð mörg erlend fyrirtæki" í fréttinni um Landsvirkjun sýnir að ég hafði rétt fyrir mér á sínum tíma. Þessi fyrirtæki ætla ekki að stunda fjallagrasatínslu eða peysusaum. 

Stóriðjustefnan með sinni stórkarlalegu sókn í orkulindir landsins er sökudólgurinn og höfuðorsök þess að aðrir komast ekki að. 

Ef stóriðjustefnan hefði ekki ríkt og ríkti ennþá væri ekkert vandamál að finna orku handa hinum mörgu erlendu fyrirtækjum án þess að fórna líkt því eins miklu af náttúruverðmætum og stóriðjan krefst. 


mbl.is Landsvirkjun frestar viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband