12.2.2011 | 12:54
Dásamlega ósammála. Gott!
Það er gaman að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um lögin, sem keppa til úrslita í kvöld í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Spekúlantarnir álitsgjafarnir eða sérfræðingarnir, eins og þeir eru kallaðir, eru svo dásamlega ósammála um flest, en einkum þó um lagið Eldgos sem fær allan regnbogann af umsögnum.
Þetta er gott. Það væri slæmt ef fjölmiðlar fara að blanda sér í þetta mál á þann hátt að þeir dragi taum eins lags frekar en annars. Þetta er eitt helsta umræðuefni og viðfangsefni þjóðarinnar í skammdeginu og þjóðinni á að treysta fyrir því að dæma um lögin en leyfa fjölmiðlunum að standa hjá og fylgjast með án íhlutunar.
![]() |
Eldgos er sturluð snilld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2011 | 02:27
Hvað um Sádi-Arabíu?
Það hefur verið sagt að Egyptar séu valdamesta þjóðin í Miðausturlöndum. Það er ekki rétt. Sádi-Arabía gegnir í krafti einstæðs olíuauðs síns algeru lykilhlutverki í valdakerfi heimsins.
Þar ríkir gerspillt harðstjórn og einræði moldríkrar valdaklíku sem minnir meira á miðaldir í hugsunarhætti sínum en valdhafa á 21. öld.
Fyrir nokkrum árum komum við hjónin til Avon í Klettafjöllunum, en þá hafði þessi bær náð þeim áfanga í semkeppni við Aspen sem skíða- og ferðamannastaður, að krónprins Sádi-Arabíu hafði komið þangað til að renna sér á skiðum í stað þess að gera það í Alpafjöllum.
Þessi eini maður tók 100 herbergi á leigu í hótelinu og limúsínur og þyrlur þessa auðmanns settu mikinn svip á bæinn. Almenningur þar var tt fyrir auglýsinguna sem heimsóknin vakti, og tekjurnar, sem hún gaf, yfir sig hneykslaður á bruðlinu og firringunni, sem því fannst fylgja þessu slekti.
Þegar ég benti þeim á það að þessi ríkismannabær með öllum sínum flota lúxusbíla og pallbílatrölla ætti allt sitt undir því að halda friðinn við olíufurstann, sljákkaði aðeins í hneykslunarröflinu.
Samúð Vesturlanda með lýðræðisumbótum í Arabalöndunum nær varla lengra en að bensíndælunum hjá okkur. Þegar hinir raunverulegu olíuhagsmunir hins bandaríska lífsstíls koma til sögunnar er hætt við að allt annað víki.
Sádarnir lýstu yfir stuðningi við Mubarak á síðasta valdadegi hans og munu áreiðanlega ekki gefa eitt einasta dollarasent eftir ef kemur til þess að orða lýðræðisumbætur í olíuríkjunum.
Byltingar í olíurikjunum er vafalaust einhver skelfilegasta tilhugsun, sem ráðamenn stórveldanna geta ímyndað sér því að allt efnahagsmynstur veraldarinnar hangir á olíunni sem streymir þaðan jafnt til Bandaríkjanna sem Kína og Japans.
![]() |
Þjóðarleiðtogar styðja Egypta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2011 | 18:59
Getum við lært af Egyptum?
Það vakti strax athygli konunnar minnar hvernig mótmælendur stóðu í röðum á Frelsistorginu í Kairó og hve friðsamleg mótmælin voru.
Yfirvegun, stilling og samheldni mótmælenda hefur vakið athygli víða um lönd og með eindæmum, að með þessari sjálfstjórn kom það vel í ljós, að ofbeldi var aðeins beitt af hálfu stuðningsmanna Mubaraks, lögreglunni og hermönnum en mótmælendur héldu stillingu sinni allan tíman.
Með þessu tókst þeim að koma í veg fyrir herinn og yfirvöld fengju afsökun fyrir því að beita valdi og fara fram með ofbeldi gagnvart friðsömum múgnum.
Einnig var ljóst að erfiðara yrði fyrir hermenn að beita vopnavaldi gegn svo mörgu vopnlausu fólki og samlöndum sínum.
Ég held að við Íslendingar ættum að spyrja okkur, hvort við getum eitthvað af þessu lært. Vesturlandabúar hafa löngum litið niður á þjóðir Afríku og Asíu en áttum okkur ekki alltaf á því að margar þeirra búa að fornri og gróinni siðmenningu.
Styrkur og árangur Gandhis, Martins Luther Kings og egypsku byltingarinnar byggðist ekki á beitingu vopna og grófs ofbeldis, heldur á afli hins stóra, friðsama fjölda sem beitti borgaralegu andófi af stillingu, ögun og yfirvegun.
![]() |
Stórt og mikilvægt skref |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2011 | 15:09
Herinn ræður úrslitum.
Aðgerðir eða aðgerðaleysi egypska hersins ge ta ráðið úrslitum um framvindu byltingarinnar í Egyptalandi.
Margir hafa átt von á því að svipað myndi gerast og í ótal svipuð skipti áður í sögunni, svo sem á Torgi hins himneska friðar í Peking 1989.
Sagnir fara hins vegar af því að hugsanlega sé egypski herinn, sem á að vera undir stjórn Mubaraks, ekki einhuga í afstöðu sinni og sagan vitnar líka um það að þegar á hólminn var komið, hafi herir snúist gegn yfirboðurum sínum.
Rússneska hernum var skipað að bæla niður mótþróa gegn kommúnistaleiðtogunum, sem rændu völdum af Gorbasjof, en þegar Jeltsín stökk upp á skriðdrekann gerði hann það í krafti þess að hermennirnir myndu ekki skjóta á eigin landa.
Þegar Napóleon sneri til Frakklands úr útlegð á eyjunni Elbu, voru hersveitir sendar þess að handtaka hann, en hermennirnir snerust þess í stað í lið með honum og fylgdu honum í sigurgöngu til Parísar.
Herinn í Egyptalandi hefur átt um tvo kosti að velja , harðlínukostinn að láta sverfa til stáls og bæla niður uppreisnina með tilheyrandi blóðbaði, eða bíða enn um sinn og sjá hverju fram yndi.
Meðan herinn aðhefst ekki vinnur tíminn með mótmælendum, því að þeim fer sífellt fjölgandi eins og fréttir um milljónar til tveggja milljóna mannsöfnuð á mótmælendafundum bera með sér.
Staða Mubaraks fer að minna á stöðu Chausescus í Rúmeníu, en eftirminnilegt er þegar fjöldafundur, sem hann hélt til þess að styrkja stöðu sína, snerist gegn honum og hann flýði í þyrlu af vettvangi.
Að vísu er líklegt að egypski herinn muni um sinn verja Mubarak sjálfan, en hve lengi það ástand helst er erfitt að segja til um.
Tími hans hlýtur að vera liðinn og æ betur sést, að best hefði verið ef hann hefði áttað sig á því fyrr.
P. S. Einni og hálfri klukkustund eftir að þessi pistill var ritaður var tilkynnt að Mubarak hefði látið af völdum og herinn tekið við með varaforsetann í forsæti.
Með þessu ná mótmælendur fram fyrstu og helstu kröfu sinni hvað varðar afsögn Mubaraks, en nú þarf herinn heldur betur að spýta í lófana um lýðræðisumbætur, því að mótmælendur sætta sig ekki við annað en að herinn dragi sig til hlés og lýðræðislega kosin stjórnvöld taki við.
![]() |
Milljón Egypta mótmælir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2011 | 14:46
Myndir geta breytt sögunni.
Ein mynd getur sagt meira en 1000 orð. Þessi sannindi eru sígild og dæmi eru um ljósmyndir sem hafa breytt sögunni, ef svo má segja.
Frægust slíkra mynda er líklega sú sem tekin var af brenndu fólki, sem flýði brennandi þorp í Vietnamstríðinu eftir napalm eldsprengjuárás Bandaríkjahers.
Fremst hljóp nakin stúlka með andlit afmyndað af skelfingu og mynd hennar greyptist í hug milljóna manna, sem sáu í henni táknmynd villimennsku stríðsins.
Það má deila um hvort þessi mynd ein og sér hefði breytt gangi stríðsins, en þegar hún var lögð við aðrar eftirminnilegar myndir, svo sem af brennandi munknum í Saigon nokkrum árum áður, má segja að hún hafi verið kornið sem fyllti mælinn.
Á sama hátt og þessi ljósmynd vitnaði sterkt gegn hernaði varð frægasta myndin, sem tekin var í stríði Bandaríkjamanna og Japana af hermönnum, sem reisa bandaríska fánann á Iwo Jima, hvatningartákn fyrir Bandaríkjamenn að stefna til sigurs í því stríði.
Myndin af logandi vítinu í Perluhöfn 7. desember 1941 með herskipið Arizona hálfsokkið og brennandi í forgrunni, vakti á sama hátt gríðarlega sterkar tilfinningar í Bandaríkjunum og hvatti þjóðina til að halda ótrauð út í þann hildarleik, sem styrjöldin var.
Myndir af Bretakonungi og Winston Churchill að skoða rústir eftir loftárás á Londin í septmember 1940 stöppuðu stálinu í bresku þjóðina og mynd af líkum ríkisarfahjóna Austurríkis á líkbörum eftir að þau voru myrt í Sarajevo 28. júní 1914 vöktu mikla reiði og hefndarhug í Austurríki.
Hér heima vitnuðu myndir af breskum hermönnum með vélbyssu í Kirkjustræti hernámsdaginn 10. maí 1940 um afdrifaríkasta atburð liðinnar aldar á Íslandi.
Aðrar myndir sögðu meiri sögu af miklum atburðum en þúsundir orða.
Ég hygg að ljósmynd 20. aldarinnar hafi Finnbogi Rútur Valdimarsson tekið við Straumsfjörð á Mýrum af líkum 38 drukknaðra skipverja af franska rannsóknarskipinu Pourqois pas? þar sem þeim hefur verið raðað í röð, hlið við hlið, með skipstjórann fremstan í röðinni.
Eftirminnileg er líka myndin af minningarathöfn, sem fram fór á línuskipinu Fróða í Reykjavíkurhöfn, þar sem kistur fallinna skipverja stóðu á þilfari, sundurskotnu eftir árás þýsks kafbáts.
Hún varð nokkurs konar táknmynd fyrir þær miklu mannfórnir á hafinu, sem Íslendingar urðu að færa á stríðsárunum.
![]() |
Bieber tók fréttaljósmynd ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2011 | 23:24
Egypskt "torg hins himneska friðar"?
Alkunna er hvernig mótmæli almennings í Kína voru barin niður með harðri hendi á Torgi hins himneska friðar 1989.
Hætt er við að á sömu lund fari nú í Egyptalandi.
Hinir spilltu einvaldar Sádi-Arabíu hafa tekið sér stöðu með Mubarak og þar með eru Bandaríkjamönnum settir þeir afarkostir að amast ekki við ríkjandi ástandi í Miðausturlöndum, enda á Mubarak líka áhrifamikla bandamenn þar sem eru Ísraelsmenn.
En með engu móti munu Bandaríkjamenn dirfast að styggja olíufurstana.
Olían er sterkasta afl samtíma okkar og það sem viðheldur núverandi heimsástandi, sem menn ætla að hanga í svo lengi sem hægt verður og helst lengur ef það væri hægt að fljóta sofandi að feigðarósi
![]() |
Herinn bjargi þjóðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2011 | 15:07
Gráa svæðið og línan.
Hugtakið "grátt svæði" er oft notað um ýmis svið, þar sem óljóst þykir hvar skuli draga línuna milli löglegs athæfis og ólöglegs. Þegar kemur til kasta dómstóla að draga línuna, hefur oft verið í gangi tilhneiging til þess að færa gráa svæðið æ lengra út.
Dæmi um þetta var dómur vegna æviminninga, sem komu út á níunda áratugnum. Fram að því höfðu bersöglislýsingar af ýmsu tagi orðið æ svæsnari í ævisögum og komin upp óbein samkeppni á milli bókaútgefenda í þeim efnum til þess að skapa umræður og þar af leiðandi betri sölu.
Í viðkomandi ævisögu var gengið mjög langt og í málaferlunum, sem af hlutust, urðu bókarhöfundur og útgefandi að lúta býsna hörðum dómi.
Á þessum tíma var ég með bækur á markaðnum nokkur jól og fylgdist með þessu máli, meðal annars í samtölum við útgefanda minn og aðra útgefendur.
Ég fékk að heyra það í trúnaði að útgefendum væri að vissu leyti létt við þetta því að nú vissu þeir hvar hin lagalega lína lægi. Með því að fara sífellt lengra út á hinn hála ís hefðu útgefendur staðið að lokum frammi fyrir hinu óhjákvæmilega, að línan yrði dregin.
Eftir að þetta gerðist hafa ekki komið aftur upp hliðstæð mál.
Það er gott ef mál Eiðs Smára og DV fer fyrir Hæstarétt svo að botn fáist í það hvar gráa svæðið endar við þá línu, sem dregin verði. Ekki ætt að vera hægt að efast um að einhvers staðar liggi þessi lína, því að annars fara menn alltaf lengra og lengra líkt og gert var í ævisögunum hér um árið.
![]() |
Vakning fyrir fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2011 | 09:59
"Sunnanvindur, svara þú mér..."
Ofangreind orð söng Örvar Kristjánsson á sínum tíma undir laginu "Mister Sandman". Sunnanvindurinn hans var að vísu mun þýðari en sá sem við eigum von á í nótt og í fyrramálið, en engu að síður hlýr.
Ýmsir verða til að bölva vindbelgingnum, sem oft er hér á þessum árstíma en þeir gleyma því, að til þess að færa hlýindi og raka svona langt norður að heimskautsbaugi í vetrarskammdeginu þarf gríðarlega mikla orku.
Eigi svona mikill og hlýr loftmassi að komast til okkar þarf hann að blása af miklum krafti um langan veg.
Og við getum ekki ætlast til þess að hér sé allt frá 10 og upp í 40 stigum hlýrra á þessum árstíma en á stórum svæðum á sömu breiddargráðu. (T.d. í Síberíu) nema reginöfl komi til skjalanna.
Þess vegna eigum við bara að taka undir með Hannesi Hafstein þegar hann kveður: "Ég elska þig, vindur, sem geysar um grund !"
![]() |
Spáð ofsaveðri í fyrramálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2011 | 21:24
Í hlekkjum hugarfarsins.
Baldur Hermannsson gerði fyrir um tveimur áratugum merkilega sjónvarpsþætti sem báru nafnið "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Þeir ollu miklum deilum, enda fór Baldur stundum glannalega langt í framsetningu sinni, stundum jafnvel of langt.
En grunnhugsun þáttanna var að mínum dómi rétt: Ríkjandi valdastétt á Íslandi hélt þjóðinni öldum samana í helgreipum hlekkja hugarfars, sem íslenskur aðall, stórbændur og embættismenn, stóðu dyggan vörð um til að viðhalda jafnvel meiri forréttindum en danskur aðall hafði í sínu landi.
En hlekkir hugarfarsins voru, eru og verða til á öllum tímum.
Stjórnmálamenn og hagspekingar heimsins eru fastir í hlekkjum hugarfarsins, sem skapað hefur velsæld og auð hjá mörgum þjóðum þótt meirihluti mannkyns hafi farið á mis við það.
Þessi velsæld hefur byggst á því að ganga í skefjalausu bruðli á auðlindir jarðarinnar og halda uppi stöðugum og endalausum hagvexti sem töfralausn og undirstöðu "hinna amerísku lífshátta", sem allar þjóðir þrá að tileinka sér.
Nú síðustu ár hafa Kínverjar tileinkað sér þetta hugarfar og stefna að því að verða mesta efnahagsveldi heimsins.
Krafan um sífellt meiri hagræðingu, sem byggist á endalausum tækniframförum, felur í sér þá mótsögn að færri störf þarf í framleiðslu og þjónustu sem aftur leiðir til þess að störfum fækkar og atvinnuleysi eykst.
Vaxandi atvinnuleysi þýðir vaxandi óhamingju, ójöfnuð, glæpi, óróa og ófrið.
Nú stefnir óhjákvæmilega í hrun þess sem þetta hugarfar hefur skapað. Hámarki olíualdarinnar hefur verið náð og leiðin getur aðeins legið í eina átt: Nður á við. Þeim mun meira sem verður reynt að dæla úr þverrandi olíuforða jarðar, því hraðara verður hrunið.
Fyrir hvert tonn af olíu, sem finnst í nýjum olíulindum, minnkar forði þekkts orkuforða núverandi olíulinda um minnst sex tonn.
Æ dýrara verður auk þess að vinna olíuna úr nýju lindunum.
Eina þjóðin, sem virðist ætla að reyna að minnka skellinn þegar olíulindir hennar þverra, eru frændur okkar, Norðmenn. Þeir leggja 70% olíuteknanna fyrir til þess að eiga til mögru áranna á sama tíma sem þjóðir heims keppast við að auka skuldabyrðar sínar til þess að viðhalda neyslunni, sem knýr átrúnaðinn mikla, hagvöxtinn.
Kínverjar hafa að vísu veitt gríðarlegum fjármunum til Vesturlanda í formi lána og fjárfestinga, en að öðru leyti sigla þeir sömu siglingu og aðrir, fastir í hlekkjum hugarfars hins takmarkalausa framleiðsluvaxtar og bruðls með auðlindir.
Við Íslendingar eigum þrátt fyrir allt meiri möguleika en flestar aðrar þjóðir til þess að breyta orkunotkun okkar yfir í iinnlenda og hreina orkugjafa, en erum að miklu leyti líka fastir í hlekkjum hugarfaris græðgi, skammsýni og tillitsleysis gagnvart komandi kynslóðum, - hugarfarinu sem leiddi til Hrunsins og virðist ætla að halda velli.
![]() |
Áhyggjur af atvinnuleysinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2011 | 12:51
Alhæfingar eru varasamar.
Alhæfingar eru oft varasamar en eiga samt ekki að koma í veg fyrir að rætt sé um meginlínur ákveðinna mála eins og kvótakerfið.
Nokkrar staðreyndir varðandi það verður ekki komist hjá að ræða og kryfja til mergjar.
Hér skulu aðeins nefnd þrjú atriði, sem komið hafa fram á síðustu dögum í viðtölum við Kristin Pétursson og Kristin H. Gunnarsson, en athyglisvert er að báðir hafa verið þingmenn fyrir "kvótaflokkana tvo" sem stundum eru kallaðir svo, og atriðin, sem Kristinn nefnir, komu upphaflega á hans borð þegar hann var fulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í nefnd sem endurskoðaði kvótakerfið.
1. Leiguliðar veiða 40% aflans en eigendurnir gera það ekki heldur græða á því að verðinu á kvótanum er haldið svimandi háu. Það er aðeins stigsmunur en ekki eðlismunur á þessu og því þegar 90% bænda voru leiguliðar en 10% bænda áttu allar jarðirnar með tilheyrandi misskiptingu og ranglæti.
2. Verð á kvóta hefur margfaldast á 15 árum og hefur orðið þrisvar til fjórum sinnum hærra en í nágrannalöndunum.
3. Framleiðni, miðað við vinnuafl, hefur aukist um 40% í fiskvinnslunni á sama tíma og hún hefur staðið í stað hjá útgerðinni, þrátt fyrir allt talið um þá hagræðingu, sem kvótakerfið eigi að hafa í för með sér. Útgerðin er líka miklu meira skuldsett en fiskvinnslan.
Að sumu leyti er nú í gangi svipuð þróun og fyrir einni öld þegar útgerðin fluttist frá úteyjum og útskögum allt í kringum landið og inn til fjarðanna.
Munurinn er hins vegar sá að stórfelld búseturöskun nú veldur miklu meira tjóni en flutningur frumstæðra og ódýrra verstöðva fyrir öld auk þess sem bruðl með orku og hugsanleg spjöll á lífríkinu við hafsbotninn eru ekki tekin með í reikninginn.Þótt einhver útgerðarfyrirtæki séu vel reknir bústólpar í sjávarbyggðum er óþarfi að reka upp ramakvein yfir því þótt hugað sé að augljósum göllum og misfellum núverandi kerfis.
![]() |
Talað til útgerðar eins og glæpamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)