17.3.2011 | 00:33
Annað gildir um grasrótarflugið.
Gott er að heyra loksins jákvæðar fréttir af Landeyjarhöfn en því miður var ekki jafn bjart yfir fundi, sem eigendur lítilla flugvéla voru á í kvöld með fulltrúum frá Flugmálastjórn Íslands.
Fundarmenn urðu raunar fyrir áfalli þegar þeim varð nú fyrst ljóst, að í raun myndi stærstur hluti flugvélaflotans stöðvast óhjákvæmilega á þessu ári vegna nýs regluverks um viðhald og eftirlit, sem tekur endanlega gildi 28. september næstkomandi.
Samkvæmt því verður eftirlit og viðhald vélanna einkavætt í samræmi við kröfur EASA, sem er nokkurs konar samband flugmálastjórna í Evrópu og allar Evrópuþjóðir eru aðilar að nema fjórar þjóðir á Balkanskaga.
Til að sjá um þetta eftirlit og viðhald þarf að vera til staðar fyrirtæki, sem hefur fengið til þess réttindi, en ekkert slíkt er til hér á landi, enda menn alveg óviðbúnir þessu og kostar minnst tvær milljónir króna að setja slíkt á stofn og minnst sex mánuði að gera það.
Jafnvel þótt farið yrði í slíkt myndi það ekki koma í gagnið fyrr en næsta vetur og því fyrirséð að flotinn mun stöðvast út árið að minnsta kosti.
Nú þegar eru einhverjar vélar dottnar út og þeim mun fjölga við hver mánaðamót eftir því sem lofthæfið rennur út.
Þetta er þó ekki allur floti litlu vélanna því að undanþegnar eru flugvélar sem voru hannaðar fyrir 1955 og ekki framleiddar lengur en til 1975. Einnig allra minnstu fisflugvélarnar og heimasmíðaðar vélar.
Er það sérkennileg útfærsla á auknu flugöryggi að kröfurnar séu meiri gagnvart nýrri vélunum en þeim eldri.
Þetta er mesti afturkippur í grasrótarfluginu á Íslandi síðan það hófst fyrir 66 árum.
Með því að innleiða þetta regluverk á Íslandi eru sérstaða landsins að engu höfð.
Ísland er eina landið í EASA sem er langt frá öðrum löndum úti í ballarhafi þannig að litlu flugvélarnar hér fljúga bara hér en ekki þvers og krusss á milli landanna á meginlandinu.
Ísland er eina landið sem hefur ekki her og þjálfar því ekki flugmenn á þann hátt. Hér koma flugmennirnir úr grasrótarfluginu.
Vegna smæðar þjóðfélagsins og fjarlægðar frá öðrum löndum getum við ekki leitað á náðir fyrirtækja í öðrum EASA löndum til að taka að sér eftirlit og viðhald.
Fulltrúi Flugmálastjórnar Íslands var spurður á fundinum um ástæður þess að við gengum í EASA.
Hann sagði að hún blasti við: Engin leið væri að halda uppi öflugum flugrekstri hér og stunda stórfellt millilandaflug nema að taka þátt í því eina alþjóðasamstarfi, sem væri í boði eins og sæist á því að nær öll lönd Evrópu væru aðilar að þessu samstarfi.
"Við urðum að taka meiri hagsmuni fram yfir þá minni" sagði hann orðrétt.
Af því má álykta að grasrótarflugið flokkaðist undir "minni hagsmuni".
Á sínum tíma voru 172 blaðsíður af efni sendar til flugvélaeigenda hér á landi. Þótt reynt væri að grufla í þeim var engin leið fyrir venjulegan borgara að átta sig á því hvað raunverulega myndi gerast.
Fundarmenn í kvöld fengu það hins vegar útskýrt á mannamáli á ca 5 mínútna kafla í ágætri og greinargóðri framsögu fulltrúa frá Flugmálastjórn.
Gott hefði verið að sjá slíkt á blaði fyrr en nú. Það minnir á lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Hvað um það, - það liggur þá ljóst fyrir að TF-FRÚ verður ekki flogið meira á þessu ári og kannski ekki framar.
Ég á hins vegar litið 120 kílóa eins manns opið örfis hangandi uppi í lofti á Samgöngusafninu í Skógum.
Fer þangað sennilega í sumar, tek það niður, fæ vin minn til að gera við bilaða tvígengisvélina sem í því er og flýg á því eftirleiðis í þágu aukins flugöryggis í Evrópu.
![]() |
Bjartsýni ríkir um Landeyjahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.3.2011 | 19:20
Farþegar til alls vísir.
Það er sama hvort flugvélarnar eru litlar eða stórar, - farþegar þeirra geta ekki síður valdi óhöppum og slysum en flugmennirnir.
Ég hafði ekki flogið nema í eitt ár þegar fyrsti farþeginn gerði mér lífið leitt. Ég ætlaði að fljúga á fjögurra sæta vél til Hornafjarðar ásamt undirleikara mínum, Hauki Heiðari Ingólfssyni og konu hans, Sveinrósu Sveinbjarnardóttur, og var beðinn um að taka með mér lögregluþjón úr Reykjavík, sem samkomuhaldara á Höfn vantaði til að sinna löggæslu.
Þegar maðurinn kom út á flugvöll kom í ljós að hann var vel við skál og gerðist uppivöðslusamur þegar ég harðneitaði að taka hann með austur.
Þegar ég kom austur fékk ég skömm í hattinn því að ekki veitti af löggæslu á fjölmennu balli um kvöldið.
Enda fór allt úr böndunum eftir ballið, fylliraftar léku lausum hala og brutu rúður og dyr í húsum.
Var neitun minni kennt um en mér þó sýndur skilningur. Ég er þó á því að miðað við hegðun lögreglumannsins á Reykjavíkurflugvelli hefði hann allt eins verið líklegur til að ganga í lið með skemmdarvörgunum, sem gengu berserksgang eftir ballið í Höfn.
Eitt sinn var ég beðinn um að fljúga með hjón til Reykjavíkur og vildu þau taka hund sinn með.
Ég var tregur til en þau höfðu fötu meðferðis fyrir hundinn og komu auk þess með hann deyfðan af dýralækni svo að hann lá sem dauður væri.
Fyrir þrákelkni eigenda hundsins og grátbónar lét ég til leiðast að reyna flugtak.
Hundurinn var bundinn tryggilega niður og síðan var farið í loftið. Þá brá svo við, að hundurinn, sem virtist hafa verið í dái, rankaði við sér og trylltist gersamlega. Sem betur fer var rétt kominn í loftið þegar þetta gerðist og flýtti mér að fara þröngan hring og lenda áður en hundurinn ylli usla í vélinni.
Sumarið 1986 tók ég að mér að fljúga með hreindýr frá 200 ára afmælissýningu Reykjavíkurborgar austur á Djúpavog. Vélin var TF-HOF, tveggja hreyfla fimm farþega flugvél.
Þetta var hreindýrskálfur og var deyfður og komið fyrir liggjandi aftur í flugvélinni þar sem aftursætin höfðu verið fjarlægð. Dýrið var í neti og tryggilega niðurnjörvað.
Ferðin með dýrið gekk vel þar til ég var staddur yfir ofanverðum Breiðamerkurjökli. Þá fór hreindýrið að brjótast hart um og sparka og vildi svo ótrúlerga til, að því tókst á einhver óskiljanlegan hátt að sparka þannig í læsingu hurðarinnar á farangurshólfinu, að hún hrökk upp og hreindýrið rann hálft út um farangursdyrnar!
Flugvélin hristist og skalf og ég var hræddastur um að dýrið myndi með hamaganginum komast það langt út úr vélinni að það truflaði loftflæðið yfir hæðarstýrið aftast á vélinni.
Ég reikna með að það fólk á jörðu niðrir sem sá flugvélina fljúga lágt yfir þjóðveginum í átt að Fagurhólsmýri hafi varla trúað sínum eigin augum að sjá hálft hreindýr hanga út úr vélinni!
Á flugvellinum var hægt að ganga betur frá dýrinu þannig að algerlega væri útilokað að það sparkaði hurðinni aftur upp og tókst mér að klára þessa óvenjulegu flugferð farsællega.
Villidýr eru þó ekki hættulegustu farþegarnir.
Á flugi á TF-FRÚ með fjóra menn fyrit mörgum áratugum rann skyndilega æði á þann sem sat við hlið mér. Hann þreif í stýrið sín megin og þrýsti því fast og eldsnöggt fram með þeim afleiðingum að flugvélin stakkst beint á nefið áður en ég gæti rifið í stýrið á móti.
Allir í vélinni hentust upp í loftið í öryggisbeltunum og allur sandur á gólfunum og annað lauslegt í vélinni hentist upp í þakið.
Þessi flugvélargerð er aðein hönnuð til að þola tæp 2g í öfugu álagi en fór örugglega vel yfir það mark þegar þetta gerðist.
Þegar ég grennslaðist fyrir um hugsanlega orsök þessa snögga æðis, sem stóð raunar aðeins í nokkrar sekúndur, kom í ljós að líklega hefði maðurinn neytt slæmrar blöndu af fíkniefnum þess tíma, þ. á. m. LSD-ofskynjunarlyfsins.
Hann hafði að vísu verið með syndandi augnaráð þegar hann settist upp í vélina en enginn átti von á þessu uppátæki hans sem hefði getað kostað okkur alla fjóra lífið.
![]() |
Farþegar í annarlegu ástandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2011 | 10:11
Spámaðurinn á fjallinu hjólaði í hríðinni.
Í útlendum bæklingi með nafninu "Weather to travel" eða "Ferðaveður" er því lýst skilmerkilega að Ísland sé stóran hluta ársins á einhverju vindasamasta svæði í heiminum og að sviptinagar í veðrinu séu því með ólíkindum hér á landi.
Okkur kanna að þykja bjartsýni hjólagarpsins erlenda sem ætlar að hjóla um landið í svona veðri með eindæmum en gleymum því að sífellt fleiri ferðamenn leita að "áskorun" til þess að takast á við á ferðum sínum um heiminn.
Sjálfir áttum við Íslendingar mann, sem líklega setti heimsmet í ákveðni, þrjósku, seiglu og þolgæði á þessu sviði.
Það var Óskar Magnússon, sem ásamt konu sinni, Blómey Stefánsdóttur, bjó í litlum torfbæ uppi á fjallinu fyrir ofan Skíðaskálann í Hveradölum í heil níu ár og hjólaði til daglega til vinnu sinnar í Reykjavík.
Þetta allt saman gerði hann til þess að mótmæla því að hafa verið hrakinn úr einstæðu húsi sínu, "Kastalanum", sem hann hafði reist sér í Blesugróf en varð að víkja fyrir Breiðholtsbraut, sem nú heitir Reykjanesbraut.
Óskar var líka mjög ósáttur við hina kapítalistíska þjóðskipulag og haldinn ofstækisfullri en heiillandi blöndu af hörðum kommúnisma og kristni.
Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar hann barðist á hjóli sínu á móti éljaveðri við að komast frá Reykjavík upp á fjallið og þá hélt hann spámannlega þrumuræðu með eldingum yfir mér í Litlu kaffistofunni.
Fyrir 13 árum reit ég bók sem fjallaði að hálfu um hið einstaka lífshlaup Óskars og Blómeyjar en hinn helmingurinn var um "Gulldrengina" sem fóru og kepptu á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel 1950.
Bókin hét "Mannlífsstiklur" með undirheitinu "Spámaðurinn, Gulldrengirnr og fleira fólk" og í bókinni var Óskar nefndur "Spámaðurinn á fjallinu."
Kynni mín við hann eru eitt það einstakasta sem á daga mína hefur drifið, Gísli á Uppsölum meðtalinn.
![]() |
Engin ástæða til að gefast upp þótt hann blási aðeins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2011 | 14:46
Ennþá "klikkuð veröld"?
Á þeim tíma þegar Tiger Woods var besti kylfingur heims og Bandaríkjamenn komnir í stríð í Írak varð þessi lýsing á ástandinu í heiminum til:
"Besti rapparinn er hvítur, - besti golfleikarinn svartur, - Frakkar saka Bandaríkjamenn um hroka og Þjóðverjar vilja ekki fara í stríð. Veröldin er greinilega að fara á hvolf."
Sumt af þessu hefur breyst en annað ekki. Já, svona er heimurinn í dag, myndi Jón Ársæll segja.
P.S. Haukur Kristinsson sendi inn bráðnauðsynlega athugasemd með allri fjarstæðurununnni, sem var höfð uppi fyrir nokkrum árum. Ég vísa í hana frekar en að fara að breyta textanum hér fyrir ofan.
![]() |
Þjóðverjar hafna flugbanni yfir Líbíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.3.2011 | 12:38
Langhlaup.
Framtak þeirra Einars Bárðarsonar og Loga Geirssonar við að takast á við ofþyngd fyrir opnum tjöldum er mjög þakkarverð. Gildir þá einu hvort eða hvernig þetta tekst, því að um er að ræða alveg sérstaklega erfitt heilsufarsvandamál sem er eitt það versta í heiminum.
Þynging fólks gerist oftast á býsna löngum tíma, jafnvel áratugum. Hún er lúmsk af því að hún gerist oftast svo hægt.
Einu gildir hvort menn gangast undir snarpt og öflugt átak, eins og virðist vera uppi á teningnum hjá þeim Loga og Einari, eða taka þetta hægt og bítandi og horfa til langs tíma, raunar fram til þess sem eftir er af ævinni.
Því miður er það þannig að í langflestum tilfellum þegar menn létta sig með áköfu átaki, að það sækir fljótlega í sama farið aftur og jafnvel því hraðar sem átakið var snarpara.
Það eru nefnilega takmörk fyrir því hve hart er hægt að ganga að líkamanum hvað næringu snertir, því að hann þarf lágmark af fitu, orku og vökva til að heilsan sé í lagi.
Ef ekki er haldið áfram eins og í langhlaupi þegar nokkurra vikna eða mánaða átaki er lokið, er voðinn vís.
Fíkn i sykur og fitukenndan mat eins og súkkulaði er sama eðlis og önnur fíkniefnavandamál.
Fíklar þekkja að áreiti hefur mikið að segja og þegar menn eru að venja sig af neyslunni er áríðandi að halda sig frá öllu sem er freistandi.
Gallinn við mat er hins vegar sá að við verðum að borða og komumst ekki hjá því að rekast á góðgætið hvar sem við erum.
Auk þess eru afmæli hér og veitingar þar auk helgardaganna sem alltaf eru þungir í skauti.
Ég var í góugleði sem er nokkurs konar ættarmót í fyrradag og þurfti að taka mér tak í hörðum, hljóðum rökræðum við sjálfan mig:
"Ég er vanur að fá mér ábót í svona veislum á "nammidögum", jafnvel nokkrum sinnum. Er nokkuð að því þótt ég geri það núna?"
"Jú, það er mikið að því. Þú varst góðu afmælishófi í gær uppi í Leirársveit og sagðir það sama við þig þá."
"En ég get alveg náð þessu til baka næstu virku daga með því að vera bara duglegri þá."
"Af hverju að vera gera það erfiðara með því að slaka of mikið á núna? Af hverju þarftu endilega að fá þér ábót? Er ekki nóg að smakka bara svolítið á góðgerðunum og standa sig?"
Jafnvel þótt maður leyfi sér svolítil frávik einn dag í viku má ekki gleyma því að jafnvel undantekningarnar geti farið úr hófi fram og það er ekki endalaust hægt að fresta því til morguns, sem hægt er að gera í dag.
Eins og í hverri annarri meðferð við fíkn er þetta langtímaviðfangsefni þar sem aldrei má missa sjónar á nauðsyn þess að vera á tánum hvern einasta dag og sleppa aldrei tökum á verkefninu.
Ég sendi þeim Einari og Loga þakkir og hvatningu sem einn af tugþúsundum íslenskra sálufélaga þeirra í þessum málum. Ég þarf að vísu aðeins að taka af mér um tíu kíló en það virðist vera nógu erfitt samt.
![]() |
Vonlaust að létta Einar Bárðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2011 | 10:13
Vekur minningar frá keppni í skólanum.
Þeir hafa haft lag á því í Verslunarskólanum að efna til eftirminnilegra bardagaatriða á skemmtunum skólans.
Mér er enn í minni þegar ég var fenginn til að vera dómari og lýsa tveggja lotu hnefaleikum í skólanum á milli tveggja nemenda.
Annar þeirra var langur og renglulegur dökkhærður sláni, en hinn vel vöðvaður kubbur svipaður Tyson og hafði sá greinilega æft eitthvað hnefaleika.
Bardaginn byrjaði með látum, því að síðarnefndi nemandinn hóf þegar stórsókn og lumbraði duglega á slánanum sem átti í vök að verjast og virtist ekki eiga hina minnstu möguleika á að jafna leikinn.
Einhvern veginn tókst honum þó að geta komið í veg fyrir ósigur hans, því að sókn mótherjans hófst umsvifalaust með mikilli barsmíð. standa út lotuna og jafna sig eitthvað í mínútu hléinu sem á eftir kom, en þegar seinni lotan hófst virtist fátt geta komið í veg fyrir að sláninn játaði sig sigraðan, því að hann var farinn að bólgna undan höggum mótherjans.
En hún stóð ekki lengi, því að skömmu síðar kom sláninn inn óvæntu gagnhöggi og annað ekki síðra fylgdi á eftir.
Og nú snerist dæmið við. Sláninn hóf hnitmiðaða gagnsókn og raðaði inn höggum af mikilli færni þangað til stöðva varð bardagann og lýsa hann sigurvegara.
Ég tilkynnti hver væri hinn óvænti sigurvegari: "Ásgeir Örn Hallgrímsson!"
Það kom mér síðar ekki á óvænt að íþróttir yrðu viðfangsefni þessa unga og efnilega Verslunarskólapilts. Hann bjó greinilega yfir hæfileikum sem gátu nýst honum í hverri þeirri íþróttagrein sem hann kysi að stunda og gera að atvinnu sinni erlendis ef svo bæri undir.
![]() |
Gunnar Nelson lúskrar á Verslingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2011 | 20:50
Ekki óbrigðult.
Halda mætti að fæðingardagur hverrar manneskju sé óumdeilanlegur. Reynslan sýnir þó að svo er ekki, einkum meðal fátækra þjóða og dæmi eru um að frægt fólk hafi verið fætt jafnvel nokkrum árum fyrr eða seinna en talið var.
Grunnurinn að tímatali okkar er fæðingardagur Krists, en færð hafa verið að því skýr rök, að hann hafi fæðst nokkrum árum fyrr en tímatalið segir til um, jafnvel allt að sjö árum fyrr.
Þetta þarf að vísu ekki að koma á óvart vegna þess hve langt er liðið síðan. Hins vegar eru dæmi um það frá okkar tímum að fæðingardagar hafi skolast til.
Á árunum 1959 til 1964 var bandaríski blökkumaðurinn Sonny Liston besti þungavigtarhnefaleikari heims þótt honum væri haldið frá titlinum til 1962. Eftir yfirburðasigur hans á Floyd Patterson 1962 og 1963 var hann talinn gersamlega ósigrandi.
En honum hafði förlast árið eftir þegar hann tapaði óvænt fyrir Cassiusi Clay, sem strax eftir bardagann tók sér nafnið Muhammad Ali.
Hraðinn hafði minnkað hjá Liston þótt höggþyngdin væri svipuð. Ástæðuna rekja sumir til þess að hann hafi verið eldri en vottorð sögðu til um og kominn um fertugt.
Afi minn heitinn Edvard Bjarnason hélt upp á afmælisdag sinn 2. júní en í fæðingarvottorðinu mun hafa staðið 12. júní, sem hann taldi ranga dagsetningu.
Það má grínast með fæðingarvottorð eins og annað.
Síðan Hæstiréttur úrskurðaði að kosnningarnar til stjórnlagaþings væru ógildar höfum við 25 menningarnir hist nokkrum sinnum til að spjalla saman, skiptast á skoðunum, kynnast hvert öðru og ráða ráðum okkar
Samkvæmt fæðingarvottorðum telst ég aldursforseti og af þeim sökum barst sá bolti til mín að halda eitthvað utan um þessi samskipti, líklega vegna þess að Hæstiréttur gæti líkast til ekki borið brigður á aldur minn!
En fréttin frá Ítalíu um vottorð Hjartaþjófsins Ruby sýnir að fæðingarvottorð eru ekki endilega neitt pottþéttari en önnur skjöl.
Og alþekkt er að aldur kvenna getur verið feimnismál í augum þeirra, sem rétt sé að ræða sem sjaldnast.
![]() |
Er fæðingarvottorð Ruby falsað? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.3.2011 | 16:29
Fá ráðgjöf frá Íslandi?
Þegar hætta steðjar að einni bandalagsþjóð NATÓ er það skoðað sem aðför að þeim öllum.
Við Íslendingar höfum því skyldum að gegna gagnvart bandalagsþjóð okkar við að veita þeim ráðgjöf og aðstoð í baráttunni við að rétta rekstrarhalla ríkissjóðs af.
Reynslan frá 2002 varðandi einkavæðinguna sem þá var framkvæmd hér, ætti því að geta reynst dýrmæt fyrir Grikki sem telja einkavæðingu það eina sem geti bjargað þeim.
Skiptir ekki höfuðmáli í því sambandi í hvora áttina sú reynsla á að beinast.
Annars vegar geta Grikkir fengið góðar leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að skipta fyrirtækjunum á milli stjórnmálaflokkanna í pólitískri einkavinavæðingu og gætum við sent Grikkjum Finn Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Davíð og Valgerði Sverrisdóttur til þess að kenna þeim trixin.
Hins vegar er líka möguleiki á því að Grikkir myndu þiggja ráðgjöf um það hvernig ætti að komast hjá því að einkavæðingin færi eins og hér á Íslandi en þá vandast nú sennilega málið varðandi það hverja ætti að senda þeim tið ráðgjafar ef þeir bæðu um það.
Ætli það yrði ekki að lýsa eftir tillögum í því efni.
![]() |
Vill þjóðarsátt um einkavæðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2011 | 00:08
Færri góðir dagar?
Það er oft talað um "dagsformið" hjá íþróttafólki, bæði einstaklingum og hópum. Líka mætti kalla þetta að eiga góðan dag.
Íslenska landsliðið í handbolta hefur átt sitt besta blómaskeið frá upphafi vega síðustu misseri og náð bæði í silfurverðlaun og bronsverðlaun á stórmótum með því að eiga fleiri góða daga en áður var.
Liðið hefur hins vegar ekki hampað gulli vegna þess að góðu dagarnir allir að lenda á réttum stöðum í tímalínunni og slæmu dagarnir að vera næstum því engir.
Nú er eins og að góðu dögunum sé að fækka hjá liðinu og engu líkara en "dagsformið" fari veg allrar veraldar.
Allar þjóðir mega eiga von á því að komast ekki inn á einstaka stórmót og má sem dæmi nefna Rússa og Svía, sem árum saman áttu tvö bestu handboltalið heims, en urðu síðan að sætta sig við hnignun.
Það var ekki lítils virði fyrir Íslendinga á sínum tíma, þegar þeir bæði unnu bug á "Svíagrýlunni" og áttu sinn þátt í að koma þeim út úr stórmóti.
Nú er hætta á því að dæmið geti snúist við, að það verði "smáþjóð" á handboltasviðinu, Austurríkismenn, sem hendi Íslendingum út úr EM.
Á síðasta heimsmeistaramóti áttu Íslendingar þrjá slæma keppnisdaga í röð en björguðu því þó fyrir horn að vera í hópi efstu þjóða.
Slíka heppni er ekki hægt að treysta á að öllu jöfnu, og því eru Íslendingar nú í erfiðari stöðu en verið hefði, ef dagsformið hefði ekki verið svona slæmt í fyrri leiknum við Austurríkismenn.
![]() |
Guðmundur: Biður þjóðina afsökunar(myndskeið) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2011 | 23:41
Áhrif á framtíð kjarnorkuvera?
Nýting kjarnorkunnar hefur gengið í bylgjum, allt frá upphafi beislunar hennar. Upp úr 1960 var hún talin hin bjarta von orkuöflunar mannkyns, svo björt, að rætt var um að nýting vatnsafls, til dæmis á Íslandi, yrði ekki samkeppnishæf.
Þetta var afar grunn hugsun því að nýting vatnsafls er langoftast sjálfbær en til lengri tíma litið er verður nýting kjarnorkunnar það ekki því að hráefnið til hennar er takmarkað, einkum ef menn ætla sér að láta kjarnorkuna taka alveg við af notkun jarðefnaeldsneytis.
Bakslag kom í nýtingu kjarnorkunnar vegna slysa í Bandaríkjunum og Ukrainu auk þess sem förgun kjarnorkuúrgangs er mikið deilumál.
Nú síðustu árin hefur birt til, einkum af tveimur ástæðum. Annars vegar stóraukið öryggi veranna og hins vegar það, að olíuskorturinn og orkuskorturinn eru orðin alvarlegra vandamál en áður var.
Ljóst hlýtur að vera bakslagið sem nú er komið í Japan mun setja strik í orkureikning þeirra og hafa einhver áhrif í öðrum ríkjum, hækka orkuverð og örva nýtingu annarra orkuöflunaraðferða.
Ófarirnar nú munu draga úr trú manna á öryggi veranna í Japan og skapa vandamál, sem menn sáu ekki fyrir.
Ólíklegt verður þó að telja að menn muni missa trúna á nýtingu kjarnorkunnar í öðrum löndum, sem ekki teljast til mestu jarðskjálftalanda heims eins og Japan.
Orkuvandi heimsins er nefnilega orðinn svo mikill að ekki er lengur hægt að hægja á jafn drjúgri orkuöflun og nýting kjarnorkunnar er.
![]() |
180.000 íbúar flýja kjarnorkuver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)