Sagan endurtekur sig.

"Að hika er sama og að tapa" segir grimmt máltæki, og það virðist ætla að eiga við um viðbrögð þjóðasamfélagsins gegn grimmdaræði og vitfirringu Gaddafis. Þrátt fyrir stór orð í upphafi um að láta hann ekki komast upp með að taka miskunnarlaust á uppreisnarmönnum hefur skort samstöðu um aðgerðir og komið hefur hika á suma.

Þetta nýtir Gaddafi sér til hins ítrasta og stefnir auðvitað að því að vera búinn að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum áður en tekist hafi samstaða um aðgerðir gegn honum sem duga.

Uppreisnarmönnum voru gefnar ákveðnar vonir um utanaðkomandi aðstoð í upphafi en í ljós hefur komið að engin innistæða var á bak við hin stóru orð ýmissa þjóðarleiðtoga. 

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins hefur rétt fyrir sér þegar hann gagnrýnir að með þessu hafi verið gefin óraunhæf von. 

Sagan geymir ótal dæmi um hliðstæður. Þegar Ítalir réðust inn í Abbesyníu 1935 vantaði ekki fordæmingu þjóðarleiðtoga á athæfinu en máttlausar viðskiptaþvinganir voru það eina sem gert var og breyttu engu. 

Franco gerði uppreisn gegn rétt kjörinni lýðræðisstjórn á Spáni 1936 og gagnrýnisraddir Breta og Frakka reyndust máttlaust gelt.  Hitler og Mussolini voru ófeimnir við að leggja Franco lið og höfðu sigur 1939. 

Mussolini réðst á Albaníu vorið 1939 án þess að Vesturveldin hreyfðu legg né lið og ekkert bitastætt var gert þegar Hitler tók Tékkóslóvakíu í mars sama ár. 

Grimmir harðstjórar hafa jafnan sallað niður andspyrnumenn og murkað úr þeim lifið til þess að vekja skelfingu og óttablandna undirgefni. 

Hitler losaði sig við Röhm og SA-lið hans á "nótt hinna löngu hnífa" 1934, lét myrða íbúa þorpsins Lidice í Tékklandi til að hefna morðs á Heydrich og drepa uppreisnarmenn í ágúst 1944 á hryllilegan hátt.

Stalín losaði sig við milljónir og lét drepa megnið af herforingjum og liðsforingjum Rauða hersins í hreinsununum hræðilegu skömmu fyrir stríð með þeim afleiðingum að Rauði herinn var að miklu leyti höfuðlaus her þegar Hitler réðst á Sovétríkin 22. júní 1941. 

Það var Stalín sem mælti hin fleygu orð: "Dráp á milljónum er bara tala, dráp á einum manni er morð"

Eitthvað í þessa veru mun væntanlega verða í huga Gaddafis þegar hann gengur á milli bols og höfuðs á öllum þeim sem hatursæði hans mun beinast gegn. 


mbl.is Sveitir Gaddafis „hreinsa landið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmrar hálfrar aldar þýsk hefð.

Þjóðverjar gáfu ákveðinn tón á HM í knattspyrnu 1954 um það að tapa ekki tveimur leikjum í röð gegn sama landsliðinu og þeirri hefð var við haldið í Halle í dag .

1954 var ungverska landslið það langbesta í heiminum og hafði meðal annars burstað Englendinga á Webley 7:3 og var þó eitt mark dæmt ranglega af Ungverjum vegna þess að sókn þeirra var svo hröð að dómarinn áttaði sig ekki ! 

Þjóðverjar og Ungverjar drógust saman í riðil og Ungverjar völtuðu yfir Þjóðverja 6:3. Á þessum tíma gat það gerst að lið lentu tvisvar móti hvort öðru og Ungverjar léku til úrslita við Þjóðverja. 

Þá brá svo við að Þjóðverjar unnu með eins marks mun og frumsýndu þar með þýsku seigluna að gefast helst aldrei upp og að ekki sé til umræðu að tapa tvisvar fyrir sama mótherja í áríðandi leik í stórmóti. 

Það er eins og þetta sé sálrænt, ekki bara hjá Þjóðverjum, heldur líka mótherjum þeirra sem virðast orðnir vanir þessu. 

Það er sjaldgæft að Guðmundur þjálfari taki jafn snemma fyrsta leikhlé í svona leik en það varð hann að gera því að íslenska liðið var gersamlega heillum horfið.

En allt kom fyrir ekki og það var ekki vonum fyrr að flautað var til leiksloka áður en markamunurinn yrði enn meiri.

Og þá er bara að taka því, bíta á jaxlinn og segja: Það gengur betur næst! 


mbl.is Ellefu marka skellur í Halle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að læra af síðari hálfleiknum.

Íslenska handboltalandsliðið lærði af tapleiknum sára gegn Þjóðverjum á HM og það skilaði sér hér heima í frábærum fyrri hálfleik gegn Þjóðverjum.

Síðari hálfleikurinn var ekki eins góður og við töpuðum honum því að Þjóðverjar lærðu sína lexíu af óförunum í fyrri hálfleik. 

Kannski á það eftir að reynast dýrkeypt síðar að geta ekki haldið hinum mikla markamun en eitt er þó jákvætt við þetta. 

Það er það að nú getum við krufið það til mergjar hvað fór úrskeiðis í síðari hálfleiknum og nýtt okkur þá reynslu í síðari leiknum á sunnudag.  Ef það verður gert var tapið í síðari hálfleiknum hér heima ekki til einskis og jafnvel hið besta mál.

 

P. S. Ég hripaði þennan pistil niður í fyrradag en lenti síðan út úr netsamandi uppi í Leirársveit þangað til nú, að þessum hörmulega leik er að ljúka og ljóst að Íslendingar lærðu nánast ekkert og voru heillum horfnir í leiknum.


mbl.is Hef bara góða tilfinningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt orsakasamhengi.

Samhengið í efnahagsmálum heimsins er oft furðulegt. Þegar kaffiverð hækkaði gríðarlega í Brasilíu fyrir þrjátíu árum olli það hærri launum á Íslandi vegna vísitöluhækkunar.

Þegar olíuverð hækkar hér á landi eykur það tekjur ríkissjóðs. 

Og nú er það nöturlegt og raunar agalegt "fagnaðarefni" ef eldsneytisverðið lækkar vegna hræðilegs manntjóns og eyðileggingar í Japan. 

Þetta er svo ferlegt samhengi að maður hikar við að nefna það. 


mbl.is Olíuverð lækkar vegna skjálftans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætt grín en hæpin fullyrðing.

Þegar Muhammad Ali hafði unnið hinn ósigrandi George Foreman í "Rumble in the Jungle" var hann 32ja ára og sagði kokhraustur: Þið sögðuð fyrir bardagann að ég væri búinn að vera og passið þið ykkur að segja það ekki aftur og í fyrsta lagi þegar ég verð fimmtugur.

Ali gaf í skyn að hann myndi endast í 18 ár eftir þetta en þau urðu aðeins sex.

Ég kann vel að meta skemmtileg ummæli þess skautamanns, sem segist bara taka einn áratug í einu og það er ágætt grín út af fyrir sig. 

En jafnvel það að segjast taka einn dag fyrir í einu getur verið tvíbent. 

Þegar einn af vinum mínum var jarðaður eftir að hafa fengið hjartaáfall við morgunverðarborðið og presturinn ætlaði að fara að fara með moldunartextann í kirkjunni fékk einn jarðarfarargesta hjartaáfall og varð að stöðva athöfnina í tíu mínútur meðan sjúkralið kom á vettvang og fór með hann út. 

Þá varð til síðari hluti þessa texta, en hinn hlutinn varð til við næstu jarðarför, þegar annar vinur minn var kvaddur. 

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur,  

líka misjöfn kjör

og í sinni hendi hefur 

happ á tæpri skör. 

Feigðin grimm um  fjörið krefur, 

fátt er oft um svör. 

Enginn veit hver annan grefur. 

Örlög ráða för.

 

Það er vissara að ganga hæfilega hægt um gleðinnar dyr. 

 

 

 

 

 


mbl.is Ég tek bara einn áratug í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakkus gætir jafnræðisreglunnar.

Bakkus konungur er afar jafnréttissinnaður og velur sér hirðmenn af öllum stigum, háa sem lága.

Hann mismunar fólki ekki eftir greindarvísitiölu. Jafnt afburðafólk sem aular eiga jafn greiðan aðgang að því að þjóna þessum mikla konungi eða eigum við að segja kemst ekki hjá því að gerast honum handgengnir og inna af höndum herskylduur sem getur kostað þá lífið.

Tíu prósent núlifandi karlmanna á Íslandi, 15 ára og eldri, hafa gist í höll óvinar Bakkusar á Vogi og líklega gæti annar eins fjöldi staðist inntökupróf þar ef hann vildi viðurkenna að vera háður fíkniefnum. 

Veldi Bakkusar og fíkniefnanna nær langt út fyrir þá sem teljast fíklar því að aðstandendur hvers fíkils eru minnst einn ef ekki fleiri og þurfa að þjóna sem "kóarar" rétt eins og aðstoðarflugmenn indverskra flugstjóra sem fljúga fullir. 

Áhrif neyslunnar ná líka út fyrir fíklana, jafnvel til ófæddra einstaklnga þannig að jafnræðið nær út fyrir ævimörk sumra. 


mbl.is 56 drukknir flugmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostar klof að ríða röftum.

Nær daglega má sjá í fréttum hve athafnasamir menn voru í aðdraganda bankahrunsins "að bjarga verðmætunum" með því að láta peninga streyma sem örast út úr bönkum og fjármálafyrirtækjum til útvalinna gæðinga.

Hvað varð svo um peningana? Í mynd Helga Felixsonar um Hrunið var svarið: "Þeir hurfu bara." 

Samt má sjá að umsvif þeirra sem tengjast þeim hafi síst minnkað. 

Í sjónvarpsviðtali í kvöld var fyrrverandi fjármálaráðherra Breta tíðrætt um þetta fjárútstreymi síðustu viku og daga fyrir hrun og reyndi hann í viðtalinu að útskýra hegðun breskra og íslenskra stjórnvalda þessa örlagaríku daga.

Fjárútstreymið til hinna útvöldu var nauðsynlegt til að viðhalda lífsstíl þeirra og lúxusi, sem enn er í fullum blóma í snekkjum, glæsivillum, veisluhöldum og umsvifum. 

Slæm truflun varð á þessu varðandi veisluna góðu í snekkjunni í lúxusstaðnum Cannes í Frakklandi en um það má segja hið fornkveðna, að "það kostar klof að ríða röftum." 


mbl.is Mættu ekki í veisluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið hljóðláta starf.

Margoft hefur það komið í ljós að þegar við reynum að meta varðveislugildi menningarverðmæta og hluta skjátlast okkur í vali okkar.

Einkum vill það  brenna við að hið hversdagslega, algenga og það, sem snertir tilveru barna, unglinga og alþýðu, vill gleymast og fara forgörðum.

Við geymum vandlega höfðinglega torfbæi en höfðum rústað litlu torfbæjunum sem meginþorri þjóðarinnar bjó í um aldir. 

Ágætir brautryðjendur í kvikmyndagerð voru iðnir við að taka myndir af gömlum búskaparháttum þegar þeir voru að leggjast af fyrir 60-70 árum og sömuleiðis er til mikið af myndum af skrúðgöngum, glímusýningum, ræðuhöldum og öðru slíku, sem var haft í frammi á hátíðum, en að sama skapi lítið af venjulegu lífi fólks á mesta breytingatímanum á árunum 1940-1965. 

Una Margrét Jónsdóttir hefur unnið næsta hljóðlátt starf við að bjarga menningarverðmætum sem annars hefðu glatast að miklu leyti og snerta börn og ungviði.

Þess vegna samgleðst ég henni þegar hún fær verðskuldaða viðurkenningu Hagþenkis fyrir framúrskarandi verk sín á þessu sviði. 

Á tíma tölvuleikjanna verður að hafa í huga, að þeir eru algerlega háðir því að tölvur, rafmagn og tölvugögn séu notuð. 

Hinir gömlu söngvaleikir og aðrir leikir og menning barna voru hins vegar ekki háðir neinu slíku og því hægt að iðka þá nánast hvar sem var. 

Hvað sem tækninni líður er gott að vera minnugur þess, að hún getur brugðist og þá er ekki gott að hafa drepið í dróma ímyndunarafl og sköpunargáfu, sem þarf ekki á flókinni og dýrri tækni að halda.


mbl.is Una Margrét verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ýmsu að huga varðandi hugsanlegt einelti.

Allir þekkja fyrirbrigðið einelti sem hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Maður man eftir því hvernig sumir krakkarnir urðu fyrir einelti í skóla og einnig því að eineltið gat verið í báðar áttir, þ.e., dæmi um það einstaka kennarar lögðu vissa nemendur í einelti eða að nemendur lögðu kennara í einelti.

Viðurnefni gátu stundum verið meinfýsin og þau voru mun algengari hér í gamla daga en nú er. 

Af þeim ástæðum hættu foreldrar mínir við það að láta mig heita Ólaf, eins og til stóð, í höfuðið á ömmu mínni sem hét Ólöf. 

Enginn átti von á því að snáðinn yrði með eldrautt og mikið hár, því að rautt hár var ekki að finna nema hjá einni hálfsystur annars afa míns og syni hennar, Bjarna Jónssyni listmálara.

Foreldrar mínir þorðu ekki að taka áhættuna af því að ég fengi viðurnefnið "rauði", það er "Óli rauði" og því gáfu þau mér nafnið Ómar, sem var raunar afarsjaldgæft á þeim tíma, en fyrir bragðið nógu sérstakt til þess að ekki þyrfti að aðgreina mig frá fjölmörgum öðrum strákum sem hétu sama nafni og ég því að klína viðurnefninu "rauði" við mig.  

Óttinn við einelti er einn af drifkröftum hjarðhugsunar sem er afar varasamt fyrirbæri og hefur leitt til margvíslegra vandræða, sem sum hver hafa verið hrikalegir bölvaldar í sögu þjóða og mannkynsins. 


mbl.is Obama varð fyrir einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar minningar um geimferðir.

Áður en Bjarni Tryggvason fór með geimferju út í geiminn frá Kanaveralhöfða fékk forseti Íslands að skoða aðra ferju að innan sem utan. Ég tók myndir af athöfn á undan og síðan af geimskotinu sjálfu á besta stað, af svölum forstjóra NASA í fylgd með forsetanum. 

Í þessu ferðalagi kom vel í ljós sú sérstaða sem þjóðhöfðingjar landa njóta og hvernig þeir geta nýtt hana í smáu og stóru fyrir þjóðir sínar.

Þjóðverjar og Japanir stóðu að geimskotinu ásamt Bandaríkjamönnum, en á hátíðarsamkomunni á undan geimskotinu fékk forsetinn alla athyglina og sérstaka fyrirgreiðslu. 

Alveg var bannað að fjölmiðlar ræddu við aðstandendur geimfaranna, en Ólafur Ragnar gerði mig þá bara að sérstökum "hirðljósmyndara" og kvikmyndatökumanni embættis síns, svo að ég fékk að taka upp einkaviðtal hans við forstjóra NASA og fylgja honum til viðtals við börn Bjarna Tryggvasonar. 

Forsetinn gerði sér lítið fyrir og gerðist starfsmaður Sjónvarpsins með því að taka sjálfur sjónvarpsviðtal við börnin sem síðan var auðvitað sýnt hér heima. 

Það var ævintýri að fá að fara inn í geimferjuna og setja sig í spor geimfaranna með forsetahjónunum. 

Þjóðhöfðingjar okkar hafa gert mikið gagn undanfarna áratugi á erlendri grund. 

Allir muna glæsileik og töfra Vigdísar Finnbogadóttur, fyrstu konunnar sem kjörin var þjóðhöfðingi í heiminum, og Ólafur Ragnar hefur á sinn hátt hrifið marga á erlendri grund með sínum glæsileik og færni.

Engar kvikmyndir geta lýst því að vera í návígi við geimferju, sem er skotið á loft. Sterkasta upplifunin er hávaðinn og titringurinn þegar jafnvel hin rammbyggðustu hús nötra við að kraftur eldflauganna leysist úr læðingi. 


mbl.is Discovery sest í helgan stein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband