Mörgum að verða mál.

dscf0644.jpgHugsanlega verða allt að tuttugu eldgos á fyrstu sextíu árum þessarar aldar eða fimmfalt fleiri en fyrstu 60 ár síðustu aldar.

Frá því sumarið 2007 hefur kvika verið að færast neðan af 17 kílómetra dýpi við Upptyppinga upp í tveggja kílómetra dýpi milli brúarinnar á Kreppu og Herðubreiðar. 

Ef þarna kemur upp kvika myndi verða einna skást að fá hana upp í gegnum Álftadalsdyngju fyrir austan Kreppubrú.

Álftadalsdyngja er hægra megin á þessari mynd, en Upptyppingar rétt vinstra megin við Herðubreið, sem er fjærst. Áin Kreppa er framundan en Krepputunga er vinstra megin (vestan) við hana, á milli Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Fagridalur er næst okkur hægra megin. Hægt er að stækka myndina með því að smella tvisvar á hana.

Álftadalsdyngja er mjög víðáttumikil og nokkurra ára rólegt dyngjugos þar yrði "ákaflega túristavænt", myndi sjást víða að og ekki skemma hið stórkostlega landslag í Krepputungu suður af brúnni eða ógna Sönghofsdal nyrst í tungunni. 

Það er kominn tími á Heklu og búast má við meiri umbrotum á svæðinu Grímsvötn-Gjálp á næstu árum en var lengi vel á 20. öld. 

Allir vita um Kötlu. Vonandi verður frekari gosórói í Eyjafjallajökli á borð við gosin 1821 minni en verið hefur.  Allt í lagi að þar komi upp smá hraungos eins og voru á Fimmvörðuhálsi. 

Annars ráðum við engu um þetta frekar en fyrri daginn, - verðum að vera betur viðbúin hinu versta og vona það besta. 


mbl.is Jörð skelfur við Kistufell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskýr fyrirsögn.

"Gígur í sigkatlinum stækkað."

Svona segir enginn og þess vegna held ég að ofangreind fyrirsögn dæmist vera bull.

Það má vera að vegna þess að það er einu stuttu orði lengra að segja "gígur í sigkatlinum hefur stækkað" geti einhverjum fundist það nauðsynlegt að sleppa orðinu hefur.

Hins vegar myndi enginn, sem spurður væri: "Hafa orðið breytingar í sigkatlinum?" svara því með því að segja: Gígur í sigkatlinum stækkað." 

Þetta er ekki einu sinni mælt mál heldur eitthvert lítt skiljanlegt óþol blaðamannsins. 

Ef hann hefði endilega talið það bráðnauðsynlegt að fyrirsögnin væri aðeins fjögur orð hefði hann getað haft fyrirsögnina svona: "Stækkandi gígur í sigkatlinum." 


mbl.is Gígur í sigkatlinum stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni truflun og meiri möguleikar á Íslandi.

Heyra má í fjölmiðlum dómsdagsspár um hrun ferðaþjónustunnar vegna hamfara í íslenskri náttúru. Útlendingar muni kjósa að fljúga til annarra landa en Íslands vegna þess hvernig íslenskt eldfjall leikur flugið.

Enn sem komið er hefur eldfjallið þó valdið miklu langvinnari og meiri röskun á flugi í öðrum Evrópulöndum en Íslandi. Millilandaflug okkar hefur til dæmis aldrei fallið með öllu niður. 

Talað er um að bandarískar ferðaskrifstofur muni beina ferðamönnum þaðan til Suður-Evrópu næsta sumar. 

Er þó vitað að Barcelona-liðið varð að ferðast 1000 kílómetra til þess að leika við Inter á Ítalíu og fór þangað meðfram suðurströnd Evrópu.

Við Íslendingar virðumst eiga erfitt með að komast út úr þeim förum að vilja ráða því eftir hverju útlendingar sækist hér á landi og selja Ísland sem land með "póstkortaveðri", logni, heiðríkju og steikjandi hita. 

Á meðan lokka Írar hundruð þúsunda ferðamanna frá hinum heitu löndum Suður-Evrópu til þess að koma á vesturströnd Írlands og upplifa suðvestanrok og rigningu, sem hefur sviðið trjágróður á ströndinni svo mjög með saltrokinu, að trén eru lauflaus sjávarmegin. 

Okkur Íslendingum virðist um megn að tileinka okkur það meginlögmál viðskipta að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og að það eigi að sækjast eftir því að selja honum það sem hann vill kaupa frekar en það sem við viljum kaupa. 

Sá markhópur í ferðamennsku, sem stækkar örast, er hópurinn sem sækist eftir upplifun, - hópurinn sem varð grundvöllurinn að veldi Lonely Planet,"raunveruleika"-sjónvarpsþátta og "survival-challenge" -upplifuninni.

Einstæð náttúra Íslands er og verður með mesta aðdráttaraflið, hvort sem hún fer hamförum eða ekki. 

Við getum selt "The greatest show on earth". Um þá sýningu gildir, að í stað þess að vilja rjúka upp á sviðið og breyta hinu stórkostlega sjónarspii rétt eins og rokið sé upp á svið til að breyta sýningu á leikriti Shakespeares eða grískum harmleik, liggja möguleikarnir þvert á móti í því að snilldarsýning náttúrunnar verði notuð sem aðal aðdráttarafið. 

Vettvangur Heimaeyjargoss, gosanna núna, Skaftárelda, Veiðivatnagosa, Grímsvatnagosa, Skeiðarárhlaupa, Öræfajökulsgossins 1262, Heklugosa og Kötlugosa og "Sköpunar jarðar, - ferða til mars" á Gjástykki-Leirhnjúkssvæðinu, -  öll þessi svæði öðlast nýja möguleika sem aðdráttarafl eftir að Eyjafjallajökull hefur minnt á tilveru sína og þeirra.

Í stað þess að fara í baklás og harma að svona atburðir eigi sér stað skapa þeir þvert á móti ný sóknarfæri um allt land, sé rétt að málum staðið.   

 

Okkur


mbl.is Keflavíkurflugvöllur opnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, brautryðjandi!

Sigrún Helgadóttir er vel að náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti komin. Sigrún varð fyrst Íslendinga til þess að ferðast gagngert um þjóðgarða erlendis til þess að kynna sér ofan í kjölinn þau lögmál og kröfur sem þjóðgarðarnir byggjast á.

Þetta var eitthvert mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga, en að sama skapi vanrækt af okkur. 

Á þeim tíma hafði enginn þjóðgarðsvörður á Íslandi kynnt sér þjóðgarða erlendis, ótrúlegt en satt, og séra Heimir Steinsson varð fyrstur þeirra til þess að gera það fyrir atbeina Steingríms Hermannssonar, sem þá var forsætisráðherra. 

Sjálfur hafði Steingrímur ferðast víða á árum sínum vestra og komið í öll ríki Bandaríkjanna nema Alaska. Sigrún starfaði hér heima um hríð í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur en á þeim tíma voru þau sjónarmið sem hún hafði kynnt sér erlendis í litlum metum hér. 

Við Steingrímur töluðum við oft um það síðustu árin að gaman væri að fara til Alaska saman, en af því varð þó aldrei.

Séra Heimir varð að vísu að láta sér Yellowstone nægja en Sigrún hafði þá skoðað marga þjóðgarða vestra.

Reynsluna frá Yellowstone var hægt að nýta á Þingvöllum til að koma í veg fyrir frekari spjöll af völdum umferðar fólks þar. 

Árið 1998 uppgötvaði ég það að þrátt fyrir að einbeita mér að umfjöllun um umhverfismál í sjónvarpi í áraraðir og ferðalög gangandi, hjólandi, ríðandi, akandi og fljúgandi um allt land, var ég ekki aðeins heimskur í upphaflegri merkingu þess orðs (maður, sem er alltaf heima hjá sér og miðar allt við það), heldur fjallheimskur. 

Þegar ég þurfti á leiðbeiningu að halda til að vita hvað nýttist best til að skoða og kvikmynda erlendis var Sigrún Helgadóttir eina manneskjan hér á landi sem bjó yfir þekkingu til að leiðbeina mér. 

Ráð hennar reyndust mér ómetanleg. Sigrún Helgadóttir hefur á hljóðlátan hátt varið lífi sínu til að ryðja mikilvægum sjónarmiðum og þekkingu á náttúruverndarmálum og nýtingu lands braut á Íslandi.

Kynslóðir framtíðar munu þakka störf hennar meira en margra annarra, sem meiri athygli hljóta á okkar tímum. 

 

 


mbl.is Ráðherra afhenti umhverfisverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökull á gluggunum.

Margt var það árið 2007 sem ekki fékkst rætt af því að það var óþægilegt og passaði ekki inn í þá draumamynd, sem enginn lýsti betur en fjármálaráðherra Íslands í apríl 2008 með fleygum orðum: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!" p1011464.jpg

Meðal þess var möguleikinn á flughruni sem auðvitað fékkst ekki ræddur frekar en möguleikinn á efnahagshruni. 

Nú er hægt að sjá hér í Reykjavík öskuna úr Eyjafjallajökli á gluggum, sem hún hefur fallið á en síðan skilist í sundur í litla flekki eða depla við það að rigningardropar hafa fallið á hana á eftir og rúðan þornað í kjölfar þess. p1011465_984890.jpg

Það er ekki auðvelt að ná ljósmyndum af þessu en ég læt tvær flakka hér sem teknar eru út um eldhúsgluggann.

Það er einkum þar sem rúðuna ber við dökka fleti, svo sem við hurðir, plan og bíla fyrir utan að þetta sést nokkuð vel. p1011466.jpg

Neðsta myndin er með fókus á rúðunni sjálfri og allt verður óskýrt sem fjær er vegna öskudeplanna á rúðunni. 


mbl.is Varað við gjóskunni 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörk mannlegrar getu.

Gosið í Eyjafjallajökli og fleiri fyrirbrigði í náttúrunni minna okkur á að mannlegri getu eru takmörk sett. 

Ég hef einu sinni fengið að "taka í" Boeing 747 þegar hún var án farþega á leiðinni frá Bretlandi til Íslands. boeing-747-8.jpg

Í hátt í 40 þúsund feta hæð voru flugeiginleikar vélarinnar gerólíkir því sem er á litlum flugvélum niðri við jörðu. Ég fann vanmátt minn til að ráða við vélina. 

Þegar ég kenndi flug árið 1969 fór ég einu sinni með einn af reyndustu flugstjórum landsins í flug á Cessna 152, sem hafði tugþúsundir flugtíma að baki á stærstu flugvélum Íslands en hafði ekki snert litla flugvél í áratugi. piper_j3_cub_h.jpg

Á aðeins 10 mínútum tókst þessum flugstjóra að gera fleiri og afdrifaríkari mistök en tugir byrjenda minna til samans.

Hann missti vélina inn í ofris og niður í byrjun á "dauða-gormdýfu" þar sem honum tókst að koma hreyflinum langt yfir leyfileg mörk snúningshraða.

Allt þetta gerði hann vegna þess að hann ofmat getu sína stórlega.  

En víkjum aftur að háloftaflugi.

Vegna þess hve loftið er þunnt er hraðasviðið miklu þrengra í þessari hæð og því ekkert sældarbrauð að ráða við svona flykki í mikilli ókyrrð.

Þarna uppi geta geysað ósýnilegir þotuvindar eða "jet streams" sem eru ógnarhraðir og geta leitt þá, sem ekki ugga að sér ínn í ofboðslega ókyrrð sem gengur undir heitinu "CAT" sem er skammstöfun fyrir clear air turbulence. Ég get vel ímyndað mér að það sé ekki hægðarleikur að ráða við stóra þotu við slíkar aðstæður.

Fyrir mörgum árum var ákaflega vönduð og ítarleg umfjöllun um ísingu í tímaritinu "Flying".

Ein af niðurstöðunum var sú, að til væru ísingaraðstæður þar sem engu máli skipti hvort verið væri að fljúga Boeing747 með fullkomnustu ratsjám og afísingarbúnaði eða Piper Cub.   

Í slíkum skilyrðum væri allt flug vonlaust.

Aðal sérfræðingurinn sem rætt var við, hafði gert ísingu að sérgrein sinni í fluginu í áratugi og aflað sér meiri þekkingar og reynslu en nokkur annar á því sviði.

Var hann til dæmis einstaklega fundvís á flughæðir á milli ísingarlaga þar sem hægt var að þræða fram hjá verstu ísingarskilyrðunum.  

Eitt sinn þegar lokað var fyrir flug í Klettafjöllunum vegna ísingar tók hann að sér í krafti einstakrar reynslu sinnar að fljúga með áhrifaríkan öldungardeildarþingmann sem þurfti nauðsynlega að komast leiðar sinnar.

Þeir fórust báðir þegar vélin lenti í ísingu sem mesti sérfræðingur heims á sviði flug í ísingu réð ekki við.

Enn ein áminningin um takmörk mannlegrar getu.  


mbl.is 17 slösuðust þegar flugvél féll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög óvenjulegt og lúmskt ryk.

Greint hefur verið frá því að ryk hafi verið yfir viðmiðunamörkum í dag. Ég hef ekið um á opnum bíl síðan í morgun og ekkert ryk hefur sest á hann eins og gerist jafnan þegar svifryk er á götum borgarinnar.

Þetta er alveg nýtt fyrir mig. 

Þegar sól fór að síga seinnipartinn sást vel hve sólarljósið var dauft í rykmistrinu sem liggur hér yfir. 

Það er eins og þetta ryk setjist ekki heldur haldist furðu lengi á lofti. Af þessum sökum er þetta öskuryk ákaflega lúmskt og getur hugsanlega að einhverju leyti smogið í gegnum ýmsar síur frekar en annarskonar ryk. 

Eigendur smáflugvéla höfðu hægt um sig í dag og spöruðu margir flugfáka sína. Flugskólar kusu að setja vélar sínar inn og fljúga þeim ekki heldur bíða og sjá til. 

Ég bendi á afar góðan bloggpistil Haraldar Sigurðssonar um þetta efni í dag. 


mbl.is Flugvél farin til Glasgow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðingar í London. Af hverju ekki hér líka ?

Það er íslenskt eldfjall sem hefur valdið flugþjónustunni búsifjum í mestallri Evópu og nú síðast hér heima. p1011435_984504.jpg

Aðgerðum vegna öskufalls úr Eyjafjallajökli stjórna sérfræðingar sem eru í London og grúfa sig þar yfir tölvur og vinna meðal annars úr gögnum úr tveimur rannssóknarflugvélum sem sendar eru á loft með afar háþróuð og dýr mælitæki til að mæla öskumagnið í lofti og afla annarra gagna. 

Ég hef verið að velta vöngum yfir því hvort ekki sé tímabært og raunar liggi á því að við Íslendingar athugum sjálfir hvort hægt sé á einfaldari og ódýrari hátt að afla gagna um öskuna á heimavelli, ef svo má segja og leggja þar með bæði okkur sjálfum og alþjóðasamfélaginu til þekkingu á þessu sviði á meðan eldfjallið gýs. 

Ég veit að innan íslenska kerfisins hefur svipað verið íhugað. Það liggur hins vegar á að gera þetta á meðan aska kemur enn úr fjallinu og öll ný þekking núna gæti orðið dýrmæt síðar. 

Við eigum góða sérfræðinga á þessu sviði í háskólasamfélaginu og þetta verkefni gæti orðið dýrmætt fyrir það markmið að hér á landi liggi ævinlega fyrir besta fáanlega þekking á sviði jarðvísinda og náttúrurannsókna. 


mbl.is Geta flogið frá Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutunum snúið við.

Fólk af suðvesturhorninu er áreiðanlega ekki hrifið af því að þurfa að fara fyrst yfir á annað landshorn áður en það flýgur til útlanda.

En með því að gera þetta getur það sett sig í spor Akureyringa og annars landsbyggðarfólks, sem þarf að að jafnaði að fara yfir á annað landshorn og út á ysta útskaga þess í suðvestri til að komast til útlanda. 


mbl.is Annríki á Akureyrarflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmni þotuhreyflanna.

Ekkert eitt atriði hefur haft jafn mikil áhrif á flug og afl hreyflanna á síðustu öld. Þess vegna komst vél Wright-bræðra ekki lengra eða hærra í fyrsta fluginu.

Allt fram á sjötta áratuginn voru vélar almennt knúnar bulluhreyflum sem voru sömu gerðar og bílhreyflar og gengu fyrir bensíni.  Og flestar litlar flugvélar nútímans, svo sem þær sem eru á meðfylgjandi mynd og ég nota mest, eru knúnar slíkum hreyflum.dscf0704_983995.jpg

Einnig bílarnir, sem við notum í dag, svo sem sá gamli sem ég ætla á austur á Selfoss í dag til að hafa til þar til taks og til að sækja flugvél, sem ég flýg síðan til Reykjavíkur. 

Og í Reykjavík mun ég nota annan gamlan til að snattast um.  dscf0007.jpg

Stærð flugvéla markaðist eingöngu af afli þeirra og stærsta almenna farþegavélin í lok bensínhreyflaaldarinnar í flugi var DC-7B, sem gat aðeins borið fimmtung þess sem stærstu þotur gera nú, flogið helmingi hægar og mun lægra en þær. 

Stærstu bulluhreyflrnir skiluðu 3400 hestöflum hver. Nú skila stærstu þotuhreyflarnir u. þ. b. 40 þúsund hestöflum eða meira en tífalt meira afli. 

Messerschmitt 262 komst í gagnið síðasta ár heimsstyrjaldarinnar og hafði yfirburði yfir vélar bandamanna, svo sem Mustang-vélina. 

Þetta byggðist á þeim eiginleika þotuhreyflanna að soga óhemju magn af lofti á miklum hraða inn í brunahólfið og spýta síðan sjóðheitu loftinu út um hann að aftanverðu. Þessi "knýr" eins og það heitir á tæknimáli, knúði flugvélina og ekki þurfti loftskrúfu til þess. p1010087_983997.jpg

Upp úr 1950 komu síðan skrúfuþotur til skjalanna, þar sem þotuhreyflar knúðu skrúfur í stað þess að knýrinn byggðist eingöngu á því að þeyta sjóðheitu lofti aftur úr hreyflinum.

En megin eiginleiki og kostur skrúfuþotuhreyflanna var hinn sami og hjá þotuheyflum, að nota kný sjóðheits lofts til að skapa afl, sem var mun meira en hjá bulluhreyflunum.

Flestar íslensku þyrlurnar og flugvélar, sem eru notaðar í innalandsflugi, eru knúnar skrúfuþotuhreyflum.

Þess vegna verður að fella flug þeirra niður ef öskumettað loft er á flugleið þeirra. Stærsti kostur þeirra, sem er það hve mikið magn af lofti þær geta sogið inn í í sig. En þetta er jafnframt helsti veikleiki þeirra ef loftið er ekki hreint. 

dscf0704.jpg

p1010087.jpg


mbl.is Farþegaþotur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband