Erlendir snillingar auðga tónlistarlífið.

imgp0320.jpg

Ég var að koma úr ferðalagi til Borgarness, Blönduóss, Sauðárkróks og Varmahlíðar. Á Blönduósi voru hljómleikar fjögurra kóra, - þar af voru þrír úr Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. 

Þessum þremur kórum ég hef kynnst áður og þeir stóðu sig vel að vanda. En gestakórinn Sálubót úr Þingeyjarsýslu kom mér verulega á óvart og má segja að hann hafi verið einskonar senuþjófur á þessum tónleikum, einkum stjórnandinn, Jaan Alavere. 

Sjá má hann og hluta af kórnum á mynd hér til hliðar, sem því miður er dálítið óskýr. 

Ég minnist þess ekki að hafa kynnst viðlíka frammistöðu stjórnanda á tónleikum, einkum vegna þess að ásamt frábærum töktum í að stjórna kórnum, spilaði hann undir á píanó á meðan á einstæðan hátt, að ekki sé minnst á flettingar hans á nótunum á meðan.

Flutningur lagsins Arrivederci Roma varð fyrir bragðið mjög eftirminnilegur og ógleymanlegur.

Nú starfa að minnsta kosti þrír erlendir snillingar í tónlistarlífinu í Norðausturlandi.

Einum þeirra, Valmari Valjaots, kynntist ég þegar hann annaðist tvívegis hjá mér undirleik á skemmtunum á Akureyri og í Hrísey og gerði það á svo eftirminnilegan hátt að af því hef ég sögu að segja sem því miður yrði of langt mál að segja hér á blogginu. 

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna slíkt afburðafólk flyst til Íslands og hvers vegna það flyst út á land í stað þess að búa í Reykjavík.

Á Þjóðahátíð fyrir vestan útskýrði Einar K. Guðfinnsson það með því að vitna í einn af afburða tónlistarmönnum, sem hafði flust vestur.

Þessi erlendi snillingur sagði: "Þegar maður flytur frá margra milljóna manna borg í Mið-Evrópu út á eyjuna Ísland sem liggur langt frá öðrum löndum, skiptir ekki máli hvort smábærinn, sem maður flyst til, heitir Reykjavík eða Ísafjörður." 

Um miðja síðustu öld voru margir helstu burðarásar íslensks tónlistarlífs aðfluttir útlendingar svo sem Franz Mixa, Victor Urbancic, Róbert Abraham Ottóson, Jan Moravec, Carl Billich og Jose M. Riba. 

Án slíks fólks hefði íslenskt menningarlíf orðið stórum fátækara og þetta á við enn í dag. 


Flaggskipið að koma úr kafi ?

Það hefur mátt líkja Frjálslynda flokknum við lest sex skipa. Í fyrstu kosningunum 1999 náði flokkurinn ekki 5% markinu, en flaggskip Guðjóns Arnars komst í höfn og dró næstöflugasta skipið í Reykjavík inn á þing með sér. Hin skipin sukku.

2007 var nýr skipstjóri á skipi flokksins í Reykjavík suður og seigur skipstjóri var í Suðurkjördæmi og þessi skip komust inn auk flaggskipsins, sem flutti tvo menn á þing. 

Síðustu mánuði hefur litið út fyrir að skipalest hins fyrrum togaraskipstjóra væri öll sokkin, þótt segja mætti að flaggskipið maraði í hálfu kafi. 

Guðjón Arnar átti ekki annars úrkosti en að taka áhættuna af því að láta Capacent Gallup gera sérstaka skoðanakönnun fyrir sig í stað þess að horfa upp á það ástand sem hefur blasið við í öllum skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Þetta var síðasta vonin. 

Hann hafði ekki lengur neinu að tapa með því að láta skeika að sköpuðu núna.   

Guðjón Arnar er ólíkindatól sem enginn skyldi vanmeta. Harka og dugnaður hins fyrrum aflaskipstjóra er gríðarleg. Skipstjórinn í Reykjavík suður stökk frá borði og ætlaði yfir í stærra skip en komst aldrei um borð. Hver höndin upp á móti annarri á flotanum. 

Nú gæti það hins vegar gerst að Guðjóni Arnari takist enn og aftur að toppa á réttum tíma síðustu dagana fyrir kosningar. Það mun varla duga til að ná neinu hinna skipa hans upp úr kafinu en hins vegar verða til þess að enn og aftur nái hörkutólið á flaggskipinu að sigla því í höfn. 

Þetta verða líklega mjög spennandi kosningar í Norðvesturkjördæmi. Svo kann að fara að sagan frá 1999 endurtaki sig og að staðan verði svipuð núna og hún var fyrir tíu árum hvað snertir Frjálslynda flokkinn, sem þá yrði á ný kominn á byrjunarreit.  


mbl.is Frjálslyndir með 9,3% í NV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur útvega sönginn í NV-kjördæmi.

Í dag fór ég í Borgarnes, á Sauðárkrók og síðan á vel sótta tónleika fjögurra kóra á Blönduósi. Þar mátti sjá frambjóðendur á ferð meðal áheyrenda, til dæmis þá Jón Bjarnason, Guðbjart Hannesson og Einar K. Guðfinnsson. Þetta er líklega áhrifaríkasti vettvangur frambjóðenda þessa síðustu viku fyrir kosningar, en nú er einmitt tími tónleika hinna ýmsu kóra þar sem sett er fram uppskera vetrarins. 

Á öðrum fundum frambjóðenda með stuðningsmönnum í flokkum þeirra er mun færra fólk, en þau tengsl verða frambjóðendur þó að rækta, vegna þess að á þessa fundi koma dyggustu stuðningsmennirnir og þeir sem vinna mest fyrir flokkana. 

Hljómleikarnir á Blönduósi voru afar gefandi tónleikar á alla lund sem tóku öllum brekkusöng fram. Sjálfur kom ég aðeins við sögu á fundum Guðbjarts í Borgarnesi og á Sauðárkróki og var þar hafður söngur um hönd án gítars.

Ætla að blogga nánar um hljómleikana á Blönduósi þegar ég kem suður og setja inn myndir af þeim, en ég gleymdi græjunum til að setja þær inn fyrir sunnan . 


mbl.is Brekkusöngur fyrir kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfangi í átt að persónukjöri.

Fyrir tveimur árum kom ágætur maður til okkar í Íslandshreyfingunni og hvatti til þess að við byðum fram óraðaða lista í kosningunum þá. Þegar ég fór að glugga nánar í kosningalögin sá ég að þau voru ótrúlega loðin í þessu efni og að röðunin á listunum, sem hér hafði tíðkast allt frá því að listaframboð var tekið upp í Reykjavík fyrir næstum því öld, hafði skapað hefð sem gæti verið túlkuð sem ígildi lagabókastafs.

Til þess að eyða óvissu hefði þurft að breyta kosningalögunum og það var ekki inni í myndinni þá.

Niðurstaða okkar var sú, að glænýtt framboð, sem þyrfti á öllu sínu að halda vegna aðalmáls síns á örstuttum tíma fram að kosningum, myndi taka allt of mikla áhættu með því að leggja út í þetta.

Hætta yrði á að framboðið yrði dæmt ógilt, og sjá má af misvísandi viðbrögðum kjörstjórnanna nú, hve óvíst hefði verið að þetta hefði tekist hjá okkur.

Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að auka beint lýðræði með innleiðingu persónukjörs og lýsti þeirri skoðun á afdráttarlausan hátt í fjölmiðlum í haust.

Úrskurður landskjörstjórnar er lítill en mikilvægur áfangi á leið til að auka beint lýðræði og er það vel.


mbl.is Framboð P-lista úrskurðað gilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samræmi við 80 ára sögu.

Engum hefði þurft að koma á óvart hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur "gengið hreint til verks" og komið í veg fyrir nauðsynlegar lýðræðisumbætur á þingi. Öll saga flokksins frá upphafi ber þess merki að þá aðeins að flokkurinn hafi sjálfur hagnast á stjórnlagabreytingum hefur hann staðið að þeim.

Í kosningunum 1931 fékk flokkurinn 48% prósent atkvæða en samt munaði aðeins hársbreidd að Framsóknarflokkurinn feng starfhæfan meirihluta á þingi. Í framhaldi af því efndi Sjálfstæðisflokkurinn þrívegis til bandalags við aðra andstæðinga Framsóknarflokksins um breytingar á kjördæmaskipan og fjölda þingmanna í kjördæmum.

1942 voru tvennar kosningar út af þessu og þá töluðu Sjálfstæðismenn ekki um sátt á þingi, heldur keyrðu tímabærar breytingar fram gegn harðri andstöðu Framsóknarflokksins.

1956 stefndi svonefnt "Hræðslubandalag" Framsóknarflokks og Alþýðuflokks að því að fá meirihluta þingmanna út á mikinn minnihluta atkvæða en mistókst.

Sjálfstæðismenn sáu að þeir gátu fengið þingmeirihluta með Alþýðuflokki ef þingfylgi væri í samræmi við kjörfylgi og að hætta var á að andstæðingarnir gætu spilað aftur á ranglátt fyrirkomulag og staðið Sjálfstæðisflokknum fyrir þrifum.

Þeir efndu því enn og aftur til bandalags gegn Framsóknarflokknum og knúðu fram gjörbreytta kjördæmaskipan í tvennum kosningum 1959. Ekkert sáttahljóð að heyra hjá Sjálfstæðismönnum þá.

Nýja kjördæmaskipanin opnaði þá óskastöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem ríkt hefur æ síðan, að geta einir allra flokka myndað tveggja flokka stjórn með einhverjum andstæðingi og "farið með stelpu heim af ballinu" svo að notuð sé samliking Geirs H. Haarde.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú í samræmi við kjörorðið frá landsfundi sínum, "göngum hreint til verks" afhjúpað gamalkunna stefnu sína: Flokkurinn fyrst, síðan þjóðin.

Og látið mismæli frá fundinum verða að sannmæli: "Það verður að tryggja að auðlindirnar séu í eigu Sjálfstæðisflokksins."


mbl.is Ofbeldi og skemmdarverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn til baka yfir til Sjálfstæðis og Framsóknar.

Fyrir kosningarnar 2007 var birt svipuð úrvinnsla og núna um flæði milli flokka viku fyrir kosningar. Þá kom í ljós að stærsti hópurinn sem ætlaði að kjósa Íslandshreyfinguna, kom úr Sjálfstæðisflokknum og enda þótt margir kæmu einnig frá hinum flokkunum, náðist það markmið framboðsins að gefa þeim, sem voru áður fylgjendur þáverandi stóriðjustjórnarflokka en ósáttir við stefnu þeirra í stóriðju- og virkjanamálum, kost á því að kjósa grænt framboð á miðjunni.

Þar með veiklaðist stóriðjustjórnin svo mjóg að hún treysti sér ekki til að halda áfram.

Athyglisvert er að sjá að núna fer ekkert af þessu fólki aftur til baka, heldur yfir á vinstri flokkana og Borgarahreyfinguna. Straumurinn liggur bara í eina átt, frá gömlu slímsetu stóriðjuflokkunum.

Einnig má sjá að ef Íslandshreyfingin hefði boðið fram ein og sér núna, hefði hún verið að bítast við Borgarahreyfinguna um ákveðinn hóp fólks og það orðið báðum framboðunum til trafala í viðleitni þeirra til að komast yfir 5% atkvæðaþröskuldinn.


mbl.is Fylgið flæðir milli flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Bakka ?

 Ég er á ferð hér á norðausturlandi, en ekki er annað að heyra af frásögnum héðan en að rétt eins og á Austurlandi á sínum tíma standi byggð hér og falli með álveri á Bakka, allir hér bíði eftirvæntingarfullir eftir því og aðeins örfáir úrtölumenn maldi í móinn.  

Skrýtið að heyra um mikið fylgi Steingríms J. hér í skoðanakönnunum í þessu ljósi.

Hvað um það, ég var að koma úr ferð um fyrirhugað virkjanasvæði vegna álvers á Bakka. Veðrið var frá frábært þegar við Friðþjófur Helgason, kvikmyndatökumaður og Helgi, sonur hans, fórum fyrst með Stefáni Gunnarssyni frá Kröflu norður í Gjástykki og til baka.

Öræfakyrrðin hefur þegar verið rofin á öllu svæðinu. Hávaðinn í borholunum á Þeystareykjum heyrist í 15 kílómetra fjarlægð langeiðina að Leirhnjúki og blandast þar við hávaðann af borholum við Kröflu.

Við komum að sunnan akandi í gærkvöldi á tveimur jöklajeppum og fórum á þeim norður að Þeystareykjum og að Stóra-Víti og Litla-Víti.

'Eg slæ þetta blogg inn hér í Reynihlíð en er nú á leið suður eftir vel heppnaðan kvikmyndatökudag.

Sýni ljómyndir úr ferðinni þegar ég kem suður.


mbl.is VG stærst í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfri öld á eftir öðrum landshlutum.

Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum varðandi samgöngur. Þetta er eini fjórðungurinn sem ekki hefur aðalflugvöll sem getur verið opinn allan sólarhringinn. Eini fjórðungurinn með engan alþjóðlegan flugvöll.

Afleiðingin er sú að í skammdeginu er aðeins fært til að fljúga nokkra klukkutíma á dag til Ísafjarðar og oft falla niður nokkrir dagar í röð sem ekkert er hægt að fljúga.

Vestfirðir eru eini fjórðungurinn þar sem ófært er landleið mikinnn tíma árs á milli helstu byggðarkjarna.

Það voru mistök á sínum tíma að leggja heilsársleiðina um Steingrímsfjarðarheiði í stað þess að fara vestar og láta aðalleiðina til Ísafjarðar liggja um innri hluta Breiðafjarðar.

Það hefði kallað á meiri áherslu á endurbætur á leiðinni um Barðaströnd vestur.

Það hefur líka að mínum dómi verið röng forgangsröðun að hafa ekki lokið við að gera jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar mun fyrr sem og heilsársleið um Dynjandisheiði.

Ef heilsársleið væri milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar gæti Patreksfjarðarflugvöllur boðið upp á eina flugvallarstæðið á Vestfjörðum sem hægt væri að nota að næturlagi. Vegabætur myndu tryggja Innan við tveggja tíma akstur þaðan til Ísafjarðar

Af ástæðum, sem mér eru óskiljanlegar, hefur flugbrautin á Patreksfirði verið stytt verulega svo að hún er ekki nothæf fyrir jafnstórar flugvélar og áður var. Hrein afturför.

Allt er á sömu bókina lært. Það er skiljanlegt en jafnframt dapurlegt að grípa eigi til þess örþrifaráðs að hlamma niður risa olíuhreinsistöð á einum af fallegustu stöðum Vestfjarða. Engar slíkar stöðvar hafa verið reistar á Vesturlöndum á síðustu 20 árum vegna þess að enginn vill hafa slík ferlíki nálægt sér.

Ef olíuhreinsistöðina rekur upp á sker má allt eins búast við því að boðið verði upp á stæði vestra fyrir kjarnorkuúrgang með svipuðum rökum og nú eru notuð um nauðsyn olíuhreinsistöðvarinnar.


mbl.is Búið að opna Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnhlekkur keðjunnar.

Bubbi Morthens er að tala um einn af hlekkjunum fimm í keðjunni sem hægt er að líkja efnahagslífi þjóðarinnar við og engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Um þetta bloggaði ég fyrr í vetur og hlekkirnir eru þessir: Heimilin-fyrirtækin-bankarnir/fjármálafyrirtækin/sjóðirnir-ríkissjóður-sveitarfélögin.

Ef keðjan á að halda má enginn hlekkurinn bresta, síst af öllu grunnhlekkurinn, heimilin. Þetta er spurningin um jafnvægislist og verður að hafa í huga að ríkissjóður og sveitarsjóðir eru í eigu okkar allra og lífeyris- og fjármögnunarsjóðir auk bankanna eru einnig í almanna eigu nú um stundir.

Þegar rætt er um að koma í veg fyrir að einhver hlekkurinn bresti verður að hafa tvennt í huga: Að ekki sé lakar hugsað um viðkomandi hlekk, í þessu tilfelli heimilin, heldur en aðra hlekki.

Það er rétt hjá Bubba að svonefndir ofurstyrkir til flokkanna eru smámunir miðað við tugi og hundruð milljarða sem viðfangsefnin núna snúast um. Hann gleymir því hins vegar að hafi verið samband á milli þessara styrkja og stórfyrirtækja, var á þeim vettvangi verið að fara með tugi milljarða króna og í REI-málinu var um að ræða spurningar um tugi milljarða í eigu almenning.

Ef ofurstyrkirnir voru aðeins lítill ístoppur, horfir málið öðruvísi við ef þetta var aðeins toppurinn á risavöxnum ísjaka sem undir var.


mbl.is Bubbi er sleginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið er gallagripur.

"Lýðræðið er hræðilegur gallagripur en það hefur ekki fundist neitt skárra" var einu sinni sagt,
Ef á annað borð á að sjá hvað býðst í samningum við ESB liggur beinast við að sækja um aðild og bera síðan árangur samninganna undir þjóðaratkvæði.

En staðan hefur verið þannig að málið er í pattstöðu, truflar önnur mál flokkanna og samskipti þeirra og heldur þeim í gíslingu. Einhvern tíma verður að taka af skarið.

Ef eina leiðin út úr þessu ástandi er sú að taka málið út úr flokkafarveginum með því að þjóðin ákveði beint hvort ganga eigi til aðildarviðræðna til að sjá hvað kemur út úr þeim er það skárri kostur heldur en að sigla áfram í núverandi ástandi.

Berum þetta saman við það að hópur fólks sé á ferð á Kanaríeyjum og sjái varning til sölu á sölustað.
Ósætti verður í hópnum um það hvort það sé þess virði að fara inn og skoða verslunarmöguleikana, sem geta kannski falist í því að það verði prúttað eitthvað um einstaka hluti.

Þá liggur beinast við að meirihluti hópsins ráði því hvort farið skuli inn eða ekki. Þegar inn er komið kemur síðan í ljós hvort verðið verði viðunandi.

Þetta geta sem sagt verið tvær ákvarðanir, annars vegar hvort yfirleitt eigi að líta inn í búðina og síðan hvort hægt sé að sætta sig við viðskiptin sem í boði eru.

Það tefur og gerir mál óskýrari að hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-aðild. En ef þessi lausn er skárri heldur en að þetta mál sé endalaust óútkljáð finnst mér liggja beinast við að velja hana.

Við lítum stundum til Noregs sem fyrirmyndar. Og hvað gerðu Norðmenn? Þeir sóttu tvisvar um en í bæði skiptin var norska þjóðin ekki nógu ánægð með samninginn sem fékkst. Og hvað er svona voðalegt að þjóðin taki beint ákvarðanir í þessu stóra máli, jafnvel þótt hún þurfi að gera það tvisvar?


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband