"Slitin og ónýt dekk..."

Ofangreind orð í frétt um fólk, sem er að skipta út vetrardekkjum segja sína sögu um sérkennilega dekkjanotkun margra.

Enn eimir sterklega eftir af þeirri ofurtrú sem margir hafa haft á vetrardekkjum og þá helst negldum.

Ég kalla það ofurtrú að aka að vetri til á svo slitnu vetrardekkjum að þau eru ónýt að vori. Slík dekk gefa verra grip í snjó og hálku en ný sumardekk. 

Sama er að segja um negld og slitin, oft misslitin vetrardekk, sem naglarnir eru flestir farnir úr. Slitin negld vetrardekk gefa verra grip en ný, óslitin og ónegld vetrardekk.


mbl.is Vetrardekkin víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vandlifað á Íslandi.

Einhver mesta framfaraspor í íslenskum samgöngum var stigið árið 2003 þegar rofin var áratuga einokun Flugleiða á flugsamgöngum milli Íslands og annarra landa og til varð samkeppni tveggja flugfélaga á því sviði.

Þetta var þá og er enn að mínum dómi ein merkasta frétt þess árs. Flugferðum til og frá landinu fjölgaði og möguleikarnir sömuleiðis, sem þetta gaf.

Nú vill svo til að bæði Iceland Express og Icelandair koma við sögu á einn eða annan hátt í hrunadansinum sem stiginn var á fjármálabóluárunum.

Íslenska þjóðfélagið er svo lítið að engin leið er fyrir hinn almenna borgara ananð en að eiga viðskipti við fyrirtæki sem tengjast hruninu og gerendunum í því. 

Í sumum tilfellum eru þetta kannski aðeins tvö fyrirtæki í ákveðnum greinum, til dæmis í siglingum og flugi til og frá landinu. 

Flugfélögin og skipafélögin, sem sjá um samgöngur milli Íslands og annarra landa og fjármálahrunið og fárið sem geysaði í kringum þau eru þess eðlis að margir eiga erfitt um þessar mundir að sætta sig við tilvist þeirra og stöðu í samfélagi okkar og / eða við þá sem ráða þar enn miklu.

En meðan þessi staða er svona í okkar litla þjóðfélagi er erfitt við að eiga. Hvar á að draga mörkin á milli þeirra fyrirtækja sem við viljum skipta við og þeirra sem við viljum sniðganga? 

Spurningaþátturinn Útsvar á að vera skemmtiþáttur án leiðinda. Gjörð Vilhjálms Bjarnasonar er hins vegar skiljanleg í ljósi þess að nú eru engir venjulegir tímar. 

Ég held að í fyrir honum hafi ekki vakað sú ósk að Iceland Express eigi ekki tilverurétt og að í staðinn skuli koma gamla einokunarástandið í flugsamgöngum við útlönd heldur það að hann á erfitt með að sætta sig við núverandi eignarhald og áhrif Pálma Haraldssonar þar á bæ. 

Í því ljósi held ég að verði að líta á það að hann afþakkaði gjafabréf frá fyrirtækinu. 


mbl.is Afþakkaði gjafabréf í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Skógaleiðin hættuminni?

Þegar ekið er um Mýrdalsjökul á gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi er farið til vesturs um Goðabungu í áttina til móts við skjálftana, sem "læðast" í austur.

Þessi leið er að því leyti skárri en leiðin frá Skógum upp Fimmvörðuháls, að þegar hlánar verður hún aurug og líkast til aurugri en leiðin upp með Sólheimajökli upp á Mýrdalsjökul og Goðabungu. 

En á móti kemur að sé kvikan að færast beint í austur frá núverandi gosstöðvum gæti gosið nálægt leiðinni úr austri. Greinilegt er að vel þarf að fylgjast með því sem þarna er að gerast til að lágmarka þá hættu, sem nýtt gos gæti valdið. 

Liður í því gæti verið að beina umferð eins og kostur er um Skógaheiði ef virknin heldur áfram að færast í austurátt. 


mbl.is Jarðskjálftar læðast austur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagadagur Íslendinga.

Dönum þykir slæmt hve fáir af yngri kynslóðinni þekkja merkingu 9. apríl 1940. Líklega eru aðeins örfáir þessarar kynslóðar hér á landi sem vita hvaða merkingu þessi dagur hafði fyrir sögu Íslands. 527344b-1.jpg

Hún var einfaldlega sú að þjóðhöfðingi Íslands og yfirstjórn utanríkismála voru hertekin af Þjóðverjum og að Íslendingar urðu að bregðast við því með því að taka stjórn allra sinna mála í eigin hendur þegar í stað. 

Alþingi ályktaði að vegna þess að konungur og danska utanríkisþjónustan væru ófær um að fara með mál Íslendinga yrði sett á fót embætti ríkisstjóra Íslands sem síðar breyttist í embætti forseta Íslands. 180px-bundesarchiv_bild_146-2005-0011_fw_200_979562.jpg

Hernám Danmerkur varð til þess að Bretar hernámu Ísland mánuði síðar, 10. maí, en enginn atburður 20. aldarinnar hafði meiri áhrif hér á landi að mínu dómi. 

Aðgerð Þjóðverja fyrir réttum 70 árum hét Weserubung og í nyrðri hluta hennar fólst hernám Noregs, sem Bretar höfðu talið óhugsand. 

Lykillinn að hernámi Noregs var að með atbeina 1000 flugvéla náðu Þjóðverjar yfirráðum í lofti yfir landinu og gátu haldið breska flotanum frá nógu lengi til þess að eftir stórsókn á vesturvígstöðvunum neyddust bandamenn til að hörfa frá Noregi við sneypu. p1010702_979557.jpg

Ófarirnar í Noregi leiddu til afsagnar Chamberlains eftir "Noregskappræðuna" í breska þinginu.

Í kjölfar hernáms Breta á Íslandi gerðu Þjóðverjar pottþétta innrásaráætlun í Ísland, en skorti forsenduna fyrir því að þeir gætu haldið landinu, en hún var sú að ráða yfir því í lofti.

Sú forsenda var raunar fyrir hendi í formi frábærs flugvallarstæðis norðan Brúarjökuls sem þó var aldrei notað.

Í heimildamynd, sem ég hef lagt drög að, er leitað skýringa á því hvers vegna þetta stórkostlega tækifæri Þjóðverja til að breyta gangi stríðsins var ekki notað. 

Sú saga er bæði myndræn, dramatísk og áhrifarík. 


mbl.is Þekkja ekki sögu 9. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karakter hjá mínum mönnum.

Handknattleikslið Fram hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á þessu keppnistímabili. Bundnar voru miklar vonir við liðið í byrjun móts en síðan kom alveg einstakur hrakfarakafli þar sem stefndi í algert afhroð og sneypu.

En liðið sýndi karakter og tókst af miklu harðfylgi og seiglu að komast úr fallhættu með fínum endaspretti. 

Ég óska mínum mönnum til hamigju með þetta en sendi jafnframt samúðarkveðjur til Patreks og Stjörnumanna, sem voru því miður í veginum fyrir Framliðinu í lok mótsins. 


mbl.is Stjarnan fallin úr úrvalsdeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útreiknuð áhætta?

"Calculated risk" eða "útreiknuð áhætta" er þekkt hugtak. Þegar stokkið er í fallhlíf er tekin útreiknuð áhætta. Allt flug byggist á útreiknaðri áhættu, raunar allt líf sérhvers manns. p1011348_979433.jpgp1011366.jpgp1011367_979427.jpg

Kenna ætti öllum börnum á grunnskólaaldri um útreiknaða áhættu og ýmsar niðurstöðu slíkra útreikninga. 

Þá myndu þau sjá að með því að byrja á að drekka áfengi eða reykja sígarettur tækju þau margfalt meiri áhættu en ef þau lærðu fallhlífarsökk og stykkju í fallhlíf.

Raunar ætti að skylda alla til að stökkva í fallhlíf einu sinni á ævinni til þess að læra þetta áþreifanlega og efla hugrekki til að gera það sem sýnist vera ógnarleg áhætta en er það ekki.

Þegar gaus í Skjólkvíum við Heklu sumarið 1970 voru engin boð eða bönn varðandi umferð gangandi fólks um svæðið og ekki er mér kunnugt um að alvarleg óhöpp yrðu.

Áreiðanlega brenndu sig einhverjir en báru harm sinn í hljóði. 

Tugir fólks muna áreiðanlega enn þegar Lúðvík heitinn Karlsson hljóp á neðri hluta bikini einum klæða berfættur á sandölum yfir glóandi hraunjaðarinn svo að sólarnir brenndust án þess að honum yrði meint af. 

Engum öðrum datt í hug að taka svona mikla og augljósa áhættu.

Þegar ég stóð kornungur á hæstu brún Látrabjargs naut ég þess að hafa unnið í meira en ár við það að ganga eftir steypumótum 12 hæða blokkar að Austurbrún 2 sem var í byggingu og leggja steypujárn ofan í mótin.

Sem járnamaður í þessari háu blokk vann ég bug á hræðilegri lofthræðslu sem hafði hrjáð mig fram að því.

Ekki mátti skeika nema nokkrum sentimetrum þegar gengið var svona eftir mótunum og athyglin varð að vera 100%. Brún mótanna, sem gengið var á, var aðeins tomma á breidd. 

Á hornum hússins þurfti að klofa yfir bil, þar sem maður horfði þráðbeint niður eftir húshorninu og engin fyrirstaða var ef maður steig óvart út fyrir. 

Á Látrabjargi flaug mér í hug að standa á brún þess, snúa mér í hálfhring og skíta fram af bjarginu. Gæti verið gaman að sjá morgunverðinn falla 450 metra lóðrétt fall niður í sjó.  

Þetta gerði ég en hefði ekki látið mér dettta í hug að gera það aðeins nokkrum árum seinna þegar ég hafði öðlast meiri lífsreynslu og vitkast eitthvað. 

Steingrímur Hermannsson heitinn sagði mér frá því að sem ungur maður hefði hann prófað að standa á hamrabrún Drangeyjar, snúa baki í hengiflugið og láta hælana standa út af brúninni. 

Hann sagði að síðar á ævinni hefði honum ekki látið sér detta í hug að gera þetta. 

Eldgleypar gleypa elda. Margir þeirra hafa áreiðanlega brennt sig einhvern tíma. Slæmt "fordæmi"? 

Vafalaust. Samt er þetta ekki bannað. 

Í 3ja bekk í Gaggó æfði ég mig í því að velta rakvélablöðum uppi í munni mér á alla kanta, bekkjarsystkinum mínum til mikillar skelfingar. 

"Slæmt fordæmi"? Já, og varla að maður þori að segja barnabörnum sínum frá þessu nema þá til þess að segja þeim, að þau þurfi ekki að sanna eitt eða neitt í þessu efni, afi hafi gert það þegar hann var ungur og vitlaus. 

Mér fannst það fráleitt nokkrum árum síðar að hafa tekið þessa áhættu og vissi þó, að kúnstin við að handleika beitta egg rakvélablaðanna fólst í því að ótrúlega miklum þrýstingi mátti beita með beru holdi á eggina, ef það hreyfðist ekki svo mikið sem brot úr millimetra á egginni. 

Þegar byrjað var að keppa í ralli á Íslandi töldu margir það forkastanlegt að taka slíka áhættu og sýna "slæmt fordæmi." 

Þegar við bræðurnir Jón og ég kepptum í heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1981 tókst okkur að komast yfir tölurnar um hina útreiknuðu áhættu sem tekin væri í ralli. 

Yfirfærðar á Ísland samsvaraði það í mesta lagi einu dauðsfalli að meðaltali á öld. 

Það var minni hlutfallsleg áhætta hvað snerti slysatíðni en í flestum öðrum íþróttagreinum.

Á að banna skíðastökk af því að það er "slæmt fordæmi"?   

Brennt barn forðast eldinn. Með árunum lærðist manni að það þarf ekki að sannreyna allar athafnir þótt þær séu mögulegir. 

Ég sé ekki ástæðu til að óttast að fólk taki upp á því í hrönnum að aka upp á glóandi hraun.

Þótt Top gear mennirnir hafi gert það þurfa ekki allir að sannreyna það líka. 

Fyrir rúmum áratug varð mikill hvellur vegna þess að nokkrir íslenskir flugmenn lentu landflugvélum á vatni í snertilendingum. Þeim tókst að sanna fyrir rétti með hjálp sérfræðings frá NASA að útreiknuð áhætta við þetta væri innan viðunanlegra marka. 

Sjálfum fannst mér óþarfi að sanna þetta persónulega á flugvélinni minni, - þótt aðrir kæmust að annarri niðurstöðu hvað þeirra flugvélar snerti. 

Niðurstaða: Engin leið er með ítrustu forsjárhyggju að koma í veg fyrir að fólk taki upp á einhverju óskynsamlega hættulegu.

Umræða í anda hinnar útreiknuðu áhættu er eina leiðin til að komast að skynsamlegri og viðunandi niðurstöðu nema í ljós komi að útreikningarnir sýni óyggjandi að viðkomandi athafnir valdi tjóni. Þá verður að grípa til boða og banna. 

 

 

 


mbl.is Top Gear ók upp á heitt hraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst áður. Einstæðar myndir 1984.

Þrívegis áður hafa náðst kvikmyndir af því þegar jörðin rifnar upp og jarðeldurinn brýst upp í logum, sem minnir á eldrautt, tennt sagarblað, sem sagar jörðina í sundur og eldtennurnar standa upp í loftið.

Þetta var í Kröflueldum sumarið 1980, í janúar 1981 og í október 1984. 

Bestu og einstæðustu myndirnar náðust í síðasta gosinu, í október 1984, þar sem myndavélin gengur í myrkrinu og allt er svart uns skyndilega er eins og eldshnífsblað risti jörðina upp.

Slíkar myndir hafa aldrei náðst, hvorki fyrr né síðar.  

Síðan kemur annað hnífsblað í beinni línu frá því fyrsta og eftir það lengist eldraufin og nýjar og nýjar tennur á eldsöginni koma upp þar til við blasir langur og hár eldveggur, mun lengri en eldveggurinn á Fimmvörðuhálsi. 

Kvikmyndirnar sem fyrir hendi eru frá Kröflueldum eru lykillinn að virði svæðisins sem á sér engan líka í heiminum. 

 


mbl.is Vísindamenn í stúkusæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Ég sé að á blogginu hefur hafist nokkuð æsingakennd umræða hjá sumum hverjum um hið hörmulega slys á Emstrum.

Þó hefur ekki farið fram yfirheyrsla á konunni sem komst af. 

Ætli það sé ekki rétt að bíða og sjá hvað út úr henni og öðrum þáttum rannsóknar kemur áður en lengra er haldið í því að krefjast jafnvel "óháðrar" rannsóknar í stað þeirrar hefðbundnu, sem ævinlega á sér stað þegar slys verða?

Það sem gerir þetta mál snúnara er það að bíllinn er kominn svo langt inn á Fjallabaksleið syðri, af því a hann er á leið frá byggð og í átt frá eldgosinu. 

Það, að ekið er þar til bensínið er búið og síðan lagt af stað gangandi bendir til þess að fólkið hafi haldið að það væri á leið til byggða og í átt að eldgosinu frekar en hitt og að það hefur haldið að margfalt styttra væri að ganga til baka en það var í raun. 

Ég þekki það sjálfur hvað snertir Gilsá að áreyrar hennar er "flóknar" á sumum stöðum, ef svo má að orði komast, og í miklum barningi og lélegu skyggni getur ókunnugur auðveldlega ruglast á því í lokin í hvora áttina hann sé að fara upp úr þeirri á.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi og líklegri að ef fólk tapar slóð og kemst síðan inn á hana aftur getur það auðveldlega ruglast á því í hvaða átt vegurinn eða slóðin liggur. 

Einhvern tíman á leið fólksins er líklegt að það hafi byrjað á að aka í burt frá byggð í stað þess að aka í áttina til byggðar. 

Allar ályktanir og ákvarðanir sem teknar eru eftir það verða þar af leiðandi rangar, hrapallega rangar.

Því betur sem þeim finnst að þeim gangi til baka, því lengra í burtu ekur það. 

Ef þetta hefur gerst þegar bíllinn varð laus úr ánni eða skömmu eftir það útskýrir það það að hjálp er afþökkuð. Fólkið dregur þá ályktun að úr því að það hefur losnað úr festunni verð leiðin tiltölega greið til baka, sú sama leið og það kom.

Slíkt getur komið fyrir hvern sem er og ætti hver og einn að geta minnst þess að einhvern tíma á ævinni hafi það komið fyrir okkur öll þegar við erum villt á ókunnugum slóðum. 

Í litlum vasa á bakpoka mínum, sem ég hef alltaf meðferðis á ferðum mínum, eru tveir litlir áttavitar, sem gætu komist fyrir í veski.

Þetta eru einföldustu og ódýrustu öryggistæki sem hægt er að hugsa sér á ferðalögum um ókunnar slóðir.

Hve margir af þeim bloggurum, sem nú eru byrjaðir að æsa sig út af þessu máli, hafa slíkt meðferðis?

Eigum við nú ekki aðeins að róa okkur niður og muna eftir orðum skáldsins að "aðgát skal höfð í nærveru sálar" þegar margt fólk á nú um sárt að binda?  

 

 


mbl.is Rannsókn að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, ef aðskilnaður er öruggur.

90 kílómetra hámarkshraði er leyfður á íslenskum vegum þar sem aðeins er ein akrein í hvora átt og bílar mætast á þessum hraða.

Fráleitt er að leyfa þennan hraða við þessar aðstæður ef ekki má aka hraðar á tvöföldum vegum þar sem umferðin úr gagnstæðum áttum er tryggilega aðskilin. 

Reynsla er fyrir hendi frá nágrannalöndunum. Í Noregi eru leyfður 100 km hraði á tvöföldum vegum með tryggum aðskilnaði og 110 km hraði í Svíþjóð. 

Slysatölurnar eru ekki hærri í Svíþjóð en í Noregi. 

Eins og er vantar vegrið á milli aðskildra brauta á Reykjanesbraut og víðar en þau eru forsenda fyrir því að leyfa hærri hraða. 

Talað hefur verið um að það myndi kosta 500 milljónir króna að gera þessi vegrið, en með ísköldum útreikningi er hægt að sjá að slysið sem varð á Hafnarfjarðarvegi í fyrra kostaði þjóðfélagið meira en þá upphæð. 

Þetta slys hefði aldrei orðið ef öflugt vegrið hefði verið á milli aðskildra akbrauta og hvað svona slys snertir skiptir 90, 100 eða 110 km hraði ekki máli. 

Eftir tugþúsunda kílómetra akstur um Skandinavíu allt frá syðsta odda Danmerkur til Alta nyrst í Noregi tel ég að vera eigi meiri sveigjanleiki í hraðatakmörkunum með tilliti til aðstæðna hér á landi og að við eigum að læra sem mest af frændum okkar í þessu efni.


mbl.is 110 km hraði leyfður á ákveðnum vegum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður að vera önnur leið fyrir hendi.

Yfirleitt er það skilyrði fyrir innheimtu vegtolla að vegfarendur eigi kost á að aka aðra leið, ef þeir fara ekki leiðina, þar sem vegtollurinn er innheimtur.

Þannig er í pottinn búið í Hvalfjarðargöngum og þannig er það víðast í nágrannalöndunum. 

Að vísu er Hvalfjarðarleiðin 41 km lengri en leiðin um göngin, en óvíða er munurinn svona mikill. 

Ef beita á þessu sjónarmiði er augljóst að Vaðlaheiðargöng myndu falla undir þessa skilgreiningu því að þar ættu vegfarandur völ á að aka yfir Víkurskarð eða um Dalsmynni ef Víkurskarðsveginum yrði ekki haldið við. 

Fráleitt væri að taka vegtoll af framkvæmdum á Suðurlandsvegi vestan við Litlu Kaffistofuna því að þá ættu ökumenn ekki aðra völ en að fara um Nesjavallaveg, Grafning og Ölfus ef þeir þyrftu að aka milli Reykjavíkur og Hveragerðis og sú leið er bara allt of löng til þess að hægt sé að benda á hana sem valkost. 

Á einstökum köflum milli Litlu Kaffistofunnar og Hveragerðis ættu ökumenn hins vegar völ á gamla Svínahraunsveginum eða Þrengslaveginum eftir atvikum. 

En samgönguráðherra er í vanda. Hann er landsbyggðarþingmaður og Vaðlaheiðargöngin í hans kjördæmi.

Ef hann skellir vegtolli á Vaðlaheiðargöng myndu Akureyringar, Þingeyingar og aðrir vegfarendur um hringveginn spyrja hvers vegna ekki sé tekinn tollur af umferð um 11 milljarða króna Héðinsfjarðargöng sem þjóna aðeins litlu broti af þeim fjölda sem myndi nota Vaðlaheiðargöng. 

Langlíklegast er að vegna "byggðasjónarmiða" verði ekki tekinn tollur af Vaðlaheiðargöngum heldur bara af Suðurlandsvegi þótt slík tolltaka yrði í sérflokki hvað snerti ósanngirni í garð vegfarenda á þeim slóðum. 

Engin hætta er á að þingmenn Reykjavíkur mögli því að fyrir því eru nánast engin fordæmi. Frekar er mögulegt að þingmenn Suðurkjördæmis yrðu óhressir. 


mbl.is Alfarið á móti vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband