Fram og aftur blindgötuna.

Vesalings Seðlabankinn eigrar nú fram og aftur um þá blindgötu og öngstræti sem hann og íslensk efnahagsmál eru komin í eftir óstjórn, stóriðjuæði og neyslufyllerí undanfarinna ára. Spáð er stýrivaxtahækkunn og síðan hraðri lækkun þegar verðbólgan, sem hann heldur að hann ráði eitthvað við, fer að minnka. En bankinn stjórnar æ minna af efnahagskerfinu eftir því sem flóttinn frá krónunni rýrir gildi hennar. Davíð og co sveiflast eins og strá í vindi verðbólgunnar.

Óttinn við fjárfestana sem hafa fjárfest í vaxtamuninum svo hundruðum milljarða skipti veldur því að svigrúm til lækkana vaxta er lítið vegna hákarlanna sem hafa stóran hluta hagkerfisins í hendi sér.

Æ meiri líkur eru á því að þjóðin muni ekki sjá sér annað fært en að sækja um aðild að ESB. En þeir sem trúa á það sem allherjarlausn gleyma því að til þess þarf grjótharðar ráðstafanir til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru þar á bæ um þau atriði hagstjórnar sem hér eru fokin út í veður og vind.

Aðvörunarorð frá þeim sem sáu hvert stefndi síðustu árin hafa verið að engu höfð og nú súpum við seyðið af því hlaut að gerast, að krónan lækkaði um síðir og þá stjórnlaust. Það er komið að skuldadögunum og íslenska stefnan eða öllu heldur stefnuleysið: "Þetta reddast allt einhver veginn" á eftir að reynast okkur dýr.


mbl.is Spá frekari hækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaralegt loftrýmiseftirlit.

Ég hef verið inntur eftir nánari hugmyndum um borgaralegt loftrýmiseftirlit allt árið við Ísland. Hugmyndin er einföld. Nú eru framleiddar litlar einkaþotur sem komast allt að 180 km hraðar en rússnesku Birnirnir og 10 þúsund fetum hærra. Citation X hefur 6000 kílómetra flugdrægi og Falcon 7X 11000 km drægi, sem er margfalt meira en drægi F-16 þotna.

Þessar þotur geta flogið hringi í kringum rússnesku vélarnar og uppfyrir þær að vild. 

Þessar óvopnuðu þotur myndu ekki teljast fremur með hernaðarleg umsvif en aðrar vélar Landhelgisgæslunnar, enda ætlaðar til eftirlits en ekki til bardaga. Ef stríðsástand skapaðist væri hægt að kalla orrustuþotur NATO til  og notast við áætlun bandaríska hersins við það.  

Aðalatriðið er að eftirlitið yrði allt árið en ekki samsvarandi slökkviliði sem er á vakt klukkan frá 8-4 á daginn. 

Nú þegar eiga Íslendingar nokkrar einkaþotur sem eru að vísu ekki eins hraðfleygar og ofannefndar þotur. Þetta er vel gerlegt ef menn meina eitthvað með eftirliti.

 


Gott hjá þér, Þórunn!

Það eru góð tíðindi að Þórunn Sveinbjarnardóttir ætli að leggjast gegn eignarnámi Landsvirkjunar vegna Urriðafossvirkjunar. Nú er fyrst hægt að eygja von til þess að Landsvirkjun fái ekki ávallt öllu sínu framgengt eins og verið hefur hingað til. Ef ég man rétt orðaði Illugi Gunnarsson það fyrir síðustu kosningar að hæpið væri að beita eignarnámi í svona tilfellum. Það hefði kannski verið hægt að rökstyðja það í stærstu málum hér fyrr á tíð en tímarnir væru breyttir.

Nú er að sjá hvort Landsvirkjun fær sínu framgengt engu að síður. Þótt hún hafi hopað af og til í einstökum málum hefur hún til dæmis ekki fallið frá Norðlingaölduveitu, Skaftárveitu, hækkun Laxárstíflu eða virkjunum í Neðri-Þjórsá.


mbl.is Ráðherra styður ekki eignarnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakob Frímann var efstur í Suðvesturkjördæmi.

Í athugasemd á bloggsíðu við fréttinni af ráðningu Jakobs Frímanns Magnússonar sem framkvæmdastjóra miðborgarmála er fullyrt að hann hafi verið efstur á lista Íslandshreyfingarinnar í norðausturkjördæmi og bölsótast yfir því að utanbæjarmanni skuli falinn þessi starfi. Hið rétta er að Jakob Frímann var efstur á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi, sem hefur meðal annars innan sinna vébanda Kópavog og Seltjarnarnes.

Jakob hefur lengst af ævi sinni átt heima í Reykjavík og býr í hjarta borgarinnar. Áskorun bloggpistilshöfund um rannsóknarblaðamennsku hittir hann fyrir sjálfan.


mbl.is Gengið frá ráðningu Jakobs Frímanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnir Akureyrar æfðar.

Í 13 stiga hita, sólskini og sunnanþey flugu frönsku orrustuþoturnar fram og til baka út Eyjafjörð í dag og létu Akrureyringa vita af því að þeir yrðu vel varðir í framtíðinni. Í Reykjavík var þoka og því lítið hægt að gera í varnarmálum höfuðborgarbúa á þessum drottins degi.

Úr því að danska kóngafólkinu var boðið að fara til Stykkishólms til að skoða danskan bæ á Íslandi hefði verið við hæfi að láta Frakkana vita af Fáskrúðsfirði svo að þeir gætu heimsótt hinn forðum franska bæ með glæsibrag.

Raunar var talað um að Akureyri hefði verið danskur bær á sinni tíð og að magni til meira danskt þar en í Hólminum. Örlygur Sigurðsson nefndi minningar sínar Bolsjör frá bernskutíð. Enn heyrir maður Akureyringar segja að eitthvað sé vanskillegt og að hlutir séu spilaðir af.

En punkteringarar heyrast varla nefndar. Hingað kom Margrét Danadrottning í frægri ferð 1972 og þá fékk Drottningarbrautin nafn sitt.


Skrifaðu leikvöll.

Tvennt er aldrei nefnt í sambandi við komu erlendra orrustuþotna til Íslands. Annars vegar það að mest allt árið verða eftir sem áður engar slíkar þotur við Ísland og að Rússar fá nákvæmar upplýsingar hvenær þeir geta verið í friði. Hitt er svo það að loftherir Evrópu fá að fara út úr þrengslunum yfir meginlandinu til að leika sér við Ísland.

Rússnesku birnirnir eru það hægfleygir að vel væri hægt að fylgjast með þeim með því að nota hraðskreiðar skrúfuþotur sem væru hér á landi allt árið. Orrustuþoturnar koma ekki skipum í neyð tl hjálpar.

Ég dreg ekki í efa að gott sé að eiga góða að við varnir landsins, ef til kæmi, en set spurningu við það að þetta sé rétta aðferðin. Ég kalla á könnun á öðrum valkostum sem veita betra öryggi fyrir minni peninga.


mbl.is Koma Frakka liður í Evrópuvæðingu öryggismála Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt, - og þó ekki.

Í fróðlegu erindi á aðalfundi Landverndar fyrir helgi kom fram að stefnt væri að því að viðbrögð Landsvirkjunar við hamfarahlaupi úr Köldukvíslarjökli niður í Hágöngulón yrðu þau að veita þessu hlaupi niður í Kvíslavatn og búa þannig um hnúta þar að hlaupið ryfi þar stíflu og steyptist í Þjórsá, væntanlega með þeim afleiðingum að Þjórsárver kaffærðust í auri í hlaupinu.

Með þessu yrði hamfarahlaupinu beint úr hinum eðlilega farvegi sínum og komið í veg fyrir að Sultartangalón fylltist af auri.

Í mínum huga yrði þetta hliðstætt því að við hlið stofnunar Árna Magnússonar væri dýrmæt verksmiðja og að brunavörnum væri þannig komið fyrir að ef þarna yrði stórbruni væri eldinum beint yfir í handritin frekar en vélarnar í verksmiðjunni.

Þetta er ótrúlegt en þó kannski ekki. Hugmyndir um að steypa Skjálfandafljóti yfir í Laxá í Mývatnssveit og sökkva Laxárdal þóttu hinar bestu á sinni tíð. Í röksemdafærslunni fyrir þeim var þess getið að fjöllin yrðu áfram á sínum stað.

Með því að veita hamfarahlaupi yfir í Þjórsárver yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi: Líf Sultartangalóns framlengt um nokkra áratugi og Þjórsárver þannig útleikin að eins gott væri að sökkva þeim til frambúðar.


Stefnuljósaleysi og öruggur hægagangur.

Um daginn þótti það tíðindum sæta að lögregla sektaði menn fyrir nota ekki stefnuljós,  nokkuð sem eldur töfum og vandræðum á hverjum degi, til dæmis á gatnamótum Grensásvegar og Fellsmúla-Skeifunnar. Líklega mun líð svo langt þar til þetta verður næst gert, að það teljist þá aftur til frétta, hvað þá að nokkur verði sektaður fyrir of hægan akstur.

Eitt sinn var ég farþegi í bíl á Hellisheiði, sem haldið var ásamt röð af bílum fyrir aftan fremsta bíl á um 70 kílómetra hraða við ágæt akstursskilyrði. Í hvert sinn sem bíllinn sem ég var í reyndi að komast fram úr þessum sleða, gaf hann í til þess að koma í veg fyrir framúrakstur og í lokin fór hann upp í 120 kílómetra hraða í þessu skyni!  

Allir þekkja viðbrögð margra íslenskra bílstjóra við því ef einhver reynir að skipta um akrein. Þá er gefið í til þess að koma í veg fyrir akreinaskipti!

Einnig fannst mér gaman að því þegar ungur maður sem ég þekki ók aftan á bíl sem beið eftir því að fara inn á aðalbraut en stöðvaði tvisvar og sagðist hafa það fyrir öyrggisreglu. Hann sagðist vera með viðurkenningu upp á 30 ára öruggan akstur en hins vegar væru aðrir sífellt að aka aftan á sig þegar hann stöðvaði í annað sinn til að vera öruggur um að aksturinn væri öruggur inn á aðalbrautina.

Alls höfðu sjö ökumenn ekið aftan á hann á nokkrum árum!  


mbl.is Sektaðir fyrir að keyra of hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarréttindi eru mannréttindi.

Nýlega talaði fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um að rétturinn til matar væri mannréttindi og að af því mætti draga þá ályktun að hungrið í heiminum geti orðið eða sé jafnvel orðið mesta mannréttindabrotið.

Þetta er ekki ný hugsun.Roosevelt Bandaríkjaforseti setti þessa hugsun skýrt fram í ávarpi sínu til Bandaríkjaþings 6. janúar 1941 þegar hann lýsti því takmarki Bandaríkjanna sem þau settu sér um frelsi í heiminum.
Stefna ætti að því að ríkja mætti fjórar tegundir af frelsi:

1. Skoðana- og tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)
2. Trúfrelsi. (Freedom of worship)
3. Frelsi frá skorti. (Freedom from want)
3. Frelsi frá ótta. (Freedom from fear)

Roosevelt gerði ekki upp á milli hinna fjögurra tegunda af frelsi en einhvern veginn er það svo að fyrstu tvær tegundirnar hafa einkum verið mönnum hugstæðar. Roosevelt skilgreindi 3.frelsið ekki eingöngu sem frelsi til matar heldur mun víðar, sem skort á uppfyllingu lágmarksþarfa.

Samt liggur það í augum uppi að tjáningarfrelsi og trúfrelski manneskju sem líður neyð af skorti er í raun einskis virði. Og svipað er að segja um frelsi frá ótta.

Í raun er ekki hægt að vera án nokkurs af hinum fjórum tegundum frelsis. Skoðana- og tjáningarfrelsi eru heft á óviðunandi hátt ef ekki ríkir trúfrelsi, - og öfugt.

Roosevelt flutti ræðu sína sem ný endurkjörinn forseti til að brýna þjóð sína fyrir átökin sem hann sá fyrir að yrðu óhjákvæmileg. Þessi hluti ræðu hans er í fullu gildi í dag.


Tvennt sem átti ekki að geta gerst.

Í hinu dapurlega slysi í Kömbunum gerðist því miður tvennt sem ekki átti að geta gerst.

1. þetta er eini staðurinn frá Reykjavík austur að Ölfusá þar sem bílar hafa geta farið út af veginum og fram af háum hamri. Samt var þarna ekki vegrið.

2. Enn sést fólk aka þarna um án þess að nota bílbelti.

Ekki var annað að sjá en að yfirbyggingin bílsins væri heil í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband