Borgaralegt loftrýmiseftirlit.

Ég hef verið inntur eftir nánari hugmyndum um borgaralegt loftrýmiseftirlit allt árið við Ísland. Hugmyndin er einföld. Nú eru framleiddar litlar einkaþotur sem komast allt að 180 km hraðar en rússnesku Birnirnir og 10 þúsund fetum hærra. Citation X hefur 6000 kílómetra flugdrægi og Falcon 7X 11000 km drægi, sem er margfalt meira en drægi F-16 þotna.

Þessar þotur geta flogið hringi í kringum rússnesku vélarnar og uppfyrir þær að vild. 

Þessar óvopnuðu þotur myndu ekki teljast fremur með hernaðarleg umsvif en aðrar vélar Landhelgisgæslunnar, enda ætlaðar til eftirlits en ekki til bardaga. Ef stríðsástand skapaðist væri hægt að kalla orrustuþotur NATO til  og notast við áætlun bandaríska hersins við það.  

Aðalatriðið er að eftirlitið yrði allt árið en ekki samsvarandi slökkviliði sem er á vakt klukkan frá 8-4 á daginn. 

Nú þegar eiga Íslendingar nokkrar einkaþotur sem eru að vísu ekki eins hraðfleygar og ofannefndar þotur. Þetta er vel gerlegt ef menn meina eitthvað með eftirliti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Ef stríðsástand skapaðist væri hægt að kalla orrustuþotur NATO til"

Já, NATO myndi örugglega hinkra þangað til við myndum kalla þá til ef "stríðástand skapaðist". "Já, er þetta hjá NATO? Væruð þið til í að senda nokkrar þotur hingað til Íslands, það er nefnilega að skapast stríðsástand út af austurlandi?"

Hvað myndum við græða á því, ef svo má að orði komast, að hringsóla um þessar rússnesku vélar? Er ekki nóg að fylgjast með þeim á radar?

Magnús (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 10:55

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Ómar bara ein spurning um þessa hugamynd til hvers að vera að elta þá svona yfrileitt?

Einar Þór Strand, 9.5.2008 kl. 18:02

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Ómar, ég tek undir með Einari Þór. Til hvers að vera að elta þá? - Eigum við eitthvað sökótt við þá eða þeir okkur?

Haraldur Bjarnason, 9.5.2008 kl. 20:16

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég varpa þessu upp til að sýna hve holur hljómur er á bak við þá röksemd að þetta svokallað "loftrýmiseftirlit" sé það sem orðið merkir. Með því að auglýst sé hvaða daga engar orrustuþotur séu á Íslandi er gefið upp hvaða daga sé hægt fyrir Rússana að athafna sig í næði.

Ég vísa til bloggs míns "skrifaðu leikvöll". Það á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Bandaríkjamenn hafa keppst við að fullvissa okkur um að núverandi fyrirkomulag framkvæmdar þeirra á varnarsamningnum sé fullnægjandi.

Bandaríkjamenn líta svo á að stríðsástand við Ísland myndi eiga sér þann aðdraganda að nægur tími gæfist til að senda nægilegan liðsafla til Íslands.

Við erum með yfirlýsingu um að árást á Ísland jafngildi árás á öll NATÓ-ríkin. Hún var talin fullnægjandi í upphafi kalda stríðsins frá 30. mars 1949 til 7.maí 1951, en varnarliðið kom til landsins næstum ári eftir upphaf Kóreustríðsins.

Frá desember 1950 til maí 1951 var heimurinn á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar eftir að Kínverjar höfðu hafið þátttöku í Kóreustríðinu og Truman Bandaríkjaforseti ýjað opinberlega að því að Bandaríkjamenn kynnu að gera árásir á skotmörk í Kína, jafnvel með kjarnorkusprengjum.

Douglas Mc Arthur vildi nota kjarnorkuvopn og það eina sem Bretar höfðu upp úr andstöðu við þessi áform Bandaríkjamanna var að þeir yrðu látnir vita áður en kjarnorkuvopnum yrði beitt.

Röksemdin fyrir komu varnarliðsins var að miklu leyti orðin að engu vorið 1951 þegar hernaðarástandið skánaði og koma liðsins var því augljóslega byggð á því að Bandaríkjamenn nýttu sér stríðsóttann sem Kóreustyrjöldin skapaði.

Rétt er þó að geta þess að Bandaríkjamenn útilokuðu aldrei að nota kjarnorkuvopn ef allt snerist á versta veg fyrir þá.

"Ógnin" af Rússum nú er nokkurn veginn engin miðað við ástandið 1949 til 1951.

Ómar Ragnarsson, 9.5.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband