12.5.2011 | 20:35
Aldrei að afskrifa líkur.
Aldrei skyldi afskrifa neitt alveg þótt líkur séu hverfandi.
Ef það væri alltaf gert myndi enginn spila í Víkingalottói.
Ég get nefnt tvö af ótal dæmum úr mínu lífi varðandi þetta.
Í sjö ár hef ég átt 38 ára gamlan jöklabíl af gerðinni Range Rover.
Hér á myndinni af honum stendur tengdasonur minn, Friðrik Sigurðsson, maður Iðunnar, við hann, því að í glugga hans er Arsenal merki fyrri eiganda og mér fannst að vegna mikillar Arsenal-aðdáunar Friðriks ætti ég ekki að skipta um merki, þótt ég sé sjálfur "Púllari.
Þessi gamli og þreytti jálkur, sem hefur reynst mér afar vel, er með næstum því jafngamalli Nissan Laurel dísilvél og fyrir nokkrum árum sprakk "heddpakkning" í vélinni. Voru nú góð ráð dýr.
Vinir mínir í Kistufelli tóku bílinn og byrjuðu svo að leita að pakkningu en fundu ekki.
Ég bað þá um að gefast ekki upp en eftir að liðið var hálft ár og engin hafði fundist, þótt leitað væri á netinu um allan heim, gáfust þeir upp og báðu mig um að taka bílinn.
Ég fór uppeftir, pantaði bíl frá Vöku, sem kom til að draga hann suður á Geymslusvæðið í Kapelluhrauni, en þar ætlaði ég að hirða dekkin og farga honum síðan.
Í þeim svifum sem Vökubíllinn er að draga jeppann út á götuna kemur svipaður Range Rover niður götuna. Bílstjórinn stöðvar bílinn og kallar til mín, spyr hvað sé á seyði.
Ég sagði honum allt af létta. "Hættu við þetta", sagði hann. "Ég á svona pakkningu."
Ég spurði hann af hverju hann væri þarna á ferð. "Ég ætlaði ekki að vera hér á ferð," svaraði hann, "því ég villtist."
Og þá vaknar spurningin: Hversu miklar líkur voru á því að einmitt á þessu augnabliki villtist eini maðurinn í heiminum, sem átti svona pakkningu á lausu, þannig að hann hitti á mig?
Mig grunar að það gætu verið einn á móti tugum milljóna og það leiðir hugan að miklu dramatískari heppni.
Fyrir rúmum áratug var ég í fréttaferð í Kverkfjöll og vildi meðal annars gera frétt til að vara við íshruni í frægum íshelli í Kverkjökli.
Þar höfðu einu sinni á sumri fallið gríðarstór þúsund tonna stykki niður í hellismunnann og var ljóst, að ef hópur fólks væri þar á ferð þegar þetta gerðist gæti íshrun af þessari stærð valdið dauða fjölda fólks.
Ég var einn á ferð og tók því myndir í tveimur atrennum:
Fyrst stillti ég myndavélinni upp alveg í hellismunnanum og talaði þar um aðstæðurnar og hættuna.
Síðan hljóp ég með myndavélina í um það bil 100 metra fjarlægði og lét hana ganga meðan ég hljóp á staðinn sem ég hafði áður staðið á, stillti mér þar upp í nokkrar sekúndur og hljóp síðan aftur að myndavélinni til að klára myndatökurnar.
Ég "súmmaði inn" á stóra bogadregna sprungu í ísveggnum yfir hellismunnanum, en í þann mund sem ég var á fullu "innsúmmi" eins og það heitir á tæknimáli, brá svo við, að sprungan fór að gliðna, svo að ég súmmaði hratt út og í þeim svifum hrundi um 1000 tonna ísstál yfir staðinn þar sem ég stóð aðeins mínútu fyrr!
Hefði ég staðið þar mínútu síðar hefði það orðið minn bani því að mikil flóðbylgja úr ánni Volgu, sem rennur út um hellismunnann, reið yfir þann stað og margra tonna ískstykki þeyttust eins og skæðadrífa yfir svæðið!
Í tengslum við þetta giskaði ég á líkurnar á tvennu:
1. Líkurnar á því að hið árlega stórhrun gerðist á þeim tveimur sekúndum, sem myndavélinni var beint að sprungunnni í ísveggnum. Niðurstaða: Ca einn á móti 30 milljónum!
2. Líkurnar á því að ég hefði drepist: Ca einn á móti milljón!
Raunar fórst kona í Hrafntinnuskeri nokkrum árum síðar þegar ísklumpur hrundi úr íshelli þar og lenti í höfði hennar. Það þarf ekki stóran klump til að verða manni að bana þegar hann hrynur úr töluverðri hæð á hann.
![]() |
Líkurnar 1 á móti 5.814 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.5.2011 | 11:58
Mikilsverð breyting.
Í kosningabaráttunni 2007 var það á stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar sem nú er lagt til hjá Stjórnlagaráði, að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn og að vægi þingforseta og þingnefnda sé aukið sem löggjafa og eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdavaldinu.
Þetta fékkst lítt eða ekki rætt í kosningabarátunni, ástandið var svo mikið "2007", allir uppteknir og uppnumdir af ljóma græðgisbólunnar.
Hugmyndin núna er sú að ráðherrar mæli ekki lengur fyrir frumvörpum á þingi, heldur verði talsmaður eða formaður viðkomandi þingnefndar að gera það.
Breytingin verður til þess að ekki kemur aftur upp það ástand, sem oft hefur ríkt, að heilu og hálfu þingflokkarnir hjá smærri flokkum hafi verið ráðherrar.
Það hefur verið sett fram sem mótrök við því að ráðherrar séu ekki þingmenn, að enda þótt þeir hafi ekki atkvæðisrétt eða tillögurétt, megi þeir eðli máls samkvæmt, sitja þingfundi og svara þar fyrirspurnum eða bregðast við því sem er að gerast í umræðum.
Af því leiði að í þingsalnum fjölgi stórlega hverju sinni þeim, sem eru í stjórnarmeirihluta.
Ég tel þessi rök ekki halda. Reynslan sýnir að í umræðum á þingi, einkum umræðum um heit mál, hafa stjórnarandstöðuþingmenn talað meira en stjórnarþingmenn og hvað eftir annað átt "ræðukónga" Alþingis.
![]() |
Ráðherrar víki af þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2011 | 22:37
Vegið úr launsátri.
Að fornu var gerður greinarmunur á drápi á mönnum eftir því hvort sá, sem vó annan mann, viðurkenndi verknaðinn eða hvort hann leyndi nafni sínu.
Til að þetta væri á hreinu lýstu menn vígi á hendur sér ef til þessa kom, en ef þeir leyndu því, var það talið morð og hið versta mál.
Ástæðan var sú að menn voru vegnir samkvæmt mælikvarða þeirra tíma réttlætis, að hefna mætti fyrir víg á svipaðan hátt og dómstólar dæma í sumum ríkjum morðingja til lífláts.
Á okkar dögum er það í stjórnarskrám að tjáningar- og skoðanaferli er virt, en ef menn vega að mannorði annarra verði þeir að ábyrgjast það fyrir dómi ef dómsmál verður höfðað.
Nafnleynd kann að vera nauðsynleg í afmörkuðum tilfellum til þess að koma á framfæri upplýsingum án þess að eiga á hættu ofsóknir vegna þess.
En nafnleynd af því tagi, sem því miður veður uppi á netinu, þar sem menn nýta sér hana til að ausa óþverra yfir samborgara sína er allt annars eðlis.
Þeir sem skjóta sér á bak við slíka nafnleynd þora ekki að standa fyrir máli sínu, heldur stunda þeir á stundum mannorðsmorð, svo að það er hliðstætt við morð sem framin voru úr launsátri til forna.
Um leið og þeir gera þetta skaða þeir þá, sem nota netið á heiðarlegan hátt og koma óorði á það.
Það er allt of mikið af þessu því það væri slæmt ef þetta verður til þess að skerða heiðarlegt frelsi til tjáningar og samskipta á netmiðlum.
Of margir láta það freista sín til að fara hamförum að þessu leyti, að þetta "selur" hina ljótu afurð, samanber það að fréttin um ljóta hegðun á Fésbókinni sé mest lesin í dag.
![]() |
Ljót hegðun á Fésbókinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.5.2011 | 17:09
Alltaf "slæmt lestrarveður" í maí.
Í minningunni var alltaf "slæmt" veður til að lesa fyrir próf þegar ég var ungur. Þurfti alltaf að vera sólskin, logn og hiti.
Auðvitað var þetta ekki alveg svona en maí eru nú einfaldlega einn af þremur björtustu mánuðum ársins, hæstur loftþrýstingur og meira um það að í gangi sé norðlæg eða norðaustlæg vindátt hér syðra en í öðrum mánuðum.
Eina undantekningin sem ég man eftir var einhvern tímann á síðasta árutug liðinnar aldar, þegar voru þokur og súld meginhluta maí.
Þetta góða maíveður átti kannski sinn þátt í því að ég varð ekki lögfræðingur.
Ég sat einn svona maídag í húsi sem ætlað var laganemum við Aragötu og las kröfurétt fyrir fyrrihlutapróf í lögfræði.
Ég horfði út um gluggann yfir í Vatnsmýrina þar sem fuglar sungu í logni, sólskini og hita.
Allt í einu tók ég ósjálfrátt viðbragð, lokaði bókinni, stóð upp og gekk út í vorið með þá skyndileg en skýru ákvörðun í huga, að það að kunna kröfurétt út í hörgul yrðu ekki örlög mín. Síðan hef ég aldrei stigið fæti inn í þetta hús við Aragötuna.
Til útskýringar má geta þess að ég var kominn býsna langt, búinn með "fýluna", hagfræði og almenna lögfræði og kominn af stað í þessu fyrrihlutaprófi og þetta var því býsna örlagarík ákvörðun.
En kröfuréttur þótti mikið torf og þjónaði svipuðum tilgangi og anatómía í læknisfræði sem þolraun fyrir nemendur þessara fræða.
Eftir að kröfurétturinn hafði verið innbyrtur sem og fyrrihlutaprófið var maður að byrja að verða "jússósa" og öðlast "júridískan þankagang."
Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Á þessum tíma var ég kominn upp fyrir haus í verkefnum sem skemmtikraftur, leikari og texta- og tónsmiður og nokkrum árum síðar datt ég inn í sjónvarpið þar sem stærstur hluti ævistarfs, sem ég hafði aldrei ætlað mér, beið mín.
Ég ætlaði á þessum árum að fara út í pólitík og laganámið var þá algengasta leiðin. Mér fannst stjórnarfars- og stjórnskipunarréttur skemmtilegar greinar en kröfurétturinn var önnur Ella.
Ef til kennd hefðu verið stjórnmálafræði við Háskólann hefði ég farið í þau og þá líklegast út á þá braut í lífinu.
Nú sýsla ég um hríð á gamals aldri við þessi fræði með mjög góðu fólki og það er engin hætta á að ég standi hér upp og gangi út í bjart vorið frá þessu verkefni.
![]() |
Próflestur í sól og sumaryl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2011 | 15:26
Almennt hrun trausts og virðingar.
Hrunið var ekki aðeins efnahagshrun eða eingöngu fyrir tilverknað "óreiðumanna." Það var siðferðishrun, sem átti aðdraganda í talsverðan tíma þegar skammtímagræðgi, sjálftökufíkn og tillitsleysi réðu ríkjum.
Lágar prósentutölur, sem nú koma fram í skoðanakönnunum á trausti og virðingu ýmissa stofanana og sviða þjóðfélagsins bera þessu vitni.
Þjóðarátak þarf til þess að snúa þessu við.
![]() |
Alþingi hefur glatað virðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2011 | 21:49
Eitt af þessum augnablikum...
Níu þjóðir voru komnar áfram. Tyrkland beið enn, - líka norska lagið og fleiri sigurstrangleg lög.
Maður hugsaði: "Ókey, svona fór þetta. Þeir stóðu sig óaðfinnanlega, gerðu þetta á einfaldan, sannan og einlægan hátt án einhvers hamagangs og láta, - gerðu sitt besta og vel það, en það er ekki alltaf hægt að treysta á íslensku heppnina, að þetta reddist einhvern veginn."
Og þá kom það, alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar þulurinn tilkynnti: "Lag númer tíu (síðasta lagið) er: "Icealand!"
Já eitt af þessum ógleymanlegu augnablikum. Einmana Finni með gítar, nokkrir einlægir íslenskir strákar, þetta komst áfram, ekki hátimbruð teknó-rytma lög.
Frábært! Til hamingju! Það var lítil von en þetta slapp á síðustu stundu.
![]() |
Þetta var stríðnin í Sjonna" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.5.2011 | 19:57
Á að vera við Vatnsþróna.
Þegar ég var stráklingur og ólst upp í Stórholtinu var alltaf talað um að fara niður að Vatnsþró þegar rætt var um að fara niður á þann stað, sem nú heitir Hlemmur.
Vatnsþróin var réttnefni yfir þennan stað og ef styttan Vatnsberinn á nokkurs staðar vel heima, er það þar.
En þá þyrfti helst að endurgera Vatnsþróna og hafa við hana skilti með upplýsingum fyrir ferðamenn um hana og hvaða hlutverki hún gegndi forðum tíð.
Ég man þá tíð þegar mikið var rifist um styttuna Vatnsberann, en þá var jafnvel líka höfð uppi svipuð gagnrýni á styttu Ásmundar af Járnsmiðnum, hvort tveggja byggt á því að listamaðurinn ýkti fyrirmyndir sínar svo að afkáralegt væri.
Þessar raddir þögnuðu smám saman, enda eru þessar tvær styttur einhverjar þær mögnuðustu sem Ásmundur gerði og á að gera þeim hátt undir höfði.
Endurgerð Vatnsþró með Vatnsberanum hjá og tilheyrandi kynningarskiltum gæti orðið að aðdráttarafli fyrir ferðamenn og þarft verk að leiða nútíma kynslóðir og ferðamenn inn í kjör fortíðarinnar á þessum stað.
![]() |
Vatnsberinn á leið í miðbæinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2011 | 19:16
Frábært ef þeir komast áfram.
Heppnin er af sérfræðingum ekki hafa verið með Íslendingum þegar þeir drógust í riðil í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hann sé mun erfiðari og sterkari en hinn riðillinn.
Óheppnin hefði samkvæmt formúlu þar um verið enn meiri ef Íslendingar hefðu lent aðeins fyrir framan miðjan hóp því að best er talið að vera sem fyrst eða sem síðast.
Að vera fjórtándi í röðinni er ekki svo slæmt og nú er bara að vona að íslenska lagið komist áfram á því að vera bara einfalt og einlægt og stinga þar með í stúf við hin mörgu lög, sem eru með uppskrúfaða umgerð til að ná athygli.
Er einmitt nú að hlusta á norska lagið, en aðal stefið er ótrúlega líkt Bahamalagi Ingós hér um árið en það var óhemju vinsælt hér heima og kannski virkar sama formúla hjá norsku söngkonunni og hennar félögum núna.
![]() |
Evróvisjón-keppnin hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2011 | 21:32
Til hamingju, vinur !
Samvinna okkar hefur verið afar mikilvæg og gefandi og af því að ég hef fylgst dálítið með gerð myndarinnar um hann, veit ég að hún verður frábær og færir honum endanlega þá viðurkenningu sem hann á skilið sem afburða listamaður, fjölmiðlamaður og einstakur hugsjónamaður.
"Síðustu dagar heimskautasvæðanna" er án efa ekki aðeins stórmerk mynd fyrir samtíð okkar um mann, sem hefur varpað einstöku ljósi á það mannlíf og dýralíf, sem nú er ógnað af mannavöldum á norðurslóðum.
Hún á eftir að verða enn mikilvægari og merkilegri eftir því sem viðfangsefni hennar verður stærra og dramatískara með hverjum áratug sem líður.
Flugið hefur verið vettvangur okkar og grasrótarflugið er okkur hugleikið, því það er undirstaða alls flugs og forsenda margs af því sem RAX hefur afrekað.
Læt kannski fylgja með eina eða tvær myndir af því. Til hamingju, vinur!
P. S. Fann myndir af túninu á Kvískerjum, þar sem hann var í sveit, og litla léttflugvélin hans er gul, til hægri á myndinni. Þarna var hann að fljúga til að taka myndir af Jökulsárlóni og fleiru og er á nærmynd að stilla litlu myndavélina ásamt Halldóri Kolbeins.
![]() |
RAX frumsýndur á BBC |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2011 | 16:58
Sumir jafnari en aðrir ?
Nú er komið í ljós að á ári óttans í Kaupþingi, skulfu allir þar á bæ á beinunum en voru látnir halda að með því að hreyfa ekki við hlutabréfum sínum væru þeir að sýna samstöðu til að berjast fyrir vinnustað sinn og í þessari samstöðu berðust einn fyrir alla og allir fyrir einn sem jafningjar.
En ennfremur hefur komið í ljós að sumir voru jafnari en aðrir og ef þeir voru nógu stórir var í góðu lagi að þeir neyttu allra bragða til að skara eld að eigin köku og gæfu skít í alla samstöðu.
Ætlun þeirra var greinilega að geta haldið sínu þótt aðrir yrðu að blæða.
![]() |
Ár óttans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)