Hvað um okkur Íslendinga?

Mér finnst einkennilegt tómlæti hafa ríkt hér heima um símahleranir fyrr og nú, sérstaklega hleranir nú. Ekki virðist áhugi á að leita svara við spurningum eins og þeirri, hvernig það mátti vera að óeirðasveit lögreglu og tveir menn, sem sáust á vettvangi frá byrjun við upphaf aðgerða bílstjóra við Rauðavatn á dögunum, voru svona ótrúlega fljótir á vettvang.

Ég leitaði á sínum tíma svara símasérfræðinga við spurningum mínum um undarlegar truflanir í síma mínum og fleiri aðila síðsumars fyrir tveimur árum þegar ég var til skiptis á Kárahnjúkasvæðinu og í Reykjavík.

Þegar ég spurði síðasta sérfræðinginn, sem ég talaði við, hvort gæti hafa verið um að ræða fikt snjallra ungmenna líkt og gerðist í Vesturheimi þar sem komist var ínn í símtöl, fékk ég það svar, að í tilfelli mínu og þeirra sem flæktust saman í símkerfinu ásamt mér, gæti ekki hafa verið um slíkt að ræða vegna þess, eins og sérfræðingurinn orðaði það: "Til þess þarf aðstöðu, mannafla og fjármuni."

Hvers vegna kafar enginn rannsóknarblaðamaður ofan í þessi mál hérf? Eða er öllum nákvæmlega sama? Hvers vegna er ekki farin sama leið hér og í Noregi þar sem sæst var á rannsókn, þar sem í byrjun var tryggt að ekki yrði um nein eftirmál að ræða né að neinn yrði sakfelldur?


mbl.is Svíar mótmæla hlerunarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á "Fagra Ísland" að vera "Farga Íslandi"?

Var það kannski stafavíxl sem ruglaði ráðherra SF í ríminu? Annars er of lítið gert af því að benda á að það er rangt að stilla málum þannig upp að annað hvort verði að virkja vatns- eða jarðvarmaorku á Íslandi eða að virkja jafn mikið með kolum erlendis. Með því er gefið í skyn að óbeisluð vatns- og jarðvarmaorka sé hvergi til nema á Íslandi.

Hið rétta er að slík orka á Íslandi er langt innan við eitt prósent af samsvarandi orku í öðrum heimsálfum og öll orka Íslands er svo lítið brot af einu prósenti af orkuþaörf mannkyns, að það tekur því ekki að nefna það.

Vel er ef Þórunn Sveinbjarnardóttir stendur við þau stóru orð á Umhverfisþingi í haust að hún ætlaði að vera andófsmaður í ríkisstjórn. En miklu betur má ef duga skal.


mbl.is Umhverfisráðherra vill ekki fleiri álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að stilla upp við vegg - aðferðin.

Iðnaðarráðherra hefur nú slegist í hóp þeirra sem beita  "að stilla upp við vegg - aðferðinni", sem hefur svínvirkað í virkjanamálum. Dæmi: Fyrst var sagt að 120 þúsund tonna álver nægði fyrir Austurland og aðeins Jökulsá í Fljótsdal virkjuð. Þegar búið var að reka málið nógu lengi og kosta í það fé var stillt upp nýrri stöðu: Álverið ber sig ekki nema það sé þrefaldað að stærð og báðar austfirsku jökulárnar teknar.

Í Helguvík er mönnum hvað eftir annað stillt upp við vegg með vígsluathöfnum og yfirlýsingum sem ráðherrar SF taka þátt í.

Fyrir norðan á að keyra álver áfram þótt vanti losunarheimildir og óvíst sé um orku. Loforð SF um að ekki verði farið inn á óröskuð svæði verður svikið með því að beita Ingólfsfjallsaðferðinni á háhitasvæðið fyrir austan og norðaustan Mývatn með umhverfisspjöllum sem ég mun rekja nánar síðar. 

Ingólfsfjallsaðferðin fólst í því að jarðýta ruddi braut frá gryfjum í fjallsrótum upp á fjallsbrún og síðan var allt fjallið skilgreint sem eitt og sama óslitna malargryfjusvæðið, - þess vegna hægt að halda áfram með gryfjurnar norður allan Grafning!  

Greinilegt er að Leirhnjúkur og Gjástykki eru með Ingólfsfjallsaðferðinni skilgreind sem hluti af Kröflusvæðinu og þess vegna hægt að halda áfram norður í Öxarfjörð og suður í Fremri-Námur og Öskju til suðurs með Ingólfsfjallsaðferðinni.  

Framlenging mjög hæpins rannsóknarleyfis í Gjástykki tveimur dögum fyrir kosningar sýnir að Össur samþykkir Ingólfsfjallsaðferðina ljúflega fyrir norðan.

Ef í ljós kemur að orkan verður ekki nóg á háhitasvæðunum þarna verður mönnum síðar stillt upp við vegg og neyddir til að taka Skjálfandafljót og árnar í Skagafirði. Og fínt að eiga Jökulsá á Fjöllum til vara, enda fyrir hendi flott áætlun um að virkja Dettifoss og hleypa 160 rúmmetra rennsli á hann á ferðamannatímanum. (Að sumarlagi er rennslið venjulega 2-3svar sinnum meira en það).

Fyrir liggur rannsókn á viðbrögðum erlendra ferðamanna við svo litlu rennsli kuldatímabil eitt smemmsumars og var niðurstaðan sú að "enginn kvartaði", allir trúðu því að þetta væri kraftmesti foss Evrópu.  


Spurning um birtingu, - ekki töku.

Eftir nær fjögurra áratuga reynslu af því að koma á alla stórslysastaði þessara ára er niðurstaða mín þessi: Taka á allar þær myndir, sem mögulegt er að taka, bæði nærmyndir og fjarmyndir. Ef það er ekki gert geta glatast heimildir fyrir komandi tíma eða gögn vegna rannsóknar. Stóra viðfangsefnið og það vandasamasta er birtingin.

Sumar myndirnar geta verið þess eðlis að þær skuli aldrei birta almenningi. Sumar myndirnar kunna að vera þannig að geyma skuli þær óbirtar í ákveðinn tíma, allt að 75 árum (samanber lög um grafarhelgi).
Þegar um er að ræða myndir teknar í mismunandi fjarlægð skal gæta þess við fyrstu birtingu að sýna tillitssemi við aðstandendur og aðra með því að birta myndir, sem gefa áhorfandanum það til kynna að fyllsta tillitssemi sé viðhöfð.
Fréttaljósmynd 20. aldar var að mínum dómi mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourqois Pas? Sagði meira en þúsund orð. Á okkar tímum væri hætta á að yfirvald á staðnum bannaði í fljótræði að taka slíka mynd.
Í fyrsta stórslysinu, sem ég kom að, snjóflóðinu í Neskaupstað, heyktist ég á því að taka mynd, sem hefði getað orðið táknrænasta myndin af þeim harmleik einhvern tíma í framtíðinni. Ég tel ekki rétt að óathuguðu máli að segja frá því nú, hvert myndefnið var.
Á Súðavík glötuðust ómetanleg gögn vegna reynsluleysis stjórnenda á staðnum. Á Flateyri höfðu menn lært og valdir voru tveir menn, reyndasti ljósmyndarinn og reyndasti kvikmyndatökumaðurinn, til að fara inn á svæðið og taka myndir fyrir alla fjölmiðla.
Allar myndir, sem hægt var að taka, voru teknar og síðan valið úr til birtingar.

mbl.is Umhverfisráðuneytið furðar sig á ályktun Blaðamannafélagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þú komst í hlaðið á hvítum birni..."

Þetta endar með því að ljóð Davíðs verður sungið á ofangreindan veg. Og líka verður frétt um það að hvítur björn hafi sést á ferli í Elliðaárdal, en í ljós hafi komið að þetta hafi verið Björn Bjarnason í sólbaði.

Annars er nafnið Björn handhægt. Björn heitinn Þórhallsson gerði mér eitt sinn greiða og fékk þessa limru að launum, þar sem ensku og íslensku er blandað saman:

Víst ertu snjall og vís, Björn /

og vin engan betri ég kýs, Björn. /

You solve my case /

and save my face /

so sweetly with grace and ease, Björn.


mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álverin sem "bjarga þjóðinni".

Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var í Kastljósi Sjónvarpsins 20. desember 2001 spurð álits á úrskurði Sivjar Friðleifsdóttur um Kárahnjúkavirkjun, sagði hún að Siv hefði "bjargað þjóðinni". Þetta er sagt í hvert skipti sem umræða um ný álver og virkjanir kemur upp, - álverin hafa hvert og eitt bjargað þjóðinni í 40 ár og í leiðara Morgunblaðsins sagði að stóriðja væri orðin einn af þremur höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, hinir væru sjávarútvegur og fjármálaþjónusta.

Ferðaþjónustan komst ekki á blað hjá leiðarahöfundi og "álið er komið fram úr fiskinum" sagði í frétt í blaðinu. Skoðum það nánar.

Í álverum landins vinna nokkuð á annað þúsund manns, eða innan við 1% af vinnandi fólki  á Íslandi. Samanlagt er álframeiðslan um 3% af þjóðarframleiðslunni.

Álútflutningurinn vegur að vísu þungt í gjaldeyristekjum en ævinlega er því sleppt að í hvert skipti sem nýtt álver tekur til starfa og eykur útflutninginn, eykst innflutningurinn líka í formi súráls og báxíts, því að framleiðslan byggist á því að flytja inn hráefni yfir þveran hnöttinn og breyta því í annað hráefni. Fiskurinn kemur hins vegar beint upp úr sjónum í lögsögu landsmanna.

Ef öll virkjanleg orka landsins verður virkjuð munu innan við 3% prósent landsmanna vinna í álverunum og "bjarga þjóðinni." "Það verður hlutverk þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi" svaraði einn ráðherranna 1998 þegar ég spurði hann hvað ætti að gera til að bjarga þjóðinni þegar ekki væri hægt að virkja meira.

Víst er þetta hrædd þjóð eins og Andri Snær Magnason orðaði svo vel í "Framtíðarlandinu". Þjóð sem sífellt þarf að bjarga hlýtur að vera að farast, - aftur og aftur.  


"They shoot horses, don´t they?

Ísbjarnarsporin á Kili varpa upp fullt af skemmtilegum sjónarhornum. Kannski var þarna um að ræða misskilning á milli pólsku ferðamannanna og Íslendinga. Pólverjarnir sögðust þekkja bjarndýraspor úr heimalandi sínu og hafa kannski talað um "polish bear" á þann hátt að það skildist sem "polar bear."

Sjálfur er ég gagnrýninn þessa dagana á það að hafa ekki áttað mig á því strax að eina rétta aðferðin til að skjóta deyfilyfi í ísbjörn er að gera það úr þyrlu.

Það segi ég vegna þess að mér er í fersku minni að fyrir rúmum áratug voru stundaðar mjög umdeildar refaveiðar í Bandaríkjunum þar sem veiðimenn voru í hægfleygum flugvélum og eltu refi og skutu þá. Auðvitað er enn auðveldara að skjóta stærðar ísbjörn úr jafn lipru farartæki og þyrlu.

Frétt Kristjáns Más Unnarssonar með viðtalinu við Íslendinginn sem hafði stundað eltiingarleik við ísbirni úr þyrlu veitt meiri upplýsingar um það hvernig hægt sé að standa að þessu en allar aðrar fréttir fram  að því og fráleitt að reynsla manns úr miðborg Kaupmannahafnar væri marktækari en reynsla manna sem hafa sjálfir mikla reynslu á þessu sviði úti í sjálfri náttúrunni.


mbl.is Hálendisbjörn trúlega hross
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt brýnasta viðfangsefnið núna.

Djúpboranir eru eitthvert brýnasta stórverkefni okkar tíma, sem verður að setja eins mikinn kraft í og mögulegt er. Í hefðbundnum borunum er nú sótt allt of fast og hratt í þann jarðvarma sem ofar liggur. Þegar stór jarðvarmasvæði eru blóðmjólkuð svo mjög að þau taka að kólna eftir nokkrar áratugi er í raun ekki um endurnýjanlega orku að ræða.

Kynslóðir framtíðar verða þá að finna orkuna annars staðar og stefna í jafnvel enn meiri eyðileggingu ómetanlegra náttúrverðmæta en nú er stefnt að. En sú vegferð er svo hröð að hugsanlega yrði búið að umturna allt of stórum svæðum þegar í ljós gæti komið að þess hefði ekki þurft, heldur hægt að láta nægja að ná margfaldri orku úr þeim svæðum sem þegar hafa verið tekin til virkjunar.  


mbl.is 3,5 milljarðar í djúpborun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferskur handboltaandblær í fótboltann.

Mikið óskaplega var gaman að horfa á leik Rússa í kvöld þegar þeir rassskeltu hugmyndasnauða Svía. Hraðaupphlaup Rússa minntu á hraðaupphlaup í handbolta og þau splundruðu ráðvilltri vörn Svía. Hvað eftir annað voru minntu þessar sóknir á hinar frægu sóknir gullaldarliðs Ungverja á árunum 1950-56 þar sem boltinn gekk ógnarhratt á milli framherja sem geystust upp í samfelldar og tafarlausar sóknir á ógnarhraða.

Maður var að vona að Svíar hefðu lært eitthvað í seinni hálfleik en það var öðru nær. Þegar þeir náðu boltanum léku þeir oftast upp vinstri kantinn og boltanum var þá hvað eftir annað eikið aftur á meðan verið var að stilla sókninni upp og sænsku framherjarnir að koma sér fyrir í teignum.  

Framherjar Svía hrúguðust þá í hnapp vinstra megin við miðju og oftast var enginn Svíi hægra megin við miðjuna. Rússar fengu nógan tíma til að stilla vörninni upp og réðu oftast auðveldlega við háu sendingarnar sem komu utan af vinstri kantinum inn á þéttan hóp leikmanna þar sem Svíarnir nánast hjálpuðu Rússunum við að mynda múr af mönnum sem ekki var hægt að koma boltanum í gegnum.

Í leik Rússa við lið eins og lið Hollendinga verður spennandi að sjá hvort slíkir andstæðingar muni refsa Rússunum fyrir að geysast svona margir fram með því að fara í óslitið og gagn-hraðaupphlaup þegar Rússar missa boltann í vítateig andstæðinganna.

Hraði Ungverjaboltinn er kominn aftur! Gaman! Gaman!

 

 

 

 


mbl.is Rússar komust í átta liða úrslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugbann út úr korti.

Sjálfsagt var og eðlilegt að setja lágflugsbann á Hraun á Skaga og tryggja að ekki kæmist styggð að bjarndýrinu, sem þar var. Sjö mílna fjarlægð og 5000 feta hæð var hins vegar út úr öllu korti í bókstaflegri merkingu. Þetta samsvarar því að bjarndýr væri á ferð í Laugardalnum í Reykjavík og flugvél sem flygi yfir Esjuna í 4500 feta hæð hefði brotið samsvarandi flugbann.

Svona óskynsamlegar og fráleitar reglur letja menn frekar er hvetja til að brjóta þær. Með þessu er á engan hátt afsakað lágflugið sem átti sér stað. En reglur verða að styðjast við skynsamleg mörk og byggjast á þekkingu, sem virðist hafa skort þegar þetta flugbann var ákveðið.


mbl.is Ísbjarna leitað úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband