Ísland skal rísa !

Það blés ekki byrlega fyrir Vestmannaeyjum fyrir rúmum 36 árum. Hraunstraumar ógnuðu bæði byggðinni og höfninni, sem menn sáu fram á að gæti lokast. Ógleymanlegt er kvöldið þegar suðaustan hvassviðri feykti glæringum inn um glugga á húsum og kveikti í þeim.

Í umræðuþætti í sjónvarpi ræddu menn um þann möguleika að flytja byggðina að Dyrhólaósi og gera þar höfn. Þegar sú umræða var komin hvað lengst, sagði Ólafur Jóhannesson hátt og snjallt og af miklum þunga: "Vestmanneyjar skulu rísa!"

Þetta var vendipunktur í umræðunni þetta kvöld og við vitum um framhaldið.

Nú sér maður hugmyndir manna sem eru tilbúnir til að fórna mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru hennar, með því að virkja allt sundur og saman og selja með allt að 30% orkutapi á útsölu og heildsölu til útlanda, og skuli andvirðið renna í Icesave-skuldirnar.

Slíkar hugmyndir eru jafnvel verri en þær að afsala auðlindum landsins til lands og sjávar til útlendinga því að þær bera í sér stórfellda og óáfturkræfa eyðileggingu stærstu auðlindar landsins um þúsundir ára.  

Þessar hugmyndir eru jafnvel verri en að selja handritin útlendingum.  

Það er sótt að Íslandi bæði utan frá og innan frá. Ég heyri fyrir mér í þungri röddu Ólafs Jóhannessonar þegar hún myndi hljóma ef hann væri á lífi: "Ísland skal rísa!"


mbl.is Umsátur um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekinn tvisvar vegna óíslenskrar tillitssemi !

Þessa helgi verð ég á ferð með hópi fólks um Þeystareyki, Leirhnjúk og Gjástykki.

Til að undirbúa ferðina sem best og hafa sem besta aðstöðu og tækjakost, ákvað ég að fara norður í jómfrúarferð á aldarfjórðungsgömlum frambyggðum Rússajeppa, sem er ódýrasti húsbíll landsins, og ég hef haft undir höndum.

Á myndunum er hann kominn til Akureyrar, en á tímabili var vafasamt að hann kæmist lengra en í Langadal.  

P1010024

Þessi gamli bíll getur haldið yfir 90 kílómetra hraða á jafnsléttu en þá er hin gamla og slitna vél þanin til hins ítrasta bensíneyðslan eykst og þetta er ekki góð meðferð á bílnum.

Ég ók því yfirleitt á um 75-80 km hraða og gat hvort eð er ekki haldið 90 km hraða upp bröttustu brekkurnar.

Þetta var samt skemmtileg ferð vegna þess viðfangsefnis sem var stanslaust alla leið, að vera ekki til trafala fyrir aðra og hraðskreiðari bíla.

Alla leiðina var ég með augun á baksýnisspeglunum og oftast tókst mér að hleypa öðrum bílum fram úr mér án þess að þeir tefðust.

Þá vék ég eins vel og ákveðið út á hægri kantinn og mér var unnt og gefa stefnuljós sem benti þeim á að ég vildi hjálpa til við framúraksturinn.

Þegar þeir fóru fram úr hægði ég á mér svo að framúraksturinn tæki sem minnstan tíma.

Slíkt athæfi er að vísu fáheyrt á Íslandi. "Lestarstjórar" eru fleiri hér á landi en í nokkru öðru land, víkja ekki út á vegaxlir og virðast jafnvel gera í því að gera framúrakstur sem erfiðastan eða ómögulegan.

Um daginn var ég í tveggja kílómetra langiri bílalest á eftir einum slíkum sem hélt sig kyrfilega inni við miðju vegar á 70 km hraða og hægði á sér niður í 55 ef hann mætti bíl. ég hafði ánægju af að fást við þetta.

Minnugur þess hve þetta ergði greinilega marga í lestinni fannst mér nú komið tækifæri fyrir mig til að ergja ekki aðra vegfarendur heldur gleðja þá.  

 Ég varð oft var við að bílstjórarnir á eftir mér "lásu" ekki veginn framundan, biðu of lengi með framúraksturinn svo að þeir misstu af tækifærinu eða reyndu framúrakstur þegar blint var framundan og ég hafði séð nokkru fyrr að bíll kom á móti.

Kom því stundum fyrir að ég hélt mig vel við miðlínu og gaf meira að segja einu sinni stefnuljós til vinstri til að aðvara þann sem vildi fram úr beint í flasið á bíl sem kom á móti.

Aðalatriðið var að mér tókst að koma í veg fyrir að ég yrði "lestarstjóri" að óþörfu og valda töfum og hættu.

Í Langadal gerðist hins vegar einstakt atvik. Lögreglan tók mig tvisvar með litlu millibili! Blikkandi ljós og allur pakkinn.

Slíkt hendir hinn almenna bílstjóra varla nokkurn tíma.

Í fyrra skiptið komu þeir á eftir mér og sögðust stöðva mig vegna ábendingar sem þeir hefðu fengið um það að akstur minn væri óvenjulegur og að stundum færði ég bílinn skyndilega frá miðju út á kant.

Þetta teldist það óvenjulegt að rétt væri að gæta að því hvort ökumaðurinn væri ölvaður eða eitthvað annað að hjá honum eða jafnvel bæði honum og bílnum.

Eftir að ég útskýrði málið, leyfðu þeir mér að halda áfram. Ég hafði reyndar vikið alveg sérstakega fljótt og vel fyrir þeim vegna þess að ég hélt að þeir væru að elta hraðskreiðari bíla sem höfðu rétt áður farið fram úr mér.

Var svo sannfærður um þetta eftir að þeir stöðvuðu mig að ég álpaðist til að segja við þá að radarinn hjá þeim væri áreiðanlega skakkur um minnst 20 km ef hann sýndi mig á ólöglegum hraða.

Ég fékk að halda áfram en Adam var ekki lengi í paradís. Nokkrum kílómetrum seinna komu þeir aftur á eftir mér með blikkandi ljós og stöðvuðu mig í annað sinn.

Og nú sögðu þeirra að málið væri alvarlegra. Ég væri nefnilega á óökuhæfum bíl, sem búið væri að taka úr umferð og mætti því alls ekki vera á ferli !

Það þótti mér skrýtið vegna þess að á bílnum voru númer með merkinu 09 og bílnúmerið var HS 877 sem þýddi að hann ætti ekki að fara í skoðun fyrr en í næsta mánuði.

Þeir sögðu að þetta númer tilheyrði bíl af Nissangerð.

Það þótti mér enn furðulegra vegna þess að gamla Rússabeljan var nokkurn veginn ólíklegasti bíll sem hugsast gat að væri japanskur, hvað þá Nissan.

Mér leist ekkert á blikuna. Ætlaði fyrst að sýna þeim einn mælanna á bílnum, sem var með rússneskri áletrun. Hætti samt við það því að kannski leit það í þeirra augum út eins og austurlenskt letur.

Ljóst var að ekki var nóg að sýna þeim fram á að þetta væri rússneskur bíll af gerð, sem á árum áður var mikið notaður sem skólabíll í dreifðum byggðum landisns. Ef þetta var reykvísk vegalögga og mennirnir ungir vissu þeir auðvitað ekkert um það.

Mér flaug í hug að segja þeim að svona bílar sæust á öllum fréttamyndum af hernaðaraðgerðum Rússa, allt frá Póllandi til Afganistan, en hætti við það. Það var alls ekki víst að þeir horfðu svona vel á fréttamyndir.

Og þá blasti hitt við, sem ekki var betra: Að ég hefði svindlað á kerfinu, stolið númerum af öðrum bíl og sett á þennan, sem jafnvel væri líka stolinn.

Ég spurði hvers vegna þeir héldu að þetta væri afskráður og óökuhæfur Nissan-bíll eða bíll með fölskum númerum.

Þeir sögðu, að eftir að þeir tóku mig í fyrra skiptið hefðu þeir hringt suður í upplýsingamiðstöð í Reykjavík, sem hefði gefið þeim þessar upplýsingar.  Svona eiga rannsóknarlögreglumenn að vera ! 

Rússabeljan er breið og langt yfir í hanskahólfið. Ég lagðist nánast á hliðina og fálmaði óstyrkur yfir þveran bílinn yfir í hanskahólfið, og fann þar tvö skoðunarskírteini.

Á þeim voru upplýsingar um Rússajeppann frambyggða, en tegundarnúmerið UAZ 452 sagði svo sem ekkert um það út af fyrir sig að þetta tegundarheiti táknaði Rússajeppa. Nema þeir væru bílafrík eins og ég.

Hins vegar sýndu þessir pappírar að bíllinn hefði flogið tvisvar athugasemdalaust í gegnum skoðun árin 2007 og 2008, hvort sem tegundarheitið UAZ 452 táknaði Rússajeppa eða Nissan.

Ég var svo sem ekkert viss um að þetta dygði. Úr því að þeir gáfu sér þann möguleika að bíllinn væri á stolnum númerum og jafnvel sjálfur stolinn, gat svo sem alveg eins verið að ég hefði falsað skoðunarvottorðin.

Þeir báðu mig afar kurteislega um að bíða og fóru yfir í lögreglubílinn á meðan. Þetta mál þarfnaðist greinilega ítarlega rannsóknar enda mjög dularfullt.

Þetta voru afar viðkunnanlegir ungir menn. Ég naut þess að hafa verið stöðvaður í dalnum mínum kæra, þar sem ég hafði verið í sveit. Eftir nokkra stund komu þeir aftur.

Þeir höfðu greinilega aftur haft samband við miðstöðina í Reykjavík og sögðu, að hugsanlega hefði rangur innsláttur eða einhver tölvuvilla valdið þessum leiða misskilningi.

Báðu mig afsökunar á töfinni. Ég svaraði því til að það væri ekkert að afsaka því að þvert á móti væri þetta mál allt, hin grunsamlega og óíslenska tillitssemi mín í akstri og hugsanlegur númera- og bílastuldur, ef ekki skjalafals, alveg stórkostlega og skemmtileg upplifun fyrir mig sem ég hefði alls ekki viljað missa af.

Auðvitað var þetta bráðskemmtilegt, - það eru ekki margir bílstjórar sem eru stöðvaðir tvisvar af sömu löggunni með nokkurra mínútna millibili af jafn skemmtilegum ástæðum.

Ég stillti mig um að segja frá því þegar lögreglan stöðvaði mig einu sinni í Reykjavík fyrir að hafa stolið eigin bíl, en það er alveg einstaklega skemmtileg saga af dásamlegri uppákomu og misskilningi.

Þessir strákar voru svo ljúfir og kurteisir, bara að vinna vinnuna sína af alúð, og rákust á tvö óvenjuleg tilfelli hjá sama ökumanninum, aldeilis dæmalaust óíslenskt og grunsamlegt atferli í umferðinni og Rússajeppa sem var skráður sem óökufær Nissan.

P1010027

 

Einu sinni gerði ég þessa vísu um Blönduóslögguna:

 

Ef bíla snögga ber við loft /

brátt má glögga sjá /

því Blönduóslöggan æði oft /

er að bögga þá.

 

En nú kemur þessi:

 

Ef bíla ljúfa ber við loft, /

brátt má hrjúfa sjá, /

því löggan bljúga æði oft /

vill ýmsu trúa á þá.

 

Góða umferðarhelgi !    

 

 

 

 


Svar frá Leirhnjúki?

Enn og aftur er fjallað um djúpborunina hjá Leirhnjúki án þess að sýna myndir af borsvæðinu og afstöðu þess til Leirhnjúks.

P1010033

Myndin af stöðarhúsinu í Morgunblaðinu segir nákvæmlega ekki neitt um það hvernig borstaðurinn og umhverfi hans líta út.

Á myndinni hér við hliðina sést hvernig borstaðurinn með tilheyrandi óafturkræfu raski er mitt á milli Leirhnjúks og sprengigígsins Vítis veldur raski ásamt leiðslum og öðrum sem virðast hafa runnið í ljúflega í gegnum kerfið, þrátt fyrir loforð fyrrverandi umhverfisráðherra um að ekki yrði hróflað við Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu nema eftir ítarlegar rannsóknir, umræður og samþykki Alþingis. 

Barmur Vítis er næst okkur á myndinni, en Leirhnjúkur er fjær.

P1010028

 

 

Búið er að bora þrjár holur við eystri barm Vítis, sem neðsta myndin á síðunni er af.

Hann miklu flottari og merkilegri sprengigígur en Kerið í Grímsnesi, eins og sést á mynd númer þrjú.

Engum myndi detta í hug að fara með Kerið eins og sést að farið hefur verið með Víti á neðstu myndinni, þar sem glyttir í Leirhnjúk í gegunum gufuna úr blásandi holu.

P1010036

 

 

Ég er einmitt á ferð um þetta óskasvæði Landsvirkjunar til að undirbúa hópferð um það um helgina.

 

Vísa í fyrra blogg mitt um möguleikana sem það býður upp á, ef sóknin norður frá Kröflu verður stöðvuð.

DSCF5485

Ég hef áður bloggað um það að Landsvirkjun virðist sækja það sem fastast að bora þannig við Leirhnjúk og inn með honum að svæðið hætti að verða stórkostlegt ósnortið heimsundur ásamt Gjástykki, heldur breytist í iðnaðarsvæði sem líkast því sem er á Hellisheiði.

 

 

Af hverju valdi LV sér ekki holu til þess arna á skárri stað umhverfislega séð?

Nær Kröflu eða á borsvæðunum sem þegar eru komin á Hellisheiði?  

Það gaus í Leirhnjúki í 1500 metra fjarlægð frá borholunni 1975 og aftur síðar.

Skammt frá borstaðnum sem nú er notaður var boruð hola sem mistókst algerlega 1975 og hlaut nafnið Sjálfskaparvíti.

P1010022

 

 

Kannski er það vitleysa ef leikmanni dettur í hug að eftir því sem nær gosstaðnum komi sé styttra niður á bráðið berg. En ef svo er, er Leirhnjúkur að svara fyrir sig.

Verst er að líklegast er að í staðinn verði ný hola boruð þannig að eyðilegging svæðisins verði enn meiri en hún er þegar orðin.


mbl.is Borað niður á bráðið berg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versta staðan síðan á 18. öld?

Íslendingar bjuggu nær eingöngu í torfbæjum á átjándu öld. Ráðandi öfl stóðu í vegi fyrir þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna og umbótum í útgerð. Munurinn á húsakosti Íslendinga og nágrannaþjóðanna var æpandi.

En með byggingu fangelsis við Arnarhól, sem síðan var breytt í stjórnarráðshús, varð staða fangelsismála eitt af því fáa hér á landi sem hægt var að segja að nálgaðist stöðu mála í öðrum löndum hvað húsakost snerti.

Þess vegna er það athyglisvert ef húsakostur í fangelsismálum er nú kominn hinum megin í litrófið, - að verða það svið þjóðlífsins sem stendur ástandi í öðrum löndum mest að baki.

Hlutverk fangelsa á að vera að menn uppskeri eins og þeir hafa sáð og taki afleiðingum gjörða sinna. Að þeir séu undir eftirliti meðan þetta fer fram og öryggi borgaranna tryggt. Skortur á fangelisrými grefur að þessu leyti undan tilganginum, réttarríkinu og öryggi borgaranna.

En þetta kerfi dóma og refsinga á líka að gefa þeim, sem brotið hafa af sér, kost á bót og betrun, sér og þjóðfélaginu til heilla.

Það eru einföld mannrétttindi þeirra, sem þetta vilja og þetta gera af heilum hug, að þeir þurfi ekki að bíða eftir því að geta hafið afplánunina, jafnvel von út viti. Það getur ekki verið réttlæti í því að seinka þeim degi þar sem viðkomandi á þess kost að stíga út í lífið að nýju, nýr og betri maður, eftir að hann hefur sannanlega afplánað þá refsingu sem honum bar.

Það er heldur ekki viðunandi fyrir öryggi almennings að afbrotamenn gangi lausir vegna húsnæðisvandræða. Ástand mannréttinda er heldur ekki í lagi þegar svona er komið málum.

Við hljótum að geta gert betur en gert var á dögum Jóns Hreggviðssonar.  

 


mbl.is Alvarleg staða í fangelsum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítur á myndum, - leynd hætta.

Nú eru liðnir nokkrir mánuðir frá því að ég fór að birta ljósmyndir hér á blogginu. Hefði mátt byrja á því fyrr því að orðtakið að ein mynd geti sagt meira en þúsund orð hefur stundum fullt gildi.

Ég ákvað því að bíta á jaxlinn og fá mér sæmilega myndavél með nógu góðri upplausn, þetta 10-12 milljón pixla, til þess að þær nýttust fyrir fjölmiðlun. Fyrir valinu varð lítil og handhæg myndavél með 12 milljón pixla upplausn. 

Um daginn kom hins vegar babb í bátinn. Í ferð austur á hálendið, sem var snævi þakið, komu í ljós gráir og dökkir flekkir og dílar á myndunum. Við þetta mátti ekki við búið standa því þessar myndir voru ónothæfar og hluti dýrrar ferðar ónýttist.

IMGP0005

Skoðið þið myndina hér við hliðina og sjáið dökka blettinn neðst við jaðar Sandfells við Hálslón og þrjá flekki efst til vinstri.

Það þarf ekki einu sinni að stækka myndina með því að smella á hana í tveimur árföngum til að sjá þetta, svo áberandi eru þessar skemmdir.

Ég hóf því að kynna mér málið og ná mér í upplýsingar um hverju þetta sætti. Niðurstaðan varð þessi:

Venjulegar vasamyndavélar eru ekki vatns- eða rykþéttar. Með tímanum sest skítur á myndflögurnar og koma fram flekkir og dílar á þeim flötum myndanna sem eru sléttir, svo sem bláum himni eða hvítum snjó.

Ef fólk er á ferðinni í rykmettuðu lofti getur þetta gerst furðu fljótt. Líka ef myndavélin er í skítugum vasa.  

Hægt er að láta hreinsa þennan skít af flögunum, en þá er myndavélin ekki í notkun á meðan og þetta getur kostað allt að tíu þúsund krónur í hvert skipti. 

Kannski geta kunnáttumenn lagað myndirnar eftirá en mér finnst þetta ekki viðunandi.  

Flestir láta þetta ekki skipta sköpum við myndatökur við venjulegar aðstæður þegar flekkirnir hverfa í myndflötinn eða virkja eins og skuggar af skýjum eða einhverju öðru. En síðan koma aðstæður þar sem þetta er stórskemmd á myndunum. 

Hins vegar eru til litlar myndavélar sem eru vatnsheldar og rykheldar, þola meira að segja að fara niður á þriggja metra dýpi.

Mín lausn fólst því í að fá mér slika myndavél en gjarnan hefði ég viljað vita það fyrirfram að svona væri í pottinn búið.

Síðan er hins að geta að stærri myndavélar eru flestar með svonefndum sjálfhreinsibúnaði. Miðað við fjárfestinguna í slíkri vél verður kaupandinn að ganga úr skugga um að svo sé. 

Einnig má geta þess, að upplausnin, sem gefin er upp, svo sem 10 milljón pixlar, segir ekki nema hluta sögunnar af því hver gæði viðkomandi myndavél býður upp á.

Linsur og önnur atriði svo sem stærð vélarinanr skipta meira máli, sem sést á því að margar af bestu stafrænu myndavélunum undanfarin ár hafa aðeins boðið upp á ca 10 milljón pixla.

Ég tel að sölumenn myndavéla eigi að fræða kaupendurna um þau atriði sem hér hafa verið reifuð.  

 


Þarf MH áfallahjálp?

Svo er að sjá af fréttum af bálreiðum foreldrum að MH og fleiri menntaskólar séu svo lélegir að nemendur, sem í þeim lenda þurfi áfallahjálp. Samkvæmt þessu hefðu sex af sjö börnum okkar hjóna þurft áfallahjálp á sínum tíma vegna þess að aðeins eitt barnið fór í M.R.

Hin fengu menntun í MH og Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Í öllum tilfellum var þetta val þeirra sjálfra en ekki virtist um það að ræða að við sem foreldrar þeirra hefðum brugðist þeim með því að krefjast þess ekki af þeim að ganga í M.R. eða Versló.

Ef það er rétt hjá móður stúlku í Hagaskóla að aðrir menntaskólar en M.R. og Versló séu svo lélegir að börn, sem ekki komast í þá, þurfi áfallahjálp má spyrja á móti hvort til dæmis M.H. þurfi ekki áfallahjálp vegna þess harða dóms sem gefið er í skyn að foreldrar fella yfir þeim skóla og öðrum.

Við hjónin fórum ekkert á límingunum vegna þess í hvaða skóla börnin okkar fóru. Ekki er að sjá, að þeir þrír skólar sem þau gengu í, hafi haft slík úrslitaáhrif á menntun þeirra og gengi í lífinu að mismun sé að sjá þar á.


mbl.is Foreldrar bálreiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbeinn kostnaður af gervigrasinu.

Ég var að koma frá sérfræðingi í fótaaðgerðum. Við ræddum um afleiðingar slæmrar meðferðar á fótum vegna ofreynslu á hné, ökkla og mjaðmir, einkum hné.

Hann sagði mér að með tilkomu gervigrasvallanna hefði tíðni meiðsla og slits í þessum liðum farið mjög vaxandi og greinilegt væri að þarna væri samband á milli.

Fróðlegt væri ef úttekt yrði gerð á þessu. Fyrir utan þjáningar og vinnutap væri hugsanlega hægt að slá á það hvað óhæfileg notkun þessara valla kostaði þjóðfélagið í beinhörðum peningum sem fara forgörðum í heilbrigðis- og tryggingarkerfinu.

Hreyfing og íþróttir eru bráðnauðsynlegar og mikils virði fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði. En það er líklega ekki sama hvernig þær eru stundaðar. Það er mikilvægt að allar hliðar þess máls séu skoðaðar vel.


Varðar mestu að klekkja á keppinautunum?

Vegna þess að ég var og verð fréttamaður til æviloka er ég með tvo farsíma til þess að ég geti helst alltaf svarað tafarlaust í annan þeirra og að ég verði aldrei sambandslaus.

Einnig til að finna týndan síma með því að hringja í hann úr hinum símanum. Hefur komið sér vel ótal sinnum. 

Ég nota 699-1414 til að svara og 892-1414 til að hringja og senda sms-skilaboð.

Að undanförnu hefur verið hringt þrisvar í mig frá öðru símafyrirtækinu til þess að bjóða mér gull og græna skóga, frábær tilboð og hvaðeina, ef ég hætti við að skipta við hitt símafyrirtækið.

Þegar ég hef spurt hvort ekki væri nær að bjóða mér þessi vildarkjör á símanum, sem ég hef hjá fyrirtækinu, sem hringt er fyrir, verður fátt um svör. Nei, það er ekki í boði. Þetta snýst bara um að klekkja á keppinautnum. 

Greinilegt er að þeir / þær sem hringdu vissu það ekki að ég væri með síma hjá báðum fyrirtækjunum og þegar ég svaraði þeim svona virðist áhuginn enginn á að bjóða mér þessi vildarkjör nema ég færði hitt símanúmerið yfir.

Mitt lokasvar í öll skiptin hefur verið það að ég hafi ekki í hyggju að breyta neinu úr því að það er boðið með því skilyrði að ég klekki á samkeppnisaðilanum, sem ég á ekkert sökótt við.

Ég spyr um viðskiptasiðferðið sem liggur að baki ofangreindu. Lærðu menn ekkert af síðustu árum og afleiðingum þess sem þá var spólað upp í hæstu hæðir?

Telst ofangreint vera "tær viðskiptasnilld"?

Við síðasta sölufulltrúann hefði ég kannski átt að segja að fyrirtæki hans ætti skilið að ég segði upp viðskiptum við það. Hefði það ekki bara verið mátulegt á það?   


Smá forsmekkur af framtíð Hálslóns.

Var að koma úr fyrstu ferð yfir Hálslón eftir að snjóa og ísa leysti.

P1010198

Lenti á tveimur stöðum, á Hálsinum og Sauðárflugvelli.

Þótt enn sé ófært bílum um allt nágrenni flugvallarins kemur hann sjálfur frábærlega vel undan vetri, harður og þurr.

Einstætt flugvallarstæði þetta.  

Breytingarnar á lónstæði Hálslóns frá því í fyrra eru miklar og gefa smá forsmekk af því sem er í vændum næstu ár.

Þetta er í fyrsta sinn sem hleypt er úr lóninu um 45 lóðrétta metra.

Ef það yrði gert við Hvalfjörð yrði hann allur á þurru nema einn hylur yst í firðinum.

P1010144

Ég veit ekki um neitt miðlunarlón í Evrópu eða Ameríku sem er neitt líkt þessu lóni.

Hækkun og lækkun eru tíu sinnum hraðari en það hraðasta sem finnst í Ameríku.

Yfir 30 ferkílómetrar eru nú á þurru, þaktir þykku leirlagi sem verður eins og hveiti þegar það þornar.

Athugið að hægt er að skoða þetta betur með því að smella í tveimur áföngum á myndirnar og láta þær fylla út í skjáinn.

Á mynd númer 2 að ofan sjást stíflurnar og Kárahnjúkur á milli þeirra.

P1010148

Vinstra megin við veginn sem sést er lónstæðið á þurru, þakið þykku leirlagi sem er að byrja að þorna.

Á mynd númer 3 sést Sandfell næst okkur, en það verður að eyju síðar í sumar þegar lónið á eftir að hafa náð upp í sárið, sem það sargar hratt inn í fellið.

Þetta fell kallaði einn bloggarinn "eyju" um daginn og dásamaði það hve Kárahnjúkavirkjun myndi gera hana að dásamlegu varpstæði fugla og mikils lífríkis.

Ekki er stingandi strá á "eyjunni" einsg og sjá má og ekki einn einasti fugl. 

P1010109

Lónið var leyft vegna þess að úrskurðað var að enginn vandi væri að stöðva leirfok með því að vökva þessa 30 ferkílómetra og dreifa yfir þá rykbindiefnum.

Á mynd númer 4 er horft yfir hluta foksvæðisins við innanvert lónið þar sem ekki er fært nokkru farartæki.

Leyfið fyrir lóninu byggðist á því að nota flugvélar til að dreifa rykbindiefnum yfir þessar leirur.

Hugsið ykkur að yfir alla byggðina frá Grafarholti út á Seltjarnarnes yrði dreift þykku lagi af fínu hveiti og síðan kæmi sterkur vindur.

Samkvæmt úrskurðinum yrði leikur einn að stöðva leirfokið.

P1010103

Leikur einn að vökva þetta allt eða dreifa yfir það rykbindiefnum þannig að ekkert leirfok yrði.

Á mynd númer 5 er horft til norðurs og er Kringilsárrani, sem áður var friðaður, vinstra megin en grillir í Hálsinn hægra megin.

Skilin á milli þykkrar gróðurþekjunnar í Rananum og sandsins og leirsins í þurru lónstæðinu sjást vel.

Á mynd nr. 6 er horft á þetta nær.

Á miklum meirihluta hinna nýju uppfokssvæða verður engu farartæki við komið á landi.

Það verða engir tankbílar í Kringilsárrana. 

P1010102

 

Í fyrradag voru þegar komnir leirstormar þótt leirinn sé rétt að byrja að þorna.

Ég lenti 16 kílómetra fyrir sunnan Kárahnjúka við enda svokallaðs varnargarðs.

Þaðan sá ég hvorki Kárahnjúk við norðurenda lónstæðisins né Brúarjökul við suðurenda lónstæðisins vegna leir- og sandfoks sem var á svæðum á milli þessara punkta sem eru 25 kílómetra frá hvor öðrum.

Skrifa seinna sérstakan pistil um Kringilsá og eyðingarafl hennar eftir að lónið kom til sögunnar.

P1010133

Frá enda varnargarðsins og suður í jökul eru hátt í tíu kilómetrar og á því vegalausa svæði væri gaman að sjá tankbíla sem gætu dreift vatni yfir víðáttumikla fláka leirs sem þar munu verða æ þurrari næstu vikur.

Á mynd númer 7 hér við hliðina er horft í suður yfir Hálsinn.

Þarna var áður þykkur grænn gróður, en nú breytist þetta æ meira í rjúkandi eyðimörk.

Svonefndur varnargarður sést vinstra megin á myndinni.

Á mynd númer 8 sést að vindur hefur aukist og svæðið að hverfa í leirstorm.  

P1010134

Vestan lónsins eru tuga ferkílómetra svæði þar sem engum farartækjum er fært.

Þar ætla menn líklega að dreifa rykbindiefnum yfir úr flugvélum. Hvaða flugvélum?

Á næstu dögum er von á sveit manna frá Landgræðslunni austur til þess að stöðva sandrokið.

Hálsinn, sem sökkt var, var 16 kílómetra löng bogadregin græn hlíð með nokkurra metra þykkum gróðri.

Í fyrra hafði leirnum ekki tekist að kaffæra gróðurinn að fullu en nú sjást stórir flákar þar sem leirinn hefur kaffært hann og byrjað er að rjúka úr.

P1010119

Þegar myndir birtust af fyrsta sandfokinu þarna í fyrra var hringt í RUV og kvartað yfir lygum fréttarinnar því að rykmekkirnir væru ekki úr lónstæðinu heldur frá bílum ferðamannanna sem brunuðu þarna um til að njóta hins dásamlega útivistarsvæðis sem Landsvirkjun hefði opnað.

Það væri orðið vinsælasta ferðamannasvæði Austurlands og það allt virkjuninni að þakka. 

Ég sá einn bíl á varnargarðinum í fyrradag. Fyrir vestan lónið hefur engum bíl verið fært vegna aurbleytu.

P1010112

Ástandið þarna á ekki eftir að gera neitt nema versna ár frá ári í 10-15 ár sem það tekur fyrir dauðasveitir leirsins að drapa allt líf úr tugmilljónum tonna af jarðvegi og breyta í svipaðar leiru og við Hagavatn sem ekkert þrífst í og engin leið er að stöðva fok úr.  


"Það er gott að..." - 3ja vísa.

Nýjar fréttir berast jafnvel með nokkurra mínútna millibili frá Kópavogi. Orðið dótturfyrirtæki hefur nú öðlast nýja merkingu í íslensku máli.

Hér kemur þriðja vísan í fréttasagnabálkinum, í viðbót við þær tvær sem komu fyrr í dag og voru bloggaðar í hádeginu.

Þessi vísa varð til þegar margumrædd viðskipti bæjarins komust í hámæli og sem fyrr skal lesa síðustu hendinguna með djúpri röddu í gegnum rör: 

 

Út af dótturmálum hópar heyja

hörkuslag, - það er sem bærinn logi. 

Gunnar nú um það vill þetta segja: 

"Það er gott að eiga pabba´í Kópavogi. 


mbl.is Framsókn leggst undir feld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband