Tekinn tvisvar vegna óíslenskrar tillitssemi !

Þessa helgi verð ég á ferð með hópi fólks um Þeystareyki, Leirhnjúk og Gjástykki.

Til að undirbúa ferðina sem best og hafa sem besta aðstöðu og tækjakost, ákvað ég að fara norður í jómfrúarferð á aldarfjórðungsgömlum frambyggðum Rússajeppa, sem er ódýrasti húsbíll landsins, og ég hef haft undir höndum.

Á myndunum er hann kominn til Akureyrar, en á tímabili var vafasamt að hann kæmist lengra en í Langadal.  

P1010024

Þessi gamli bíll getur haldið yfir 90 kílómetra hraða á jafnsléttu en þá er hin gamla og slitna vél þanin til hins ítrasta bensíneyðslan eykst og þetta er ekki góð meðferð á bílnum.

Ég ók því yfirleitt á um 75-80 km hraða og gat hvort eð er ekki haldið 90 km hraða upp bröttustu brekkurnar.

Þetta var samt skemmtileg ferð vegna þess viðfangsefnis sem var stanslaust alla leið, að vera ekki til trafala fyrir aðra og hraðskreiðari bíla.

Alla leiðina var ég með augun á baksýnisspeglunum og oftast tókst mér að hleypa öðrum bílum fram úr mér án þess að þeir tefðust.

Þá vék ég eins vel og ákveðið út á hægri kantinn og mér var unnt og gefa stefnuljós sem benti þeim á að ég vildi hjálpa til við framúraksturinn.

Þegar þeir fóru fram úr hægði ég á mér svo að framúraksturinn tæki sem minnstan tíma.

Slíkt athæfi er að vísu fáheyrt á Íslandi. "Lestarstjórar" eru fleiri hér á landi en í nokkru öðru land, víkja ekki út á vegaxlir og virðast jafnvel gera í því að gera framúrakstur sem erfiðastan eða ómögulegan.

Um daginn var ég í tveggja kílómetra langiri bílalest á eftir einum slíkum sem hélt sig kyrfilega inni við miðju vegar á 70 km hraða og hægði á sér niður í 55 ef hann mætti bíl. ég hafði ánægju af að fást við þetta.

Minnugur þess hve þetta ergði greinilega marga í lestinni fannst mér nú komið tækifæri fyrir mig til að ergja ekki aðra vegfarendur heldur gleðja þá.  

 Ég varð oft var við að bílstjórarnir á eftir mér "lásu" ekki veginn framundan, biðu of lengi með framúraksturinn svo að þeir misstu af tækifærinu eða reyndu framúrakstur þegar blint var framundan og ég hafði séð nokkru fyrr að bíll kom á móti.

Kom því stundum fyrir að ég hélt mig vel við miðlínu og gaf meira að segja einu sinni stefnuljós til vinstri til að aðvara þann sem vildi fram úr beint í flasið á bíl sem kom á móti.

Aðalatriðið var að mér tókst að koma í veg fyrir að ég yrði "lestarstjóri" að óþörfu og valda töfum og hættu.

Í Langadal gerðist hins vegar einstakt atvik. Lögreglan tók mig tvisvar með litlu millibili! Blikkandi ljós og allur pakkinn.

Slíkt hendir hinn almenna bílstjóra varla nokkurn tíma.

Í fyrra skiptið komu þeir á eftir mér og sögðust stöðva mig vegna ábendingar sem þeir hefðu fengið um það að akstur minn væri óvenjulegur og að stundum færði ég bílinn skyndilega frá miðju út á kant.

Þetta teldist það óvenjulegt að rétt væri að gæta að því hvort ökumaðurinn væri ölvaður eða eitthvað annað að hjá honum eða jafnvel bæði honum og bílnum.

Eftir að ég útskýrði málið, leyfðu þeir mér að halda áfram. Ég hafði reyndar vikið alveg sérstakega fljótt og vel fyrir þeim vegna þess að ég hélt að þeir væru að elta hraðskreiðari bíla sem höfðu rétt áður farið fram úr mér.

Var svo sannfærður um þetta eftir að þeir stöðvuðu mig að ég álpaðist til að segja við þá að radarinn hjá þeim væri áreiðanlega skakkur um minnst 20 km ef hann sýndi mig á ólöglegum hraða.

Ég fékk að halda áfram en Adam var ekki lengi í paradís. Nokkrum kílómetrum seinna komu þeir aftur á eftir mér með blikkandi ljós og stöðvuðu mig í annað sinn.

Og nú sögðu þeirra að málið væri alvarlegra. Ég væri nefnilega á óökuhæfum bíl, sem búið væri að taka úr umferð og mætti því alls ekki vera á ferli !

Það þótti mér skrýtið vegna þess að á bílnum voru númer með merkinu 09 og bílnúmerið var HS 877 sem þýddi að hann ætti ekki að fara í skoðun fyrr en í næsta mánuði.

Þeir sögðu að þetta númer tilheyrði bíl af Nissangerð.

Það þótti mér enn furðulegra vegna þess að gamla Rússabeljan var nokkurn veginn ólíklegasti bíll sem hugsast gat að væri japanskur, hvað þá Nissan.

Mér leist ekkert á blikuna. Ætlaði fyrst að sýna þeim einn mælanna á bílnum, sem var með rússneskri áletrun. Hætti samt við það því að kannski leit það í þeirra augum út eins og austurlenskt letur.

Ljóst var að ekki var nóg að sýna þeim fram á að þetta væri rússneskur bíll af gerð, sem á árum áður var mikið notaður sem skólabíll í dreifðum byggðum landisns. Ef þetta var reykvísk vegalögga og mennirnir ungir vissu þeir auðvitað ekkert um það.

Mér flaug í hug að segja þeim að svona bílar sæust á öllum fréttamyndum af hernaðaraðgerðum Rússa, allt frá Póllandi til Afganistan, en hætti við það. Það var alls ekki víst að þeir horfðu svona vel á fréttamyndir.

Og þá blasti hitt við, sem ekki var betra: Að ég hefði svindlað á kerfinu, stolið númerum af öðrum bíl og sett á þennan, sem jafnvel væri líka stolinn.

Ég spurði hvers vegna þeir héldu að þetta væri afskráður og óökuhæfur Nissan-bíll eða bíll með fölskum númerum.

Þeir sögðu, að eftir að þeir tóku mig í fyrra skiptið hefðu þeir hringt suður í upplýsingamiðstöð í Reykjavík, sem hefði gefið þeim þessar upplýsingar.  Svona eiga rannsóknarlögreglumenn að vera ! 

Rússabeljan er breið og langt yfir í hanskahólfið. Ég lagðist nánast á hliðina og fálmaði óstyrkur yfir þveran bílinn yfir í hanskahólfið, og fann þar tvö skoðunarskírteini.

Á þeim voru upplýsingar um Rússajeppann frambyggða, en tegundarnúmerið UAZ 452 sagði svo sem ekkert um það út af fyrir sig að þetta tegundarheiti táknaði Rússajeppa. Nema þeir væru bílafrík eins og ég.

Hins vegar sýndu þessir pappírar að bíllinn hefði flogið tvisvar athugasemdalaust í gegnum skoðun árin 2007 og 2008, hvort sem tegundarheitið UAZ 452 táknaði Rússajeppa eða Nissan.

Ég var svo sem ekkert viss um að þetta dygði. Úr því að þeir gáfu sér þann möguleika að bíllinn væri á stolnum númerum og jafnvel sjálfur stolinn, gat svo sem alveg eins verið að ég hefði falsað skoðunarvottorðin.

Þeir báðu mig afar kurteislega um að bíða og fóru yfir í lögreglubílinn á meðan. Þetta mál þarfnaðist greinilega ítarlega rannsóknar enda mjög dularfullt.

Þetta voru afar viðkunnanlegir ungir menn. Ég naut þess að hafa verið stöðvaður í dalnum mínum kæra, þar sem ég hafði verið í sveit. Eftir nokkra stund komu þeir aftur.

Þeir höfðu greinilega aftur haft samband við miðstöðina í Reykjavík og sögðu, að hugsanlega hefði rangur innsláttur eða einhver tölvuvilla valdið þessum leiða misskilningi.

Báðu mig afsökunar á töfinni. Ég svaraði því til að það væri ekkert að afsaka því að þvert á móti væri þetta mál allt, hin grunsamlega og óíslenska tillitssemi mín í akstri og hugsanlegur númera- og bílastuldur, ef ekki skjalafals, alveg stórkostlega og skemmtileg upplifun fyrir mig sem ég hefði alls ekki viljað missa af.

Auðvitað var þetta bráðskemmtilegt, - það eru ekki margir bílstjórar sem eru stöðvaðir tvisvar af sömu löggunni með nokkurra mínútna millibili af jafn skemmtilegum ástæðum.

Ég stillti mig um að segja frá því þegar lögreglan stöðvaði mig einu sinni í Reykjavík fyrir að hafa stolið eigin bíl, en það er alveg einstaklega skemmtileg saga af dásamlegri uppákomu og misskilningi.

Þessir strákar voru svo ljúfir og kurteisir, bara að vinna vinnuna sína af alúð, og rákust á tvö óvenjuleg tilfelli hjá sama ökumanninum, aldeilis dæmalaust óíslenskt og grunsamlegt atferli í umferðinni og Rússajeppa sem var skráður sem óökufær Nissan.

P1010027

 

Einu sinni gerði ég þessa vísu um Blönduóslögguna:

 

Ef bíla snögga ber við loft /

brátt má glögga sjá /

því Blönduóslöggan æði oft /

er að bögga þá.

 

En nú kemur þessi:

 

Ef bíla ljúfa ber við loft, /

brátt má hrjúfa sjá, /

því löggan bljúga æði oft /

vill ýmsu trúa á þá.

 

Góða umferðarhelgi !    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilega sögu.... og vísur

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.6.2009 kl. 23:31

2 identicon

Fór um daginn í Breiðafjörð, en nokkrum bíllengdum fyrir framan var olíubíll. Hann gaf reglulega hægra stefnuljós þegar að  enginn bíll var að koma á móti honum, en einnig gaf hann vinstra stefnuljós þegar að bílar voru að koma á móti og gat með því varað ökumenn sem voru á eftir honum við því  að fara framúr. Mér fannst þetta nokkuð gott framtak hjá honum.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 00:06

3 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Já, já. Svona var nú skólabíllinn sem keyrði mann úr Fókadalnum í Kleppjársreyki í ein 7 ár. Alltaf sami gamli góði Rússinn.

S. Lúther Gestsson, 26.6.2009 kl. 02:23

4 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Þetta var skemmtileg saga Ómar. Ég segi líka stundum skemmtilega sögu af flugvél sem ég mætti í Kelduhverfi fyrir um 30 árum síðan, ég trúði ekki eigin augum þegar flugvél gerði sig líklega til að lenda, þar sem ég kom akandi, ég gat forðað mér tímanlega, og vélin lenti, hún  renndi sér svo upp á bilaplanið við Skúlagarð og út kom Ómar Ragnarsson á leið að skemmta fólki.

Sigurveig Eysteins, 26.6.2009 kl. 04:02

5 identicon

Já, þær eru margar og fjölbreyttar sögurnar, sem við gætum sagt sem höfum einhverjar milljónir kílómetra að baki á þjóðvegum landsins. Ætla hinsvegar að sleppa því að bæta hér í þann sjóð en langaði til að bæta smávegis við um mætingar og framúrakstur á þjóðvegum. Það hefur tíðkast giska lengi að flutningabílstjórar aðvari þá sem á eftir aka um að framúrakstur sé hættulegur með því að gefa stefnuljós til vinstri. Vafalaust er þetta ekki löglegt samkvæmt ítrustu túlkun umferðarlaga, en flestir ökumenn skilja þetta þó réttum skilningi. Hitt er svo líka spurning, hvort maður á að gefa stefnuljós til framúraksturs, þegar maður er sjálfur á löglegum hámarkshraða. Ég hef spurt sjálfan mig ítrekað, hvort ég er að taka ábyrgð á framúrakstrinum með þessu, ellegar jafnvel að stuðla að því að aðrir aki á ólöglegum hraða. Flestir flutningabílar nútímans eru öflugir, og geta haldið 90 km hraða langar leiðir (en ekki farið hraðar vegna hraðatakmarkara) og því er spurningin hvort við eigum nokkuð að vera gefa stefnuljós til hægri þegar einhver geri sig líklegan til framúraksturs. Við erum allmargir, sem eru því hættir því þar sem vegur er nægilega breiður og aðstæður að öðru leyti góðar, þannig að viðkomandi ökumaður, sem á eftir okkur kemur, verður sjálfur að taka ákvörðun um framúraksturinn. Hann er þá ótvírætt á þeirra ábyrgð en ekki okkar. Annað, sem mig langar að geta um varðar það, að enn eru til mjóir vegir á landinu, og sumir sveitavegir og/eða fáfarnir þjóðvegir eru einungis fjögurra metra breiðir og er enn verið að endurbyggja vegi með því lagi. Á þessa vegi setur Vegagerðin útskot, þar sem ætlast er til að bílar mætist. Það er hinsvegar ekki nógu góð regla á því hjá Vegagerðinni að sérmerkja útskotin. Einnig grunar mig, að við ökukennslu sé ungu fólki ekki kennt að þessi möguleiki sé fyrir hendir, enda eru slíkir vegir sjaldgæfir þar sem flestir íslendingar búa. Þetta fólk getur því lent í eða valdi vandræðum þegar það álpast út á slíka vegi og gerir sér ekki grein fyrir því að vegirnir eru of mjóir til að mæta öðrum bílum. Á þessu mættu áhugamenn eins og Ómar vekja athygli.

Gaur (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 07:32

6 Smámynd: Smjerjarmur

Þarfur og skemmtilegur pistill.  Umgengni lýsir innri manni, og íslenska umferðarmenningin ber okkur ekki fagurt vitni. 

Smjerjarmur, 26.6.2009 kl. 13:19

7 Smámynd: Sigurjón

Skemmtileg saga hjá þér Ómar.  Takk fyrir og góða helgi!

Sigurjón, 26.6.2009 kl. 13:33

8 identicon

Góð saga og góð hegðun sem ekki allir skilja þó. 

Ég hef árum saman gefið stefnuljós til hægri þegar ég gef eftir einbreiða brú til hægðarauka þeim sem á móti kemur, en hef aðeins einu sinni orðið fyrir því sjálfur að mótvegfarandi gerði það sama. Þessi einfalda aðgerð gæti forðað mörgum brúarárekstrinum. Ég benti umferðarútvarpsfólki einu sinni á þetta, en hef aldrei heyrt þá góðu menn minnast á þetta í útvarpinu.

Umfari (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 07:01

9 identicon

Ég er einn af fjölmörgum sem tók fram úr þér Ómar umræddan dag.

Þessi bíldrusla sem þú varst á, á ekkert erindi útá þjóðvegi landsins. Ég sá fjölmarga ökumenn taka alltof mikla sénsa við að taka framúr þér í brekkum þegar Rússinn var við það að gefast upp. Þegar ég tók framúr þér varstu á ca 55 km hraða. Svona ökutæki skapa hættu í umferðinni. Það er algjört lágmark að halda umferðarhraða.

Þar að auki mengar þessi bíll mikið, það var vond lykt úr honum þegar ég tók framúr þér. Svartur mökkur. 

Kveðja, Björn  (hvítur Toyota Rav4 sem sendi þér flaut)

Björn (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband