ÁFANGASIGUR Í FLÓANUM.

Hver hefði trúað því fyrir fimm mánuðum að hreppsnefnd eins hreppsins sem á land á virkjunarsvæði Neðri-Þjórsár myndi leggjast gegn stærstu virkjuninni?

Í janúar var ekki annað að heyra hjá Landsvirkjun en að allt væri að verða klappað og klárt fyrir virkjanirnar, og nánast formsatriði að ganga frá málum í framhaldi af tilraunaborunum og rannsóknum þar sem starfsmenn fóru um lönd manna að vild.

Landsvirkjun benti á að í mati rammanefndar um virkjun vatnsafls og jarðvarma hefðu þessar virkjanir fengið einkunnina a, sem þýddi að umhverfisáhrif voru talin með minnsta móti. Og í andófi gegn Norðlingaölduveitu neyddust umhverfisverndarsamtök til þess að forgangsraða og einbeita sér að efri hluta árinnar. 

Það var síðan í kringum síðustu áramót að ég átti ég þess kost að vera í sambandi við andófsfólk eystra og sitja undirbúnigsfund fámenns hóps sem vildi ekki láta hugfallast þótt segja mætti um þá, sem sýndist við ofurefli að etja, að orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda", lýsti best ástandinu.

Skemmst er frá því að segja að upp úr þessu spratt hreyfing sem ekki blómstraði aðeins með eftirminnilegum hætti á fjölmennum fundi í Árnesi, heldur er það alveg víst, að bréf, sem bændur eystra sendu Hafnfirðingum rétt fyrir kosningarnar um álverið, reið baggamuninn um þann sigur sem þar vannst.

Ályktun hreppsnefnar Flóahrepps er gleðilegur vottur um vitundarvakningu sem kemur Landsvirkjunarmönnum sem betur fer óþægilega á óvart.

En munum að þetta er aðeins áfangasigur. Framundan er löng og ströng barátta því einskis verður svifist af hálfu þeirra sem sætta sig ekki við annað en allar þrjár virkjanirnar til þess að knýja þær fram með öllum tiltækum ráðum.

Í þeirri viðureign ríður á miklu á láta ekki gylliboð og loforð um peninga hafa sitt fram, heldur hafa í huga fordæmi Sigríðar í Brattholti sem aldrei sagðist selja vin sinn og frekar láta fallast í fossinn en horfa á þegar hann yrði þurrkaður upp og færður í fjötra í dimmu fangelsi fallganganna.

Ég sendi hreppsnefnd Flóahrepps árnaðaróskir og samfagna Ólafi Sigurjónssyni og fleiri vinum mínum í sveitinni.


"EF BÍLA SNÖGGA BER VIÐ LOFT..."

Í flugi er flughraðinn mikilvægasti öryggisþátturinn og þó einkum það að fljúga ekki of hægt. Ökurhraði bifreiða er um margt hliðstæður og Blönduóslöggann gerir það ekki endasleppt í þeim efnum hvað hraðakstur varðar. Fyrir mörgum árum fékk þessi fræga lögga þessa vísu frá mér og dugði auðvitað ekkert minna en hinghenda:  

Ef bíla snögga ber við loft

brátt má glögga sjá

því Blönduóslöggan æði oft

er að bögga þá.

Of mikill ökuhraði er mismunandi hættulegur og fer eftir aðstæðum. Bílstjóri sem ekur langt yfir leyfilegum ökuhraða á móti þéttri umferð skapar miklu meiri hættu en bílstjóri sem er t. d. einn á ferð á beinum vegi á sléttlendi þar sem er engin umferð, aðstæður hinar bestu og ekki von á neinum skepnum sem hlaupi inn á veginn.

Og ekki þarf að fjölyrða um þann fíflaskap að aka of hratt í Hvalfjarðargöngum, þennan stutta kafla þar sem ekki er hægt að græða meira en mínútu með því að aka of hratt.

Þar er tekið hart á hraðabrotum og svipað þarf að vera í gangi úti á vegunum að lögreglan haldi hraðanum niðri þar sem umferðin á móti er mikil og aðstæður erfiðar.

Eins og ég sagði í upphafi er hægt að skapa hættu í flug bæði með því að fara og hratt og of hægt og hið síðarnefnda jafnvel talið varasamara. 

Að mínum dómi mætti lögregla gera meira í því að stöðva og aðvara ökumenn sem aka svo hægt að það skapar hættu í umferðinni. 

Þá á ég ekki við ökumenn bifreiða sem sannanlega komast ekki hraðar, svo sem upp brekkur, heldur ökumenn sem með of hægum akstri sýna öðrum vegfarendum tillitsleysi og espa þá til framúraksturs.

Ég á sjálfur fornbíla sem ekki komast nógu hratt upp brekkur og reyni ávallt að fara eins vel út í kantinn eða á öxlina þar sem það er hægt til að aðrir ökumenn komist hættulaust fram úr.

Allt of oft sér maður hægfara ökumenn sem með smá hugsun gætu liðkað fyrir þeim sem á eftir koma með því að fylgjast vel með umferðinni á eftir þeim í baksýnisspeglinum og haga akstrinum eftir því.

Einstaka sinnum kemur það þó fyrir að ökumenn sýnast fá eitthvað mikið út úr því að taka sér alræðisvald á vegunum.

Gott dæmi um það var að eitt sinn þegar ég var á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur og þurfti að halda 90 kilómetra hraða sem lengst til þess að ná á tilsettum tíma á áfangastað þar sem fólk beið eftir mér.

Þá lenti ég í bílalest á eftir ökumanni sem ók á 70 kílómetra hraða og virtist harðákveðinn í því að aðrir sem á eftir honum færu ækju ekki hraðar.

Þegar framundan kom kafli þar sem akreinarnar urðu tvær hugðist ökumaðurinn fyrir framan mig á milli mín og "lestarstjórans" aka fram úr honum.

Þá jók "lestarstjórinn" skyndilega hraðann, augsýnilega til að koma í veg fyrir að hægt væri að ljúka við  framúraksturinn áður en þessum tveggja samhliða akreina kafla lyki.

Þetta tókst honum og var þá greinilega kominn vel yfir 100 kílómetra hraða sjálfur.

Bílstjórinn fyrir framan mig gerði aðra atrennu þar sem mátti fara framúr með því að aka yfir punktalínu okkar megin þótt heil lína væri fyrir þá sem komu á móti.

Aftur jók "lestarstjórinn"  hraðann og kom í veg fyrir að nokkur kæmist framúr honum áður en við mættum næsta bíl.

Í þriðja skiptið virtist bílstjórinn fyrir framan mig orðinn forvitinn um það hve langt þessi "lestarstjóri" gæti hugsað sér að ganga í forsjárhyggju sinni.

Þá kom í ljós að hann virtist tilbúinn að fórna nánast hverju sem væri fyrir sinn málstað, - hann jók hraðann jafnt og þétt svo mjög að augljóst varð að hann og bíllinn sem reyndi að komast fram úr honum voru komnir vel yfir 120 kílómetra hraða og aftur hafði hann sitt fram og kom allri bílaröðinni á eftir sér niður á 70 kílómetra hraða.

Ég sætti mig við eins og aðrir sem á eftir okkur komu að hlíta forræði þessa 70 kílómetra hraða bílstjóra meðan hann kæmist upp með það, þótt það kostaði afsökunarbeiðni fyrir að koma of seint á staðinn þar sem mín var beðið.  

Allir hafa einhverjar sögur að segja um það vinsæla umræðuefni sem umferðin er og umferðin í Noregi hefur oft fengið mig til umhugsunar um hraðaákvæði umferðarlaganna.

Í fyrstu löngu ökuferðinni sem ég fór um Noreg þveran og endilangan gerði ég ráð fyrir að klára meira en 3000 kílómetra akstur á milli ótal tökustaða á 11 dögum og miðaði þá við samskonar vegalengd á Íslandi.

Niðurstaðan varð sú að þremur dögum skakkaði og þegar ég var kominn norður til Alta varð ég að breyta ferðaáætlunni og fljúga suður til Oslóar.

Í Alta sögðu þeir að það borgaði sig að fara þaðan krók austur til Svíþjóðar og aka suður þar í landi og fara síðan annan krók vestur til Oslóar, - það tæki samt styttri tíma en að halda sig í norska vegakerfinu og fara mun styttri leið í gegnum það.

Ég þekki Íslendinga sem fékk tíu hraðasektir á leiðinni frá Osló til Þrándheims, allt vegna hraðamyndavéla við þjóðveginn.

Noregur er dásamlegt ferðamannaland. Og eitt af því sem situr eftir er þetta: Þegar þú ekur um þetta undraland lærirðu eitt strax: Slappaðu af, - vertu ekki svona stressaður, - þú kemst þetta samt ef þú bætir bara nokkrum dögum við ferðalagið.

Manni er algerlega náð niður á bugðóttum og mjóum vegum Noregs og nýtur ferðarinnar mun betur fyrir bragðið.

Raunar eru hraðatakmörkin í nágrannalöndunum Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sígilt umræðuefni í þessum löndum.

Leyfilegur hraði á góðum vegum er hærri í Svíþjóð og Finnlandi en í Noregi en samt er slysatíðnin ekki hærri. Norðmennirnir eru of einstrengingslegir fyrir minn smekk en maður hefur samt gott af því að láta ná sér niður og róast þegar maður er þar á ferð.

 

 

   


mbl.is Vildi gefa lögreglunni radarvarann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FYRSTI ALVÖRU UMHVERFISRÁÐHERRANN HIN SÍÐARI ÁR?

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Katrín Fjeldsted stimpluðu nöfn sín björtu letri í Íslandssögunar þegar þær risu gegn flokksræðinu og greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun. Vonandi boðar ráðherradómur Þórunnar betri tíð en þá að umhverfisráðuneytið sé afgreiðslustofnun fyrir óskir iðnaðarráðherra eins og það var að mestu leyti í tíð Sivjar, Jónínu, Sigríðar Önnu og Jóns Kristjánssonar. Þau samþykktu öll Kárahnúkavirkjun á þingi.

Auðvitað gerðu þessir ráðherrar marga góða hluti eins og til dæmis í þróun þjóðgarða og lögðu sig fram eins og þeim var mögulegt. Stjórnmál eru list hins mögulega. En frá Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaölduveitu hlaupa þau ekki.

Ég nefni ekki fleiri umhverfisráðherra til samanburðar því að lög um mat á umhverfisáhrifum voru ekki til fyrr en fyrir forgöngu Eiðs Guðnasonar og ekki reyndi á þau í sambærilegu máli í hans tíð.

Og viðhorf öll voru einnig önnur í umhverfismálum fyrir 15 árum og sjálfsagt vorum við öll börn okkar tíma í þeim, meira að segja Hjörleifur Guttormsson í sinni viðskiparáðherratíð.

En það má hann eiga að verða einna fyrstur til að átta sig á breyttum viðhorfum og gerast pólitískur brautryðjandi í umhverfismálum.

Þórunn tekur í dag undir sjónarmið, sem ég og fleiri höfum komið fram með á undanförnum árum, sjá næsta blogg mitt á undan þessu. Nú er bara að sjá hvernig hún á eftir að standa sig þegar á reynir fyrir alvöru. Meðan það liggur ekki fyrir verður að setja spurningarmerki við frammistöðu hennar í framtíðinni.


mbl.is Framtíðarlandið: stóriðjuskattur á almenning rúmir 2 milljarðar árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN - BAGGI EN EKKI BÚBÓT.

Rannsókn á vegum Framtíðarlandsins styður það sem ég sagði í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" og reifaði í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti"að Kárahnjúkavirkjun verður ekki aðeins þungur siðferðilegur baggi á þjóðinni heldur einnig fjárhagslegur. Þorsteinn Siglaugsson, Þórólfur Matthíasson, Sveinn Aðalsteinsson, Hörður Arnarson í Marel og fleiri kunnáttumenn höfðu bent á það sama.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra er nú á öndverðri skoðun við Siv Friðleifsdóttur sem hafnaði því í mati á umhverfisáhrifum að meta gildi virkjunarsvæðisins til svo mikils sem einnar krónu.

Dæmi um það hve fráleitt það er að meta t. d. Hjalladal, sem sekkur undir Hálslón, einskis:

200 fermetra íbúð efst á háhýsi við Sæbraut er talin ca 15 milljónum króna meira en sams konar íbúð væri í Túnunum aðeins vegna útsýnisins eins.

Þó beinist þetta útsýni að fjalli, Esjunni, sem er ekkert merkilegra en tugþúsundir fjalla um allan heim.

Í Hjalladal mátti finna fjölmarga staði með útsýni yfir einstæð náttúrufyrirbæri sem ekki var metið krónu virði. Þess utan eru hvergi nærri öll kurl komin til grafar hvað snertir kostnaðinn við Kárahnjúkavirkjun.

Með ítarlegri rannsókn á gildi virkjunarsvæðisins fyrir austan sem ósnortins svæðis á heimsminjaskrá með einstæðum möguleikum til ferðamennsku hefði verið hægt að nýta þá 130 milljarða króna sem eytt er í virkjunina með mun meiri ábata fyrir Austfirðinga og þjóðina alla en þessi endemis virkjun mun gefa.

Virkjunin verður í raun rekin með tapi miðað við þá möguleika sem voru fyrir hendi um ávöxtun þessara gríðarlegu fjármuna.  

Að ekki sé talað um sæmd, heiður og viðskiptavild þjóðarinnar.

Ótal atriði eru ekki í hámæli um staðreyndir varðanda þessa virkjun, samanber bloggið hér fyrir neðan um botnrásina.   

 

 


BOTNRÁS - 70 METRA FYRIR OFAN BOTNINN.

Fyrsta notkun botnrásar Kárahnjúkastíflu í dag til að hleypa vatni úr Hálslóni er dæmi um atriði sem verður að fjalla um til að leiðrétta misskilning. í umhverfismálum. Þetta er nefnilega ekki raunveruleg "botn"rás þótt hún sé kölluð það vegna þess að hún er ekki við botn lónsins heldur í tæplega 70 metra hæð yfir botni þess. Ef sá hluti stíflunnar sem er fyrir ofan botnrásina yrði fjarlægður yrði það sem er fyrir neðan botnrásina samt hæsta stífla landsins.

Til samanburðar má geta þess að dýpsti hylur Hvalfjarðar er 84 metra djúpur. Að kalla þetta botnrás er svona álíka og að kalla þriðju hæð Landsvirkjunarhússins kjallara.  

Ástæðan fyrir því að hafa rásina svona ofarlega er sú að vegna þess hve mikið berst af auri í lónið er ekki hægt að hafa botnrás við botninn, því að aurinn færir munna hennar fljótlega á kaf og fyllir lónstæðið jafnt og þétt.

Um síður mun síðan miðlunargeta lónsins hafa daprast svo að virkjunin verði ónýt sem og svæðið mestallt til ferðamennsku nema fyrir þá ferðamenn sem vilja kynna sér mestu umhverfiseyðileggingu Íslendinga.

Slíkt mannvirki getur hefnilega haft aðdráttarafl fyrir suma. Sem dæmi má nefna að ég ferðaðist tvívegis alla leið norður til Alta á Finnmökru til að sjá Altavirkjunina, bara vegna þess að Gro Harlem Brundtland sagði í æviminningum sínum að hún sæi mest eftir því á sínum pólitíska ferli að hafa leyft þá virkjun þegar hún var umhverfisráðherra Noregs.

Og þó voru umhverfisspjöll af völdum hennar aðeins brot af umhverfisspjöllum Kárahnjúkavirkjunar. Ég vona bara að Siv Friðleifsdóttir hafi ekki lesið endurminningar Gro Harlem, - samanburðurinn er sláandi og Siv hefði ekki gott af því að vita nánar um þetta.    

Í lokin verður Hjalladalur orðinn fullur af auri undir vatnsyfirborðinu næst stíflunni og aurkeila búin að þurrka lónið upp og breyta innri hluta dalsins í flatar jökulleirur í stað dals með grónar hlíðar á báðar hendur. 

Aurinn myndi auk þess valda vandræðum við lokubúnaðinn þann stutta tíma sem líður þangað til hann yrði kaffærður í aurnum. Við Ufsarlón norðan Eyjabakka er að vísu stefnt að því að skola auri Jökulsár í Fljótsdal út til að lónið þar fyllist ekki, en það lón er svo lítið og stutt að þetta verður framkvæmanlegt.

Hálslón er hins vegar svo ógnarlangt að ekki er lagt í samsvarandi útskolun úr því, því miður.

Því miður, segi ég, því að eina leiðin til þess að tæma lónið alveg væri að sprengja upp fyrirstöðurnar og lokurnar sem settar voru í hin raunverulegu botngöng, sem notuð voru meðað verið var að reisa stífluna.

Þetta yrði sennilega illgerlegt eftir því sem tíminn liði og aursetið við stífluna yrði hærra og síðar yrði það alveg ómögulegt. Af þessu leiðir að uppfylling dalsins af auri verður stórkostlegasta og óafturkræfasta umhverfisröskun og náttúruspjöll sem hægt er að framkvæma á Íslandi.

Verkfræðingar sögðu á sínum tíma þegar þetta var rætt að kynslóðir framtíðarinnar myndu vafalaust ráða yfir tækni til að tæma lónið og fjarlægja aurinn og fá dalinn aftur í upprunalegri mynd.

Það er álíka óábyrgt og að segja að allt í lagi sé að sökkva kjarnorkuúrgangi í státunnum niður á botn úthafanna, - kynslóðir framtíðarinnar muni vafalaust ráða yfir tækni til að snúa þessu til baka í tæka tíð áður en tunnurnar ryðgi í sundur.   

Þetta allt, ásamt mörgu öðru, gerir Hálsón ólíkt öllum öðrum miðlunarlónum á Íslandi og þarf til dæmis að fara suður til Arizona að Powell-lóninu og Glen Canyon stíflunni til að finna hliðstæðu hvað snertir háa botnrás.

Og ekki veit ég um nokkurt annað miðlunarlón sem jafnast á við Hálslón um hraða sveiflu og hættu á sandstormum og uppfoki úr lónstæðinu.

Það hefur verið mjög athyglisvert að vera austur við lónið að undanförnu og það kallar á frekari útskýringu síðar um sérstöðu þessa "fallega fjallavatns" sem margir vilja kalla svo.   

 

 

 


AF HVERJU "TVEIR SNIGLAR"?

Vélhjólaslys helgarinnar var harmleikur á alla lund og þarf ekki að orðlengja það mikið frekar, - fólki er kunnugt um það hvað gerðist. Í frétt eins fjölmiðilsins var sagt að "tveir Sniglar" hefðu verið á ferð. Mér er að vísu málið skylt þar sem ég er Snigill nr. 200 en verð þó að segja að mér er ekki ljóst hvers vegna þurfti að taka fram að þessir vélhjólamenn hefðu verið félagar í Bifhjólasamtökunum.

Setjum sem svo að tveir menn hefðu þeyst á hestum sínum inn í mannþröng í miðborg Reykjavíkur, valdið þar stórhættu og annar þeirra hefði stórslasast. Hefði verið sagt: "tveir félagar í Landssambandi hestamanna" ef það hefði komið í ljós við eftirgrennslan að svo hefði verið ?

Það eru ekki allir eigendur vélhjóla "Sniglar" og ekki heldur allir eigendur hesta í Landssambandi hestamanna. 'Ég sé ekki ástæðuna fyrir því að blanda félagsskírteinum manna í frásagnir af atburðum á borð við þessa nema þeir séu í forystu félaga sem láta sig málefni sportsins eða málefnisins varða.  

Ég þekki vel af eigin raun mikinn vanda blaða- og fréttamanna þegar greina þarf frá því hverjir lenda í atburðum sem þessum og ætla mér alls ekki að setja mig á háan hest í þessum málum, - gerði sjálfur mín mistök á sínum tíma og veit að oft er umdeilanlegt hvernig tekið er á málum. 

En fróðlegt þætti mér að heyra hvert álit fólks er á þessum máli.


HRIFLU-JÓNAS ENDURLIFNAR Í GUÐNA.

Í spjalli um kosningarnar var oft talað um að þjóðin hefði hafnað Framsóknarflokknum en meginatriði málsins var einfaldara: Það voru fyrrum kjósendur Framsóknarflokksins sem fóru frá honum eins og ég tók þá margoft fram. Þetta skynjar Guðni Ágústsson nú og horfir inn á við til orsakanna í eigin flokki. Hann setur fram hugmynd um þriggja flokka kerfi, einn hægri flokk,einn vinstri flokk og Framsókn vinstra megin á miðjunni.

Þarna er hin gamla Framsóknarhugmynd Jónasar frá Hriflu enn sprellifandi, 90 árum eftir að Jónas setti hana fram.

Gallinn er bara sá hve allt hefur breyst á þessum 90 árum. Það var mjög breitt pólitískt bil á milli Íhaldsflokksins og hins sósíalíska Aþýðuflokks. Auk þess gat Framsókn höfðað til fjölmennrar bændastéttar og nærst á óréttlátri kjördæmaskipan.

Tími Hriflu-Jónasar er liðinn og það verður erfitt fyrir Guðna að endurvekja hlugmyndafræði Jónasar. Þetta sýnir hins vegar vel hvað það hefur verið mikið til í því að kalla Guðna síðasta Framsóknarmanninn.

Það má Guðni eiga að mörg óborganleg gullkorn hafa komið úr munni hans við ýmis tækifæri þegar frábær flutningur hans á umfjöllunarefni hans hverju sinni hafa skapað eftirminnileg augnablik. Á góðum stundum hefur Guðni verið einhver besti tækifærisræðumaður íslenskra stjórnmála.

Þegar maður minnist þess að á safni í Bretlandi má sjá stóra brúðu í líki Winstons Churchills sitja og flytja valda kafla af ræðum sínum dettur manni í hug að einhvern tíma í framtíðinni megi sjá og heyra Guðna fara á kostum á sama hátt.

Þetta gæti átt heima á minjasafni um Framsóknarflokkinn eftir að plássleysið á miðju íslenskra stjórnmála hefur eytt honum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært sig svo mikið inn á miðjuna frá hægri og Samfylkingin inn á miðjuna frá vinstri að Framsóknarflokkurinn lendir í andnauð. 

Hann getur aldrei aftur náð þeim 28 prósentum kjósenda sem honum tókst í stjórnarandstöðu á Viðreisnarárunum.

Auk þess voru Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin að berjast um kjósendur á þessu sama miðjusvæði í síðustu kosningum.

En það er ekki öll nótt úti á þeim miðum miðjukjósenda í stjórnarandstöðu sem nú er hægt að róa á. Það væri hægt að sameina þessa þrjá hópa í einum ef Framsókn lærði af öllum mistökum sínum og breytti um stefnu í stóriðjumálum og kvótamálum. Þá yrði gaman að lifa fyrir afl sem gæti sótt fylgi frá óánægðum kjósendum núverandi stjórnarflokka.

En því miður sýnir Hriflu-Jónasar-hugmynd Guðna Ágústssonar að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Tilvistarkreppu Framsóknarflokksins er því ekki lokið, - því miður, segi ég, -  og á þá við það hve fín stefna endurnýjaðs frjálslyndis- og mannúðarafls á miðjunni gæti orðið. ,

 


SÖNN OG EINLÆG ÁLGLEÐI

Það er mikið tilefni til gleði álfurstanna á Íslandi þessa dagana. Alcan borgar fjórðung af orkuverði nágrannalandanna, Alcoa hefur fengið vilyrði um álver á Bakka til að tryggja að íslendingar muni bæta upp töf á orku frá Kárahnjúkavirkjun. Mikið sjónarspil er á Reyðarfirði í dag þótt raforkan nægi aðeins til lítils hluta af framleiðslunni enda dýrt og óhagkvæmt að búa til rafmagn í hverfli sem fær rafmagn leitt í sig með hundi úr byggðalínu í stað vatnsorku.

Á meðan lífríkinu er drekkt og stækkandi Hálslón kæfir raddir vorsins uppi við Kárahnjúka gleðja töframenn börnin á Reyðarfirði og þar er skálað og haldnar ræður. "The show must go on."

Orkuveita Reykjavíkur fer létt með að gera orkusölusamning sem borgar virkjunina ekki upp í stað þess að hinkra í eitt ár og nýta sér 40 prósent hækkun orkuverðs í nágrannalöndunum.

Ætla má að mismunurinn á þessu umsamda orkuverði og því sem hefði getað orðið síðar nemi alls um 15 milljörðum króna en það eru smápeningar í stóriðjukapphlaupinu.

Tveimur dögum fyrir kosningar var veitt rannsóknarleyfi í Gjástykki sem mun tryggja næg umhverfisspjöll líkt og gerðist við Sogin hjá Trölladyngju, þannig að það verður bara formsatriði að setja þar upp virkjun.

Þjóðin nærist á fáfræði um þau ótrúlegu náttúruspjöll sem í vændum eru fyrir austan og norðaustan Mývatn.

34 beiðnir um rannsóknarleyfi liggja fyrir. Jakob Björnsson skrifar heila opnu í Morgunblaðinu um að það standi í Biblíunni að Íslendingum beri skylda til að virkja allt sem virkjanlegt er fyrir álver upp á 2,5 milljóna tonna ársframleiðslu.

Geir H. Haarde hafði viðrað svipaða hugsun í Silfri Egils og heldur nú væntanlega fjálglega ræðu um það á Reyðarfirði hvernig þessi framtíðarsýn muni leysa vandann í atvinnumálum á Íslandi.

Sú "lausn" felst í því að við álver uppá 2,5 - 3,0 milljóna tonna ársframleiðslu vinni um 2% af vinnuafli þjóðarinnar!

Í viðtali á Stöð tvö komst talsmaður Alcoa auðveldlega upp með það að segja að aðeins séu notuð koltrefjaefni í nokkrar stórar flugvélar. Hið rétta er að vinsælasta einkaflugvél heims er nú úr slíkum efnum sem eru að ryðja álinu burtu.

Hann komst líka upp með það að segja að mest af framleiðsluaukningu áls fari í bíla, en það er alrangt.

Mest af framleiðsluaukningunni fer í áldósir og umbúðir sem Bandaríkjamenn henda í stað þess að endurvinna.

Sú umbúðanotkun ein samsvarar endurnýjun alls flugflota Bandaríkjamanna fjórum sinnum.

Stóriðjustefnan er sprelllifandi. Steingrímur J. gaf í stjórnarmyndunarörvæntingu grænt ljós á Helguvík ef ekki líka Bakka ef Sjálfstæðismenn vildu fara í stjórn með VG.

Ekki er orð í stjórnarsáttmálanum um að hætt verði við Norðlingaölduveitu, Grændal eða Neðri-Þjórsá.   

Þórunn Sveinbjarnardóttir og fleira gott fólk í núverandi stjórnarsamstarfi þarf á miklum styrk og stuðningi að halda til að standast þá áraun sem stóriðjuóðagotið veldur. Bara að Þórunn standi sig jafnvel og hún gerði í Kárahnjúkamálinu.


AFGLÖP Í SAMNINGUM.

Komið er fram að orkuverð á sameiginlegum markaði Norðurlandanna muni líklegast hækka um 40 prósent á næsta ári, úr 2,10 kr í 3 krónur íslenskar á kílóvattstundina. Á sama tíma er upplýst að Orkuveita Reykjavíkur semji um 2,10 krónur til álvers í Helguvík. Það gefur til kynna hvert tjón óðagotsstefnan í orkumálum muni valda Íslendingum. Erlendis hækkar verðið um 40 prósent vegna umhverfisskatta og mengunarkvóta en við verðum áfram með orkuna á útsöluverði.

Hér er verið að semja af sér um 15 milljarða króna alls. Hvað liggur svona mikið á? Ef álverin treysta sér ekki til að borga hækkað orkuverð bíða erlend hugbúnaðarfyrirtæki í biðröð eftir því að kaupa orkuna á réttu verði fyrir mengunarlausa starfsemi.


GETUR EYJÓLFUR HRESST EFTIR SVONA FARSA?

"Hver veit nema Eyjólfur hressist?" er gamalt viðkvæði þegar illa gengur en öll von er kannski ekki enn úti. Var að koma seint í kvöld beint frá Kárahnjúkum og kveikti á Sýn án þess að hafa fylgst með neinu í dag. Sá Íslendinga sprikla dálítið í sókninni gegn Svíum í stöðunni 1:0 en á næstu mínútum tók við einhver mesti farsi sem ég hef séð síðan í 14:2 leiknum fræga, - Svíar skoruðu fjögur mörk á þessum stutta  tíma og síðasta markið þeirra á sér engan líka í þeim fræga 14:2 leik og sennilega ekki í íslenskri landsleikjasögu.

Fyrsti landsleikurinn í mínu minni sem bauð upp á svipaða upplifun var rigningarleikurinn við Dani 1955. Ég minnist þess enn hve spældir allir voru eftir 0:4 úrslit þar sem Albert og Ríkharður, tveir af bestu leikmönnum Íslandssögunnar sáust varla.

Síðan kom leikur danska landsliðsins við Reykjavíkurúrval sem burstaði Danina 5:2. þar sem Hreiðar Ársælsson fór hamförum í vörninni. Það var enginn slíkur íslenskur varnarmaður í Svíaleiknum í dag.  

Mörkin fjögur í landsleiknum við Dani 1955 dreifðust þó á leikinn. Í Svíaleiknum í dag komu fjögur á tíu mínútum, hraðar en nokkur fjögur mörk í  14:2 Danaleiknum 1967.  

Hressist Eyjólfur eftir þetta ofan á Lichtensteinklúðrið og almennt slen í síðustu landsleikjum? Ég er farinn að efast um það.

Þetta er dapurlegt. Sami Eyjólfur skoraði eitt mesta glæsimark íslenskrar knattspyrnusögu fyrir fullum leikvangi í París gegn frönsku heimsmeisturunum á einhverju frábærasta augnabliki íslenskrar íþróttasögu.

Það tekur enginn af Eyjólfi hve magnaður leikmaður hann var. En það er ekki það sama og að njóta gengis sem þjálfari. Því miður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband