6.6.2011 | 22:53
Og hvað með það?
Ryan Giggs hélt við mágkonu sína. Og hvað með það? Kemur mér það eitthvað við? Nákvæmlega ekki neitt. Skiptir þetta einhverju máli fyrir fólkið hér uppi á klakanum í 2000 kílómetra fjarlægð? Það get ég ekki ímyndað mér.
Hefur þessi aukageta Giggs einhver áhrif á getu hans á knattspyrnuvellinum og þar með á gengi liðs hans? Ekki er finnst nokkur vottur um það.
Samt er þetta mest lesna fréttin í dag og voðaverk í Írak, kvótafrumvarpið og fleiri alvöru stórmál á heimsvísu og landsvísu fallaí skuggann.
![]() |
Ryan Giggs hélt við mágkonu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.6.2011 | 16:39
Ekki öskumistur á Fáskrúðsfirði.
Það er rétt að askan, sem féll í Grímsvatnagosinu fýkur nú til suðurs undan norðanáttinni. Hins vegar er rangt að það sé öskumistur, sem sást á Fáskrúðsfirði í fyrradag, eins og ég hef reyndar lýst í bloggi á undan þessu.
Svo vill til að ég flaug frá Reykjavík um Grímsvötn og Vatnajökul austur á Djúpavog á laugardag og sá að allur Vatnajökull austan Grímsvatna var þakinn nýföllnum hvítum snjó, og ég tók myndir ofan í Grímsvötnum og sá með eigin augum að aska rauk ekki þaðan, heldur var loftið tært yfir jöklinum og austur um Lónsöræfi og Suðausturland.
Hins vegar rauk mikill sandmökkur upp af Flæðunum efst í farveg Jökulsár á Fjöllum og stóð hann í austur yfir Brúaröræfi norðanverð, sleikti Snæfellið norðanvert og stóð síðan í austurátt yfir Fljótsdal og Austfirði norðan Stöðvarfjarðar.
Þetta sá ég afar vel á flugi sama dag frá Djúpavogi um Hraun og Eyjabakka, Kringilsárrana, syðri hluta Brúaröræfa og þaðan til Mývatns.
Til þess að þurfa ekki að fljúga í gegnum hinn mikla sandmökk, sem stóð upp af Flæðunum og er algengt fyrirbrigði í hvössum, þurrum vindi að sumarlagi þegar Flæðurnar eru orðnar auðar, lyfti ég mér upp í um 2000 metra hæð og flaug yfir mökkinn.
Rétt skal vera rétt. Það hljómar dramatískt að tala um öskuský og öskumökk en raunin er ósköp venjulegt fyrirbrigði sem kemur oft fyrir á hverju sumri.
Í gær flaug ég frá Mývatni suður um Grímsvötn og þaðan um Syðri-Fjallabaksleið til Reykjavíkur og þrátt fyrir stífan vestanvind var Vatnajökull alheiður og loftið tært yfir honum, eins og fjölmargar ljósmyndir og kvikmyndir, sem ég tók, bera vel með sér.
Vegna anna verður að bíða að ég birti myndir af þessu ferðalagi hér á blogginu mínu.
![]() |
Askan enn til ama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2011 | 00:01
Næstum búinn að drekkja aflakóngnum.
Atvikið á Hvammtanga í dag er ekki einsdæmi á sjómannadagshátíð. Í svipinn man ég ekki föðurnafn Markúsar sem fann upp björgunarnetið "Markúsarnetið", en hann var ötull við að kynna það hvar sem því varð við komið.
Á sjómannadaginn í Ólafsvík varð ég þess var þegar ég kom þangað til að skemmta eftir að hafa skemmt á Grundarfirði og datt inn í miðja skemmtidagskrá í samkomuhúsinu, að fólk var æst yfir atviki sem hafði gerst fyrr um daginn.
Markús hafði sem sé næstum því drekkt aflakónginum í höfninni í netinu, sem átti að bjarga honum.
Hann flutti stutt ávarp á skemmtuninni og þá var hrópað framan úr salnum: "Þú varst nú næstum búinn að drekkja aflakónginum okkar í dag!"
En Markús færðist bara í aukana við að fá þessa ádrepu og kallaði á móti: "Þetta sem gerðist í dag var afar mikilvæg sönnun fyrir því sem ég hef alltaf haldið fram að sé eitt það helsta sem gefur kenningum mínum gildi : Það er DAUÐAHALDIÐ! DAUÐAHALDIÐ! sem sást svo vel í dag hvaða gildi hefur!"
Síðan færðist Markús enn í aukana og bauð nú af ákafa svonefnd "fjölskyldunet" þeim sem kaupa vildu.
Stóðu þá nokkrir upp aftarlega í salnum og gengu út en Markús boðaði fagnaðarerindi sitt af enn meiri krafti en nokkru sinni fyrr.
![]() |
Gleymdust í sjó í klukkutíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2011 | 23:51
Einstakt fólk.
Fólkið, sem búið hefur á Kvískerjum í Öræfum í meira en hálfa öld hefur verið alveg óviðjafnanlegt fyrir fræða- og vísindastörf. Ég var svo lánsamur að kynnast því fyrst fyrir 54 árum þegar við bræðurnir, Edvard og ég, heimsóttum Jón bróður okkar sem var í tíu sumur í sumardvöld að Hofsnesi.
Ég gat ekki annað en minnst á Hálfdan Björnsson í umræðum hjá Stjórnlagaráði í vikunni um ákvæði í stjórnarskrá um frelsi fræða og vísinda.
Í upprunalegri tillögu að þessu var talað um æðri vísindi en sem betur fer var orðinu "æðri" kippt út, enda afar erfitt að draga línu á milli "æðri" og "óæðri" vísinda.
Stór hluti menningararfs okkar Íslendinga er fólgin í fræðastörfum, sem oft á tíðum hafa verið unnin af tiltölulega lítið skólamenntuðu fólki en því betur sjálfmenntuðu.
Hálfdan og verk hans eru mikils metin meðað náttúruvísindamanna og meðal annars má nefna, að ákveðin tegund af húsflugu, sem hann fann í Esjufjöllum hér á árum áður, var gefið alþjóðlegt nafn þar sem nafn Hálfdans er hluti nafnsins.
Einn afrakstur starfa bræðranna birtist vafalítið í verkum Ragnars Axelssonar, RAX, sem nam sem ungur maður visku þeirra og lífssýn.
Bræðurnir voru vísindamenn fram í fingurgóma og má sem dæmi nefna, að þegar ég tók við þá viðtal er þeir höfðu fundið og mælt næst hæsta foss landsins, spurði ég þá hvað hann væri hár.
Sigurður færðist undan og taldi mælinguna ekki nógu vísindalega nákvæma.
"Með hverju mælduð þið?" spurði ég.
"Með bandi, sem ekki var hægt að hafa alveg lóðrétt og því er óvíst að mælingin sé nógu nákvæm", svaraði hann. "
"Getur gefið mér einhverja grófa ágiskunartölu um hæð hans?" spurði ég.
Sigurður hikaði en svaraði svo: "Hann mældist svona sirka 134,5 metrar".
![]() |
Hálfdán fékk Bláklukkuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2011 | 18:09
"Ekki er ég vel góður enn!"
Þegar ég var í Bandaríkjunum haustið 2008 var gaman að fylgjast með kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar.
Gamanið var þó full mikið þegar Sarah Palin átti í hlut því að varla var hægt að hugsa sér óhönduglegri kosningabaráttu en hún háði. Hvað eftir annað kom hún upp um vanþekkingu sína og fljótfærni og þegar hafður var í huga hár aldur John Mc Caine leist mönnum ekkert á blikuna við þá tilhugsun hvað gæti gerst ef hann gæti fallið frá.
Má segja að Palin hafi, án þess að vilja það, lagt Barack Obama lið því að axarsköft hennar voru margfalt fleiri en varaforsetaefni George Bush eldri á sinni tíð, sem tókst að ná kjöri þrátt fyrir mistök varaforsetaefnis síns.
Nú hefur Sarah Palin haft þrjú ár til að læra af óförunum 2008 en virðist lítið hafa farið fram.
Hún minnir mig á söguna, sem faðir minn sagði mér af því þegar Jón nokkur hækill mistókst á hjólaferð sinni niður Túngötuna.
Þá stóð húsið Uppsalir á horni Túngötu og Aðalstrætis og var veitingastaður í kjallaranum.
Dag einn, þegar menn sátu grandalausir við borð inni í Uppsalakjallaranum kom Jón Hækill hjólandi í gegnum glugga og féll með hjólinu og glerbrotum niður á milli tveggja borða. Brá mönnum, sem sátu við borðin mjög við þetta.
Jón stóð upp, reisti hjólið við og sagði stundarhátt við sjálfan sig: "Ekki er ég vel góður enn."
Leiddi hann síðan hjólið upp tröppurnar að dyrunum að kjallaranum og fór út.
Mér sýnist Sarah Palin vera á svipuðu róli og geta sagt svipað og Jón Hækill forðum: "Ekki er ég vel góð enn."
![]() |
Söguþekking Palin gagnrýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.6.2011 | 22:03
Hin ógleymanlegu töp.
Fyrir 56 árum stóð mikið til hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Albert Guðmundsson, einhver besti leikmaður Evrópu, var kominn heim, og í framlínunni var líka Ríkarður Jónsson "Svíabani", sömuleiðis einhver besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur alið.
Uppistaðan í sókninni var gullaldarlið Skagamanna og liðið allt var það gott að nú skyldu Danir liggja í því.
En Danirnir unnu verðskuldað 4:0 og vonbrigðin urðu svo mikil, að sjaldan hef ég upplifað annað eins. Íslendingar voru gersamlega heillum horfnir í þessum leik, alveg glataðir.
Tveimur dögum síðar lék danska liðið við Reykjavíkurúrval og nú skítlágu Danir, 5:2, þar sem varnarjaxlinn Hreiðar Ársælsson úr KR átti einhvern frábærasta varnarleik,sem ég hef séð.
En þetta var ekki landsleikur, því miður, og danska landsleikjagrýlan því hress eftir sem áður.
Nú eru 65 ár síðan við lékum fyrst við Dani og eftir á þriðja tug landsleikja lifir Danagrýlan góðu lífi sem aldrei fyrr.
Fyrir 14:2 leikinn 1967 voru miklar vonir bundnar við íslenska liðið, sem hafði átt mjög góðan landsleik við Norðmenn. Liðið leit raunar afar vel út á pappírnum og Íslendingar skoruðu tvö mörk, en betra hefur það ekki gerst í þessi 65 ár.
Annað markið, mark Hermanns Gunnarssonar, var með þeim fallegustu sem sjást.
En Danirnir skoruðu hins vegar sjö sinnum fleiri glæsimörk!
Ég hef skoðað allt sem til er af 14:2 leiknum en tel hann þó hafa verið skárri en 6:0 tapið fyrir nokkrum árum, því að þá örlaði aldrei á því að Íslendingar ógnuðu danska markinu.
Það gerðu þeir þó í 14:2 leiknum og uppskáru tvö mörk þrátt fyrir allt klúðrið.
Þetta eru einvher óskiljanleg álög sem valda því að engu máli virðist skipta hve sterkt íslenskt lið fer inn á völlinn eða hve góður landsliðisþjálfarinn er, - okkur er fyrirmunað að vinna Dani.
Eftir 65 ára raunasögu er líklega útséð um það að maður muni lifa þann dag þegar hægt verði að segja: Nú lágu Danir í því!
![]() |
Danagrýlan lifir góðu lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 21:31
Fóru ranga leið.
Ég flaug í dag frá Reykjavík austur yfir Grímsvötn til Djúpavogs. Tók myndir af Grímsvötnum,sem ég set á bloggið mitt á morgun því að nú er ég í Mývatnssveit.
Á þessari flugleið var ekki öskukorn í lofti, enda flaug ég vindmegin við hugsanlegt öskurok.
Kverkfjöll og austanverður jökullinn nutu sín vel í björtu veðri.
Hins vegar var hefðbundið sandrok af Flæðunum efst í Jökulsá á Fjöllum, sem er algengt fyrirbæri á sumrin. Á leiðinni frá Djúpavogi yfir Sauðárflugvöll og þaðan til Mývatns lenti ég aldrei í sand- eða öskufoki því að mökkurinn lá fyrir norðan jökul en náði ekki upp fyrir 6000 fet eða 1800 metra.
Tók fallegar myndir af Herðubreið sem ég set á bloggið á morgun einnig myndir af Kelduárlóni og Folavatni fyrir austan Snæfell.
Á leiðinni frá Sauðárflugvelli, sem er á Brúardalasvæðinu um átta kílómetra fyrir norðan Brúarjökul og til Mývatns fór ég upp í 6500 fet til að fara í hreinu lofti yfir sandmekkinum.
Sjálfsagt er að hafa gát á og forðast að fljúga inn í ösku- eða sandfok eins og þeir gerðu hjá Gæslunni. En ástæðan var greinilega sú að þeir flugu röngu greinilega röngu megin við Grímsvötn miðað við þá flugleið sem ég flaug.
Auk þess er ástæðulaust að taka neina áhættu vegna flugs sem ekki er björgunarflug og kostar mikið fé fyrir fjárvana Landhelgisgæslu.
![]() |
Öskuský hamlaði för |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 10:40
Ekki hvort, heldur hvenær.
Væringjafoss er aðeins eitt dæmi um ferðamannastaði, bæði í Noregi og hér á landi, þar sem það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær verður banaslys.
Ég hef komið tvisvar að fossinum á mismunandi árstímum ogV get svosem tekið undir það að bæta megi öryggismál við hann, en seint verður hægt að byrgja þar brunninn svo vel að barnið geti ekki dottið ofan í, því að aldrei verður komið í veg fyrir það að fólk fari sér að voða ef það gleymir sér gersamlega eða er tilbúið til að taka of mikla áhættu.
Væringjafoss er að mínum dómi víti til varnaðar hvað snertir hugmyndir um að virkja "helming" af vatnsmagni Dettifoss seða virkja Gullfoss en ljúga samt að ferðamönnum um það hvernig þessir fossar séu ósnortnir.
Fyrir ofan Væringjafoss er Sysestíflan, ein hin stærsta í Noregi, og það algerlega háð veðurfari og vatnsbúskap hvers vors hvort og hve lengi Væringjafoss er bara örlítil spræna langt fram á sumar.
Það dregur mjög úr áhrifamætti fossins á ferðamanninn að hann fær aldrei að sjá á óyggjandi hátt hvernig fossinn er í upprunalegri og óskertri mynd.
Norðmenn fara þá leið að leyna ferðamanninn upplýsingum um þetta og sama virðist eiga að gera hér varðandi Dettifoss og Gullfoss ef marka má áætlanir um virkjanir þeirra.
Jakob Björnsson lýsti sínum hugmyndum um virkjun Gullfoss í Morgunblaðsgrein nýlega og á grein hans var að skilja að hægt væri að virkja afl fossins án þess að skerða vatnið sem rennur um hann !
Dettifoss er auglýstur sem aflmesti foss Evrópu en samt er inni í Rammaáætlun hugmynd um svonefnda "Helmingsvirkjun" sem væntanlega yrði gripið til þegar stækka þarf nauðsynlega álver á Bakka upp í "hagkvæma stærð" og selja auk þess orku til frekari "orkufreks iðnaðar." v
Ætlunin með Helmingsvirkjun er að logið verði að ferðamönnum að Dettifoss sé aflmesti foss landsins af því að þeir fá ekki að vita hve stór fossinn er í ósnortnu ástandi. nefndu eru á Nú þegar er búið að taka með Kvíslaveitu þriðjung burt af vatnsmagni Þjórsár þar sem hún rennur um fossana Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleitarfoss, en tveir þeir síðarstærð við Gullfoss.
Dynkur er flottasti stórfoss Íslands að mínu mati og dregur nafn sitt af hinum óvenjulega mikla hávaða sem stafar af því að hann er samansafn 12-18 fossa í sama fossstæðinu.
Það dregur stórlega úr gildi hans að vita ekki hvort maður hafi nokkurn tíma séð hann ósnortinn.
Ef Norðlingaölduveita verður að veruleika mun hann aðeins renna að einhverju marki nokkrar vikur síðsumars.
Í umfjöllun ferðamannahóps Rammaáætlunar sem kynnt var í fyrra, var sagt að hvarf þessara fossa skipti engu máli fyrir ferðamennsku, af því að svo fáir hefðu komið að þessum fossum!
Sem sagt: Miðað var við NÚVERANDI ÁSTAND hvað snertir aðgengi að fossunum, sem auðvitað mætti stórbæta.
En sé miðað við NÚVERANDI ÁSTAND ætti gildi Norðlingaölduveitu að vera núll, af því að engin virkjun hefur verið þar.
En þá bregður svo við að ferðaþjónustuhópurinn miðar ekki við NÚVERANDI ÁSTAND eins og hvað snertir fossana, heldur er gildi veitunnar talið gríðarlega mikið af því að miða verði við það sem hægt verði að gera með virkjun þar síðar meir !
Með svona aðferðum er auðvitað hægt að réttlæta hvaða virkjun á Íslandi sem vera skal.
![]() |
Banvæn myndataka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 00:30
Íslenskir tvíburar fengu líka áfall sama dag.
Fyrir nokkrum árum fengu tveir eineggja íslenskir tvíburar hjartaáfall sama dag en lifðu það af gagnstætt því sem varð hjá Juilan og Adrian Riestar, sem sagt er frá í frétt sem tengd er þessu bloggi.
Samband eineggja tvíbura er oft alveg einstakt og voru Clausens-bræður, Örn og Haukur, gott dæmi um það.
Þegar ókunnugt fólk kom til samneytis við fjölskylduna þurfti það nokkurn tíma, að sögn þeirra sem til þekktu, til að átta sig á þessu og venja sig við það hvernig þeir töluðu, hegðuðu sér og hugsuðu sem einn maður en ekki tveir.
Í landskeppninni frægu, þegar Íslendingar báru sigurorð af Norðmönnum og Dönum í frjálsum íþróttum 29. júní 1951, meiddist Haukur, og virtist það mikið áfall, vegna þess að hann átti að keppa í 100m, 200m og 4x100 metra boðhlaupum.
Þetta kom þó ekki að sök, því að Örn hljóp í skarðið, stóð sig afar vel og varð lang stigahæsti keppandinn, sigraði meira að segja líka í 400 m grindahlaupi ef ég man rétt.
Ég hef oft haft á orði að ef þeir bræður hefðu ekki hætt 23ja ára gamlir en tekið tugþrautina með trompi hefðu þeir átt góða möguleika á að standa saman á verðlaunapalli í þeirri grein á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, svo einstakir afreksmenn voru þeir bræður.
![]() |
Eineggja tvíburar létust sama dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 00:10
Var mesta hátíð ársins.
I rúman áratug, frá 1960 og fram að Eyjagosi, var ég árlegur þátttakandi í hátíðarhöldum Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum. Auk þess tók ég að mér að ráða aðra skemmtikrafta á hátíðina og voru þetta allt upp í 20 manns.
Sjómannadagurinn var langmesti hátíðisdagur í Eyjum og víða um land á þessum árum og stóðu hátíðarhöldin alla helgina. Sjálf jólin féllu í skuggann.
Á þessum árum voru aflakóngar hylltir á aðalsamkomunum, sem fóru fram á sunnudagskvöldum, og aldrei á öllum hálfrar aldar ferli mínum sem skemmtikraftur var frábærari stemning en á stóru samkomunni þetta kvöld.
Ég á ógleymanlegar minningar frá ótrúlegustu uppákomum varðandi það að komast með allan þennan mannskap til og frá Eyjum og gefst vonandi færi til að skrá eitthvað af því niður áður en yfir lýkur.
Sem betur fer fer ákveðin vakning um landið varðandi það að gera sér dagamun á sumarhelgum og törnin er greinilega byrjuð.
Sjómannadagurinn þessa helgi, Skjaldborgarhátíð á Patreksfirði um næstu helgi, síðan 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar og koll af kolli um allt land í allt sumar.
Ekki veitir af á þessum að mörgu leyti erfiðu tímum að kveikja ljós gleði og vonar hvenær sem færi best á meðan sól og sumarylur leikur um landsmenn.
![]() |
Fór af stað með skrúðgöngum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)