7.7.2008 | 14:29
Þarf borgarstjórann á gatnamótin?
Nú rétt fyrir hádegi biluðu umferðarljósin á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Að þessum gatnamótum liggja alls 28 akreinar. Hringt var í lögregluna en þau svör fengust að vegna manneklu gætu þeir ekki sent mann til að stjórna umferðinni. Fljótlega varð þarna árekstur vegna þessa ástands enda eru þetta með fjölförnustu gatnamótum landsins og útilokað að ökumenn á 28 akreinum geti leyst úr þeim vandamálum sem skapast.
Sú var tíð að borgarstjórinn í Reykjavík var með skrifstofu við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis og hljóp eitt sinn út til að stjórna umferð, sem var margfalt minni og hægari en nú er á gatnamótum Miklubrautar og annarra gatna. Tekin var af því fræg ljósmynd.
Nú, næstum öld síðar, þegar margfalt verra ástand skapast, getur hvorki borgarstjórinn né má skipta sér af svona löguðu, enda er skrifstofa hans í öðrum borgarhluta og hann fær því ekki hvort eð er vitneskju um vandann.
Er ekki dálítið hart að búa við svona ástand á 21. öld? Þarf að hringja í borgarstjórann til að fara næstum öld aftur í tímann þegar á þarf að halda við löggæslu í borginni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.7.2008 | 17:37
Lýsandi fordæmi fyrir heiminn.
Það eru forréttindi að fá að vera viðstaddur athöfn eins og þá sem fór fram að Sólheimum í gær og vera í Lionsklúbbi, sem var svo heppinn að geta valið sér fyrir rúmum 50 árum þennan stað til að efna kjörorð Lionsmanna: Við þjónum.
Sú þjónusta þarf að vera innt af hendi með auðmýkt andspænis því stóra og margþætta hlutverki sem staðurinn gegnir, - að virða manngildið og virðingu fyrir fólki og umhverfi. Hvort tveggja gefur Sólheimum sérstöðu á heimsvísu.
Návist Vigdísar Finnbogadóttur og Sigurbjörns Einarssonar biskup gaf athöfninni einstakan blæ, að ekki sé minnst á eindæma blíðviðri. Sigurbjörn var í þeirri fágætu aðstöðu í gær að geta, vegna hás aldurs síns, rakið í viðtali upphaf starfsins og þær miklu fórnir sem það kostaði Sesselju Sigmundsdóttur og stuðningsfólk hennar við ótrúlega frumstæðar aðstæður.
Þetta mundi hann eins og það hefði gerst í gær og sagði, að fyrir 77 árum hefði engan getað órað fyrir því hverju háleitar hugsjónir gætu fengið áorkað, slík væri sú umbylting sem orðið hefði að Sólheimum.
Vigdís og Sigurbjörn umvefja alla, sem návistar þeirra njóta, persónutöfrum og hlýju og athöfnin í gær verður því stór perla í fjársjóði minninganna.
![]() |
Vigdísarhús var opnað í gær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2008 | 22:51
Þróun frjálsrar verslunar og þjónustu.
TM bætist nú í hóp stórfyrirtækja sem flytja sig í austurátt í borginni og er enn eitt dæmið um það sem ég hef verið að benda á í pistlum mínum að frjáls verslun og þjónusta leitar í átt til krossgatna höfuðborgarsvæðisins sem eru Ártúnshöfði-Mjódd-Smárinn. Línur þjóðleiðanna norður-suður og austur-vestur skerast við Elliðaár og meðan svo er mun enginn mannlegur máttur geta stöðvað fyrrnefnda þróun.
Þyngdarpunktur íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er líka á austurleið og er nú í austanverðum Fossvogi og þyngdarpunktur atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu er á sömu leið. Umræður um staðsetningu atvinnulífsins hafa til þessa verið þannig í borgarstjórn, að einblínt er að Reykjavík eina í stað þess að líta á allt höfuðborgarsvæðið sem heild.
Hvað er þá til ráða til að halda lífi í gömlu miðborginni? Tal manna um að fólk í nýrri íbúðabyggð á núverandi flugvallarstæði muni nær allt vinna í því sama hverfi er á skjön við þá staðreynd, að fólk velur sér vinnustað fyrst og fremst eftir því hvað hentar hæfileikum þess og launum.
Tal manna um að fólk í íbúðabyggð í Vatnsmýri muni í köldustu og vindasömustu borg í Evrópu fara niður á Laugaveg til að versla frekar en að fara styttri leið í Kringluna er líka byggt á óskhyggju.
Lykillinn að eflingu gömlu miðborgarinnar felst í því að í henni finni fólk það, sem ekki er að finna í hinni nýju miðju verslunar og þjónustu í austurhluta borgarinnar.
Erlendis hafa hliðstæðir borgarhlutar með góðum árangri verið færðir til eldra horfs með endurnýjun gamalla og vinalegra húsa sem skapa manneskjulegra og meða aðlaðandi umhverfi en stein- og glerkassar stórra verslunarmiðstöðva.
Þetta manneskjulega og þekkilega umhverfi skapar vellíðan og laðar fram skilyrði til sérhæfðrar þjónustu á sviði verslunar og menningar sem getur blómstrað ef rétt er að málum staðið.
Í miðborginni getur hið opinbera sett niður menningarstarfsemi eins og nú er verið að gera með tónlistarhúsinu og hjarta stjórnsýslunnar getur verið þar áfram í umhverfi sem ilmar af sögu þjóðarinnar og hefur aðdráttarafl sem nýrri hverfi geta ekki boðið upp á.
![]() |
TM flytur að Síðumúla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2008 | 16:08
Stóriðjan ræður ferð.
Áherslan á stóriðjuna á Austurlandi hefur valdið því að ekkert var gert eystra til að nýta það góða framtak Iceland Express að vera með millilandaflugferðir beint austur. Þetta er svipað og gerðist á norðvesturland við Blönduvirkjun. Eftir að virkjanaframkvæmdum lauk og menn urðu að selja vörubílana sína kom samdráttur sem meðal annars byggðist á því að á meðan gullæði virkjanaframkvæmdanna stóð gerðu menn ekkert í öðrum málum og stóðu því verr en ella hefði orðið.
![]() |
Flug fært frá Akureyri til Egilsstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
2.7.2008 | 17:46
Gott að Náttúrutónleikarnir sluppu.
Oft fylgja góðar fréttir slæmum fréttum. Slæmu fréttirnar eru að Björk þurfi að aflýsa tónleikum erlendis en góðu fréttirnar voru þær að hún þurfti ekki að aflýsa Náttúrutónleikunum frábæru í Laugardal og verður henni, Sigurrós og öðrum, sem stóðu að þeim, seint fullþakkað fyrir það stórkostlega framtak.
Ég þekki vandamálið með röddina vel eftir hálfrar aldar feril í skemmtibransanum. Síðustu árin hafa raddbandasérfræðingar reynt að nota meðöl og meðferðir til að halda röddinni gangandi en ævinlega hafa síðustu orð þeirra verið: Það er alveg sama hvað við hömumust, - eina aðferðin sem dugar er að hvíla röddina, helst í nokkrar vikur, - líkaminn og náttúran sjálf eru bestu læknarnir.
Svo fékk ég loksins röddina í vor. Það voru góðu fréttirnar en slæmu fréttirnar voru þær að ég neyddist til að halda nokkurn veginn kjafti í þessar vikur, sem þurfti til að raddböndin jöfnuðu sig, vegna sjúkrahúsdvalar og veikinda, sem nú eru afstaðin.
Góðu fréttirnar við veikindin voru líka þær að ég léttist um 15 kíló, - hafði lengi stefnt að því að létta mig um 7-8 kíló en ekki tekist. Ég hefði samt frekar viljað sleppa því að léttingin fengist á þennan hátt.
![]() |
Björk aflýsir tónleikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.7.2008 | 23:59
Endurskipulagning aksturs.
Eitt þeirra ráða sem heyrst hefur vegna hækkandi eldsneytisverðs er að selja annan bílinn af tveimur á heimilinu eða leggja honum. Þetta er ekki einhlítt ráð. Ef velja á hvaða bíll verður eftir verður það yfirleitt hinn stærri og eyðslufrekari.
Til greina kemur að minni bíllinn sé hafður eins lítill og unnt er og honum ekið sem mest en hinn stóri sparaður. Sem dæmi get ég nefnt að Yfir 90 prósent af akstri mínum til einkanota er á bíl, sem kostaði 120 þúsund krónur, þá fjögurra ára gamall, er með minnstu bílvél landsins og eyðir 5-6 lítrum á hundraðið.
Því miður er lítið af minnstu og sparneytnustu elstu bílunum á markaðnum en úrvalið er meira af nýrri smábílum. Toyota Aygo/Peugeot 107/Citroen C1 og Daihatsu Cuore/Sirion hafa þolanlegt rými fyrir fjóra í sæti og uppgefin meðaleyðsla bensínbíla af þessari gerð er innan við fimm lítrar/100 km. Farangursrými er hins vegar aðeins 140 l. Þeir fá líka ókeypis í stæði vegna útblásturs innan við 120g.
Sama er að segja um nýjan Subaru Justy og Suzuki Splash sem eru ívið stærri, þægilegir fyrir fjóra og hafa meira en 220 lítra farangursrými.
Aðeins stærri bílar með dísilvélum bjóða upp á svipaða eyðslu.
Hver einstaklingur ekur aðeins einum bíl í einu og þess vegna er hægt að spara mikinn eldsneytiskostnað með því að hafa bílana tvo og annan þeirra eins sparneytinn og unnt er og aka honum sem mest.
Ef menn sætta sig við tveggja sæta bíl er Smart dísil heimsmeistari í sparneytni, eyðir innan við fjórum lítrum á hundraðið og nær 135 kílómetra hraða.
![]() |
Umferð dregst saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.7.2008 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)