Þróun frjálsrar verslunar og þjónustu.

TM bætist nú í hóp stórfyrirtækja sem flytja sig í austurátt í borginni og er enn eitt dæmið um það sem ég hef verið að benda á í pistlum mínum að frjáls verslun og þjónusta leitar í átt til krossgatna höfuðborgarsvæðisins sem eru Ártúnshöfði-Mjódd-Smárinn. Línur þjóðleiðanna norður-suður og austur-vestur skerast við Elliðaár og meðan svo er mun enginn mannlegur máttur geta stöðvað fyrrnefnda þróun.

Þyngdarpunktur íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er líka á austurleið og er nú í austanverðum Fossvogi og þyngdarpunktur atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu er á sömu leið. Umræður um staðsetningu atvinnulífsins hafa til þessa verið þannig í borgarstjórn, að einblínt er að Reykjavík eina í stað þess að líta á allt höfuðborgarsvæðið sem heild.

Hvað er þá til ráða til að halda lífi í gömlu miðborginni? Tal manna um að fólk í nýrri íbúðabyggð á núverandi flugvallarstæði muni nær allt vinna í því sama hverfi er á skjön við þá staðreynd, að fólk velur sér vinnustað fyrst og fremst eftir því hvað hentar hæfileikum þess og launum.

Tal manna um að fólk í íbúðabyggð í Vatnsmýri muni í köldustu og vindasömustu borg í Evrópu fara niður á Laugaveg til að versla frekar en að fara styttri leið í Kringluna er líka byggt á óskhyggju.

Lykillinn að eflingu gömlu miðborgarinnar felst í því að í henni finni fólk það, sem ekki er að finna í hinni nýju miðju verslunar og þjónustu í austurhluta borgarinnar.

Erlendis hafa hliðstæðir borgarhlutar með góðum árangri verið færðir til eldra horfs með endurnýjun gamalla og vinalegra húsa sem skapa manneskjulegra og meða aðlaðandi umhverfi en stein- og glerkassar stórra verslunarmiðstöðva.

Þetta manneskjulega og þekkilega umhverfi skapar vellíðan og laðar fram skilyrði til sérhæfðrar þjónustu á sviði verslunar og menningar sem getur blómstrað ef rétt er að málum staðið.

Í miðborginni getur hið opinbera sett niður menningarstarfsemi eins og nú er verið að gera með tónlistarhúsinu og hjarta stjórnsýslunnar getur verið þar áfram í umhverfi sem ilmar af sögu þjóðarinnar og hefur aðdráttarafl sem nýrri hverfi geta ekki boðið upp á.  


mbl.is TM flytur að Síðumúla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landic Property ætlar að nýta húsnæði Tryggingamiðstöðvarinnar í Aðalstræti áfram sem skrifstofuhúsnæði og hálfur annar hellingur af verslunarhúsnæði er í gamla miðbænum í Reykjavík, til dæmis í Austurstræti og á Laugaveginum. Stórhýsi með íbúðarhúsnæði hafa verið reist við Skúlagötuna undanfarin ár og eru enn í byggingu.

Alltaf mikið líf í gamla miðbænum, ekki síst á góðviðrisdögum eins og í dag, og ég ætti nú að vita það, þar sem ég fer þangað daglega. Og mér sýndist ég sjá þar í dag Ómar nokkurn Ragnarsson, akandi um á litlum Fíat niðri í Austurstræti.

Mikil uppbygging á sér nú stað í Vatnsmýrinni. Þar hafa nýlega verið reist glæsihýsi Íslenskar erfðagreiningar, Askja, hús líf- og umhverfisvísindadeilda Háskóla Íslands, og bensínstöð. Landspítalinn, þar sem á fimmta þúsund manns starfa, og Háskólinn í Reykjavík, nú með þrjú þúsund nemendur, munu reisa þar mikil stórhýsi á næstunni, þar verður reist ný Umferðarmiðstöð fljótlega og næsta vetur stunda þrettán þúsund manns nám í Háskóla Íslands, flestir í Vatnsmýrinni.

Og ekki má gleyma kennurum og öðrum starfsmönnum beggja háskólanna, um tvö þúsund manns. Í Vatnsmýrinni býr einnig mikill fjöldi námsmanna á stúdentagörðum og þar eru einnig Norræna húsið og Hótel Loftleiðir.

Alls munu því búa, starfa og stunda nám í Vatnsmýrinni áður en langt um líður um 25 þúsund manns, jafnmargir íbúum Hafnarfjarðar, sem munu þurfa á gríðarlega mikilli verslun og þjónustu að halda í sjálfri Vatnsmýrinni.

Þorsteinn Briem, 5.7.2008 kl. 04:06

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skynsamlega mælt Ómar. Þungamiðjan er að flytjast til austurs. Kringlan er í raun miðbær Reykjavíkur í dag og hefur líklega betur í samkeppni við Mjóddina, en Smáralind er án nokkurs vafa miðbær höfuðborgarsvæðisins.

Hrannar Baldursson, 5.7.2008 kl. 21:10

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ræddi í pistli mínum um þungamiðju verslunar og þjónustu og um það að fyrir utan þessa þungamiðju þurfi fyrst og fremst að byggja upp menntastofnanir og stjórnsýslu frekar en að reyna að keppa þar beint við Smáralindina, Byko og Húsasmiðjuna.

Ómar Ragnarsson, 6.7.2008 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband