19.8.2007 | 18:35
HILMAR ÞORBJÖRNSSON - MENNSK ELDFLAUG.
Í Morgunblaðinu í gær var bent á fimmtíu ára gamalt Íslandsmet Hilmars Þorbjörnssonar í 100 metra hlaupi. Það er athyglisvert að þeir tveir Íslendingar sem kepptu á OL í Melbourne 1956 eiga tvö elstu Íslandsmetin og verður áreiðanlega langt þangað til 16,70 metra met Vilhjálms Einarssonar í þrístökki verður bætt. Það vill svo til að ég horfði á 100 metra hlaup Hilmars 18.ágúst 1957 og það sem var ótrúlegaslt var hve langt hann var á undan næsta manni, um það bil tíu metrum ef ég man rétt.
Hann stakk alla keppinauta sína af strax í viðbragðinu og þaut í mark eins og eldflaug. Hilmar svo óheppinn að eiga við meiðsli að stríða í Melbourne þar sem náðist svo sem ekkert sérstakur árangur í hlaupinu, þótt sigurvegarinn, Bobby Morrow, sigraði bæði i 100 og 200 metra hlaupi.
Þegar Hilmar spretti svo eftirminnilega úr spori 1957 var hlaupið á malarbraut og tæknibúnaður allur annar en síðar varð með bæði tartanbrautum og betri skóm, að ekki sé talað um mun betri og meiri þjálfun.
Notkun stera, sem síðar ruddi sér til rúms, var óþekkt á þessum tíma og hlaupararnir hrein náttúrubörn. Steranotkunin sem sveif yfir vötnunum þegar leið að 1970 setur ævinlega svolítið spurningamerki við bestu afrekin þá.
Árangur Hilmars er sambærilegur við þau afrek sem voru unnin á undan honum og þá áttu Ármenningar nokkra frábæra spretthlaupara, Hörð Haraldsson í kringum 1950, sem hefði átt góða möguleika á að komast á verðlaunapall á EM í Brussel í 200 metra hlaupi, - Guðmund Lárusson á sama tíma sem missti fyrir óheppni af þriðja sætinu í 400 m á sama móti, - og í kringum 1957 var Þórir Þorsteinsson skæður 400 metra og 800 metra hlaupari.
TÍmabilið 1947 - 57 var einstakt spretthlauparatímabil. ÍR-ingar áttu gullaldarlið, - Haukur Clausen varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi kornungur og átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi sem stóð í hátt á annan áratug, 21,3 sekúndur og hefði líklega komist á verðlaunapall í 200 m á EM 1950 ef honum hefði ekki verið meinað að taka þátt fyrir grátbroslegar sakir.
Örn bróðir hans stóð honum lítt að baki í 100 og 200 og var betri í 400, en tugþrautin var hans aðalgrein.
Á árunum 1946-49 var Finnbjörn Þorvaldsson einn albesti spretthlaupari Norðurlanda.
Ekki má gleyma KR-ingnum Ásmundi Bjarnasyni sem blómstraði frá 1948-54 og komst í úrslit í 200 metra hlaupi á EM 1950.
Nú er að sjá hvort Sveinn Elías Elíasson geti bætt hið hálfrar aldar gamla met. Það yrði mikið gleðiefni í fjölskyldunni, Jónína, dóttir mín þjálfaði hann fyrstu sex árin og hann lánaði mér skó til að hlaupa í 100 metrana í hitteðfyrra á Laugardalsvelli eftir 40 ára keppnishlé.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2007 | 00:32
AFTUR KOMIÐ 1910?
Spennan milli Rússlands og NATÓ-ríkjanna (Bandaríkjanna) stigmagnast hægt og bítandi. Aðgerðir Rússa í dag eru skiljanlegar, - þeim hugnast ekki sá gagneldflaugahringur sem Bandaríkjamenn þrengja sífellt að þeim. Ef Bandaríkjamenn halda að þetta ástand auki lýðræði í Rússlandi er það áreiðanlega misskilningur. Þvert á móti er það alþekkt að valdamenn með einræðistilhneigingar eins og Pútín taka fegins hendi utanaðkomandi ógn sem geti þjappað þjóð þeirra saman gegn sameiginlegum óvini og gert hinum rússneska nútíma keisara kleift að auka enn völd sín í nafni þjóðareiningar.
Rússland má síst við auknu valdi eins manns eða þröngrar klíku, landið er þegar komið of langt á þeirri braut.
Sem dæmi um land þar sem lýðræðið líður fyrir hernaðarógn nefni ég Eþíópíu. Á ferð um þetta land mátti glögglega sjá hvernig valdhafarnir, sem í orði kveðnu þykjast talsmenn lýðræðisins, nýta sér langvarandi og að því er virðist óendanlegt hernaðarástand sem ríkir milli Eþíópíu og Eritreu. Í raun ríkir alræði í Eþíópíu og hvarvetna eru lokuð svæði, eftirlit og hindranir í nafni óttans við hinn sameiginlega óvin.
Það er valdhöfunum í hag að viðhalda hernaðarástandinu við austurlandamæriin og þess vegna er ekki að sjá neina vonarglætu á himni um bætt ástand þessarar sárafátæku þjóðar. Sem dæmi um það hve fátækt landið er má nefna að hagkerfi Íslands er talsvert stærra og þó eru Eþíópíumenn 200 sinnum fleiri en Íslendingar.
Pútín mun áreiðanlega fara að með hæfilegri gát. Lykillinn að betri efnahag Rússlands felst í samstarfi við fjárfesta á Vesturlöndum og hið sama gildir um Kína.
Það getur verið fróðlegt að bera þetta ástand saman við ástandið sem ríkti í heiminum á síðasta áratugnum fyrir fyrri heimsstyrjöldina.
Hernaðaruppbygging stórveldanna á þeim tíma gekk lengst af ekki það langt að hún skaðaði efnahagsleg samskipti þeirra að marki. En að lokum var búið að hlaða svo miklu ofan á hervæðinguna og stoltið og stærilætið sem henni fylgdi að óvæntur atburður sem enginn sá fyrir hleypti af stað keðjuverkun sem endaði með stríði.
Það dapurlega við vopnaskakið nú er að bæði Bandaríkjamenn og Rússar eiga enn gnægð gereyðingarvopna þótt mikið hafi verið dregið saman í þeim efnum.
Hættan er sú að óvænt uppákoma, sem ekki er hægt að sjá fyrir, dragi dilk á eftir sér.
Ef svo fer veldur það miklu alvarlegri atburðarás en eftir morðið í Sarajevo sumarið 1914 því vopanbúr stórveldanna nú er ósambærilega miklu magnaðra en var 1914.
![]() |
Rússar taka upp reglulegt eftirlitsflug utan lofthelgi sinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.8.2007 | 22:43
ELLIÐAÁRDALUR, HLÝJASTI STAÐUR LANDSINS Í JÚLÍ.
Ég minnist þess að hafa gert fréttapistil um Elliðaárdal fyrir mörgum árum. Í gær fór ég í hraðgöngu og skokk um dalinn og ætlaði varla að trúa mínum eigin augum hve þetta er orðið frábært útivistarsvæði. Ég óttaðist fyrirfram að of mikið hefði verið plantað af skógi því mjög stór hluti töfra svæðisins felst í því að niður dalinn rann hraun fyrir nokkur þúsund árum og gæti runnið þar hraun aftur.
En sem betur fer hafa nokkur hraunsvæðin verið látin ósnortin. Ég óttaðist einnig að hinn plantaði skógur væri of þéttur en í ljós kom að hann er mismunandi þéttur, sums staðar með dularmögn myrkviðisins sem minna á söguna af Bláskjá forðum, sem falinn var í slíku myrkviði, - en annars staðar hefur þess verið gætt að trén væru það dreifð að auðvelt væri að fara um skóginn.
Þó finnast mér trén sem eru fyrir suðvestan Rafveitufélagsheimilið taka of mikið af hinu fallega útsýni sem annars væri af veröndinni þar til austasta hluta Fossvogshverfisins þar sem það mætir Smáíbúðahverfinu.
Skemmtilegustu og bestu göngustígarnir eru þaktir kurli og því mjúkir og "lífrænir".
Samkvæmt gögnum veðurstofunnar er hlýjasta veðurstöð á Íslandi í júlí Elliðaárstöð, ótrúlegt en satt. Ef aðeins er tekið meðaltal mesta hita hvers júlídags kemst Hallormsstaður þó brot úr stigi yfir.
Þessi veðursæld Elliðaárdals skapst mest af því hve skjólsælt er þar með Esjuna sem ysta varnargarð fyrir norðanáttinni sem lækkar hitann meira á öðrum veðurstöðvum á sunnanverðu landinu.
Ef dregin er lína frá Hveragerði út á Seltjarnarnes og önnur lína frá Mosfellsbæ til Voga og Reykjanesbæjar mætast þær í krossgötum í Elliðaárdal.
Það er besta skýringin á því af hverju þungamiðja frjálsrar verslunar og þjónustu er að byggjast upp á svæðinu frá stóra nýja verslunarhúsinu við Vesturlandsveg um Ártúnshöfða, Mjódd og Smárasvæðið í Kópavogi.
Sem betur fór var ekki látið undan þeirri freistingu reiknimeistara sem geta reiknað út milljarða sparnað fyrir þjóðfélagið ef þétt íbúðabyggð væri í þessum fagra dal.
Elliðaárdalur á hliðstæðu í Central Park í New York, Regent Park og Hyde Park í London og fleiri slíkum görðum í miðju stórborga, að enda þótt þarna megi segja að séu verðmætustu lóðir sem hægt er að finna fyrir stórbyggingar eru takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í því að hrúga öllum byggingum í miðjur borga og útrýma auðum svæðum.
Manni sýnast svo sem ekki vera ýkja margir á ferli í görðunum í London og ekki voru margir á ferli í Elliðaárdalnum í gær, en tilvist þessa einstæða svæðis, sem á sér ekki líka í neinni höfuðborg, réttlætir að það sé látið ósnortið. Að hafa storkinn hraunstraum, laxveiðiá og gróðursælt útivistarsvæði við krossgötur höfuðborgar er nokkuð sem ekki er hægt að meta til fjár.
Við búum í köldu og vindasömu landi og hlýjasti og skjólsælasti staður sem veðurathuganir eru stundaðar á er þess vegna enn meira virði en ella.
Elliðaárdalur er gott dæmi um verðmæti náttúrunnar andspænis kaldri mannvirkjadýrkun.
Við getum án hvorugs verið og verðum að íhuga vel að enda ekki með því að öllum mestu verðmætum ósnortinnar náttúru á Íslandi verði fórnað fyrir virkjanir og mannvirki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.8.2007 | 22:42
ÓLÍKAR VERKSMIÐJUR.
Það eru ólíkar verksmiðjur sem fréttir dagsins greina okkur frá að muni rísa á landsbyggðinni til þess að leysa byggðavandann. Á Akureyri rís mengunarlaus verksmiðja með 90 störfum sem styrkir atvinnulíf staðarins án þess að kollsteypa samfélaginu.Í fréttum Sjónvarpsins var sagt að 500 starfa olíuhreinsistöð muni rísa í Hvestudal í Arnarfirði án þess að þess væri getið að neinn vandi væri að krækja í útblásturskvóta vegna hennar.
Verksmiðjan mun væntanlega fljúga í gegnum mat á umhverfisáhrifum eins og vant er hér á landi og landsmenn munu fagna stóreflingu slökkviliða á landsbyggðinni sem fylgir svona verksmiðjum.
Fáir munu spá í það að hin nauðsynlega efling slökkviliða og björgunarsveita sem fást við strand olíuskipa stafi af eldhættu sem fylgir svona starfsemi á sjó og landi.
Nú er búið að skrúfa frá sams konar krana og gert var þegar viðskiptaráðuneytið auglýsti rækilega hjá álfyrirtækjum heimsins að á Íslandi væri hægt að kaupa ódýrasta rafmagn á byggðu bóli.
Ísfirðingar og aðrir landsbyggðarbúar þurfa ekki að öfunda fólkið í Vesturbyggð því vafalaust munu hinir erlendu olíufurstar sækjast eftir að reisa fleiri stöðvar víðsvegar um landið.
Raunar væri nær að reisa fyrst stöð í landi Ísafjarðarbæjar á undan stöð í Arnarfirði því að á Ísafirði skapar smíði og rekstur 500 manna vinnustaður ekki eins mikla vinnuafls- og fólksfjöldasprengingu í samfélaginu og slíkur vinnustaður gerir í nágrenni þorpanna á Bildudal, í Tálknafirði og á Patreksfirði.
Nú þegar er stór hluti vinnuaflsins í Vesturbyggð frá öðrum löndum og ansi er ég hræddur um að Íslendingar muni ekki flykkjast vestur til að vinna í olíuhreinsistöð heldur verði Vesturbyggð þegar upp verður staðið byggð að hálfu af aðfluttu erlendu vinnuafli, í mörgum tilfellum fólki sem stendur stutt við.
Mikið hefði það nú verið betri frétt að heyra að 90 starfa aflþynnuverksmiðja risi í Vesturbyggð heldur en olíuhreinsistöð, verksmiðja af því tagi sem fólk í nágrannalöndum okkar vill gjarnan losna við úr nágrenni sínu.
Á heimsvísu má telja það jákvætt að hreinistöðvarnar íslensku geri kleift að leggja niður skrímsli af þess tagi erlendis líkt og Alcoa og fleiri gera við erlend álver þegar álver þeirra rísa á Íslandi.
![]() |
Leyfa byggingu olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.8.2007 | 18:33
ÓHÁÐA RANNSÓKN Á ALLT FERLIÐ !
Grímseyjarferjuhneykslið er ekki það fyrsta í íslenskri samgöngusögu og þetta er ekki í fyrsta skipti sem er ákveðin lykt af slæmum áhrifum pólitískra afskipta af málinu, - ekki bara um að kenna ráðgjöf eins manns. Þetta minnir á það þegar ákveðið var á sínum tíma að smíða flóabátinn Baldur hér heima til að efla innlenda skipasmíði í kjördæminu og útkoman varð of dýrt, of þungt, of hægfara, eyðslufrekt og djúprist skip sem kallaði á dýrari hafnarframkvæmdir við Brjánslæk en reiknað hafði verið með.
En menn eiga greinilega erfitt með að læra af mistökum fortíðarinnar og hafa því búið til margfalt verra mál.
Í fljótu bragði virðist sem Grímseyjarferjumálið angi af ýmis konar afskiptum sem stönguðust á og undu upp á sig í einu stærsta vandaræðamáli síðari ára á þessum vettvangi.
Þetta mál kallar á umfjöllun óháðra utanaðkomandi aðila sem fara ekki aðeins yfir þátt Vegagerðarinnar og ráðgjafa hennar í málinu, heldur þann þátt sem stjórnmálamenn í héraði og á landsvísu áttu í því að búa til þann óskapnað sem hér er á ferð.
Gott ef þarf ekki að leita út fyrir landsteinana að þeim sem geti tekið þetta mál almennilega fyrir, - í hinu litla samfélagi hér heima þar sem allir tengjast öllum er líklega illgerlegt að hreinsa hér almennilega til svo að hægt sé að læra af því fyrir framtíðina.
![]() |
Segir samgönguráðherra gera sig að blóraböggli í málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.8.2007 | 11:31
VIRKJA FYRST, - FRIÐA SVO.
Líklega hefur enginn orðað hugsunina á bak við framkvæmagleði Íslendinga betur en Jónas Elíasson, prófessor, þegar hann setti fram hugmyndir sínar um að fyrst yrði allt sem virkjanlegt er virkjað og síðan hugað að því hvort hægt væri að friða leifarnar. Þessi hugsun fær nú eina af myndbirtingum sínum á utanverðum Tröllaskaga þegar allir geta sameinast um það að rétt sé að friða Héðinsfjörð úr því sem komið er eftir að búið er að svipta hann þeirri sérstöðu sem hann hafði, að vera eini eyðifjörðurinn sem eftir var á allri strandlengjunni frá Ingólfsfirði á Ströndum austur í Loðmundarfjörð á Austfjörðum.
Það var vel hægt að leysa samgönguvandann á utanverðum Tröllaskaga með lausninni sem Trausti Sveinsson barðist fyrir gegn ofurefli. Sú lausn hefði skapað hringleið um skagann og leyst endanlega þann vanda sem Siglfirðingar munu búa við áfram að þurfa að fara um Almenninga ef þeir vilja fara stystu leið til Skagafjarðar og Reykjavíkur.
![]() |
Vilja friðlýsa Héðinsfjörð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2007 | 22:42
30 ÁRA ALDURSTAKMARK VIÐ LAUGARVATN.
Mikið hefur verið rætt og deilt um 23ja ára aldurstakmarkið sem sett var á þá sem vildu tjalda á tjaldsvæðinu á Akureyri um verslunarmannahelgina. En nú hef ég frétt að þetta hafi viðgengist á tjaldsvæðinu við Laugarvatn án þess að það virðist hafa vakið athygli eða deilur, og ekki bara það, - aldurstakmarkið við Laugarvatn er víst hvorki meira né minna en 30 ár!
Tvær tvitugar íþróttakonur úr Reykjavík, stakar bindindiskonur og landsliðskonur í frjálsum íþróttum fóru nýlega austur og ætluðu að æfa sig á völlum og brautum staðarins þar sem eru mjög góðar aðstæður til slíks. En viti menn, þeim var bannað að tjalda af því að þær væru ekki komnar á fertugsaldur!
Hvert stefnir þetta? Endar það með því að takmarkið verður það sama og að fá að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, að vera orðinn 35 ára?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.8.2007 | 17:49
MÝVATN, - ÆTLUM VIÐ ALDREI AÐ LÆRA?
Það er ekki í fyrsta sinn nú að Mývatn kemur til álita á Heimsminjaskrá UNESCO. Þetta kom fyrst upp yfir tæpum áratug en þá skildist mér að tilvist Kísiliðjunnar hefði gert ómögulegt að setja þessa perlu á viðeigandi stað meðal dýrmætustu djásna heimsins. Ég man að ég ræddi við þáverandi sveitarstjóra og hann gat alls ekki skilið hvaða gildi gæti falist í því að vatnið kæmist á heimsminjaskrá heldur sá hann ekkert nema Kísiliðjuna og tilvist hennar.
Þegar ég benti honum á einn helsta ferðamannabækling Norðmanna þar sem bryggjuhúsin í Björgvin voru á forsíðu vegna þess að þau væru á heimsminjaskrá og gæfu Norðmönnum ímynd og velvild sem gæfi stórfelldar tekjurvirtist skilningsleysi hans aukast um allan helming.
Nú er Kísiliðjan horfin og hrunið, sem þessi sveitarstjóri sagði að myndi fylgja því að hún hætti starfsemi, hefur látið standa á sér.
Hins vegar hyggjast menn nú margfalda orkuöflun á svæðinu frá Bjarnarflagi norður í Gjástykki og gera þetta einstæða svæði að samfelldum skógi af borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og háspennulínum.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Íslendingar munu reyna að fela þá staðreynd að með þessum virkjanaáformum er svo stórlega spillt landslagsheild sem Mývatn er órofa hluti af, að vafasamt er að Mývatn geti farið inn á hina dýrmætu skrá nú fremur en fyrir áratug.
Einnig að eyðilagðir verða möguleikar á að gera þetta fyrirhugaða virkjanasvæði að einstæðu ferðamannasvæði ekki síður en Öskju, - við Gjástykki hafa sérfræðingar um ferðir til Mars valið sér stað þar sem komandi marsfarar geti æft sig fyrir geimferðir sínar líkt og tunglfararnir gerðu í Öskju 1967.
Að ekki sé minnst á einstæða möguleika á að nýta sér kvikmyndir og ljósmyndir sem teknar voru af fjórtán gosum á svæðinu 1975-84 þannig að ferðamenn geti með hjálp þeirra gengið um svæðið og upplifað þessa mikilfenglegu atburði.
Líklegt er að það verði reynt að þegja framangreint í hel og að hver sá sem reynir að fjalla um þetta mál í stærra samhengi verði snarlega útnefndur "óvinur Norðausturlands númer eitt. "
Ég ætla nú samt að hjóla í þetta mál enda munar mig ekkert um að bæta svona nafnbót við nafnbótina "óvinur Austurlands númer eitt" frá árinu 1999, þegar sú nafnbót var veitt fyrir það eitt að fjallað var um Kárahnjúkavirkjun á þann hátt sem stóðst sérstaka rannsókn á því hvort ég hefði "misnotað aðstöðu mína með gróflega hlutdrægum hætti" eins og það var kallað.
Minnugur samtalsins við sveitarstjórann þarna um árið verður hugsanlega fyrr en varir tímabært að spyrja: Ætlum við aldrei að læra?
![]() |
Ný yfirlitsskrá um fyrirhugaðar tilnefningar á heimsminjaskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.8.2007 | 17:13
LEGGUR OG SKEL.
Sú var tíðin að íslensk börn í sveitum landsins léku sér að leggjum og skeljum og beisluðu hugmyndaflug sitt til þess að búa til óskaveröld sína með viðfangsefnum fullorðinsáranna. Þegar ég fór fyrst í sveit barn að aldri kynntist ég því hvernig sveitabörnin notuðu kindakjálka sem ímyndaðan búfénað í leikjum sem gátu enst heilu dagana.
Þessir leikir voru í raun þjálfun og undirbúningur fyrir lífið og höfðu tvennt fram yfir kennslu í formi ítroðslu: Leikirnir voru sjálfsprottnir og virkjuðu og þroskuðu það ímyndunarafl sem er nauðsynlegt fyrir hæfileikann til að hafa frumkvæði og finna upp hluti. Af því að þetta voru leikir voru þeir skemmtilegir jafnframt því sem þeir voru þroskandi og uppbyggilegir.
Smám saman vaknaði hjá mér áhugi á að verða bóndi þegar ég yrði stór og einhver yndislegasti tími sem ég hef lifað var í júníbyrjun 1954 þegar ég fékk í fyrsta sinn að sjá um búrekstur í fjarveru frænda míns á bænum en þó undir yfirumsjón roskinnar frænku minnar.
Það var erfitt en skemmtilegt, heilnæmt og gefandi.
Af hverju er ég að minnast á þetta nú?
Vegna þess að enda þótt gemsa- og tölvuveröld nútímans sé okkur svo ómissandi að við eigum erfitt með að hugsa okkur lífið án þerra, eru takmörk fyrir því hve langt við getum gengið í því að gera þessa tækni að ofurvaldi í lífi okkar.
Í gær hitti ég mann sem er atvinnurekandi og sagði mér frá því að það væru ótrúlega mörg dæmi um það að rígfullorðnir menn væru orðnir slíkir tölvuleikjafíklar að þeir kæmu úrvinda til vinnu eftir vökunætur við tölvurnar og þyrftu helgina til að reyna að jafna sig.
Ef þeir síðan "dyttu í það" um helgina kæmu þeir jafnvel ekki til vinnu á mánudagsmorgni.
Fyrst fullorðið fólk á það á hættu að ánetjast svona tölvum er augljóst að börn og unglingar eru í enn meiri hættu.
Tvennt sem ég tók eftir í fjölmiðlum síðustu daga vekur athygli mína.
Annars vegar það að nú þarf ungt fólk að takast á hendur tíu milljón króna meiri skuldbindingar við að fara út í íbúðakaup heldur en fyrir þremur árum.
Hitt var það að þeim börnum fer fjölgandi, sem koma í vinsælar sumarbúðir í fyrsta sinn, að þau hvorki geta né kunna að leika sér.
Við getum tengt þetta saman. Hvað þarf ungt fólk að gera til þess að standast þá almennu kröfu að eignast hús og innbú, bíla og hverskyns tæki, hjólhýsi, húsbíla, tjaldvagna og sumarbústaði og stunda jafnframt það samkvæmislíf, sem Emilíana Torrini kallaði "skyldudjamm", um hverja helgi?
Þetta fólk þarf að vinna eins og skepnur og neyðist til að vanrækja uppeldi og samvistir við börn sín.
Þá er mjög þægilegt að gera tölvurnar og netið að barnfóstrum.
Ég orða þetta svo í einni setningunni í nýjum texta sem ekki hefur enn verið fluttur opinberlega: "Pabbi og mamma púla og djamma..."
Margir tölvuleikir reyna sem betur fer á hæfni þátttakenda til að leysa viðfangsefni. En margir byggjast á ofbeldi í brengluðu umhverfi.
Nú kunna einhverjir að benda á að ofbeldis- og hernaðarleikir séu ekkert nýtt.
Við strákarnir skylmuðumst og þóttumst vera Gunnar á Hlíðarenda eða Skarphéðinn Njálssson hér í gamla daga í sveitinni. En við urðum aldrei háðir þessum leikjum.
Þeir efldu hreyfingar okkar og stæltu okkur, og ef eitthvað fór úrskeiðis fundum við fyrir sársaukanum í stað þess að vera tilfinningalausir áhorfendur að tölvuleik dauða og örkumla.
Tilfinningaleysið í gerviveröld tölvunnar getur skapað ískyggilega firringu.
Og þegar börn nútímans eru orðin svo háð gemsunum, netinu og tölvuleikjunum að þau "brjálast", eins og það var orðað í blaði í gær, við það eitt að vera án þessa í part úr degi, þá getur það ekki verið eðlilegt.
Netið, tölvurnar og gemsarnir eru miklu betri uppfinningar en svo að við eigum að sætta okkur við það að þau verði að plágu sem kemur lífi okkar úr jafnvægi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.8.2007 | 12:44
EKKERT NET, ENGINN GEMSI, KRAKKARNIR BRJÁLAÐIR.
Athyglisverð eru orð hótelhaldarans í Bjarkalundi í blaðaviðtali. Hann segir: "Fólk kemur ekki hingað vegna þess að hér er ekki gemsasamband. Það kom hópur af bílum í vor og ætlaði að vera heila helgi. Flestallir flúðu því KRAKKARNIR URÐU ALVEG BRJÁLAÐIR. Þeir komust ekki inn á netið og komust ekki í gemsann."
Hugsið ykkur: Hópur fólks ætlar að slappa af, efla persónuleg tengsl og njóta útiveru á fögrum stað í skauti náttúrunnar og safna orku á batteríin áður en streitukapphlaup komandi vinnuviku tekur öll völd.
Síðasti hluti þess voru sennilega innkaup í búðum og krefjandi undirbúningur í tímakapphlaupi áður en lagt yrði í hann vestur.
Síðan, þegar þangað er komið, og loksins hægt að kúpla sig út úr streitunni tekur ekki betra við: Krakkarnir verða alveg brjálaðir af því að það vantar nettengingu og gemsasamband.
Hótelhaldarinn missir fólkið frá sér og það eru góð ráð dýr. Það er krefjandi verkefni fyrir þjóðfélagið í heild og hindra að krakkarnir verði brjálaðir við það að kynnast óstressuðu lífi.
Nýmynduð ríkisstjórn setur hundruð milljóna í það að tryggja að hvergi á helstu ferðamannaleiðum landsins geti "krakkarnir orðið brjálaðir."
Lýsandi fyrir hugarástand okkar og sálarlegt ástand.
Með þessu bloggi mínu er ég ekki að mæla bót því öryggisleysi sem ríkir á langri leið frá Reykhólasveit allt vestur á Patreksfjörð þar sem er engin byggð og fáfarið stóra hluta ársins, - aðeins að benda á hvort það sé eðlilegt að börn verði brjáluð við það að detta út gemsa- og netsambandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)