ELLIÐAÁRDALUR, HLÝJASTI STAÐUR LANDSINS Í JÚLÍ.

Ég minnist þess að hafa gert fréttapistil um Elliðaárdal fyrir mörgum árum. Í gær fór ég í hraðgöngu og skokk um dalinn og ætlaði varla að trúa mínum eigin augum hve þetta er orðið frábært útivistarsvæði. Ég óttaðist fyrirfram að of mikið hefði verið plantað af skógi því mjög stór hluti töfra svæðisins felst í því að niður dalinn rann hraun fyrir nokkur þúsund árum og gæti runnið þar hraun aftur.

En sem betur fer hafa nokkur hraunsvæðin verið látin ósnortin. Ég óttaðist einnig að hinn plantaði skógur væri of þéttur en í ljós kom að hann er mismunandi þéttur, sums staðar með dularmögn myrkviðisins sem minna á söguna af Bláskjá forðum, sem falinn var í slíku myrkviði, - en annars staðar hefur þess verið gætt að trén væru það dreifð að auðvelt væri að fara um skóginn.

Þó finnast mér trén sem eru fyrir suðvestan Rafveitufélagsheimilið taka of mikið af hinu fallega útsýni sem annars væri af veröndinni þar til austasta hluta Fossvogshverfisins þar sem það mætir Smáíbúðahverfinu.

Skemmtilegustu og bestu göngustígarnir eru þaktir kurli og því mjúkir og "lífrænir".

Samkvæmt gögnum veðurstofunnar er hlýjasta veðurstöð á Íslandi í júlí Elliðaárstöð, ótrúlegt en satt. Ef aðeins er tekið meðaltal mesta hita hvers júlídags kemst Hallormsstaður þó brot úr stigi yfir.

Þessi veðursæld Elliðaárdals skapst mest af því hve skjólsælt er þar með Esjuna sem ysta varnargarð fyrir norðanáttinni sem lækkar hitann meira á öðrum veðurstöðvum á sunnanverðu landinu.

Ef dregin er lína frá Hveragerði út á Seltjarnarnes og önnur lína frá Mosfellsbæ til Voga og Reykjanesbæjar mætast þær í krossgötum í Elliðaárdal.

Það er besta skýringin á því af hverju þungamiðja frjálsrar verslunar og þjónustu er að byggjast upp á svæðinu frá stóra nýja verslunarhúsinu við Vesturlandsveg um Ártúnshöfða, Mjódd og Smárasvæðið í Kópavogi.

Sem betur fór var ekki látið undan þeirri freistingu reiknimeistara sem geta reiknað út milljarða sparnað fyrir þjóðfélagið ef þétt íbúðabyggð væri í þessum fagra dal.

Elliðaárdalur á hliðstæðu í Central Park í New York, Regent Park og Hyde Park í London og fleiri slíkum görðum í miðju stórborga, að enda þótt þarna megi segja að séu verðmætustu lóðir sem hægt er að finna fyrir stórbyggingar eru takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í því að hrúga öllum byggingum í miðjur borga og útrýma auðum svæðum.

Manni sýnast svo sem ekki vera ýkja margir á ferli í görðunum í London og ekki voru margir á ferli í Elliðaárdalnum í gær, en tilvist þessa einstæða svæðis, sem á sér ekki líka í neinni höfuðborg, réttlætir að það sé látið ósnortið. Að hafa storkinn hraunstraum, laxveiðiá og gróðursælt útivistarsvæði við krossgötur höfuðborgar er nokkuð sem ekki er hægt að meta til fjár.

Við búum í köldu og vindasömu landi og hlýjasti og skjólsælasti staður sem veðurathuganir eru stundaðar á er þess vegna enn meira virði en ella.

Elliðaárdalur er gott dæmi um verðmæti náttúrunnar andspænis kaldri mannvirkjadýrkun.

Við getum án hvorugs verið og verðum að íhuga vel að enda ekki með því að öllum mestu verðmætum ósnortinnar náttúru á Íslandi verði fórnað fyrir virkjanir og mannvirki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Væni Ómar!

Ein af perlum okkar Reykvíkinga er að sjálfsögðu Elliðaárdalurinn í allri sinni dýrð!

"Elliðaárdalur er gott dæmi um verðmæti náttúrunnar andspænis kaldri mannvirkjadýrkun."

Með uppistöðulóni og fallegri rafstöðvarbyggingu, sem séð hefur okkur borgarbúum fyrir lýsingu og framleitt nauðsynlega orku til allra nútíma athafna eins og t.d. eldamennsku, þvotta og annarra nútíma búshátta!

Hvernig væri Reykjavík ef þessi nauðsynlega virkjun hefði ekki orðið til?

Mótmæltir þú gerð uppistöðulóns í Elliðaárdal?  Nei sem betur fer voru engir þínir líkar þá á ferð!

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 23:36

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Elliðárdalur er frábært útivistarsvæði og þú virðist vera að fara á límingunum yfir því að einhverjir vondir kallar vilji byggja í dalnum af því það eru svo dýrar og flottar lóðpir þar. Ég held þú getir alveg andað rólega Ómar,því þarna mun aldrei verða byggt.

En þú virðist ekki gera þér grein fyrir því, að þetta EINSTAKA útivistarsvæði er algjörlega mannanna verk og væri harla lítils virði sem útivistarsvæði ef ekki væri fyrir skjólgóðan gróðurinn.

En ofurnáttúruverndarsinnar voru komnir fram áður en þú sprattst fram á sjónarsviðið sem slíkur og ég man glögglega hvernig þeir létu þegar fyrirhuguð var vegtengingin milli Árbæjar og Breiðholts með brú rétt neðan stíflunnar. Þá þegar var forskrift upphrópanna fullmótuð (1977 að mig minir) og merkilegt nokk, alltaf er það sami fámenni öfgahópurinn sem mótmælir í Reykjavík. Á þessum tíma voru Alþýðubandalagsmenn í broddi fylkingar. Kannast einhver við upphrópanirnar frá 1977?

"Lífríki dalsins og sérstaklega laxveiðiárinnar í hættu"

"Árbæjarsafn slitið úr tengslum við íbúabyggð austan vegtengingarinnar"

"Hraðbrautarstubbur sem hvorki hefur upphaf né endi" (þessi þótti mér alltaf góður)

Það var sama lið sem mótmælti breytingum á Bakarabrekkunni nokkrum árum fyrr, með útitafli o.fl. og sögðu að verið væri að eyðileggja einstök menningarverðmæti. Sama lið og mótmælti byggingu húss Hæstaréttar við Lindargötu og sögðu nýja húsið skyggja á safnahúsið við Hverfigötu, en því fannst allt í lagi að reiturinn væri ljótasta bílastæði landsins í yfir 50 ár Sama lið sem mótmælti ráðhússbyggingunni við tjörnina og sögðu að fugla og dýralíf væri í hættu. Svona mætti lengi telja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2007 kl. 11:21

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er einnig svolítið merkilegt að ég, landsbyggðamaðurinn sl. 18 ár, fer á hverju ári í göngutúr um Elliðárdalinn og fylgist með náttúrunni þar dafna, en þú Ómar, sem ert eins og tófa um allar koppagrundir, verður steinhissa að sjá hvað þetta er dásamlegt svæði, búandi í næsta nágrenni. Eru ekki næg verkefni fyrir þig á Suð-Vesturhorninu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2007 kl. 13:28

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég er en af þessum heppnu borgarbúum sem hafa uppgötvað hversu dásamlegur Elliðaárdalurinn er. Um árabil hef ég gengið þar og skokkað, allt eftir getu hverju sinni... Í gær var ég þar á ferð en fannst vindurinn kaldur þar sem hann blés af norðri . Hólminn í ánni þar sem trjám var plantað uppúr 1950 er alvag dásamleg útivistarparadís.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 17.8.2007 kl. 17:13

5 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Ómar.  Sammála því að Elliðaárdalurinn er náttúruperla.  Ég bý í Árbænum og við förum oft í dalinn, gangandi, hlaupandi eða hjólandi.  Það er líka alveg rétt að þessi stefna að þétta byggðina held ég að sé ekki það sem flestir vilja.  Fólk vill búa það sem það getur andað og hreyft sig út fyrir steypsteypu.  Þessar áætlanir sumra um að byggja allt að 30.000 manna byggð í Vatnsmýrinni ganga ekki upp.

Þorsteinn Sverrisson, 17.8.2007 kl. 21:01

6 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Það eru ef til vill einhverjir búnir að gleyma því en það hefur verið í umræðunni að flytja Árbæjarsafn út í Viðey og losa þar með dýrmætt land undir byggingarlóðir á besta stað í borginni. Það hefur eitthvað dregið úr þessu enda virðist hugmyndin afar vanhugsuð. En það er aldrei að vita, kannski verður einn daginn tilkynnt að ákveðið hafi verið að drösla Árbæjarsafni út í Viðey svo að hægt verði að nýta allar þessar byggingarlóðir í Elliðaárdalnum. Og hvað yrði þá um þessa útivistarperlu?

Margrét Birna Auðunsdóttir, 19.8.2007 kl. 16:13

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Árbæjarsafn er nú ekki staðsett beinlínis í dalnum, heldur á hæð fyrir ofan og þó byggt yrði á svæði Árbæjarsafns myndi það ekki skerða útivistarperluna

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 09:35

8 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Nákvæmlega. Það er mikil ágirnd í þetta svæði og ef af verður fara mikil verðmæti til spillis þar sem eru tengsl Árbæjarsafns við þessa útivistarperlu. Það er fleira verðmætt en húsbyggingar og Árbæjarsafn er þar á meðal. Á sínum stað, á jörðinni Árbæ.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 20.8.2007 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband