Að skapa störf sem hverfa aftur.

Í fyrirsögn fréttarinnar um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á ströndum, - "skapar 200 ný störf", - felst grunnhugsun þeirra sem geta ekki hugsað sér að slaka á virkjunarframkvæmdum á Íslandi. Þeir sem lesa fyrirsögnina og upphaf fréttarinnar fá glýju í augun, - vaaá þetta er fleira fólk en á heima í hreppnum núna!

Og í framhaldi af því geta menn byrjað að leika sér að gömlum reikningi: 200 ný störf skapa minnst 500 afleidd störf og þar með mun fólki á svæðinu fjölga um meira en þúsund! Æðislegt!

Í lok fréttarinnar kemur síðan sannleikurinn í ljós: "Áætlað er að um 200 manns fái vinnu meðan á framkvæmdatímanum stendur." Sem sagt, 200 manns koma inn á svæðið og fara síðan svipað því sem gerðist hinum megin við flóann á tímum Blönduvirkjunar þar sem fólki hefur fækkað stöðugt eftir að virkjunin var reist.

Hugurinn er ekki leiddur að því hvernig þeir peningar, sem leggja á í þetta, nýtast til framtíðar. Þaðan af síður er hugað að því hvaða náttúruverðmætum á að fórna eða hvaða möguleika náttúruverndarnýting á þessu svæði gæti gefið fjárhagslega.


mbl.is Virkjun Hvalár skapar 200 ný störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti hún að fara í fyrra skiptið?

Svar mitt er já. Ef Þorgerður Katrín hefði ekki farið til Peking til að vera viðstödd upphaf Ólympíuleikanna hefði það þótt einkennilegur tvískinningur að hún færi núna. Þess vegna tel ég að sú ákvörðun hennar hafi verið rétt að fara sem ráðherra íþróttamála til opnunar leikanna og sýna með því íslensku afreksfólki og íþróttahreyfingunni sjálfsagða virðingu og stuðning á stærsta íþróttaviðburði heims.

Þótt ég sé ekki hrifinn af Bush Bandaríkjaforseta tel ég að hann hafi gert rétt í því að lesa Kínverjum fyrst ærlega pistilinn og fara síðan og sýna löndum sínum samstöðu á leikunum.

Ég hef áður rakið í pistil í hvaða ógöngur menn leiðast ef þeir láta stjórnmál hafa áhrif á leikana, sem hafa það að aðalsmerki að vera leitast við að vera griðastaður, utan við pólitísk átök.

Ólympíuleikarnir 1980 og 1984 eru dæmi um órökrétta pólitíska íhlutun, - Bandaríkjamenn sniðgengu leikana í Moskvu 1980 vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan til að steypa Talibönum en rúmum tuttugu árum síðar réðust Bandaríkjamenn sjálfir inn í Afganistan til að steypa þessum sömu Talibönum, sem þeir höfðu áður stutt gegn Sovétmönnum.

1984 hefndu Sovétmenn sín með því að sniðganga leikana í Los Angeles. Sandkassaleikur.

Ég tel það vanmat á gildi íþrótta að amast við þeim og hafa allt á hornum sér gagnvart þeim. Fyrstu árin eftir að við Íslendingar fengum endanlegt sjálfstæði áttu engir meiri þátt í því að koma okkur á kortið sem sjálfstæðri alvöru þjóð en afreksmennirnir sem vörpuðu ljóma á landið á einstæðri gullöld íþróttanna hér á landi.


mbl.is Íhugar að fara aftur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin frá 1962 og íþróttahús M.R.

Fyrir þá sem muna eftir heimsmeistaramótinu i handknattleik 1962 er gaman að endurlifa sælar stundir frá þeim tíma þegar strákunum okkar gengur vel. Íslendingar voru þá algerlega óþekktir í handboltanum en náðu í sjötta sætið á HM og unnu í aðdragandanum óvænt sjálfa Svía, sem voru þá taldir vera með annað af tveimur bestu handboltaliðum heims.

Íslendingar höfðu geymt leynivopn sitt, Ingólf Óskarsson, fyrir Svíaleikinn, og hann, ásamt Gunnlaugi Hjálmarssyni, Ragnari Jónssyni, Erni Hallsteinssyni, Birgi Björnssyni, Karli Jóhannssyni og félögum, kom Svíum í opna skjöldu.

Ef ég man rétt töpuðum við síðan fyrir Ungverjum sem taldir voru með lakara lið en Svíar. En þessi frammistaða var auðvitað ótrúleg vegna þeirra aðstæðna sem leikið var við hér heima. Leikið var í gömlum hermannabragga að Hálogalandi í Reykjavík í sal sem var alltof lítill og ég minnist enn þess lúxus sem það þótt þegar farið var í eitt sinn suður á Keflavíkurflugvöll til að leika í stærra húsi.

Segja má að árið 1962 hafi handboltinn stimplað sig inn sem þjóðaríþrótt Íslendinga og þess vegna tel ég það menningarsögulegt slys að lofa ekki gamla íþróttahúsinu við Menntaskólann í Reykjavík að standa eins og það er svo að hægt sé að skoða þær slóðir þar sem Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari innleiddi handboltann í sal sem var lítið stærri en betri stofa í venjulegri íbúð.

Þar kynntust ýmsir af fremstu íþróttamönnum þess tíma töfrum íþróttanna, t.d. gullaldaríþróttamennirnir Örn Clausen, Haukur Clausen og Hörður Haraldsson.

Safna ætti saman myndum í líkamsstærð af öllum þeim afreksmönnum, sem þar stigu sín fyrstu spor fyrr og síðar ásamt myndum af íþróttakennurunum frá þessum tímum og hafa þessar myndir til sýnis á ákveðnum tímum, þegar húsið væri opið fyrir almenning.

Íþróttahúsið í heild er aðeins um 2% af skólalóðinni og með nútíma tækni á að vera auðvelt að koma bókasafninu, sem menn vilja troða þar inn, fyrir annars staðar, ofan jarðar eða neðan.


mbl.is Króatar unnu - Danir leika ekki til úrslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturbyggð vanrækt einu sinni enn?

Heyrði í fréttum að samgönguráðherra ætlaði að bera það upp á fjórðungsþingi Vestfirðinga að færa gangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar einu sinni enn aftar í forgangsröðinni. Í þetta sinn verði göng mili Skutulsfjarðar og Álftafjarðar tekin fram fyrir.  Ég segi "enn einu sinni" því að göngin á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar hefðu að mínu mati átt að koma á undan Héðinsfjarðargöngunum og jafnvel enn fyrr. 

Með þessu er verið að reka íbúa Vesturbyggðar í fang rússneskra huldumannanna sem enginn fær að vita hverjir eru en íbúar Vesturbyggðar ætla að treysta fyrir öllu sínu og afkomenda sinna. 

Sú hugsun getur verið í undirmeðvitundinni hjá þeim sem ráða ferðinni í þessum málum að úr því að "99,9%" líkur séu á olíuhreinsistöð við Arnarfjörð geti fólkið á Suðurfjörðum ekki í ofanálag ætlast til þess að fá jarðgöngin líka.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fyrstu mistökin hafi verið gerð í kringum 1980 þegar ákveðið var að tengja fyrst saman Ísafjörð og Hólmavík. Ein af röksemdunum fólst í svonefndri Inndjúpsáætlun sem tíminn leiddi í ljós að var slíkir loftkastalar, að maður hlær og grætur þegar maður les hana í dag.

Ef ákveðið hefði verið að leggja áherslu á stystu leið til Reykjavíkur sem liggur um norðurhluta Breiðafjarðar og Gilsfjörð væri staðan önnur nú.  


Hollenskt vandamál á Íslandi?

Á 42 þúsund ferkílómetrum lands býr 16 milljóna þjóðin Hollendingar. Á 103 þúsund ferkílómetra landi búa 300 þúsund Íslendingar í hundrað sinnum dreifbýlla landi. Furðu má gegna að í lang dreifbýlasta landi Evrópu skuli menn vera að setja á flot hugmyndir um að þurrka upp stór sjávarsvæði fyrir byggð eins og nú má sjá greint frá í Fréttablaðinu.

Núverandi miðja íbúabyggðar í Reykjavík er inn undir Elliðaárdal. Byggð, sem risi á þurru landi í mynni Skerjafjarðar, er jafn langt frá þeirri miðju og Blikastaðaland, svæðið við Úlfarsá eða í við Urriðavatn.

Núverandi miðja íbúabyggðar er skammt frá þjóðleiðinni Akureyri-Mosfellsbær-Mjódd-Smári-Garðabær-Hafnarfjörður-Reykjanesbær og þjóðleiðinni frá krossgötum þeirrar leiðar austur á Suðurland.

Íbúðabyggð út við Seltjarnarnes myndi rísa fjær þessum þjóðleiðum en svæðin sem nú eru óbyggð við Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut.

Látið er í veðri vaka að þessi uppþurrkunarlausn sé svo fjarska ódýr, kosti aðeins örfáa milljarða. Þá gleyma menn því að með því eru hafnarmannvirki Kópavogs og næsta athafnahverfi við þau gerð ónýt.

Reykvíkingar myndu missa útivistar, baðstrandar- og siglingamöguleikana við strandlengjuna frá Ægissíðu inn fyrir Nauthósvík.

Hugsanlegt uppþurrkunarsvæði er í landi fimm sveitarfélaga og þarf samþykki þeirra allra og í kostnaðarútreikningum er alveg sleppt þeim kostnaði sem fylgir því að þurfa að dæla öllu affallsvatni og rigningarvatni á þessu svæði UPP til sjávar.

Svæðið er á lista yfir fyrirhuguð náttúruverndarsvæði sem verði friðuð.

Ég fæ ekki annað séð en að þessi hugmynd sé skemmtileg stúdía fyrir verkfræðinga og til vangaveltna fyrir þá sem hafa gaman af slíku en ég vissi það ekki fyrr en nú að landþrengsli væru orðin slík í landdreifbýlasta landi Evrópu að þörf væri á svipuðum örvæntingarlausnum og hjá þeirri þjóð þar sem þéttbýlið er hundrað sinnum meira.

Sögurnar af riddaranum sem barðist við vindmyllurnar voru skemmtilegar. Þannig getur það líka orðið um þær sögur sem hægt verður að spinna upp af riddaranum sem ætlar að berjast við þyngdaraflið með vatns- og skolpdælum.


Stalín er ennþá hér.

Frægasti Georgíumaður allra tíma er Jósef heitinn Stalín. Hann tók þennan uppruna sinn greinilega alvarlega því hann innlimaði héruðin, sem nú er mest deilt um, inn í Georgíu og við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með það.

Hér um árið var sett á svið í Reykjavík leikritið Stalín er ekki hér, en í Georgíu er sannarlega hægt að segja: "Stalín er ennþá hér." Jón Björgvinsson fréttaritari útvarpsins, sem er í Tblisi, spurði nokkurra forvitnilegra spurninga í hádegisfréttum vegna þess uppátækis forseta Georgíu að senda herlið inn í Suður-Ossetíu.

Gerði hann þetta vegna þess hve hann er óreyndur og áttaði sig ekki á afleiðingunum?
Gerði hann þetta til þess að fylkja þjóðinni á bak við sig og láta erfið mál, sem hafa ógnað völdum hans, hverfa í skuggann?
Gerði hann þetta vegna þess að það gæti þrýst á það og flýtt fyrir því að Georgía kæmist inn í NATÓ, samanber ummæli Merkel nú?
Gerði hann þetta vegna þess að Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna hvíslaði einhverju í eyra hans?
Er þetta liður í klækjastjórnmálum í aðdragandi forsetakosninga í Bandaríkjunum þar sem varaforsetinn á þátt í því að koma af stað atburðarás sem komi sér vel fyrir frambjóðanda Republikanaflokksins?

Þegar mönnum finnst einkennlegt og lykta af vænisýki þegar Rússar ásaka Bandaríkjamenn fyrir að vera á ógnandi hátt að umkringja þá ættu menn að líta til fortíðarinnar þar sem Rússar gátu sannanlega sagt að þennan leik væri verið að leika gagnvart þeim.

Í fyrra skiptið var það Adolf Hitler sem leynt og ljóst stefndi að umkringingu með því að gera bandalag við nágrannaþjóðir Rússa, Ungverjaland, Júgóslavíu, Rúmeníu og Búlgaríu að vestanverðu og Japani að austanverðu. Samvinnan byggðist á því að Þjóðverjar sendu hermenn inn í þessi lönd við vesturlandamæri Rússa með samþykki ráðamanna.

Að vísu var þeim sem sömdu um bandalag við Hitler í Júgóslavíu steypt af stóli daginn eftir, en
fengu í staðinn yfir sig "Bestrafung" eða refsingu, miskunnarlausar loftárásir og hernám.

Stalín var eftir á sakaður um að hafa verið of andvaralaus yfir því hvernig nasistar færðu sig sífellt upp á skaftið í bakgarði Sovétríkjanna, enda hefði tilgangurinn komið í ljós í innrásinni Barbarossa, mestu innrás allra tíma.

Þessi umkringing öxulveldanna kostaði ca 20 milljónir Sovétmanna lífið og slíku gleyma þjóð, sem fyrir því verður, ekki svo fljótt.

Seinni umkringingin átti sér stað á árunum 1949-1963 með stofnun NATÓ að vestanverðu og SEATÓ í suðaustanverðri Asíu og var John Foster Dulles utanríkisráðherra Bandaríkjanna helsti smiður þeirrar stefnu. Segja má að þeirri umkringingu hafi endanlega lokið í Kúbudeilunni 1963 þegar Bandaríkjamenn kváðust ætla að hætta við að setja upp eldflaugastöðvar í Tyrklandi í skiptum fyrir flutning á rússneskum eldflaugum frá Kúbu. (Raunar höfðu Bandaríkjamenn hvort eð er verið búnir að hætta við eldflaugarnar í Tyrklandi en settu málið svona upp svo að Krjústsjoff gæti bjargað andlitinu heima fyrir.)

Það má ekki bara horfa á aðra hliðs málsins og einblína á grimmd Rússa í átökunum nú og í Tsetseníu og að stjórnarfarið í landinu hneigist í alræðisátt heldur er engu að síður nauðsynlegt að reyna að skilja tilfinningar og gerðir þeirrar þjóðar sem andspænis NATO- útþenslunni stendur.

Þótt okkur finnist fráleitt að líkja saman umkringingu Hitlers og því sem er að gerast núna á vestur- og suðvesturlandamærum Rússland, finnst Rússum það greinilega ekki.

Í þeirra augum er hernaðarlega það sama að gerast 2008 og 1940-41, - voldug þjóð í vestrinu myndar bandalag við þjóðir í bakgarði Rússlands og sendir hermenn þangað.

Vonandi verður sá leikur að eldinum sem hófst með aðgerðum Georogíumanna og hefur síðan verið svarað með stigmögnuðum hernaðaraðgerðum Rússa ekki til þess að atburðarásin fari úr böndunumm.


mbl.is „Georgía getur gengið í NATO"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallbjörn, dæmi um frumkvæði.

Hallbjörn Hjartarson er gott dæmi um það hverju aðeins einn maður getur orkað í sveitarfélagi sínu. Ekki er að efa að hefði hann átt heima á Blönduósi hefðu kántrísafn þar, kántríútvarpsstöð og kántríhátíð dregið að sér margfalt fleira fólk en á Skagaströnd því það munar miklu að vera í alfararleið.

En Hallbjörn hefur haldið tryggð við sína heimabyggð og smám saman hefur fólk áttað sig á því að það sem hann gerir og hefur gert er ekkert til að breiða yfir heldur þvert á móti að kunna að þakka það.


mbl.is Kántrýdagar fara fram á Skagaströnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir fjórtán árum í Kópavoginum.

Hið breska mál um hávaðakynlífið er ekkert nýtt fyrir Íslendinga. 1994 kom upp sams konar mál í blokk í Kópavoginum, og þurfti ekki drynjandi tónlist til að gera allt vitlaust, parið sá sjálft um að halda vöku fyrir blokkaríbúum heilu næturnar að sögn með óhljóðum úr eigin börkum. Málið fjaraði út en þó minnir mig að það hafi ekki verið fyrir atbeina dómsvaldsins.

Á sínum tíma afgreiddi ég málið með eftirfarandi stöku:

Þau listdans í lostanum stíga.

Hann lætur ei deigan síga

tímunum saman, -

tryllt er það gaman,

en þarf maðurinn aldrei að míga?  


mbl.is Bannað að heimsækja kærustuna vegna hávaðakynlífs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hnerrað er í Seðlabankanum...

Getur það verið, að þegar hnerrað sé í Seðlabankanum fái borgarstjórnarmeirihluti á vegum Sjálfstæðismanna banvæna lungnabólgu?

Fróðlegt var að heyra ýmislegt sem kom fram í þættinum Vikulokunum í morgun. Þar bar til dæmis á góma eina af hugsanlegum ástæðum þess, að sexmenningarnir svonefndu risu gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fóru "án Villa" á dæmalausan fund með Geir Haarde, gæti hafa verið sú að þeir sem áttu að koma inn í útrásina margfrægu hjá REI voru tengdir Baugsveldinu.

Og maður hugsar með sér að kannski hafi þá verið hnerrað í Seðlabankanum og það nægt til að meirihlutasamstarfið fékk lungnabólgu.

Gunnar Smári Egilsson sagði frá því í Vikulokunum að hann hefði verið ókunnur herbergjaskipan í ráðhúsinu þegar hann kom þangað og ráfað fyrir slysni inn í herbergi aðstoðarmanns borgarstjóra. Þar hefði sést til hans og allt orðið vitlaust.

Á þessu sést hvaða áhrif það getur haft ef menn hafa það á tilfinningunni að hnerrað sé í Seðlabankanum, enda höfðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áður hafnað alfarið hugmyndinni um að Gunnar Smári yrði aðstoðarmaður Ólafs F.

Í Vikulokunum ræddi Gunnar Smári þrennt sem gæti hafa átt þátt í því hvernig málin hafa æxlast í borgarstjórn síðan REI-klúðrið byrjaði.

1. Alltof gagnger kynslóðaskipti almennt í borgarstjórn. Af því dreg ég meðal annars þá ályktun að hnerri í Seðlabankanum hafi meiri áhrif á nýgræðinga, sem muna ekkert annað en að hafa alist upp undir handleiðslu leiðtogans mikla, heldur en á reyndari stjórnmálamenn.

2. Gunnar Smári nefndi tilurð "smákónga" í borgarkerfinu sem hafi dregið úr möguleikum borgarstjóra til að að stjórna jafn markvisst og af sama myndugleika og Davíð og Ingibjörg Sólrún gátu gert.

3. Ókostir þess að semja fyrirfram um forystuskipti á kjörtímabili. Þetta hefði skemmt fyrir í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna síðasta kjörtímabilið, sem þeir sátu í ríkisstjórn, og einnig skemmt fyrir í samstarfi Sjálfstæðismanna og F-lista í borgarstjórn.

Af því sem Óskar Bergsson segir nú um höfnun Samfylkingar á nýjum R-lista má ráða þann vanda, sem hin smærri framboð í borginni þurfa að glíma við, þ. e. að ná minnst 6-7 prósenta fylgi til að koma inn manni.

Það munaði litlu hjá Framsókn síðast að ná inn manni, og í upphafi kosningabaráttunnar sáust tölur allt niður í tvö prósent hjá F-listanum. Í kosningunum 2002 rétt slapp Ólafur F. inn á síðustu stundu.

Óskari hugnast auðvitað betur að komast öruggur inn í skjóli R-lista en að ganga í gegnum tvísýna kosningabaráttu.

Sú staðreynd vegur greinilega þungt hvað snertir meirihlutasamstarf, bæði í sveitarstjórnum og á landsvísu, að meira kemur í hlut hvors um þegar tveir skipta kökunni en þegar fjórir skipta henni.

Á þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn byggt sterka stöðu sína og það svo mjög, að flokkar forðast að ganga til kosninga öðru vísi en óbundnir. Það má velta því fyrir sér hvort það hefði nægt í síðustu kosningum að fella ríkisstjórnina alveg, - Samfylkingin hefði samt tekið upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan stýrir för.

Sjálstæðiflokkurinn er við stjórnvölinn á stóriðjuhraðlestinni og fær til sín annað hvort "sætustu stelpuna á ballinu" eða "næstsætustu stelpuna á ballinu" til að fara með sér heim. Í ríkisstjórn gegnir Samfylkingin þessu hlutverki og leiðari Þorsteins Pálssonar byggðist á því að æsa Sjálfstæðismenn í borginni til að krækja sér aftur í stóriðjustelpuna sem fór frá þeim síðastliðið haust.

Í leiðaranum var þungamiðjan sú sem dregur stóriðjusinnana saman, þ. e. hin gamla síbylja um það að eina ráðið til að verjast samdrætti í þjóðarbúskapnum sé að herða á virkjanaframkvæmdum.

Í orði kveðnu heitir þetta "rástafanir í atvinnumálum" en er í raun hin skefjalausa stóriðjustefna sem engu eirir. Einkennin eru hin sömu og hjá fíklum. Eftir að farið var af stað með það að spenna hér þenslu upp úr öllu valdi 2003 með framkvæmdunum fyrir austan svo að efnahagslífið var í svipuðu ástandi og alki á blindfyllerí, geta þeir sem að því stóðu ekki horfst í augu við timburmennina heldur verða að fá sér eins sterkan afréttara og hægt er.

Á ofþenslutímabilinu fóru til dæmis húsbyggingar langt fram úr þörfum og afleiðingin er stórfelldur samdráttur, sem hefði ekki orðið ef hér hefði verið efnahagsstjórn byggð á framsýni.

Línurnar í borgarstjórn ráðast undir niðri og í raun af afstöðu flokkanna til stóriðjufyllerísins. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skera sig úr sem hreinir stóriðjuflokkar. Samfylkingin er beggja blands en Vinstri grænir og fullrúar F-listans, sem eru reyndar félagar í Íslandshreyfingunni, eru andvígir því offari sem stórðjusinnar vilja fara og þess vegna á móti Bitruvirkjun.

Ég held að það þurfi ekki sérstaka glöggskyggni til að sjá að Sjálfstæðismenn og Framsókn myndu fyrr eða síðar ná aftur saman í borgarstjórn á þessu kjörtímabili, hvattir af forystumönnum flokka sinna.

Óskar Bergsson hefur ekki farið dult með það að hann vill þessa Bitruvirkjun og allir farsarnir undanfarna mánuði hafa aðeins verið millileikir í refskák fyrir Sjálfstæðismenn og Framsókn, Það þurfti næði til að skipta út mönnum til að minnka lyktina af REI-klúðrinu, stokka forystuna í borginni upp, og bæta við Bitruvirkjunarmálið öðrum ágreiningsefnum til að fá átyllu til gera það, sem hugurinn stóð alltaf til undir niðri.

Já, stóðiðjan stýrir för og tekur sinn toll. Á Hellisheiði stendur til að kreista svo mikla orku úr jörðu að hún endist aðeins í nokkra áratugi og láta síðan afkomendum okkar eftir að finna 600 megavött annars staðar. EKki á að hika við að taka ákvarðanir sem bitna á yfirgnæfandi meirihluta kjósenda, þeim sem eru ófæddir.

Þessi stefna samsvarar því að Ólafur Thors, Bjarni Ben, Emil Jónsson og Gylfi Þ. hefðu virkjað fyrir álverið í Straumsvík á þann hátt að orkan væri búin núna og við sætum uppi með afleiðingarnar af svona siðlausri ákvörðun.

Aðeins af þessum ástæðum einum er Bitruvirkjun framkvæmd, sem er okkur ekki sæmandi, burtséð frá öllum umhverfisspjöllunum, sem hún veldur.


mbl.is Bitruvirkjun á kortið á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband