Tilhlökkunarefni.

Það er tilhlökkunarefni að Heimsljós Laxness verði sett upp í Þjóðleikhúsinu.  Sýning á verkinu í Borgarleikhúskinu fyrir allmörgum árum var minnisverð, og einkum var frammistaða Ólafíu Hrannar Jónsdóttur eftirminnileg að mínum dómi, því að mér fannst hún skjóta sér upp á stjörnuhimin íslenskra leikara með henni.

Ég var hugsanlega einn af fáum leikhúsgestum þá sem hafði upplifað aðstæður konunnar, sem hún lék, þegar ég var í sveit í Langadal og kynntist niðursetningunum sem þar voru í hálfhrundum torfbæ. 


mbl.is Heimsljós sett upp í Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókið viðfangsefni.

Á Íslandi munu vegaslóðar vera um 24 þúsund kílómetra langir. Sumri segja talsvert meira. Af því og fjölbreytilega í ferðum um landið leiðir að það viðfangsefni að hafa hemil á utanvegaakstri, sem spillir landi, er afar viðamikið og flókið.

Það hefur verið vitað í meira en tuttugu ár að hlutverk hestsins í smölun hefur farið síminnkandi og ég veit dæmi þess að í smölun á ákveðnum afrétti síðasta haust var aðeins notaður einn hestur, - annars aðeins fjór- og sexhjól. 

Eftir átta ára "flugvallarbúskap" á Brúaröræfum og miklu flugi yfir svæðið þekki ég orðið nokkuð vel til þar.  Þar eru, auk fjór- og sexhjóla, notaðir léttir jöklajeppar með stórum hjólbörðum, sem spora afar lítið ef hleypt er úr þeim, einkum ef mynstrið er fíngert. 

Á Fljótsdalsheiði má sjá ljót för eftir vélknúin tæki, sem hafa verið notuð þar í rigningar- eða leysingatíð. 

Flest þeirra eru þó gömul og gróf niðurstaða mín er sú, að vanir leiðsögumenn, sem hafa farið um þetta svæði í áratugi, fara yfirleitt afar skynsamlega og gætilega að. 

För eftir þá, ef einhver eru, eru yfirleitt horfin í frostlyftingu næsta vors, enda vita þessir menn nákvæmlega hvar slík för hverfa eftir veturinn og hvar ekki, en það er mjög háð aðstæðum. 

Svipað er að segja um vönustu smalamenn víða um land. 

Verstu skemmdir af völdum utanvegaaksturs valda óvanir bílstjórar sem hafa hvorki reynslu né þekkingu til að átta sig á afleiðingum lögbrota sinna. 

Þeir átta sig til dæmis ekki á muninum á því hvort viðkvæmur gróður er í mikilli hæð yfir sjó eða á láglendi eða hvort land er hart eftir langvarandi þurrka eða deigt vegna rigninga eða leysinga. 

Á ferðum um hálendið er víða ljótt að sjá hvernig vélhjólamenn og jeppamenn hafa spólað í hringi utan við slóðir algerlega að þarflausu. Þótt slík för hverfi víða á nokkrum árum er full ástæða til að taka hart á slíku, því að ef slíkt er látið átölulaust spilla svona för út um allt upplifun þeirra þúsunda sem vilja njóta ósnortins lands. 

Mörg ljót för má líka sjá vegna aksturs áður en fært er orðið á vorin, og eru lokanir fjallvega þá virtar að vettugi. Við slíku þarf að stemma stigu. 


mbl.is Mótorhjól auglýst til aksturs utan vega í smölun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sic semper tyrannis".

Þessi þrjú latnesku orð hafa oft hljómað við fall valdhafa, sem oftast hafa réttilega verið kallaðir harðstjórar en ekki alltaf átt það skilið.

Brútus er sagður hafa kallað þau þegar hann stakk Sesar og John Wilkis Booth þegar hann skaut Lincoln. 

En ekki þarf að fara í grafgötur um það hvers konar valdhafi Gaddafi hafi verið og ekki ólíklegt að þessi upphrópun eigi eftir að heyrast aftur þarna við Miðjarðarhafið eftir 2054 ára hlé frá því að þau voru hrópuð norðan hafsins þar til að ástæða er til að hrópa þau aftur sunnan hafsins.  


mbl.is Segir Gaddafi ekki lifa af valdaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar Bryndís fánann fellir..."

Það er ekki nýtt fyrirbæri að flaggað hafi verið flíkum á fánastöngum. Ég veit um tvö dæmi þess.

Einhvern tíma á áttunda áratugnum kom ég fljúgandi ofan af hálendinu til Akureyrar og þurfti að hafa hraðann á við setja bensín á vélina og halda sem snarast áfram suður. 

Á hálendinu hafði ég farið í ullarnærfatnað og fór úr honum í flýti á Akureyrarflugvelli og flaug síðan rakleiðis upp í Kerlingarfjöll. 

Þegar ég var á bakaleiðinni náði ég sambandi við flugturninn á Akureyri, en æringinn Húnn Snædal var þá á vakt. 

Húnn sagði mér að hann ætlaði að flagga í tilefni af væntanlegri komu minni.

Ég taldi það nú fullangt gengið en hann sagðist samt ætla að gera þetta og að ég hefði enga ástæðu til að vera vanþakklátur.  Ég sagðist ekki skipta mér af þessu, hann hefði völdin á vellinum. 

Þegar ég kom inn til lendingar brá mér í brún. Húnn hafði dregið bláleitar síðar ullarnærbuxur að húni á flaggstönginni og sá ég það þetta voru nærbuxur sem ég hafði gleymt í flýtinum nyrðra fyrr um daginn!  

Húnn sagðist hafa gert þetta af geiðasemi við mig svo að ég gleymdi nærbuxunum ekki öðru sinni og ég þóttist vita að það hlakkaði í honum að geta svarað forvitnum flugfarþegum, sem komu til flugstöðvarinnar, um það hvers vegna þessi viðhöfn væri höfð. 

Í þætti hjá Hemma Gunn á sínum tíma kom fram að Jón Baldvin Hannibalsson hefði gert það sér til gamans eitt kvöld í Edinborg að draga nærbuxur Bryndíar Schram að húni á flaggstöng við Edinborgarkastala. 

Þegar hagyrðingurinn Jóhannes Benjamínsson heyrði þetta gerði hann tvær eftirfarandi stökur á stundinni, og skal tekið fram að ekki er víst að ég muni þá fyrri þeirra nákvæmlega upp á orð:

 

Ástir krata ættu´að skána,

einkum þó hjá þessum hrók,  

ef hann notar fyrir fána 

frúar sinnar undirbrók.

 

Voðalegir verða smellir.

Víst er þetta herleg sjón: 

Þegar Bryndís fánann fellir 

flaggstöngina reisir Jón. 

 


mbl.is Flaggaði flík um miðja nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálffalin flugeldasýning og daufur hjúpur.

Hvaða snillingi datt það í hug að þegar metfjöldi fólks var staddur á Arnarhóli, hafði óhindrað útsýni til vesturs og norðvesturs og var búinn að horfa í þá átt allt kvöldið, að hafa flugeldasýninguna í öfugri átt, þar sem háu húsin við Skúlagötu földu allan neðri hluta hennar?

Þessum sama skara áhorfenda, sem stærstum hluta stóð all fjarri Hörpu, var búið að telja trú um það dögum saman, að þegar ljósin yrðu kveikt í glerhjúpi Hörpu yrði það einhver mesta ljósadýrð og bjarmi allra tíma, svo mikið hafði verið gert úr þessu. 

En allir þeir, sem ég hitti þarna, voru sammála um að uppblásin stóryrði um ofurbjarma allra tíma hefðu gert það að verkum að þeir urðu fyrir miklum vonbrigðum. 

Flestir héldu að eitthvað hefði farið úrskeiðis og að aðeins hluti ljósanna hefði kviknað, enda virkuðu þau mjög dauf þegar staðið var fjarri þeim, eins og öllum þeim, sem auglýstu þetta hefði mátt vera ljóst. 

Mér sýnist ljóst að listaverkið njóti sín ekki nema séð tiltölulega nálægt húsinui af Geirsgötunni og í stað þess að þessi frumsýning ylli vonbrigðum hefði átt að taka þetta fram og hafa lýsinguna á því sem í vændum var heldur hófstilltari. 

Að öðru leyti skóp eindæma blíðviðrið og metfjöldi fólks með tilheyrandi stemningu eftirminnilega kvöldstund.

Það stefnir í að sumarið 2011 verði skráð í sögubækurnar á sunnanverðu landinu sem blíðviðrissumarið mikla og lendi þar á pari með blíðviðrissumrinu mikla 1939. 

 

P. S.  Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst ljósaskreyting glerhjúpsins bæði falleg og vel heppnuð.  En uppspennt kynningin í langan tíma á á undan vakti væntingar langt umfram það sem í vændum var. 


mbl.is Glerhjúpur Hörpu tendraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóðrænt veður í Reykjavík.

Það verður ljóðrænt veður í borginni okkar og ekki hægt að fara fram á betra. Ég notaði tækifærið í gærkvöldi til að flytja lagið "Reykjavíkurljóð" á samkomu og í tilefni dagsins bendi ég á að á tónlistarspilaranum hér vinstra megin er að finna þetta lag í flutningi Ragnars Bjarnasonar.

Lagið er fjórða efsta á listanum, fyrir neðan "Þar ríkir fegurðin", en af einhverjjm ástæðum sést nafn lagsins ekki í titlinum heldur "Gunnar Þórðarson-Ragnar..."

Í því er á fjórum mínútum lýst sögu borgarinnar frá landnámi, umhverfi hennar, lífinu og menninguna í henni og úthverfum hennar og helstu söguslóðum, minnismerkjum. 

Lagið eftir Gunnar Þórðarson. Stórsveit hans leikur en kvartettinn Borgarbörn syngur með Ragnari. 

Hér fyrir neðan er textinn við lagið: 

 

REYKJAVÍKURLJÓÐ.   

 

Ljúf stund, - safírblá sund

þegar sindraði´á jöklinum glóð, - 

tvö ein, - aldan við hlein 

söng um ástina lofgjörðarljóð. 

 

Þau leiddust inn í Laugarnes, lögðust þar, 

ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar, 

þau Ingólfur og Hallveig. 

 

Enn er unaður hér 

leiðast elskendur á nýrri öld

um torg í vorri borg, 

njóta yndis um sumarkvöld. 

Við Austurvöll og Ánanaust 

er elskað alveg fölskvalaust. 

Hér er hamingjan rík

og hvergi betra´að kyssa´og elska en í Reykjavík.

 

Nú syngja allir saman: 

Borgin mín! Blikandi haf sem skín! 

Alþingi og Dómkirkjan svo fín! 

Jón hnakkakertur á stallinum sperrtur

starir á næturlíf, faðmlög og gleði og grín. 

 

Í ból 

sígandi sól

litar sæinn eins rauðan og blóð. 

Við fjörð

Esjan enn vörð 

stendur áfram um sagnaslóð. 

 Göngum rúntinn!  Gefum bra-bra! 

Næturgleðin engu lík! 

Og óviðjafnalegt að skemmta sér í Reykjavík! 

 

Ljúf stund, safírblá sund 

þegar sindrar á jöklinum glóð. 

Tvö ein, - aldan við hlein

syngur ástinni lofgjörðarljóð. 

Í úthverfunum una sér

ungu fjölskyldurnar hér: 

Sport, stress, bras, börn og org! 

Það kostar sitt að keppa´um lífsgæðin í svona borg. 

 

Nú syngja allir sama:

 

Borgin mín! Blikandi haf, sem skín! 

Börnin við Tjörnina, svo fín.

Pabbi og mamma púla og djamma,

paufast í umferðarteppu á leið heim til sín. 

 

 Ljúf stund, safírblá sund 

þegar síðast ég kveð mína þjóð. 

Á ný um þennan bý

geng í anda um sagnaslóð, 

kem í Iðnó, keyri rúntinn, 

leiði elsku um Lækjartorg

og þakka´að fá að fæðast, lifa´og deyja í svona borg. 

 

Ó, er það ekki yndislegt að eiga svona borg! 


mbl.is Menningarnótt hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óverjandi að treysta á svona hundaheppni.

TF-LÍF bjargaði fólki úr sjálfheldu í Býðargili í kvöld þegar engin önnur ráð voru til björgunar. Og er ekki allt gott um það að segja?  Jú, vissulega en hvað ef þyrlan hefði enn verið óflughæf eins og hún var í gær. Í miðnæturfrétum útvarpsins sagði að hún hefði orðið flughæf rétt fyrir útkallið í kvöld. 

Ef hún hefði ekki verið lofthæf hefði bara verið kallað á þyrlu Norðurflugs eins og í Kverkfjöllum, segja einhverjir. En þannig er það bara ekki.  Í Búðargili gat aðeins sérbúin björgunarþyrla komið að notum, því að aðeins úr slíkum þyrlum er hægt að hífa fólk upp í þyrluna af jörðu niðri. 

Það er verið að spila rússneska rúllettu um mannslíf með því að Landhelgisgæslan hafi aðeins tvær björgunarþyrlur. 

"Algert lágmark" sagði innanríkisráðherra í fréttum í kvöld. 

Rangt. 

Hið rétta er að þetta er fyrir neðan algert lágmark og því lengur sem þetta er látið viðgangast því meira aukast líkurnar á mannskaða af völdum óverjandi stefnu í þessum málum. 


mbl.is Þyrlan bjargaði fólkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttar tölur uppi á borðinu!

Ef Alþingi samþykkir þingsályktun um Rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma þar sem 20 hugsanleg virkjanasvæði verða sett í verndarflokk hefur unnist stærsti áfanga-varnarsigurinn í íslenskri náttúruverndarbaráttu.

Verndun Þjórsárvera og björgun fossanna fyrir neðan þau að mestu (búið er að taka 30- 40% af þeim) markar endalok 40 ára baráttu. Ég á mér samt þann draum að opnast muni síðar möguleikar til að láta Dynk, flottasta stórfoss Íslands, fá aftur aflið sem haf honum hefur verið tekið.

Þegar hins vegar er sagt að 22 séu í "nýtingarflokki" (rangnefni, nýting getur líka falist í verndun, samanber Gullfoss) gleymist að þegar hafa 28 stórar virkjanir litið dagsins ljós á Íslandi og þar með er meiri hluti allra virkjanakosta (50 af 97) kominn inn á borð virkjanafíklanna.

Skiptingin hefur nefnilega hingað til verið í svipuðum dúr og þegar uglan skipti ostbitanum í dæmisögunni góðu, - það er alltaf látið í veðri vaka að skiptingin sé jöfn þótt þegar sé búið að taka bróðurpartinn til annars aðilans. 

En hlutfall verndaðra svæða er enn minna en ofangreindar tölur sýna, því að enn á eftir að taka 32 virkjanakosti til meðferðar. 

Alls 129 kostir, þar af 50 með grænt ljós, búið að virkja eða á að gera það. 

28 þegar virkjaðir. 

22 í "nýtingarflokki"

27 í biðflokki

32 óafgreiddir

20 í verndarflokki. 

Af þessu sést að af 129 kostum gerir þingsályktunin aðeins ráð fyrir að 20 verði settir í verndarflokk eða aðeins 15,5 % 

Ekki hefur fengist fram vernd á Skaftársvæðinu, heldur það sett í biðflokk. Það er slæmt, þótt slagurinn sé ekki endanlega tapaður. 

Og meðal þeirra kosta sem á eftir að fjalla um eru Askja, Kverkfjöll og fleiri af allra helstu náttúruundrum Íslands. 

Þótt Gjástykki sé í orði bjargað, fer það eftir skilgreiningu hvort eldstöðvunum frá Kröflueldum er í raun bjargað, því að virkjanafíklar nota sér úrelta skilgreiningu landamerkja til að fá það fram að virkja í Vítismó, sem sannanlega er óaðskiljanlegur hluti í þeirri landslagsheild, sem Gjástykki-Leirhnjúkur er. 

Vítismór er núna flokkaður undir viðbót við Kröfluvirkjun og fær grænt ljós! 

Af fréttum má ráða að ekki eigi að virkja á Torfajökulssvæðinu en samt er óákveðið með Reykjadalli, sem eru hluti af þeirri landslaugsheild.

Nú þarf aðeins að hnykkja á því að framkvæma ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um að allt ósnortna svæðið milli Suðurjökla (Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls) og Vatnajökuls verði friðað. 

Virkjun Hólmsár og Skaftár yrði inni á þessu svæði og því má það ekki gerast að ráðist verði í þær.

Þegar Bretum tókst á ævintýralegan hátt að bjarga 338 þúsund hermönnum yfir Ermasund úr herkví í Dunkirk vorið 1940 í stað þess að þeir féllu í hendur Þjóðverjum fögnuðu margir þessu óvænta kraftaverki. 

En Churchill sagði eitthvað á þá leið að óvæntum höppum í undanhaldi bæri að vísu að fagna en jafnframt hafa í huga að "ekkert stríð vinnist með vel heppnuðu undanhaldi".   

Enn hefur 101 af 129 virkjanakostum Íslands ekki verið slegnir af, eða 84,5%. Ef einhver heldur að baráttan fyrir íslenska náttúru sé á enda er það mikill misskilningur, rétt eins og það reyndist mikill misskilningur að vel heppnað undanhald frá Dunkirk 1940 hefði tryggt sigur yfir nasistum. 


mbl.is Samstarfinu við AGS lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögur af prófessorum.

Löngum hafa gengið sögur af því hve utan við sig mestu andans menn geta orðið. Hafa prófessorar oft verið nefndir af því tilefni.

Á miðri síðustu öld gengu slikar sögur af einum af prófessorunum i Háskólanum og var ein þeirra alveg sérstaklega fleyg. 

Prófessorinn ætlaði að fara út með barn sitt í barnavagni í góðu veðri á sunnudagsmorgni og fá sér göngutúr í leiðinni. Þetta þurfti undirbúning og fer ekki sögum af honum, en skömmu síðar var prófessorinn kominn af stað með barnavagninn í blíðviðrinu og allt gekk vel til að byrja með. 

Hann gekk fram á slatta af fólki og heilsaði því eða veifaði, stoltur faðirinn. 

En siðan kom að því að fólk sem hann mætti og þekkti vel, gaf sig á tal við hann, afar hrifið af framtaki hins lærða föður. 

Það bað um að fá að sjá barnið en þá kom í ljós að ekkert barn var í vagninum, prófessorinn hafði gleymt því kappklæddu heima ! 

Önnur saga úr Háskólanum hér forðum daga var sú að prófessor ætlaði að fara að kenna í tíma og skundaði til kennslustofu.  Hann opnaði dyrnar, leit inn í tóma stofuna og sagði stundarhátt: "Afsakið, ég vissi ekki að það væri enginn hérna!" 

Sjálfur færi ég að kasta úr stóru glerhúsi ef ég hneykslaðist yfir svona löguðu. Ég var kallaður prófessorinn sem strákur vegna legu minnar yfir bókum og því sem ég kalla "smáhlutagleymsku". 


mbl.is Áfallið er mest fyrir foreldrana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmileg þróun.

Stærstu krossgötur Íslands eru á svæðinu í kringum Elliðárdal, í línunni Ártúnshöfði-Mjódd-Smárinn.

Þungamiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er austast í Fossvogi. 

Þungamiðja atvinnufyrirtækja höfuðborgarsvæðisins er austan við Kringlumýrarbraut.

Afleiðingarnar hafa lengi blasað við án þess að tekið hafi verið eftir því: Hvers kyns starfsemi leitar inn að miðjunni, og ekki er hægt að færa þessa miðju til, því að bein lína Akureyri-Mosfellsbær-Suðurnes liggur um Elliðaárdal og bein lína Selfoss-Reykjavík liggur líka um Elliðaárdal. 

Hvarf síðasta bankans af Laugavegi og Bankastræti og færsla hans í austurátt er eitt af mörgum dæmum um þetta. 

Sumir hafa sagt sem svo að með því að gera nýja samgönguæð um Sundin og gamla miðbæiinn yfir á Álftanes og þaðan suður úr sé hægt að búa til nýjar krossgötur. 

Allir sjá að svo tröllaukin risaframkvæmd er útilokuð. 

Aðrir segja að með því að leggja flugvöllin niður og reisa þar tugþúsunda íbúðabyggð sé hægt að láta verslun og þjónustu færast nær Kvosinni. 

Þetta er sömuleiðis alveg óraunhæft, því að krossgöturnar færast ekkert við þetta og það er alþjóðlegt lögmál að krossgötur soga til sín verslun og þjónustu. 

Og hvaðan á það fólk að flytja, sem á að eiga heima í þessu nýja hátimbraða borgarhverfi?  Standa ekki þúsundir íbúða auðar á höfuðborgarsvæðinu?  

Þá er sagt að með tímanum muni þurfa þetta nýja Vatnsmýrarhverfi vegna fólksfjölgunar á þessari öld. En hve langan tíma mun það taka? 

Sagt er að milljarðatugir muni græðast vegna kaupa manna á lóðum á fyrrum flugvallarsvæði. 

Detta þessir peningar af himnum ofan?  Einhverjir hljóta að borga þá og hætta við að nota þá í eitthvað annað. 


mbl.is Síðasti bankinn hverfur af Laugaveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband