18.8.2011 | 21:15
Löngu fyrirséð og getur orðið verra.
Það var löngu fyrirséð og óhjákvæmilegt að Landhelgisgæslan hefði enga þyrlu tiltæka í útkall. Það lögmál gildir í flugrekstri, að ekki sé nú talað um þyrlurekstur, að helstu þurfi að vera fimm og mikil áhætta að fara niður í þrjár.
Höfuðástæðan er sú að sá tími sem þyrlur eru óflughæfar vegna viðhalds er mun lengri en flugtíminn sem þær fljúga.
Skoðum fimm þyrlur, eins og voru í flugsveit Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, meðan hún var.
Af þessum fimm eru að jafnaði minnst tvær óflughæfar vegna viðhalds.
Þá eru eftir tvær.
Önnur þeirra getur bilað.
Þá er eftir ein.
Upp koma tvö útköll á sama tíma. Þá vantar eina og ekki hægt að sinna öðru útkallinu.
Að hafa tvær þyrlur er að bjóða hættunni heim.
Önnur er í skoðun og hin bilar. Þá er engin eftir. Svo einfalt er það.
Sem betur fór var það minniháttar slys sem varð í Kverkfjöllum. Sem betur fór var tiltæk einkaþyrla.
Ef þetta ótæka ástand kostar mannslíf má benda á það að íslenskt mannslíf í köldum, beinhörðum peningum er virt á 2-300 milljónir króna. Þá er ekki tekið með aðaláfallið, hið sálræna og tilfinningalega.
Það má þakka fyrir að þetta ástand hafi ekki enn kostað mannslíf. En svona háskaleikur er óverjandi.
Hún getur bilað.
![]() |
Óviðunandi ástand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.8.2011 | 11:49
Sjálfsblekkingin, mesta hættuspil einstaklinga og mannkyns.
Sjálfsblekkingarhæfileiki mannsins er hættulegasti eiginleiki hans. Tökum nokkur dæmi.
Áfengisfíkillinn er sannfærður um það að hann sé "hófdrykkjumaður." Þangað til allt hrynur.
Anorexíusjúklingurinn sér ekkert athugavert við vöxt sinn.
Heldur ekki offitusjúklingurinn.
Kjarnorkuveldin telja kjarnavopnabirgðir sinar tryggingu fyrir því að þau verði aldrei notuð.
Ráðamenn og þjóðir heims eru sífellt að glíma við vanda morgundagsins og dagsins í dag í stað þess að sjá og glíma við hinn raunverulega stóra vanda, offjölgun og orkubruðl sem endar með orkuþurrð og hruni efnahagslífs heimsins.
Íslendingar trúa því og auglýsa fyrir öllum heiminum að jarðvarmavinnslan í núverandi formi sé "nýting á endurnýjanlegri orku" og "sjálfbær þróun" þótt langt sé frá því að svo sé.
Meirihluti þjóðar okkar trúði á "íslenska efnahagsundrið" og gróðabóluna, sem síðan sprakk í Hruninu.
"Fjármálasnillingarnir" trúðu því að með bókhaldsbrellum gætu skapast verðmæti úr engu og útskýrðu það siðan, þegar þau reyndust vera engin, að "þau hefðu bara horfið, gufað upp."
Því var fagnað hér á landi að við værum ríkasta þjóð heims þótt allir mættu sjá að gróðærið var uppblásin sápukúla.
Því var hampað hér á landi að erlend rannsókn sýndi að hér væri einhver minnsta spilling í heimi þótt meginorsök Hrunsins reyndist vera landlæg spilling svo langt aftur sem elstu menn mundu.
Matfyrirtæki mátu lánshæfi Íslands í efstu hæðum á sama tíma og hér stefndi óhjákvæmilega í það að allt spryngi í loft upp.
Oft þjást Íslendingar af minnimáttarkennd sem brýst út í oflæti og hroka. Ef eitthvað bjátar á er oft nærtækasta skýringin að það sé útlendingum að kenna og að allir séu vondir við okkur. Skrifuð var heil bók um "Umsátrið um Ísland."
Á sínum tíma voru veittar undanþágur frá notkun bílbelta á þeim forsendum að hér væru "séríslenskar aðstæður."
Aðlögunarhæfni okkar getur verið mikil og orðið okkur til bjargar en þegar hún byggist á sjálfsblekkingu getur hún snúist gegn okkur á afdrifaríkan hátt.
![]() |
Mér fannst ég aldrei vera feit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2011 | 09:44
Fjarvera útsynningsins í sumar.
Vegna umsjónar minnar og "búskapar" á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum hef ég fylgst óvenju náið með veðrinu á svæðinu frá Reykjavík um Suðurland og austur á norðausturhálendið í sumar.
Sérstaka athygli mína hefur vakið, hve sjaldan vindurinn hefur blásið úr vindáttunum frá suðri til vesturs í sumar, en í slíku veðri er þurrt og hlýtt á norðausturhálendinu og mikil bráð á Brúarjökli.
Lengst af í sumar hefur verið þungskýjað norðan jökla og bráðnun lítil. Þess vegna er minna núna í Hálslóni en verið hefur nokkurn tíma frá upphafi þess lóns.
Það er helst að birt hafi til á dögum þegar bjart hefur verið yfir öllu landinu eins og í dag.
En gallinn er bara sá, að þótt spáð sé léttskýjuðu veðri loksins í dag, er samkvæmt veðurathugun enn þoka þar og mun varla létta til fyrr en um hádegi.
Hitinn er á meðan við frostmark uppi á Brúarjökli og bráðnun því lítil sem engin og aðeins lítill hluti sólarhringsins sem hennar nýtur.
Austanáttir hafa verið afar þrálátar í sumar og virðist ekkert lát ætla að verða þar á.
Ég man aðeins eftir einu ári þegar suðvestanáttin kom aðeins tvisvar en það var hafís- og kuldaárið 1979.
Munurinn á þessu ári og því ári er hins vegar sá, að heiti loftmassinn, sem er yfir Evrópu, þenst miklu meira út núna en þá þannig að kaldir loftmassar eiga ekki eins greiða leið suður yfir Ísland og þá.
Þetta eru góðar fréttir fyrir ferðaþjónustuna á sunnanverðu landinu en á hinn bóginn hefur tíðarfarið ekki verið hagstætt fyrir ferðaþjónustuna fyrir norðan.
![]() |
Óhætt að elta sólina um Suðurlandið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2011 | 21:30
Sinnuleysi um mestu verðmæti Íslands.
Íslendingar hafa verið mörgum áratugum á eftir öðrum þjóðum í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Þingvellir voru friðlýstir sem þjóðaraeign 1928 en það var ekki fyrr en meira en 60 árum síðar sem fyrsti íslenski þjóðgarðsvörðurinn fór til útlanda til að kynna sér rekstur þjóðgarða. Það var Steingrímur Hermannsson sem beitti sér fyrir því að séra Heimir Steinsson færi til Yellowstone í þessu skyni.
Íslendingar undirrituðu að vísu Ríósamninginn um sjálfbæra þróun og það að náttúran skyldi njóta vafans en sú undirskrift hefur ekki verið pappírsins virði, enda hefur þess verið vandlega gætt að þegnar landsins hefðu ekki hugmynd um hvað þessar skilgreiningar þýddu.
Þegar ég kom til Íslands eftir fyrstu ferðir mínar um þjóðgarða og virkjanasvæði erlendis 1999 var ég í áfalli, svo miklu, að ég íhugaði að flytja af landi brott frekar en að horfa upp á það ástand sem ríkti hér heima.
Áfallið var enn meira fyrir þá sök að ég stóð frammi fyrir því að hafa gersamlega vanrækt og brugðist frumskyldu fjölmiðlamannsins sem er sú að kanna mál í víðu samhengi og koma þeirri vitneskju á framfæri.
Umgengnin og sinnuleysið gagnvart hellum landsins, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is er ein birtingarmynd þess á hvaða stigi við erum.
Á sínum tíma sveið Jónasi Hallgrímssyni hvernig komið var fyrir menningu, sjálfstæði og reisn afkomenda landnámsmanna Íslands og orti mögnuð ljóð til þess að stugga við sofandi þjóð sinni.
Hann hafði legið tæpa öld í gröf sinni þegar afrakstur herhvatar hans varð að veruleika, því að sjálfstæðið, sem þjóðin hafði misst, var þó, þrátt fyrir allt, afturkræft.
Því miður höfum við ekki nándar nærri svona mikið svigrúm varðandi helstu náttúrugersemar Íslands, vegna þess að eyðilegging þeirra er langoftast óafturkræf á því augnabliki sem hún er framkvæmd.
Hjalladal með hjöllum sínum, gróðurlendi, fossum og gljúfrum, verður aldrei hægt að fá aftur vegna þess að dalurinn fyllist hratt upp af aurframburði Jöklu og Kringilsár.
Nýrunnið hraunið á Gjástykkis-Leirnhnjúkssvæðinu verður ekki hægt að færa í fyrra horf eftir að jarðýturnar hafa mulið það niður.
Eitt af því sem vandlega er sneytt hjá að fjalla um varðandi náttúruvernd er hugtakið "afturkræft" og "endurnýjanlegt".
Fáfræði um helstu hugtök umhverfismála er landlæg hér á landi og sjálfur uppgötvaði ég það eftir að hafa verið að flækjast um fjöll og firnindi þessa lands áratugum saman að ég hafði allan tímann verið skelfilega fáfróður um þessi efni, "fjallheimskur" í þess orðs fyllstu merkingu.
![]() |
Náttúrufyrirbæri á heimsvísu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2011 | 14:54
Hjörtur Júlíus og Barney Fel.
Hjörtur Júíus Hjartarson er einn af þessum fínu strákum, sem ég hef kynnst meðal íþróttafréttamanna í meira en 40 ár, hæfileikaríkur og skemmtilegur. Þegar hann fjallar um knattspyrnuna í sjónvarpi er hann að sjálfsögðu á heimavelli rétt eins og Bjarni Fel var fyrir 40 árum.
Ég var að horfa í gærkvöldi á YouTube á bardaga Sonny Liston og Muhammads Ali 25. febrúar 1962.
Maður þarf að hafa svolítið fyrir því að geta horft á svona bardaga í heild, en í gærkvöldi lét ég eftir mér að gea það í stað þess að horfa bara á valda kafla.
Þetta var afar gefandi og maður sá bardagann í nýju ljósi eins og fleiri, sem ég hef fyrr reynt að grafa upp í heild.
Bardaginn 1962 markaði tímamót í íþróttum og jafnvel stjórnmálum á marga lund. Ali breytti nafni sínu úr Cassius Clay og tók upp baráttu sína á stjórnmálasviðinu sem markaði djúp spor.
Þetta var upphaf á einstæðum ferli besta hnefaleikara allra tíma að mínum dómi og hugsanlega einnig mesta íþróttasnillingnum líka.
En eitt skemmtilegt atriði uppgötvaðist við skoðunina í gær. Dómarinn í hringnum hét Barney Felix, sem er ótrúlega líkt nafni Íslendingsins sem þá var í gullaldarliði KR og haslaði sér síðar völl svo um munaði í íþróttafréttamennsku.
![]() |
Hjörtur: Reikna ekki með að spila með ÍA í úrvalsdeildinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2011 | 09:58
Raunveruleiki eða sýndarveruleiki ?
Fyrir um tíu árum urðu svonefndir "raunveruleikaþættir" vinsælir í kvikmyndum og sjónvarpi. Fræðslukvikmyndir í gamla stílnum þóttu lummó þótt um væri að ræða umfjöllun um jafn raunverulegt mál og Kárahnjúkavirkjun.
Þessu fékk ég að kynnast á kvikmyndahátíð í Helsingborg 2003. Myndir okkar Páls Steingrímssonar, "In memoriam" og "Land of Solitude" komust að vísu í úrslit en urðu að víkja fyrir mynd um finnskan ljósmyndara, sem sat uppi í tré við ljósmyndun á Kolaskaga í heilt ár og mynd sem breskur kvenkafari tók af kóröllum við Bretlandsstrendur.
Myndir okkar Páls skorti það að einhver ein persóna settti sig í stellingar "raunveruleikamyndar".
Ég áttaði mig á því að ef mynd mín hefði átt að eiga upp á pallborðið hjá sjónvarpsstöðvum og kvikmyndahúsum hefði ég þurft að einbeita mér að því að mynda sjálfan mig vera einan uppi á austurhálendinu, helst sem minnst klæddur, jafnvel syndandi yfir ár þótt ég gæti flogið yfir þær.
Myndin mín fékk að vísu önnur aðalverðlaunin á kvikmyndahátíð á Ítalíu ásamt mynd BBC um Níl, en ég hafði hvorki fjármuni né tíma til að fylgja því eftir.
Firring nútímafólks, sem ofverndað er gegn lífsbaráttu og striti í tæknivæddum borgum nútímans kallaði á "raunveruleikaþættina" sem í flestum tilfellum voru ekki "raunveruleikinn" heldur tilbúin leikmynd eftir handriti.
Maðurinn er skapaður til að heyja lífsbaráttu og sé sú barátta tekin frá honum verður hann oft leiður á lífinu. Hingað til lands kemur fjöldi ferðafólks til þess að kynna sér lífsbaráttu og kjör fyrri kynslóða og upplifa eitthvað sjálft af glímuninni við náttúruöflin.
Í því liggja mestu sóknarmöguleikar íslenskrar ferðaþjónustu. En raunveruleikinn verður seint búinn til og ég læt fylgja í lokin skemmtilega vísu Kristjáns Hreinssonar um lygina og sannleikann:
Lygin oft hið sanna sér
á sínu efsta stigi
því sannleikurinn sjálfur er
sennilega lygi.
![]() |
Raunveruleikastjarna sviptir sig lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 18:24
Hleranir sjálfsagt mál hér á landi.
Í raun eru símhleranir sjálfsagðar hér á landi og óhugsandi að "símhlerunarhneyksli" geti komið upp hér.
Fyrir nokkrum árum kom fram að símar hefðu verið hleraðir hjá mörgum íslenskum stjórnmálamönnum í Kalda stríðinu og þrátt fyrir nokkra umræðu um þær um stund, dó hún út og aldrei kom til greina að biðja viðkomandi afsökunar eða kafa nánar niður í málið.
Öðru máli gegndi um svipað mál í Noregi, sem var kannað til hlítar og birt afsökunarbeiðni.
Ég hef áður í þessum pistlum sagt frá rökstuddum grun um ótrúlega víðtækar símahleranir síðsumars 2005 í framhaldi af sérstakri æfingu á vegum NATÓ þar sem æfð voru viðbrögð við aðgerðum "umhverfishryðjuverkamanna", en sá skilgreindi hópur þótti greinilega hættulegri en nokkur annar hér á landi og ógna mest öryggi landsmanna.
Ekki urðu nein viðbrögð við þessu og virðist svo sem Íslendingar sætti sig við þá miklu skerðingu á persónufrelsi og friðhelgi einkalífs sem hleranir eru, og sætti sig líka við að enginn í þjóðfélaginu geti verið óhultur fyrir hlerunum.
Hins vegar er slíkt ástand talið hneyksli erlendis og óþolandi.
![]() |
Allir vissu um hleranir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 12:04
Hvernig þarf stjórnmálalandslagið að breytast?
Lögfræðingur lögfræðistofunnar Logos, sem hefur milligöngu um erlendar fjárfestingar á Íslandi, segir að "stjórnmálalandslagið" hér á landi hafi ekki boðið upp á erlendar fjárfestingar alþjjóðlegra banka að undanförnu.
Þá vaknar spurningin hvernig stjórnmálalandslagið þarf að breytast til þess að alþjóðlegir bankar vilji fjárfesta hér, en í frétt um þetta á mbl.is er sagt að þeir sýni mikinn áhuga á því upp á síðkastið.
Er hægt að draga þá ályktun af þessu að hér sé á penan hátt verið að setja fram vilyrði til Íslendinga um að þeir fái lán ef þeir breyti stjórnmálalandslaginu hér?
Síðasta árið sem lánsfé streymdi til landsins var 2006 og entist það ástand fram á mitt ár 2007.
Á þeim tíma var stjórnmálalandslagið þannig að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu farið með stjórn landsins í 12 ár.
Ber að skilja það sem kemur fram í fréttinni sem svo að Íslendingar geti aftur fengið aðgang að lánsfé ef stjórnmálalandslagið breytist í það horf sem var til 2007, sem sé að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fari hér með örugg völd ?
Sé svo er ljóst að hið alþjóðlega auðræði vill fá að ráða því hverjir séu við stjórnvölinn á Íslandi og lofar gulli og grænum skógum ef við Íslendingar makka rétt.
![]() |
Hafa mikinn áhuga á að lána til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.8.2011 | 09:43
Maðurinn er það sem hann étur og brennir ekki.
Allt fram til 2009 stundaði ég reglubundna líkamsþjálfun sem byggðist á gríðarlegri brennslu og áreynslu í u.þ.b 50 mínútur. Þetta hafði ég gert áratugum saman og það nægði til að halda líkamsþyngdinni nálægt svonefndri kjörþyngd og allt að fimm kílóum niður fyrir hana auk þess sem þetta gaf ómetanlegt úhald og snerpu miðað við aldur.
Á árunum 2006 til 2009 þurfti að gera tvær aðgerðir á hnjám vegna slits og of mikils álags og það þýddi að ekki var hægt að hlaupa af sama ákafa og jafn lengi og áður, heldur varð að minnka álagið og láta hraða göngu bæði á jafnsléttu og upp stiga koma í staðinn.
Eftir fótbrot 2009 versnaði þetta enn frekar.
Þetta kom fram á líkamsþyngdinni sem óð upp um tólf kíló þegar verst lét, þrátt fyrir viðleitni í mataræði til að hafa hemil á henni.
Jónína dóttir mín sagði mér að miklu skipti að álagskafli æfinganna væri lengri en 20 mínútur í samfellu en þegar hnén gáfu sig var erfitt að halda því.
Þegar þetta og það, sem Ágústa Johnson er að benda á, eftirbruninn, leggst saman verður útkoman þynging því að takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að komast á aðhaldi í mataræði einu saman.
Allt myndar þetta eina heild þar sem hið grimma lögmál gildir að maðurinn er það sem hann étur og það sem hann brennur ekki.
![]() |
Svona áttu að fara að því að grennast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.8.2011 | 23:55
Þjóðarlöstur.
Íslendingar henda sígarettum, flökum, papparusli og hverju sem er út um bílglugga á ferð hvar og hvenær sem er.
Ef haldin er útisamkoma verða stundum margir ferkílómetrar þaktir af rusli á undraskömmum tíma.
Þetta er eðlilegt. Þetta þykir nefnilega sjálfsagður hlutur og ef minnst er á sektir líkt og víða erlendis, allt upp í 120 þúsund krónur fyrir sígarettustubbinn eða karamellubréfið, er litið á slíkt sem kúgun og ófrelsi.
Einn helsti kostur Íslendinga er að vísu umburðarlyndi, sem kemur til dæmis fram í Gleðigöngunni, en sú tegund umburðarlyndisins, sem felst í kæruleysi og skeytingarleysi er sennilega versti ókostur okkar.
Þess vegna líðst þessi yfirgengilegi sóðaskapur og eins og að reyna að stökkva vatni á gæs að reyna að stemma stigu við honum.
![]() |
Yfirgengilegur sóðaskapur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)