Skaftártunga, - ekki -tungur.

Það færist í vöxt að farið sé skakkt með örnefni í fréttum. Sveitin, sem Skaftá rennur í gegnum heitir Skaftártunga en ekki Skaftártungur og sagt er í fréttum af Skaftárhlaupinu.

Miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar heitir Hálslón en ekki Hálsalón eins og oft heyrist sagt.

Yst á Reykjanesskaga er Reykjanes eða Reykjanestá en skaginn heitir ekki Reykjanes eins og sífellt er tönnlast á.

Vegurinn milli Svínadals og Skorradals liggur yfir Geldingadraga en ekki Dragháls. Bærinn við hálsinn heitir Dragháls og menn aka ekki yfir hann nema á stærri skriðdrekum en ennþá hafa verið framleiddir.

Vegurinn úr Skagafirði upp á Öxnadalsheiði liggur um Giljareit en ekki Giljareiti eins svo oft heyrist talað um.

Í fréttum heyrist talað um slys á Holtavörðuheiði þegar þau verða við eyðibýlið Fornahvamm sem áður var efsti bær í Norðurárdal.

Í kvöld var talað um Hvítárvallabrú. Ég hef aldrei heyrt það nafn fyrr. Brúin hefur alltaf verið kölluð Hvítárbrú og ef þurft hefur að aðgreina hana frá öðrum brúm yfir ána hefur hún verið kölluð Hvítárbrú hjá Ferjukoti eða brúin yfir Hvítá hjá Ferjukoti.

Fólk talar oft um að hafa komið að Barnafossum í Hvítá. Það er ekki rétt nafn. Fossarnir heita Hraunfossar en Barnafoss er hins vegar ekki langt undan.

Aðeins 30% Reykjavíkurflugvallar er í Vatnsmýri. 70% eru á Skildingarnesmelum og við Skerjafjörð. Það er ekki verið að byggja Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýri því að næstum kílómetri er frá nýbyggingum skólans yfir í syðstu mörk Vatnsmýrar sem liggja fyrir norðan Loftleiðahótelið. Miklu nær væri að segja að Háskólinn verði í Nauthólsvík en í Vatnsmýri.

Listinn er miklu lengri, - þetta er aðeins það sem ég man eftir í fljótu bragði.


mbl.is Mikið hlaup komið í Skaftárdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti af stærstu sýningu veraldar.

Skaftárhlaupin eru hluti af því sem ég vil kalla stærstu sýningu veraldar. Leikhúsið nær frá Grímsvötnum til Heklu, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls.  Á leiksviði Skaftárjökuls og  Lakagíga  er leiksýning með þáttaskiptingu þar sem skiptast á eldhraunsþættir og sandburðarþættir. 

Nú er í gangi þáttur jökulhlaupa og sandburðar vegna jarðhita og eldvirkni undir vestanverðum Vatnajökli.

Sandurinn sækir að syðstu Lakagígunum og fyllir Eldhraun smám saman upp svo að lækirnir í Landbroti munu smám saman hverfa eftir nokkra áratugi. 

Á undan þessum sandburðarþætti var þáttur eldhraunsins þegar Skaftáreldahraun rann yfir sanda og vötn sem þar áður höfðu staðið á sviðinu í næsta sandburðarþætti á undan þeim sem náttúruöflin eru nú að leika. 

Á undan þeim sandburðarþætti hafði verið eldhraunsþáttur í gríðarlegu Eldgjárgosi þegar hraun runnu yfir sanda sem höfðu myndast í sandburðarþættinum þar á undan. 

Lengi vel hafði ég ekki yfirsýn yfir þessa miklu sýningu og fyllti hóp þeirra sem töldu Skaftárveitu nauðsynlega til þess meðal annars að minnka sandburðinn niður í Eldhraun, stemma stigu við sandfoki og bjarga Landbrotslækjunum.

Á ráðstefnu um þetta mál kom hins vegar fram að þessi framkvæmd myndi aðeins seinka hinu óhjákvæmilega um einhverja áratugi en staðinn yrði Langisjór, sennilega fegursta fjallavatn landsins, fylltur af auri og fagurbláum lit hans breytt í brúnan lit.

Að vaða inn á sviðið í stærstu sýningu veraldar og hrópa "stopp!", er ekki aðeins vonlaust til lengri tíma litið heldur samsvarar það því að stökkva upp á svið í Shakespeare-leirkriti og reyna stöðva sýninguna og breyta henni.

Ég tel að við eigum að leita fyrirmyndar í Yellowstone. Þar létu menn gríðarlega skógarelda í friði nema þeir ógnuðu beinlínis mikilvægum mannvirkjum. Í staðinn er nú eitt aðal aðdráttaraflið  í Yellowstone fólgið í því að bjóða þar upp á stærstu sýningu veraldar á hlutverki skógarelda í eðlilegri og náttúrlegri endurnýjun og kynslóðaskiptum skóga.


mbl.is Hlaup hafið í Skaftá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðigangan.

Það virðist ætla viðra vel á Gleðigönguna í dag. Fyrir þá sem myndu vilja vita um textann sem hugsanlega verður fluttur af hljómsveit sem fer á undan dragdrottningar- og dragkóngsbílunum, þá er hann svona:

GLEÐIGÖNGULAG.

Nú verður Gleðiganga, - Gay Pride, -
labb um Laugaveg "on the sunny side."
Þar búum við til fjör og fagran dag, -
frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Og milli okkar byggjum við brú.
Á betri heimi höfum við trú.
Því verður Gleðigangan, Gay Pride
labb um Laugaveg
:,: "on the sunny side":,:


Enn dæmi um viðhorfsmismun.

Enn og aftur koma þær sérkennilegu hnýsniskröfur Bandaríkjamanna upp á yfirborðið, að einkalíf fólks skipti svo miklu höfuðmáli að máli að það verði að vera uppi á hvers manns borði.Það er ástæðan fyrir því að menn í stöðu Edwards leiðast út í það að ljúga opinberlega um mál sem ættu að vera þeirra einkamál.

Ég rifja því upp góða sögu af Mitterand Frakklandsforseta. Ungur og óreyndur blaðamaður kallar upp á blaðamannafundi: "Er það rétt, herra forseti, að þú hafir átt og eigir jafnvel enn hjákonu?" Og hver voru viðbrögð forsetans? Jú, hann svaraði umsvifalaust: "Já það er rétt. Næsta spurning, gjörið svo vel." Málið dautt enda svona blaðamannafundir settir upp til að ræða stór og knýjandi póltísk mál en ekki það í hvaða rúmi hver svæfi.

Í Faðirvorinu er þessi setning (sem sumir segja raunar að sé ekki rétt þýdd): "Eigi leið þú oss í freistni." Með fráleitum kröfum Bandaríkjamanna um upplýsingagjöf um einkamál er verið að leiða þá í freistni sem krafist er að svari hnýsnisspurningum. Edwards hefði getað svarað upphaflega á þann veg að þetta væri einkamál og kæmi engum við en þá hefði slíkt svar verið túlkað sem viðurkenning á hneykslanlegu athæfi.


mbl.is Edwards viðurkennir framhjáhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt stórþjóðar.

Enginn skyldi vanmeta stolt stórþjóðar. Harðstjórn Stalíns kostaði milljónir manna lífið en þegar stolt þjóðarinnar var að veði í innrás Þjóðverja, tókst Stalín að fylkja kúguðum þegnum sínum að baki sér með því að höfða til þess að verið væri að verja "móður Rússland."

Setningarhátíð og framkvæmd Ólympíuleikanna í Kína ber það strax með sér að Kínverjar líta svo á að stolt þeirra og sómi sem fjölmennustu þjóðar heims sé að veði. Þeir virðast hafa ásett sér að allt, bókstaflega allt verði stærra, betra og mikilfenglegra en á nokkrum öðrum Ólympíuleikum.

"Hvar er þín fornaldar frægð...?" orti Jónas um Íslendinga og Kínverjum er greinilega mikið í mun að sýna, að niðurlægingartímabili síðustu alda sé lokið og þeir séu á góðri leið með að endurheimta hinn forna sess sinn þegar þjóðin stóð framar flestum öðrum. 

Vesturlandsbúum er því vandi á höndum með það hve langt á að ganga í því að blanda gagnrýni á einræði og mannréttinabrot í landinu inn í þessa leika. Ef ráðist er um á stolt þjóðarinnar og varpað skugga á leikana getur það virkað öfugt við það sem ætlunin er og þjappað þjóðinni að baki einræðisherrunum, hversu gagnrýniverðir sem þeir eru. 

Bush Bandaríkjaforseti fór þá leið að lesa kínverskum ráðamönnum gagnrýnispistil áður en hann fór á leikana. Með því undirstrikaði hann að vera hans á griðávettvangi fremsta íþróttafólks heims væri til heiðurs kínversku þjóðinni fyrst og fremst.   


Kolbrún og Þórunn fyrstar með orðið "orkufrekja."

Mér þykir gott að geta vitnað í samherja mína í umhverfisbaráttunni og í viðtali á Morgunvaktinni nú rétt áðan vitnaði ég í nýyrði sem ég sá fyrst notað, svo að ég mundi, af Dofra Hermannssyni í bloggi hans nú í vikunni. Þetta er orðið orkufrekja. Mér finnst þetta frábært orð vegna þess að það varpar ljósi á að orðin "orkufrekur iðnaður", sem búið er með 40 ára síbylju að sveipa jákvæðum ljóma, er í raun neikvætt.

Það sést best ef af því eru leidd önnur orð eins og orkufrekja. Nú hefur hins vegar komið í ljós að Dofri var ekki fyrstur til að nota þetta orð heldur mun það hafa verið í blaðagrein þeirra Kolbrúnar Halldórsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttir sem þetta orð kom fyrst fram opinberlega.

Hafi þær þökk fyrir. Fátt er jafn skemmtilegt en þegar vopn í orðasennu reynist vera boomerang eða bjúgverpill sem hittir að lokum þann fyrir sem kastar því á loft. Orðvopnið "orkufrekur iðnaður" snýst í höndunum þegar hægt er að kalla þá, sem það nota, "orkufrekjur". Þeir geta ekki gagnrýnt notkun orðsins "orkufrekja" af því að það er byggt á sömu hugsun og þeirra eigin orð "orkufrekur iðnaður."

Þetta er líka neyðarlegt þegar haft er í huga að Þórunn er nú umhverfisráðherra, sem neyðist til að reyna að fullvissa fólk um að stóriðjuhraðlestin muni ekki hægja á sér þrátt fyrir hina annars lofsverða gjörð hennar að setja álver á Bakka og tilheyrandi orkuöflun og orkuflutning í heildstætt mat á umhverfisáhrifum.


Slysin í íþróttasögunni.

Það slys í íþróttasögu Íslands að feðgarnir Arnór og Eiður Smári skyldu aldrei leika saman í landsleik minnir mig á annað slys, sem kom að ofan 1950 þegar Haukur Clausen fékk ekki að keppa í bestu grein sinni, 200 metra hlaupi, á EM í Brussel. Hann varð samt fimmti í 100 metra hlaupi á mótinu og náði eftir mótið besta árangri í Evrópu í 200 metra hlaupi á móti í Svíþjóð.

Þar setti hann Íslandsmet sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet sem stóð í sjö ár. Nánar er fjallað um þetta í bókinni Mannlífsstiklur. Tveimur árum siðar var Örn bróðir Hauks settur í keppnisbann, sem síðar var úrskurðað að hefði verið ólögmætt en þá var það of seint og þeir tvíburabræðurnir hættir keppni vegna þessara mála, aðeins 23ja ára gamlir.

Örn hafði þá verið þriðji besti tugþrautarmaður heims í þrjú ár og síðar kom í ljós að tviburabróðir hans hefði ekki getað orðið síðri tugþrautarmaður og ef þeir hefðu haldið áfram, var sá möguleiki alveg inni í myndinni að á verðlaunapalli á ÓL í Melbourne hefðu staðið tveir tvíburabræður. Þá hefðu þeir verið 27 ára gamlir, á þeim aldri þegar tugþrautarmenn eru að ná hámarki afreksgetu sinnar. Þeir hættu allt of ungir.

Þarna er kannski verið að spá of langt fram í tímann um hluti sem hvort eð er hefðu aldrei orðið að veruleika. Eftir stendur slysið 1950 og glæsilegur íþróttaferill þeirra tvíburabræðra sem á sér enga hliðstæðu í íþróttasögu heimsins.


mbl.is Eiður Smári: Ákvörðunin kom að ofan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úreltar forsendur.

Það er nú að koma fram sem ég benti á í bókinni Kárahnjúkar- með og á móti, að komast hefði mátt af með lægri stíflur og minna miðlunarlón ef menn hefðu miðað við hlýnandi veðurfar og meira rennsli en samkvæmt forsendum um rennsli, sem byggjast á gömlum mælingum.

Það hefði þýtt minni leirfoksvandamál vegna þess að með því að hækka lónið til þess að vinna það upp sem tapaðist í miðlun við það að sleppa gerð Eyjabakalóns, var viðbótin við Hálslón að mestu á landi með mun minni halla en er neðar í lónstæðinu.

Stíflurnar þurftu ekki að vera svona háar og hefðu orðið ódýrari.


mbl.is Mikið innrennsli í Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnorkuúrganginn næst?

Í útvarpsfrétt um olíuhreinsistöðvar á dögunum benti talsmaður olíufélags á að engin ný stöð hefði risið síðustu tuttugu ár vegna þess, eins og hann orðaði það "að það vill enginn hafa slíka stöð í bakgarðinum hjá sér." Í olíuríkinu Noregi eru aðeins tvær stöðvar, önnur hjá Bergen en hin fyrir sunnan Osló, en engin í ótal byggðarlögum norður eftir öllu þessu langa landi, þar sem byggðavandamálin eru hin sömu og hér á landi.

Talsmenn kjarnorkuendurvinnslustöðva fullyrða að þær séu ekkert óöruggari en olíuhreinsistöðvar og mengunarslys fátíðari en í olíuflutningunum sem fylgja olíuhreinsistöðvunum. Þeir sem vilja gera íslenskt dreifbýli að athvarfi fyrir olíuhreinsistöðvar geta alveg eins reynt að lokka til sín starfsemi sem tengist "hreinsun", varðveislu og úrvinnslu úr kjarnorkuúrgangi.

Eftir situr spurningin: Af hverju vilja Norðmenn ekki leysa byggðavanda sinn með því að fara þá leið sem sagt er að 99,9% líkur séu á að verði farin fyrir vestan? Ég fékk svarið á ferð þar í landi. Stöðvarnar tvær hjá okkur fylgdu á sínum tíma með olíuvinnslunni. Fleiri reisum við ekki vegna hættu á olíuslysi og neikvæðrar ímyndir fyrir landið og hinar dreifðu byggðir þess sem fylgja myndi slíkum stöðvum.

Sem hreinust og óspilltust ímynd Noregs skapar okkur velvilja, viðskiptavild og ferðamannatekjur sem við viljum ekki hætta á að skemma.


mbl.is Olíuhreinsistöð: Umhverfismat er næsta skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrsta tilraunin.

Siglingarnar milli lands og Eyja, sem nú er verið að rannsaka, minna mig á tilraun sem við gerðum fyrir mörgum árum, Ragnar Bjarnason og ég, til að komast til Eyja til að skemmta þar, með því að sigla frá ströndinni út í Eyjar á vélbáti frá Eyjum. Ekki var um aðra möguleika að ræða vegna veðurs, ófært til flugs og áætlun Herjólfs passaði okkur ekki.

Gera átti tilraun til að sigla bátnum upp í ós Hólsár fyrir austan Þykkvabæ. Báturinn var með fullkomlega löglegan björgunarbúnað fyrir okkur og sjávaraldan komst ekki inn í ósinn. Skemmst er frá því að segja að þessi tilraun mistókst algerlega og báturinn komst ekki til okkar inn ósinn. 

Hann sigldi því til Þorlákshafnar ef ég man rétt (eða var það Stokkseyri eða Eyrarbakki?) og síðan var siglt til Eyja.

Mig grunar að menn hafi leitað margra ráða í gegnum tíðina til að komast þessa leið og að það hafi ekki alltaf verið gæfulegar aðferðir sem mönnum datt í hug. Ég segir frá þessu til að vara menn við því að reyna að framkvæma svona tilraun aftur. Hér gildir hið fornkveðna að kóngur vill sigla en byr verður að ráða. 


mbl.is Lögregla rannsakar siglingar til Eyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband