Slysin í íþróttasögunni.

Það slys í íþróttasögu Íslands að feðgarnir Arnór og Eiður Smári skyldu aldrei leika saman í landsleik minnir mig á annað slys, sem kom að ofan 1950 þegar Haukur Clausen fékk ekki að keppa í bestu grein sinni, 200 metra hlaupi, á EM í Brussel. Hann varð samt fimmti í 100 metra hlaupi á mótinu og náði eftir mótið besta árangri í Evrópu í 200 metra hlaupi á móti í Svíþjóð.

Þar setti hann Íslandsmet sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet sem stóð í sjö ár. Nánar er fjallað um þetta í bókinni Mannlífsstiklur. Tveimur árum siðar var Örn bróðir Hauks settur í keppnisbann, sem síðar var úrskurðað að hefði verið ólögmætt en þá var það of seint og þeir tvíburabræðurnir hættir keppni vegna þessara mála, aðeins 23ja ára gamlir.

Örn hafði þá verið þriðji besti tugþrautarmaður heims í þrjú ár og síðar kom í ljós að tviburabróðir hans hefði ekki getað orðið síðri tugþrautarmaður og ef þeir hefðu haldið áfram, var sá möguleiki alveg inni í myndinni að á verðlaunapalli á ÓL í Melbourne hefðu staðið tveir tvíburabræður. Þá hefðu þeir verið 27 ára gamlir, á þeim aldri þegar tugþrautarmenn eru að ná hámarki afreksgetu sinnar. Þeir hættu allt of ungir.

Þarna er kannski verið að spá of langt fram í tímann um hluti sem hvort eð er hefðu aldrei orðið að veruleika. Eftir stendur slysið 1950 og glæsilegur íþróttaferill þeirra tvíburabræðra sem á sér enga hliðstæðu í íþróttasögu heimsins.


mbl.is Eiður Smári: Ákvörðunin kom að ofan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst svolítið ósanngjarnt að skamma Eggert Magnússon fyrir það hvernig fór. Hann vildi auðvitað að þeir feðgar spiluðu saman á Íslandi, fyrir Íslendinga. Kannski var það hégómi hjá honum, en hann vildi vel. Bölvuð óheppni kom í veg fyrir þann stórmerkilega atburð að þeir spiluðu saman landsleik.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2008 kl. 13:53

2 Smámynd: Pétur Kristinsson

Ómar.

Af hverju fékk Haukur ekki að keppa í 200 metrunum og fyrir hvað fékk Örn keppnisbann?

Ef að þeir hafa hætt 23 ára er líklegt að þeir hafi séð eftir því vegna þess að flestir íþróttamenn sem hafa hætt of snemma hafa séð eftir því eftir á. Menn eru í íþróttum til þess að sjá hversu langt þeir komast.

Pétur Kristinsson, 7.8.2008 kl. 22:18

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ómar þakka þetta góða blogg hjá þér.

Gunnar þér finnst svolítið ósanngjarnt að skamma Eggert Magnússon fyrir hvernig fór. Ef Eggert var að skipta sér af, og ráðskast með hluti sem voru fyrir utan hans verksvið, eigum við þá að hrósa  honum fyrir óhæfuna. Mér finnst þetta viðhorf þitt vera dónaskapur við Eið Smára og Arnór.

Sigurður Þorsteinsson, 7.8.2008 kl. 23:14

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég get svo sem alveg tekið undir það að Eggert átti ekkert að skipta sér að liðsuppstillingunni, þar á þjálfarinn að vera einráður en Logi virðist ekki hafa haft bein í nefinu til að hunsa ósk Eggerts. En ég er viss um að Eggert greyið nagar sig í handarbökin í dag, fyrir að hafa skipt sér af þessu. Enda vil ég ekki hrósa honum fyrir þetta

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2008 kl. 23:53

5 identicon

"...og glæsilegur íþróttaferill þeirra tvíburabræðra sem á sér enga hliðstæðu í íþróttasögu heimsins."

Alveg rólegur.

Reynir (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 01:44

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Alveg rólegur"? Ég veit ekki um dæmi þess að tvíburabræður hafi náð jafn langt í íþróttum. Ef einhvert veit um það er ég tilbúinn að leiðrétta þessi orð mín.

Slysið 1950 var í stuttu máli þetta. Í mesta íslenska spretthlaupi sögunnar, 200 m. hlaupi 17. júní 1950 komu menn í mark í eftirfarandi röð: 1. Hörður Haraldsson, 21,5. 2. Haukur Clausen 21,6. 3. Ásmundur Bjarnason 21,7. 4. Guðmundur Lárusson 21,8.

Ljóst var af þessu hlaupi og öðrum að geta þessara hlaupara á þessum tíma var nokkurn veginn sú sem speglast í ofangreindu hlaupi. Þeir Hörður og Haukur voru valdir sem keppendur Íslands í 200 metra hlaupi í landskeppninni við Dani nokkru síðar.

Tveir hlauparanna, Hörður og Haukur, voru viðkvæmir gagnvart íslenska kuldanum og hætt við að togna. Hörður tognaði illa í landskeppninn við Dani og var úr leik.

Haukur óttaðist að færi á sömu leið hjá honum og taldi augljóst að þegar Hörður væri úr leik velktist enginn í vafa um að hann væri eftir það hlutgengur í 200 metra hlaupi fyrir Íslands hönd.

Íþróttaforystan krafðist þess hins vegar að hlaupararnir hlypu á sérstökum úrtökumótum áður en ákvörðun yrði tekin um skipan liðsins.

Þegar úrtökumótið fyrir 200 m hlaupið fór fram var kalt og Haukur vildi ekki taka áhættuna að lenda í því sama og Hörður, - var mjög viðkvæmur gagnvart kulda.

Þótt öllum mætti ljóst vera hver geta hlauparana var, fékk Haukur ekki að keppa í 200 metra hlaupinu á EM heldur bara í 100 metra hlaupinu og 4x100 metra boðhlaupi. Íslendingar sendu tvo hlaupara í 100 m hlaupið og gátu þess vegna vel sent Hauk og Ásmund í 200 metrana enda augljóst að Haukur var betri í 200 metrunum en Guðmundur Lárusson.

Og Haukur var betri í 200 metrunum en 100 metrunum eins og margoft kom fram því að startið var hans veikasta hlið en endaspretturinn sú sterkasta.

En átti að senda hlaupara, sem hætt var við tognun,í 200 m hlaupið sem hætt var við tognun? Jú, alveg eins og hægt var að senda hann í hinar spretthlaupsgreinarnar. Hafa ber í huga að meðalhiti dagsins í júlí í Reykjavík er 7 stigum lægri en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna og að kuldinn yrði ekki Hauki skeinuhættur í sumarhita meginlands Evrópu.

Eins og málum var háttað sumarið 1950 var úrtökumót óþarft, eins konar eftiröpun af úrtökumótum Bandaríkjamanna, sem eru þúsund sinnum stærri þjóð en Íslendingar.

Mál Arnar: Þegar íslenska liðið var komið á mótstað á ÓL í Helsinki 1952 tognaði Örn svo illa í öxl að hann gat ekki keppt og taldi sig því lausan frá agaskyldum þeirra sem áttu eftir að keppa. Hann taldi að í þeim málum gilti hið sama fyrir hann og glímumennina sem voru sýningarflokkur.

Vegna þess að hann hlítti ekki aga keppnismannanna til hlítar var hann dæmdur fyrir agabrot og sviptur keppnisréttindum í hálft ár.

Örn sætti sig ekki við þennan úrskurð og rak málið áfram og vann í því fullan sigur. Lokadómurinn var að úrskurður keppnisstjórnarinnar hefði ekki verið réttur og hún ekki bær til að kveða hann upp.

Málareksturinn tók langan tíma og Clausenbræður ekki skaplausir menn. Þeim sárnaði mjög og töldu mælinn fullan.

Erfitt er að fullyrða hvort þetta hefði breytt því að þeir hefðu hætt keppni svo ungir sem þeir voru. Haukur fór til náms í Bandaríkjunum, gutlaði þar í tugþrautargreinum í tengslum við háskólanámið og komst að því að hann átti góða möguleika að standa bróður sínum lítt að baki í tugþraut.

Í Bandaríkjunum var aðstaða öll og þjálfun íþróttamanna sú besta sem völ var á en á þeim tíma erfitt fyrir aðra en heimamenn til að nýta sér það til fulls.

Örn fór til náms í lagadeild Háskóla Íslans og á Íslandi var aðstaða til þess að halda sér við sem einn af þremur bestu tugþrautarmönnum heims erfið, - keppnistímabilið styttra og kaldara en í nokkru öðru Evrópulandi og í raun ótrúlegt afrek hjá jafn fámennri þjóð að eiga jafn frábæra íþróttamenn og frjálsíþróttamenn gullaldarinnar voru.

Ómar Ragnarsson, 8.8.2008 kl. 09:30

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Biðst velvirðingar á innsláttarvillu þar sem orðin "sem hætt var við togun" koma tvisvar fyrir.

Ómar Ragnarsson, 8.8.2008 kl. 09:47

8 identicon

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_twins#Twins_in_sports

Ég sé ekki Örn og Hauk á þessum lista þó að þeir eigi skv. þínum söguskilningi að vera einstakir í íþróttasögu heimsins... skrýtið.

Diddi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 13:36

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekkert mál að bæta þeim bræðrum inn á listann. Það getur hver sem er gert. Bætið þá Bjarka og Arnari Gunnlaugssonum við í leiðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 13:42

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir Clausenbræður voru auðvitað slíkir afreksmenn frjálsíþrótta að það er ekki sæmandi að gera lítið úr þessari umfjöllun um þá. Þú átt miklar þakkir skildar fyrir að vekja athygli á því slysi þegar íslenska frjálsíþróttavorinu lauk með svo skyndilegri kólnun sem raun bar vitni. Það slys stafaði af klaufalegri skammsýni og á að verða íslenskri íþróttahreyfingu víti til varnaðar um ókomna tíð.  

Árni Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 23:23

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslenska frjálsíþróttavorinu lauk að vísu ekki endanlega 1952 þótt þá kæmi alvarlegt kuldakast. Það hlýnaði svolítið frá 1955 og fram yfir 1960 með tilkomu Vilhjálms Einarssonar, Valbjarnar Þorlákssonar, Jóns Þ. Ólafssonar og fleiri. En frjálsíþróttamannaflokkurinn sem fór á EM í Brussel var með þvílíkt mannval snemmsumars að það gaf möguleikia á tíu verðlaunapeningum, þar af sjö gullverðlaunum. 

Sjö gullverðlaunum? Já, Hörður og Haukur í 200, Huseby í kúlu, Örn í tugþraut, Torfi í langstökki og stangarstökki og Skúli Guðmundsson í hástökki ef hann hefði farið á leikana og náð sínu besta þar. Hann stökk 1,97 þetta sumar en sigurhæðin á EM var 1,96.   

Slíkan flokk afreksmanna er ólíklegt að við munum eignast aftur.

Sem dæmi um hæfni Arnar Clausen má nefna að hann hefði átt möguleika á að komast í á verðlaunapall í langstökki og 110 metra grindahlaupi ef hann hefði keppt í þeim greinum.

Torfi ákvað að velja aukagrein sína, langstökkið en sleppa að keppa í stangarstökki vegna þess að keppt var í þessum greinum á sama tíma! Samt varð hann Evrópumeistari í aukagreininni.

Við áttum tvo hlaupara með burði til sigurs í 200 metra hlaupinu en vitanlega hefðu þeir ekki báðir getað hreppt gullið! Hvorugur þeirra gat keppt, öðrum meinuð keppni en hinn meiddur.  

Ómar Ragnarsson, 9.8.2008 kl. 01:42

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þessar skemmtilegu upplýsingar

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband