4.8.2011 | 22:00
Hin óhjákvæmilega og óstöðvandi hnignun olíualdar.
Olíuöldin er heiti í mannkynssögunni af sama toga og steinöld, bronsöld og járnöld. Uppgötvun bensín- og olíuhreyfla hefur knúið áfram uppsveiflu í orkunotkun heimsins sem á sér enga hliðstæðu í veraldarsögunni hvað snertir hraða og stærð.
Nú er komið að hinni óhjákvæmilegu hnignun og niðursveiflu sem hefði hvort eð er byrjað í lok olíualdarinnar en verður fyrr á ferðinni og verri og hraðari vegna þess að mannkynið hefur bruðlað með orkugjafana og lifað um efni fram af fullkomnu ábyrgðarleysi um framtíð sína og komandi kynslóða.
"Skuldaþak" bandaríska ríkisvaldsins, sem ekki verður hægt að hækka í það óendanlega, er skriftin á veggnum. Það er komið að skuldadögunum.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi gátu Bandaríkjamenn leitað til Sádi-Araba um að stórauka framboð á olíu til þess að slá tvær flugur í einu höggi: Fjármagna vígbúnað, sem myndi knýja fram hernaðaryfirburði í Kalda stríðinu og lækka heimsmarkaðsverð á olíu til þes að kippa fótunum undan olíuútflutningstekjum Sovétríkjanna og fella þau.
Hvort tveggja tókst en að var keypt dýru verði sem nú þarf að súpa seyðið af.
Það er ekki lengur hægt að láta Arabana auka olíuframeiðsluna vegna þess að þeir vita (eru raunar einir um að vita það) hve takmarkaðar olíulindir þeirra eru orðnar og að hér eftir liggur leiðin aðeins í eina átt, niður á við.
Þeir vita að aukin olíuframleiðsla mun aðeins verða eins og að pissa í skó sinn og valda enn hraðari orkuþurrð síðar.
Þegar litið er á línurit, sem sýnir notkun mannkynsins á jarðefnaeldsneyti, þýtur línan, sem sýnir hana upp á blað,i eins og eldflaug miðað við orkunotkunina´aldirnar og árþúsundin á undan.
Þessi svakalega uppsveifla hefur tekið aðeins um eina öld og línan á eftir að stefna jafn bratt niður á 21. öldinni.
Miðað við lengd steinaldar, bronsaldar og járnaldar, verður olíuöldin eins og ógnarlangt strá sem þýtur upp og fellur síðan "...eins og blómstrið eina."
![]() |
Hamfarir á hlutabréfamörkuðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.8.2011 | 19:24
Crossfit = Fjölhreysti?
Crossfit er svo ný íþróttagrein á Íslandi að enska orðið er enn notað. Orðmyndin "cross" hefur líka verið notuð í nýyrðinu "crossover" sem nær til þeirra bíla, sem að allri byggingu eru eins og nútíma fólksbílar, með grindarlausa byggingu og sjálfstæða fjöðrun, en hærri yfirbyggingu og stundum örlítið meiri veghæð og aldrifi.
Oft er talað um fjölhæfa íþróttamenn og sumar íþróttagreinar henta slíkum mönnum afar vel eins og til dæmis tugþraut í frjálsum íþróttum.
Ekki hefur enn fundist íslenskt nýyrði yfir crossover-bíla enda ekki alveg hlaupið að því. Hins vegar hlýtur að vera hætt að finna gott orð yfir crossfit, sem fangar það eðli íþróttarinnar að sameina margs konar getu iðkendanna, sem verða að vera afar fjölhæfir og sameina afl, snerpu, hraða, þol og lægni.
Fyrsta orðið sem kemur mér kemur í hug er fjölhæfn en betra væri líklega að kalla þetta fjölhreysti, en það er sá eiginleiki sem segja má að sé mikilvægastur fyrir fólk, sem æfir þessa grein eða keppir í henni.
![]() |
Crossfit æði á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.8.2011 | 19:09
Hvar fékk hann peninga til allra ferðalaganna?
"Follow the money" eða "fylgdu ferli peninganna" er orðtak sem notað er í Ameríku um helsta ráðið til þess að upplýsa mörg sakamál. Frakkar segja hins vegar að finna eigi konuna í spilinu og um tíma var sagt finndu Finn" hér á landi.
Umsvif Anders Behring Breivik árum saman við ferðalög til útlanda, meðal annars til að láta gera á sér dýrar lýtaaðgerðir í Ameríku vekja grunsemdir um það hvort hann geti hafa verið einn um að standast straum að hinum mikla og víðtæka undirbúningi hans fyrir hryðjuverkin hræðilegu.
Ef hann hefur haft menn sem lögðu honum lið þarf að finna þá.
![]() |
Breivik fékk aðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.8.2011 | 13:25
Glæsileg sönnun á þörf fyrir samstöðu.
Þegar ég var viðstaddur hina miklu og stórglæsilegu skrúðgöngu, sem haldin á Íslendingadeginum í Gimli í Manitoba, smábæ á stærð við Selfoss, sannfærðist ég um það að það væri ekki aðeins hægt að gera svonalagað hér heima, heldur væri mikil þörf á því.
Mér rann til rifja að hér skyldi ekki vera haldin slík ganga 17. júní sem gæti orðið margfalt glæsilegri en skrúðganga Vestur-Íslendinga í smábæ í Kanada.
Þess ánægðari er ég með það hve Gleðigangan hefur orðið frábær hér heima og sönnun fyrir þörfinni á því að fólkið og þjóðin geti sýnt samstöðu á góðum degi.
![]() |
Gleðigangan á nýjum stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2011 | 21:55
Afastrákarnir að koma inn.
Það er gaman að fylgjast með því hvernig afastrákarnir eru að koma inn í knattspyrnuna, þeir Rúrik Andri Þorfinnsson (19) með Fylki, Sigurður Kristján Friðriksson (16 ) með Aftureldingu og Olgeir Óskarsson (22) með Fjölni.
Strákarnir hafa verið á æfingum með landsliðunum í aldursflokkum sínum og lofa góðu.
Rúrik Andri er fljótur eins og afinn var og leikinn eins og pabbinn, skæður sóknarmaður. Ragnar föðurbróðir hans var valinn efnilegasti leikmaðurinn í sínum aldurflokki í Fram á sínum tíma og Ragnar langafi hans var sömuleiðis valinn efnilegasti leikmaðurinn í Íslandsmeistaraliði Fram 1939 þegar hann var 17 ára.
Ragnar og Þorfinnur voru hörkuleikmenn á sínum yngri árum og mátti varla á milli sjá, hvor var betri.
Sigurður Kristján Friðriksson var fyrir 16 árum skírður í höfuðið á afa sinum, sem var í gullaldarliði Fram á sinum tíma.
Ég var úti á landi í dag og missti af því að sjá Rúrik Andra leika með Fylki gegn ÍBV og eiga skot í stöng. "Þetta kemur!" hefði ég kallað ef ég hefði verið á vellinum og veit að það hefði verið eitthvað á bak við það, því að strákurinn var iðinn við að skora í yngri flokkum Fram meðan hann var það, en hann fór yfir í Fylki fyrir þetta leiktímabil.
Næsta laugardag leikur Fylkir við Fram og það verður erfitt fyrir mig að fara á þann leik og þurfa að hvetja sonarson minn til dáða á sama tíma og hann leikur gegn hinu gamla félagi okkar beggja.
Strákarnir kynnast bæði súru og sætu í íþróttunum. Rúrik Andri kom upp úr meiðslum í vor og Olgeir varð fyrir glórulausri taklingu í leik með liði sínu og sumarið var eyðilagt fyrir honum.
En þessir strákar eru ungir, eiga lífið framundan og mótlætið herðir þá bara.
P.S. Nú heyri ég að Íslenski boltinn byrji í Sjónvarpinu klukkan 00:20 eftir miðnætti í kvöld. Það er fullt af ungu fólki og vinnandi fólki sem horfir á þetta efni og furðulegt að hafa þetta á dagskrá um miðjar nætur.
En svona er nú fótboltinn!
![]() |
Eiður Aron kvaddi ÍBV með sigri í Árbæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2011 | 12:35
"Katla og Grímsvötn kallast á."
Fyrir sjö árum stefndu orkufyrirtæki inn á Fjallabakssvæðið til borana sem áttu að verða upphaf virkjanaframkvæmda eins og myndast hafði venja fyrir.
Af því tilefni hóf ég myndatökur fyrir myndina "Katla og Grímsvötn kallast á" sem átti að sýna fram á að þetta svæði eitt og sér væri mun merkilegra en frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone.
Þrýstingnum til að fá að fara inn á svæðið með virkjunarframkvæmdir var aflétt að hluta þegar ekki var leyft að bora þar og átakasvæðin vegna íslenskra náttúrugersema færðust annað. Ég sit því uppi með þann kostnað og það efni sem ég tók í fjölmörgum ferðum um svæðið, en önnur kvikmyndaverkefni hafa færst framar í forgangsröðina.
Þegar Skaftá hljóp um 1970 þóttu það mikil tíðindi og kvikmyndir, sem Rúnar Gunnarsson, þá kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins, tók þóttu mikilfenglegar.
Í kjölfarið fylgdu fleiri Skaftárhlaup á stangli með nokkurra ára millibil, en síðan fór þeim smám saman fjölgandi.
Nú er svo komið að tvö hlaup komi á ári og að það hlaupi úr báðum Skaftárkötlunum. Ofan á þetta bættist hugsanlegt smágos við Lokahrygg í sumar og Grímsvatnagosið auk óróans í Kötlu.
Allt þetta aukna sjónarspil er orðið hluti af því sem ég nefndi "Katla og Grímsvötn kallast á".
Á svæðinu er því stanslaust fjör í sýningunni "Stærsta leiksýning veraldar" sem ég hef nýlega bloggað um.
![]() |
Nýtt Skaftárhlaup að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2011 | 09:05
Góðgerðarstarfsemi ?
Þegar Ross Beaty kom inn í íslenskst fjármálalíf tóku margir honum eins og manni, sem ætlar að stunda góðgerðastarfsemi, enda mikil "vöntun á erlendri fjárfestingu".
Beaty stundaði fagurgala og maður gekk undir manns hönd við að útvega honum mestallt fjármagnið, sem hann kvaðst ætla að leggja fram fé í HS Orku. Voru með ólíkindum þau fríðindi sem hann fékk.
Nú sjá menn að auðvitað var innkoma Beaty ekki undir neinum öðrum formerkjum en til þess að hann gæti grætt sem mesta peninga og tekið þá frá lífeyri landsmanna ef ekki vildi betur.
Var til lítils fyrir alþýðufólk að nurla saman því fé til efri ára til þess að hlaða undir rassinn á Beaty.
Hin raunverulega góðgerðastarfsemi hefur falist í íslenskri orkusölustefnu, sem náði nýrri lægð fyrir 15 árum þegar sendur var bæklingurinn "Lowest energy prizes" til helstu stóriðjufyrirtækja heimsins þar sem orkulindir Íslands voru falboðnar á gjafverði.
Þessi góðgerðastarfsemi Íslendinga fyrir erlenda auðmenn er því miður enn lifandi, samanber mál Magma energy og Ross Beaty.
![]() |
Segir peninga lífeyrissjóða renna í vasa Ross Beaty |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2011 | 20:05
Gott hjá forsetanum!
Það var vel til fundið hjá forseta Íslands að senda Annie Mist Þóridóttur hamingjuóskir með frækilegan sigur hennar á Heimsleikjum í crossfit.
Það var nefnilega ekki sjálfgefið að gera þetta, því að greinin er ekki innan vébanda ÍSÍ og stundum hefur það verið svo að það hefur verið láta ráða miklu þegar lagt er mat á íþróttir, til dæmis með vali á íþróttafólki ársins.
![]() |
Forsetinn sendir Annie Mist heillaóskir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.8.2011 | 20:01
Forspár Nóbelshöfundur, - og þó?
Menn hentu gaman að því 1970 þegar Halldór Laxness varpaði því fram í frægri grein sinni undir heitinu "Hernaðurinn gegn landinu" að svo kynni að fara að menn teldu rétt að moka ofan í þá skurði sem þá voru ristir um votlendi landsins allt upp á heiðar eins og sjá má á eyðibýli einu við norðurjaðar Tvídægru.
Nóbelskáldið hafði þó ekki framsýni til að sjá fyrir það sem við Hrafn Gunnlaugsson sáum blasa við á flugi okkar yfir Skagafjörð fyrir níu árum.
Þá mátti sjá vinnuvélar notaðar til að moka ofan í skurði á bæ einum á sama tíma sem skurðgröfur voru í óða önn að grafa skurði í landi næsta bæjar, hinum megin við girðingu á landamerkjum!
![]() |
Lítill áhugi á að moka ofan í |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2011 | 19:56
Mikilvægt að komast að orsökinni.
Fyrir þá sem lítinn áhuga hafa á náttúrufari og dýra- og fuglalífi kunna fréttir af afföllum í sjófuglastofnum við Íslands að þykja lítilfjörlegar. En það væri afar yfirborðslegt að láta sér fátt um þær finnast, því að ef ekki finnst skýring á þessu, kynni að verða enn færra um svör ef eitthvað brygðist í fæðukeðjunni í hafinu sem ylli hruni fiskistofna.
Ef hægt er að komast að því hver orsök hruns sandsílastofnsins og þar með sjófuglanna er, ætti að vera meiri líkur á því að komast að því hvað gæti valdið sams konar hruni í fiskistofnum.
![]() |
Drepast úr hor áður en kríurnar fljúga burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)