Skrýtin fyrirsögn.

"Kaldasti júlí frá 2006" er fyrirsögnin hjá tengdri frétt um hitann í júlímánuði. Ég rak upp stór augu þegar ég sá þessa fyrirsögn því að meðalhitinn var næstum tveimur stigum yfir meðalári og mánuðurinn einn af 14 hlýjustu júlímánuðum frá upphafi mælinga.

En svona geta jákvæðar fréttir orðið neikvæðar með réttri meðhöndlun, - eða öfugt, orðið jákvæðar fyrir þá sem andmæla hlýnun loftslags á jörðinni.


mbl.is Kaldasti júlí í Reykjavík frá 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stærsta leiksýning veraldar".

Á svæðinu milli Vatnajökuls og Suðurjökla (Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls) á sér stað stærsta leiksýning veraldar, sem kalla mætti The Greatest Show on Earth á ensku.

Með 3-500 ára millibili verða þarna stærstu eldgos á Íslandi, 930, 1480 og 1783.  Eldgjárgosið 930 er stærsta gos sem vitað er af á jörðinni á sögulegum tíma, stærra en Skaftáreldar.

Leiksýningin skiptist í goskafla og sandburðarkafla. Þegar gaus 930 rann hraun allt niður í Meðalland og fór yfir land sem áður hafði ýmist gróið upp eða farið undir aurburð ánna á svæðinu.

Síðan kom uppgræðslu- og aurburðarkafli fram að Skaftáreldum, en hið nýja Skaftáreldahraun rann þá yfir það svæði sem gróður og sandur höfðu numið.

Nú stendur yfir uppgræðslu- og aurburðarkafli þar sem aur frá Skaftárkötlum og nýr gróður eins og mosi þekur æ stærra svæði af hrauninu, sem rann 1783.

Hver sá, sem fer um þetta svæði og fær að vita á hvað hann er að horfa hlýtur að hrífast af því að vera áhorfandi að "Stærstu leiksýningu veraldar".

Hugmyndir um virkjanir á svæðinu hafa miðað að því að grípa inn í þessa miklu leiksýningu náttúrunnar líkt að ruðst væri upp á svið í leikhúsi, þar sem verið væri að sýna grískan harmleik eða harmleik eftir Shakespeare og, og "tekið í taumana."

Nú um stundir er maður ekki viðræðuhæfur um hluti nema að allt sé mælt í peningum, því miður. Ég er þess fullviss að miklu meira fé er hægt að fá út úr þessu svæði með því að auglýsa það upp á viðeigandi hátt til að efla þar ferðamennsku heldur en með því að einblína á virkjanir.

Sá ágóði er til frambúðar og auk þess fæst heiður og virðing sem út af fyrir sig má meta til fjár í formi viðskiptavildar.

Umsvif af virkjanaframkvæmdum standa hins vegar aðeins yfir í nokkur ár og gróðahugsunin á bak við þær er mótuð af afar mikilli skammsýni.

Hugsunin er líka afar ágeng, samanber orðalagið "Búlandsvirkjun verður reist lengra frá Langasjó". Sem sagt: Hún verður reist, hvað sem tautar og raular, og fer þá fyrir lítið ályktun landsfundar Samfylkingarinnar 2009 þar sem lýst var þeirri stefnu flokksins að friða allt svæðið á milli Vatnajökuls og Suðurjökla.


mbl.is Búlandsvirkjun verður reist lengra frá Langasjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stalín hefur lengi verið grunaður um græsku.

Morðin illræmdu í Katyn-skógi á pólskum liðsforingjum sýndu að Rússar reyndu eftir megni að draga mátt úr Pólverjum á stríðsárunum.

Þrættu þeir fyrir morðin í meira en hálfa öld en viðurkenndu þau eftir fall Sovétríkjanna. Forsætisráðherra Pólverja fórst á leið til minningarathafnar um morðin í fyrra.

Stalín hefur lengi verið grunaður um að hafa spilað þannig úr spilum sínum í ágúst og september 1944 að Pólverjum blæddi sem mest.

Þetta verður svo sem aldrei sannað til fulls enda var það svo í sókn herja Bandamann bæði úr vestri og austri, að herirnir stöðvuðust alllengi meðan verið var að byggja þá upp með flutningum og skipulagi fyrir næstu sóknarbylgju.

Nefna má hve lengi innrásarherinn í Normandí var kyrrstæður áður en Patton tókst að rjúfa herkvína og einnig, hve lengi honum miðaði lítið áfram yfir vesturlandamæri Þýskalands.

Sovétherinn fór líka hægt yfir á leið sinni inn í Þýskaland síðustu mánuði ársins 1944 og fram yfir áramót.

Í stríðlok voru Bretar fúlir út í Roosevelt Bandaríkjaforseta fyrir að draga taum Sovétmanna varðandi örlög Póllands.

Bretar fóru út í stríðið 1939 út af árás Þjóðverja á Pólland, sem var gerð í kjölfar griðasamnings Hitlers og Stalíns. Pólsk útlagastjórn hafði setið öll stríðsárin í Bretlandi og því fúlt í stríðlok að horfa á eftir Póllandi í gin Rússa.

Á móti þessu kom, að í rúma átta mánuði frá september 1939 til maí 1940 lyftu Bretar og Frakkar ekki litlafingri gegn Þjóðverjum á vesturlandamærum Þýskalands heldur stóð þar yfir fyrirbæri sem fékk heitið "Platstríðið" (Phony war).

Allan þennan vetur áttust Bretar og Þjóðverjar aðeins við á hafinu og það var fyrst eftir 9. apríl 1940 að Bretar reyndu að hjálpa Norðmönnum í vörn gegn innrás Þjóðverja í land þeirra.

Það kom í hlut Sovétmanna að reka Þjóðverja út úr Póllandi og í stríðinu við Þjóðverja misstu Rússar 20 milljónir manna. Þess vegna er eftirlátssemi Roosevelts skiljanleg þótt Bretum þætti hún ósanngjörn.

Í augum Stalíns voru lönd Austur-Evrópu stuðpúði gegn hugsanlegri ásælni úr vestri í framtíðinni og hann var reynslunni ríkari eftir hina miklu innrás Þjóðverja 22. júní 1941.


mbl.is Minnast Varsjáruppreisnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa lengið verið sníkjudýr og halda því áfram.

Það er rétt hjá Pútín forsætisráðherra Rússlands að Bandaríkin séu sníkjudýr á hagkerfi heimsins.

En þar með er ekki allt sagt. Bandaríkin hafa verið sníkjudýr lengi og þrátt fyrir nú eigi að draga úr samfelldri skuldaaukningu ríksins er raunin sú að það á að halda henni áfram, þótt dregið hafi verið úr hraða hennar.

Bandarískir stjórnmálamenn og almenningur vestra hafa ekki haft þrek til að horfast í augu við það, hvert stefnir, og geta það enn ekki.

Eftir ár verða forsetakosningar og forsetinn er því "lömuð önd" (lame duck) síðasta árið, ófær um að taka af alvöru á vandamálunum af ótta við að missa fylgi.

Við Íslendingar getum lítið sagt nema að kasta úr glerhúsi . Við fjórfölduðum skuldir heimilanna á órfáum árum í aðdraganda Hrunsins og súpum nú seyðið af því. 


mbl.is „Bandaríkin eru sníkjudýr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband