Hjarta Bandaríkjanna.

Flestir sjá fyrir sér New York eða iðandi líf stórborganna þegar minnst er á Bandaríkin og þá koma oft upp í hugann óteljandi atvik úr kvikmyndum tengd glæpum og ofbeldil. En þetta er ekki grunnur bandarísks þjóðlífs heldur er þetta dreifbýlt land landnema, sem komu á samfélagi ólíkra þjóðarbrota alls staðar að úr heiminum með evrópska menningu að helsta grunni.

Íslensku hjón sem áttu börn í skóla í Bandaríkjunum urðu fyrir slíku sjokki þegar þau komu með þau heim til Íslands að þau sögðust í viðtali hafa verið komin á fremsta hlunn með að flytja aftur vestur til þess að börn þeirra gætu alist upp í skóla sem þau gætu treyst til að kenna þeim mannúð, aga og alúðlega og glaðlega framkomu.

Þetta síðastnefnda er það sem hrífur mest Íslendinginn þegar hann er hér í Bandaríkjunum, - hvað manni er alls staðar vel tekið og með hjálpsemi og hlýju og opinskáu viðmóti. Það er eins og fólki hér sé innprentað að hver dagur sé dýrleg gjöf sem við eigum að njóta saman en ekki þögul og alvörugefin hvert í sínu horni.

Glæpir stórborganna og kvikmyndanna eru víðs fjarri í þessu hjarta hins bandaríska samfélags sem að vísu á í vök að verjast fyrir útþenslu verstu hliða borgarmenningarinnar.  

Enn er eins og eimi heima af því sem erlendir ferðabókahöfundar lýstu sem einkennum lundar og framkomu okkar Íslendinga, þumbaraskapurinn og þunglyndisleg og einræn framkoma.

Ég fór fyrir nokkrum árum í ferðalag með Rússa langt út á rússneks landsbyggð um hávetur og hann varð fyrir meiri áhrifum en ég. Hann var alinn upp í Moskvu sem hann lýsti sem borg svipaða hverri annarri milljónaborg í þróunarlandi.

Úti á meðal rússneska sveitafólkis upplifði hann hins vegar hjarta Rússlands, gestrisni og hlýju, - kannski ekki svo ósvipðaðri  og í öðru dreifbýlu og víðlendu ríki, Bandaríkjunum.  


Leyft að útskýra.

Ég horfði á hluta kappræðnanna á meðan ég beið eftir flugvél í Lindberg-flugstöðinni í Minneapolis. Þessi sjónvarpsþáttur var ekki endurtekning á frægum þætti Kennedys og Nixons 1960 þar sem Nixon virtist fölur og gugginn en Kennedy var æskufjörið uppmálað.

McCain kemur vel fram í sjónvarpi og skilar sínu ágætlega, lítur ekki út fyrir að vera maður sem yrði forseti á áttræðisaldri. Aldurinn var heldur Ronald Reagan ekki fjötur um fót á sínum tíma. Enn auðvitað gat McCain ekki logið sig frá aldrinum og greinilegt að Obama nýtur þess að "markaðssetja" sig sem mann nýrra tíma.

Mér fannst áberandi hve hann lagði sig í líma við að vera yfirvegaður og traustvekjandi.

Þáttastjórnendurnir leyfðu forsetaframbjóðendunum að svara spurningum án þess að vera að grípa frammi í fyrir þeim. Stundum er sagt að þáttastjórendur eigi að halda uppi tempóinu og taka í taumana ef stjórnmálamennirnir verða of langorðir.

Ástæðan er skýr: Það er bæði stjórnmálamanninum,áhorfendum, sem og sjónvarpsstöðinni verst ef þeir teygja lopann og mikið. Við það er hætta á að þeir glati athygli áhorfenda.

Í kappræðunum í gærkvöldi sýndist mér ljóst að þáttastjórnendur "treystu" frambjóðendunum fyrir að gera slík mistök sjálfir og taka þá afleiðingunum. Hér er um að ræða val á valdamesta manni heims og best fyrir þá sem valið eiga að kynnast því hvernig þeir meðhöndla viðfangsefni sín.

Þann tíma sem ég horfði á Obama og McCain voru þeir til dæmis að útskýra stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Rússum. Til þess að gera það svo að vel sé, þarf einfaldlega ákveðinn lágmarkstíma og mikilvægt var fyrir hvorn um sig að útskýra sem best stefnu sína.

Það fengu þeir að gera og ákveða sjálfir hvernig þeir nýttu tímann, sem eftir allt saman, var þó takmarkaður miðað við að halda athygli áhorfenda og koma sínu til skila.

Auðvitað fer það eftir aðstæðum og tímalengd hvernig tíminn er nýttur og hvenær bráðnauðsynlegt er að stjórnandinn haldi á svipunni og sjái til þess að takmarkaður nýtist sem best. Þess getur verið brýn þörf að stöðva og grípa fram í ef um stutt viðtal er að ræða og í slíkum tilfellum geta hvassar spurningar og stutt, ydduð svör verið forsenda þess að sem mestum upplýsingum um staðreyndir og viðhorf sé komið til skila á áhugaverðan hátt. 


mbl.is Obama kom betur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halda límingarnar?

Það er títt að tekið sé svo til orða í seinni tíð að þessir eða hinir séu að fara á límingunum út af einhverju þegar örvænting eða ótti ná yfirhöndinni. Í öllu umrótinu nú, þegar aðvörunarorð undanfarinna ára eru að sanna sig, koma fram ýmsar hugmyndir, sem benda til þess að skammt sé í að menn séu að fara á  límingunum.

Límingarnar, sem hafa haldið íslensku samfélagi saman hafa falist í umráði og eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum á sjó landi. Þessar límingar verða að halda, hvað sem öðru líður, - það verður að vera tryggt að þessar auðlindir komist ekki á örfárra hendur og að lokum í hendur útlendinga.

Íslandshreyfingin varð fyrst til að hreyfa varnaðarorðum um þetta varðandi auðlindir jarðvarma- og vatnsorku og þau varnaðarorð eru æ betur að sanna sig.

Í kosningabaráttunni settum við fram hugmyndir um að færa kvótaeignina yfir til þjóðarinnar í heild með því að stefna að því að kvótinn yrði ekki eign þeirra, sem hafa hann, heldur borguðu þeir fyrir leigu á honum fyrir ákveðið tímabil. Þetta gæti verið takmarkið eftir ákveðinn umþóttunar- og breytingatíma. 

En þessar hugmyndir hafa verið settar fram til að þjóðin fengi eignarhaldið til baka til sín, eignarhald sem hefur að mestu komist í hendur fárra aðila og lokað fyrir aðgang annarra.

Öðru máli gegnir um nýjustu hugmyndir um að einkavæða orkuveiturnar í formi útleigu á þeim. Þessar gullkistur eru þegar í eigu þjóðarinnar og þurfa því ekkert að vera á förum þaðan. Þótt opinbert eignahald hafi ýmsa þekkta ókosti bruðls ogáhættusóknar í för með sér (sá hugsunarháttur stjórnenda að þjóðin borgi hvort eð er allt á endanum, sem misferst), þá eiga menn ekkert að fara á límingunum og láta þessi verðmæti af hendi eins og ekkert sé, jafnvel þótt það eigi að vera í formi leigu. 

Drögum nú djúpt inn andann og gerum ekki nein arfamistök af sömu stærðargráðu og gerð voru fyrir aldarfjórðungi þegar kvótakerfinu var komið á. Auðlindalímingar auðlinda lands og þjóðar verða að halda, hvað sem öðru líður.  


mbl.is Krónan aldrei veikari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsyn sjálfstæðri þjóð.

Margt hefur breyst síðan Ingi Björn Albertsson lét til sín taka á Alþingi um þyrlumál Íslendinga. Að ekki sé talað um það þegar Guðbrandur Guðbrandsson kom með Super Puma þyrlu hingað til lands til að opna augu okkar fyrir því, að eyþjóð, sem ekki á almennilegar þyrlur getur hvorki talið sig sjálfstæða né bjóða upp á lágmarks aðstöðu til mannbjargar og flutninga í almanna þágu.

Eftir að kaninn fór, tákna þyrlurnar miklu meiri og nauðsynlegri "sýnilegar" varnir og öryggisatriði en herþoturnar nokkurn tíma gerðu.

Sé heimurinn harður og kosti lágmarks þyrlueign okkur aukin útgjöld verður svo að vera. Annað hvort erum við sjálfstæð og fullburða þjóð eða ekki. Annað hvort eigum við með tryggum hætti almennilegar þyrlur eða berum okkur ekki orðið sjálfstæði í munn.  


mbl.is Erfitt að halda í þyrlurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög-óregla.

Ég sagði frá því í bloggpistli um daginn að á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar ríkti hættuástand í klukkustund í hádeginu einn daginn vegna þess að umferðarljósin voru óvirk. Lögreglan var látin vita af þessu en þótt harður árekstur yrði fljótlega af þessum sökum á gatnamótunum og aftur væri hún beðin um að koma og afstýra fleiri slysum, kom hún ekki og var því svarað til að enginn gæti farið í þetta útkall, þeir hefðu enga menn í það.

Þetta eru flókin gatnamót með hraðri umferð sem kemur að gatnamótunum úr fjórum áttum eftir meira en tuttugu akreinum en svarið sýnir að í þessu tiltekna hádegi þurfti lögreglan líklega að sinna enn brýnni útköllum ef hún hefur þá getað sinnt þeim heldur vegna manneklu. ´

Er einhver þarna úti sem syngur kannski:

"Ekki benda á mig, segir ráðherrann.

Í þessu hádegi var ég að reka annan lögreglustjóra....

 

eða....

....í þessu hádegi var ég að æfa með sérsveitinni."

            


mbl.is Mulið undir Ríkislögreglustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stál og hnífur.

Seint verður fólk á eitt sátt hvar eigi að draga mörkin fyrir eign tækja og tóla. Allir mega eiga stóra búrhnífa og syngja "stál og hnífur er merki mitt..." en eign byssunnar, hins skæða stáls, er hins vegar takmörkuð með lögum. "Byssurnar drepa engan heldur mennirnir sem beita þeim" er algeng röksemd þeirra sem vilja sem minnstar takmarkanir á byssueign.

Á bannárunum var saknæmt að eiga bruggtæki (öðru nafni "búsáhöld") og frá einum bruggaranum er komin röksemdin að alveg eins væri hægt að kæra hann fyrir nauðgun eins og brugg því hann "ætti tólin."

Morðin í Finnlandi sýna hins vegar nauðsyn þess að draga einhvers staðar línu. Búrhnífurinn og byssa veiðimannsins eru nauðsynleg áhöld, að ekki sé nú talað um hin holdlegu "tól", en erfitt er að rökstyðja að bruggáhöld og áhöld til fíkniefnaneyslu séu nauðsynjavörur.  


mbl.is Brottrekstrarsök að eiga tólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar.

Ég bloggaði um það um daginn að Valdi koppasali gæti blómstrað ef hann flytti austur í Skriðdal. Þar er annar af tveimur malarvegaköflunum á leiðinni kringum landið og þar tapaði ég tveimur hjólkoppum um daginn. En ef ég hefði verið á nýjum bíl hefði ég engum koppum tapað því að bæði stálfelgur og álfelgur á nýjustu bílum eru ýmist þannig að hjólkoppa er ekki þörf eða að kopparnir eru skrúfaðir fastir.

Ég vil þakka Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur fyrir skemmtilega frétt um Valda. Hugsanlega er þar tilefni til stuðnings við einstakt safn hans og viðfangsefni, sem er tákn um þá gömlu tíma þegar vegirnir og hjólabúnaður bíla sáu til þess að ævinlega var nóg af koppum við vegarbrúnir landsins.  


mbl.is Koppabransinn riðar til falls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laun þrautseigjunnar, verðskulduð þökk.

Það er kalt á toppnum, sama hver hann er. Eiður Smári Guðjohnsen hefur fengið að kenna á því. Hann er undir smásjá fylgismanna liðs hans á Spáni og hann er undir smásjá okkar hér heima á skerinu sem hann fór frá til að sækja fram á því sviði þar sem augljósir hæfileikar hans nytu sín.

Tugmilljónir drengja um allan heim verða að láta sér nægja að dreyma um að verða knattspyrnustjörnur. Það þarf sterk bein til að þola bæði frægð og frama en ekki síður mótlætið. Öll erum við mannleg með kostum okkar og göllum, ávinningum og mistökum, Eiður Smári jafnt sem við hin.

Eiður er gagnrýndur harðlega þegar eitthvað bjátar á eða hann stenst ekki grimmar kröfur um að sýna gargandi snilld í hverjum leik. Að ekki sé nú talað um umtalið þau tímabil sem hann verður að þrauka á bekknum leik eftir leik og vita ekki hvort eða hvenær kemur til hans kasta. 

Þá vill gleymast að svo margir afreksmenn eru í liði Eiðs að þeir verða flestir að sætta sig við það sama og hann. 

Enn og aftur vísa ég til Muhammads Alis, sem talinn er mesti þungavigtarhnefaleikari allra tíma og jafnvel mesti íþróttamaður allra tíma,þótt hann tapaði fyrir Joe Frazier, Ken Norton, Leon Spinks, Larry Holmes og Trevor Berbick.

Síðustu tveimur bardögunum tapaði hann kominn langt  á leið ofan af toppi líkamlegrar getu og haldinn Parkinsonveiki.

Hann barðist þrívegis við Frazier og Norton og lauk viðureignunum við báða með tölunni 2 vinningar gegn einum, Ali í vil.

Á tindi getu sinnar 1967 hefur Ali vafalaust verið besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma. En það eitt hefði aldrei nægt til að skipa honum á þann stall sem hann er nú.

Því veldur sá eiginleiki sanns meistara að kunna að vinna úr ósigrum sínum og veikleikum og eflast við það. Viðbrögð við ósigrunum og mótlætinu segja meira um mannkosti en viðbrögð við sigrum. Enginn kunni það betur en Ali, og síðustu árin á keppnisferlinum var það viljinn einn, kjarkur og óbilandi þrautseigja sem hélt honum á floti.

Ali segist nú heyja merkilegasta og mesta bardaga lífs síns, baráttuna við Parkinsonsveikina. Hann segir: Úr því að Guð úthlutaði þessu verkefni til mín lít ég á það sem áskorun sem mér sé ljúft, skylt og heiður af að fá að fást við. Ég vil ekki bregðast því trausti sem forlögin sýna mér með því að fela mér þetta erfiða verkefni."

Þetta hlýtur að vera fyrirmynd fyrir alla, hvort sem þeir eru íþróttamenn eða fást við annað. Kjarkur og þrautseigja, þolinmæði sem þrautir vinnur allar. Þess vegna tek ég undir þakkarorð Spánverjanna: Þakka þér, Eiður Smári! 


mbl.is Takk, Guddy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin hröðun.

Athyglisverð var fréttin um í rússneskum leiðangri norðan Rússlands hefði mælst ört vaxandi uppstreymi metans úr hafinu, sem verður æ íslausara. Síðan búast menn við ekki síðra uppstreymi úr freðmýrunum þegar hlýnun loftslagsins bræðir frerann þar. Metan veldur fimmfalt meiri gróðurhúsaáhrifum en koldíoxíð og afleiðingin getur orðið æ hraðari hlýnun.

Fyrirbærið hlýnun lofthjúpsins er nokkuð flókið og það hringdu bjöllur hjá mér þegar kynnti mér sjónvarpsþátt um fyrirbæri sem kallað er "dimming" á ensku en ég lagði til að það yrði kallað rökkvun á íslensku. Rökkvunin, sem stafar af því þegar smáar agnir vegna bruna þyrlast upp í loftið hamla sólarljósinu för til jarðar, er umtalsverð en kólnunaráhrif þessara agna nægja samt ekki til að stöðva hlýnunina sem nú ríkir í lofslagi jarðarinnar. 

Ein þekktasta rökkvun sögunnar var af völdum Skaftárelda 1783 þegar létt og fíngerð aska þeyttist upp í hvolfið, byrgði fyrir sólu og olli kólnun um mestalla jörðina í nokkur ár.  

Bjöllurnar hjá mér hringdu því að hlýnunin bendir til þess þess að gróðurhúsalofttegundirnar hafi enn meiri áhrif en menn halda og að hlýnunaráhrif þeirra væru því ótrúlega mikil. Að þessu leyti er því hugsanlegt að rökkvunin hafi komið til bjargar til að varna því að hlýnunin verði allt of hröð, því að slíkt getur leitt til mikilla vandræða víða um lönd. 

Allt er best í hófi.  

Munurinn á rökkvun og áhrifum gróðurhúsalofttegunda er sá að gróðurhúsaáhrifin eru mun varanlegri.  


Reykásarnir rjúka af stað.

Það er ekki algengt að stétt fólks fái jafn mikinn almennan stuðning í launakröfum sínum og ljósmæður fengu á dögunum. Einum rómi sögðu þeir sem studdu þær að þær hefðu verið látnar dragast aftur úr undanfarin ár og fengju ekki sömu laun fyrir sömu menntun og stéttir, sem stóðu nálægt þeim. Þetta yrði að lagfæra.

Fjármálaráðherra var atyrtur, meðal annars í bloggpistlum mínum, fyrir það að sýna óafsakanlega tregðu við að verða við sjálfsögðum kröfum.

Í öllu þessu tali var sérstaða ljósmæðra ávallt aðalatriðið.

En nú bregður svo við að jafnvel þeir sömu, sem hömruðu á sérstöðu ljósmæðra, rjúka nú af stað með kröfur um sömu launahækkanair og ljósmæður. Nú virðast allir hafa fengið sömu sérstöðu og þær.  

Ef sú verður raunin að ljósmæðrasamningarnir verða notaðir sem afsökun fyrir kjarakröfum allra fer það að vera skiljanlegra en fyrr hve lengi fjármálaráðherra þráaðist við að semja við þær. Að baki tregðu hans bjó greinilega óttinn við að allir myndu rjúka af stað um leið og séð varð hvað ljósmæður fengju og að á endanum sætu þær jafnmikið eftir og þær höfðu áður gert. 

Og verðbólgan hefði fengið góða máltíð í formi launahækkana, sem velt yrði út í verðlagið og gamla staðan frá verðbólguárunum komin upp eins og afturganga. 

Ragnar Reykás hefði orðað afstöððu sína og sinna líka svona: "Auðvitað eiga ljósmæður að fá leiðréttingu á því að hafa verið látnar dragast aftur úr. Það er ekki spurning. Auðvitað eiga þær að fá sömu laun og aðrar stéttir með hliðstæða menntun fá. Ma-ma-maður áttar sig ekki á því af hverju þessi sérstaða er ekki viðurkennd.

En við verðum líka að átta okkur á því að nú eru allir að dragast aftur úr í kjörum vegna verðbólgunnar og verða fá réttláta leiðréttingu á því. Það er sanngjörn krafa og óskiljanlegt ef ekki verður orðið við henni. Nú eigum við öll heimtingu á því að hlustað sé á sanngjarnar kröfur okkar. LJósmæðurnar voru lifandi fyrirmynd sem við dáumst að og auðvitað viljum öll vera eins og ljósmæðurnar, það er ekki spurning." 

P.S. Var að koma heim úr kvikmyndagerðartörn þar sem ég var ekki í netsambandi. Hafði á leiðinni heiman frá mér klykkt út með þessu. 

Æ, nú fer hér allt í spað.

Alltaf vex hér raunin. 

Reykásarnir rjúka´af stað 

og reyna´að sprengja launin. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband