Áfram skrúfað fyrir og nú algerlega að óþörfu.

Er nú að setjast upp í Fiat-lúsina til að aka austur og upp á Hraunin fyrir austan Snæfell og Eyjabakka og fylgjast með því þegar Kelduá verður veitt inn í göng, sem liggja austur í virkjunarkerfi Jökulsár í Fljótsdal. Þar með verður skrúfað fyrir ána og á annan tug fossa að minnsta kosti sem hafa verið prýði hennar um aldir.

Hugsanlega verður aðeins félagi minn eða ég einn vitni að því þegar fossarnir verða teknir af lífi rétt eins og við Jökulsá í Fljótsdal um daginn. Því veldur fyrirbrigði sem ég kallaði "fossafælni" í Morgunblaðsgrein og lýsir sér í því að hægt og hljóðlega stefnir í það að á þessum fyrsta áratug þessarar aldar mun helmingur stórfossa Íslands að minnsta kosti munu af mannavöldum þegjandi og hljóðalaust. 

Faxi og Kirkjufoss, sem nú eru að hlíta sínum dauðadómi, eru aðeins örfáa kílómetra frá hinum malbikaða vegi á Fljótsdalsheiði. Þess hefur hins vegar verið gætt að sem allra erfiðast sé að komast að þessum fossum og má kannski segja að þjóðin hafi verið í hlutverki strútsins, sem stingur höfðinu í sandinn og telur sér trú um að það sem ekki sést, sé ekki til.

Það myndi verða talið fréttnæmt ef á sama degi væri skrúfað fyrir bæði Skógafoss og Goðafoss af því að í þeim tilfellum er erfitt að stinga höfðinu í sandinn.  

Fossarnir í Kelduá hafa verið enn afræktari en fossarnir í Jökulsá á Fjöllum, svo fallegir og sérstakir sem þeir eru. Uppþurrkun þeirra verður dapurlegur viðburður, einkum vegna þess, að í því hlýja árferði, sem nú er í samræmi við spár þar um, gerir það að verkum, að Hraunavirkjun er alger óþarfi og hefði verið hægt að sleppa henni eða að búa svo um hnúta, að ekki þyrfti að láta renna í Kelduárlón nema ástæða væri til.

Þetta hefði verið hægt ef botnrás eða hjáleið hefði verið við Kelduárstíflu, en auðvitað var það talið of dýrt á sama tíma sem reistar voru stíflur og virkjun í yfirstærð miðað við það vatnsmagn sem þarna er dögum hlýnunar í veðurfari jarðarinnar.  

 


Áfram með smjörið!

Þegar ekið er frá Osló þjóðleiðina í átt til Gautaborgar og Evrópu er á kafla aðeins um eina akrein að velja fyrir einkabíla, - hin akreinin er tekin frá fyrir almenningsvagna. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um þá áherslu sem lögð er víða erlendis á almenningssamgöngur.

Á málfundi um loftgæði í Reykjavík í Iðnó í gærkvöldi benti ég á með því að nota stórt kort af höfuðborgarsvæðinu að enn virtust menn ekki hafa áttað sig á því að miðja höfuðborgarsvæðisins stefndi hratt í það að vera nálægt krossgötum svæðisins, sem liggja við Elliðaárdal. Þarna liggja langstærstu krossgötur landsins og þar verður þungamiðjan óhjákvæmilega. 

Óviðunandi ástand almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu held ég að megi meðal annars rekja til þess að ekki hefur verið tekið tillit til þessa né sett upp umferðarmódel til að finna út hvernig samgöngukerfið geti sem best þjónað sínu hlutverki í samræmi við þau lögmál, sem verði að hlíta.

Sömuleiðis verður að reikna dæmið í heild, hversu mikið núverandi ástand kostar þjóðfélagið, hve mikið stórátak í almenningssamgöngum myndi spara þjóðinni og hvað slíkt stórátak myndi kosta.

Mig grunar að slíkt átak myndi kosta miklu minna en sem svarar þeim sparnaði sem fengist þjóðhagslega og að þess vegna sé réttlætanlegt að halda áfram á þeirri braut sem var opnuð á Miklubraut í dag.  


mbl.is Gamli og nýi strætó á rauðum dregli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær góðar greinar.

Tvær góðar greinar eru meðal þeirra sem birtast í blöðunum í dag og ég held að sé ástæða til að lesa. Það er annars vegar leiðari Magnúsar Halldórssonar í 24 stundum um það hvernig er fótum troðinn sjálfsagður og nauðsynlegur réttur kjósenda og fulltrúa þeirra til að hafa í höndum nauðsynlegar upplýsingar um orkuverð.

Við þetta vil ég bæta því hvernig sovésk stýring hefur verið á fyrirkomulagi virkjana og stóriðju sem birtist í Kárahnjúkavirkjun. Allt framangreint er í raun í hrópandi ósamræmi við þá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sig vera málsvara fyrir. 

Og þá kem ég að annarri grein, í Fréttablaðinu, eftir HannesiHólmsteiniGissurarson, einn ötulasta málsvara frjálshyggju hér á landi. Hannes hefur stundum verið sakaður um þjónkun við bandaríska hægri stefnu en í grein hans um rétt smáþjóða er til dæmis ekki annað að sjá en að Hannes telji Osseta og Abkasa eiga rétt á fullu sjálfstæði, gagnstætt vilja Georgíustjórnar, sem er ákaft studd af Bandaríkjastjórn.

Greinin er bæði fróðleg og málefnaleg og það var Wilson Bandaríkjaforseti sem var einn helsti boðberi réttar þjóða og þjóðabrota til að ráða málefnum sínum og setti hana fram sem lið af fjórtán punktum sínum í aðdraganda Versalasamninganna 1919.

Við greinina má kannski bæta að þetta mál er ekki alltaf eins auðleyst og ætla mætti vegna þess að þegar þjóðarbroti er leyft að stofna sjálfstætt ríki verður oft til minnihluti í því ríki sem áður var hluti af meirihluti ríksins, sem er skipt.

Dæmi: Mótmælendur voru í minnihluta á óskiptu Írlandi og kaþólskir voru meirihluti. Þegar landinu var skipt í Írland og Norður-Írland, urðu kaþólskir hins vegar í minnihluta á Norður-Írlandi og mótmælendur í meirihluta.

Þegar Tékkóslóvakía var stofnuð réði miklu vilji Tékka til sjálfstæðis. Af hernaðarlegum ástæðum, sem Frökkum var annt um, voru landamærin negld niður þannig að þýskumælandi minnihluti bjó í Súdetahéruðunum og það gaf Hitler ástæðu til að sölsa þau undir sig og í framhaldi af því alla Tékkóslóvakíu.

Sum af þjóðernisminnihlutavandamálum Evrópu voru leyst á afar grimmilegan hátt í lok seinni heimssthyrjaldarinnar þegar minnihlutarnir voru einfaldlega þvingaðir til að fara úr landi.

Síðan hefur ríkt friður um Súdetahéruðin, Danzig og þess hluta Rússlands (Kaliningrad), sem áður var Austur-Prússland. Til þess að ná þessu fram fluttu fjórtán milljónir manna frá heimkynnum, þar sem forfeðurnir höfðu í flestum tilfellum búið um margra alda skeið. 

 


Toyota IQ, mesta smábílabyltingin eftir Mini.

Í 55 ár hef ég sökkt mér niður í hönnun smábíla. Að mínum dómi var Mini bíll aldarinnar því að hann gerbreytti hugsuninni á bak við einkabílinn, var fyrst bíllinn með þverstæðri vatnskældri fjórgengisvél frammi og framdrif. Yfir 80% allra bíla heims eru nú hannaðir sem eftirlíking af þessu.

Hjólin voru úti í hornunum og aðeins fremstu 60 sm bílsins fóru í vél og drif en rúmlega 180 cm þar fyrir aftan í farþegarýmið og aftast voru farangur, varadekk og bensíngeymir. Bíllinn var 30-50 sm styttri en bílar með sambærilegt rými og akstureiginleikarnir aldeilis frábærir.

Á síðari árum hefur þessi hönnun á bílum fjarlægst þá upphaflegu æ meir hvað það snertir að vegna öryggiskrafna hefur fremsti hlutinn vaxið upp í það að taka minnst 75 sm og allt upp í vel á annan metra.

En af nýjustu gögnum um byltingarkenndan bíl frá Tyota sé ég að þeim hefur tekist að hanna bíl sem er styttri en Mini, undir 3 metrum (Mini var 3,05) og vélin og drifið taka aðeins 50sm fremst í bílnum.

Rými fyrir þrjá farþega er miklu meira en í Mini en fjórða sætið einkum ætlað smávaxnari farþegum eða börnum. Beygjuhringur bílsins er aðeins 8m í þvermál, sá langminnsti í flotanum.

Ég er yfir mig hrifinn af þessum bíl. Hann tekur fjóra í sæti þótt hann sé aðeins 30 sm lengri en Smart sem tekur aðeins tvo í sæti. Toyota virðist hafa getað leyst vandamálið með öryggið og níu loftpúðar eru í bílnum.

Ég var að koma af ráðstefnu þar sem fjallað var um umferð, loftgæði og mengun og rökstuddi þar hve gríðarlegur sparnaður og hagkvæmni fylgdi því ef bílaflotiinn gæti styst um einn metra hver bíll.

Þá myndi til dæmis á Miklubrautinni einni losna 100 kílómetrar af malbiki á hverjum degi, sem annars væru þaktir bílum. Ef annar hver borgarbíll verður af svipaðri stærð og Toyota IQ næst gríðarlegur árangur.

Eins og er er þeim sem nota langa bíla umbunað að því leyti að þeir borga ekki krónu fyrir það aukamalbik og rými sem þeir nota umfram aðra. Þarna þarf að taka upp kerfið að sá borgi sem noti þannig að þeim sé umbunað sem nota stutta bíla.

Það myndi leysa umferðarhnúta og spara mannvirki. Lausnin gæti falist í lengdargjaldi sem tekið yrði upp en önnur útgjöld bílaeigenda minnkuð í staðinn. Japanir hafa haft hliðstætt kerfi í áratugi og nú er þeim bílum umbunað í Japan sem eru styttri en 3,40 m og mjórri en 1,48.

Þetta hefur svínvirkað þar í landi og við getum tekið upp enn betra kerfi ef við viljum.

 


Eftir öll þessi ár...

Hver maður skal talinn sýkn saka þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Þessi meginregla mannúðlegs og réttláts réttarfars er oft brotin og það eitt að vera ákærður jafngildir því miður oft því að vera dæmdur.

Mál Eggerts Haukdals er eitthvert sorglegasta sakamál síðari ára, ekki aðeins vegna þess hve ótrúlega langan tíma það hefur tekið, - alls tólf ár síðan meint brot átti að hafa drýgt, -  heldur ekki síður vegna þess að stærsta hluta þess tíma, -  sjö ár, -  mátti hann lifa við það að hafa verið dæmdur sekur af æðsta dómstóli landsins.

Nú, alltof, alltof seint, er hann loks sýknaður eftir að hafa gengið í gegnum dæmalausar hremmingar. Þessi niðurstaða er þrátt fyrir allt sigur, - sigur fyrir mann sem ekki gafst upp þótt allt virtist vonlítið, sigur fyrir lögmann hans og ekki síður sigur fyrir réttarfarið, fyrir dómstól sem viðurkennir að mistök hafi átt sér stað.

 


mbl.is Eggert Haukdal sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjórinn lætur vita af sér.

Það var saltslikja á bílnum þegar ég gangsetti hann í morgun. Þó bý ég uppi í Háleitishverfi um það bil fjóra kílómetra frá sjó og í 35 metra hæð. Hvernig halda menn að þetta yrði á hugsanlegum flugvelli á Lönguskerjum?

Þegar ég ræði það mál við fólk bendi ég á að með flugvelli á Lönguskerjum yrði að framkvæma þrjá gerninga: 1. Rífa núverandi flugvöll. 2. Byggja nýjan flugvöll á Lönguskerjum.  3. Reisa nýtt hverfi þar sem núverandi flugvöllur er.  

Og ég hef spurt: Af hverju ekki einn gerning í stað þriggja, að reisa íbúðabyggð á Lönguskerjum?

Þá hef ég fengið svarið: Það er svo mikið særok þar í þessum þrálátu hvössu suðvestanáttum á veturna.  Og það er nóg byggingarland annars staðar í þessu strjálbýlasta landi Evrópu.

Og þá hef ég spurt á móti: Er særok heppilegra fyrir flugvélar heldur en hús?

Þess utan má benda á að byggingarsvæði á Lönguskerjum myndi heyra undir fimm sveitarfélög sem öll yrðu að samþykkja það og þar að auki er að bresta á friðlýsing Skerjafjarðar sem náttúruvættis.  

Ég veit af reynslu að það er meira að segja munur á saltrokinu sitt hvorum megin núverandi flugvallar og það er minna austan vallar en vestan.

Samanburður við flugvelli á landfyllingum erlendis er ekki raunhæfur. Við eigum einfaldlega heima í mesta rokrassi veraldar og því fylgir saltrok þegar vindur stendur af hafi. Svo einfalt er það.  


mbl.is Gusugangur á Borgarfjarðarbrúnni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framararnir, - frækið lið!

Það má ekki minna vera en ég kvitti fyrir það á blogginu mínu sem Framari í 68 ár og þrjá mánuði (ég var skráður inn í félagið þremur mánuðum fyrir fæðingu) hve mínir menn stóðu sig vel í gærkvöldi þegar þeir urðu örlagavaldar um úrslit Íslandsmótsins. Það er að minnsta kosti ákaflega veik von fyrir FH eftir þessa rassskellingu að ná Keflvíkingum að stigum.

Leikurinn var bráðskemmtilelg skemmtun því að góðir taktar sáust hjá báðum liðunum þrátt fyrir afleitar aðstæður.

Nú er spurningin hvort Framararnir ná þriðja sætinu (Evrópusæti) í deildinni. Bæði KR og Valur eiga mögueika á að fara fram úr Fram og allt er þar galopið.

Þetta eru mikil og gleðileg umskipti á Framliðinu frá mörgum erfiðum árum. Reyndar bar hvert "afrek" liðsins, - sem fólst í að setja heimsmet í heppni með að hanga í deildinni ár eftir ár - dauðann í för með sér. Þetta var sálrænt afar slæmt.

Skárra hefði verið að falla fyrr og koma þá fyrr sterkur inn að nýju, reynslunni ríkari og með aðeins eina leið framundan: Upp á við í stað þess að hanga uppi á botninum með möguleikann einn á móti milljónum.

Ég raulaði fyrir munni mér í gærkvöldi baráttulag fyrir Fram, sem ég hef gert og byrjar svona í klapptaktinum sem Framarar nota gjarnan á leikjum liðsins:

Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)

Framararnir! - Frækið lið! -
Eru í fararbroddi´að hressa´upp mannfólkið.
Flottar stelpur!
Frískir menn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!

Framarar! (Klapp, klapp, klapp) o. s. frv.

Nú getur maður verið stoltur af að syngja á þennan hátt og njóta þess að það eru mínir menn sem eiga skilið að vera hampað í tónum og takti.

Því miður virðist sú ekki vera raunin í augnablikinu hvað varðar gamla textann minn "Skagamenn skoruðu mörkin".
Það hljómaði að minnsta kosti ekki vel þegar Skagamaður skoraði sjálfsmark ársins í síðasta leik.

En kannski er það skást úr því sem komið er að Skaginn falli núna og komi síðan sterkur til baka eins og Fram.


mbl.is Fram vann stórsigur á FH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þröskuldur sem virkar öfugt?

Í Rússlandi, Þýskalandi og Tyrklandi fundu Íslendingar fyrirmyndir að 5% þröskuldi í fylgi til að koma mönnum á þing, tvöfalt hærra lágmarki en í nágrannalöndunum okkar. Allir vita hver tilgangurinn er í Rússlandi með takmörkunum, sem varna Kasparof að komast á þing, en í Þýskalandi mun hræðsla við nýnasista hafa ráðið mestu og í Tyrklandi hræðsla við öfgamúslima.

Tæknilega virkar þröskuldurinn þannig hér á landi að nái framboð hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni þarf sem svarar fylgi sem annars gæfi þrjá þingmenn til þess að að koma nokkrum manni á þing. Íslandshreyfingin fékk heildarfylgi sem svarar til tveggja þingmanna en þröskuldurinn kom í veg fyrir það.

Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing. 3386 kusu flokkinn í Reykjavík og fengu engan mann, en í Norðvesturkjördæmi kusu 2432 Frjálslynda flokkinn og fengu tvo þingmenn.

Í síðustu skoðanakönnunum hefur Frjálslyndi flokkurinn mælst með 4% fylgi. Flokkurinn mældist svo lágur síðast 2006 ef ég man rétt, en eftir að hann gerði innflytjendamál að aðalmáli sínu seint á því ári með inngöngu Jóns Magnússonar og Nýs afls, flaug fylgið yfir 10% en varð síðan 7,3% í kosningunum.

Nú, þegar fylgi Frjálslynda flokksins er aftur komið niður fyrir þröskuldinn, getur reynslan frá 2006-7 orðið til þess að þeim mönnum vaxi ásmegin í flokknum sem byggja meðal annars á því, að í löndum með marga innflytjendur og mikið erlent vinnuafl er alltaf fyrir hendi allstór hópur kjósenda sem veitir flokki sem er yst úti á vængnum í þeim málum brautargengi.

Þótt Guðjón Arnar og Sleggjan fengju 13,6% í Norðurlandi vestra, má fylgi þeirra í því kjördæmi ekki við því að fara niður fyrir 10% því þá fær flokkurinn ekki kjördæmakjörinn mann þar.

Á sínum tíma var Jón Magnússon í fararbroddi ungra sjálfstæðimanna og í slagtogi með mönnum sem síðar urðu alþingismenn og ráðherrar.

Það er því eðlilegt að hann ætli sér stóra hluti nú. Ákvæðið um lágmarksfylgi getur haft hvetjandi áhrif á það að leitað sé að jaðarfylgi sem gæti verið álíka stór markhópur hér og í nágrannalöndunum og gefið von um að koma örugglega manni á þing.

Sá tilgangur þröskuldsins fyrrnefnda að koma í veg fyrir framboð sem höfða til jaðarfylgis getur þar með snúist upp í andhverfu sína.

Ekki er ólíklegt að þeir Jón og Magnús Þór skynji að þetta geti gefið þeim sterka stöðu í Frjálslynda flokknum þegar um er að tefla að koma manni á þing eða ekki. Ef þeim tekst að hrekja Sleggjuna af leið, veikir það stöðuna í akkeriskjördæminu Norðurlandi vestra og þar með stöðu formannsins. Þá birtist hættan á að flokkurinn nái ekki manni þar inn og þar með vex nauðsyn þess að ná 5% þröskuldinum á landsvísu.

Í næstu kosningum verða 11 ár síðan Guðjón Arnar og Sverrir Hermannson komust á þing með kvótamálið sem aðalmál. Eftir því sem kvótakerfið lafir lengur og árin líða dofnar það mál og þörfin vex á að skjóta nýjum málefnastoðum undir flokkinn, sem veiti honum álíka sérstöðu og hann dafnaði á í upphafi.

Það skyldi þó aldrei fara svo að niðurstaðan yrði kristilegur þjóðernissinnaður flokkur á hægri vængnum með innflytjendamál sem aðalmál og að þröskuldurinn góði virki öfugt við það sem kannski var ætlast af þeim sem settu hann inn í kosningalögin?


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistakstur í sem víðustum skilningi.

Keppnismót í sparakstri hafa sýnt hve miklum árangri má ná í sparnaðarátt og minnkun loftmengunar með vistakstri. Hins vegar er raunhæfur vistakstur í daglega lífinu flóknari en sparaksturskeppni vegna þess að í sumum tilfellum tapast verðmæti ef alger vistakstur hvers og eins er látinn ráða.

Dæmi um þetta má sjá á umferðarljósum. Ef hver og einn hugsar aðeins um að hann sjálfur spari sem mest eldsneyti, fer hann löturhægt af stað á grænu ljósi og hefur hröðun bílsins í lágmarki. Ef allir gera þetta dregur það stórlega úr afköstum umferðarinnar og mun færri komast yfir á grænu ljósi en ella.

Þegar umferð er mikil verður meiri hætta á umferðarteppum og seinagangi ef allir fara að aka svona undir þessum kringumstæðum.

Sem dæmi get ég nefnt þá, sem fara af stað á grænu ljósi á Miklubraut í vesturátt frá gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Ef þeir ætla að taka vinstri beygju suður Háaleitisbraut verða þeir að taka strax af stað og hraða sér upp að beygjuljósinu á Háaleitisbrautinni vegna þess hvað það logar í skamma stund.

Oft hef ég bölvað ökumönnum á undan mér á þessari leið fyrir það að vera hálfsofandi, hugsa ekkert um hag umferðarinnar í kringum þá og valda því að kannski aðeins þeir einir hafa komist yfir á beygjuljósinu.

Bílar sem stöðvast, bíða og aka aftur af stað að óþörfu valda óþarfa eldsneytiseyðslu og mengun og hægja á umferð.

Bestu dæmin er umferðarljósin á fjölförnum gatnamótum á háannatíma. Þá skiptir gríðarlega miklu máli að sem flestir komist yfir á grænu ljósi í hvert sinn, - annars lengist bara biðröðin og biðin með bílana í lausagangi.

En vistakstur er hið besta mál, því að hann er hluti af því sem mest þarf að bæta hjá okkur; - að við séum að pæla í umferðinni í kringum okkur og vakandi fyrir því að leggja okkar af mörkum til þess að hún gangi sem best, mengi sem minnst og sé sem hagfelldust.  

Kjörorðið ætti að vera: Vistakstur í sem víðustum skilningi.  


mbl.is Átak í vistakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafngiftir, sem orka tvímælis.

Nöfnin sem Bandaríkjamenn gefa fellibyljunum suður af landi sínu geta orkað tvímælis. Mér finnst nafngiftin Ike ekki góð. Dwight D. Eisenhower var rómaður sem frábær stjórnandi með góða samskiptahæfileika sem helsta kost. Hann var forseti Bandaríkjanna 1953-61 og náði yfirburðakjöri bæði 1952 og 1956 ekki hvað síst fyrir kjöroðið "I like Ike", sem stuðningsmenn hans notuðu.

Á tímabili stefndi Nígeríumaður einn, Ike Ibeabuchi, hraðbyri í að verða heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum, og hann hlaut þetta nafn vegna dálætis foreldra hans á hinum eina og sanna Ike, sem var svo "likable."

Ég hef því alltaf velt því fyrir mér hvort nafngiftir fellibylja kunni koma betur út með því að beita breyttri aðferð.

En um þetta ráðum við hér á Íslandi svo sem ekki neinu né heldur því að vegna þess hve gríðarlegur munur var á hlýja loftinu á sunnanverðu Grænlandshafi og kalda loftinu norður af Labrador, komst hinn deyjandi Ike í kjöraðstæður í einhverri bestu fóðurgeymslu fyrir krappar stormlægðir sem þekkist í heiminum, - fyrir suðvestan Ísland.

Á Bretlandseyjum er þetta fyrirbæri kallað Íslandslægðin og á veturna er lægsti meðalloftþrýstingur sem þekkist á jörðinni, einmitt fyrir suðvestan Ísland. Það ekkert er við því að segja. Þetta er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við.


mbl.is Mörg útköll vegna óveðursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband