21.9.2011 | 19:41
Varla húrrahróp á þessari öld.
Forðum tíð, jafnvel fyrir þúsundum ára, var talað um sjö mögur ár og sjö feit ár, sem einatt kæmu á víxl.
Vísindamenn hafa fundið út að talsvert var til í þessu, einkum varðandi veðurfar.
Uppsveifluárin á undan 2008 voru tæplega sjö, þegar allt tútnaði út svo að það sýndist vera fita, sem bjó til þessi feitu ár, en reyndist síðan vera loft.
En nú er mannkynið á endastöð rúmlega heillar aldar sem fól í sér feitustu ár allra tíma og verður kennd við drifkraft hennar, olíuna.
Öldin sem nú er að taka við verður öld hinna mögru ára þegar kemur að skuldadögunum á öllum sviðum.
Því miður eru ekki miklar líkur á því að ósk Steingríms J. Sigfússonar um að enginn fjármálaráðherra á eftir honum þurfi að standa að erfiðum fjárlögum.
"You ain´t seen nothing yet" sagði forseti vor í fyrra um íslensku eldgosin, en hefði alveg eins getað sagt það um öldina, sem við siglum inn í, öld hinna síversnandi mögru ára hruns olíualdarinnar og nánast allra þeirra gæða, sem sífjölgandi mannkyn nýtur og lifir á.
Síðan er spurningin hve mörg húrrahróp á að hrópa fyrir þeirri lýsandi fyrirmynd annarra þjóða sem forsetinn segir nú við erlenda fjölmiðla að við séum varðandi Hrunið og úrvinnsluna úr því.
Á sama hátt og í eyru útlendinga var því haldið fram að við værum í fararbroddi í fjármálasnilli og fyrirmynd annarra þjóða, erum við nú orðnir snillingar í að vinna úr þeim ósköpum sem hin snillin færði okkur.
"Snilld" okkar nú fólst í því að við snuðuðum aðrar þjóðir um þúsundir milljarða króna með því að láta bankana fara á hausinn og munu þýskir aðilar til dæmis einir hafa tapað átta þúsund milljörðum á afleiðingum tvöfaldrar snilli okkar.
![]() |
Engin húrrahróp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2011 | 19:51
Búið að ákveða og ekki hlustað á neitt annað.
Það eru til fleiri en ein leið til að gera góða leið milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar en að rista stærsta birkiskóg Vestfjarða eftir endilöngu með plássfrekum trukkaveg. Skógurinn er ekki bara djásn Vestfjarða, - hann stendur við Breiðafjörð og er því hluti af merkilegri náttúru hans.
Ég hef skoðað Teigskóg bæði gangandi og margsinnis fljúgandi og hef tekið af honum kvikmyndir, sem aldrei sjást í fjölmiðlum. Þeirra er ekki óskað, heldur er sagt að af því að enginn komi þangað og enginn þekki skóginn sé hann einskis virði og sjálfsagt að rústa honum.
Það sem gerir hann svo heillandi, er að hann nær víðast hvar ekki niður í fjöru, heldur gengur maður meðfram honum og nýtur fjölbreytilegs landslags, gróðurlendis, skerja, klappa og votlendis í bland.
Af því að þessi stórkostlega paradís sem skógurinn er, er langur og mjór og fyrirhugað vegarstæði fer eftir honum endilöngum, og einnig af því krafan er um hraðbraut með 90 kílómetra hámarkshraða og ekkert minna, veldur slík framkvæmd stórfelldum spjöllum á þessum magnaða skógi og landslagi hans, þar sem örninn hefur verið konungur hingað til.
Það var ógleymanlegt á sínum tíma þegar örninn hóf sig til flugs af hreiðri sínu með risavöxnum vængjum sínum og sveimaði yfir mig til þess að forvitnast um þennan gest í ríki hans.
Þeir sem hafa bent á aðrar leiðir fá það framan í sig að "standa í vegi fyrir vegabótum og byggð á Vestfjörðum" þegar alveg eins má benda á það að stífni þeirra, sem ekkert mega heyra nefnt en lemstrun Teigskógar, hefur haldið þessu máli í hnappheldu.
Þegar talað er um "láglendisleið" er gefið í skyn að eina mögulega slík leið sé að fara um Teigskóg.
Ódrjúgsháls liggur í 160 metra hæð yfir sjó, en slík hæð er litllu meiri en Breiðholtsins í Reykjavík og engan veginn hægt að tala um 160 metra hæð sem "hálendi".
Talað er um Ódrjúgsháls sem "einn erfiðasta og hættulegasta fjallveg landsins", en þá er miðað við veginn eins og hann er með sinni snarbröttu krókabrekku Djúpafjarðarmegin en ekki við nýjan nútímaveg.
Aldrei eru nefndar tölur um það hve oft þessi "einn erfiðasti og hættulegasti fjallvegur landsins" er ófær.
En síðan er alveg litið framhjá þeim möguleika að gera jarðgöng undir Hjallaháls og leggja veginn síðan framhjá Ódrjúgshálsi og yfir Gufufjörð.
Báðar þessar leiðir, sem hér hafa verið nefndar, eru "láglendisleiðir" ekkert síður en Teigskógsleiðin.
Nei, menn eru búnir að bíta það í sig að ekkert annað komi til greina nema vegur um Teigskóg.
Þetta er býsna þekkt fyrirbæri hér á landi.
Menn bitu það líka fast í sig þegar sagt var að 99,9% öruggt væri að olíuhreinsstöð ætti að rísa í Hvestudal við Arnarfjörð til að "bjarga Vestfjörðum".
Ég hef ekki enn heyrt neitt um að það hafi breyst, og má væntanlega fá að heyra það áfram að vera "óvinur Vestfjarða" af því að ég hef efast um fyrirætlanirnar um að reisa oliuhreinsistöð á einum af fegurstu og merkustu stöðum á Vestfjörðum á sama tíma og engin slík stöð hefur verið reist á Vesturlöndum í tuttugu ár, vegna þess að enginn vill hafa slik ófögnuð hjá sér.
Í dag fór ég um fyrirhugaðar virkjanaslóðir í Norðurþingi, en þar hanga menn ennþá eins og hundar á roði á álveri á Bakka og þeir, sem benda á aðra og skaplegri kosti eru "óvinir Norðausturlands", "á móti framförum" og "á móti rafmagni."
Ég heyrði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld að "íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hefðu sýnt hug sinn í verki með því að ganga af fundi" Ögmundar.
Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að allir fundarmenn hafi farið út, en af frétt mbl.is má ráða að um 100 manns hafi verið áfram á fundinum.
![]() |
Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.9.2011 | 19:11
Allar línurnar niður á við.
Þegar líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands var stofnsett á Degi íslenskrar náttúru hinn 16. þessa mánaðar, voru flutt nokkur athyglisverð erindi.
Hið fyrsta þeirra var svo athyglisvert að það ætti að vera skyldulesning allra. Í því sýndi Kristín Ragnarsdóttir fjölda línurita sem táknuðu notkun mannkynsins á helstu auðlindum símum og birgðirnar sem til eru af þeim.
Línuritin sýndu meðal annars orkunotkun, olíunotkun, fosfatnotkun, járnvinnslu og vinnslu margra annarra nauðsynlegra efna til þess að lifa nútíma lífi.
Öll voru þau eins, sýndu sívaxandi ris notkunar og óhjákvæmlegrar minnkunar vegna þess að á engu þessara sviða var notkunin sjálfbær.
Sum línuritin voru með hámark einmitt um þessar mundir, svo sem olíunotkun, en önnur sýndu, að hægt væri að vísu að treina hámarksneysluna fram til 2030 eða í mesta lagi til 2050, en síðan lægi leiðin hratt niður á við.
Ýmislegt kom á óvart, svo sem það að meira að segja stálframleiðsla stefndi í hnignum og fall, og einnig það hve fosfat er mikilvægt á mörgum sviðum og tengist frumþörfum mannkynsins.
En hið sama á við um fosfatið og hin efnin, að hrunið er framundan og óhjákvæmilegt.
![]() |
Mannkynið sprengir skuldaþak náttúrunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.9.2011 | 10:50
Eins og 1944 og 1918.
Fyrir lýðveldissstofnun fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Það breytti því að vísu ekki að Alþingi varð að samþykkja hana á fundi sínum á Þingvöllum 17. júní svo að hún tæki gildi.
Yrirlýst var þá að gera yrði hið fyrsta nýja stjórnarskrá í takt við tímann og með þeim endurbótum sem bestar fyndust.
Þetta dróst í 67 ár, þrátt fyrir að margar stjórnarskrárnefndir væru fengnar til verksins.
Höfuðástæðan var líklega sú að vegna þess hve stjórnarskráin stendur starfi og högum þingmanna nærri, eiga þeir erfitt með að koma sér saman um hana.
Nú hefur verkið, sem helstu stjórnmálamenn og lögspekingar kölluðu eftir 1944, loks verið unnið.
Skoðanakönnun um þetta bendir til að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að hið sama verði gert og 1944, - þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs og auðvitað verður það svo þingsins, eins og 1944 að ganga frá málinu í samræmi við reglur gildandi stjórnarskrár.
1918 greiddi þjóðin atkvæði um sambandslagafrumvarp, sem hafði í för með sér miklar breytingar á stjórnarskrá áður en Alþingi gekk síðan frá því máli og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.
Þetta var í raun stærsta skrefið í sjálfstæðismáli þjóðarinnar, því að í sambandslagasamningnum var ákvæði sem tryggði, að Íslendingar gætu gengið úr konungssambandinu eftir 25 ár, kysu þeir að gera það.
Þáttakan var ekki eins og mikil og 1944 og innan við helmingur kosningabærra manna samþykkti sambandslagafrumvarpið. Engu að síður voru úrslitin talin óvéfengjanleg.
Nú verður fróðlegt að sjá hvað verður ofan á í þetta sinn.
![]() |
Mikill meirihluti vill þjóðaratkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.9.2011 | 21:50
Hámark refskaparins.
Frakkar eru meðal þeirra sem hafa stutt herferðina gegn Gaddafi og í vikur og mánuði hefur hans verið leitað og reynt að koma honum fyrir kattarnef.
En enginn frýr honum vits, þótt mjög sé hann grunaður um græsku.
Nú kemur í ljós að Frakkar hafa léð honum huliðstjald sem veldur því að hann getur farið eins langt í átt til þess að vera ósýnilegur og nútíma tækni gerir kleift.
Enn eitt dæmið um það að meðan olíupeningarnir voru með í spilinu voru allir tilbúnir til þess að reyna að hafa hann góðan.
Og hinn slóttugi einvaldur nýtti sér það greinilega svo um munaði!
![]() |
Gaddafi á torséðan jeppa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.9.2011 | 21:44
Kominn tími á viðsnúning.
Þótt lið Fram hafi lengi vel í sumar nánast legið við botn deildarinnar, hafa orðin "lánlausir Framarar" verið notuð æ ofan í æ.
Hvað eftir annað töpuðu Framarar leikjum á síðustu mínútum eftir að hafa átt síst minna í þessum leikjum og liðið hefur leikið ágætlega í allt sumar.
Það hefur staðið uppi í hárinu á efstu liðum, og þegar siglingin á KR var hvað mest framan af móti gátu úrslit leiksins við KR-inga fallið á hvorn veginn sem var.
En það féll bara allt á móti Frömurum leik eftir leik.
Við slíkar aðstæður brotna lið oft, en það gerði Framliðið ekki, og nú hlaut að koma að því að lukkan félli loks með því.
Allt í einu er botninn galopinn og það er mest Frömurum að þakka.
![]() |
Dramatískur sigur Framara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.9.2011 | 06:32
Einn af heimsviðburðunum á Íslandi.
Það var heimsviðburður þegar franska rannsóknarskipið Pourqouis pas? fórst við Mýrar fyrir 75 árum. Leiðangursstjórinn doktor Charcot var heimsþekktur vísindamaður og þetta mikla slys snart alla samtíðarmenn djúpt, jafnt erlendis sem hérlendis.
Útvarpað var til útlanda frá hinni stórbrotnu thöfn í Kristkirkju að loknu slysinu og móðir mín heitin sagði mér síðar frá því hve hrærð hún varð vegna þess að slysið bar upp á 15. ára afmælisdag hennar, hinn 16. september 1936.
Ekki síður snart það hana réttum fjórum árum síðar þegar frumburður hennar fæddist á afmælisdegi hennar.
Nú, réttum 75 árum síðar, á fyrsta Degi íslenskrar náttúru, er við hæfi að hugsa til hins mikla náttúrufræðings og mannvinar, Charcot, sem tengdist Íslandi órjúfanlegum böndum í gegnum örlög sín og ævistarf.
Tilkoma Dags íslenskrar náttúru mun styrkja þessi bönd enn frekar í framtíðinni. Hinn 16. september 2036 verða 100 ár liðin frá dauða Charcots á 25. Degi íslenskrar náttúru.
Charcot stundaði merkar vísindarannsóknir í norðurhöfum og við Ísland og Grænland. Þess vegna var það svo viðeigandi að Ragnar Axelsson, sem hefur orðið heimsþekktur fyrir ljósmyndun sína á þessum slóðum, skyldi fyrstur manna fá fjölmiðlaverðlaunin á þessum degi.
Það er eins og þessu hafi öllu verið stjórnað í 75 ár.
![]() |
Gáfu málverk af dr. Charcot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2011 | 21:16
Snilld!
Það er oft ekki það sama að skora mark og skora mark. Hvet fólk til að skoða hvernig Kolbeinn Sigþórsson fær boltann í erfiðri stöðu, dekkaður af tveimur varnarmönnum, leikur á þá báða og sneiðir boltann síðan framhjá markverðinum.
Hreyfingar, tímasetningar, jafnvægi, útsjónarsemi, - allur pakkinn!
![]() |
Kolbeinn skorar fyrir Ajax gegn PSV (myndskeið) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2011 | 20:53
Bílar, sem geta ekki dáið.
Rafknúin farartæki ættu að geta orðið algengari hér á landi og gert meira gagn en víðast annars staðar vegna þess að við eigum vistvæna orku handa þeim.
Mér líst afar vel á Volkswagen up! en mér sýnist Angela Merkel vera að stíga út úr einhverjum öðrum bíl á mynd með tengdri frétt.
Sumir nýju bílanna eiga að ryðja eldri bílum úr vegi en í sögu bílsins hefur þó oft komið fyrir að það hefur ekki tekist, sá gamlli neitaði að deyja.
Það er eins og sumir bílar geti ekki dáið.
Gamla VW bjallan þraukaði í Mexíkó til síðustu aldamóta og sömuleiðis gamli Mini og Fiat 126, sem var í raun Fiat 500 frá 1957 með annarri yfirbyggingu.
Eitt besta dæmið um bíla, sem neituðu að deyja, er Porsche 911.
Fyrir 35 árum var talið, að hann væri að renna sitt síðasta skeið, enda grunnhönnunin orðin 40 ára gömul og flest fundið honum til foráttu.
Hann var með loftkælda vél, en þær voru á útleið og vélin var vel fyrir aftan afturhjólið sem alla jafna var talið gefa hvaða bíl sem var hættulega og óviðráðanlega aksturseiginleika.
Ofan á þetta bættist að hann var allt of stuttur á milli hjóla til að hægt væri að laga þetta.
Eini kosturinn við staðsetningu vélarinnar var sá að hún gaf afar góða spyrnu og aksturssnillingar eins og Per Eklund gátu kreist furðu góðan árangur út úr bílnum í rallakstri.
Nýr Porsche framtiðarinnar var kjörinn bíll ársins 1978, Porsche 928. Mun þægilegri bíll og rúmbetri fyrir bílstjórann og farþegann, vélin V-8, vatnskæld frammi í og til að gefa bestu þungadreifingu voru drif og gírkassi afturí.
En Porsche 911 neitaði að deyja og svo fór að hann ruddi bæði 928, 912 og 914 bílunum úr vegi.
Það kom í ljós að hinn krefjandi akstursmáti, sem 911 bíllinn krafðist, heillaði menn, og ekki dró úr gleðinni að smám saman tókst snillingunum hjá Porsche að endurbæta aksturseiginleikana svo mjög, að hinn "óakandi" bíll er dýrlegur gæðingur. Þeim tókst hið ómögulega.
Porsche 911 á að vísu fáa hluta sameiginlega með eldri gerðum, en vélin er samt á sama "ómögulega" staðnum aftur í rassi, þótt nú sé hún vatnskæld, og útlitinu hefur verið breytt eins lítið og unnt var.
Annar bíll sem neitar að deyja, er Lada Niva, sem fékk nafnið Lada Sport á Íslandi.
Bíllinn var að vísu langt á undan sinni samtíð þegar hann kom fram 1977, en vélar- og drifbúnaður voru afar grófgerð, þrátt fyrir nýtískulega hönnun og léleg samsetning, hráefni og gæðakröfur gerðu hann oft erfiðan í viðhaldi.
Fyrir meira en áratug voru kynntir arftakar Laca Niva, Lada (Chevrolet) 2123 og Lada Nadeschda.
Á hverju ári síðan hefur það verið gefið út að Lada Niva væri á síðasta snúningi. Gæðum hans hrakaði á tíunda áratugnum þegar óprúttnir gróðapungar ætluðu að græða á því að kaupa lélegri hráefni í hann og láta vöruvöndun lönd og leið.
En Niva tókst að harka þetta allt af sér og síðustu árin hafa gæðin skánað.
Þó er það svo að hver einasti bíll hefur mikil einstaklingseinkenni.
Það er fylgifiskur að hlutir detti í sundur eða losni í þessum bílum, enda eru þeir enn settir saman með gamla laginu en ekki með róbótum.
Timburmenn og annað í þeim dúr hjá starfsmönnum eru taldir geta haft talsverð áhrif.
Ég er með tvo svona bíla í umferð, þvi ódýrari jeppar finnast ekki, - þann eldri fékk ég raunar nánast gefins. Það var ekki hægt að opna vinstri dyrnar, fyrsti og fjórði gír voru farnir og margt annað eftir því, til dæmis má alls ekki fylla bensíngeyminn, því að þá byrjar að leka af honum.
En þessi bíll hefur gengið og gengið og aðeins þarf að skipta um tvær spindilkúlur til að hann standist skoðun 100%. Hann hefur þjónað mér afar vel um allt land.
Á hinum bílnum, sem er til taks við kvikmyndagerð við Mývatn, er bensínpedallinn laus o. s. frv.
Nýrri bíllinn er afar hávær í álagi upp brekkur eins og alltaf hefur verið á þessum bílum, en eldri bíllinn er hins vegar miklu lágværari en ég man eftir á nokkrum svona bíl, af algerlega óskiljanlegum ástæðum.
Lada Niva nýtur vaxandi vinsælda í heimalandi sínu, Þýskalandi og jafnvel Bretlandi og þeir eru farnir að sjást hér aftur, því að útlendingar vilja taka þá á leigu hjá bílaleigum.
Þótt hann væri fyrsti jeppinn í heiminum 1977, sem var "crossover" með sídrifi, sjálfberandi byggingu, gormum á öllum hjólum, sjálstæðri fjöðrun að framan og yfirliggjandi kambás, er Niva hvað eiginleika snertir, ósvikinn alvöru jeppi, með háa veghæð og hátt og lágt drif.
Lada Nova (Fiat 124), nær hálfrar aldar gömul hönnun, neitar líka að deyja í heimalandinu.
Morris Cowley 1954 varð ekki langlífur í heimalandinu, Bretlandi, og aðeins tveir eða þrír slíkir voru fluttir hingað til lands. Þetta var frekar hábyggður fólksbíll sem myndi nú vera í flokki með Toyota Verso eða Golf plus.
Þess vegna þótti hann hallærislegur þegar mun lægri bílar og rennilegri komust í tísku. En núna eru hlutföllin í honum alveg í samræmi við tískuna, þótt útlitið að öðru leyti sé gamaldags.
Indverjar fengu leyfi til að framleiða hann undir nafninu Hindustan Ambassador, og þrátt fyrir margar tilraunir til að slá hann af og taka í staðinn í notkun mun nýtískulegri bíla, er hann enn framleiddur í Indlandi, næstum sex áratugum eftir að hann var hannaður.
Annar ódauðlegur bíll í Indlandi er Mahindra jeppinn, sem er í raun Willys Cj5 og CJ7 frá því fyrir hálfri öld.
Þeir bílar voru í raun útfærsla á Willysjeppanum, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir 70 árum.
Nýjustu Jeep-jepparnir í Rubicon útfærslu eru afar trúir uppruna sínum þótt gormar hafi tekið við af blaðfjöðrum, bil milli hjóla þvers og kruss aukin verulega og vél og drif nútímaleg. Enn sér þess ekki merki að ameríski Willys-jeppinn geti dáið út að fullu.
Frá 1948 hefur Landrover Defender haldið velli óbreyttari en dæmi eru um varðandi slíka bíla í svo langan tíma. Aðeins breyting frá blaðfjöðrum yfir í gorma og breyttur vélar- og drifbúnaður hafa tekið breytingum og breikkað hefur verið á milli hjóla, þó ekki nærri eins mikið og á Willysjeppannum.
Nú hefur verið ákveðið að slátra þeim gamla endanlega eftir tvö ár og því miður sýnist mér, að arftakinn muni varla minna neitt á forföðurinn.
Í lokin má ekki gleyma tveimur rússneskum bílum, sem ekki geta dáið, þótt yfirlýsingar hafi verið gefnar um nýrri og fullkomnari bíla og þeir sýndir á sýningum.
Þetta eru UAZ jeppinn sem kom fram 1972 en var í raun gamli Rússajeppinn frá 1953 með annarri yfirbyggingu og sýnu ljótari.
Þessi jeppi er að vísu loksins kominn á gorma að framan en ennþá eru sömu hásingarnar og upphaflega voru hannaður upp úr drifunum á Ford A 1928.
Sennilegasta er þetta minnst breytti bílinn af þeim sem enn eru á lífi og eru orðnir meira en 50 ára gamlir á markaðnum.
Lada Niva telst þó kannski vera magnaðri hvað snertir langlífi, af því að hann heldur enn velli í furðu mörgum löndum víða um heim en ekki bara í Rússlandi.
Og svo má ekki gleyma Volgunni, sem í grunninn hefur ekkert breyst í 40 ár og selst enn í Rússlandi eins og heitar lummur.
![]() |
Rafbílar stela senunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.9.2011 | 17:08
Haustið er komið.
Það var sextán stiga hiti á Sauðárkróki í dag og svona hefur það verið undanfarna daga. Þetta er ekkert sjálfsagt mál, því að meðalhiti í Reykjavík um miðjan september er aðeins 7,5 stig.
Við erum orðin góðu vön undanfarin ár varðandi haustmánuði, sem eru hlýrri en í meðalári.
Hitt breytist ekki að nú fara "haustlægðirnar" að sækja í sig veðrið og í dag fór vindurinn á Hellisheiði hátt í 30 metra á sekúndu í hviðunum, en ofsaveður telst vera, þegar vindur er kominn upp i þá tölu.
![]() |
Vindhviður og öskufok |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)