16.9.2009 | 09:31
Álvera tók ég trú.
Álvera tók ég trú. /
Traust hefur reynst mér sú. /
Fæ ég í fluor að standa /
fyrir náð heilags anda.
Amen.
(K.N., tveimur orðum breytt)
![]() |
Stærsti álframleiðandi Kína spáir í Þeistareyki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2009 | 01:30
Fjórða kynslóð og þriðja gerð Trabants.
Rétt eins og eftirlíking af Bjöllunni, Mini og Fiat 500 komu á markað, hlaut að koma að Trabant.
Sami hönnuður hannaði Mini og Fiat 500 og báðir hafa ná miklu meiri sölu en búist var við.
Fyrsta kynslóð Trabants og önnur kynslóð voru aðeins ólíkar útlitslega, því að undirvagn, vél og drif voru sömu gerðar.
Færri vita, að þriðja kynslóð Trabants, sem aðeins var framleidd í eitt og hálft ár milli 1990 og 91, var með vél úr Volkswagen Póló og í stað þverfjaðranna höstu voru gormar allan hringinn undir bílnum.
Ekkert mengunarský fylgdi því þessum Trabant, sem var fyrsta alvarlega endurbót bílsins.
Ýmsar tröllasögur voru sagðar í gríni um Trabantinn, til dæmis, að hann hrykki í sundur í búta við árekstur. Ég hef séð mynd af árekstrarprófi Trabants og samkvæmt því er þetta rangt, - hann kemur furðu vel út úr því.
![]() |
Grænn Trabant í Frankfurt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2009 | 09:41
Margföld dramatík.
Lát Patrick Swayse felur í sér margfalda dramatík. Hann var keðjureykingamaður og líkurnar á því að slíkir fái krabbamein svo ungir eru miklar og mun meiri en hjá þeim sem ekki reykja.
Lát hans er enn ein áminningin um grimmdarlega skaðsemi versta fíkniefnis veraldar, nikótínið.
Það er hastarlegt að svo frábærlega vel gerður maður falli frá um aldur fram.
Á sínum tíma fór ég í bíó með konu minni og dætrum á myndina Dirty Dancing.
Ég minnist þess æ síðan hvernig ég sökk æ dýpra niður í sætið í vaxandi minnimáttarkennd eftir því sem leið á myndina. Hvílíkur gaur var þessi maður og skelfing var maður nú eitthvað lítilfjörlegur í samanburðinum !
Ekki var hann síður heillandi í myndinni Ghost og æ síðan hef ég haft sérstakt dálæti á glæsileik þessa manns, sem seint verður þó talinn hafa verið snoppufríður.
Ég var í gær að skoða nokkur myndskeið á YouTube af Michael Jordan og dást af yfirburðasnilli og baráttugleði þessa einstæða afreksmanns.
Mæli með þessum myndskeiðum fyrir hvern sem er sem og að fóstra vel minninguna um Patrick Swayse og glæsileik hans.
Hann vekur auk þess til umhugsunar um tóbakið og að því leyti verður lát hans vonandi ekki til einskis.
![]() |
Patrick Swayze látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2009 | 17:58
Undarlega lífseig hugmynd.
Hugmyndin um hollustueið við stefnu flokks kom fyrst fram í ársbyrjun á fundi, sem haldinn var við Lækjargötu um hugsanlegt sameiginlegt framboð grasrótahreyfinga utan þings.
Íslandshreyfingin og ýmsir fleiri utanþingshópar féllu undir þessa skilgreiningu og því sótti ég þessa fyrstu fundi fyrir hönd hennar á meðan framboðsmál höfðu ekki verið útkljáð og ekki enn komið fram hve mikið rými umhverfismál, höfuðmál Íslandshreyfingarinnar, fengju í hugsanlegu framboði.
Mér fannst þessi hugmynd á þessum fundi um hollustueið ekki góð og mælti gegn henni.
Í fyrsta lagi taldi ég óeðlilegt að hreyfing sem ætlaði að berjast gegn flokksræði vildi einmitt negla þingmenn við þetta flokksræði með eiði.
Í öðru lagi benti ég á að verðandi þingmenn þyrftu að sverja annan eið þegar þeir settust á þing, - eið að stjórnarskránni, en innifalið í því er að hver þingmaður skuli einungis bundinn af samvisku sinni og sannfæringu.
Með því að stilla verðandi þingmönnum í þá stöðu að þurfa að sverja tvo eiða, sem gætu stangast á, væri verið að setja þá í óþolandi aðstöðu.
Í þriðja lagi benti ég á að síðast þegar svona hollustueiður var síðast unninn við forystu flokks, að því er ég best vissi, var það eiður við þýskan stjórnmálaforingja með yfirskegg fyrir sjö áratugum og hefði það ekki gefist vel.
Hugmyndin um hina órjúfandi flokkshollustu og eið þar að lútandi hvarf eftir þennan fund og ég hélt satt að segja að henni myndi ekki skjóta upp aftur.
En það gerðist samt. Nú hefur hún vonandi verið sett endanlega til hliðar. En hún hefur verið undarlega lífseig, það verð ég að segja.
![]() |
Skrifi undir heit en ekki eið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2009 | 10:57
Björt framtíð ef...
Ég hef lengi haldið því fram að sé rétt haldið á spilum eigi Íslendingar bjartari framtíð fyrir sér en flestar aðrar þjóðir, - geti til dæmis orðið fyrsta þjóðin sem knýr bíla- og skipaflota sinn með endurnýjanlegum, hreinum orkugjöfum.
Einum þeirra kynntist ég fyrr í sumar, en það er metan.
Hingað til hefur það verið ágiskun að hægt væri að knýja 10% íslenska bílaflotans á metani með góðu móti. Þessi notkun hefur þann stóra kost að hægt er að byrja strax, án þess að búið sé að koma upp neti metanáfyllinga um landið, vegna þess að metanbílarnir geta líka gengið fyrir bensíni.

Það er þegar hægt að flytja inn metanknúða bíla, sem eru með tvískiptum eldsneytisgeymum fyrir metan og bensín, sem taka lítið meira rými en bensíngeymarnir nú.
Á slíkum bíl er í dag hægt að skjótast til Akureyrar í snögga ferð og skipta yfir á bensín þegar bensínið þrýtur í upphafi ferðarinnar til baka.
Um leið og komnar eru upp áfyllingarstöðvar nógu víða getur metan notkunin orðið nær einráð.
Útreikningar sýna að aukakostnaðurinn við að hafa bílinn metanknúinn vinnst upp að meðaltali á tveimur árum og upp frá því getur gróði eigandans farið að hlaupa á milljónum.
Gróðinn fyrir samfélagið með því að spara sér innflutning á eldsneyti hleypur þá fljótlega á milljörðum.
Mér kemur á óvart ef það er rétt að hægt yrði að knýja allan íslenska bílaflotann á metani og þörungum eins og rætt erum nú. Ekki væri það nú amalegt.

En kannski mun þetta reynast nauðsynlegt þegar menn vakna upp við vondan draum við það að risaálverin hafa tekið til sín mestalla eða alla jarðvarmaorku og vatnsorku landsins með fráleitu tjóni á mestu verðmætum þess, einstæðri náttúru.
Ef hér væri einhver framsýni myndu menn þegar taka frá þau orkusvæði, sem við viljum hafa tiltæk fyrir rafbíla okkar.
Það hefur legið fyrir að álverið í Helguvík muni krefjast allrar orku, sem fáanleg er á suðvesturlandi, og það sem verra er, - mest af orku jarðvarmasvæða þess landshluta verður uppurin eftir nokkra áratugi vegna þess að miklu meira er pumpað upp en svæðin standa undir.
Að kalla slíkt "sjálfbæra" orkunýtingu er argasta öfugmæli og okkur til háborinnar skammar að ljúga því að okkur sjálfum og útlendingum að svo sé.
![]() |
Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.9.2009 | 00:42
Fer aldrei í bað nema einn.
Golfíþróttin er ákaflega vandasöm íþrótt vegna þess hve gengi manna getur verið sveiflukennt. Allir kylfingar þurfa að glíma við þetta og það tekur bæði á taugarnar og getur orðið til þess að menn missi flugið.
Á undanförnum mótum hafa kannski einhverjir farið að efast um það að Tiger Woods væri besti kylfingur heims, því gengi hans hefur ekki verið gott.
En Tiger hefur sýnt og sannað aðdáunarverðan og einstakan baráttuvilja.
Hann hefur sannað það að einungi þrotlaus þjálfun, einbeitni, járnvilji og þolgæði skapa meistara.
Sanna meistara má þekkja á því hvernig þeir taka mótlæti og Tiger er þannig meistari.
Sagt er að smæstu atriði séu undir nákvæmri stjórn hjá honum og sem dæmi nefnt, að hann láti aldrei aðra sjá sig í sturtu.
Ástæðan ku vera sú að hann vilji ekki láta aðra sjá á vöðvabyggingu sinni, hvernig hann byggir líkama sinn upp, - ekki láta aðra sjá hvaða vöðva hann leggur rækt við.
Smámunasemi? Nei,- margt smátt gerir eitt stórt, margt smátt gerir meistarann stóran, jafnt í sigri og ósigri.
P. S. Man eftir skondnu atviki á leið okkar bræðra, mín og Jóns, til Svíþjóðar í sænska rallið 1981, samanber blogg á undan þessu. Á bensínstöð í norsku þorpi skammt frá landamærunum, kom í ljós að ég hafði týnt bensínlokinu af bílnum.
Ég reyndi að gera þetta skiljanlegt fyrir norska sveitamanninum, sem var að afgreiða, en hann skildi mig ekki, þótt ég notaði ýmis orð yfir þennan hlut á nokkrum tungumálum.
Að lokum bað ég hann að koma út með mér og sýndi honum, hvað vantaði á bensínstútinn. "Ja, bensínlok!" svaraði Norðmaðurinn.
![]() |
Tiger tekur forystuna í FedEx úrslitakeppninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2009 | 00:28
Gott framtak en ónákvæm fyrirsögn.
"Fyrsta fjallarallinu lokið" er fyrirsögn þessarar fréttar. Þegar síðan er skyggnst í fréttina sést að um er að ræða fyrsta fjallarallið, sem haldið er á vegum íslenskra aðila og það finnst mér vera fagnaðarefni.
Þetta er hins vegar ekki fyrsta fjalla- eða jepparallið sem haldið er hér á landi.
Alþjóðlegt jepparall var haldið hér sumarið 1983 og mig minnir að rösklega tuttugu jeppar hafi tekið þátt í því.
Þetta var býsna langt rall og sérleiðirnar líkast til um 700 kílómetra langar og um það bil helmingurinn af þeim voru leiðir sem aldrei hafa verið rallaðar í venjulegu ralli.
Má þar nefna leiðin frá Nýjadal niður með Þjórsá um Eyvindarkofaver, Syðri-Fjallabaksleið, og leið frá línuvegi sunnan Langjökuls niður í Laugardal með þremur hringjum í kringum Hlöðufell.
Allt voru þetta jeppar á stórum túttum, meðaltalið um 35 tommur, margir sérbúnir.
Undantekning voru tveir íslenskir bílar, annars vegar Þorsteinn Ingason á óbreyttum Lada Sport, og hins vegar ég og bróðir minn, Jón, á Subaru 4x4 fólksbíl.
Þetta var ógleymanlegt rall og allt öðruvísi en öll önnur röll sem við tókum þátt, bræður, meðan við kepptum saman.

Ég held að ég hafi sjaldan skemmt mér betur í ralli og ótrúlegar uppákomur í því eru efni heillanga sögu.
Okkur tókst að ná bestum tímanum á öllum leiðunum, nema einni, Sprengisandi, þar við voru með annan besta tímann. Samanlagður sérleiðatími okkar var því sá besti og Þorsteinn Ingason var skammt undan.
Læt hér fylgja með mynd af sams konar Subarubíl, sem nú er orðinn fornbíl, og ég hef notað við kvikmyndagerð á norðurhálendinu og í snatt frá Akureyrarflugvelli.
Þarna stendur hann fyrir framan kirkjuna í Möðrudal á Fjöllum.
![]() |
Fyrsta fjallarallinu lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.9.2009 | 21:09
Fyrsta íslenska þátttakan var 1981.
það er fagnaðarefni að eftir langt hlé taki íslendingur þátt í heimsmeistarakeppninni í ralli. Mig minnir að þetta hafi verið reynt tvisvar áður, en ég man ekki hver reyndi það í annað sinn, en það var í RAC-rallinu í Bretlandi.
Hitt man ég að við bræðurnir, Jón og ég, tókum fyrstir Íslendinga þátt í heimsmeistarakeppninni.
Það var í sænska rallinu 1981 og slíku ævintýri gleymir maður aldrei.
Þarna fékk maður að kynnast muninum á ralli í hæsta gæðaflokki, þar sem þeir allra bestu keppa, og röllum eins og hjá okkur Íslendingum, sem vorum þá að stíga allra fyrstu skrefin í þessari íþrótt hér á landi.
Í fylgd með okkur var Ólafur Guðmundsson sem síðan hefur heldur betur staðið vaktina á sviði þess að standa að röllum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.
Það er kominn tími til þess að fleiri nái að klára keppni í heimsmeistarakeppni en við. Þess vegna er það fagnaðarefni að Daníel Sigurðsson skuli ætla að sækja á þennan bratta og fylgja honum bestu óskir frá okkur bræðrum.
![]() |
Tekur þátt í HM í rallakstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2009 | 20:39
Forréttindi á æskuárum.
Ég lít á það sem happ og forréttindi að hafa verið í sveit í Langadalnum í fimm sumur frá 9-13 ára aldurs og vera treyst til þess síðasta haustið að ríða á eigin ábyrgð frá Hvammi svipaða leið og gestir fá að gera nú til Skrapatunguréttar.
Í dag flaug ég frá Reykjavík til Akureyrar og á leiðinni yfir Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði rifjuðust upp góðar minningar frá gerð þáttarins "Líf, land og söngur" með smalamönnum á þessum heiðum.
Ferðin í Skrapatungurétt var ævintýri fyrir mig á sinni tíð. Í þá tíð var mikið sungið og sumir voru nokkkuð við skál, - yfirleitt alltaf þeir sömu. Einnig voru það yfirleitt hinir sömu sem lentu í slagsmálum.
Ástandi sumra hefur séra Hjálmar Jónsson lýst vel í eftirfarandi stöku:
Eftir skyssu, arg og nauð, - /
ekki viss að tjá sig, /
búinn að missa Brún og Rauð /
og búinn að pissa á sig. /
Í lokin fór ég ásamt yngri dreng, sem var í sumarvist í Hvammi upp Laxárdal og um Skarðsskarð niður að Geitaskarði.
Við lentum í þoku en það kom sér vel hvílíka landafræðidellu ég hafði verið með í mörg ár og vissi því hvernig hægt var að feta þessa leið án þess að villast.
![]() |
Stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2009 | 07:11
Hvernig var Laugarnesið 874, 1874 ?
Laugarnesið í Reykjavík er að verða einhver áhugaverðasti staðurinn á nesi því þar sem Ingólfur Arnarson nam land. Ég held að nú væri gott að hrinda af stað rannsókn á því hvernig Laugarnesið hafi verið við landnám og hvernig það hafi breyst af mannavöldum síðan.
Var þar kjarr í upphafi? Var þar risahvönn? Hún er þar núna. Hve víða á hún að dreifa sér?
Þetta er einn af örfáum stöðum þar sem möguleiki væri á að setja á stofn svæði, þar sem hver Reykjavíkurkynslóð hér eftir geti upplifað umhverfi fyrri kynslóða sem búið hafa í Reykjavík.
Ég fór að hugsa um þetta fyrir alvöru við gerð "Reykjavíkurljóðs" sem átti að fjalla um borgina og umhverfi hennar, líf borgarbúa og sögu Reykjavíkur.
Ég vil því sjá Laugarnesið sem sýnisbók mannlífs og náttúru í Reykjavík á sögulegum tíma og geta gengið um það þannig að á sem stærstum hluta þess sé allt í sama horfi og var við landnám, en á öðrum hlutum þess megi sjá það sem menn gerðu allar götur síðan, svo sem tún, sem þar voru á allt fram á daga hins ástsæla söngvari og hestamanns, Sigurðar Ólafssonar þegar hann bjó þar.
Ég vil líka að varðveitt verði heimkynni Hrafns Gunnlaugssonar og það gert með opnum huga.
Ég þekki hliðstætt dæmi úr sögu Reykjavíkur. Á sínum tíma var rifið vegna gerðar Breiðholtsbrautar mjög sérstakt hús, "Kastalinn", sem Óskar Magnússon reisti í Blesugróf og ýmsir sérfróðir menn telja að hafi verið magnaður arkitektúr.

Menn áttuðu sig ekki á þessu fyrr en síðar.
Í Laugarnesinu eiga rómantík, saga og náttúra að vera í öndvegi svo að áfram verði hægt að láta upphaf Reykjavíkurljóðs njóta sín þar, kynslóð fram af kynslóð:
Ljúf stund, - safírblá sund /
þegar sindrar á jöklinum glóð. /
Tvö ein, - aldan við hlein /
söng um ástina lofgjörðarljóð. /
Þau leiddust inn í Laugarnes, - /
lögðust þar /
ástfangin og rjóð, hið fyrsta Reykjavíkurpar, -
þau Ingólfur og Hallveig.
Enn er - unaður hér, /
leiðast elskendur á nýrri öld /
um torg - í vorri borg, - /
njóta yndis um sumarkvöld....
Lagið er á tónlistarspilaranum hér vinstra megin. Söngur: Ragnar Bjarnason og söngkvartettinn Borgarbörn með stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar.
![]() |
Risahvönn ógnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)