Gott framtak en ónákvæm fyrirsögn.

"Fyrsta fjallarallinu lokið" er fyrirsögn þessarar fréttar. Þegar síðan er skyggnst í fréttina sést að um er að ræða fyrsta fjallarallið, sem haldið er á vegum íslenskra aðila og það finnst mér vera fagnaðarefni.

Þetta er hins vegar ekki fyrsta fjalla- eða jepparallið sem haldið er hér á landi.

Alþjóðlegt jepparall var haldið hér sumarið 1983 og mig minnir að rösklega tuttugu jeppar hafi tekið þátt í því.  

Þetta var býsna langt rall og sérleiðirnar líkast til um 700 kílómetra langar og um það bil helmingurinn af þeim voru leiðir sem aldrei hafa verið rallaðar í venjulegu ralli.

Má þar nefna leiðin frá Nýjadal niður með Þjórsá um Eyvindarkofaver, Syðri-Fjallabaksleið, og leið frá línuvegi sunnan Langjökuls niður í Laugardal með þremur hringjum í kringum Hlöðufell.

Allt voru þetta jeppar á stórum túttum, meðaltalið um 35 tommur, margir sérbúnir.

Undantekning voru tveir íslenskir bílar, annars vegar Þorsteinn Ingason á óbreyttum Lada Sport, og hins vegar ég og bróðir minn, Jón, á Subaru 4x4 fólksbíl.

Þetta var ógleymanlegt rall og allt öðruvísi en öll önnur röll sem við tókum þátt, bræður, meðan við kepptum saman.

DSC00096

Ég held að ég hafi sjaldan skemmt mér betur í ralli og ótrúlegar uppákomur í því eru efni heillanga sögu.

Okkur tókst að ná bestum tímanum á öllum leiðunum, nema einni, Sprengisandi, þar við voru með annan besta tímann. Samanlagður sérleiðatími okkar var því sá besti og Þorsteinn Ingason var skammt undan.

Læt hér fylgja með mynd af sams konar Subarubíl, sem nú er orðinn fornbíl, og ég hef notað við kvikmyndagerð á norðurhálendinu og í snatt frá Akureyrarflugvelli.

Þarna stendur hann fyrir framan kirkjuna í Möðrudal á Fjöllum.  


mbl.is Fyrsta fjallarallinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GK

Ég man eftir að hafa lesið um þessa keppni í gömlu mótorsportblaði. Þyrfti að finna það og skanna inn myndirnar...

GK, 14.9.2009 kl. 01:38

2 identicon

Ég man eftir þessu jepparalli, stóru jepparnir sátu stopp í einni ánni því þeir blotnuðu en þá kom pínulitill subaru siglandi framúr með vatnið upp á miðja framrúðu. Bara Ómar og Jón 

Kristinn (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 05:59

3 identicon

Sæll Ómar og aðrið blogglesendur

83 rallið fékk hálf sorglegan endi ef ég man rétt. Frakkarnir sem skipulögðu það lentu í einhverjum náttúruverndar ofstækismönnum og sögðust aldrei - aldrei koma til Íslands aftur. Eftir því er ég best veit hafa þeir staðið við það. Sambærileg röll hafa síðan verið haldin víðsvegar um heimin og eru auðvitað ekkert annað en önnur tegund af ferðamennsku. Ferðamennska sem skilur eftir sig peninga í margföldu magni miðað við hefðbundna ferðamenn. Ég hef alltaf sagt það hljóti að vera betra að fá fáa sem borga mikið. Fremur en marga sem borga lítið. Það er ekkert mál að hafa eftirlit með skipulögðum "ferðalögum" eins og ralli. Það er hins vegar erfitt ef ekki ómögulegt að hafa auga með þúsundum ferðamanna sem flækjast um hálendið á eigin vegum.

Þorsteinn Svavar McKinstry

Leiðsögumaður ferðamanna og fjallaralláhugamaður

Þorsteinn Svavar McKinstry (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 08:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í einu blaðanna var því haldið fram að vegna þess að við Jón höfðum sagt í blaðaviðtali, að erfitt hefði verið að halda uppi hraða á Kili vegna djúpra polla sem úðuðu drullu upp á framrúðuna, væri það sönnun þess að við hefðum stundað utanvegaakstur !

Augljóslega fullyrðing manna sem vissu ekkert hvað þeir voru að tala um, - vissu ekki að það að engin leið var að ná besta tímanum á leið norður Kjöl á Subaru með því að lenda utan í grjótruðningi í vegarkanti eða í urð utan vegarins.

Fljótasti bíllinn heldur sig á veginum, það er ekki flóknara en það.

Pollarnir á Kjalvegi eru fullir af drullu vegna þess að undir sandinum eru leifar gróðurs sem áður þakti Kjöl en blés upp, meðal annars af völdum fjárbeitar.

Þar erum við komin að kjarna málsins, skelfilegs uppblástur sem ekki er hægt að kenna bílum um.

Ómar Ragnarsson, 14.9.2009 kl. 13:52

5 identicon

Ekki er þessi subaru bifreið til sölu Ómar?

kv Óli

Óli Þór (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband